Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 35/2015

Umgengni

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 35/2015

Föstudaginn 22. apríl 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd B


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson, Guðfinna Eydal og Sigríður Ingvarsdóttir.

Með tölvubréfi 6. desember 2015 kærði C hdl., f.h. A, til kærunefndar barnaverndarmála ákvörðun barnaverndarnefndar B vegna umgengni við dóttur hennar, D.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er fædd árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar B. Mál hennar hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd B frá árinu X. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að barnaverndarnefnd B hafi ítrekað borist tilkynningar vegna vanrækslu kæranda á stúlkunni, en hún er móðir hennar, til dæmis mikinn óþrifnað á heimilinu, að skólasókn væri ábótavant og að heimanámi væri illa sinnt. Í X var D tímabundið vistuð utan heimilis. Frá þeim tíma hefur hún verið í fóstri hjá E.

Barnaverndarnefnd B krafðist þess fyrir Héraðsdómi B þann X að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar og var krafan tekin til greina með dómi X. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar X.

Samkvæmt gögnum málsins var umgengni upphaflega þannig háttað, þ.e. frá þeim tíma er D var vistuð utan heimilis í X, að hún skyldi vera eina helgi og einn föstudag í mánuði hjá kæranda. Þann X úrskurðaði barnaverndarnefnd B um umgengni og var hún ákveðin annan hvern laugardag í tíu klukkustundir í senn. Með úrskurði X tók barnaverndarnefndin ákvörðun um breytta umgengni í kjölfar beiðni fósturmóður um endurskoðun. Var umgengnin ákveðin einn laugardag í mánuði í fimm klukkustundir í senn. Úrskurðurinn var kærður til kærunefndar barnaverndarmála. Kærunefndin kvað upp úrskurð í málinu X og með honum var úrskurður barnaverndarnefndar B felldur úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju þar sem málið hafði ekki verið rannsakað nægilega hvað varðaði líðan stúlkunnar.

Málið var í framhaldi tekið aftur til meðferðar hjá barnaverndarnefnd B og fór þá að nýju fram rannsókn af hálfu starfsmanna barnaverndarnefndarinnar. Var F sálfræðingur einnig fengin til að meta líðan stúlkunnar í þeim aðstæðum sem hún bjó við og líðan hennar í tengslum við umgengni við kæranda. Barnaverndarnefnd B úrskurðaði X að umgengni skyldi vera einu sinni í mánuði, átta klukkustundir í senn og engin umgengni frá X til X vegna sumarleyfa stúlkunnar og fósturmóður hennar.

Úrskurður barnaverndarnefndarinnar var kærður til kærunefndar barnaverndarmála sem kvað upp úrskurð í málinu X. Með úrskurði kærunefndarinnar var úrskurður barnaverndarnefndar B frá X felldur úr gildi að hluta til þannig að umgengni var ákveðin einu sinni í mánuði í fimm klukkustundir í senn. Að öðru leyti var umgengni ákveðin eins og í hinum kærða úrskurði.

Barnaverndarnefnd B tók málið aftur til meðferðar og úrskurðaði nefndin í málinu X. Í úrskurði barnaverndarnefndarinnar segir í úrskurðarorðum að umgengni stúlkunnar við kæranda skuli vera í X, þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti barnaverndarstafsmanns. Þá ákvað nefndin að stúlkan fengi talsmann og færi í sálfræðiviðtöl til þess að afla frekari upplýsinga um líðan hennar og afstöðu til umgengni. Ákveðið var að málið yrði tekið upp aftur hjá nefndinni í X.

Barnaverndarnefnd B tók málið fyrir á fundi nefndarinnar X og var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

„Nefndin kveður á um að umgengni A við D verði fjórum sinnum á ári, í 3 klukkustundir, undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Umgengni verði í desember, mars, júní og september. Nánari tímasetningar verði ákveðnar í samráði við fósturmóður, E.“

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður barnaverndarnefndar B frá X þar sem umgengni kæranda var verulega takmörkuð. Skilja verður kæruna á þann veg að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Í greinargerð kæranda X er vísað til greinargerðar barnaverndarnefndar B þar sem greint var frá stöðu mála. Þar segir um síðustu umgengni „stúlkan virtist njóta samvistanna við móður sína“, „fóru samræður þeirra vel fram“ og „Að mati undirritaðrar virtust mæðgurnar báðar njóta umgengninnar.“ Í ljósi þess sé vanséð hver geti verið ástæða þess að takmarka gæðastundir barnsins með kæranda. Þá sé greinilegt að fósturmóðir sé alfarið á móti umgengni við kæranda og virðist sem svo að hún vilji klippa sem mest á tengsl móður og barns. Forðast beri að láta hagsmuni fósturforeldra hafa forgang og líta verði til þess hvort barnið njóti samverunnar við kæranda, sem hún virtist gera.

Í greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndar frá X kemur fram afstaða kæranda til umgengni. Kærandi óskar eftir aukinni umgengni og leggur til að umgengni verði einn laugardag í mánuði frá kl. 10:00 til 20:00.

III.  Sjónarmið D

Í skýrslu G sálfræðings, sem skipaður var talsmaður stúlkunnar þann X, kemur fram að hann hafi hitt hana X. Fram hafi komið að stúlkunni líði almennt vel hjá fósturmóður og að hennar sögn sé grunnþörfum hennar mætt, auk þess sem henni líði vel í umhverfi þar sem allir séu góðir við hvorn annan. Þá eigi hún góð samskipti við fósturmóður og fósturbróður.

Hvað varði líðan hennar í umgengni greindi stúlkan frá því að líðan hennar í samneyti við kæranda einkenndist af óöryggi og ef eitthvað þá hefði óöryggið aukist með tímanum. Henni hafi liðið betur eftir að umgengni var stytt úr átta klukkustundum einu sinni í mánuði. Það hafi þó ekki alltaf gengið vel og vandkvæði hafi komið upp, þótt tíminn hafi verið styttur. Stúlkan lýsti því að kærandi hefði ekki virt tímamörk þrátt fyrir að stúlkan hefði bent henni á að svo væri. Lýsti hún í því sambandi hræðslu við viðbrögð kæranda undir þessum kringumstæðum.

Hvað varðar umgengni í X, þegar umgengni var þrjár klukkustundir undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns, greindi stúlkan frá auknu öryggi við þær aðstæður þar sem hún hafi ekki verið ein með kæranda. Undir þessum kringumstæðum hafi verið erfiðara fyrir kæranda að skeyta skapi sínu á henni eða segja við hana ljóta hluti og tala illa um fósturmóður.

Stúlkan greindi frá því að hún myndi vilja að umgengni hennar við kæranda væri einu sinni á ári og þá undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns.

IV.  Sjónarmið barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B  þann X kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Nefndin byggir á því að hinn kærði úrskurður sé réttmætur að öllu leyti og hafi fengið lögformlega málsmeðferð. Öllum röksemdum kæranda fyrir því gagnstæða sé hafnað.

Greint er frá því að starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi leitað til G sálfræðings til þess að fylgjast með líðan stúlkunnar í kringum umgengni eftir að umgengni hafði ekki verið í X og X. Með bréfi X hafi sálfræðingurinn greint frá því að stúlkan hafi sýnt merki um góða líðan, hún væri spennt að fara í umgengni til kæranda og að aðbúnaður væri betri. Fram komi að stúlkan sýndi kvíða og ótta sem hún tengdi við fyrri hegðun kæranda og hafði frumkvæði að því að nefna að hún teldi betra að umgengni væri fimm klukkustundir í senn í stað átta klukkustunda. Út frá þessu hafi sálfræðingurinn ályktað að stúlkan upplifði að gæði samskipta væru betri með skemmri umgengni.

Þann X hafi barnaverndarnefnd B kveðið upp þann úrskurð að umgengni í X skyldi vera í þrjár klukkustundir undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Þá hafi nefndin ákveðið að stúlkan fengi talsmann og færi í viðtöl hjá sálfræðingi til þess að afla frekari upplýsinga um líðan hennar og afstöðu til umgengni. Nefndin hafi boðað að málið yrði tekið upp aftur í X.

Með bréfi X hafi barnaverndarnefnd B óskað eftir því að sálfræðingurinn tæki að sér hlutverk talsmanns fyrir stúlkuna. Með bréfi X hafi sálfræðingurinn greint frá því að líðan stúlkunnar hjá fósturmóður sinni væri almennt mjög góð. Hins vegar einkenndist líðan hennar í samneyti við kæranda af óöryggi sem hefði aukist með tímanum. Stúlkunni hafi liðið betur eftir að umgengni var stytt úr átta klukkustundum einu sinni í mánuði, en þó hafi komið upp vandkvæðisvo sem að kærandi hefði ekki virt umsamin tímamörk. Sálfræðingurinn hafi hitt stúlkuna eftir að hún hafði verið í umgengni með kæranda í þrjár klukkustundir undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndarinnar. Stúlkan hafi greint frá auknu öryggi við þær aðstæður þar sem hún var ekki ein með kæranda. Undir þeim kringumstæðum væri erfiðara fyrir kæranda að skeyta skapi sínu á henni eða segja við hana ljóta hluti eða tala illa um fósturmóður hennar. Í eitt skipti þegar starfsmaður barnaverndarnefndar brá sér frá í stutta stund hafi kærandi byrjað að baktala fósturmóður og líkaði stúlkunni það verulega illa. Þá hafi komið fram í bréfi sálfræðingsins að stúlkan myndi vilja að umgengni við kæranda væri einu sinni á ári og þá undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar. Ástæða þess hafi verið sú að undir eftirliti væru minni líkur á því að kærandi talaði illa um fósturmóður stúlkunnar og að hún þyrði ekki að greina kæranda frá því hvað hún vildi af ótta við viðbrögð hennar. Stúlkan hafi áréttað þessa skoðun sína í viðtölum við sálfræðinginn eftir X.

Í ljósi þessa hafi starfsmaður barnaverndarnefndar B lagt til við nefndina í greinargerð B að hæfileg umgengni stúlkunnar við kæranda væri að hámarki fjórum sinnum á ári, í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar, enda væri styttri umgengni í færri skipti jákvæðari fyrir stúlkuna. Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar B frá X hafi verið í samræmi við tillöguna.

Af hálfu barnaverndarnefndar B sé byggt á því að hinn kærði úrskurður hafi verið í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem stúlkunni hafi verið fyrir bestu og með hagsmuni mæðgnanna í huga, sbr. 4. gr. laganna. Nefndin byggi á því að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best að umgengni hennar við kæranda verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Í því samhengi vísast til forsendna hins kærða úrskurðar.

Nefndin telur að hinn kærði úrskurður sé í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með takmörkun á umgengni hafi verið dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem kærandi hefði haft á stúlkuna og líf hennar. Úrskurðurinn hafi einnig verið í fullu samræmi við ákvæði 70. og 74. gr. bvl. Af hálfu barnaverndarnefndar B sé byggt á því að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið sé bersýnilega andstæður hagsmunum og þörfum stúlkunnar, að teknu tilliti til hagsmuna og sjónarmiða allra aðila.

Það hafi verið niðurstaða ítarlegrar rannsóknar nefndarinnar að umgengni hafi gengið best fyrir sig ef umgengni væri sjaldnar og stæði yfir í skemmri tíma. Þannig liði stúlkunni best og upplifi með því jákvæða samveru með kæranda. Enn fremur bendi gögn málsins til þess að umgengni, sem sé undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar, veiti stúlkunni öryggi og að samskipti hennar við kæranda séu þá ánægjulegri. Um þetta sé vísað til sjónarmiða stúlkunnar sjálfrar sem fram komi í bréfi talsmanns hennar til nefndarinnar X, sbr. einnig bréf hans frá X.

Jafnframt hafi fósturmóðir stúlkunnar greint frá því að í umgengni, sem fór fram í X, hafi stúlkan upplifað óöryggi og fundið fyrir vanlíðan, meðal annars sökum þess að hún hafi ekki fengið leyfi frá kæranda til að hringja í fósturmóður sína. Hún hafi komið grátandi úr umgengninni og ekki viljað fara aftur til kæranda. Taldi fósturmóðir mikilvægt að umgengni yrði takmörkuð verulega ef grundvöllur ætti að vera til þess að vinna áfram að betri líðan stúlkunnar.

Markmiðið, sem stefnt hafi verið að með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur, hafi fyrst og fremst verið það að hún myndi aðlagast og tilheyra fósturmóður sinni og þar með myndi draga  úr neikvæðum áhrifum kæranda á dóttur sína sem víða megi sjá í gögnum málsins. Við þær aðstæður sem þar hafi verið lýst verði að telja að hagsmunir stúlkunnar krefjist þess að umgengni verði takmörkuð með þeim hætti sem úrskurður barnaverndarnefndar B kveður á um. Gögn málsins sýni svo ekki sé um villst að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun stúlkunnar eftir að umgengni var takmörkuð. Barnaverndarnefndin telji mikilvægt að skapa stúlkunni áframhaldandi stöðugleika og öryggi sem sé henni nauðsynlegt svo hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi við. Þá liggi fyrir að upplifun stúlkunnar af umgengni sem sé styttri og sjaldnar veiti henni jákvæðari upplifun af samveru við kæranda en lengri umgengni sem hafi valdið henni vanlíðan og óöryggi. Þannig fari hagsmunir stúlkunnar saman við þann tilgang og markmið sem stefnt sé að með umgengni hennar við kæranda. 

Með vísan til þess og gagna málsins telji barnaverndarnefnd B að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun stúlkunnar í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.

V. Sjónarmið fósturmóður

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir afstöðu fósturmóður sem barst nefndinni með tölvubréfi 18. apríl 2016. Í svari fósturmóður kemur fram að stúlkan hafi oft ekki viljað fara til kæranda þegar hún hafi átt að hitta hana. Stúlkan sjálf hafi gert þá kröfu að hún hitti kæranda einu sinni á ári en niðurstaða barnaverndarnefndar hafi verið sú að hún skyldi hitta hana fjórum sinnum á ári. Stúlkan hafi ekki verið ánægð með þetta fyrirkomulag og hafi óskað þess sjálf að umgengnin yrði þá undir eftirliti. Kærandi hafi nýtt tækifærið þegar starfsmaður barnaverndarnefndar, sem sinnti eftirliti í umgengni, hafi brugðið sér frá og talað illa um fósturmóður við stúlkuna. Við þessa framkomu hafi stúlkan verið ósátt og í kjölfarið neitað að hitta kæranda. Stúlkan hafi þó hitt kæranda síðar undir eftirliti og hafi stúlkan sagt að sú umgengni hefði gengið betur. Að mati fósturmóður hefur stúlkunni farið mikið fram eftir að umgengni sem var einu sinni í mánuði var breytt. Henni líði miklu betur eftir að umgengni við kæranda var minnkuð. Þá telur fósturmóður að það sé stúlkunni fyrir bestu að hún hitti kæranda sem sjaldnast á meðan hún sé að mótast og þroskast. Alls ekki megi þrýsta á hana að hitta kæranda. Seinna væri það betra fyrir stúlkuna og kveðst fósturmóðir aðeins vera hugsa um velferð hennar.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er fædd árið X og hefur verið hjá fósturmóður sinni, E, frá því í X. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi X sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar X.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá X var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns.  Kærandi óskar eftir aukinni umgengni og leggur til að hún verði einn laugardag í mánuði, tíu klukkustundir í senn.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengniréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. sömu laga skal taka réttmætt tillit til skoðana barns við úrlausn máls. Eins og mál þetta liggur fyrir úrskurðarnefndinni verður að telja að vilji stúlkunnar til umgengni við kæranda hafi komið fram í skýrslu talsmanns stúlkunnar frá X. Þar er greint frá því að stúlkunni hafi liðið betur þegar umgengni var stytt. Þá greindi stúlkan frá því að umgengni við kæranda sé frekar gæðastund ef um sé að ræða færri skipti og í styttri tíma. Þá greindi stúlkan talsmanni frá því að hún myndi vilja að umgengni hennar við kæranda væri einu sinni á ári og þá undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns líkt og í X. Verður því að telja, að teknu tilliti til vilja, líðan og hagsmuna stúlkunnar að umgengni við kæranda skuli ákveðin þannig að hún vari í skemmri tíma og verði sjaldnar en verið hefur. Að mati nefndarinnar kemur því ekki til álita að fallast á kröfu kæranda um aukna umgengni.

Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hennar við kæranda á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum stúlkunnar og sé ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hennar í fóstur. Hagsmunir stúlkunnar eru að öryggi hennar verði sem best tryggt og hún njóti verndar gegn þeirri vanlíðan og óöryggi sem hún hefur upplifað. Gögn málsins sýna að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun stúlkunnar eftir að umgengni var takmörkuð og framkvæmd hennar varð undir eftirliti starfsmanns barnaverndarnefndar. Þá hefur stúlkan upplýst að hún vilji að umgengni verði sjaldnar og styttri, enda sé þá upplifun hennar jákvæðari af samveru við kæranda. Að öllu þessu virtu verður að telja að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið hæfilega ákveðin með hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan greinir ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun barnaverndarnefndar B.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá X varðandi umgengni A við dóttur hennar, D, er staðfestur.

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira