Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Föstudaginn 5. júní 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn félagsmálanefnd B vegna umgengni við son hennar, C, nr. 2/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 26. febrúar 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði félagsmálanefndar B frá 29. janúar 2015, vegna umgengni kæranda við son sinn, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Félagsmálanefndin fer með störf barnaverndarnefndar í B. Með hinum kærða úrskurði er hafnað umgengni C við móður sína og ákveðið að halda dvalarstað barnsins leyndum. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Umgengni A, við barnið C, er hafnað og skal dvalarstað þess haldið leyndum.

 Kærandi telur að barnaverndaryfirvöld hafi þeirri skyldu að gegna að leyfa drengnum, C, að kynnast móður sinni, þrátt fyrir að vera vistaður í fóstri. Kærandi telur einnig að ekkert í málinu mæli með því að henni sé neitað um upplýsingar um vistunaraðila og dvalarstað drengsins.

Barnaverndarnefnd E krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I. Málavextir

Kærandi er 22 ára gömul móðir tveggja drengja, fæddra X og Y. Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af kæranda frá fæðingu eldri drengsins, F, vegna fjölþættra erfiðleika hennar við að sinna umönnun drengjanna og uppeldi. Báðir drengirnir eru nú vistaðir utan heimilis. Mál þetta varðar umgengni kæranda við yngri son hennar, C, og það hvort halda skuli dvalarstað hans leyndum, eins og fram hefur komið.

Í mati á forsjárhæfni kæranda, sem G geðlæknir gerði 15. júlí 2014, kemur fram að kærandi sýni að hans mati algera vangetu til þess að sjá um syni sína og veita þeim það aðhald, stuðning og þá hvatningu sem nauðsynlegt sé. Hún hafi ekki viljað þiggja þann stuðning og hjálp sem nauðsynleg sé til þess að hún eigi möguleika á að sinna því mikilvæga hlutverki sem felist í uppeldi og forsjá sona sinna og sé það mat geðlæknisins að geta hennar til þess hlutverks aukist ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.

H sálfræðingur vann sálfræðilega matsgerð 7. apríl 2015 í tilefni af því að B höfðaði mál gegn kæranda með stefnu sem lögð var fram í Héraðsdómi E 18. nóvember 2014 til sviptingar forsjár barna hennar. Í hinni sálfræðilegu matsgerð segir að kærandi hafi átt við alvarlega geðræna erfiðleika að stríða allt frá unglingsárum og að vandi hennar hafi aukist þegar á fullorðinsár hafi verið komið. Kvíði og fjölþætt fælni hafi fylgt henni um langt skeið. Andlegt ástand kæranda, innsæisskortur hennar á eigið tilfinningalíf og á líðan og hegðun annarra geri það að verkum að hún geti ekki sinnt daglegri umönnun og uppeldi sona sinna á þann hátt sem öll börn eigi rétt á. Kærandi sinni mjög illa allri líkamlegri umhirðu sem sjá megi á útliti hennar og heimilishaldi. Heimili hennar sé ekki boðlegt börnum þar sem óþrif og óreiða sé mikil. Ekki hefur verið kveðinn upp dómur í málinu.

C var vistaður utan heimilis ... 2013 með samþykki kæranda. Samtímis var gert samkomulag um umgengni kæranda við drenginn þrisvar sinnum í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga klukkan 10.00–12.00. Kærandi afturkallaði síðar samþykki sitt fyrir vistun drengsins og var kveðinn upp úrskurður 28. janúar 2014 um kyrrsetningu hans á heimili vistunaraðila í tvo mánuði. Jafnframt var úrskurðað að umgengnin yrði óbreytt. Með úrskurði Héraðsdóms E þann X var síðan fallist á þá kröfu nefndarinnar að kyrrsetja drenginn á heimili á vegum nefndarinnar í sex mánuði.

Í gögnum málsins kemur fram að umgengni kæranda við C frá 5. nóvember 2013 til 21. júlí 2014 hafi verið stopul, en frá síðara tímamarkinu hafi umgengni alveg fallið niður enda hafi kærandi ekki mætt í umgengni frá 7. apríl 2014. Fram kemur að kærandi hafi hvað mest sinnt umgengninni mánuðina nóvember 2013 til og með febrúar 2014. Hún hafi þó iðulega mætt of seint í umgengnina á þessu tímabili sem og á öðrum tímum. Samkvæmt yfirliti um mætingar kæranda í umgengni, sem er meðal gagna málsins, kemur fram að af 112 skiptum sem hún hafi átt umgengni á tímabilinu nóvember 2013 til júlí 2014 hafi hún mætt samtals í 33 skipti. Kærandi krafðist ekki rýmri umgengni fyrr en í desember 2014 en þá krafðist hún umgengni yfir jólin. Var þeirri kröfu hafnað enda voru vistunarforeldrar erlendis með drenginn yfir hátíðirnar.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi byggi á því að hinn kærði úrskurður sé andstæður 70. og 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, hagsmunum barnsins og meðalhófsreglunni. Ekki verði séð að vísað sé til þess í tillögu starfsmanna barnaverndarnefndarinnar að umgengnin sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í varanlegt fóstur. Jafnframt sé fullyrt í úrskurðinum að engin tilfinningatengsl hafi verið milli kæranda og barnsins frá fæðingu þess. Þessu mótmæli kærandi harðlega enda sé engin leið fyrir barnaverndarnefnd að meta það hvort tilfinningatengsl hafi verið til staðar milli kæranda og barnsins fyrstu mánuðina í lífi þess. Ástæður þess að kærandi hafi ekki rækt umgengni við drenginn frá því í apríl 2014 séu fjölþættar. Hún sé í fyrsta lagi haldin miklum kvíða og þá hafi hún einnig óttast að tengjast barninu þar sem hún hafi vitað að ætlun barnaverndaryfirvalda væri sú að svipta hana forsjá drengsins. Kærandi hafi óskað að umgengni yrði komið á hægt og rólega til þess að unnt yrði að koma á tengslum milli móður og barns.

Kærandi mótmælir því að hún hafi illa sinnt umgengninni við drenginn þar til hún stöðvaðist alveg eftir 7. apríl 2014. Hún hafi sinnt umgengninni mjög vel allt þar til í byrjun marsmánaðar 2014 þegar félagsmálanefnd B ákvað að höfða mál hendur henni og krefjast þess að vista drenginn utan heimilis í sex mánuði. Þegar kærandi hafi séð í hvað stefndi hafi kvíði aukist hjá henni til muna og hún hafi hræðst það svo mjög að missa drenginn að hún hafi forðast að tengjast honum meira. Umgengnin hafi orðið stopulli af þeim sökum.

Ekki hafi verið gerður samningur við kæranda um umgengni eftir að Héraðsdómur E úrskurðaði um vistun drengsins utan heimilis í sex mánuði en barnaverndarnefnd sé skylt að taka afstöðu til umgengni barna sem vistuð séu utan heimilis samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Niðurstaða hins kærða úrskurðar fari, að mati kæranda, í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga um að beita beri vægasta úrræði sem unnt sé til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Að mati kæranda séu engin rök fyrir því að neita henni og C alfarið um samvistir þegar það sé samkomulag um umgengni hennar við eldri son hennar.

Í öðru lagi sé niðurstaða hins kærða úrskurðar í andstöðu við 70. gr. barnaverndarlaga um réttindi barna í fóstri, en þar sé skýrt kveðið á um rétt barna á umgengni við foreldra. Ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga fjalli sérstaklega um umgengni í fóstri og þar sé réttur barna í fóstri til umgengni við foreldra sína áréttaður í 1. mgr. Í athugasemdum við 74. gr. laganna með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum sé fjallað um þau tilfelli þegar neita beri um umgengni með öllu. Þar segi meðal annars að ef neita eigi um umgengni með öllu verði að sýna fram á að hún sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins. Að mati kæranda hafi það ekki verið gert í tilfelli sonar hennar.

Kærandi mótmælir því í fyrsta lagi að umgengni barnsins við hana hafi enga þýðingu fyrir hagsmuni barnsins að svo stöddu. Drengurinn sé X mánaða gamall og mikilvægt að hann kynnist móður sinni og eldri bróður sem fyrst. Í öðru lagi sé því mótmælt að það sé andstætt hagsmunum barnsins að vera flutt úr öruggu umhverfi með ókunnugum eftirlitsaðila til móður. Kærandi hafi lagt ríka áherslu á aðlögun í umgengni sem miði að því að drengurinn kynnist henni. Hún telji að því fyrr sem barnið kynnist henni og eldri bróður sínum, því auðveldari verði aðlögunin. Hún geti boðið barninu upp á öruggt umhverfi sem sé tryggt með eftirliti starfsmanns barnaverndar. Það sé nauðsynlegt fyrir barnið að kynnast öðru fólki en vistunaraðilum og algjörlega fráleitt að hafna umgengni á þeim forsendum að barnið verði að vera öllum stundum með vistunaraðilum.

Fram kemur af hálfu kæranda að einnig sé kærð sú niðurstaða að halda eigi upplýsingum um vistunaraðila og dvalarstað drengsins leyndum fyrir kæranda. Kærandi telji ekkert í málinu mæla með því að henni sé neitað um upplýsingar um dvalarstað og vistunaraðila sonar síns. Kærandi bendi á að í 4. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segi að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafi afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Niðurstaða hins kærða úrskurðar gangi í berhögg við fyrrgreinda reglu enda sé það verulega niðurlægjandi fyrir kæranda að fá enga vitneskju um dvalarstað sonar síns og að auki valdi það henni bæði kvíða og vanlíðan. Í hinum kærða úrskurði komi fram að vitneskja móður um dvalarstað barnsins hafi að mati nefndarinnar enga efnislega þýðingu í málinu, hvorki með tilliti til hagsmuna móður né barns. Reglan í 7. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga um leynd dvalarstaðar sé undantekning frá meginreglunni um að foreldrar fái bæði vitneskju um dvalarstað og vistunaraðila. Um sé að ræða íþyngjandi reglu sem beri samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttarins að túlka þröngt. Þeim skilningi barnaverndarnefndar að vitneskja kæranda um dvalarstað sonar hennar hafi enga efnislega þýðingu fyrir hana sé harðlega mótmælt. Kærandi hafi ríka hagsmuni af því að vita hvar sonur hennar sé niðurkominn og hverjir sjái um daglega umönnun hans.

Kærandi gerir athugasemdir við það að starfsmenn barnaverndarnefndar hafi allt frá því að C hafi fyrst verið tekinn af heimili kæranda haustið 2013 haldið dvalarstað drengsins leyndum fyrir kæranda. Í 7. mgr. barnaverndarlaga sé kveðið á um að það sé barnaverndarnefnd sem geti úrskurðað um leynd dvalarstaðar. Starfsmenn nefndarinnar hafi því, að mati kæranda, ekki heimild til að halda dvalarstað leyndum án undangengins úrskurðar.

Kærandi gerir auk þessa athugasemdir við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Lögmaður hennar hafi verið boðaður á fund barnaverndarnefndar og gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum við tillögum starfsmanna nefndarinnar. Eftir að hafa reifað sjónarmið kæranda og svarað spurningum hafi lögmanninum verið gert að víkja af fundinum á meðan nefndin tæki ákvörðun. Starfsmenn nefndarinnar hafi hins vegar setið fundinn áfram og hafi þar með getað haft áhrif á nefndarmenn og tekið þátt í umræðum um niðurstöðu málsins. Kærandi telur þessa framkvæmd afar óeðlilega og andstæða stjórnsýslulögum.

Í athugasemdum lögmanns kæranda við greinargerð félagsmálanefndar B í málinu 26. mars 2015 er því mótmælt að kærandi hafi ekki nýtt sé þjónustu FMB teymisins sem henni hafi verið boðin 27. október 2013. Bent er á að samkvæmt tölvupósti sé staðfest að geðteymi FMB teymisins hafi metið stöðu kæranda svo að hún glímdi ekki við alvarleg geðræn veikindi og því stæði meðferð hjá FMB teyminu henni ekki til boða. Því er einnig mótmælt að ekki hafi verið nauðsynlegt að bera leynd dvalarstaðar undir barnaverndarnefnd einungis af því að ekki hafi komið fram formleg krafa um uppljóstrun dvalarstaðar frá kæranda.

Af hálfu kæranda eru í áðurnefndu bréfi lögmannsins 26. mars 2015 enn fremur gerðar frekari athugasemdir við sjónarmið félagsmálanefndar B. Þeirri fullyrðingu er mótmælt að engin tilfinningatengsl hafi verið milli sonar kæranda og kæranda. Vera megi að gögn málsins bendi til þess að kærandi hafi átt erfitt með að annast son sinn á fullnægjandi hátt en það jafngildi þó á engan hátt sönnun á því að kærandi og drengurinn hafi engin tilfinningatengsl myndað. Þá er bent á að til þess að neita um umgengni með öllu verði að sýna fram á að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins. Eigi það bæði við þegar um sé að ræða tímabundið fóstur og í þeim tilfellum þegar foreldrar hafi verið sviptir forsjá. Það að félagsmálanefnd hafi markað þá stefnu að svipta kæranda forsjá séu því ekki rök með því að hafna alfarið umgengni. Þá ítrekar kærandi fyrri afstöðu sína til þess að sú ákvörðun að halda dvalarstað barnsins leyndum fyrir henni gangi gegn meðalhófsreglu. Kærandi hafi aldrei gerst uppvís að því að reyna að nálgast barnið í fóstri né sé hún líkleg til að gera það. Þá sé ekkert sem bendi til þess að kærandi muni ónáða vistunarforeldra með símhringingum eða öðru. Loks eru ítrekaðar athugasemdir við viðveru starfsmanna barnaverndar á fundi nefndarinnar eftir að lögmaður kæranda yfirgaf fundinn. Kærandi geri ekki athugasemdir við að starfsmenn komi fyrir nefndina, kynni málið og svari spurningum nefndarmanna um málið. Hins vegar telji kærandi óeðlilegt að starfsmenn nefndarinnar séu viðstaddir þegar ákvörðun í einstaka málum sé tekin, eftir að aðili máls og lögmaður hafi fengið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum.

III. Afstaða félagsmálanefndar B

Í greinargerð félagsmálanefndar B 9. mars 2015 til kærunefndar barnaverndarmála er þess krafist að kærunefndin staðfesti hinn kærða úrskurð frá 29. janúar 2015.

Félagsmálanefndin bendir á að í kæru sé þeirri málsástæðu haldið fram að engin leið sé fyrir félagsmálanefnd að meta hvort tilfinningatengsl hafi verið milli móður og barns fyrstu mánuðina í lífi þess. Félagsmálanefndin bendi á fyrirliggjandi gögn málsins í þessu sambandi, einkum og sér í lagi þá staðreynd að fram að þeim tíma sem barnið var fjarlægt úr umsjá móður X mánaða gamalt hafi hún notið daglegrar þjónustu sérfræðinga. Að þjónustunni hafi komið sérfræðingar á vegum félagsmálanefndar (hjúkrunarfræðingur og leikskólakennari), ljósmóðir á vegum F, hjúkrunarfræðingur á vegum ungbarnaverndar, auk geðhjúkrunarfræðings og læknir á vegum geðteymis F. Hlutverk þeirra hafi meðal annars verið að hvetja til og stuðla að tengslamyndun móður og barns. Þrátt fyrir þetta hafi verið ljóst að tengslamyndun móður og barns hafi ekki verið fyrir hendi og ekki hafi verið unnt að koma henni á.

Kærandi hafi mótmælt því að hafa sinnt umgengninni illa. Félagsmálanefndin áréttar mat sitt á bágum mætingum kæranda og vísar til yfirlits um mætingar hennar í umgengni eins og tiltekið sé í hinum kærða úrskurði. Fyrir hendi séu nákvæmar upplýsingar um mætingar kæranda. Í yfirlitinu komi þó ekki fram að kærandi hafi alltaf mætt of seint í umgengnina og iðulega farið áður en henni hafi lokið.

Félagsmálanefnd B tekur fram að kærandi hafi hætt að mæta í umgengni af eigin hvötum. Það hafi hún gert án þess að upplýsa nefndina eða lögmaður fyrir hennar hönd. Á öllum stigum málsins hafi kæranda staðið til boða yfirgripsmikil þjónusta sérfræðinga, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónusta. Þá þjónustu hafi kærandi ekki kosið að nýta sér. Félagsmálanefnd B telur að slá megi því föstu að engin tilfinningatengsl séu fyrir hendi milli kæranda og barnsins. Barnið hafi á hinn bóginn myndað tilfinningatengsl við vistunaraðila sem uppfylli allar þarfir þess. Því sé umgengni barnsins við kæranda bersýnilega andstæð hagsmunum þess og þörfum. Félagsmálanefnd hafi markað þá stefnu í málinu að svipta kæranda forsjá og vista barnið varanlega og hafi höfðað mál fyrir dómstólum þar sem sú kröfugerð sé sett fram.

Varðandi það að lögmaður kæranda hafi átalið það að félagsmálanefnd hafi ekki hlutast til um gerð samnings um umgengni kæranda við drenginn eftir að úrskurður Héraðsdóms E var kveðinn upp X er bent á að nefndin hafi kveðið upp úrskurð um umgengni 28. janúar 2014. Sá úrskurður hafi áfram verið í fullu gildi eftir úrskurð héraðsdóms og ekki hafi komið fram krafa um frekari umgengni frá kæranda.

Félagsmálanefnd mótmæli þeirri staðhæfingu kæranda að hinn kærði úrskurður brjóti í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Nefndin hafi markað þá stefnu að kærandi yrði svipt forsjá drengsins og sé markmiðið með því að tryggja honum nauðsynlegt öryggi, umönnun og atlæti sem ekki hafi verið hægt í umsjá kæranda þrátt fyrir yfirgripsmikla þjónustu og stuðning. Umgengni drengsins við kæranda, sem hann hafi ekki myndað tilfinningatengsl við, þrátt fyrir ríka viðleitni nefndarinnar, þjóni ekki þeim markmiðum og sé bersýnilega andstæð hagsmunum hans að svo stöddu.

Varðandi leynd dvalarstaðar drengsins kemur fram af hálfu félagsmálanefndar að þar sem engin umgengni sé við kæranda hafi vitneskja hennar um dvalarstað hans enga þýðingu í málinu, hvorki með hagsmuni drengsins í huga né kæranda. Ekki teljist tryggt að kærandi eða tengdir aðilar leitist ekki við að hafa afskipti af drengnum eða vistunaraðilum. Í gögnum málsins komi fram að aðilar nákomnir kæranda, hafi veitt eftirlitsaðila með umgengni eftirför á fyrri stigum málsins og vaktað heimili eftirlitsaðila. Mikil vinna hafi verið lögð í að tryggja drengnum þá umönnun og öryggi sem hann búi nú við. Ljóst sé að háttsemi af þeim toga geti verið óþægileg, jafnvel ógnandi og haft áhrif á fósturráðstöfun og þann stöðugleika sem ríki nú í umhverfi drengsins. Eingöngu sé litið til hagsmuna drengsins og telji nefndin að það hafi enga þýðingu að upplýsa kæranda um dvalarstað hans. Bent er á að starfsmenn félagsmálanefndar hafi sent lögmanni kæranda upplýsingar um hagi og líðan drengsins og sé ætlunin að gera það áfram með reglulegu millibili.

Varðandi þá málsmeðferð að starfsmenn félagsmálanefndar hafi verið á fundinum á meðan málið hafi verið rætt sé það á engan hátt andstætt barnaverndarlögum eða stjórnsýslulögum. Starfsmennirnir séu sérfræðingar og ráðgjafar nefndarinnar og sitji fundina til að veita svör um þau sérfræðilegu atriði sem upp kunni að koma við afgreiðslu og umfjöllun mála, eins og barnaverndarlög geri ráð fyrir samkvæmt 14. gr. laganna. Nefndarmenn einir hafi hins vegar atkvæðisrétt við afgreiðslu mála. Um sé að ræða hefðbundið fyrirkomulag við nefndarstörf á sveitarstjórnarstigi. Í því sambandi er einnig bent á að í 39. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp B sé gert ráð fyrir því að sviðsstjórar hlutaðeigandi sviða riti fundargerð og að starfsmenn sitji einstaka dagskrárliði, þegar eftir því sé leitað samkvæmt eðli málsins.

V. Niðurstaða

Mál þetta varðar umgengni drengsins C, sem er tæplega X ára gamall, við kæranda. Með hinum kærða úrskurði félagsmálanefndar B frá 29. janúar 2015 var umgengni drengsins við kæranda hafnað og ákveðið að halda dvalarstað hans leyndum.

Athugsemdir kæranda varðandi málsmeðferð félagsmálanefndarinnar er lögmanni kæranda var gert að víkja af fundi nefndarinnar 29. janúar 2015 á meðan nefndin tók ákvörðun í málinu lúta að því að starfsmenn nefndarinnar hafi áfram setið fundinn og þar með hafi þeir getað haft áhrif á nefndarmenn og tekið þátt í umræðum um niðurstöðu málsins. Kærandi telur afar óeðlilegt og andstætt stjórnsýslulögum að starfsmenn nefndarinnar hafi með þessum hætti getað haft áhrif á nefndarmenn og niðurstöðu málsins.

Af hálfu félagsmálanefndarinnar er vísað til þess að starfsmennirnir sem sátu fundinn séu sérfræðingar og ráðgjafar nefndarinnar og sitji þeir fundina til að veita svör um þau sérfræðilegu atriði sem upp kunni að koma við afgreiðslu og umfjöllun mála, eins og barnaverndarlög geri ráð fyrir í 14. gr. þeirra.

Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarnefnd skuli ráða sérhæft starfslið eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti. Skuli meðal annars miða við að möguleikar séu til faglegra rannsókna á félagslegum og sálrænum högum barna vegna könnunar og meðferðar einstakra mála. Af þessu verður ótvírætt ráðið svo og af því sem fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að barnaverndarlögum hve mikilvægt er að barnaverndarnefnd hafi möguleika á að ráða sérhæft starfslið til að sinna þeim verkefnum sem barnaverndarnefnd hefur með höndum samkvæmt lögum. Á það jafnt við almennt og þegar þörf er á sérfræðiþekkingu við meðferð einstakra mála. Fram kemur í fundargerð félagsmálanefndar B frá 29. janúar 2015 að starfsmenn á fundinum voru J, sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs, sem ritaði fundargerð, og K félagsráðgjafi. Einnig kemur fram í fundargerðinni að L, hæstréttarlögmaður og lögmaður nefndarinnar, hafi setið fundinn. Með þessu fyrirkomulagi verður ekki talið að óeðlilega hafi verið að verki staðið enda snerist málið um að meta hvort umgengni drengsins við kæranda væri andstæð hag drengsins og þörfum þar sem sérfræðiþekkingar var þörf. Slíkt mat þarf að vera byggt á réttum faglegum forsendum og á lagalega réttum grunni. Af hálfu kæranda er vísað til þess að framkvæmdin hafi verið andstæð stjórnsýslulögum án þess að kærandi færi fyrir því nokkur rök og án þess að vísa til reglna sem þar gætu átt við. Að öllu þessu virtu ber að hafna því að brotnar hafi verið málsmeðferðarreglur að þessu leyti af hálfu félagsmálanefndarinnar við meðferð og úrlausn málsins.

Kærandi óskar eftir umgengni við drenginn og óskar enn fremur eftir að vera upplýst um dvalarstað og vistunaraðila sonar síns. Kærandi vísar til þess að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins með hinum kærða úrskurði. Hún heldur því enn fremur fram að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé í andstöðu við 70. gr. barnaverndarlaga um réttindi barna í fóstri, en þar sé skýrt kveðið á um rétt barna á umgengni við foreldra. Ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga fjalli sérstaklega um umgengni í fóstri og í 1. mgr. sé réttur barna í fóstri til umgengni við foreldra sína áréttaður. Í athugasemdum við 74. gr. laganna með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum sé fjallað um þau tilfelli þegar neita beri um umgengni með öllu. Þar segi meðal annars að ef neita eigi um umgengni með öllu verði að sýna fram á að hún sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins. Að mati kærandi hafi það ekki verið gert í tilfelli sonar hennar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að gögn málsins leiði í ljós að engin tilfinningatengsl séu milli kæranda og barnsins. Engin tilfinningatengsl hafi verið til staðar frá fæðingu drengsins. Kærandi hafi nýtt sér illa þá umgengni sem hún hafi átt rétt á samkvæmt samkomulagi eða síðar samkvæmt úrskurði félagsmálanefndar frá 28. janúar 2014. Þá hafi hún ekki nýtt sér önnur úrræði sem hafi miðað að því að koma á tengslum þeirra á milli á upphafsstigum málsins, svo sem innlögn í sértækt úrræði á Landspítalanum.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar getur barnaverndar­nefnd úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar við barn sitt þegar sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barnsins við foreldri sé andstæð hags þess og þörfum. Eins og að framan greinir vísar kærandi til þess sem fram kemur í lögunum og athugasemdum við 74. gr. frumvarps sem varð að barnaverndarlögum að þegar umgengni sé neitað með öllu þurfi að sýna fram á að hún sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins.

Mikilvægt er að líta til þess við úrlausn málsins að drengurinn er nú á viðkvæmu þroskaskeiði meðal annars varðandi tengslamyndun. Hann hefur sérstaka þörf fyrir að mynda traust og varanleg tengsl við fósturforeldra sem honum er ætlað að vera hjá til 18 ára aldurs. Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að drengurinn fái frið til þess að aðlagast fóstrinu og að fósturforeldrarnir fái jafnframt næði til að sinna því mikilvæga hlutverki að tengjast drengnum og ala hann upp. Kærunefndin telur því að hagsmunir drengsins séu bersýnilega þeir að kærandi hafi ekki umgengni við drenginn að svo komnu þar sem hætta er talin á að hún muni ógna öryggi hans hvað varðar tengslamyndun.

Í 7. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga segir að barnaverndarnefnd geti kveðið upp úrskurð um að halda dvalarstað barns leyndum, meðal annars gagnvart foreldrum, ef hagsmunir barnsins krefjist þess. Í athugasemdum við 7. mgr. 74. gr. í frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segir að rétt þyki að barnaverndarnefnd hafi slíka heimild, enda geti aðstæður verið með þeim hætti að afskipti kynforeldra af barninu geti verkað mjög truflandi og unnið gegn því að markmiðin með fósturráðstöfun náist. Markmiðið með því að halda dvalarstað barnsins leyndum er að barnið fái tækifæri til að aðlagast fósturfjölskyldunni óáreitt.

Í málinu hefur komið fram að starfsmenn félagsmálanefndar hafi sent lögmanni kæranda upplýsingar um hagi og líðan drengsins og sé ætlunin að gera það áfram með reglulegu millibili. Þar með telur kærunefndin að komið sé til móts við hagsmuni kæranda.

Hagsmunir drengsins eru greinilega þeir að fá að vera óáreittur í fóstrinu, þeir vega þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá að vita um dvalarstað hans. Með því að upplýsa kæranda um dvalarstað barnsins er tekin óþarfaáhætta á því að drengurinn verði fyrir truflun í fóstrinu og að með því sé unnið gegn þeim markmiðum sem stefnt er að með fósturráðstöfuninni. Kærunefndin telur að ákvörðun félagsmálanefndar B um að halda dvalarstað barnsins leyndum gagnvart kæranda hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum.

Með vísan til þess verður að telja að hagsmunir barnsins krefjist þess að dvalarstað þess verði haldið leyndum gagnvart kæranda.

Að öllu framangreindu virtu verður því engin stoð fundin að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins eða 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga við meðferð og úrlausn málsins af hálfu félagsmálanefndar B.

Starfsmenn félagsmálanefndarinnar tóku enga formlega ákvörðun um að halda dvalarstað barnsins leyndum en þá ákvörðun tók félagsmálanefndin með hinum kærða úrskurði samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins. Athugasemdum kæranda er að þessu lúta er með vísan til þessa hafnað.

Samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja að uppfyllt hafi verið að öllu leyti lagaleg skilyrði fyrir því að hafna kröfu kæranda um umgengni við son hennar og að halda dvalarstað barnsins leyndum með vísan til 2., 4. og 7. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Ber með vísan til þess að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Úrskurðarorð


Úrskurður félagsmálanefndar B um umgengni A við son sinn, C, er staðfestur.


Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira