Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2014

Hinn 4. desember 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 4/2014:

 

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 49/2011

Þórir J. Einarsson ehf.

gegn

Reykjavíkurborg

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 16. maí sl. fór Arnar Þór Stefánsson hrl. þess á leit fyrir hönd Þóris J. Einarssonar ehf. að hæstaréttarmál nr. 49/2011, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 17. nóvember 2011, yrði endurupptekið. Með bréfi dags. 4. júlí sl. sendi Reykjavíkurborg skriflega greinargerð um viðhorf gagnaðila til endurupptökubeiðninnar. Endurupptökubeiðanda var kynnt sú greinargerð og bárust engar frekari athugasemdir eða gögn af hans hálfu.

Með endurupptökubeiðni fylgdu m.a. úrskurðir úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 167/2007 frá 24. júlí 2008, máli nr. 6/2011 frá 14. febrúar 2014 og máli nr. 26/2010 frá 10. apríl 2014. Engin gögn fylgdu greinargerð gagnaðila.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Hinn 21. janúar 2011 áfrýjaði endurupptökubeiðandi til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. október 2010. Endurupptökubeiðandi krafðist þess að felld yrði úr gildi samþykkt borgarráðs gagnaðila frá 3. apríl 2001 um samþykki varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni. Jafnframt krafðist endurupptökubeiðandi að gagnaðila yrði skylt að viðlögðum 50.000 króna dagsektum frá dómsuppsögu að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði. Þá krafðist hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnaðili krafðist aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms sem hafði sýknað hann af kröfum gagnaðila og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 17. nóvember 2011 var málinu vísað frá. Rakið var í dómi Hæstaréttar að jarðvegslosun hafi hafist á svæðinu í kjölfar samþykktar borgarráðs gagnaðila 3. apríl 2001. Nýtt deiliskipulag á Hólmsheiði vegna jarðvegsfyllingar og miðlunartanka hafi tekið gildi 14. desember 2010. Felldi það úr gildi deiliskipulag fyrir miðlunartanka frá árinu 2008 og deiliskipulag vegna jarðvegsfyllingar frá árinu 2010. Hinn áfrýjaði dómur hafi verið kveðinn upp 26. október 2010. Framkvæmdir við jarðvegslosun á Hólmsheiði færu nú ekki lengur fram á grundvelli samþykktar gagnaðila frá 3. apríl 2001. Eftir gildistöku nýs deiliskipulags gæti samþykktin ekki haft verkanir að lögum sem gild skipulags- og framkvæmdarheimild. Fæli dómkrafa endurupptökubeiðanda nú eingöngu í sér að leitað yrði álits dómstóla um lögfræðilegt efni en veitti honum ekki úrlausn um tiltekin réttindi sem málsókn væri ætlað að tryggja, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af slíkri úrlausn hefði endurupptökubeiðandi ekki lögvarða hagsmuni og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála og vísar til þess að öllum skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt og því beri að endurupptaka málið fyrir Hæstarétti. Tilvísun endurupptökubeiðanda til skilyrða ákvæðisins lúta að skilyrðum 1. mgr. 167. gr. sömu laga, sem vísað er til í 1. mgr. 169. gr. laganna.

Byggt er á því af hálfu endurupptökubeiðanda að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar og honum verði ekki kennt um það. Frávísun málsins frá Hæstarétti hafi alfarið byggt á þeirri forsendu að stjórnvaldsákvörðun sem endurupptökubeiðandi hafi krafist ógildingar á frá 3. apríl 2001 gæti ekki haft verkanir að lögum þar sem jarðvegslosun færi, er dómur var kveðinn upp, fram á grundvelli deiliskipulags sem tekið hefði gildi 14. desember 2010. Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þann 14. febrúar 2014 í máli nr. 6/2011 hefði deiliskipulagið frá 14. desember 2010 verið fellt úr gildi. Því sé ljóst að það deiliskipulag sé ólögmætt og geti engar réttarverkanir haft. Ennfremur hefði deiliskipulag frá 7. apríl 2010 um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála þann 10. apríl 2014 í máli nr. 26/2010. Það deiliskipulag hafi því einnig verið ólögmætt og gæti heldur engar réttarverkanir haft. Í báðum tilvikum þóttu úrskurðarnefndinni slíkir annmarkar vera á hinum kærðu deiliskipulögum að þau töldust ólögmæt og fallist hefði verið á ógildingu þeirra. Endurupptökubeiðandi telur að af þessu leiði að málsatvik reyndust í dómi Hæstaréttar ekki réttilega leidd í ljós, og að meginforsenda niðurstöðu réttarins um gildi deiliskipulagsins 14. desember 2010 sé því brostin. Endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að atvikin hafi ekki réttilega verið í ljós leidd fyrir Hæstarétti enda höfðu framangreindir úrskurðir ekki legið fyrir fyrr en u.þ.b. tveimur og hálfu ári eftir dómsuppsögu Hæstaréttar. Staðan sé því núna að ekkert gildandi deiliskipulag taki til jarðvegslosunar á Hólmsheiði þar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi eldra deiliskipulag á svæðinu frá 2007 með úrskurði frá 24. júlí 2008 í máli nr. 167/2007. Af framangreindum ástæðum beri að fallast á kröfur um endurupptöku svo endurupptökubeiðandi geti efnislega fengið réttilega leyst úr dómkröfum sínum í hæstaréttarmálinu.

Endurupptökubeiðandi byggir á því að úrskurðir úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 6/2011 og í máli nr. 26/2010 falli að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála þannig að leiddar séu sterkar líkur að því að fram séu komin ný gögn sem muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Fyrrnefndir úrskurðir hafi fellt úr gildi áður gildandi deiliskipulög á þeim grundvelli að þau hafi verið ólögmæt. Umrædd deiliskipulög standi af þeim sökum ekki í vegi fyrir því að framkvæmdir við jarðvegslosun á Hólmsheiði fari fram á grundvelli samþykktar borgarráðs gagnaðila frá 3. apríl 2001 og heldur ekki deiliskipulag frá 2007 sem fellt hafi verið úr gildi með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 167/2007. Að þessu virtu sé ljóst að sú niðurstaða Hæstaréttar að vísa málinu frá geti ekki staðið óhögguð. Hafi hin nýju gögn því orðið til þess að breyta verði niðurstöðu Hæstaréttar í grundvallaratriðum, þ.e. vinda ofan af frávísun Hæstaréttar og leysa efnislega úr kröfum endurupptökubeiðanda í málinu.

Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt með vísan til þeirrar jarðvegslosunar sem hafi átt sér stað á svæðinu í næsta nágrenni við landareign endurupptökubeiðanda. Sú jarðvegslosun sé gríðarlega umfangsmikil og hafi nú varað í um 10 ár. Henni fylgi mikil umferð stórra flutningabifreiða og þungavinnuvéla, umfangsmikil breyting á ásýnd lands, fok jarðefna og hætta á mengun. Valdi þetta því meðal annars að sumarhúsalóð endurupptökubeiðanda sé algerlega ónothæf og hafi verið það síðastliðin ár, og óvissan um fyrirætlanir gagnaðila vegna síendurtekinna og ólögmætra skipulagsbreytinga hafi reynst endurupptökubeiðanda þungbærar. Endurupptökubeiðandi eigi því ótvíræða og mikla hagsmuni af því að fá dóm um ógildingu þeirrar ákvörðunar borgaryfirvalda frá 3. apríl 2001 að samþykkja losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni. Slíkur dómur sé forsenda þess að endurupptökubeiðandi geti haft uppi frekari kröfur vegna hinna ólögmætu athafna gagnaðila á Hólmsheiði.

IV. Viðhorf gagnaðila

Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 4. júlí 2014, er athugasemdum gagnaðila komið á framfæri. Gagnaðili krefst þess að endurupptökubeiðni verði hafnað á grundvelli þess að skortur sé á að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt. Af hálfu gagnaðila er talið að endurupptökubeiðandi hafi ekki leitt sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og að honum hafi ekki verið um að kenna, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laganna. Gagnaðili bendir á að upplýsingar um breytingar á réttarheimildum eða beitingu þeirra, sem hafi ekki komið til fyrr en eftir að dómur gekk, skipti ekki máli við mat á beiðni um endurupptöku nema umræddar breytingar geti einhverra hluta vegna talist gilda aftur til þess tíma. Í þessu samhengi sé vísað til ákvörðunar Hæstaréttar hinn 15. júlí 1997 vegna beiðni um endurupptöku á hæstaréttarmáli nr. 214/1978. Gagnaðili telur þau sjónarmið eiga enn frekar við í því tilviki sem hér um ræðir enda enn þrengri skilyrði til endurupptöku mála á grundvelli 167. gr. laganna heldur en 184. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Þá telur gagnaðili þau gögn, sem endurupptökubeiðandi leggur fram, ekki uppfylla áskilnað b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Endurupptökubeiðandi byggi á þeim grundvelli að jarðvegslosun eigi sér enn stað á Hólmsheiði en vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem endurupptökubeiðandi vísar í málatilbúnaði sínum, sé sú jarðvegslosun framkvæmd án fullnægjandi heimilda. Gagnaðili tekur fram að jarðvegslosun á Hólmsheiði hafi verið hætt og fari nú fram í landi Ölfuss. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi gert með sér samstarfssamning um móttöku á jarðefnum. Af því leiði að landnotkun á Hólmsheiði sé í dag í fullu samræmi við landnotkunarheimildir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og í ljósi þess að engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á Hólmsheiði sé ekki þörf á að deiliskipuleggja það á ný. Þau sjónarmið sem endurupptökubeiðandi telji að leiði til þess að skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna séu uppfyllt hafi því enga þýðingu í máli þessu enda fjalli þau um ástand sem ekki er lengur fyrir hendi.

Gagnaðili bendir jafnframt á að ákvæði 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála um heimild til endurupptöku beri að túlka þröngt þar sem að um undantekningu sé að ræða frá meginreglu 116. gr. sömu laga.

Þá byggir gagnaðili á því að skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að önnur atvik mæli með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir hans séu í húfi, sé ekki uppfyllt. Endurupptökubeiðandi hafi haft þá málsástæðu uppi á lægra dómstigi en héraðsdómur hafnað henni og sé vísað til forsenda hans. Gagnaðili mótmælir því sem röngu sem komi fram hjá endurupptökubeiðanda að jarðvegslosunarsvæði sem um ræðir sé í 60 metra fjarlægð frá landareign hans. Hið rétta sé að jarðvegslosun í nágrenni við sumarhúsalóð endurupptökubeiðanda hafi verið hætt árið 2008 enda landið þá fullnýtt. Jarðvegslosun hafi farið fram í mörg hundruð metra fjarlægð frá landareign hans og í hvarfi frá sumarhúsalóð endurupptökubeiðanda. Ennfremur mótmælir gagnaðili því sem röngu að endurupptökubeiðandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá samþykkt borgarráðs frá 3. apríl 2001 varðandi losunarstað á Hólmsheiði fellda úr gildi enda fari engin jarðvegslosun fram á svæðinu í dag. Þvert á móti liggi fyrir að hafi endurupptökubeiðandi einhvern tímann haft lögvarða hagsmuni af því að fá fyrrgreinda samþykkt borgarráðs fellda úr gildi, þá séu þeir hagsmunir ekki lengur fyrir hendi.

Loks gerir gagnaðili athugasemdir við málatilbúnað endurupptökubeiðanda að efnisdómur sé forsenda þess að endurupptökubeiðandi geti annars vegar haft uppi frekari kröfur vegna hinna ólögmætu athafna borgaryfirvalda á Hólmsheiði, og hins vegar um mögulegt ólögmæti samþykktar borgarráðs frá 3. apríl 2001 svo hægt sé að krefjast greiðslu skaðabóta. Varðandi fyrra atriðið bendir gagnaðili á að í 4. mgr. 56. gr. skipulagslaga nr. 73/1997 sem felld voru úr gildi með lögum nr. 123/2010, hafi verið mælt fyrir um þá skyldu að fjarlægja bæri byggingu eða byggingarhluta sem byggð hafi verið í andstöðu við skipulag. Sú lagaskylda sé ekki lengur fyrir hendi í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Samkvæmt því gæti endurupptökubeiðandi ekki krafist þess að jarðvegslosunarsvæðið á Hólmsheiði yrði fært í upprunalegt horf. Varðandi síðara atriðið vísar gagnaðili til frávísunarúrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. júní 2010 um kröfu endurupptökubeiðanda um greiðslu skaðabóta, og hafi sú frávísun verið staðfest í Hæstarétti í máli nr. 415/2010. Gagnaðili mótmælir því sem röngu að endurupptökubeiðandi hafi fjárhagslegra hagsmuna að gæta af því að beiðni um endurupptöku verði veitt.

V. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna.

Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. 

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 49/2011, sem beiðst er endurupptöku á, voru eingöngu uppi tvær dómkröfur er varða sakarefnið af hálfu endurupptökubeiðanda. Sú fyrri var að felld yrði úr gildi samþykkt borgarráðs gagnaðila frá 3. apríl 2001 um samþykki varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni. Síðari krafa endurupptökubeiðanda var að gagnaðila yrði skylt að viðlögðum 50.000 króna dagsektum frá dómsuppsögu að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði. Í athugasemdum gagnaðila við endurupptökubeiðni er tekið fram að jarðvegslosun á Hólmsheiði sé hætt og að engar slíkar framkvæmdir séu fyrirhugaðar þar. Þessum staðhæfingum er ekki mótmælt af hálfu endurupptökubeiðanda. Í ljósi þessa, og þeirra dómkrafna sem endurupptökubeiðandi hafði uppi í hæstaréttarmáli nr. 49/2011, verður ekki séð að hann hafi stórfellda hagsmuni af því að leyfi verði veitt til endurupptöku hæstaréttarmálsins eins og áskilið er í c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þegar horft er til fyrrnefndra dómkrafna endurupptökubeiðanda í máli nr. 49/2011 verður ennfremur ekki fallist á þá málsástæðu endurupptökubeiðanda að nýr dómur sé forsenda þess að endurupptökubeiðandi geti haft uppi frekari kröfur vegna meintra ólögmætra athafna gagnaðila á Hólmsheiði.

Að framansögðu er ljóst að skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laganna sé fullnægt eins og áskilið er og gerist því ekki þörf á að fjalla frekar um aðra liði.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Þóris J. Einarssonar ehf. um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 49/2011 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 17. nóvember 2011 er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður 

Elín Blöndal

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum