Hoppa yfir valmynd

Krafa um frestun réttaráhrifa

Miðvikudaginn 16. júní 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Með bréfi, dags. 27. maí 2010, kærði A (hér eftir kærandi) þá ákvörðun Lyfjastofnunar frá 14. apríl 2010 að hafna umsókn kæranda um rekstur útibús í flokki 2 í B og C annan hvern laugardag.

 

Kröfur

Í kæru er þess aðallega krafist að ráðherra heimili rekstur útibús í flokki 2 í B og C annan hvern laugardag en til vara er þess krafist að ógild verði ákvörðun Lyfjastofnunar, dags. 14. apríl 2010, þar sem hafnað var umsókn um rekstur útibús í flokki 2 í B og C annan hvern laugardag. Þá er þess krafist „... að ráðuneytið fresti réttaráhrifum á höfnun Lyfjastofnunar þangað til leyst hefur verið úr málinu og heimili þannig rekstur útibús í flokki 2 í B og C annan hvern laugardag, a. m. k. þangað til leyst hefur verið úr málinu“, eins og segir í kæru.

Er einungis sá hluti málsins er lýtur að kröfu um frestun réttaráhrifa til meðferðar í úrskurði þessum.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins

Kæran var send Lyfjastofnun til umsagnar með bréfi, dags. 4. júní 2010, með afriti til kæranda. Umsögn Lyfjastofnunar, er lýtur að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, barst ráðuneytinu 10. júní 2010. Ráðuneytið óskaði eftir frekari rökstuðningi fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa frá kæranda 14. júní 2010 og bárust svör kæranda 15. júní 2010.

 

Málavextir

Málavextir verða hér raktir eins og þeir koma fram í kæru og einungis að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar um þá ósk kæranda að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi til margra ára haft um það munnlegt samkomulag við Lyfjastofnun að lyfjaverslanirnar í B og C væru rekin sem útibú í flokki 2 annan hvern laugardag. Þann 18. febrúar 2010 hafi kærandi, að beiðni Lyfjastofnunar, sótt um formlegt leyfi fyrir rekstri útibús í flokki 2 í B og C annan hvern laugardag. Í umsókninni var því lýst að munnlegt samkomulag hefði verið um þetta fyrirkomulag milli lyfsala á B, C og Lyfjastofnunar allt frá árinu 1999. Þá var einnig bent á að lyfjafræðingar á þessum stöðum væru ekki tilbúnir til að vinna alla laugardaga enda væri slíkt í andstöðu við kjarasamninga þeirra. Í kæru segir að engin samskipti hafi átt sér stað milli kæranda og Lyfjastofnunar fyrr en stofnunin hafnaði umsókninni með ákvörðun, dags. 14. apríl 2010. Jafnframt óskaði Lyfjastofnun eftir staðfestingu þess efnis að því verklagi að reka B og C sem útibú 2 annan hvern laugardag yrði hætt.

 

Málsástæður og lagarök kæranda vegna kröfu um frestun réttaráhrifa

Kærandi færir í kæru fram þau rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun Lyfjastofnunar sé haldin verulegum og augljósum annmörkum. Rétt málsmeðferð og úrlausn Lyfjastofnunar hefði leitt til þess að umsókn kæranda hefði verið samþykkt. Tilgangur með frestun réttaráhrifa sé að komast framhjá eða takmarka tjón vegna ólögmætrar ákvörðunar. Þar sem umsókn kæranda sé nauðsynleg til þess að reka útibúin um helgar sé óskað eftir að því að gefið verði út leyfi til bráðabirgða á meðan málið er í kærumeðferð. Slíkt bráðabirgðaleyfi sé í samræmi við tilgang laganna og einnig í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Í kæru kemur jafnframt fram í almennum röksemdum að notast hafi verið við hið umbeðna fyrirkomulag í tíu ár. Hafi sú framkvæmd verið látin óátalin enda byggð á munnlegu samkomulagi við Lyfjastofnun. Stofnunin hafi þó ekkert tillit tekið til þess í ákvörðun sinni að með synjun umsóknarinnar væri verið að víkja frá áralangri framkvæmd. Bendir kærandi á að breyting á stjórnsýsluframkvæmd verði að taka tillit til þeirra réttmætu væntinga sem fyrri framkvæmd hafi skapað. Þannig sé mikilvægt að kynna breytinguna fyrirfram og láta synjun ekki taka gildi þegar í stað heldur gefa kæranda kost á að gera viðeigandi ráðstafanir.

Það er ítrekað í athugasemdum kæranda til ráðuneytisins 15. júní 2010, í tilefni af fyrirspurn ráðuneytisins 14. júní 2010, að umrætt fyrirkomulag hafi verið venjubundið og útibúið verið rekið á grundvelli munnlegs samkomulags við Lyfjastofnun. Með ákvörðun stofnunarinnar sé nú verið að banna núverandi fyrirkomulag.

 

Málsástæður og lagarök Lyfjastofnunar vegna kröfu um frestun réttaráhrifa

Í tölvubréfi Lyfjastofnunar til ráðuneytisins, dags. 10. júní 2010, er ekki gerð athugasemd við að réttaráhrifum hinnar kæru ákvörðunar verði frestað.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa kæranda um frestun á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar er reist á 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Undantekningu frá þeirri reglu er að finna í 2. mgr. þar sem segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Tilgangur þessarar heimildar er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að aðili kærumáls verði fyrir réttarspjöllum eða tjóni meðan það er til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi.

Ákvörðun æðra stjórnvalds um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar byggir ávallt á heildstæðu mati á aðstæðum og þeim hagsmunum sem um er að ræða hverju sinni. Eins og mál þetta liggur fyrir ráðuneytinu á þessu stigi virðist sem það verklag og sú framkvæmd, sem hin kærða ákvörðun beinist að, hafa verið við lýði allt frá árinu 1999 og án athugasemda eða afskipta Lyfjastofnunar að því er ráða má af kæru. Ráðuneytið telur því rétt að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á meðan málið er til efnislegrar meðferðar í ráðuneytinu.

Í umfjöllun í kæru um frestun réttaráhrifa er jafnframt óskað eftir að gefið verði út bráðabirgðaleyfi til handa kæranda á meðan málið er til efnismeðferðar í ráðuneytinu. Að mati ráðuneytisins felst í þessari kröfu að tekin sé efnisleg afstaða til málsins umfram það sem falist getur í umfjöllun um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar. Ráðuneytið bendir á að með því að fallist er á kröfu um frestun réttaráhrifa er það réttarástand sem ríkti áður en hin kærða ákvörðun var tekin aftur við lýði og verður að telja að með því séu hagsmunir kæranda tryggðir á meðan málið er til efnislegrar meðferðar á æðra stjónsýslustigi. Bráðabirgðaleyfi til tiltekins tíma getur hins vegar komið til skoðunar í endanlegum úrskurði ráðuneytisins.

Ráðuneytið tekur fram að í framangreindri niðurstöðu um frestun réttaráhrifa felst ekki efnisleg afstaða til röksemda kæranda sem fram koma í kæru eða þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar ákvörðun Lyfjastofnunar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Réttaráhrifum ákvörðunar Lyfjastofnunar frá 14. apríl 2010, þar sem hafnað var umsókn um rekstur útibús í flokki 2 í B og C annan hvern laugardag, er frestað meðan málið er til efnismeðferðar í heilbrigðisráðuneytinu.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum