Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 125/2018 - Úrskurður

Meðlag

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 125/2018

Miðvikudaginn 29. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. mars 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. febrúar 2018 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 1. febrúar 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni af Tryggingastofnun ríkisins 6. febrúar 2018, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna með barni þeirra frá 1. febrúar 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt um að framangreind umsókn barnsmóður hans hafi verið samþykkt frá 1. febrúar 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. mars 2018. Með bréfi, dags. 18. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. maí 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2018, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Engin gögn bárust frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna verði endurskoðuð.

Í kæru segir að samningur foreldra um umgengni hafi verið í gildi síðan X um jafna umgengni (50%) og að hann kveði á um engar meðlagsgreiðslur. Áður hafði verið undirritaður samningur á milli foreldra um meðlag á árinu X sem hafi verið sanngjarn þar sem umgengni hafi á þeim tíma ekki verið jöfn. Þeim samningi hafi verið rift með gerð nýs samnings en eldri samningurinn hafi svo að einhverjum ástæðum verið endurvakinn. Með bréf, dags. 12. febrúar 2018, hafi kærandi verið upplýstur um að samþykkt hafi verið milliganga meðlagsgreiðslna og að hann skuldi X kr.

Þá segir að þar sem barnið sé með skráð lögheimili hjá barnsmóður kæranda sé hún, vegna persónulegs ósættis við kæranda, að misnota aðstöðu sína til að knýja fram greiðslur sem eigi ekki rétt á sér. Framangreind ákvörðun sé kærð og jafnframt sé óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þar sem að enginn rökstuðningur hafi legið fyrir hvers vegna hún hafi krafist framfærslu. Barnsmóðir kæranda sé með mun hærri tekjur en hann, fastar barnabætur og niðurgreidd opinber gjöld en barnið hafi verið meira hjá honum. Með þessari kröfu sé verið að láta kæranda sjá um framfærslu barnsins á báðum stöðum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að samþykkja að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með dóttur þeirra, B, frá 1. febrúar 2018.

Tryggingastofnun hafi tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2018, að stofnunin hafi samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður hans frá 1. febrúar 2018 með dóttur þeirra. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda 6. febrúar 2018 um meðlag frá 1. febrúar 2018 ásamt staðfestingu sýslumanns á samningi um sameiginlega forsjá og meðlag, dags. X, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða einfalt meðlag með B frá X til 18 ára aldurs.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. staðfesting sýslumanns á samningi um sameiginlega forsjá og meðlag, dags. X, sem kveði á um meðlagsgreiðslur kæranda til barnsmóður hans. Ekki hafi verið sýnt fram á með framlagningu gagna að þeirri ákvörðun hafi verið breytt. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda, móttekin 6. febrúar 2018, um meðlag frá 1. febrúar 2018. Tryggingastofnun beri skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. febrúar 2018 og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru sinni. Sambærileg niðurstaða hafi einnig verið í kærumálum nr. 42/2012, 81/2013 og 334/2014 fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga og í málum nr. 190/2016, 77/2017 og 395/2017 fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur með dóttur kæranda til barnsmóður hans frá 1. febrúar 2018.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Þá segir í 6. mgr. 63. gr. laganna að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins inni af hendi. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í framangreindu lagaákvæði.

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar.

Kærandi vísar til þess að umgengni við barnið sé jöfn og að gerður hafi verið samningur um umgengni þar sem fram komi að ekki sé um meðlagsgreiðslur að ræða. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með dóttur þeirra frá 1. febrúar 2018 til 18 ára aldurs hennar. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli meðlagssamnings, dags. X. Samkvæmt samningnum er kærandi meðlagsskyldur með dóttur þeirra frá X til 18 ára aldurs hennar. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála var kæranda gefinn kostur á að leggja fram samning um umgengni og meðlag sem hann tilgreinir í kæru máli sínu til stuðnings og var athygli hans vakin á því að myndi hann ekki leggja fram umbeðið gagn kynni það að leiða til þess að úrskurðað yrði honum í óhag. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn máli sínu til stuðnings og verður hann að bera hallann af því.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber stofnuninni lögbundin skylda til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum og sama gildir um staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur. Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu meðlagssamningur sem kveður á um meðlagsskyldu kæranda með dóttur sinni til 18 ára aldurs.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. febrúar 2018.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira