Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 221/2018 - Úrskurður

Ellilífeyrir Búseta erlendis

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 221/2018

Miðvikudaginn 7. nóvember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. júní 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júní 2018, um að synja kæranda um breytingu á búsetuhlutfalli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hóf töku ellilífeyris X. Með bréfi, dags. 12. júní 2018, óskaði kærandi eftir því að búsetuhlutfall hennar til útreiknings á ellilífeyri yrði endurskoðað. Fram kemur að þrátt fyrir að kærandi hafi verið með lögheimili á B um margra ára skeið þá hafi hún engu að síður komið til Íslands í um þrjá mánuði á ári. Alls telji þessir mánuðir um X mánuði á tímabilinu frá X til X. Með bréfi, dags. 14. júní 2018, var kæranda synjað um breytingu á búsetuhlutfalli. Fram kemur að Tryggingastofnun líti svo á að kærandi hafi ekki verið búsett hér á landi í skilningi laga um lögheimili á umræddu tímabili.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. júní 2018. Með bréfi, dags. 27. júní 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 19. júlí 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 31. júlí 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 7. ágúst 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst endurskoðunar á búsetuhlutfalli.

Í kæru segir að kærandi hafi á árunum X til X unnið hjá C í innan við þrjá mánuði á sumrin. X kærur hennar til innanríkisráðuneytisins hafi verið hundsaðar með sömu rökum. Kærandi sé búsett á B og hún sé þar með lögheimili þar sem hún hafi bara komið til Íslands á sumrin frá því að hún hafi orðið ekkja á árinu X. Áður hafi hún búið í D hjá [...] og á fyrsta lögheimilinu sínu í E. Henni hafi verið sagt af Ríkisskattstjóra að hún þyrfti ekki að sækja um lögheimili á Íslandi á hverju sumri af því að hún væri innan við þrjá mánuði á landinu. Hún hafi alltaf fengið skattkort og „innritun“ út og inn í landið í sambandi við vinnusamning. Einnig hafi verið „aðgreint“ að hún ætti ekki að borga tvisvar skatta því hún hafi tvöfalt ríkisfang, B og íslenskt. Hún borgi því skatta sína í báðum löndunum. Hún geti ekki skilið af hverju hún fái ekki viðurkenndan þennan vinnutíma á Íslandi til uppbótar á hennar ellilífeyri frá Íslandi en það yrði um það bil 25% af honum öllum. Samt sé þetta tekjutengt við lífeyri mannsins hennar á B sem hafi verið B.

Í athugasemdum kæranda segir að þó svo að hún hafi verið tryggð á B hafi hún fengið þær upplýsingar frá F og atvinnuleysistryggingarsjóði B, sem hafi greitt henni örlítinn styrk annað hvort ár, að hún mætti vinna 100% vinnu á sumrin erlendis, í hennar tilviki á Íslandi, án þess að réttindi hennar skertust en hún hafi verið í hlutastarfi frá X til X í [...] sem hafi alltaf verið lokaður yfir sumarið.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi, sem hafi byrjað töku ellilífeyris X, hafi óskað með bréfi, dags. 12. júní 2018, þ.e. fjórum árum síðar, eftir hækkun á búsetuhlutfalli ellilífeyrisgreiðslna sinna á grundvelli þess að þótt hún sé búsett á B hafi hún á árunum X-X komið til Íslands á hverju sumri og unnið hér á landi í tvo til þrjá mánuði.  Erindinu hafi verið synjað með bréfi, dags. 14. júní 2018.

Greiðsluhlutfall ellilífeyris reiknist samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á grundvelli búsetu á Íslandi.  Full réttindi ávinnist með búsetu í að minnsta kosti 40 ár frá 16 til 67 ára aldurs.  Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.  

Þegar kærandi hafi byrjað töku ellilífeyris á árinu 2014 og tekin var ákvörðun um greiðsluhlutfall ellilífeyris hennar hafi í 12. gr. laganna verið kveðið á um að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður nema annað leiði af milliríkjasamningum, að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga og að Tryggingastofnun ákvarði hvort einstaklingur teljist tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Í núgildandi lögum sé sambærilegt ákvæði að finna í 4. gr. laganna auk þess sem í 5. tölul. 2. gr. laganna sé að finna þá skilgreiningu á búsetu að um sé að ræða lögheimili í skilningi lögheimilislaga nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Í máli þessu liggi fyrir ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 2. maí 2016, um að kærandi hafi ekki átt rétt á að skrá lögheimili sitt á Íslandi þar sem einungis hafi verið um stuttan tíma hverju sinni að ræða. Sú ákvörðun hafi verið staðfest X 2017 með úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í máli nr. X.

Varðandi þá fullyrðingu kæranda að í svari frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hafi verið brugðist við með jákvæðum hætti þá virðist hún vera að vísa í það orðalag sem komi fram í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um að Þjóðskrá Íslands meti svo að synjun á skráningu lögheimilis ætti ekki ein og sér að koma í veg fyrir að lífeyrisgreiðslur fáist greiddar þar sem kærandi hafi sannanlega sýnt fram á að hafa verið við störf hér á landi á því tímabili.  Í þessu samband sé til að mynda vísað til 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar þar sem fram komi að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Eins og bent hafi verið á þá sé það almenn regla laga um almannatryggingar, við ákvörðun á því hvort einstaklingur teljist búsettur og þar með tryggður á Íslandi, að miða við lögheimili  hér á landi í skilningi lögheimilislaga. Einu undanþágur sem gætu orðið frá þessu væru gerðar á grundvelli þess að Tryggingastofnun tæki ákvörðun um að veita undanþágu, annaðhvort vegna þess að það leiði af milliríkjasamningum á sviði almannatrygginga sem Ísland sé aðili að eða að Tryggingastofnun hefði upplýsingar um að lögheimilisskráning hjá Þjóðskrá væri ekki rétt.  Í máli þessu sé um hvorugar þessar ástæður að ræða. Einnig skuli á það bent að samkvæmt vottorði E 205 ES hafi kærandi verið skráð tryggð á B mestallan þann tíma sem hér um ræði.

Tryggingastofnun hafi synjað beiðni kæranda um hækkun á búsetuhlutfalli ellilífeyrisgreiðslna á sama grundvelli og Þjóðskrá Íslands hafi synjað henni um breytingu á lögheimilisskráningu hennar.  Ekki verður séð að tilefni sé til breytingar á þeirri ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 14. júní 2018, um að synja kæranda um breytingu á búsetuhlutfalli til útreiknings ellilífeyris.

Ákvæði um ellilífeyri er í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. mgr. 17. gr. laganna segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Þegar kærandi hóf töku ellilífeyris X var í 1. mgr. 12. gr. laganna kveðið á um að sá sem sé búsettur hér á landi teljist tryggður nema annað leiði af milliríkjasamningum. Þá sagði í 2. mgr. 12. gr. að með búsetu væri átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Í núgildandi lögum er búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili nema sérstakar ástæður leiði til annars, sbr. 5. tölul. 2. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna hljóðar svo:

„Hver sá sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur skal eiga lögheimili samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Sá sem dvelst eða ætlar að dveljast í landinu vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur má þó eiga lögheimili hér.“

Af framangreindu má ráða að réttur til ellilífeyris ávinnst með fastri búsetu á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með 40 ára búsetu en sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Við mat á rétti kæranda til ellilífeyris miðar Tryggingastofnun við að kærandi hafi búið á Íslandi frá X til X og síðan frá X til X eða samtals í X ár, X mánuði og X daga. Útreikningur Tryggingastofnunar leiðir til þess að búsetuhlutfall kæranda hér á landi sé 22,08% og taka ellilífeyrisgreiðslur til hennar mið af því ásamt hækkun vegna frestunar á töku ellilífeyris um tvo mánuði.

Kærandi byggir á því að hún hafi á árunum X til X unnið hjá C í tæplega þrjá mánuði á sumrin. Kærandi óskar eftir að tekið verði tillit til framangreinds búsetutíma við útreikning á búsetuhlutfalli hennar.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var kærandi með skráð lögheimili hér á landi eftir 16 ára aldur frá X til X og síðan frá X til X. Fyrir liggur að kærandi óskaði eftir því við Þjóðskrá Íslands að hún yrði skráð með lögheimili á Íslandi í tvo til þrjá mánuði á ári á árunum X til X. Þjóðskrá synjaði framangreindri beiðni kæranda og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið staðfesti þá ákvörðun Þjóðskrár með úrskurði, dags. X 2017. Í úrskurðinum kemur meðal annars fram að framlögð gögn beri með sér að kærandi hafi ávallt dvalið skemur á landinu en í þrjá mánuði hverju sinni. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við þann rökstuðning, enda segir í 1. mgr. 2. gr. laga um lögheimili að sá sem dveljist eða ætli að dveljast í landinu vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur megi eiga lögheimili hér.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki átt lögheimili hér á landi í skilningi laga um lögheimili á árunum X til X. Því er Tryggingastofnun ekki heimilt að taka tillit til þess tímabils við útreikning á búsetutíma í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við útreikninga Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. júní 2018, um að synja kæranda um breytingu á búsetuhlutfalli, staðfest

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júní 2018, um að synja A, um breytingu á búsetuhlutfalli, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira