Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 237/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 29. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 237/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030034

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. mars 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. febrúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. og 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 31. desember 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 13. janúar 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 17. janúar 2018 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 13. febrúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 6. mars 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 21. mars 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 4. apríl 2018, ásamt fylgigögnum. Þann 7. maí 2018 sendi kærunefnd fyrirspurn til Útlendingastofnunar og barst tölvupóstur með svari við henni þann 14. maí 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Flutningur kæranda til Svíþjóðar fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda lýsir kærandi ástæðum þess að hann hafi ákveðið að sækja um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Hann hafi lent í útistöðum við fjölskyldu stúlku í heimaríki, sem hann hafi átt í sambandi við, en fjölskylda hennar hafi viljað hann feigan og hafi ættingjar stúlkunnar m.a. reynt að keyra á sig. Að sögn hafi kærandi hlotið líkamsáverka við þessa ákeyrslu. Kærandi mótmælir endursendingu til Svíþjóðar enda hafi hann orðið fyrir mismunun í flóttamannabúðum þar í landi auk þess sem hann telji málsmeðferð sína í Svíþjóð hafa verið ábótavant þar sem hann hafi fengið ófullnægjandi aðstoð frá lögfræðingi sínum. Kærandi kveður andlega heilsu sína ekki góða. Hann hafi tjáð hjúkrunarfræðingi hér á landi að […] og hafi óskað eftir framhaldsviðtali hjá Útlendingastofnun til þess að lýsa þeim atburðum nánar. Kærandi gagnrýnir þá ákvörðun Útlendingastofnunar að neita honum um framhaldsviðtal. […].

Þá gerir kærandi athugasemd við þá ákvörðun Útlendingastofnunar að meta sig ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, […]. Telur kærandi synjun Útlendingastofnunar á framhaldsviðtali vera í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í tölvupósti frá starfsmanni Útlendingastofnunar til talsmanns kæranda hafi komið fram að stofnunin myndi leggja til grundvallar í málinu […]. Í ákvörðuninni hafi aftur á móti komið fram að ekki væri unnt að leggja það til grundvallar ákvörðuninni enda um að ræða meint samtal sem kærandi hafi átt við talsmann. Gerir kærandi athugasemdir við framangreint og telur að stofnuninni hafi borið að kalla sig til viðtals til þess að afla frekari upplýsinga um málið. Kærandi gerir auk þess athugasemd við orðalag í ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem fram virðist koma minnispunktur starfsmanns innan sviga og án tilvísunar. Telur kærandi að fullyrðingin sem fram komi í minnispunktinum, um að boðið sé upp á sértæka þjónustu fyrir umsækjendur í viðkvæmri stöðu í Svíþjóð, sé ekki rétt og nefnir nokkur atriði máli sínu til stuðnings. Þá lýsir kærandi aðstæðum og réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð.

Kröfu sína um að taka skuli mál kæranda til efnismeðferðar byggir kærandi í fyrsta lagi á því að uppi séu sérstakar ástæður í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu til stuðnings þeirri fullyrðingu að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laganna. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að kanna sérstaklega einstaklingsbundnar ástæður hans og þær afleiðingar sem endursending hans til Svíþjóðar geti haft í för með sér. Kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna mismununar sem hann hafi orðið fyrir í Svíþjóð og vegna […]. Af þeim sökum séu uppi sérstakar ástæður í máli hans í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá bendir kærandi á nýlegar breytingar á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga en hann telur að breytingin þrengi mjög að réttri túlkun á ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Með vísan til meginreglu íslensks réttar um bann við afturvirkni laga sé íslenskum stjórnvöldum óheimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar í máli kæranda.

Kærandi byggir kröfu sínu í öðru lagi á því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda myndi endursending hans til Svíþjóðar brjóta gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement. Bendir kærandi á að hann hafi fengið synjun á umsókn sinni í Svíþjóð og því standi til að senda hann aftur til heimaríkis en í greinargerð kæranda vísar hann til skýrslna alþjóðlegra stofnanna og samtaka sem lýsa bágum aðstæðum í heimaríki hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki talinn vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Í gögnum um heilsufar kæranda, þ. á m. viðtölum við kæranda hjá Útlendingastofnun, kemur fram að kærandi sé almennt við góða líkamlega heilsu að undanskildum verki í baki. Í komunótum hjúkrunarfræðings hjá Göngudeild sóttvarna dags. 19. janúar 2018 kemur fram að kærandi sofi mjög illa og fái martraðir. Þá kemur fram að […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 30. janúar 2018, var kærandi spurður nánar út í andlegt heilsufar. Kvað kærandi sig vera þreyttan og að atburðir í lífi hans hafi valdið honum andlegum erfiðleikum. […].

Kærunefnd sendi fyrirspurn til Útlendingastofnunar þann 7. maí 2018 um hvort framangreindar komunótur hafi legið fyrir þegar síðara viðtal við kæranda fór fram þann 30. janúar 2018. Í svari Útlendingastofnunar, sem barst kærunefnd þann 14. maí 2018, kemur fram að komunóturnar hafi borist til stofnunarinnar þann 7. febrúar 2018. Þá hafi kærandi sent Útlendingastofnun tölvupóst þann 7. febrúar 2018 þar sem hann hafi óskað eftir því að fá að koma í framhaldsviðtal. Svaraði stofnunin því þann 8. febrúar 2018 að fyrir lægi að kærandi […] og að stofnunin hygðist leggja það til grundvallar í málinu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom þrátt fyrir þetta fram í tvígang að ekki yrði byggt á því að kærandi hafi […].

Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindu að Útlendingastofnun veitti kæranda rangar leiðbeiningar varðandi þann farveg sem mál hans hafði verið lagt í sem leiddi til þess að kærandi hafði ekki rétta mynd af þörf á framlagningu gagna af sinni hálfu, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en nánar er fjallað um þennan þátt rannsóknar málsins hjá Útlendingastofnun síðar í þessum úrskurði. Við mat á því hvaða málsatvik teljast upplýst í málinu verður kærandi því ekki látinn bera hallann af því að hafa ekki lagt fram frekar gögn hvað þetta varðar hjá Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar verða upplýsingar sem fram komu í komunótu Göngudeildar sóttvarna […] því lagðar til grundvallar við úrlausn málsins og kærandi að öðru leyti látinn njóta vafans […]. Að mati kærunefndar er kærandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda eru aðstæður hans þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér og hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 28. mars 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Annual Report on the situation of Asylum in the European Union 2016 (European Asylum Support Office, 5. júlí 2017),
  • Freedom in the World 2017 – Sweden (Freedom House, 1. september 2017),
  • Sweden 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Good Advice for Asylum seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, janúar 2017),
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016) og
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í framangreindum gögnum kemur fram að sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Að sama skapi er umsækjendum tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Umsækjendum er tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu vegna líkamlegra eða andlegra vandamála ásamt tannlæknaþjónustu. Sveitarfélagið þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í hefur milligöngu um að útvega umsækjanda lækni og aðra heilbrigðisþjónustu við hæfi. Þá er umsækjanda tryggður sérstakur stuðningur og hjálp vegna viðkvæmrar stöðu, t.d. vegna andlegrar heilsu. Greiða þarf komugjald vegna heimsóknar á heilsugæslu en innlögn á spítala er umsækjanda að kostnaðarlausu. Fari kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fram úr ákveðinni upphæð er hægt að óska eftir fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Í ljósi innleiðingar tilskipunar Evrópusambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd í sænsk lög hefur sænska útlendingastofnunin sett á laggirnar starfshóp sem greinir viðkvæma einstaklinga í umsóknarferlinu um alþjóðlega vernd. Sænska útlendingastofnunin hefur því lagt fram ákveðin viðmið sem fara skal eftir til að greina umrædda umsækjendur sem eru í þörf fyrir sérstakar ráðstafanir.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að í Svíþjóð sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. IV. kafli sænskra laga um útlendinga (s. Utlänningslagen 2005:716). Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð sænskra yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur þeirra sé ekki brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendi til þess að umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Svíþjóð eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum um aðstæður í Svíþjóð verður jafnframt ráðið að verði kærandi fyrir ofbeldi eða hótunum um ofbeldi þar í landi geti hann leitað ásjár sænskra yfirvalda vegna þeirra. Einnig telur kærunefnd að af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð megi ráða að umsækjendur hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og er það mat kærunefndar að kærandi komi til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þá benda framangreindar landaupplýsingar um aðstæður í Svíþjóð til þess að kærandi fái viðunandi lögfræðiaðstoð auk þess að geta lagt fram viðbótarumsókn ef fram komi upplýsingar sem áhrif geti haft á mál hans.

Í ljósi framangreindra landaupplýsinga um aðstæður í Svíþjóð og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.Kærandi kvaðst m.a. í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 30. janúar 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 31. desember 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi bendi á að fram komi í komunótum Göngudeildar sóttvarna, dags. 19. janúar 2018, að kærandi hafi […] en að ekkert hafi komið fram um […] í viðtali hjá Útlendingastofnun sem fram fór ellefu dögum síðar, þann 30. janúar 2018. Í tölvupósti frá talsmanni kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 7. febrúar 2018, komi fram að kærandi óski eftir því að fá að koma í framhaldsviðtal til að ræða nánar […]. Í svari stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2018, segi að fyrir liggi í gögnum málsins að umsækjandi hafi […] og að stofnunin muni leggja það til grundvallar í málinu. Þrátt fyrir framangreindar leiðbeiningar, sem vörðuðu með beinum hætti gögn í málinu, kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki sé byggt á því við ákvörðunina að kærandi hafi […].

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Þegar mál hefst að frumkvæði aðila máls getur stjórnvald beint þeim tilmælum til aðila að leggja fram nauðsynleg gögn sem með sanngirni má ætla að hann geti lagt fram. Í þeim tilvikum er rétt af stjórnvaldi að leiðbeina aðila um framlagningu slíkra gagna, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Að jafnaði verður aðili ekki látinn bera hallann af því að skort hafi á framlagningu tiltekinna gagna nema honum hafi verið leiðbeint um að leggja fram slík gögn.

Líkt og að framan hefur verið rakið lagði kærandi fram gögn hjá Útlendingastofnun við meðferð málsins sem bentu til þess að hann hefði […] en fékk svör frá Útlendingastofnun sem bentu eindregið til þess að ekki væri nauðsynlegt að leggja fram frekari gögn til að upplýsa um þetta atriði. Þrátt fyrir það var í ákvörðun Útlendingastofnunar ekki litið svo á að umrædd málsatvik væru upplýst. Í ljósi hinna röngu leiðbeininga telur kærunefnd að meðferð málsins hafi falið í sér brot á 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Til viðbótar við framangreindar athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun telur kærunefnd óhjákvæmilegt að gera athugsemd við tilteknar fullyrðingar í rökstuðningi ákvörðunarinnar. Varðandi […] er í rökstuðningi m.a. vísað til þess að kærandi hafi „þrátt fyrir að vera þráspurður um það í viðtölum“ ekki tjáð sig um […] og að því verði ekki byggt á því í ákvörðuninni. Þá kemur fram varðandi umrædda reynslu að ekki sé unnt að leggja „meint samtal sem umsækjandi átti við talsmann, án þess að slíkt sé staðfest eða að það vitnað að öðru leyti“, til grundvallar í ákvörðun. Kærunefnd tekur fram að framangreindar fullyrðingar í rökstuðningi Útlendingastofnunar eiga sér að mati nefndarinnar ekki stoð í gögnum málsins. Þótt kærandi hafi ekki tilgreint umræddan atburð þegar Útlendingastofnun spurði hann […] verður að mati nefndarinnar ekki fallist á að kærandi hafi verið „þráspurður“ um atburðina í viðtölum. Þvert á móti vísar kærandi til þess í viðtali að hann hefði upplifað mikið af vandamálum en ekki fæst ráðið af endurriti viðtals hjá Útlendingastofnun að sérstaklega hafi verið gengið á eftir því við kæranda hvaða aðrir atburðir en þeir sem hann tilgreindi fyrst í viðtalinu hefðu haft áhrif á hann. Þá liggur fyrir að frásögn kæranda af […] komu fram í skoðun hjúkrunarfræðings á Göngudeild sóttvarna 19. janúar 2018 og eru skráðar í sjúkraskrá kæranda. Því er ekki um að ræða að upplýsingarnar hafi einungis komið fram í „meintu“ samtali umsækjanda við talsmann eins og staðhæft er í ákvörðun Útlendingastofnunar.

Þá segir í rökstuðningi Útlendingastofnunar varðandi mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu m.a. að „því [fari] fjarri að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd nái því alvarleikastigi í Svíþjóð.“ Í því sambandi bendir kærunefnd á að í úrskurðarframkvæmd nefndarinnar eru nokkur dæmi þess að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málum sem varða synjun á efnismeðferð og endursendinga til Svíþjóðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Er framangreind fullyrðing því ekki í samræmi við þau sjónarmið sem Útlendingastofnun er skylt að beita við túlkun ákvæðisins. Kærunefnd bendir jafnframt á umfjöllun á bls. 8 í ákvörðun Útlendingastofnunar um þjónustu fyrir umsækjendur í viðkvæmri stöðu í Svíþjóð. Þar komi fram innskot innan sviga í formi minnispunkts sem bendi til þess að rannsaka þurfi betur þá fullyrðingu að sértæk þjónusta sé í boði fyrir umsækjendur í viðkvæmri stöðu í Svíþjóð en ekki hér á landi. Gerir kærunefnd athugasemd við þetta atriði í hinni kærðu ákvörðun.

Að mati kærunefndar verður ekki hjá því komist að gera heildstæða athugasemd við framsetningu rökstuðnings Útlendingastofnunar. Bersýnilega ónákvæmar og rangar fullyrðingar eins og þær sem koma fram í ákvörðun stofnunarinnar eru ekki til þess fallnar að auka traust á málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Þá áréttar kærunefnd mikilvægi þess að gætt sé hlutleysis við framsetningu rökstuðnings ákvarðana Útlendingastofnunar og að rökstuðningur endurspegli tilhlýðilega virðingu fyrir þeim málsástæðum sem bornar eru fram í málinu, sbr. t.d. 14. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að ágallar hafi verið á leiðbeiningum, rannsókn og rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda. Í þessum úrskurði hefur kærandi notið vafans varðandi tiltekin málsatvik í málinu og hefur því verið bætt úr þeim annmörkum við meðferð málsins. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og er niðurstaða kærunefndar sú sama og Útlendingastofnunar. Í ljósi þess telur kærunefnd ljóst að framangreindir ágallar hafi ekki haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar. Verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi af þeim sökum.

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018 voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Að mati kærunefndar fól gildistaka reglugerðarinnar ekki í sér íþyngjandi breytingar á réttarstöðu kæranda. Koma því sjónarmið um afturvirkni laga, að því marki sem þau kynnu að vera sambærileg varðandi setningu stjórnvaldsfyrirmæla, ekki til skoðunar í þessu máli.

Þá verður ekki litið svo á að setning reglugerðarinnar gangi gegn almennri túlkun og skýringu á lögum um útlendinga að því er varðar aukna áherslu á mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins enda sé ljóst að vilji löggjafans hafi staðið til þess að slíkt samstarf hefði vægi við beitingu 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá tekur kærunefnd ekki undir það sjónarmið kæranda að með reglugerðarbreytingunni hafi verið horfið frá þeirri þróun að gefa sérstaklega viðkvæmri stöðu einstaklinga aukið vægi við mat á sérstökum ástæðum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands 31. desember 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Svíþjóðar ekki síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                     Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum