Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 02050043


Ráðuneytinu hefur borist kæra AquaCo ehf. vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 27. maí 2002 um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugðaðrar stækkunar álvers Norðuráls á Grundartanga.

I. Hinn kærði úrskurður og málsatvik

Í matsskýrslu er kynnt stækkun Norðuráls á Grundartanga sem hefur í för með sér framleiðsluaukningu í allt að 300.000 tonn á ári. Helstu mannvirki fyrirhugaðrar stækkunar eru tveir kerskálar, þurrhreinsivirki, nýr súrálsgeymir, stækkun á þjónustubyggingum og efnisflutningakerfi, stækkun á steypuskála og stækkun á skautsmiðju. Auk þess verður gámasvæði við höfnina stækkað. Norðurál hefur nú starfsleyfi fyrir allt að 180.000 tonna ársframleiðslu og gildir það til ársins 2008.

Skipulagsstofnun kvað þann 27. maí 2002, upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar var að fallist væri á fyrirhugaða stækkun Norðuráls á Grundartanga eins og hún var kynnt í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila.

II. Kröfur og málsástæður kærenda

Í kæru AquaCo ehf. kemur fram að fyrirtækið hefur átt og rekið fiskeldisstöðina Strönd í Hvalfirði um árabil. Fyrirtækið hafi nú hafið undirbúning á umfangsmiklu þorskeldi í stöðinni og hafi leyfi til að vera með allt að 200 tonn á ári af þorski í sjókvíum framan við stöðina. Einnig hafi fyrirtækið verið með í ræktun um 200.000 bleikju og regnbogaseiði í seiðastöð félagsins að Bakka í Ölfusi, sem flutt verða í stöðina til áframeldis. Sjó úr firðinum verði dælt í landkerin um inntak framan við stöðina.

Kærandi bendir á að samkvæmt matsskýrslu muni stækkun álvers Norðuráls hafa í för með sér aukningu á losun mengandi úrgangsefna bæði í sjó og andrúmsloft. Bendir hann á að fiskeldisstöðin Strönd sé einungis í um 4,5 sjómílna fjarlægð frá álverinu og telur kærandi að stöðin sé innan þynningarsvæðis álversins. Í kæru kemur fram að á innfalli sé straumhraði í firðinum allt að 2 sjómílur og mengandi úrgangs- og losunarefni frá álverinu geti því borist að fiskeldisstöðinni á einungis 2-3 klst. Mengun í andrúmslofti geti hins vegar borist miklu hraðar standi vindar þannig. Þá bendir kærandi á að í matsskýrslu komi fram að mikil aukning verði á skipaferðum til álversins. Að hans mati fylgir því mikil hætta þar sem skipin flytji efni sem eru skaðleg náttúru og lífríki, auk þess sem þau flytji með sér ballest, sem tekin er um borð erlendis en losuð hvar sem er. Kærandi er ekki fylgjandi því að fram fari vothreinsun á útblæstri frá álverinu þar sem slíkt muni valda aukningu á mengunarefnum í sjó. Kærandi bendir á að nýlega hafi borist fréttir frá Noregi þar sem komið hafi í ljós að mengun frá álverum hafi valdið skaða á fiski í fjörðum við álverin. Að lokum bendir kærandi á að fram komi í matsskýrslu að eitt af aðalsýnum rannsóknar á lífríki framan við álverksmiðjuna hafi glatast.

Kærandi krefst þess að fram fari ítarlegar rannsóknir vegna mengunar frá álverinu sérstaklega gagnvart sjávarlífríki og að ekki glatist jafn mikilvæg sýni við slíkar rannsóknir eins og fram hefur komið. Að öðru leyti koma ekki fram í kæru hverjar eru kröfur kæranda.

III. Einstök kæruatriði og umsagnir um þau

1. Almennt

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum var framangreind kæra send þann 1. ágúst 2002 til umsagnar Skipulagsstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Norðuráls, Veiðimálastjóra, Hafrannsóknarstofnunar, Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps. Frestur til að veita umsagnir var til 16. ágúst 2002. Umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands þann 21. ágúst 2002, Norðuráli og Veiðimálastjóra þann 14. ágúst 2002, Hafrannsóknarstofnuninni og Skilmannahreppi þann 16. ágúst 2002 og Hvalfjarðarstrandarhreppi þann 7. ágúst.

Framangreindar umsagnir voru sendar til kærenda til athugasemda með bréfum ráðuneytisins þann 21. og 28. ágúst 2002. Athugasemdir bárust frá frá kæranda með bréfum þann 4. og 6. september 2002.

2. Umhverfisáhrif framkvæmdar

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins um kæru Aquaco ehf. segir: Vegna þeirra atriða sem koma fram í kæru AquaCo vill Hollustuvernd ríkisins taka fram eftirfarandi:

1. Í kærunni er fullyrt að fiskeldistöðin Strönd sé innan þynningarsvæðis fyrir álverið. Í fyrsta lagi bendir Hollustuvernd ríkisins á að í tillögu að starfsleyfi er ekki gert ráð fyrir vothreinsun og því verður ekki skilgreint þynningarsvæði í sjó. Auk þess nær þynningarsvæði sem kynnt var í matsskýrslu innan við 1/2 sjómílu í áttina að Strönd.

2. Fleiri skipaferðir að Grundartanga auka að vissu leyti áhættu á slysum, t.d. af olíu eða fljótandi kjölfestu, en það er sama hvort það er vegna álversstækkunar eða aukningu almennra umsvifa. Iðnaðarhöfn hefur verið staðsett við Grundartanga í aldarfjórðung. Efnin sem flutt eru inn vegna álversins (súrál og forbökuð rafskaut) eru ekki skaðleg náttúru eða lífríki og því ekki ástæða til þess að óttast stórkostlegt náttúruslys" vegna þeirra.

3. Flest þau efni sem talin eru upp í stjórnsýslukæru AquaCo eru ekki talin skaðleg í sjó. Helst gætu PAH efni og þungmálmar haft áhrif á lífríki sjávar ef þau eru í miklu magni. Þessi efni eru hins vegar tiltölulega lítið tengd álverum. Það eru helst losun PAH efna sem fylgja rafskautaverksmiðjum fyrir álver, en rafskautaverksmiðja er ekki á dagskrá í þessari umfjöllun. Einnig ítrekar Hollustuvernd ríkisins að ekki er gert ráð fyrir vothreinsun og því verður ekki um að ræða beina losun efna í sjó.

4. Hvalfjörður er ekki lítill fjörður. Sjávarfallastraumar og annað innstreymi sjávar er inn fjörðinn að sunnanverðu og út að norðanverðu. Álverið er því undan straumi séð frá fiskeldisstöðinni.

5. Samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar er ekki krafist vothreinsunar, og ekki er gert ráð fyrir vothreinsun í tillögu að starfsleyfi. Með vothreinsun yrði mengunarefnum veitt til sjávar sem annars dreifast með vindi. Andstætt við það sem haldið er fram í stjórnsýslukæru veldur vothreinsun auknum kostnaði.

6. Í kæru er umfjöllun um mengun sjávar frá álverum í Noregi. Hollustuvernd ríkisins bendir á að sú umræða hefur að mestu verið tengd álverum sem nota Söderberg tækni og vothreinsun, en ekki forbökuð skaut og þurrhreinsun eins og hér er gert.

7. Hollustuvernd ríkisins tekur undir að það er óheppilegt að rannsóknabúr tapist og tryggja verður að slíkt endurtaki sig ekki. Hins vegar bendir stofnunin á að sýni nær fiskeldisstöðinni glötuðust ekki og niðurstöður úr þeim liggja fyrir. Hvað varðar aðrar rannsóknir á lífríki og mengun umhverfis Grundartanga vísast til umræðu og ákvæða um vöktun í matsskýrslu og tillögu að starfsleyfi.

Af framanrituðu telur Hollustuvernd ríkisins að rök bendi ekki til þess að stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga muni hafa bein skaðleg áhrif á lífríki sjávar og valdi þannig skakkaföllum á fiskeldi við Saurbæ."

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að í kærunni sé ekki fjallað um úrskurð Skipulagsstofnunar, málsmeðferð eða niðurstöðu og engar kröfur gerðar sem að honum beinast. Telur Skipulagsstofnun því ekki ástæðu til efnislegrar umfjöllunar um kæruna. Varðandi umfjöllun og niðurstöður um áhrif fyrirhugaðrar stækkunar á lífríki Hvalfjarðar vísar Skipulagsstofnun til kafla 5.3 og 5.4 í úrskurðinum.

Fram kemur í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands að starfsleyfi til Aquaco ehf. var gefið út þann 20. nóvember 2000 fyrir framleiðslu á allt að 200 tonnum regnbogasilungs í sjókvíum út af Strönd, Hvalfjarðarstrandarhreppi. Hinn 5. júlí 2002 var leyfinu breytt að beiðni rekstrarhafa þannig að í stað regnbogasilungs var leyfð allt að 200 tonna framleiðsla á þorski. Þegar starfsleyfi var gefið út, hafi umsækjanda verið ljóst að eldiskvíar lægju nálægt siglingarleið. Því óskaði heilbrigðisnefnd m.a. eftir umsögn frá hafnaryfirvöldum á Akranesi áður en leyfi var gefið út og sett var inn sérstakt ákvæði vegna þessa í gr. 1.8. í starfsleyfi. Í umsögninni kemur einnig fram að ekki hafi verið stundað fiskeldi um nokkurt árabil úti fyrir Strönd.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands kemur jafnframt fram að nokkrir heilbrigðisnefndarmenn hafi sótt kynningarfundi Norðuráls, m.a. þann sem fjallaði um fyrirhugaða stækkun álversins í allt að 300.000 tonna framleiðslu. Á þeim fundum hafi m.a. verið fjallað um töluleg gildi vegna mengunarmælinga og ekki væri að sjá að mengun færi yfir eða lægi nærri þeim þröskuldum sem finna má í gildandi starfsleyfi fyrirtækisins. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins breytist þynningarsvæði verksmiðjunnar ekkert við fyrirhugaða stækkun. Að lokum segir í umsögninni að Heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi ekki gert efnislegar athugasemdir við skýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum á stækkun Norðuráls í allt að 300.000 tonna framleiðslu.

Fram kemur í umsögn Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps að heimamenn kannast ekki við þá starfsemi sem lýst er í kæru að fram fari á Strönd, neðan Hallgrímskirkju í Saurbæ. Að öðru leyti vísa hrepparnir til umsagna sinna til Skipulagsstofnunar, en þar er lögð áhersla á að mengun af völdum álversins verði haldið í lágmarki og reynt verði að takmarka hljóðmengun frá álverinu sem valdið hefur nágrönnum þess óþægindum.

Í umsögn Veiðimálastjóra er bent á að Hvalfjörður er friðunarsvæði gagnvart eldi á frjóum eldislaxi vegna nálægðar við laxveiðiár. Því sé ljóst að eldi á laxfiskum í Hvalfirði verður mjög takmarkað en ekki liggi fyrir afstaða sjávarútvegsráðuneytis og Fiskistofu gagnvart stórfelldu eldi sjávarfiska á svæðinu.

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar kemur fram að samkvæmt matsskýrslu Norðuráls sé gert ráð fyrir þurrhreinsun (reykhreinsivirki) við álverið og því sé engin hætta á að mengandi efni berist með sjó að eldisstöðinni. Að vísu sé ekki hægt að útiloka að mengandi efni frá reykhreinsivirki lendi í sjó, sbr. loftdreifingarspá í matsskýrslu, en það yrði í mjög litlum mæli og hæpið að það ylli skaða á fiskeldi. Ef álverið væri hins vegar útbúið með vothreinsivirki sé mjög ólíklegt samkvæmt útreiknaðri dreifingaspá að nokkur efni mundu berast að eldisstöðinni nema hugsanlega PAH efni í mjög litlu magni í yfirborði. Dreifingarspár fyrir önnur efni sýni að efni þynnist mjög fljótt og leiti frekar út úr firðinum en inn í hann. Það sé þó ekki hægt að útiloka að einhver efni gætu borist að eldisstöðinni í einstaka tilvikum ef straumar og vindar legðust á eitt en slík tilfelli teldust til undantekninga.

Varðandi hættu á umhverfisslysi vegna aukinna skipaferða um höfnina á Grundartanga segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunarinnar að hætta á sjóslysum sé alltaf fyrir hendi, en hún sé ekki meiri við Grundartanga en í öðrum höfnum landsins. Vandamál samfara flutningi og losun á ballestsjó séu vel þekkt og geti hugsanlega valdið tjóni. Slík vandamál séu þó ekki einsdæmi fyrir Grundartanga og Hvalfjörð frekar en aðrar hafnir eða firði á landinu. Lausn á því vandamáli á heimsvísu hafi ekki fundist til þessa og því sé ekki ljóst hvernig bregðast eigi við vandamálinu hér á landi.

Að lokum segir í umsögn Hafrannsóknarstofnunar að matsskýrsla Norðuráls geri mjög vel grein fyrir þeim þáttum er varða efni frá álverinu sem skapað geta súrt regn. Mun minni hætta sé á súru regni hér á landi en í Norður-Evrópu. Samkvæmt dreifingarspá lendi minnihluti þeirra efna sem kærandi telur upp í sjó og dreifist þar.

Varðandi þá fullyrðingu kæranda að fiskeldisstöðin Strönd sé innan þynningarsvæðis álversins segir í umsögn Norðuráls: Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá mars 2002 er fjallað um dreifingu mengunar í sjó frá hugsanlegum vothreinsibúnaði við álverið. Heildarniðurstaða fyrir dreifingu efna í sjó er sú að öll efni sem reiknað var fyrir, önnur en PAH efni, þynnast mjög fljótt út frá útrás og ná bakgrunnsstyrk sjávar. Ef til vothreinsunar kæmi þá gætu PAH efni safnast fyrir í seti umhverfis útrásina en þynnist síðan ört. Á mynd 13.8 í matsskýrslu er kynnt hugsanlegt þynningarsvæði í sjó sem nær í tæplega 2 km fjarlægð frá álverinu. Svæði í flokki I (óveruleg eða lítil mengun) nær í um 4,5 km fjarlægð frá álverinu en fiskeldisstöðin er hins vegar í um 8 km fjarlægð frá álverinu (miðað við staðsetningu neðan Saurbæjarkirkju) og því langt utan skilgreinds þynningarsvæðis og einnig töluvert utan svæðis sem vænta má óverulegrar eða lítillar mengunar."

Norðurál tekur fram í umsögn sinni að vothreinsibúnaður er ekki fyrirhugaður við álverið á Grundartanga. Í úrskurði Skipulagsstofnunar frá maí 2002 komi fram að Norðurál muni beita bestu fáanlegu tækni (BAT) í áliðnaði og ekki sé þörf á vothreinsun á útblástur frá álverinu til viðbótar við þurrhreinsun. Hins vegar telji Skipulagsstofnun ekkert því til fyrirstöðu að vothreinsun verði sett á útblástur verksmiðjunnar þar sem mengun frá vothreinsun mun verða ásættanleg utan framlagðs þynningarsvæðis í sjó. Í umsögninni kemur einnig fram að álvinnsla er þurrt vinnsluferli og hefur ekki í för með sér eiginlegt iðnaðarskólp. Sjór er notaður sem kælivatn sem veitt er í lokuðum kerfum og fer því ómengaður aftur til sjávar. Frárennsli nær því einungis til afrennslis frá eldhúsi, starfsmannaaðstöðu og af yfirborð og í þeim tilfellum séu notaðar rotþrær, olíugildrur og siturlagnir. Varðandi losun efna frá flæðigryfjum bendir Norðurál á að förgun kerbrota í flæðigryfjur er viðurkennd aðferð skv. BAT skýrslum ESB. Enn sem komið er hafi ekki fundist nein merki neikvæðra umhverfisáhrifa vegna þessa og hafi Hollustuvernd ríkisins ekki gert athugasemdir við þá tilhögun sem lögð er fram í matsskýrslu. Í úrskurði sínum telji Skipulagsstofnun allar líkur á því að förgun kerbrota frá álverinu verði ásættanleg en jafnframt beri að leggja áherslu á vöktun áhrifa útskolunar efna úr kerbrotagryfju.

Varðandi mengun í andrúmslofti bendir Norðurál í umsögn sinni á að utan þynningarsvæðis í lofti séu allar kröfur íslenskra umhverfismarka og umhverfismarka ESB uppfylltar. Þynningarsvæði álversins á Grundartanga nái um 1,5 km í áttina að Saurbæjarkirkju og því sé fiskeldisfyrirtækið í rúmlega 6,5 km fjarlægð frá ystu mörkum þynningarsvæðisins. Telur Norðurál óhugsandi að loftmengun frá álverinu muni berast slíka leið og því verði ekki um að ræða aukna hættu fyrir fiskeldið af völdum losunar álversins. Norðurál bendir á að í úrskurði Skipulagsstofnunar komi fram að stofnunin telur að Norðurál hafi sýnt fram á að þrátt fyrir að um verulega stækkun álversins verði að ræða séu áætluð útblásturmörk fyrirtækisins raunhæf forsenda fyrir afmörkun þynningarsvæðis, þ.e. að núverandi þynningarsvæði verði óbreytt eftir framleiðsluaukningu álversins í allt að 300.000 tonn á ári. Þetta byggi á framlögðum gögnum og reynslu sem hefur fengist af rekstri fyrirtækisins og vöktun á styrk mengunarefna frá álverinu.

Í umsögn Norðuráls kemur fram að auknar skipakomur munu fylgja stækkun álvers en þó minni en ella þar sem gert sé ráð fyrir stærri förmum og lengri viðlegutíma. Bendir Norðurál á að efni sem flutt séu til og frá álverinu flokkist ekki undir það að vera skaðleg efni". Því séu fullyrðingar í kæru um hættu á stórkostlegu náttúruslysi" ekki á rökum reistar. Norðurál telur í umsögn sinni ólíklegt að álverið á Grundartanga muni valda súru regni þar sem brennisteinsdíoxíð þynnist fljótt í andrúmsloftinu. Jafnframt telur Norðurál varasamt að bera saman starfsemi álvera á Íslandi og í Noregi eins og gert er í kæru. Í Noregi sé vothreinsun á öllum álverum en með vothreinsun flyst losun efna að stórum hluta til sjávar. Einnig séu álver í Noregi flest eða að hluta til af eldri gerð, svonefnd Söderberg álver, en mengun frá þeim sé margfalt meiri en frá álverum sem nota forbökuð rafskaut (Prebake) líkt og gert er hér á landi. Hér sé því um tvö ólík framleiðsluferli að ræða sem geri allan samanburð rangan.

Varðandi kröfu kæranda um ítarlegar rannsóknir á lífríki sjávar í Hvalfirði segir í umsögn Norðuráls: Í matsskýrslu kemur fram að árið 2000 var gerð rannsókn á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (Rf) á magni PAH-efna og ólífrænna snefilefna (þung-málma) í mjúkvöðva kræklings á grunnsævi við Grundartanga. Í rannsókninni voru fyrst og fremst athuguð áhrif efna sem skolast úr flæðigryfjum vegna ágangs sjávar. Undirverktaki Rf sá um að setja út kræklingabúr samkvæmt fyrirmælum Rf. Sett voru út kræklingabúr á 1 og 5 m dýpi á 5 stöðum innan við 500 metra frá landi. Gróf staðsetning búranna var sem hér segir: 2,6 km austan verksmiðjusvæðis (viðmiðunarsýni) 1km austan verksmiðjusvæðis, mitt á milli verksmiðja, 1 km vestan verksmiðjusvæðis og 3 km vestan verksmiðjusvæðis.

Eitt aðalsýni rannsóknarinnar glataðist en það voru búr á 1m og 5m dýpi framan við verksmiðjusvæðið líklegast vegna skipaumferðar. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins segir í skýrslu sinni að hafa hefði átt samráð við starfsmenn á verksmiðjusvæðinu um heppilega staðsetningu búrsins. Að öðru leyti sýndu niðurstöðurnar engin áhrif álversins eða kerbrotagryfja á krækling í nágrenni Grundartanga. Þótt eitt sýni hafi glatast þá ættu áhrif flæðigryfjanna, ef einhver væru, að hafa komið fram í öðrum þáttum rannsóknarinnar vegna þess að mestar líkur eru á að sjá ummerki verksmiðjurekstrar framan við og vestan við athafnasvæðið vegna þess að meðalhafstraumar í Hvalfirði ganga frá austri til vesturs framhjá Grundartanga. Niðurstöður mælinga á kræklingum austan og vestan við verksmiðjusvæðið gáfu margfalt minna magn ólífrænna snefilefna, PAH-efna og flúors í kræklingi en mælst hefur víða annars staðar í Norður-Atlantshafi. Ástæðan er rakin til þess hve miklir straumar og hröð vatnsskipti eru framan við iðnaðarsvæðið. Í ljósi þessa var ekki talin ástæða til að endurtaka rannsóknina."

IV. Niðurstaða

1.

Í kæru koma ekki fram aðrar kröfur en þær að kærandi krefst þess að fram fari ítarlegar rannsóknir vegna mengunar frá álveri Norðuráls á Grundartanga. Með hliðsjón af efni kærunnar og athugasemdum kæranda telur ráðuneytið að líta verði svo á að í kærunni felist einnig sú krafa að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi.

Í matsskýrslu er gerð grein fyrir niðurstöðum loftdreifingarspár vegna útblásturs mengunarefna frá álverinu að Grundartanga miðað við 300.000 t ársframleiðslu. Á grundvelli þeirrar spár er í matsskýrslu gerð tillaga að þynningarsvæði, sbr. mynd 12.6 (bls. 105). Þar kemur fram að langtíma- og sólarhrings meðaltal brennisteinsdíoxíðs ásamt langtímastyrk loftborins flúoríðs hafa mestu dreifinguna og eru því ráðandi við ákvörðun á stærð þynningarsvæðis. Samkvæmt reglugerð nr. 790/1999, um brennisteinsdíoxíð og svifryk í andrúmslofti eru umhverfismörk fyrir sólarhringmeðaltal brennisteinsdíoxíðs 50 µg/m3 og við þau mörk er miðað við afmörkun þynningarsvæðis fyrir það efni. Jafnframt er tekið mið af norskum reglum um viðmiðunargildi fyrir loftborið flúoríð á vaxtartíma gróðurs og er það 0,3 µg/m3. Samkvæmt því sem fram kemur í matsskýrslu er gert ráð fyrir að þynningarsvæði álversins verði óbreytt eftir stækkun þess. Ráðuneytið telur að í matsskýrslu sé gerð fullnægjandi grein fyrir áætlaðri losun mengunarefna frá álveri á Grundartanga miðað við 300.000 t framleiðslu á ári. Að mati ráðuneytisins uppfylla áætlanir og mengunarvarnir Norðuráls ákvæði íslenskra laga og reglugerða og alþjóðlegra viðmiðana sem gilda hér á landi um losunar- og umhverfismörk.

Í kæru er því haldið fram að fiskeldisstöð kæranda sé innan þynningarsvæðis álversins, en hún mun vera í um 4,5 sjómílna fjarlægð frá álverinu. Ljóst er af gögnum málsins að það er ekki rétt, enda nær þynningarsvæði álversins um 1,5 km í áttina að fiskeldisstöðinni.

2.

Eins og fram kemur í matsskýrslu og umsögn Norðuráls er ekki gert ráð fyrir að álverið að Grundartanga verði búið vothreinsibúnaði. Fyrirhugaður mengunarvarnarbúnaður álversins mun taka mið af bestu fáanlegri tækni (BAT) í áliðnaði, í samræmi við 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og alþjóðlegar viðmiðanir á því sviði. Samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun dags. 9. janúar 2001, var farið fram á það að í matsskýrslu væri gerð könnun á þörf á vothreinsibúnaði samhliða þurrhreinsibúnaði og samanburður gerður á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar með og án vothreinsunar. Gerð er grein fyrir þessum þáttum í 13. kafla matsskýrslunnar og er þynningarsvæði í sjó afmarkað á mynd 13.8. Vothreinsibúnaður hreinsar mengunarefni úr útblæstri álvers og færir þau yfir í frárennslið. Heildarniðurstaða fyrir dreifingu efna í sjó frá hugsanlegum vothreinsibúnaði álvers Norðurál með 300.000 t ársframleiðslu er sú að öll efni sem reiknað var fyrir, önnur en PAH-efni, þynnast mjög fljótt út frá útrás og ná bakgrunnsstyrk sjávar. PAH-efni gætu hins vegar safnast upp í nokkru magni í seti á um 8 km2 stóru svæði umhverfis útrásina. Fiskeldisstöð kæranda er staðsett nokkra kílómetra utan við það svæði þar sem óverulegrar eða lítillar mengunar vegna PAH-efna má vænta, sbr. mynd 13.8 í matsskýrslu. Ráðuneytið telur því ekki ástæðu til að ætla að fiskeldisfyrirtækinu stafi hætta af völdum mengunarefna frá álverinu á Grundartanga, jafnvel þó að það væri búið vothreinsibúnaði. Bæði Hollustuvernd ríkisins og Hafrannsóknarstofnun benda auk þess á í umsögnum sínum að samkvæmt dreifingarspám leiti efni frá álverinu frekar út fjörðinn en inn hann og því séu litlar líkur á að þau berist að fiskeldisstöðinni.

Í kafla 13.8 í matsskýrslu er gerð grein fyrir samanburði á vothreinsun og þurrhreinsun. Vothreinsunar er helst þörf þar sem veðurfars- og landfræðilegar aðstæður krefjast þess og styrkur brennisteinsdíoxíðs er hár. Súrt regn frá iðnaðarsvæðum í Evrópu telst ekki vandamál hér á landi og loftdreifing er mjög góð í Hvalfirði. Ráðuneytið tekur því undir það mat Skipulagsstofnunar að með hliðsjón af niðurstöðum loftdreifingarspár og vöktunar, veðurskilyrðum á svæðinu og mengunarvarnarbúnaði þeim sem Norðurál hyggst nota við álverið verði ekki þörf á vothreinsun á útblástur frá álverinu. Jafnframt tekur ráðuneytið undir að ekkert sé því til fyrirstöðu að vothreinsun verði sett á útblástur verksmiðjunnar þar sem mengun frá vothreinsun muni verða lítil utan framlagðs þynningarsvæðis í sjó.

Eins og fram kemur í matsskýrslu er rafgreining á súráli þurrt vinnsluferli og hefur því ekki í för með sér eiginlegt iðnaðarskólp. Sjór er notaður sem kælivatn í lokuðum kerfum og fer því ómengaður aftur til sjávar. Frárennsli frá eldhúsi, starfsmannaaðstöðu og af yfirborði verður hreinsað á viðeigandi hátt. Ef álverið verður ekki búið vothreinsibúnaði er ekki um að ræða aðra losun mengunarefna en frá flæðigryfju þar sem kerbrot frá álverinu verða urðuð. Ráðuneytið telur að gerð sé nægjanleg grein fyrir framangreindum atriðum í matsskýrslu Norðuráls.

Ráðuneytið telur að þó ekki sé hægt að útiloka að mengunarefni úr útblæstri álvers lendi í sjó, sbr. mynd 12.6 í matsskýrslu af þynningarsvæði vegna útblásturs álversins, þá sé það í svo litlum mæli að ólíklegt sé að það geti valdið skaða á fiskeldi í þeirri fjarlægð sem fiskeldisstöð kæranda er.

Eins og fram kemur í umsögn Hollustuverndar ríkisins og Norðuráls er notuð önnur tækni og annarskonar mengunarvarnarbúnaður við álver í Noregi en við álver Norðuráls á Grundartanga. Ráðuneytið telur því að engin ástæða sé til að ætla að fullyrðingar kæranda um neikvæð umhverfisáhrif af völdum álvera í Noregi eigi við um umhverfisáhrif af völdum álversins að Grundartanga.

3.

Ljóst er að stækkun álversins á Grundartanga mun hafa í för með sér aukna skipaumferð. Skip þessi munu ekki flytja efni sem eru skaðleg náttúru eða lífríki. Ráðuneytið telur því ekki ástæðu til að ætla að auknar skipakomur muni hafa í för með sér skaðleg áhrif á umhverfi álversins. Iðnaðarhöfn hefur lengi verið að Grundartanga. Eins og fram kemur í umsögn Hafrannsóknarstofnunar eru vandamál tengd fljótandi kjölfestu (ballestsjó) og sú hætta á tjóni sem því getur fylgt ekki bundin við Grundartanga og Hvalfjörð heldur til staðar í öllum höfnum og fjörðum á landinu.

4.

Árið 2000 var gerð rannsókn á vegum Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins á magni PAH-efna og ólífrænna snefilefna (þungmálma) í mjúkvöðva kræklings á grunnsævi við Grundartanga. Kræklingi var komið fyrir í búrum á fjórum stöðum við Grundartanga og þau síðan tekin upp þrem mánuðum seinna. Búr næst verksmiðjunni glataðist en niðurstöður úr hinum þremur gáfu til kynna að áhrif verksmiðjurekstrarins væru lítil á þá þætti sem mældir voru. Mjög lítill styrkur PAH-efna mældist í kræklingnum. Fram kemur í skýrslunni að um sé að ræða töluvert minni mengun á svæðinu en þekkist í samsvarandi rekstri t.d. í Noregi. Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að eitt af sýnum rannsóknarinnar hafi glatast þá sé engin ástæða til að draga í efa að niðurstöður hennar séu réttar. Fram kemur í matsskýrslu að Norðurál hyggst standa að efnamælingum í kræklingi á 5 ára fresti a.m.k. til ársins 2009.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að taka til greina kröfur kæranda. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 27. maí 2002 er því staðfestur.

Úrskurðarorð.

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 27. maí 2002 er staðfestur.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta