Hoppa yfir valmynd

Mál 01020020

I. Hinn kærði úrskurður og málsatvik

1. Fyrirhuguð framkvæmd

Fyrirhuguð framkvæmd er lagning Hallsvegar, tveggja akreina stofnbrautar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að vegurinn verði 7,5 metra breiður og um 800 metra langur. Gert er ráð fyrir þrennum gatnamótum í tengslum við framkvæmdina. Framkvæmdaraðilar eru Vegagerðin og Reykjavíkurborg.

2. Hinn kærði úrskurður

Með vísun til 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, kærði LOGOS, lögmannsþjónusta, f.h. eigenda og íbúa í húsum nr. 1, 3, 16, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26, 27, 28, 29, 32, 33, 34, 36, 37, 38, 39, 41, 43, 45, 47, 49, 51, 53 og 55 við Garðhús í Grafarvogi í Reykjavík, með bréfi, dags. 10. september 2001, úrskurð um frekara mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar í Reykjavík, tveggja akreina vegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi frá 3. ágúst 2001. Með bréfi, dags. 11. september 2001 kærðu Íbúasamtök Grafarvogs einnig framangreinda framkvæmd.

Í hinum kærða úrskurði var fallist á fyrirhugaða lagningu tveggja akreina Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi eins og henni var lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila.

3. Málsatvik

Skipulagsstjóri ríkisins úrskurðaði um frummat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, þann 28. júní 2000, samkvæmt áðurgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Féllst skipulagsstjóri á framkvæmdina með því skilyrði að tryggt yrði með mótvægisaðgerðum að hljóðstig frá umferð um Hallsveg yrði undir 55 dB(A) við íbúðarhús við Garðhús og haft yrði samráð um mótvægisaðgerðirnar við eigendur þeirra fasteigna sem þær miðast við. Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra. Með úrskurði umhverfisráðherra, dags. 22. desember 2000, var úrskurður skipulagsstjóra felldur úr gildi og kveðið á um að frekara mat skyldi fara fram. Í úrskurðinum segir:

"Í frekara mati skal:

1. kanna frekar þörf á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar,

2. gera grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdarinnar á hljóðstig við Garðhús,

3. gera grein fyrir mótvægisaðgerðum sem miði að því að hljóðstig utan húss fari a.m.k. ekki upp fyrir 55 dB(A) og 30 dB(A) innanhúss miðað við endanlega gerð vegarins,

4. gera grein fyrir hugsanlegum neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerða,

5. gera grein fyrir hljóðstigi á hverri hæð fyrir sig,

6. afla álits Veðurstofu Íslands á áhrifum ríkjandi vindátta á framkvæmdasvæði á dreifingu mengunarefna og hávaða,

7. gera grein fyrir möguleikum á því að leggja Hallsveg í stokk."

Samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 skal mati á umhverfisáhrifum sem hafið er við gildistöku laga lokið samkvæmt eldri lögum og byggir úrskurður þessi því á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993.

II. Kæruefni

1. Kröfur kærenda

LOGOS, lögmannsþjónusta, f.h. eigenda og íbúa í húsum nr. 1, 3, 16, 19, 20, 21, 22, 23, 24, 25, 26, 27, 28, 29, 32, 33, 34,36, 37, 38, 39, 41, 43, 45, 47, 49, 51, 53 og 55 við Garðhús gerir eftirfarandi kröfur:

"a) Aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umhverfisráðherra setji óháðan aðila til að fara yfir skýrslu framkvæmdaraðila um frekara mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar í Reykjavík og kveða upp rökstuddan úrskurð um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli viðbótarmatskýrslunnar og fyrirliggjandi gagna.

b) Til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og umhverfisráðherra hafni framkvæmdum við Hallsveg í Reykjavík á þeim grundvelli, sem kynntur er í viðbótarmatsskýrslu framkvæmdaraðila.

c) Til þrautavara er þess krafist að umhverfisráðherra hafni framkvæmdum við Hallsveg í þeirri mynd sem lýst er í viðbótarmatsskýrslu en samþykki þann valkost að leggja veginn í stokk eins og lýst er í skýrslunni. Jafnframt verði framkvæmdaraðila gert að skila frekari gögnum um gerð stokksins, þar sem framlögð gögn um hann geta ekki talist fullnægjandi.

d) Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að umhverfisráðherra felli hinn kærða úrskurð úr gildi og úrskurði að frekara mats á umhverfisáhrifum sé þörf vegna annarra verkáfanga við Hallsveg og að þeir verði metnir samhliða fjögurra akreina vegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi eða a.m.k. að frekara mats sé þörf vegna fjögurra akreina Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi"

Íbúasamtök Grafarvogs taka undir kröfur og málsástæður ofangreindra íbúa við Garðhús.

2. Almennt um kröfugerð

Kærendur byggja aðalkröfu sína á því að ekki hafi verið formlega rétt staðið að hinum kærða úrskurði samkvæmt lögum sem leiði til þess að ógilda beri úrskurðinn. Telja kærendur, í fyrsta lagi, að hinn kærði úrskurður hafi ekki verið kveðinn upp af þar til bæru stjórnvaldi, í öðru lagi að Skipulagsstofnun og skipulagsstjóri hafi verið vanhæf til að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum ofangreindrar framkvæmdar, í þriðja lagi að kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar og í fjórða lagi að Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins.

Varakrafa kærenda er byggð á því að hinn kærði úrskurður sem og viðbótarmatsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli ekki þau skilyrði sem fram komu í úrskurði umhverfisráðherra þann 22. desember 2000 um frummat framkvæmdarinnar né lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993.

Þrautavarakrafa kærenda er byggð á því að það sé raunhæfur og eðlilegur kostur að leggja Hallsveg í stokk í ljósi aðstæðna á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sem og forsendna byggðaþróunar og umferðar. Útfærslur framkvæmdaraðila á hljóðvörnum séu óásættanlegar. Svo segir:

"Slík mannvirkjagerð myndi fela í sér gríðarlega breytingu og röskun á öllu umhverfi á svæðinu, auka slysahættu fyrir börn og raska öllum forsendum íbúa við Garðhús sem og forsendum fyrir hönnun húsa þeirra. Þegar litið er til þversniðsteikninga Arnar Sigurðssonar er ljóst að ekki er raunhæft að reisa slíkar hljóðmanir við Garðhús 3, 29, 33, 47, 49 og 51. Þá er það einsdæmi að ætlunin sé að bjóða umbj. okkar upp á 3-5,7 metra há mannvirki á lóðarmörkum þeirra, hvort heldur sem um er að ræða bara mön eða bæði jarðvegsmön og vegg. Hér er um að ræða gríðarleg mannvirki, sem ekki er raunhæft að reisa, auk þess sem þau myndi hafa veruleg óæskileg áhrif í för með sér auk gríðarlegrar skerðingar á verðmæti fasteigna umbj. okkar sem og lífsskilyrðum fjölskyldna þeirra. Þá verður heldur ekki séð að unnt sé að koma fjögurra akreina stofnbraut með tilheyrandi mannvirkjum fyrir á því 60 metra svæði sem til ráðstöfunar er sérstaklega í ljósi þeirra breyttu forsendna sem nú liggja fyrir. Það er því ljóst að framkvæmdin, eins og hún er kynnt í frekara mati, mun hafa "umtalsverð óæskileg áhrif sem ekki verði komist fyrir með fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og ávinningur nægi ekki til að vega á móti þeim", sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 179/1994. Eini raunhæfi kosturinn í þessari stöðu er að leggja brautina í stokk. Sú lausn er vissulega framkvæmanleg og aðgengileg og arðsöm, sé gengið út frá réttum forsendum og útreikningum við slíkt arðsemismat. Þau gögn um stokkinn, sem kynnt voru, eru ekki fullnægjandi í viðbótarmatsskýrslunni, og því þyrfti ráðherra að gera kröfu um frekari gögn um gerð stokksins, sbr. 18. gr. greindrar reglugerðar."

Þrautaþrautavarakrafa kærenda er byggð á því að byggðaforsendur í Hamrahlíðarlöndum séu nokkuð ljósar eftir að landamerki Reykjavíkur og Mosfellsbæjar lágu fyrir og muni því ekki breytast frá því sem fram kemur í drögum að aðalskipulagi 2000-2024. Kærendur geti því ekki sætt sig við lausnir framkvæmdaraðila um tveggja akreina veg til 2027 þar sem aðrar forsendur séu þekktar í dag. Mótvægisaðgerðir varðandi hljóðstig og skerðingu útsýnis dugi vart til 2027. Skerðing útsýnis muni verða mun meiri og koma fyrr en komi fram í gögnum um tveggja akreina veg.

Kærendur segja mikilvægt að hafa í huga við umfjöllun um viðbótarmatsskýrslu framkvæmdaraðila að nú liggi fyrir upplýsingar um byggðaþróun sem og umferðarþunga um Hallsveg sem ekki lágu fyrir þegar umhverfisráðherra kvað upp úrskurð sinn 22. desember 2000. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggi fyrir sé ljóst að sú byggðaþróun og breyting á byggð sem ráðgerð sé í drögum að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins þrýsti á um fjögurra akreina stofnbraut mun fyrr en gert hafi verið ráð fyrir í frummatsskýrslu og viðbótarmatsskýrslu framkvæmdaraðila sem og úrskurði Skipulagsstofnunar. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, beri að kynna framkvæmdina alla á réttum forsendum og upplýsingum. Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki auk þess sem upplýsingar sem og teikningar séu villandi og erfitt fyrir almenning að átta sig á þeim.

3. Umsagnaraðilar

Með bréfum dags. 14. september 2001, sendi ráðuneytið framangreindar kærur til umsagnar Skipulagsstofnunar, Hollustuverndar ríkisins, Veðurstofu Íslands, Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi, dags. 5. október 2001. Umsögn Hollustuverndar ríkisins barst með bréfi, dags. 6. nóvember 2001. Sameiginleg umsögn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar barst með bréfi, dags. 9. október 2001. Umsögn Veðurstofu Íslands barst með bréfi, dags. 26. september 2001. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2001 var kærendum gefin kostur á að gera athugasemdir við framkomnar umsagnir. Athugasemdir LOGOS fyrir hönd íbúa við Garðhús bárust með bréfi, dags. 7. desember 2001.

4. Almenn umsögn framkvæmdaraðila um kröfugerð kærenda

Í sameiginlegri umsögn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar, dags. 8. október 2001, segir að framkvæmdaraðilar telji viðbótarmatsskýrslu, málsmeðferð og úrskurð Skipulagsstofnunar frá 3. ágúst 2001 vegna frekara mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, samræmast lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, stjórnvaldsreglum settum á grundvelli þeirra og ákvæðum stjórnsýslulaga. Skilmerkilega hafi verið gerð grein fyrir þeim sjö atriðum sem úrskurður umhverfisráðherra dags. 22. desember 2000 kvað á um. Viðbótarmatsskýrsla hafi enn staðreynt að framkvæmdin sé réttlætanleg út frá umhverfissjónarmiðum. Gera framkvæmdaraðilar þá kröfu að hafnað verði öllum kröfum kærenda og niðurstaða hins kærða úrskurðar verði staðfest.

Framkvæmdaraðilar leggja áherslu á að hinn kærði úrskurður fjalli um mat á tveggja akreina vegi milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar. Meginmarkmið framkvæmdarinnar sé að færa umferð af Gagnvegi, sem liggur í gegnum íbúðarhverfi, yfir á stofnbraut og draga úr gegnumakstri, auka umferðaröryggi gangandi og akandi og bæta umferð til og frá Grafarvogshverfum. Hins vegar fjalli meginhluti kæru LOGOS um fjögurra akreina veg og umhverfisáhrif hans. Lagning tveggja akreina vegar sé sjálfstæð framkvæmd og geti staðið óháð öðrum framkvæmdum sem tengjast lagningu vegarins. Vísar framkvæmdaraðili í því sambandi til ummæla í úrskurði umhverfisráðherra frá 22. desember 2001 um að vegtengingar við Vesturlandsveg og Sundabraut séu ekki forsendur fyrir Hallsvegi frá Fjallkonuvegi til Víkurvegar. Telur framkvæmdaraðili að ólögmætt væri að gera kröfu um að hún yrði metin með öðrum framkvæmdum. Svo segir:

"Forsendur þess að umferð á Hallsvegi á þeim hluta, sem hér er til umfjöllunar, verði það mikil að hún krefjist fjögurra akreina eru tengingar hans við Sundabraut og Vesturlandsveg. Fjallað verður um þau gatnamót í umhverfismati vegna lagningar Sundabrautar annarsvegar og færslu og tvöföldun Vesturlandsvegar hinsvegar og á sama hátt þarf að fjalla um tvöföldun Hallsvegar, komi til hennar, annaðhvort í sjálfstæðu umhverfismati eða samhliða mati á áðurnefndum gatnamótum."

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að hinn kærði úrskurður gefi engin fyrirheit um að stofnunin muni síðar fallast á lagningu fjögurra akreina götu á þeim hluta Hallsvegar sem viðbótarmatsskýrslan fjallar um. Eins megi benda á að ef ýtrustu spár um byggðarþróun gangi eftir verði þörf fyrir tvöföldun Hallsvegar eftir um 25 ár. Yrði fallist á að framkvæma nú þegar umhverfismat vegna fjögurra akreina vegar megi gera ráð fyrir að um 20 - 25 ár líði frá mati til framkvæmdar. Líklegt sé því að gerð yrði krafa um endurmat síðar enda líklegt að allar ytri aðstæður og kröfur til hljóðvarna taki verulegum breytingum á þeim tíma.

Framkvæmdaraðilar telja ekki unnt að byggja á óstaðfestum skipulagsáætlunum hvað varðar umferðarspá. Hins vegar skipti í raun ekki máli hvort miðað sé við gildandi skipulagsáætlun eða drög að breytingu á aðalskipulagi og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins þar sem tveggja akreina vegur geti ekki borið nema 15.000 bíla umferð. Óumdeilt sé að alltaf hafi verið gert ráð fyrir a.m.k. tveggja akreina vegi norðan við íbúðarhúsin við Garðhús. Ágreiningurinn snúist því um hvort kærendur hefðu mátt gera ráð fyrir að vegurinn yrði 4 akreinar. Í hinum kærða úrskurði sé gert ráð fyrir tveggja akreina vegi og hljóðmön vegna hans sem sé í meginatriðum eins og hljóðmön sem samþykkt hafði verið að gera norðan við húsin 1994. Jafnframt hafi rúmlega 70% kærenda við Garðhús keypt hús sín eftir að götunni var breytt í stofnbraut í aðalskipulagi.

Framkvæmdaraðilar hafna því að framkvæmdin hafi ekki verið kynnt og metin á réttum forsendum og upplýsingum. Framkvæmdaraðilar hafi gert grein fyrir því að viðbótarmatsskýrslan byggi á forsendum samkvæmt staðfestum aðalskipulagsáætlunum. Vegna skilyrðis í fyrri úrskurði umhverfisráðherra um að kanna þörfina frekar fyrir breikkun Hallsvegar sé í viðbótarmatsskýrslunni gerð grein fyrir þeim áhrifum sem hugmyndir, sem kynntar hafa verið í drögum að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, gætu haft gangi þær eftir. Umferðarforsendur geri ráð fyrir tengingu götunnar við Vesturlandsveg og Sundabraut en þær tengingar séu forsendur aukinnar umferðar um götuna.

III. Einstök kæruatriði og umsagnir um þau.

1. Formkröfur

Kærendur telja að hinn kærði úrskurður hafi ekki verið kveðinn upp af þar til bæru stjórnvaldi þar sem fram komi í úrskurðinum að hann sé kveðinn upp af Skipulagsstofnun en ekki skipulagsstjóra. Samkvæmt 11. gr. áðurgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993 beri skipulagsstjóra ríkisins að kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Engu skipti þótt skipulagsstjóri hafi skrifað undir úrskurðinn ásamt sviðsstjóra umhverfissviðs Skipulagsstofnunar. Honum sé ekki heimilt að framselja vald sitt í því efni til annars stjórnvalds.

Í öðru lagi telja kærendur að Skipulagsstofnun og skipulagsstjóri hafi verið vanhæf til að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum umræddrar framkvæmdar vegna afskipta sinna af viðbótarmatsskýrslu áður en úrskurður var kveðinn upp. Ekki sé heimild fyrir slíkum afskiptum í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993. Framkvæmdaraðili hafi haft víðtækt samráð og unnið viðbótarmatsskýrslu sína í samvinnu við Skipulagsstofnun. Vísað er til bréfs frá framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar, frá 21. mars 2001, þar sem óskað er óformlegrar athugunar stofnunarinnar á matsskýrslu og svars Skipulagsstofnunar við því erindi frá 27. apríl 2001. Vísað er sérstaklega til ummæla Skipulagsstofnunar í því svari um að æskilegt væri að hafa samráð við íbúa á áhrifasvæði framkvæmdarinnar en slíkt samráð myndi auka líkurnar á því að ásættanleg niðurstaða næðist fyrir málsaðila. Ennfremur er vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi, þann 31. maí 2001, kynnt kostnaðaráætlun vegna umfjöllunar stofnunarinnar þ.m.t. vegna framangreinds bréfs frá 27. apríl 2001. Skipulagsstofnun hafi farið yfir skýrsluna og skilað inn umsögn um efni hennar og tjáð framkvæmdaraðila hvernig hann ætti að standa að gerð hennar til þess að stofnunin myndi fallast á fyrirhugaða framkvæmd. Kærendur eða öðrum hagsmunaaðilum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið. Skipulagsstofnun hafi með réttu átt að vísa beiðni framkvæmdaraðila um umsögn um skýrslu sína frá eða líta á erindið sem tilkynningu um framkvæmd í samræmi við 7. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, auglýsa tilkynninguna og kalla eftir athugasemdum. Ekki verði annað séð en að Skipulagsstofnun hafi með þessu unnið skýrsluna með framkvæmdaraðila og í raun tekið afstöðu til framkvæmdarinnar eða a.m.k. tekið slíkan þátt í afgreiðslu málsins á lægra stjórnsýslustigi að það hafi valdið vanhæfi stofnunarinnar til meðferðar mótmæla kærenda og til að kveða upp hlutlausan og rökstuddan úrskurð sbr. 4. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga. Í öllu falli séu afskipti stofnunarinnar með þeim hætti að líta verði svo á að fyrir hendi séu þær aðstæður í skilningi 6. tl. 3. gr. sömu laga, sem til eru þess fallnar að draga óhlutdrægni stofnunarinnar með réttu í efa við meðferð málsins. Samkvæmt þessu verði að fella úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi. Það styðjist við fræðaviðhorf og dómafordæmi sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 113/2001, Íslenska ríkið gegn Stjörnugrís hf.

Í þriðja lagi telja kærendur að Skipulagsstofnun hafi borið að gefa þeim kost á að tjá sig um viðbótargögn framkvæmdaraðila áður en úrskurður var kveðinn upp en þeir hafi sérstaklega óskað eftir því. Í umsögn framkvæmdaraðila og milligögnum frá 27. júlí 2001 sé að finna rangfærslur, sem nauðsynlegt hafi verið að leiðrétta. Það leiði af 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem og almennum reglum um vandaða stjórnsýsluhætti að skylt hafi verið að gefa kærendum kost á að tjá sig um viðbótargögn framkvæmdaraðila sem lögð hafi verið fram að loknum kynningartíma enda sé þar að finna ýmsar skýringar, skilgreiningar og útlistanir, sem ekki hafi komið fram í viðbótarmatsskýrslu. Hér verði einnig að hafa í huga mikilvægi þessarar málsmeðferðar fyrir kærendur og þær auknu kröfur sem gera verði til stjórnvalda við meðferð mála á borð við þetta. Ekki hafi því verið réttilega staðið að þessum úrskurði.

Kærendur telja, í fjórða lagi, að Skipulagsstofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni. Stofnunin hafi talið viðbótarmatsskýrslu framkvæmdaraðila og svör hans við skilyrðum umhverfisráðherra fullnægjandi þrátt yfir augljósa annmarka og á hafi skort að stofnunin hafi rannsakað málið sjálfstætt. Slíkur annmarki leiði til ógildingar. Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við ófullnægjandi skýringar og teikningar framkvæmdaraðila vegna fyrirhugaðra mótvægisaðgerða. Til dæmis sé ekki að finna í viðbótarmatsskýrslu skilgreiningu á því hvort með hljóðmön sé átt við jarðvegsmön og hljóðvegg eða aðeins mön, einungis sé talað um mön. Fram hafi komið hjá Hollustuvernd ríkisins að þetta atriði væri óskýrt. Kærandi telur að framkvæmdaraðilar hafi jafnframt notast við úreltar umferðarforsendur í viðbótarmati sínu án þess að stofnunin gerði við það athugasemdir. Í júní sl. hafi verið kynnt fyrir almenningi gögn, sem nú liggi fyrir, þar sem fram komi nýjar forsendur um umferð og byggðarþróun sem hefði átt að notast við. Þegar viðbótarmatsskýrslan var afhent Skipulagsstofnun hafi umrædd gögn verið ljós framkvæmdaraðilum en engu að síður hafi verið gengið út frá umferðarforsendum, sem byggja á staðfestu skipulagi frá 1997, án athugasemda Skipulagsstofnunar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:

"Þegar skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 voru sett, sem felldu m.a. eldri skipulagslög úr gildi, voru þau verkefni sem áður höfðu verið falin skipulagsstjóra ríkisins færð til Skipulagsstofnunar, sbr. 4. gr. laganna, en skipulagsstjóri ríkisins skyldi vera yfirmaður stofnunarinnar skv. 5. gr. sömu laga. Því telur stofnunin að segja megi að embætti skipulagsstjóra hafi verið skilgreint upp á nýtt með nýjum skipulags- og byggingarlögum. Þá fellst stofnunin ekki á það að engu skipti að skipulagsstjóri ríkisins hafi skrifað undir hinn kærða úrskurð. Skipulagsstjóri ríkisins, yfirmaður Skipulagsstofnunar, staðfesti með undirritun sinni að málsmeðferð og ákvörðun skv. hinum kærða úrskurði hafi verið skv. fyrirmælum laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum."

Einnig segir að með því að benda framkvæmdaraðila á atriði í viðbótarmatsskýrslu sem stofnunin taldi að mættu betur fara og gefa honum kost á að leiðrétta þau áður en úrskurður yrði upp kveðinn hafi stofnunin leitast við að uppfylla leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Jafnframt er því hafnað að þau viðhorf sem fram koma í dómi Hæstaréttar í máli 113/2001, íslenska ríkið gegn Stjörnugrís hf. eigi við þar sem dómurinn fjalli um afskipti æðra stjórnvalds af málsmeðferð hjá lægra stjórnvaldi. Stofnunin telji að ekkert hafi komið fram hjá kærendum sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993 eigi við um þetta mál. Starfsmenn stofnunarinnar eigi engra einstaklegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins. Ekki hafi verið sýnt fram á að 4. tl. sömu greinar eigi við hér, þar sem ekki sé um það að ræða að starfsmaður stofnunarinnar hafi tekið þátt í meðferð málsins á kærustigi né heldur að einhver starfsmanna stofnunarinnar hafi haft umsjónar- eða eftirlitsvald með málinu hjá æðra stjórnvaldi áður en hann hóf afskipti af málinu hjá Skipulagsstofnun.

Skipulagsstofnun hafnar því einnig að andmælaréttur hafi verið brotinn á kærendum með því að kynna þeim ekki svör framkvæmdaraðila sem bárust stofnuninni með bréfi, dags. 27. júlí 2001. Ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar í svörum framkvæmdaraðila sem hafi haft afgerandi þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Einnig hafnar stofnunin því að hún hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Í einu og öllu hafi verið farið eftir fyrirmælum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 þar um.

Varðandi það að úreltar umferðarforsendur hafi verið lagðar til grundvallar segir í umsögninni að aðeins liggi fyrir drög að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, sem ekki hafi verið kynnt almenningi, samþykkt í sveitarstjórnum eða staðfest af ráðherra. Enn eigi eftir að taka við og fjalla um athugasemdir hagsmunaaðila við þær tillögur. Þær geti breyst við málsmeðferð tillagnanna.

Í sameiginlegri umsögn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar segir að með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 hafi verkefni, sem áður höfðu tilheyrt Skipulagsstjóra ríkisins, flutt til Skipulagsstofnunar sbr. 4. og 5. gr. laganna. Með i-lið 4. gr. laganna hafi Skipulagsstofnun þannig beinlínis verið falið að framfylgja ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Breytingin hafi átt sér stað fyrir gildistöku nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum.

Um málsástæðu kærenda um vanhæfi Skipulagsstofnunar vegna fyrri afskipta sinna af málinu segir að samskipti aðila og svar Skipulagsstofnunar við tilgreindri fyrirspurn hafi á engan hátt gefið til kynna hver niðurstaða úrskurðarins yrði og stofnunin hafi á engan hátt tekið afstöðu til efnisþáttar málsins fyrr en með kærðum úrskurði. Skipulagsstofnun hafi, sem stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga, leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. þeirra laga. Stofnunni sé skylt að veita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi málsmeðferð og framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum. Tilvísun kærenda í dóm Hæstaréttar í málinu nr. 113/2001, Íslenska ríkið gegn Stjörnugrís hf., sé málinu óviðkomandi og um algerlega ósambærileg tilvik að ræða.

Framkvæmdaraðilar mótmæla málsástæðu kærenda um brot á andmælarétti. Hvorki í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993 né lögum nr. 106/2000 sé kveðið á um að þeim, sem gera athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, skuli gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum s.s. við umsögn framkvæmdaraðila. Vísar framkvæmdaraðili til 20. gr. áðurgildandi reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994, þar sem kveðið er á um að framkvæmdaraðili skuli fá kæru til umsagnar. Ekki sé kveðið á um að kærandi fái að gera athugasemdir við umsögn framkvæmdaraðila. Jafnframt sé ljóst, að fullnægt hafi verið þeim kröfum, sem 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gerir að þessu leyti, þar sem engar nýjar upplýsingar, sem kærendum voru ókunnar, hafi komið fram með tilgreindri umsögn framkvæmdaraðila eða öðrum gögnum. Telja verði, að sjónarmið og afstaða kærenda til þeirra hafi þegar legið fyrir í ítarlegum greinargerðum þeirra.

Framkvæmdaraðilar telja málsástæður kærenda varðandi brot Skipulagsstofnunar á rannsóknarskyldu órökstuddar og án skýringa. Því er mótmælt að viðbótarmatsskýrslan sé á einhvern hátt ófullnægjandi eða gefi tilefni til frekari rannsókna og athugana af hálfu Skipulagsstofnunar. Hafi Hollustuvernd ríkisins misskilið einhverja þætti skýrslunnar leiði það ekki til ógildingar úrskurðarins né sé hægt að draga af því þá ályktun að viðbótarmatsskýrslan hafi verið óskýr.

3. Um efnislega niðurstöðu hins kærða úrskurðar

3.1. Markmið framkvæmdar

Kærendur telja að samkvæmt gögnum sem fyrir liggi sé meginmarkmið framkvæmdarinnar annað en það sem fram komi í skýrslu framkvæmdaraðila. Markmið þess hluta sem nú sé til umfjöllunar sé fyrsti áfangi í tengingu væntanlegra byggingarsvæða austan Vesturlandsvegar og Hallsvegur muni þjóna þeirri byggð ásamt því að létta á Vesturlandsvegi þegar fram í sækir. Nægi þá einna helst að horfa til tengingar Blikastaðalands við Vesturlandsveg samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Einnig megi í þessu sambandi vísa til gildandi aðalskipulags Reykjavíkurborgar. Þar sjáist glögglega að Hallsvegi sem stofnbraut sé skipað á bekk með öðrum stofnbrautum eins og Breiðholtsbraut, Miklubraut, Vesturlandsvegi, Stekkjabakka/Höfðabakka, Sundabraut, Sæbraut, Reykjanesbraut, Gullinbrú og Suðurlandsvegi. Þetta séu allt stofnbrautir í austurhluta borgarinnar. Sameiginleg einkenni þessara brauta sé að taka við umferð sem komi af tengibrautum og ferja hana milli borgarhluta eftir stofnbrautum. Séð frá umferðarlegu sjónarmiði sé augljóst það meginhlutverk sem Hallsvegi sé ætlað að gegna í framtíðinni samkvæmt aðalskipulagi 1996-2016 og drögum að aðalskipulagi 2001-2024. Muni hann verða ein mesta stofnbraut austurhluta borgarinnar. Þau markmið sem framkvæmdaraðili lýsi yfir séu því hliðarmarkmið. Þetta styðji þau rök kærenda að meta beri umhverfisáhrif og útfæra mótvægisaðgerðir miðað við fjögurra akreina veg enda ljóst að þörf sé fyrir slíkan veg miðað við gögn og forsendur.

Í umsögn Skipulagsstofnunar um þetta atriði segir að stofnunin geti ekki fallist á það að markmið þeirrar fyrirhuguðu framkvæmdar, sem til umfjöllunar var í hinum kærða úrskurði, sé að verða meiriháttar umferðaræð. Aðeins sé gert ráð fyrir tveimur akreinum í matsskýrslunni og því sé ekki hægt að tala um hana sem burðarstoð í samgöngumálum Reykjavíkurborgar að svo komnu máli.

Um tilgang og markmið framkvæmdar vísa framkvæmdaaðilar til viðbótarmatsskýrslu og svars framkvæmdaaðila í bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 27. júlí 2001. Ítreka framkvæmdaraðilar að meginmarkmið þeirrar framkvæmdar, sem hinn kærði úrskurður fjallar um, sé að létta á umferð um Gagnveg og koma í veg fyrir gegnumakstur um íbúðahverfi. Sú framkvæmd sé sjálfstæð og nauðsynleg sem slík þótt ekki verði fallist á breikkun Hallsvegar eða tengingu hans við Sundabraut og Vesturlandsveg síðar. Umhverfisráðherra hafi þegar fallist á það sbr. ummæli í 2. mgr. kafla 9 í niðurstöðukafla úrskurðarins frá 22. desember 2000 um að vegtengingar við Vesturlandsveg í austri og Sundabraut í vestri séu ekki forsendur fyrir Hallsvegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi enda sé markmið fyrirhugaðrar framkvæmdar að bæta samgöngur til og frá Grafarvogshverfum, létta á umferð um Gagnveg og koma í veg fyrir óþarfa gegnumakstur. Óumdeilt sé að Hallsvegur verði stofnbraut en framkvæmdaraðilar mótmæla því að Hallsvegur verði ein mesta stofnbraut austurhluta borgarinnar. Svo segir:

"Samkvæmt spá um umferð, sem byggir á forsendum gildandi aðalskipulags auk núverandi hugmynda í drögum að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur, er umræddur hluti Hallsvegar með minnsta umferð af þeim stofnbrautunum sem kærendur tilgreina. Eins og margoft hefur komið fram er þessi spá fyrir umræddan hluta Hallsvegar um 16.000 bílar m.v. samþykkt aðalskipulag en 18.000 miðað við þær hugmyndir sem nú er verið að ræða við gerð nýs aðalskipulags Reykjavíkur. Til samanburðar má benda á eftirfarandi umferðarspá, sem byggir á sömu forsendum gerir ráð fyrir að um hluta Breiðholtsbrautar fari allt að 35.000 bílar (í dag allt að 30.000), um Miklubraut fari 40.000 til 70.000 bílar (í dag allt að 40.000) og um Stekkjarbakka/Höfðabakka fari rúmlega 40.000 bílar (í dag rúmlega 20.000) og svo mætti áfram telja. Framangreind fullyrðing kærenda er því líka röng."

3.2. Skipulag

Í kæru segir að þegar Garðhúsahverfið hafi verið að byggjast upp hafi legið fyrir skilmálar fyrir Grafarvog III, Húsahverfi, sem hlotið hefðu samþykki skipulagsnefndar Reykjavíkur 11. júlí 1988 og borgarráðs þann 19. sama mánaðar. Á skipulagsuppdráttum komi fram að gert sé ráð fyrir 7,5 metra breiðri götu með einni akrein í hvora átt. Vetrarbraut hafi í upphafi verið skilgreind sem tveggja akreina tengibraut. Á síðari stigum hafi því verið breytt og Vetrarbraut hafi orðið að fjögurra akreina stofnbraut sem nú heiti Hallsvegur. Kærendur hafi alla tíð mótmælt þessari breytingu þó svo að borgaryfirvöld hafi samþykkt breytingu á aðalskipulagi árið 1990-2010. Það hafi hins vegar verið viðurkennt að borgaryfirvöld hafi búið yfir vitneskju um að sú gata sem nefnd var Vetrarbraut á sínum tíma hafi verið ráðgerð sem fjögurra akreina gata og að kærendur hafi ekki fengið vitneskju um það. Vísað er til ummæla í úrskurði ráðuneytisins frá 22. desember 2000 þar sem segir að hvorki á deiliskipulagsuppdrætti né öðrum gögnum sem aðgengileg hafa verið íbúum hafi komið fram að umræddur vegur yrði fjórar akreinar. Kærendur hafi heldur ekki mátt búast við þeim umferðarþunga, sem tölur beri með sér og framkvæmdaraðili hafi látið í ljós. Í því sambandi nægi að vísa til bréfs arkitekta af svæðinu, frá 26. febrúar 1999, þar sem segir um umferðarkerfi að Hallsvegur mætti liggja fjær byggðinni við Garðhús en fyrirhugað sé þar sem vægi hans sem umferðaræðar verði meira en fyrirhugað hafi verið í upphafi. Samkvæmt þessu megi ljóst vera að forsendur nú séu ekki þær sem gengið var út frá við skipulag götunnar né heldur þegar brautinni var markað pláss milli kirkjugarðsins og húsanna við neðanverð Garðhús. Svo segir:

"Hér má einnig benda á að í bréfi Egils Guðmundssonar, arkitekts til Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 6. ágúst 1991, kemur fram að helgunarsvæði götunnar hafi verið "ákveðið 20 m frá miðlínu fjögurra akreina götu í báðar áttir, alls 40 m eða 10 m frá útbrún syðri akreinarinnar eins og gatan er sýnd á uppdrættinum." Nú er hins vegar gert ráð fyrir að veghelgunarsvæði stofnbrautar sé 60 metrar. Þá má einnig vísa til teikningu Borgarskipulags Reykjavíkur, sem unnin var af sömu arkitektum og önnuðust skipulag Húsahverfis, frá 19. desember 1992. Eins og þar kemur glögglega fram eru 70 metrar frá lóðarmörkum lóða við Garðhús og að kirkjugarðinum. Þetta hefur framkvæmdaraðili aldrei skýrt og hafa umbj. okkar ætíð byggt á því að ekki sú unnt að koma fyrir fjögurra akreina stofnbraut á því 60 metra svæði, sem til ráðstöfunar er. Þetta skiptir að sjálfsögðu máli þegar metin eru áhrif framkvæmdarinnar sem og við mat á öðrum valkostum."

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:

"Samkvæmt kæru gerði skipulag Hallsvegar ekki ráð fyrir því fyrr en á "síðari stigum" að stofnbraut yrði sett niður á hinum umdeilda stað. Hið rétta er að Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 1990-2000 gerði ráð fyrir því að um stofnbraut yrði að ræða en það var staðfest af borgaryfirvöldum 20. febrúar 1992, eða fyrir tæpum tíu árum. Í ljósi þessa taldi ráðuneytið réttilega í fyrri úrskurði sínum, dags. 22. desember 2000, að kærendur hefðu mátt búast við að lagður yrði vegur þar sem áformað sé að leggja Hallsveg nú. Þá er í kæru vísað til þess að ráðuneytið hafi í úrskurði sínum jafnframt bent á það að hvorki á deiliskipulagsuppdrætti, né öðrum gögnum sem kærendum hefðu verið aðgengileg, hefði komið fram að um fjögurra akreina veg yrði að ræða."

Einnig segir í umsögninni að í skipulagslögum, nr.19/1964 sem í gildi voru við gildistöku aðalskipulags 1990-2000 sé ekki gert ráð fyrir að gerð sé grein fyrir akreinafjölda í aðalskipulagi. Í lögunum segi aðeins að á samþykktum skipulagsuppdrætti skuli sýna aðalumferðaræðar sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Þágildandi skipulagsreglugerð hafi gert ráð fyrir að aðeins í sérstökum tilvikum yrði gerður sérstakur uppdráttur sem sýndi flokkun gatna. Svo segir:

"Eins og fram kemur á bls. 16-17 í hinum kærða úrskurði er nýlagning tveggja akreina Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi sjálfstæð framkvæmd óháð frekari vegagerð á svæðinu. Skipulagsstofnun taldi hafa verið sýnt fram á að lagning Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi sé áfangi sem geti staðið einn og sér verði ekki af áformum um aðra áfanga Hallsvegar. Því taldi stofnunin ekki unnt að setja það skilyrði að umhverfisáhrif annarra framkvæmda eða verkáfanga yrðu metin samhliða."

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að skipulag hverfisins hafi ávallt gert ráð fyrir því að gatan gæti orðið 4 akreinar enda hafi henni verið markað rými í samræmi við það. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1984-2004, sem í gildi var þegar skipulag svæðisins var unnið, hafi verið gert ráð fyrir Hallsvegi sem tengibraut frá Vesturlandsvegi niður á Sundabraut. Frá því í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1990-2010, sem staðfest var af umhverfisráðherra 10. febrúar 1992, hafi svo legið fyrir að gert væri ráð fyrir því að Hallsvegur yrði stofnbraut í framtíðinni. Veginum með því aðalskipulagi verið hliðrað um 10 metra frá íbúðarbyggðinni m.a. af þeirri ástæðu. Það hafi legið fyrir frá því í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1984-2004 að stefnt væri að tengingu Hallsvegar við Sundabraut og Vesturlandsveg. Frá upphafi skipulags Húsahverfis hafi því verið ljóst að umferðagata yrði lögð norðan Garðhúsa.

Varðandi umfjöllun kærenda um veghelgunarsvæði vegarins segja framkvæmdaraðilar að það sé misskilningur, að framkvæmdaraðilar hafi breytt helgunarsvæði Hallsvegar úr 40 metrum í 60 metra. Helgunarsvæði þjóðvega sé lögákveðið og ráðist af ákvæðum vegalaga hverju sinni. Samkvæmt vegalögum, nr. 6/1977, sbr. V. kafla laganna, féll Hallsvegur undir þjóðveg í þéttbýli. Þegar ný vegalög, nr. 45/1994 tóku gildi, hafi flokkunarkerfi þjóðvega breyst með þeim hætti, að þjóðvegir í þéttbýli, voru ekki lengur sérstakur vegflokkur. Götur og vegir, sem áður töldust þjóðvegir í þéttbýli hafi fengið nýja flokkun samkvæmt nýjum skilgreiningum. Í samræmi við það sé Hallsvegur flokkaður sem stofnvegur með 60 metra breiðu veghelgunarsvæði.

3.3. Þörf fyrir breikkun Hallsvegar

Kærendur vísa þessu næst til niðurstöðu ráðuneytisins í úrskurði þess frá 22. desember 2000, þar sem segir að ekki sé unnt að setja Hallsveg sem fjögurra akreina veg frá Sundabraut að Vesturlandsvegi í mat á umhverfisáhrifum vegna óvissu um legu Sundabrautar og þess að vegtenging við Vesturlandsveg hafi ekki verið hönnuð. Þeir þættir séu ekki forsendur fyrir Hallsvegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi enda markmið fyrirhugaðrar framkvæmdar að bæta samgöngur til og frá Grafarvogshverfum, létta umferð um Gagnveg og koma í veg fyrir óþarfa gegnumakstur. Ráðuneytið fallist hins vegar ekki á að út frá því sé nægilegt að meta aðeins tveggja akreina veg frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi þar sem það komi fram í frummatsskýrslu og umsögnum framkvæmdaraðila að áætlað sé að fara út í fjögurra akreina veg á þessum vegarkafla. Kærendur telja að í ljósi þessarar niðurstöðu beri að meta áhrif fjögurra akreina stofnbrautar nema sýnt sé fram á að ekki verði þörf á slíkri stofnbraut miðað við áætlaða uppbyggingu. Þörfin hljóti síðan að byggjast á fyrirliggjandi gögnum um uppbygginguna og þá framtíðarsýn sem fyrir liggi.

Kærendur telja að við framkvæmdir beri að fara eftir staðfestu skipulagi en umferðarforsendur og spár hljóti að horfa til framtíðar og þeirra væntingar sem ný byggðaþróun leiðir af sér. Svo segir:

"Samkvæmt þeirri þróun sem nú er fyrirhuguð eru byggðarforsendur og umferðartölur aðrar en þær sem viðbótarmatsskýrsla framkvæmdaraðila byggir á sem og úrskurður skipulagsstofnunar.

Í niðurstöðum sínum vísar skipulagsstofnun til mats framkvæmdaraðila á fyrirsjáanleika tvöföldunar og hvenær framkvæmdaraðili telji að þörf sé á tvöföldun án þess að taka sjálfstæða afstöðu til nýrra upplýsinga um byggðarþróun og umferðarþunga.

Skipulagsstofnun kemst að þeirri niðurstöðu að þörf á breikkun Hallsvegar sé ekki fyrr en 2025 ? 2030. Sú niðurstaða er hæpin ekki síst í ljósi þess að framkvæmdaraðili hefur sjálfur upplýst í umsögn sinni um athugasemdir umbj. okkar til skipulagsstjóra og blaðagreinum sínum að tengingar og tvöföldun akbrautar sé staðreynd. Í umsögn framkvæmdaraðila, dags. 27. júlí 2001, til skipulagsstofnunar, segir t.d. orðrétt á bls. 10:

"Á kaflanum milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar er nú spáð 18 þús. bíla umferð 2024. Úlfarsárdalur er ekki fullbyggður 2024 og á því umferð um Hallsveg eftir að aukast eitthvað fram yfir þetta ef tillögurnar koma til framkvæmda."

Hér er verið að vísa til draga að nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2001-2024, en þar sést glögglega það umferðarlega mikilvægi sem Hallsvegur er í stofnbrautarskipulagi framtíðinnar. Varðandi umferðarþunga ber að geta þess að Sigurður Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, sagði á fundi með íbúum í maí 2000 að tveggja akreina vegur bæri um 15 þús. bíla. Samandregið þýðir þetta að tvöföldun Hallsvegar mun því verða mun fyrr en framkvæmdaraðili og skipulagsstofnun vilja ætla. Afstaða þeirra er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um byggðaþróun og umferðarþunga.

Nú liggur fyrir að búið er að skýra frá þróun á því svæði, sem var einna helst óljóst, þ.e. svæðið á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar austan Vesturlandsvegar. Óumdeilt er að þetta verður næsta nýbyggingarhverfi Reykjavíkur og þær forsendur sem eru til hliðsjónar við Hallsvegin eru áreiðanlega ekki ofmetnar, þ.e rúmir 18. þús. bílar 2024, og þá vantar einn hluta Hamrahlíðarlanda ennþá í byggingu, þannig að vafalaust er verið að tala um 20-25 þús. bíla eftir rúm 25 ár eða svo.

Samkvæmt drögum að aðalskipulagi fyrir Reykjavík og áætlaðrar uppbyggingar nýs hverfis í Hamrahlíðarlöndum við Úlfarsfell er ljóst að Hallsvegur er líkleg aðaltenging þess hverfis við Sundabraut. Aðrir hlutar Hallsvegar munu því koma og mun fyrr en framkvæmdaraðili og skipulagsstofnun halda fram. Það eru því verulegar líkur á tvöföldun eins og sjá má í greindum aðalskipulagsdrögum sem og ummælum borgarverkfræðings í blaðagrein sinni í DV 27. ágúst s.l., þar sem hann fjallaði um skipulag Hallsvegar í Grafarvogi, en þar segir m.a. að "komi síðar í ljós að þörf verði á 4 akreinum, eins og nú er reyndar talið líklegt ...".

Skipulagsstofnun kemst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að sá vegkafli, sem kynntur er, geti staðið einn og sér ef aðrir hlutar vegarins koma ekki. Stofnunin kemst að þessari niðurstöðu þrátt fyrir að framkvæmdaraðili hafi sagt að aðrir hlutar Hallsvegar muni koma í fyrsta lagi 2003. Það virðast engin haldbær rök styðja þessa niðurstöðu skipulagsstofnunar því öll gögn benda til þess að aðrir hlutar Hallsvegar muni koma. Þessi hluti er því einungis fyrsti hluti þess að tengja væntanlega Sundabraut við nýbyggingarhverfi austan Vesturlandsvegar með mislægum gatnamótum þar, eins og fyrr greinir."

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að stofnunin telji, að í ljósi venju sé framkvæmdaraðila heimilt að greina framkvæmd niður í hluta sem staðið geti óháð hugsanlegum frekari framkvæmdum og því óheimilt af stofnuninni að krefjast þess af framkvæmdaraðila að hann meti umhverfisáhrif fjögurra akreina þegar aðeins sé fyrirhugað að leggja tveggja akreina veg. Er í þessu sambandi vísað til úrskurðar umhverfisráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum frá 20. júní 1996.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að þeir telja ranga þá fullyrðingu kærenda, að lesa megi úr úrskurði umhverfisráðherra frá 22. desember 2000, að meta beri fjögurra akreina veg nema sýnt verði fram á ekki þurfi að tvöfalda veginn, miðað við áætlaða uppbyggingu, þar sem fram kemur í úrskurðinum að litið sé svo á að vegtengingar við Sundabraut og Vesturlandsveg séu ekki forsenda fyrir Hallsvegi frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi sbr. markmið framkvæmdarinnar.

Vegna umfjöllunar kærenda um umferðarforsendur ítreka framkvæmdaraðilar að við gerð matsskýrslna í umhverfismatsferli beri að fara eftir staðfestu skipulagi. Umferðarreikningar sem gerðir hafi verið vegna núverandi hugmynda sem kynntar hafa verið í drögum að nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 geri ráð fyrir að umferð um umræddan hluta Hallsvegar geti orðið um 18.000 bílar árið 2024. Nýir útreikningar um umferðarmagn, sem nú séu í vinnslu í tengslum við gerð nýs aðalskipulags bendi til þess að umferð um þennan hluta Hallsvegar fari ekki yfir 18.000 bíla árið 2024, miðað við að Úlfarsárdalur verði að fullu byggður. Við útreikninga umferðarmagns hafi verið gengið út frá því að Hamrahlíðarlönd verði að fullu byggð og einnig Blikastaðaland í Mosfellsbæ. Jafnframt gæti þeim tímasetningum sem gengið hefur verið útfrá hingað til seinkað þar sem flest bendi nú til þess að næsta byggingarland Reykjavíkurborgar verði í Norðlingaholti við Suðurlandsveg en ekki í Höllum- og Hamrahlíðarlöndum.

Í frekari athugasemdum kærenda, dags. 7. desember 2001, segir að við mat á umhverfisáhrifum vegna vegaframkvæmda innan borgarmarkanna sé viðtekin venja að miða framkvæmdir við það sem stundum hefur verið kallað "fullbyggð Reykjavík" og þá miðað við árið 2030 eða árið 2027 sem notað er í umferðaspám. Það eigi við um nýlegar framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar t.d. mislæg gatnamót í Mjódd og mislæg gatnamót Víkurvegar og Vesturlandsvegar. Ekki verði séð hvers vegna Hallsvegur sé metin á allt öðrum forsendum en önnur umferðamannvirki í borginni. Í gögnum framkvæmdaraðila komi fram að tveggja akreina vegur geti ekki borið meira en 15.000 bíla umferð. Því megi ljóst vera að þörf verði fyrir fjögurra akreina stofnbraut fyrir árið 2024.

3.4. Mat á öðrum möguleikum-lagning Hallsvegar í stokk

Kærendur telja að Skipulagsstofnun hafi ekki virt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við mat á möguleika á að leggja Hallsveg í stokk. Stofnunin taki fram í úrskurði sínum að ekki sé gerð ítarleg grein fyrir þeim valkosti í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila en komist engu að síður að þeirri niðurstöðu að miðað við kostnað yrði lagning Hallsvegar í stokk ekki raunhæfur kostur. Kærendur telja að miða eigi arðsemi vegarins við Hallsveg frá nýbyggingarsvæðum Hamrahlíðalanda að Sundabraut í vestri. Sé það gert verði niðurstaðan önnur. Afstaða Skipulagsstofnunar virðist byggja á misskilningi á eðli og efni mats á arðsemi fyrir þess háttar stofnbrautir eins og þessi næsti áfangi Hallsvegar sé í raun og veru.

Kærendur telja umfjöllun um núlllausn í hinum kærða úrskurði ekki marktæka þar sem samanburður verði að vera tengdur við stofnbrautina sem heild en ekki einstaka hluta hennar, því ef þessi kafli verði ekki lagður verði ekki af stofnbrautinni í þeirri mynd sem aðalskipulagið sýnir í dag og þeim drögum að aðalskipulagi sem mun taka við af því.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að misskilnings gæti hjá kærendum. Stofnunin vísi aðeins til þess í úrskurðinum að hagkvæmara sé að leggja umræddan vegarkafla ofanjarðar en í stokki neðanjarðar. Ennfremur segir að þó ekki hafi verið gerð ítarleg grein fyrir þeim valkosti að leggja Hallsveg í stokk í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, hafi Skipulagsstofnun talið að tölur um áætlaðan kostnað við lagningu vegarins í stokk sýndu að ekki væri um raunhæfan kost að ræða.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að fullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar fram sem sýni að lagning Hallsvegar í stokk á umræddum kafla sé ekki raunhæfur kostur. Vegurinn kosti um 140 miljónir króna eins og gert er ráð fyrir í viðbótarmatsskýrslu. Sá kostnaður myndi hækka um 480 miljónir króna ef gerður yrði stokkur. Telja framkvæmdaraðilar að ef farið yrði að kröfum íbúa við Garðhús um að leggja Hallsveg í stokk á þessum kafla, í stað þess að samþykkja þær mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaraðili hafi sýnt fram á að dugi til að uppfylla skilyrði um hljóðstig, séu líkur á því að slíkt hið sama þyrfti að gera á vestari kafla Hallsvegar milli Strandvegar og Fjallkonuvegar ef gæta ætti jafnræðis milli borgarbúa. Því sé tilvísun kærenda til þess að arðsemi stokksins væri meiri ef allur vegurinn væri metin í heild vafasöm, sérstaklega ef leggja þurfi hann allan í stokk. Tengingarnar frá Sundabraut og frá Vesturlandsvegi hafi ekki farið í umhverfismat og því ekki víst hvort heimild fáist fyrir þeim. Ef gerður yrði stokkur á þessum kafla og leyfi fengist ekki fyrir tengingunum sé augljóst að framkvæmdin sé ekki raunhæf. Samþykki þessarar framkvæmdar útiloki heldur ekki að síðar verði gerð krafa um stokk á þessum kafla verði það t.d. talið réttlætanlegt m.t.t. kostnaðar við lagningu fjögurra akreina Hallsvegar frá Sundabraut upp á Vesturlandsveg ef af henni verði.

Í frekari athugsemdum kærenda segir að með arðsemissjónarmið að leiðarljósi beri að reikna allar þær tekjur sem af stofnbrautinni leiða ásamt öllum þeim gjöldum sem kunna að tengjast framkvæmdinni. Við mat á arðsemi sé litið til þeirra tekna sem hljótist af færslu umferðar frá væntanlegum byggingarlöndum í Halla- og Hamrahlíðarlöndum að væntanlegri Sundabraut. Gjöldin dreifist svo á þær framkvæmdir sem þarf til að ná þessum tekjum.

Óskað var eftir frekari upplýsingum frá framkvæmdaraðilum um fleiri möguleika á að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í minnisblaði, dags. 10 apríl 2002, er gerð grein fyrir forsendum fyrir lækkun vegarins á móts við Garðhús. Þar segir að á löngum vegarkafla fyrir framan Garðhús hafi Hallsvegur verið lækkaður um allt að 3 metra frá fyrri hæðarlegu. Gatan hafi verið lækkuð niður undir klapparyfirborð á þessum kafla en klöpp liggi þarna djúpt og það sé m.a. ástæða þess að kirkjugarði hafi verið valinn staður þarna. Næst Fjallkonuvegi þar sem fyrirhugað sé að gera undirgöng fyrir gangandi umferð, hafi hæð götu ekki verið breytt enda göngin um 400 metrum vestan við vestustu hús við Garðhús. Um 100 metrum fyrir austan Fjallkonuveg hafi verið byrjað að lækka veginn og lækkunin orðin tæpir 2 metrar við innkeyrslu í kirkjugarðinn. Á öllum þessum kafla þurfi að sprengja fyrir veginum niður í holtið. Aðkoma að kirkjugarðinum takmarki hvað hægt sé að lækka veginn mikið þar sem grafir næst hliðum séu þegar í notkun og því erfitt að breyta hæðarlegu vegar mikið. Að austanverðu bindi Víkurvegur hæð Hallsvegar á gatnamótunum og því nýtist þessi mikla lækkun Hallsvegar austustu húsum við Garðhús ekki að sama marki og þar sem lækkun götu er mest. Víkurvegur liggi þarna með 5,0 % langhalla á löngum kafla og öll breyting á hæðarlegu í gatnamótum mjög erfið og dýr. Í seinna minnisblaðinu, dags. 19. apríl 2002, er stuttlega gerð grein fyrir möguleikum þess að láta Hallsveg ganga undir Víkurveg með gerð mislægra gatnamóta. Í minnisblaðinu kemur fram að slík breyting kynni að hafa áhrif á umferðarstrauma. Breyta þyrfti legu hitaveitulagna, allar regnvatnslagnir næst gatnamótum þurfi að grafa dýpra en í eldri lausnum og sprengja þurfi fyrir þeim þegar komið er svo djúpt. Þá liggi um gatnamótin tvær stofnlagnir vatnsveitu, háspennustrengur og dreifikerfi rafveitu og símafyrirtækja. Lauslega áætlað telja framkvæmdaraðilar kostnað við gerð slíkra gatnamóta 295 miljónir króna.

Í athugasemdum kærenda, dags. 23. apríl 2002, segir um fyrra minnisblaðið að ekkert nýtt hafi komið fram varðandi umfang verksins og verkfræðilegar lausnir þess sem sýni að framkvæmdaraðili muni standast þær kröfur sem til hans eru gerðar samkvæmt breyttum forsendum sem staðfestar voru við samþykki borgarráðs á nýju aðalskipulagi 2001 til 2024 19. apríl sl. Með samþykki borgarráðs og umsögnum borgaryfirvalda þyki einsýnt að tenging þess kafla Hallsvegar sem nú er til umræðu og bíður úrskurðar ráðuneytisins er forsenda fyrir umferðarlausn er varðar nýtt hverfi sem hönnun er hafin á í jaðri Úlfarsfells. Forsendur sem lágu fyrir frummati og frekara mati á fyrsta áfanga Hallsvegar árið 2000 og 2001 hafi breyst verulega með tilkomu nýs aðalskipulags. Einnig þyki einsýnt að umræddur vegur muni verða fjögurra akreina stofnbraut þegar fram í sækir þar sem umferðatölur frá borgarverkfræðingi sýni sé nú miðað við a.m.k 18.000 bíla þar sem áður hafi verið rætt um 12 til 16.000 bíla.Viðunandi lausn felist í því að leggja veginn í stokk á þessum kafla og jafnvel hanna nýja aðkomu að Gufuneskirkjugarði með innkomu af Víkurvegi í huga. Af minnisblaðinu megi draga fram að ekki sé unnt að lækka veginn enn frekar og því ekki um annað að ræða en að setja veginn í stokk til að uppfylla umhverfisáhrif Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi samkvæmt nýjum forsendum og þeirri byggð sem ráðgert er að muni rísa við Úlfarsfell. Í athugasemdum við seinna minnisblaðið, frá 26. apríl 2002, kemur fram að kærendur líta svo á að úrskurða beri á grundvelli þeirra gagna sem auglýst hafa verið opinberlega. Ekki komi fram í minnisblaðinu, varðandi lagningu Hallsvegar undir Víkurveg, að þessi lauslega útfærsla minnki þau miklu umhverfisáhrif sem einkenna framkvæmdir í fyrirliggjandi umhverfismatsskýrslum. Útfærsla mislægra gatnamóta með 2 brúm og tilheyrandi viðbótarkostnaði vegna umhverfisvarna verði væntanlega dýrari heldur en sú útfærsla Hallsvegar með stokk. Það sé ósk þeirra að úrskurður verði byggður á grundvelli fyrirliggjandi gagna án frekari vangaveltna um nýjar lausnir, sem ekki hafa verið kynntar í gögnum málsins.

3.5. Forsendur umferðar

Kærendur telja viðbótarmatsskýrslu ekki uppfylla það sem kemur fram í drögum að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2000-2024 og drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Vísað er til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um áætlun um umferð á Gagnvegi, þróunar þeirrar umferðar án Hallsvegar annars vegar og áhrifa Hallsvegar á þá umferð hins vegar. Ekki sé til talning á þeirri umferð sem fer um Gagnveg í dag. Forsendur í drögum að breyttu aðalskipulagi miði að því að um sé að ræða fjögurra akreina veg og ekki sé um sjálfstæðan hluta Hallsvegar að ræða þar sem aðrir hlutar Hallsvegar muni koma. Sú útfærsla sem sýnt hafi 20.000 bíla á fjórum akreinum í skýrslunni hafi verið lögð fram til kynningar en hafi ekki verið hluti af því mati sem nú um ræðir á tveggja akreina stofnbraut og þar af leiðandi séu útfærðar hljóðvarnir ekki í samræmi við það heldur óútfærð kynning á því sem gæti komið ef um fjögurra akreina veg væri að ræða. Ef viðbótarmatsskýrslan hefði átt að vera í samræmi við drögin væri verið að horfa á umhverfismat fjögurra akreina vegar með útfærslu á þeim mannvirkjum sem því tilheyrir. Í skýrslunni sé byggt á 16 þúsund bíla umferð árið 2027 og hljóðvarnir miðaðar við það, en í umsögn framkvæmdaraðila frá 27. júlí 2001 til Skipulagsstofnunar sé rætt um rúmlega 18 þúsund bíla árið 2024 og þá sé ekki allt tekið með vegna þess að þriðji hluti Hamrahlíðahverfis eigi eftir að koma. Þar fyrir utan eigi einnig eftir að taka tillit til umferðar frá Blikastaðalandi í Mosfellsbæ sem koma mun inn á Vesturlandsveg í framtíðinni og hafa einhver áhrif á Hallsveginn. Þá hafi hljóðvarnir ekki verið útfærðar að neinu marki í samræmi við skipulagsdrögin eða upplýsingar framkvæmdaraðila.

Kærendur telja þá ályktun Skipulagsstofnunar að aðeins hluti umferðar í Hamrahlíðarlöndum muni fara um Hallsveg ranga. Af yfirlitsmynd um hlutverk Hallsvegar í aðalskipulagi Reykjavíkur megi glöggt ráða þann beina sparnað og eldsneytisspörun fyrir þá sem hyggjast fara um Sundabraut í átt að miðbæjarkjarna Reykjavíkur með því að fara væntanlegan Hallsveg.

Í umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 5. október 2001, segir að forsendur framkvæmdaraðila séu umferðaspár sem lagðar voru fram við undirbúning tillagna forsvarsmanna sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu að tillögu um framkvæmdir á vegaáætlun 1998-2002 og langtímaáætlun í vegagerð til 2010. Kærendur byggi hins vegar á ósamþykktum og óstaðfestum svæðis- og aðalskipulagstillögum.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að notað hafi verið viðurkennt reiknilíkan við gerð viðbótarmatsskýrslu. Í umferðarreikningum fyrir árið 2024 sé gert ráð fyrir að Hamrahlíðarlönd séu byggð að fullu og því röng fullyrðing kærenda að þriðji hluti Hamrahlíðarlanda eigi eftir að koma. Þá sé einnig rangt hjá kærendum að ekki sé tekið tillit til umferðar frá Blikastaðalandi í þessum umferðarreikningum. Hljóðvarnir til næstu 7-10 ára hafi verið útfærðar af hálfu framkvæmdaraðila og þær sýndar í viðbótarmatsskýrslu. Framkvæmdaraðilar hafi einnig sýnt fram á hvernig unnt sé að uppfylla kröfur um hljóðstig til framtíðar með hljóðskermum ofan á þá jarðvegsmön sem reist verður í upphafi framkvæmda. Gerð sé grein fyrir heildaráhrifum vegna þeirra hljóðvarna í viðbótarmatsskýrslu. Framkvæmdaraðilar telji hins vegar ekki að hanna eigi endanlega að svo stöddu hljóðvarnir sem ekki verða reistar fyrr en að mörgum árum liðnum. Mikil þróun sé í útfærslu slíkra hljóðvarna. Meginatriðið sé að sýnt hefur verið fram á að hægt er með þekktum lausnum að reisa fullnægjandi hljóðvarnir. Framkvæmdaraðilar leggi áherslu á að fylgst verði með hljóðstigi vegna umferðar á götunni og að samráð verði haft við íbúa um gerð og uppbyggingu viðbótarhljóðvarna þegar og ef tilefni gefur til þess að þær verði reistar. Framkvæmdaraðilar mótmæla því að umfjöllun Skipulagsstofnunar um umferðina byggi ekki á réttum forsendum. Rétt sé hjá kærendum að hluti umferðar um Hallsveg verði væntanlega frá Höllum og Hamrahlíðarlöndum, það komi einnig fram hjá Skipulagsstofnun og sé ómótmælt. Það hafi þó ekki sérstaka þýðingu enda sé ekki verið að fjalla um mat á Hallsvegi frá Vesturlandsvegi niður á Sundabraut. Um það verði fjallað nánar í matsskýrslum og úrskurðum vegna þeirra framkvæmda.

3.6. Hljóðvarnir og sjónræn áhrif framkvæmdar

Kærendur telja umfjöllun og niðurstöðu Skipulagsstofnunar um hljóðvarnir og sjónræn áhrif framkvæmdar á misskilningi byggða. Skipulagsstofnun segi í úrskurði sínum að mat á tveggja akreina vegi sé í samræmi við þau drög að aðalskipulagi varðandi umferðarforsendur og byggðaþróun sem þekktar eru í dag. Það sé hins vegar ljóst að útfærslur á þeim hljóðvörnum sem þörf er á miðað við nýjar forsendur eru ekki útfærðar, sem hluti af þessari sömu matsskýrslu. Vísað er til úrskurðar umhverfisráðherra um frekara mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar, frá 20. desember 2000, um að gera ætti grein fyrir mótvægisaðgerðum miðað við endanlega gerð vegarins í frekara mati. Skipulagsstofnun hafi ekki metið heildaráhrif mótvægisaðgerða miðað við endanlega gerð vegarins sem fjögurra akreina vegar.

Kærendur telja matsskýrslu ófullnægjandi að því er varðar áhrif lagningar Hallsvegar á hljóðvist í Gufuneskirkjugarði. Ekki hafi verið gerð grein fyrir eða útfærð sú hljóðvörn sem ætla má að muni rísa norðan Hallsvegar. Því sé óljóst hvernig sú hljóðvörn komi til með að hafa áhrif á byggð sunnan Hallsvegar en úrskurður ráðherra kvað á um að framkvæmdaraðila bæri að sýna fram á heildaráhrif framkvæmdar á hljóðstig. Það sé andstætt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993 og skilyrði umhverfisráðherra um mat á heildaráhrifum framkvæmdarinnar á hljóðstig að útfæra hljóðvarnir þegar vegurinn hefur verið lagður.

Kærendur telja unnt að uppfylla leiðbeinandi gildi reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999, með því að leggja veginn í stokk, sbr. einnig umsögn Hollustuverndar ríkisins. Það sé því ekki rétt sem kemur fram í úrskurði Skipulagsstofnunar að ekki sé unnt að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um leiðbeinandi gildi hávaða.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að rangt sé hjá kærendum að umfjöllun og niðurstaða Skipulagsstofnunar um hljóðvarnir og sjónræn áhrif framkvæmdar séu á misskilningi byggð. Mat á tveggja akreina vegi milli Fjallkonuvegar og Víkurvegar sé í samræmi við gildandi aðalskipulag og í samræmi við hugmyndir sem fram komi í drögum að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur varðandi umferðarforsendur og byggðaþróun sem þekktar séu í dag. Í greinargerð framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar dags. 27. júlí 2001 komi fram að ekki sé talin þörf á aðgerðum vegna hljóðvistarkrafna fyrir Gufuneskirkjugarð vegna umferðar um Hallsveg fyrr en um og eftir 2020. Þá sé einungis verið að tala um minni háttar hljóðvörn, um 1-2 metra háa. Jarðvegsmön komist auðveldlega fyrir á svæðinu milli vegar og lóðar kirkjugarðsins. Hljóðvarnir vegna kirkjugarðsins verði unnar í fullu samráði við kirkjugarðsyfirvöld og þannig að framkvæmdirnar hafi ekki nein áhrif á íbúa við Garðhús.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins, dags. 6. nóvember 2001, segir að stofnunin telji atriði í skýrslunni ekki nógu skýr og því sé erfitt að gera sér fulla grein fyrir því hvort þær mótvægisaðgerðir vegna hávaða sem um er fjallað séu nægar eða grípa þurfi til frekari aðgerða miðað við endanlega gerð vegarins. Einnig sé ekki gerð nægjanlega grein fyrir neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerðanna.

3.7. Úrskurður umhverfisráðherra um frummat á umhverfisáhrifum Hallsvegar.

Kærendur telja að viðbótarmatsskýrsla framkvæmdaraðila sé ekki fullnægjandi um þau atriði sem kveðið var á um í úrskurði umhverfisráðherra um frummat á umhverfisáhrifum Hallsvegar 20. desember 2000.

Eins og fram hefur komið telja kærendur að meta beri fjögurra akreina stofnbraut nema sýnt sé fram á að ekki sé þörf á fjórum akreinum miðað við áætlaða uppbyggingu. Ljóst sé að þörf sé á tvöföldun Hallsvegar miðað við drög að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2000-2024 og gildandi skipulagi þrátt fyrir það sem fram kemur í matsskýrslu um óvissu í þeim efnum.

Kærendur telja að miða beri heildaráhrif á hljóðstig við fjögurra akreina veg, hljóðmön norðan Hallsvegar hafi ekki verið útfærð og ekki sé fullkominn skilningur á notkun þrívíðs líkans sem framkvæmdaraðili vísar til. Kærendur telja útfærslu á lágmarkshæð hljóðmanar ekki sannfærandi. Gólfplata á húsi nr. 45 sé 30 cm. hærri en á húsi nr. 41. Fjarlægð frá götu virðist vera um 180 cm meiri við Garðhús 45 samkvæmt þversniðum en engu að síður lækki mönin milli þessara húsa um hálfan metra þó svo að gatan sé áberandi hærri við Garðhús 45. Hér virðist því sem um einhver mistök sé að ræða þar sem afstaða virðist önnur við Garðhús 45 en Garðhús 41 en samt lækki hljóðmönin um hálfan metra við Garðhús 45. Kærendur telja að leggja megi mismunandi skilning í texta og töflur matsskýrslunnar því töflur mæli fyrir um manir sem mætti túlka sem svo að um væri að ræða jarðvegsmanir en ekki hljóðveggi eins og framkvæmdaraðili skilgreinir í viðbótargögnum. Túlkun framkvæmdaraðila á leiðbeinandi gildi reglugerðar um hávaða sé ekki í samræmi við lög þar sem hann haldi því fram að það ákvæði eigi einna helst við í sumarhúsahverfum.

Kærendur líta svo á að um rangfærslu sé að ræða hjá framkvæmdaraðila þar sem sagt er í viðbótarmatsskýrslu að veggur ofan á jarðvegsmön muni verða 1,5 metrar. Hann sé ráðgerður a.m.k. 3 metra hár til að uppfylla hljóðvörn vegna 16 þúsund bíla umferðar. Hollustuvernd ríkisins hafi bent á þetta atriði í umsögn sinni samhliða því að segja að ekki sé hægt að gera sér grein fyrir þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili hygðist gera.

Kærendur telja viðbótarmatsskýrslu ekki í samræmi við ákvæði í fyrri úrskurði um að gera skyldi grein fyrir mótvægisaðgerðum miðað við að hljóðstig utan húss fari a.m.k. ekki upp fyrir 55 db(A) og 30 dB(A) innanhúss miðað við endanlega gerð vegarins. Skýrleika gagna sé ábótavant, bæði hvað varðar hljóðmanir og veggi. Forsendur séu breyttar og þversnið sýni ekki rétta mynd miðað við endanlegan veg. Útleiðsla framkvæmdaraðila á hljóðvegg sé villandi. Þá skorti á útfærslu hljóðmanar við Gufuneskirkjugarð. Ekkert samkomulag sé til staðar við íbúa í Garðhúsum 1-51. Útreikningar á hljóðstigi geri ekki ráð fyrir þeirri umferð sem drög að breytingu á aðalskipulagi gerir ráð fyrir. Ekki sé unnt að samþykkja lausnir við mótvægisaðgerðum fyrir tveggja akreina veg árið 2027 sem byggja á eldri gögnum en þeim sem til kynningar eru fyrir almenning í dag. Þá hafi Hollustuvernd ríkisins ekki talið unnt að leggja mat á þær mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaraðili lýsti í viðbótarmatskýrslu. Ekki hafi verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða í hinum kærða úrskurði og Skipulagsstofnun hafi borið að rökstyðja sérstaklega hvers vegna það var ekki gert.

Kærendur telja að ekki sé gerð fullnægjandi grein fyrir neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerða. Ekki sjáist heildræn mynd af þeirri mön sem ráðgert er að gera. Einnig sé óljóst hvernig skipting jarðvegsmana og hljóðveggja er háttað, þ.e hversu háir veggirnir verði á hverjum stað fyrir sig.

Kærendur telja að útreikningar á hljóðstigi á hverri hæð fyrir sig gefi ekki rétta mynd þar sem útreikningar á hljóðstigi fyrir tveggja akreina veg fyrir árið 2027 séu ekki réttir.

Kærendur telja að viðbótarmatsskýrsla samræmist ekki ákvæði úrskurðarins um að afla skyldi álits Veðurstofu Íslands á áhrifum ríkjandi vindátta á framkvæmdasvæði á dreifingu mengunarefna og hávaða. Leitað hafi verið álits Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í veðurfræði og álits Veðurstofu Íslands á niðurstöðu hans.

Kærendur telja að framkvæmdaraðili og Skipulagsstofnun hafi ekki fjallað um þann möguleika að leggja Hallsveg í stokk með fullnægjandi hætti. Einnig telja kærendur að framkvæmdaraðili hafi ekki útfært stokk eins og ætlast var til af hálfu ráðherra. Ekki sé ítarlega gerð grein fyrir kostnaði við lagningu vegarins í stokk eða metin þau arðsemisáhrif sem af stofnbrautinni hlýst. Þá sé ekki tekið tillit til þeirra mislægu gatnamóta sem koma í kjölfar stokksins við þverun Víkurvegar og Hallsvegar.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram framkvæmdaraðilar telja að gerð sé fullnægjandi grein fyrir öllum þeim sjö atriðum sem umhverfisráðherra úrskurðaði að gera þyrfti frekari grein fyrir í viðbótarmatsskýrslu. Vísa framkvæmdaraðilar m.a. til greinargerðar sinnar til Skipulagsstofnunar frá 27. júlí 2001. Þeim atriðum sem lúta að fjögurra akreina vegi hafi þó ekki verið gerð endanlega skil, þótt ekki muni þar miklu, enda þurfi að setja þá framkvæmd í nýtt umhverfismat verði í hana ráðist.

Framkvæmdaraðilar segja fullyrðingu kærenda um að ekki sé gerð grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdar á hljóðstig við Garðhús ekki á rökum reista. Í viðbótarmatsskýrslu sé gerð grein fyrir hljóðstigi miðað við fjögurra akreina veg með 20.000 bílum á dag þó sú framkvæmd sé ekki beint til umfjöllunar í umhverfismatinu og að unnt sé að ná ásættanlegu hljóðstigi miðað við fjórar akreinar. Allir umferðarútreikningar, miðað við gildandi skipulagsáætlanir, geri ráð fyrir að umferðin verði innan þeirra marka á viðmiðunartímabilinu. Þá bendi nýjustu umferðarreikningar, sem verið er að vinna út frá nýjustu hugmyndum í vinnu við drög að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, til hins sama eins og áður hefur verið getið. Reikningsleg hæð hljóðmanar sé sú lágmarkshæð hljóðmanar, þ.e. efstu brúnar á hverjum stað, sem þurfi til þess að hljóðstig utan húss fari a.m.k. ekki upp fyrir 55 dB(A) og 30 dB(A) innanhúss sé miðað við það álagstilfelli umferðar sem reiknað er hverju sinni. Í viðbótarmatsskýrslu komi skýrt fram hver hæð á hljóðmön þurfi að vera fyrir hvert tilfelli. Svo segir:

"Hljóðmanarhæð fyrir hús nr. 45 í tilfelli B er eins og lýst er í teikningu nr. 4 í viðbótarmatsskýrslu, þ.e.a.s. að jarðvegsmönin dugar til að uppfylla skilyrði um hljóðstig og því ekki þörf fyrir viðbótarhljóðskerm þar.

Hljóðmanarhæð fyrir hús nr. 47 og 49 í tilfelli B er eins og lýst er í teikningu nr. 4 að viðbættum eins metra (kóti 55,5 m.y.s) háum vegg (hljóðskerm) sem byrjar til móts við vesturgafl húss nr. 47 og hækkar (línulega eða í stöllum spurning um fagurfræði) til austurs í u.þ.b. þrjá metra (kóti 57,5 m.y.s) til móts við norðvesturhorn húss nr 49 og heldur þeim kóta þar til hann nálgast enda jarðvegsmanarinnar og lækkar þá í yfirborðshæð hennar. Framkvæmdaraðili vísar enn til þess að endanleg hönnun mannvirkjanna hefur ekki farið fram en telur að fyllilega hafi verið gerð grein fyrir áhrifum sem íbúar verði fyrir vegna mótvægisaðgerða. Þá vísar framkvæmdaraðili einnig til þess að ekki er rökrétt að hanna mannvirki í dag sem ekki verði reist fyrr en að mörgum árum liðnum, mannvirki sem byggir á lausnum sem eru í stöðugri þróun.

Lega húsa nr. 47 og 49 krefst þess að hljóðmönin til móts við þau sé nokkru hærri en t.d. húsa nr. 41, 43 og 45. Hæð hljóðmanarinnar er því 1,5-2,0 metrum hærri við hús 47 og 2,5-3,0 metrum hærri við hús nr. 49 heldur en við hús 41, 43 og 45. Þessi hæðarmismunur gerir það að verkum að hús nr. 45, sem er næsta hús við þennan hærri hluta manarinnar, nýtur hluta þess skjóls sem mönin framan við hús 47 og 49 veitir. Á hinn bóginn fær hús nr. 41 ekkert "auka" skjól frá húsum 39 eða 43 þar sem mönin þar er álíka há."

Framkvæmdaraðilar vísa til þversniðsteikninga í viðbótarmatsskýrslu um útskýringar á jarðvegsmönum og svars til Skipulagsstofnunar dags. 27. júlí 2001 um skilyrði þess að leiðbeiningargildi hljóðstigs verði uppfyllt. Framkvæmdaraðila viðurkenna að á bls. 13 í viðbótarmatsskýrslu hafi gætt misræmis þar sem fram kemur að settur verði um 1,5 metra hár veggur ofan á jarðvegsmönina að nokkrum árum liðnum. Hins vegar séu allar tölur í töflu 2.2.1 og í texta í kafla 2.3 ásamt öllum töflum þar með réttum gildum. Framkvæmdaraðilar telja að þetta misræmi geti þó ekki leitt til þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

Í umsögn Veðurstofu Íslands, dags. 26. september 2001, er vísað til fjögurra ára vindathugana frá Korpu við mat á mengunaráhrifum frá Hallsvegi á íbúðarhús við Garðhús. Í umsögninni segir að á sumarhelmingi ársins, frá apríl til september hafi haf- og landgola mikil áhrif og vindrósir sýni að norðvestlæg hafgola er tíð að deginum en landgola milli suðsuðaustur og austurs tíðust á nóttunni. Talið er að mengunarefni ættu oftast að berast langs eftir Hallsvegi og þó fremur í átt að kirkjugarðinum en að húsunum við Garðhús. Ljóst sé að hávaðamengun geti orðið vandamál við Garðhús enda fyrirhugaðar sérstakar varnaraðgerðir af þeim sökum. Sérstaklega virðist húsin nr. 49, 51 og 53 vera í viðkvæmri stöðu vegna hávaða í senn frá Hallsvegi og Víkurvegi ekki síst vegna nálægðar við gatnamót þessara gatna.

IV. Niðurstaða

1. Aðalkrafa

Kærendur telja að hinn kærði úrskurður hafi ekki verið kveðinn upp af þar til bæru stjórnvaldi þar sem fram komi í úrskurðinum að hann sé kveðinn upp af Skipulagsstofnun en ekki skipulagsstjóra. Í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, kemur fram að skipulagsstjóri skuli kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt eldri skipulagslögum, nr. 19/1964, fór skipulagsstjóri með framkvæmdir í skipulagsmálum í umboði ráðuneytis og skipulagsstjórnar. Með skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, voru skipulagslög, nr. 19/1964 felld úr gildi. Samkvæmt 5. gr. núgildandi skipulags- og byggingarlaga, fer skipulagsstjóri ríkisins með daglega stjórn Skipulagsstofnunar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar ber skipulagsstjóri ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi Skipulagsstofnunar gagnvart ráðherra og gerir rekstraráætlanir fyrir hana. Breyting hefur þannig orðið á stjórnkerfi skipulags- og byggingarmála frá því að áðurgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett. Ber því að skýra 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993 til samræmis við gildandi skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997. Af framangreindum ákvæðum þeirra laga er skýrt að skipulagsstjóri er starfsheiti forstjóra Skipulagsstofnunar en ekki sérstakt stjórnvald. Fellst ráðuneytið því ekki á sjónarmið kæranda um þetta atriði.

Kærendur telja að Skipulagsstofnun og skipulagsstjóri hafi verið vanhæf til að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar vegna afskipta sinna af viðbótarmatsskýrslu áður en úrskurður var kveðinn upp. Ráðuneytið óskaði eftir tilvitnuðu bréfi Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila frá 27. apríl 2001. Í bréfinu segir m.a. að æskilegt sé að hafa samráð við íbúa á áhrifasvæði framkvæmdar og að slíkt samráð auki líkur á því að ásættanleg niðurstaða náist fyrir málsaðila. Ráðuneytið telur umrædd ummæli ekki vísa eingöngu til framkvæmdaraðila sem málsaðila. Ráðuneytið lítur svo á að ekki komi fram í tilvitnuðu bréfi endanleg afstaða til framkvæmdarinnar eða matsskýrslu heldur leiðbeining til framkvæmdaraðila. Þá telur ráðuneytið mál þetta ekki sambærilegt máli íslenska ríkisins gegn Stjörnugrís hf., hæstaréttarmál nr. 113/2000. Skipulagsstofnun ber að sinna leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart þeim sem til hennar leitar sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 3. gr. áðurgildandi laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993 annast skipulagsstjóri framkvæmd laganna. Samkvæmt 9. gr. sömu laga sér framkvæmdaraðili um mat á umhverfisáhrifum og ber kostnað af því en skipulagsstjóri setur almennar leiðsögureglur um framkvæmd matsins. Samkvæmt 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 veitir Skipulagsstofnun leiðbeiningar samkvæmt lögunum. Er því ljóst að Skipulagsstofnun ríkisins hefur ríka leiðbeiningarskyldu gagnvart framkvæmdaraðila og öðrum sem til embættisins leita varðandi mat á umhverfisáhrifum. Fellst ráðuneytið því ekki á sjónarmið kærenda hvað varðar þetta atriði.

Kærendur telja að Skipulagsstofnun hafi borið að gefa þeim kost á að koma að athugasemdum við svör framkvæmdaraðila við framkomnar umsagnir um matsskýrslu. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 skal skýrsla um mat á umhverfisáhrifum auglýst opinberlega. Skýrsla um frekara mat Hallsvegar frá Fjallkonuvegi til Víkurvegar var auglýst opinberlega og lá frammi til kynningar frá 8. júní til 13. júlí 2001. Um samráð við aðra athugun segir í reglugerð um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994, að óska skuli eftir umsögnum frá lögbundnum umsagnaraðilum jafnframt sem skipulagsstjóri geti leitað eftir áliti sérfróðra aðila eftir því sem þörf krefur. Ráðuneytið telur að ekki komi fram í svörum framkvæmdaraðila upplýsingar um áður óþekkt umhverfisáhrif, breytingu á fyrirhugaðri framkvæmd eða mótvægisaðgerðum þannig að þær upplýsingar hafi haft verulega þýðingu í málinu. Í svörum framkvæmdaraðila eru skýrð sjónarmið hans gagnvart þeim atriðum sem fram koma í umsögnum og athugasemdum um matsskýrslu. Ráðuneytið telur því að Skipulagsstofnun hafi ekki verið skylt að gefa kærendum sérstaklega kost á að gera athugasemdir við svör framkvæmdaraðila.

Kærendur telja að Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni. Stofnunin hafi ekki gert athugsemdir við ófullnægjandi skýringar og teikningar framkvæmdaraðila, ekki sé að finna skilgreiningu á því hvort með hljóðmön sé átt við jarðvegsmön og hljóðvegg eða bara mön og notast hafi verið við úreltar umferðarforsendur. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að skýrsla um frekara mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar var auglýst opinberlega og umsagna leitað í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, sbr. reglugerð um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir athugasemdum kærenda. Í teikningum sem fylgdu matsskýrslu eru ekki sýndir hljóðveggir sem fyrirhugað er að setja ofan á jarðvegsmanir. Hins vegar er í töflum 2.3.1, 2.3.2 og 2.3.3 í matsskýrslunni gerð grein fyrir lágmarkshæð hljóðvarna í heild. Ráðuneytið telur að hér hafi gætt ónákvæmni í framsetningu hjá framkvæmdaraðila. Ekki verður þó séð að þetta atriði hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins hjá Skipulagsstofnun og teljist því verulegur galli á málsmeðferð sem leiða eigi til ógildingar úrskurðarins. Framkvæmdaraðili hefur viðurkennt að þarna gæti misræmis og lagt fram nýjar þversniðsteikningar með umsögn sinni um framangreindar kærur þar sem sýnt er hvar fyrirhugað er að setja hljóðveggi ofan á jarðvegsmanir. Voru þær teikningar sendar kærendum ásamt framkomunum umsögnum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær. Í tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir 18.000 bíla umferð árið 2027 um Hallsveg en það skipulag hefur ekki öðlast gildi. Eins og fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar hafði tillaga að breyttu aðalskipulagi ekki verið samþykkt þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Ráðuneytið telur að rétt hafi verið af Skipulagsstofnun að miða við umferðarforsendur gildandi skipulags og því hafi ekki skort á að stofnunin rannsakaði þennan þátt málsins. Fellst ráðuneytið því ekki á þessa málsástæðu kærenda.

Með vísan til þess sem að framan segir er aðalkröfu kærenda hafnað.

2. Varakröfur

Fjallað verður í einu lagi um vara-, þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu kærenda.

2.1.

Í kæru íbúa við Garðhús er fjallað um skipulag Húsahverfis í Grafarvogi og breytingar þar á. Í kærunni segir að það hefi verið viðurkennt að borgaryfirvöld hafi búið yfir vitneskju um að sú gata sem nefnd var Vetrarbraut á sínum tíma, nú Hallsvegur, hafi verið ráðgerð sem fjögurra akreina gata en að kærendur hafi ekki fengið vitneskju þar um. Kærendur hafi alla tíð mótmælt þessari breytingu þó svo að borgaryfirvöld hafi samþykkt breytingu á aðalskipulagi árið 1990-2010.

Samkvæmt 16. gr. skipulags- og byggingarlaga, 73/1997, með síðari breytingum, skal í aðalskipulagi setja fram stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili. Skal við gerð þess byggt á markmiðum laganna og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins á skipulagstímabilinu. Í mati á umhverfisáhrifum skal hins vegar samkvæmt 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, sbr. 5. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994 tilgreina á viðunandi hátt bein og óbein, jákvæð og neikvæð, skammtíma og langtíma, afturkallanleg og óafturkallanleg áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. Mati á umhverfisáhrifum er þannig ætlað það afmarkaða hlutverk að leiða í ljós umhverfisáhrif tiltekinnar framkvæmdar og fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Skipulags- og byggingarlög gera ráð fyrir því að tillögur að aðal- og deiliskipulagi, markmið þeirra og forsendur séu kynntar íbúum á fullnægjandi hátt og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum og er því um að ræða annað og ótengt ferli að formi til. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum skal einnig auglýst opinberlega svo allir hafi kost að gera athugasemdir, jafnframt sem kæra er öllum heimil.

Í úrskurði ráðuneytisins um frummat á umhverfisáhrifum Hallsvegar, frá 22. desember 2000 var, í málsatvikalýsingu, fjallað stuttlega um skipulag á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði þar sem aðilar málsins voru ekki á einu máli um það atriði. Málsástæður kærenda um að þeir hafi ekki fengið vitneskju á réttum tíma um áform borgaryfirvalda varða málsmeðferð borgaryfirvalda á skipulagstillögum. Sú málsmeðferð er ekki til umfjöllunar í þessu máli. Fyrir liggur að gert hefur verið ráð fyrir vegi á framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar í skipulagi. Hins vegar hafa ekki legið fyrir fyrr en í fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum upplýsingar um hönnun vegarins og umhverfisáhrif. Ekki verður séð að Hallsvegur, tveggja akreina vegur frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi, stangist á við skipulag svæðisins þó svo að ekki séu metnar samhliða aðrar framkvæmdir sem tengjast munu fyrirhuguðum Hallsvegi ef af þeim verður.

2.2.

Kærendur telja að samkvæmt gögnum sem fyrir liggi sé meginmarkmið framkvæmdarinnar annað en það sem fram komi í skýrslu framkvæmdaraðila. Meginmarkmið þess hluta sem nú sé til umfjöllunar sé fyrsti áfangi í tengingu væntanlegrar byggingarsvæða austan Hallsvegar. Viðbótarmatsskýrslan sé ekki í samræmi við það sem kemur fram í drögum að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2000-2024 og tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Þá telja kærendur að ályktun Skipulagsstofnunar, um að aðeins hluti umferðar í Hamrahlíðarlöndum muni fara um Hallsveg, sé röng og glöggt megi sjá þann beina sparnað og eldsneytisspörun fyrir þá sem hyggjast fara um Sundabraut í átt að miðbæjarkjarna Reykjavíkur með því að fara væntanlegan Hallsveg. Jafnframt sé ekki til talning á þeirri umferð sem fer um Gagnveg í dag. Kærendur telja einnig að meta beri fjögurra akreina stofnbraut nema sýnt sé fram á að ekki sé þörf á fjórum akreinum miðað við áætlaða uppbyggingu.

Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994, skal í mati á umhverfisáhrifum koma fram markmið framkvæmdar. Samkvæmt frummatsskýrslu er markmið fyrirhugaðrar framkvæmdar að létta umferð um Gagnveg í gegnum íbúðarhverfi yfir á stofnbraut og koma í veg fyrir óþarfa gegnumakstur með tilheyrandi slysahættu ásamt því að bæta samgöngur til og frá Grafarvogshverfum. Í frummatsskýrslu kom einnig fram að megintilgangur og framtíðarmarkmið með endanlegum Hallsvegi sé að tengja fyrirhugaða Sundabraut og Vesturlandsveg og þaðan í Hamrahlíðarlönd. Í úrskurði ráðuneytisins um frummat á umhverfisáhrifum Hallsvegar frá 22. desember 2000 kom m.a. fram að kanna skuli frekar þörf á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar í frekara mati. Í fyrirliggjandi skýrslu um frekara mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar er framangreint markmið framkvæmdarinnar, að létta umferð um Gagnveg í gegnum íbúðarhverfi yfir á stofnbraut og koma í veg fyrir óþarfa gegnumakstur með tilheyrandi slysahættu ásamt því að bæta samgöngur til og frá Grafarvogshverfum, áréttað. Ráðuneytið telur umrædd markmið lögmæt og að sýnt hafi verið fram á að framkvæmdin muni þjóna þeim markmiðum sem að er stefnt.

Í viðbótarmatsskýrslu framkvæmdaraðila kemur fram að spáð er 3.000 bíla umferð á sólarhring um Hallsveg þegar við opnun vegarins. Jafnframt er spáð 12.000 bíla umferð á sólarhring um veginn árið 2008 að því gefnu að fyrsta áfanga Sundabrautar verði þá lokið og Hallsvegur tengdur Vesturlandsvegi. Spáð er 9.000 bíla umferð á sólarhring það ár ef tengingu við Vesturlandsveg verður ekki lokið. Árið 2027 gerir framkvæmdaaðili ráð fyrir að umferð um Hallsveg verði um 16.000 bílar á sólarhring enda sé tenging Hallsvegar til austurs og vesturs þá lokið þ.e.a.s. við Vesturlandsveg og Hamrahlíðarlönd í austri og um Strandveg og Sundabraut í vestri. Fram kemur í gögnum framkvæmdaraðila að miðað sé við að tveggja akreina vegur geti annað 15-16.000 bílum á sólarhring. Miðað við þessar forsendur telur framkvæmdaraðili að tveggja akreina vegur muni anna umferð um Hallsveg næsta aldarfjórðunginn eða til ársins 2027. Gerist þess þörf sé mögulegt að breikka veginn í fjórar akreinar. Það hefur hins vegar komið fram að afkastageta tveggja akreina vega er breytileg og dæmi séu um tveggja akreina vegi í Reykjavík þar sem umferð sé 18-20.000 bílar á sólarhring. Í viðbótarmatsskýrslu segir að ekki verði ráðist í framkvæmdir við breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar fyrr en Sundabraut verður komin til, búið verður að tengja Hallsveg milli Sundabrautar og Vesturlandsvegar og byggð verður hafin í Hamrahlíðarlöndum með tengingu við Hallsveg. Þá þurfi umferð að verða meiri en núverandi umferðaspá fyrir Hallsveg fyrir árið 2027 gefur til kynna.

Ráðuneytið tekur undir það með Skipulagsstofnun að ekki verði séð að umferð frá fyrirhugaðri byggð austan Vesturlandsvegar muni fara nema að takmörkuðu leyti um Hallsveg nema gerð verði tenging milli Hallsvegar og Vesturlandsvegar. Ráðuneytið telur aftur á móti að búast megi við að umferð úr Hamrahlíðarlöndum færi að töluverðu leyti um Hallsveg ef hann yrði tengdur Vesturlandsvegi og þannig megi búast við auknu vægi vegarins verði af tengingu hans við Sundabraut til vesturs. Ráðuneytið fellst því ekki á að Hallsvegur, tveggja akreina vegur, frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi muni verða meiriháttar umferðaræð. Ráðuneytið fellst ekki á það sjónarmið kærenda að fyrri úrskurður ráðuneytisins feli það í sér að framkvæmdaraðilum beri skilyrðislaust að meta í einu lagi fjögurra akreina stofnbraut á þessu svæði, þótt þörf kunni að vera á slíkri stofnbraut síðar. Fram hefur komið að enn er gert ráð fyrir mögulegri breikkun vegarins í framtíðinni í tengslum við framkvæmdir við svokallaða Sundabraut og tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg. Ekki hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda og þrátt fyrir frekara mat Hallsvegar liggur ekki fyrir hvort eða hvenær af þeim framkvæmdum verði Ljóst er hins vegar að sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar væri jafnframt nauðsynlegur liður í slíkri framkvæmd.

Samkvæmt viðbótarmatsskýrslu er talið að umferð um hluta Gagnvegar muni að óbreyttu aukast um 2.000 til 3.000 bíla á sólarhring til ársins 2008 miðað við umferðarálag eins og það var árið 1999. Verði Hallsvegur byggður er talið að umferð um Gangveg muni hins vegar minnka um 1.000 bíla á sólarhring miðað við umferðarálag eins og það var 1999.

Ráðuneytið telur rökrétt að álykta sem svo að umferð um Gagnveg muni aukast ef Hallsvegur verði ekki byggður og jafnframt að umferð um hann muni minnka með tilkomu Hallsvegar. Auk þess sé líklegt að umferð til annarra hverfa innan Grafarvogs verða auðveldari með tilkomu Hallsvegar og draga muni úr akstri á milli hverfa um aðrar götur t.d. Langarima.

Ráðuneytið telur að sýnt hafi verið fram á að þörf sé á lagningu Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi óháð öðrum framkvæmdum og að Hallsvegur, tveggja akreina vegur frá Fjallkonuvegi til Víkurvegar, sé framkvæmd sem geti staðið sjálfstætt óháð frekari tengingum.

2.3.

Kærendur telja að raunhæft og eðlilegt sé að Hallsvegur verði lagður í stokk á kaflanum fyrir framan Garðhús. Kærendur telja að með arðsemissjónarmið að leiðarljósi beri að reikna allar þær tekjur sem af stofnbrautinni leiða ásamt öllum þeim gjöldum sem kunna að tengjast framkvæmdinni. Þá draga kærendur í efa að unnt sé að koma fyrir fjögurra akreina stofnbraut á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.

Í viðbótarmatsskýrslu er stuttlega gerð grein fyrir lagningu hluta Hallsvegar í stokk. Gert er ráð fyrir 400 metra löngum stokki með fimm metra lofthæð. Í skýrslunni segir að kostnaður við vegstokk á kaflanum fyrir framan Garðhús sé 480 milljónir. Samkvæmt viðbótarmatsskýrslu er kostnaður við fyrirhugaða framkvæmd Hallsvegar talin verða 140 milljónir króna. Samkvæmt þessu er ljóst að kostnaður við vegstokk á svo stuttri vegleið yrði margfaldur sá kostnaður sem framkvæmdaraðili hefur gert ráð fyrir.

Hönnun Hallsvegar var endurskoðuð í frekara mati framkvæmdarinnar og í þeirri endurskoðun var hæðarlega vegarins lækkuð um allt að 3 metra á kafla norðan við Garðhús. Með þessu hefur framkvæmdaraðili dregið úr þeim óæskilegu áhrifum sem af framkvæmdinni hljótast. Í því skyni að kanna hvort unnt væri að draga enn frekar úr þessum áhrifum t.d. með því að lækka veginn meira og breyta tengingum inn á Víkurveg kallaði ráðuneytið annars vegar eftir forsendum framkvæmdaraðila varðandi hæðarlegu Hallsvegar og hins vegar eftir umsögn og mati á þeim möguleika að leggja veginn undir Víkurveg með mislægum gatnamótum. Í minnisblöðum framkvæmdaraðila kemur fram að frekari lækkun vegarins sé verulegum erfiðleikum háð vegna hæðarlegu fráveitulagna, tengingar við innakstur í kirkjugarð og kostnaðar vegna mikilla sprenginga. Jafnframt kom fram að aukakostnaður við gerð mislægra gatnamóta væri áætlaður um 300 milljónir króna. Að mati ráðuneytisins eru skýringar framkvæmdaraðila trúverðugar og augljóst að ekki verði gengið mikið lengra í þá átt að lækka veginn af tæknilegum ástæðum auk mikils kostnaðar. Þá telja kærendur að ekki komi fram í framangreindum minnisblöðum upplýsingar um nýjar ásættanlegar lausnir.

Í viðbótarmatsskýrslu kemur fram að gert er ráð fyrir að breidd tveggja akreina vegar verði 7,5 metrar á milli ytri kantsteina. Verði vegurinn breikkaður í fjórar akreinar síðar verður heildarbreidd hans 21 meter á milli ytri kantsteina. Við þessa breidd bætist sú breidd sem þarf til að taka upp hæðarmismun milli vegar og lands auk hæðarmismunar vegna hljóðmanar. Miðað við þær forsendur framkvæmdaraðila að halli á hljóðmön sé 2:1 (lárétt/lóðrétt) verður ekki annað séð en að auðvelt sé að koma vegi og hljóðmönum fyrir innan 60 metra veghelgunarsvæðis.

Samkvæmt 10. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, skal í mati á umhverfisáhrifum tilgreina á viðeigandi hátt áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi kann að hafa á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. Niðurstaða úrskurðar ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, frá 20. desember 2001, sem kveðinn var upp á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, var, að með hliðsjón af 75. gr. stjórnarskrárinnar, bæri í mati á umhverfisáhrifum ekki að fjalla um arðsemi framkvæmdar. Ráðuneytið telur að skýra eigi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, með sama hætti hvað þetta varðar.

Að mati ráðuneytisins eru megináhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á umhverfið, breytingar á hljóðstigi við íbúðarhús við Garðhús og í Gufuneskirkjugarði svo og áhrif fyrirhugaðra mótvægisaðgerða. Samkvæmt viðauka reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 skal jafngildishljóðstig á sólarhring utan við húsvegg á jarðhæð ekki fara yfir 55dB(A) og jafngildishljóðstig innanhúss ekki fara yfir 30dB(A). Enda þótt endurskoðuð veghönnun árið 2001 þar sem hæðarlega vegarins var lækkuð um allt að 3 metra á kafla norðan við Garðhús dragi úr áhrifum á hljóðvist er nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að mæta kröfum reglugerðar um hávaða. Hyggst framkvæmdaraðili reisa jarðvegsgarða með hljóðveggjum í þessu skyni. Jarðvegsgarðar byggðir upp með efni úr vegarstæði eru taldir vera nægileg vörn fyrst í stað til að tryggja ofangreint hljóðstig við öll hús við Garðhús ef undan eru skilin Garðhús nr. 49 og 51. Norðan þeirra yrði að reisa um tveggja metra háan hljóðvegg. Með vaxandi umferð er gert ráð fyrir að hljóðveggir verði reistir víðar. Miðað við tveggja akreina veg og 16.000 bíla sólarhringsumferð getur hæð hljóðamana ásamt hljóðveggjum orðið allt að 4,2 metrar yfir botnplötu.

2.4

Kærendur telja að viðbótarmatsskýrsla framkvæmdaraðila sé ekki fullnægjandi um þau atriði sem kveðið var á um í úrskurði umhverfisráðherra um frummat á umhverfisáhrifum Hallsvegar 20. desember 2000. Í I. kafla úrskurðarins er gerð grein fyrir þeim atriðum sem gerð var krafa um að könnuð yrðu í frekara mati.

Í viðbótarmatsskýrslu er fjallað um þörf á breikkun Hallsvegar í fjórar akreinar. Í skýrslunni kemur fram að ekki verði ráðist í þessar framkvæmdir fyrr en Sundabraut verður komin, búið verður að tengja Hallsveg milli Sundabrautar og Vesturlandsvegar og byggð verður hafin í Hamrahlíðarlöndum með tengingu inn á Hallsveg. Fjallað verði um þær framkvæmdir í sjálfstæðu umhverfismati. Í viðbótarmatsskýrslu segir einnig að miðað við umferðarspá til ársins 2027 verði ekki þörf á breikkun Hallsvegar á því tímabili. Í umsögn framkvæmdaraðila kemur jafnframt fram að þeir telji ekki þörf á tvöföldun vegarins fyrr en eftir um 25 ár.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á hljóðstig m.a. í töflu sem sýnir hljóðstig á hverri hæð fyrir sig í íbúðum við Garðhús sem snúa að Hallsvegi.

Leitað var álits Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í veðurfræði um ríkjandi vindáttir á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Leitað var álits Veðurstofu Íslands á niðurstöðu hans. Ráðuneytið telur greinargerð um áhrif ríkjandi vindátta á framkvæmdasvæði samræmast úrskurði ráðuneytisins um frummat á umhverfisáhrifum Hallsvegar. Þá hefur Veðurstofa Íslands gefið umsögn um framkomnar kærur. Vindrós frá Korpu gefur til kynna að vindáttir á milli austurs og suðurs séu tíðastar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Vindur af þessum áttum stendur af íbúðarhúsum við Garðshús og hjálpar til við að draga úr hávaða og mengunarhættu. Hins vegar gefur vindrós þar sem sérstaklega eru dregnar saman mælingar að degi til yfir sumarmánuðina skýrt til kynna að hafgola af norðvestri er ríkjandi vindátt og við þær aðstæður berst hávaði og loftmengun frekar í áttina til húsanna en ella. Telur ráðuneytið rétt að höfð verði hliðsjón af framangreindum niðurstöðum við hönnun og útfærslu mótvægisaðgerða eftir því sem unnt er.

Ráðuneytið telur einnig að fullnægjandi grein sé gerð fyrir möguleikum þess að leggja Hallsveg í stokk.

Óumdeilt er að skerðing verður á útsýni frá þeim íbúðum við Garðhús sem snúa að Hallsvegi vegna þeirra mótvægisaðgerða sem fyrirhugað er að grípa til svo hljóðvist verði haldið innan tilskilinna marka. Fram hefur komið að framkvæmdaraðilar gera ekki ráð fyrir að skertu útsýni vegna hljóðveggja en gert er ráð fyrir að þeir geti verið úr hertu gleri. Ráðuneytið telur að viðbótarmatsskýrsla að viðbættum þeim teikningum sem fylgdu umsögn framkvæmdaraðila gefi fullnægjandi mynd af áhrifum fyrirhugaðra mótvægisaðgerða enda þótt framkvæmdaraðili vanmeti neikvæð umhverfisáhrif hvað varðar skert útsýni sem af því hlýst að reisa hljóðveggi ofan á jarðvegsmönum.

Ráðuneytið telur, með vísun til þess sem að framan segir, að framkvæmdaraðilar hafi gert fullnægjandi grein fyrir þeim atriðum sem úrskurður umhverfisráðherra um frummat framkvæmdarinnar, dags. 22. desember 2000, kvað á um.

2.5.

Það er mat ráðuneytisins að kröfugerð kærenda byggist í meginatriðum á því sjónarmiði að meta beri heildstætt framkvæmdir við Hallsveg sem fjórar akreinar með tengingum við Sundabraut í vestri og Vesturlandsveg í austri. Ráðuneytið telur fyrirliggjandi gögn benda til að hugsanleg breikkun Hallsvegar og tengingar til austurs og vesturs muni hafa áhrif á hljóðstig við Garðhús. Eins og gerð hefur verið grein fyrir eru þær framkvæmdir hins vegar ekki til umfjöllunar í þessu máli. Ráðuneytið telur að fyrirhuguð framkvæmd sé afmörkuð með fullnægjandi hætti og geti þjónað því markmið sem að er stefnt. Meginatriði þessa máls er því hvort fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir séu framkvæmanlegar og þannig fullnægjandi til að koma í veg fyrir óæskileg umhverfisáhrif.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru megináhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar áhrif á hljóðvist. Áhrif umferðar á hljóðstig til framtíðar er að mörgu leyti óviss. Eðli málsins samkvæmt er ávallt um að ræða óvissu í spám um umferð eins og öðrum spám. Ekki liggja fyrir rannsóknir á áreiðanleika umferðarspáa undanfarinna ára. Fram hefur komið að nokkur óvissa er um það í hvaða röð byggt verður á því byggingarlandi sem er til ráðstöfunar í Reykjavík. Ekki liggur heldur fyrir hvort eða hvenær farið verður í framkvæmdir sem tengjast fyrirhuguðum Hallsvegi. Fjölmörg atriði svo sem þróun almenningssamgangna, bílvéla og hjólbarða og neyslumynstur geta jafnframt haft áhrif. Umhverfisáhrif vegna hávaða eru því að vissu leyti afturkallanleg. Sjónræn áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar eru þau áhrif sem að takmörkuðu leyti verður komið í veg fyrir með mótvægisaðgerðum. Ekki eru í lögum eða reglugerðum sérstök ákvæði um takmörk á sjónrænum áhrifum vegna vegaframkvæmda.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum. Leyfi til framkvæmda er veitt á grundvelli 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr 73/1997, með síðari breytingum.

Ráðuneytið telur að með frekara mati á umhverfisáhrifum Hallsvegar frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi hafi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verið leidd í ljós með fullnægjandi hætti. Ráðuneytið fellst ekki á að binda framkvæmdina skilyrði um margföldun á framkvæmdakostnaði þar sem ráðuneytið telur að útfærsla framkvæmdaraðila á framkvæmdinni sé lögmæt og á grundvelli fyrirliggjandi gagna sé unnt að fullnægja kröfum um hljóðvist með öðrum hætti. Samkvæmt 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skal í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum felast að fallist sé á framkvæmd með eða án skilyrða, krafa sé gerð um frekari könnun einstakra þátta eða lagst sé gegn framkvæmd. Ráðuneytið telur eins og að framan greinir að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hafi verið leidd í ljós. Í 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að gert er ráð fyrir að fallast skuli á framkvæmd með eða án skilyrða ef óæskileg umhverfisáhrif megi fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum.

Með vísun til þess sem að framan segir er úrskurður um mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar í Reykjavík, tveggja akreina vegar, frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi staðfestur með því skilyrði að framkvæmdaraðilar hafi samráð við fulltrúa íbúa við Garðhús og kirkjugarðsyfirvöld um hönnun og útfærslu mótvægisaðgerða og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.

Úrskurðarorð:

Úrskurður Skipulagsstofnunar, frá 3. ágúst 2001, um mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar í Reykjavík, tveggja akreina vegar, frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi staðfestur með eftirfarandi skilyrði:

Framkvæmdaraðilar hafi samráð við fulltrúa íbúa við Garðhús og kirkjugarðsyfirvöld um hönnun og útfærslu mótvægisaðgerða og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum