Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 5/2008, úrskurður 10. nóvember 2009

Grein

Þriðjudaginn 10. nóvember var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 5/2008. Vegagerðin gegn Eigendum Miðfells og kveðinn upp svohljóðandi ú r s k u r ð u r : I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta: Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Björn Þorri Viktorsson, hrl. og lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins: Með matsbeiðni dags. 7. ágúst 2008 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 3. september 2008 fór eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 13,45 ha. landspildu úr landi Miðfells, Bláskógabyggð. Hin eignarnumda spildan er að sögn eignarnema samtals 14,03 ha. að stærð en gamalt vegsvæði Þingvallavegar sem telst 0,58 ha. er skilað aftur til landeigenda og kemur því til frádráttar. Af þessum sökum telst heildarstærð þess sem meta á 13,45 ha. svo sem að framan greinir. Eignarnámsþolar eru þinglýstir eigendur Miðfells. Tilefni eignarnámsins eru fyrirhugaðar framkvæmdir eignarnema við lagningu Lyngdalsheiðarvegar frá Þingvallavegi við Miðfell um land Miðfaells sunnan Eldborgahrauns suður fyrir Litla-Reyðarbarm, um Lyngdalsheiði að Laugarvatni. Eignarnámsheimildina er að finna í vegalögum nr. 80/2007. III. Málsmeðferð: Málið var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 3. september 2008. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu. Þriðjudaginn 23. september 2008 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Matsnefndin tilkynnti þá ákvörðun sína að eignarnema væri heimilt að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati væri ekki lokið með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema. Mánudaginn 12. nóvember 2008 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að þú búnu frestað til framlagningar greinargerða af hálfu eignarnámsþola. Mánudaginn 24. ágúst 2009 var málið tekið fyrir. Voru þá lagðar fram greinargerðir lögmanna eignarnámsþola sem borist höfðu nefndinni. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir nefndinni. Föstudaginn 2. október 2009 var málið tekið fyrir. Fór þá fram munnlegur flutningur þess fyrir nefndinni og var málið að því búnu tekið til úrskurðar. IV. Sjónarmið eignarnema: Um tilefni eignarnámsins vísast til þess sem fram kemur í kafla II. hér að framan. Eignarnemi kveður hið eignarnumda svæði vera 40 m. breitt og 3.450 m. langt. Famlögð kort sýna legu vegarins auk þess sem matsnefndin hefur kynnt sér legu hans á vettvangi svo sem fyrr greinir. Eignarnemi kveðst hafa boðið kr. 500.000 pr./ha. fyrir hið eignarnumda land að frádregnu því landi sem skilað verður aftur. Samtals næmu bætur því kr. 6.750.000 sem eignarnemi telur hæfilegar bætur í máli þessu með hliðsjón af líklegu söluverði landsins á markaði. Telur eignarnemi þær bætur hæfilegar þegar litið sé til landgæða og staðsetningar á spildunni. Þá verði ekki litið hjá því að spildan sé gróðurfarslega rýr og þar sé mosagróður ríkjandi. Telur eignarnemi landið því á engan hátt sambærilegt við eftirsótt land við Þingvallavatn. Þá bendir eignarnemi sérstaklega á að Miðfellið skyggi á útsýni af spildunni út á vatnið, a.m.k. að hluta, sem hljóti að rýra verðmæti spildunnar sem sumarhúsalands. Eignarnemi bendir á að frístundahús hafi ekki verið byggð á svæðinu og ekki sé fyrirsjáanlegt að breyting verði þar á. Eignarnemi telur að við matið beri að auki að taka verði tillit til árlegs afraksturs af landinu, en eignarnámsþolar hafi ekki sýnt fram á neinn sérstakan afrakstur af spildunni og ekki sé líklegt að það breytist í náinni framtíð. Eignarnemi telur að draga beri sérstaklega frá bótum þær hagsbætur sem framkvæmd eignarnema á svæðinu hafi í för með sér fyrir eignarnámsþola sbr. 3. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007, en hinn nýi vegur muni gera nýtingu landsins á vetrum mögulega sem fram til þessa hefur verið takmörkuð. V. Sjónarmið eignarnámsþola: Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að við það verði miðað að veghelgunarsvæðið sé 60 m. breitt en ekki 40 m. eins og eignarnemi miði kröfugerð sína við. Í þessu sambandi benda eignarnámsþolar á að skv. 32. gr. vegalaga segi að byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skuðir eða önnur mannvirki, föst eða laus, megi ekki staðsetja nær vegi en 30 m. frá miðlínu stofnvega nema leyfi veghaldara komi til. Telja eignarnámsþolar með vísan til þessa að hið eignarnumda sé ekki 14,03 ha. að stærð heldur 20,7 ha. Eignarnámsþolar telja hæfilegar bætur vera kr. 5.000.000 á hvern ha. lands. Við matið verði ekki hjá því litið að spildan sé á verðmætu útsýnissvæði sem sé afar heppilegt til byggingar frístundabyggðar sem og annarar útivistar. Við framangreinda fjárhæð sé litið til söluverðs spildna á svæðinu, s.s. sölu lóða við Þingvallavatn. Af hálfu eignarnámsþola er ekki fallist á að eignarnemi geti takmarkað það land sem metið er til verðs með því að segjast skila 0,58 ha. lands þar sem engar bætur hafi verið greiddar fyrir það land á sínum tíma og því sé það land og hafi alltaf verið hluti af jörðinni og því í eigu eignarnámsþola. Eignarnámsþolar mótmæla því að landið sé rýrt eins og eignarnemi haldi fram. Þvert á móti sé um gott svæði að ræða undir margs konar starfsemi, m.a. frístundabyggð. Útsýni sé þar gott og kvöldsólar njóti við. Þá sé land nærri vatninu af skornum skammti og því einmitt líklegt að frístundabyggð byggist upp á þessu svæði, fjarri vatninu. Eignarnámsþolar benda sérstaklega á að landið sé í næsta nágrenni við Þingvelli sem skráðir voru á heimminjaskrá UNESCO þann 2. júlí 2004. Bent er á að landið sé einkar verðmætt vegna grunnvatnsstrauma sem á því séu, en slík réttindi séu mikilvæg og líkur á að verðmæti þeirra aukist. Landið sé því verðmætt sem ósnortin heild en hætta er á að framkvæmdir eignarnema og mengun sem vegurinn geti valdið kunni að skemma grunnvatnsverðmætin. Kveða eignarnámsþola Orkuveitu Reykjavíkur hafa falast eftir jörðinni vegna þessara grunnvatnsréttinda. Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega að litið sé til árlegs afraksturs landsins. Slíkur mælikvarði sé ekki til þess fallinn að sýna fullar bætur svo sem álið sé í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá skipti heldur engu máli þó landið hafi ekki verið skipulagt sem frístundarland, heldur sé það sem máli skipti að það megi nota það til slíkra hluta. Vísað er til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1984 bls. 906 í svokölluðu Ásgarðsmáli. Eignarnámsþolar mótmæla að draga skuli frá bótum meinta verðmætaaukningu sem verði á landinu. Telja þeir að vegurinn skipti engu um nýtingu landsins enda séu á landinu ýmsir vegslóðar sem geri aðgengi að landinu mögulegt. Hinn nýi vegur sé ekki líklegur til annars en rýra verðmæti landsins að þeirra mati. Eignarnámsþolar benda sérstaklega á að vegurinn muni skemma hina ósnortnu heild sem landið sé nú. Tilkoma vegarins muni rýra verulega allt land í nágrenni hans, langt umfram veghelgunarsvæðið sjálft, enda sé það krafa þeirra sem frístundarhús byggja að þar sé ekki ónæði frá fjölförnum vegum. Þá er bent á að vegurinn komi til með að skera Miðfellslandið og að ofan vegarins verði 204,69 ha. spilda sem komi til með að nýtast mun ver en áður og því þurfi að bæta það sérstaklega. Eignarnámsþolar telja því hæfilegar bætur fyrir almennt óhagræði og verðrýrnun á jörðinni, umfram framangreint verð pr./ha. skuli bæta sérstaklega. Bótakrafa eignarnámsþolanna Sigurðar Gunnarssonar, Jónasar Jónssonar, Guðmundar Valdimarssonar, Ásmundar Ásmundssonar, Þuríðar Björnsdóttur, Sonju G. Jónsdóttur, Guðmundu A. Kristjánsdóttur, Ingiríðar O. Snæbjörnsdóttur, Þorgeirs Björnssonar, Þórunnar Jóhannsdóttur, Guðrúnar K. Ottesen, Snjólaugs Þorkelssonar, Ásu Gunnarsdóttur, Ásu Snæbjörnsdóttur, Hrafnhildar Sigurðardóttur, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Kristínar Þ. Ottesen, Sigríðar Þ. Ottesen, Kristjáns B. Kristjánssonar, Þráins Sigurðssonar, Jakobínu Boeskov, Þorláks Hermannssonar, Þuríðar Hermannsdóttur og Herdísar Hermannsdóttur sundurliðast þannig: Bætur fyrir eignarnumið land 20,12 ha. x kr. 5.000.000 kr. 103.500.000 Bætur vegna óhagræðis af vegi, skiptingu lands o.fl. kr. 35.000.000 Bætur vegna bráðabirgða afnota lands kr. 400.000 Samtals kr. 138.900.000 Af hálfu eignarnámsþolans Péturs M. Jónassonar er krafist eignarnámsbóta að fjárhæð kr. 100.000.000 sem sundurliðast þannig: Bætur vegna eignarnáms kr. 30.000.000 Bætur fyrir skerðingu lands utan helgunarsvæðis vegarins, .m.t. skerðingu á nýtingu vatnsréttinda kr. 65.000.000 Tímabundin og varanleg óþægindi vegna vegarins kr. 5.000.000 Samtals kr. 100.000.000 Af hálfu eignarnámsþolanna Þóru Pétursdóttur, Péturs Jónssonar, Agnars Jóns Jónssonar og Jóns Ingileifssonar er krafist eignarnámsbóta að fjárhæð kr. 138.900.000 sem sundurliðast þannig: Bætur fyrir eignarnumið land 20,12 ha. x 5.000.000 kr. 103.500.000 Bætur vegna óhagræðis af vegi, skiptingu lands o.fl. kr. 35.000.000 Bætur vegna bráðabirgða afnota lands kr. 400.000 Samtals kr. 138.900.000 VI. Álit matsnefndar: Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að eignarnema verði gert að taka stærra landsvæði eignarnámi en krafist er í matsbeiðni. Af þessum sökum er litið svo á að eignarnámsandlagið sé það sem tilgreint er í kafla II. í úrskurði þessum. Að áliti matsnefndarinnar er hið eignarnumda land misverðmætt. Þannig er það land sem næst liggur Þingvallavatni og er lægst yfir sjávarmáli verðmætara en það sem hærra liggur. Hið verðmætara land er vel hentugt til frístundabyggðar en hitt síðra. Miðfellið skyggir nokkuð á útsýni af þeim hluta landsins sem þykir hentugur til frístundabyggðar og rýrir það verðmæti landsins nokkuð. Þannig álítur matsnefndin að flokka megi landið í þrennt. Gott land, milligott og síðra. Að áliti matsnefndarinnar er hæfilegt verð fyrir það land sem verðmætast er kr. 3.000.000 pr./ha. Hæfilegt verð fyrir land í milliflokki telst vera kr. 1.500.000 pr./ha og það land sem hæst liggur og síst er þykir hæfilega metið á kr. 500.000 pr./ha. Telur matsnefndin að hið eignarnumda land skuli skiptast þannig í framangreinda verðflokka: Austasti hluti landsins: 3,5 ha á kr. 500.000 pr./ha. Svæði þetta liggur hæst eða frá 185 m. til 202 m.y.s. Efsti hlutinn flatur en síðan hallar landinu lítið eitt til vesturs. Miðhluti landsins: 4,0 ha á kr. 1.500.000 pr./ha. Svæði þetta liggur í hæð frá 170 m. til 185 m.y.s. og hallar til vesturs að Þingvallavatni. Að áliti matsnefndarinnar er þessi hluti landsins þokkalegt sumarbústaðarland en liggur nokkuð hátt. Miðfellið skyggir nokkuð á útsýni á Þingvallavatn svo sem að framan greinir. Vestasti hluti landsins: 5,95 ha á kr. 3.000.000 pr./ha. Svæði þetta liggur í hæð 152 til 170 m.y.s. og hallar til vesturs að Þingvallavatni. Hentugt fyrir sumarbústaðabyggð þó skyggir nálægð við Miðfell nokkuð á útsýni til vesturs. Með vísan til þessa þykir verðmæti hins eignarnumda lands samtals vera kr. 25.600.000. Fallist er á það með eignarnámsþolum að tilkoma vegarins skeri land jarðarinnar og kunni þess vegna að gera nýtingu hennar örðugri, auk þess sem bygginga- og framkvæmdabann er í nágrenni við hinn nýja veg skv. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007. Er þetta til þess fallið að rýra verðmæti jarðarinnar allrar umfram það sem að framan greinir. Hæfilegar bætur vegna þessa þáttar og takmörkunar á nýtingarmöguleikum jarðarinnar og rasks meðan á framkvæmdum stendur þykja vera kr. 6.700.000. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolunum Sigurði Gunnarssyni, Jónasi Jónssyni, Guðmundi Valdimarssyni, Ásmundi Ásmundssyni, Þuríði Björnsdóttur, Sonju G. Jónsdóttur, Guðmundu A. Kristjánsdóttur, Ingiríði O. Snæbjörnsdóttur, Þorgeiri Björnssyni, Þórunni Jóhannsdóttur, Guðrúnu K. Ottesen, Snjólaugi Þorkelssyni, Ásu Gunnarsdóttur, Ásu Snæbjörnsdóttur, Hrafnhildi Sigurðardóttur, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Kristínu Þ. Ottesen, Sigríði Þ. Ottesen, Kristjáni B. Kristjánssyni, Þráni Sigurðssyni, Jakobínu Boeskov, Þorláki Hermannssyni, Þuríði Hermannsdóttur og Herdísi Hermannsdóttur kr. 1.400.000 þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs máls þessa. Þá skal eignarnemi greiða Pétri M. Jónassyni kr. 400.000 þ.m.t. virðisaukaskattur í kostnað vegna reksturs máls þessa og eignarnámsþolunum Þóru Pétursdóttur, Pétri Jónssyni, Agnari Jóni Jónssyni og Jóni Ingileifssyni kr. 550.000 þ.m.t. virðisaukaskattur vegna þess sama. Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.209.200 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta. ÚRSKURÐARORÐ: Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, eigendum Miðfells, samtals kr. 32.300.000 í eignarnámsbætur og kr. 2.350.000, þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.209.200 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu. ____________________________________ Helgi Jóhannesson ____________________________ ___________________________ Vífill Oddsson Björn Þorri Viktorsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum