Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 398/2018 - Úrskurður - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 398/2018

Miðvikudaginn 3. apríl 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með beiðni, móttekinni 14. mars 2019, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 398/2018 þar sem staðfest var synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða örorkulífeyrisgreiðslur kæranda við búsetutíma maka sem á lengri réttindatíma.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvupóstum í október og nóvember 2018 óskaði kærandi eftir að örorkulífeyrisgreiðslur hans yrðu reiknaðar miðað við búsetutíma maka hans. Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. október 2018 og 12. nóvember 2018, var beiðni kæranda synjað. Fram kemur meðal annars í bréfinu frá 25. október 2018 að Tryggingastofnun hafi ætíð metið það svo að ákvæðið í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, um að taka megi tillit til búsetutíma maka ellilífeyrisþega, sé heimildarákvæði sem eigi einungis við um ellilífeyrisgreiðslur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. nóvember 2018. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 12. mars 2019. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða örorkulífeyrisgreiðslur kæranda við búsetutíma maka sem á lengri réttindatíma.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að úrskurðað verði í máli hans á ný og af öðrum nefndarmönnum.

Í beiðni kæranda kemur fram að lögin séu skýr, þrátt fyrir að úrskurðarnefndin og Tryggingastofnun hafi skoðun á því hvernig lögin eigi að vera. Í ljósi þess og þar sem úrskurðarnefndin hafi úrskurðað síðar en lög kveði á um, auk þess sem bréf þar sem greint sé frá ástæðum tafar eigi að vera send áður en þriggja mánaða frestur sé liðinn, sé óskað eftir nýjum, sanngjörnum úrskurði byggðum á lögum en ekki hugmyndum um það hvernig lögin eigi að vera. Kærandi óski eftir að nýir nefndarmenn kveði upp úrskurðinn, sérstaklega er óskað eftir nýjum nefndarmanni í stað B í ljósi þess að B hljóti að bera persónulega óvild í hans garð. B hafi verið [...] kæranda og kærandi hafi nokkrum sinnum sýnt vonbrigði sín þar sem B hafi aldrei sett hagsmuni [...] í forgang eins og skylt sé samkvæmt lögum. Kærandi telji að B sé ekki [hæf/hæfur] til að úrskurða í málinu.

III.  Niðurstaða

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af beiðni kæranda frá 14. mars 2019 að kærandi óski eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 12. mars 2019. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða örorkulífeyrisgreiðslur kæranda við búsetutíma maka sem á lengri réttindatíma.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Beiðni kæranda um endurupptöku er byggð á því að lögin séu skýr en í niðurstöðu hafi úrskurðarnefndin litið til þess hvernig nefndin teldi að lögin ættu að vera. Þá hafi úrskurðarnefndin ekki kveðið upp úrskurð innan lögákveðinna tímamarka. Einnig vísar kærandi til þess að einn nefndarmanna hafi ekki verið hæfur til að úrskurða í málinu.

Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða úrskurðarins hafi ráðist af ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Ekki er fallist á að úrskurðurinn hafi byggst á rangri túlkun lagaákvæða. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið um brot á hæfisreglum að ræða, enda er það mat nefndarinnar að B hafi ekki verið [vanhæf/vanhæfur] til að úrskurða í málinu, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga 37/1993. Að lokum fellst úrskurðarnefndin ekki á að endurupptaka málið þegar af þeirri ástæðu að úrskurðarnefndin hafi ekki kveðið upp úrskurð innan þess viðmiðunartíma sem kveðið er á um í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 398/2018 synjað.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 398/2018 er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum