Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 1. nóvember 2004

Ár 2004, mánudaginn 1. nóvember, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 7/2004

                                                           Jóhanna Jónsdóttir

                                                            gegn

                                                            Vegagerðinni

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon héraðsdómari, varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni og Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Í máli þessu krefst Jóhanna Jónsdóttir, kt. 020422-5649, einn eigenda jarðarinnar og lögbýlisins Selskarðs, áður í Álftaneshreppi hinum forna, en nú í Garðabæ, þess með vísan til 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að matsnefndin úrskurði um kröfu hennar um eignarnámsbætur vegna framkvæmda Vegagerðarinnar en hún sé „aðrir rétthafar“ í þessu sambandi, þ.e. aðili óbeinna eignarréttinda. Heimild matsbeiðanda til eignarnáms sé að finna í IX. kafla vegalaga nr. 45/1994.

Matsþoli gerir þær kröfur aðallega að matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði matsþola fullar bætur að fjárhæð 55.333.355 krónur en til vara að matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði matsþola bætur að fjárhæð 24.909.750 krónur.  Þá krefst matsþoli þess að nefndin ákvarði honum málskostnað úr hendi eignarnema þar sem matsþoli hafi þurft að leita sér aðstoðar lögmanns og annarra sérfræðinga til þess að setja fram bótakröfu þessa og að koma henni á framfæri við matsnefndina.

Af hálfu Vegagerðarinnar er tekið fram að hún hafi ekki óskað eftir umfjöllun Matsnefndar eignarnámsbóta vegna umræddrar framkvæmdar þar sem heimild landeiganda liggi fyrir og ekkert bendi til að aðrir rétthafar séu sem lögvarða hagsmuni gætu haft af umfjöllun um málið fyrir nefndinni. Með framlagðri greinargerð hafi eigandi Selskarðs að eigin frumkvæði freistað þess að fá málið tekið fyrir og fært fyrir því rök. Telur Vegagerðin að ástæðulaust sé að fjalla um málið fyrir nefndinni. Verði ekki betur séð en að allur málatilbúnaður eiganda Selskarðs sé tilefnislaus og að lögvarðir hagsmunir eiganda Selskarðs séu ekki skertir með neinum hætti með framkvæmdum Vegagerðarinnar. Einnig séu annmarkar á málatilbúnaði eiganda Selskarðs sem geri nefndinni ókleift að taka afstöðu til meintrar eignaskerðingar.

Allt að einu hefur Vegagerðin lagt fram athugasemdir sínar og andsvör við greinargerð eignarnámsþola og reifað sjónarmið sín fyrir nefndinni svo sem rakið verður hér á eftir.

Á fundi matsnefndar eignarnámsbóta 13. október sl. reifuðu lögmenn aðila sjónarmið sín munnlega fyrir nefndinni og á þeim fundi lagði lögmaður eignarnámsþola fram 7 skjöl, m.a. nýtt verðmat Jóns Hólms Stefánssonar og var lögmanni Vegagerðarinnar gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir af þessu tilefni sem bárust nefndinni með bréfi dagsettu 15. október. Þá beindi nefndin því til lögmanns eignarnámsþola að upplýsa með frekari gögnum um notkun beitarréttarins. Með béfi Jóns Lárussonar, sonar Jóhönnu dagsettu 15. október barst nefndinni greinargerð hans ásamt fylgiskjölum. Í bréfi þessu óskar nefndur Jón eftir frekari fresti til gagnaöflunar fyrir matsnefndinni. Jón er ekki aðili máls þessa og þykja engin efni til þess að verða við þeirri frestbeiðni. Telur nefndin enda málið nægilega upplýst til þess að leyst verði úr því eins og það er nú búið.

Tekið skal fram að í úrskurði þessum hefur Vegagerðin stöðu eignarnema og Jóhanna Jónsdóttir stöðu eignarnámsþola sbr. lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

MÁLSATVIK

Mál þetta á rót sína að rekja til þess að Vegagerðin hefur nú lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar en matsþoli á beitarrétt á hluta þess svæðis sem vegurinn fer yfir. Telur matsþoli því ljóst að með veglagningunni sé fórnað verðmætum beitarrétti matsþola.

Matsþoli sé einn eigenda jarðarinnar og lögbýlisins Selskarðs, áður skráð í Álftaneshreppi hinum forna, en nú í Garðabæ. Ágreiningur í máli þessu snúist um skerðingu á óbeinum eignarréttindum matsþola, sem eins eigenda jarðarinnar, nánar tiltekið beitarrétti Selskarðs samkvæmt afsali frá 30. ágúst 1913 í landi sem Hafnarfjarðarbær hafi keypt samkvæmt landamerkjum eins og þau séu afmörkuð í 1. gr. laga nr. 13/1912 og tilvitnuðu afsali, sem takmarki eignarráð Hafnarfjarðarbæjar. Síðastliðið sumar hafi Vegagerðin hafið framkvæmdir við breikkun Reykjanesbrautar í landi þessu, þar sem jörðin Selskarð eigi þinglýstan beitarrétt, án nokkurs leyfis matsþola eða annarra eigenda beitarréttarins.

Með lögum nr. 13/1912, um sölu á eign Garðakirkju af kaupstaðarstæði Hafnarfjarðar og nokkrum hluta af öðru landi hennar, hafi Kristján konungur tíundi veitt landstjórninni heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstað land Garðakirkju, sunnan og vestan eftirfarandi marka, sem skilgreind voru í 1. mgr. 1. gr. laganna:

 

  1. Bein lína úr „Balaklöpp“, við vesturenda Skerseyrarmalar í veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
  2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunsholti, nálægt í hásuður frá bænum, spölkorn frá hraunjaðrinum.
  3. Úr Hádegishól, bein lína í Miðaftanshól, sem er gamalt miðaftansmark, miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við
  4. Urriðakotsland; þá
  5. Setbergsland, alt til Lækjarbotna; og loks
  6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðavegur.

 

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 13/1912 sagði orðrétt svo:

„Um mörk landspildu þessarar að öðru leyti vísast til landamerkjaskrár um „Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi samkvæmt máldögum og fornum skjölum“ dagsettrar 7. júní 1890, og þinglesinnar 9. sama mánaðar. Undanskilið sölunni er: Hamarskotstún innan girðinga og Undirhamarstúnsblettur.“ Síðastnefnd svæði hafi verið tún innan ummerkja jarðarinnar.

Með afsali, dags. 30. ágúst 1913, hafi ráðherra Íslands, með vísan til heimildar í lögum nr. 13/1912, afsalað landi Garðakirkju, innan þeirra marka sem 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna hafi mælt fyrir um. Í afsalinu sagði m.a. svo:

„Núverandi ábúendum Garðakirkjujarða í Garðahverfi og jörðinni Selskarði er áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu svo sem verið hefur.“

Rétt sé að taka fram að beitarréttur jarðarinnar Selskarðs í ofangreindu landi hafi einnig verið viðurkenndur í afsali frá því árinu áður. Um hafi verið að ræða afsal, dags. 29. maí 1912, þar sem ráðherra Íslands hafi afsalað Jóni Felixsyni jörðinni Selskarði. Í tilvitnuðu afsali fyrir kirkjujörðinni Selskarði í Garðahreppi í Gullbringusýslu segi m.a. svo:

„Jörðin selst með öllum gögnum og gæðum, og réttindum, til lands og sjávar sem hún undanfarandi tíð hefur átt og notað. Henni fylgir ekkert land óskipt, annað en tún hennar innan ummerkja, en henni fylgir réttur til mótaks í mómýri vestan Hraunsholtslækjar til afnota á jörðinni sjálfri og hagbeit fyrir jarðarfénaðinn í hinu óskipta beitilandi Garðahverfisbúa, og er jarðeiganda skylt að sætta sig við hver þau skipti hins óskipta lands sem gerð kunna að verða af réttum hlutaðeigendum milli núverandi Garðakirkjujarða að Selskarði meðtöldu“.

Í dómi Gestaréttar Reykjavíkur frá 29. desember 1920 í málinu: Þórarinnn Guðmundsson gegn Magnúsi Guðmundssyni, fjármálaráðherra Íslands f.h. ríkissjóðs eða kirkjujarðasjóðs, sé þess getið að Selskarði sé áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu. Enn fremur geti stefndi í umræddu máli þess að réttur Selskarðs í landi því sem selt hafi verið haldist enn óskiptur þrátt fyrir söluna til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Dómi þessum hafi ekki verið áfrýjað.

Miðvikudaginn 9. júlí 2003 hafi matsþola fyrst orðið kunnugt um að framkvæmdir hefðu hafist á þeim hluta eignarinnar þar sem Selskarð á hinn þinglýsta beitarrétt, þegar eigendur hafi lesið frétt í Morgunblaðinu, bls. 17, undir fyrirsögninni „Brautin breikkuð í fimm áföngum“. Í fréttinni hafi komið fram að verkið væri samvinna Vegagerðarinnar og Hafnarfjarðarbæjar.

Hinn 15. júlí 2003 hafi landeigendur krafist þess að sýslumaðurinn í Hafnarfirði legði lögbann við framkvæmdum Vegagerðarinnar. Fallið hafi verið frá lögbannsbeiðninni af ástæðum sem ekki sé ástæða til að rekja hér og vísist um þær til gagna málsins. Þó skuli ítrekað að í viðræðum matsþola við Vegagerðina hafi lögmaður Vegagerðarinnar getið þess að Hafnarfjarðarbær hefði bannað búfjárhald á eigninni.

Með bréfi, dags. 9. september 2003, til sýslumannsins í Hafnarfirði, hafi þess verið krafist að lögreglan tæki þegar skýrslu af framkvæmdaraðilum og stöðvaði síðan ólöglegar og heimildarlausar framkvæmdir á eigninni.

Hinn 10. september 2003 hafi verið haldinn fundur um málið með sýslumanni og þess óskað að málinu yrði hraðað eins og kostur væri þar sem óheimilar framkvæmdir hefðu hafist á eigninni.

Með bréfi sýslumanns, dags. 24. október 2003, hafi verið tilkynnt að með vísan til 1. mgr. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála hefði rannsókn í málinu verið hætt. Ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd sérstaklega í bréfinu.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 30. október 2003, til sýslumannsins í Hafnarfirði hafi verið óskað rökstuðnings fyrir frávísuninni. 

Með bréfi sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 5. nóvember 2003, til lögmanns stefnanda, hafi verið færð rök fyrir ákvörðun sýslumanns. Í rökstuðningi sé til þess vísað að ekki verði annað séð samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggi en að Hafnarfjarðarbær sé eigandi að því landsvæði sem um ræðir. Þá segi að samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 596/1982 um búfjárhald í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar hafi bærinn bannað beit á því svæði sem um sé deilt.

Þar sem Vegagerðin hafi vefengt beitarrétt Selskarðs og kosið að bera málið ekki undir matsnefnd eignarnámsbóta hafi sonur matsþola, Jón Lárusson, þingfest mál á hendur Vegagerðinni, í umboði hennar, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 18. desember 2003. Málið hafi verið fellt niður í þinghaldi hinn 14. apríl 2004 með svofelldri bókun:

„Stefnda, Vegagerðin, mótmælir ekki að jörðin Selskarð eigi beitarrétt samkvæmt þinglýstu afsali 30. ágúst 1913 um kaup Hafnarfjarðarkaupstaðar á landi samkvæmt landamerkjum, eins og þau eru afmörkuð í 1. gr. laga nr. 13/1912.  Hins vegar telur Vegagerðin að umræddur réttur hafi ekki verið nýttur af stefnanda svo að fjárhagslega þýðingu hafi haft fyrir hann.  Þá telur Vegagerðin einnig að umræddan rétt hafi ekki mátt nýta vegna reglna opinbers réttar um beit og skipulagsmál og hafi rétturinn af þeirri ástæðu ekki getað haft fjárhagslega þýðingu fyrir stefnanda og þannig verið rýmt út.  Þá vekur Vegagerðin athygli á því að stefnandi hafi ekki mótmælt þeim reglum opinbers réttar sem hér um ræðir.

 

Af hálfu stefnanda er tekið fram að ágreiningur aðila muni verða borinn upp fyrir matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt IX. kafla laga nr. 45/1994, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

           

Samkomulag er með aðilum um að málið falli niður án kostnaðar.

           

Af hálfu réttargæslustefnda er tekið fram að engin afstaða sé tekin til ágreinings aðila, en fallið er frá kröfu um málskostnað.

           

Málið er fellt niður.“

 

Samkvæmt framangreindri bókun sé ekki ágreiningur með aðilum um að matsþoli eigi þinglýstan beitarrétt á því svæði sem breikkun Reykjanesbrautar nái yfir. Engu að síður hafi Vegagerðin ekki haft frumkvæði að því að bera málið undir matsnefnd eignarnámsbóta þrátt fyrir að hún hafi tekið umráð eignarinnar án samráðs við þinglýsta eigendur. Með vísan til 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms krefjist matsþoli fyrirtöku máls þessa samkvæmt 5. gr. laganna. Matsþoli teljist „aðrir rétthafar“ í þessu sambandi, þ.e. aðili óbeinna eignarréttinda. Heimild matsbeiðanda til eignarnáms er að finna í IX. kafla vegalaga nr. 45/1994.

 

Af hálfu Vegagerðarinnar er málavöxtum lýst svo að með framkvæmdaleyfi og að undangengnu mati á umhverfisáhrifum framkvæmda hafi Hafnarfjarðarbær heimilað Vegagerðinni tvöföldun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Óumdeilt sé að Hafnarfjarðarbær hafi verið eigandi þeirrar landspildu sem ráðstafað hafi verið undir vegaframkvæmdir og hafi því haft heimild til ráðstöfunarinnar. Framkvæmdin hafi falið í sér færslu vegarins austur fyrir kirkjugarðinn í Hafnarfirði frá Hamarskotslæk vestur fyrir Hvammabraut ásamt byggingu mislægra gatnamóta við Kaldárselsveg, gerð undirganga, hljóðmana o.fl. Framkvæmdaleyfið sé gefið út í samræmi við úrskurð skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2. september 2002 og Aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar 1995-2005, með breytingu vegna endurnýjunar Reykjanesbrautar, sem samþykkt hafi verið 30. júlí 2002. Í undirbúningi og aðdraganda framkvæmdarinnar hafi á engu stigi komið fram athugasemd um að verið væri að skerða meint beitarréttindi eigenda Selskarðs með umræddri framkvæmd. Var litið svo á að samþykki landeiganda, Hafnarfjarðarbæjar, væri nægjanlegt til að hefja mætti framkvæmdir. Á engu stigi hafi verið tilefni til að ætla að kanna þyrfti möguleg beitarafnot á svæðinu enda ekki stundaður landbúnaður í hjarta Hafnarfjarðar þar sem uppbygging íbúðahverfa hafi verið mjög hröð undanfarin ár. Hafi því Vegagerðinni verið rétt að álíta að landeigandi hefði heimild til að ráðstafa landinu undir vegstæði í samræmi við staðfest aðalskipulag án samþykkis þeirra sem áttu beitarafnot í fyrrum Garðakirkjulandi í upphafi síðustu aldar. Það hafi því komið verulega á óvart er eigendur Selskarðs kröfðust lögbanns á framkvæmdirnar með lögbannsbeiðni dags. 15. júlí 2003. Hafi beiðnin verið á því byggð að eigendur Selskarðs hefðu ekki heimilað framkvæmdir og þær því heimildarlausar og ólöglegar þrátt fyrir framangreint samþykki landeiganda og skipulagsyfirvalda.

Eins og vænta mátti hafi Sýslumaðurinn í Hafnarfirði hafnað lögbannsbeiðni eigenda Selskarðs. Hafi sýslumaður rökstutt höfnunina með því að landeigandi, Hafnarfjarðarbær, hefði heimilað framkvæmdina auk þess sem ekki hefði verið heimiluð beit búfjár á umræddu svæði. Eigendur Selskarðs hafi ekki látið þar við sitja en í stað þess að láta reyna á lögmæti ákvörðunar sýslumanns hafi þeir reynt að stöðva verktaka Vegagerðarinnar, sbr. bréf þeirra dags. 1. september 2003 til Ístaks hf. Hafi þeir ekki haft erindi sem erfiði og verkinu sé nú því sem næst lokið og vegurinn verið tekinn í notkun.

 

SJÓNARMIÐ JÓHÖNNU JÓNSDÓTTUR

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar sé enginn skyldaður til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, til þess þurfi lagafyrirmæli og fullt verð komi fyrir. Enginn vafi leiki á því að beitarréttur teljist eign í skilningi stjórnarskrárinnar og að matsþoli eigi því að fá fullar bætur vegna missis réttarins. Beitarrétturinn sé óbeinn eignarréttur og í honum felist að eigandi réttarins hafi fulla heimild til þess að hafa búfénað á og nytja það land sem um ræðir með öllum þeim hætti sem nútíma beitarréttur feli í sér og hafi meðal annars ótakmarkaðan umferðarrétt. Matsþoli leggi áherslu á að um stjórnarskrárvarinn eignarrétt sé að ræða. Rétturinn sé skýr og hagsmunir Vegagerðarinnar í málinu séu afar litlir í samanburði við rétt matsþola. Með framkvæmdum Vegagerðarinnar telur matsþoli að hann hafi verið sviptur eignarrétti í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hér skuli áréttað að matsþoli hafi þurft að bera málið undir dómstóla og matsnefnd eignarnámsbóta, en eðlilegast hefði verið að Vegagerðin hefði gert það að eigin frumkvæði.       Matsþoli hafi nú verið útilokaður frá að nýta eignina undir beitarrétt enda sé þetta réttur sem hann eigi og hafi aldrei verið sviptur honum né hafi hann afsalað sér honum. Slíkt bann hafi aldrei átt sér stað hvað varði eigendur Selskarðs. Jafnframt skuli upplýst að beitarréttur Selskarðs, sem keyptur hafi verið með jörðinni 1912 og staðfestur með afsali 30. ágúst 1913, hafi verið einn verðmætasti hluti landsins á þessum tíma. Þess sé því krafist að mat verði lagt á fullt verð til matsþola í samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Beitarréttur matsþola sé virkur eignarréttur sem takmarki eignarrétt Hafnarfjarðar. Reglugerð nr. 596/1982 um búfjárhald í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, sem vísað hafi verið til af hálfu Vegagerðarinnar, breyti engu um eignarrétt matsþola. Í 1. gr. reglugerðarinnar komi fram að búfjárhald sé heimilt í landi kaupstaðarins að fengnu sérstöku leyfi og með skilmálum sem bæjarráð setji. Þá sé í 2. gr. ákvæði um það með hvaða hætti sækja skuli um leyfi. Því næst komi fram í 3. gr. að telji bæjarráð að skilyrði fyrir búfjárhaldi séu fyrir hendi skuli veita leyfið. Í reglugerðinni sé því beinlínis gengið út frá því að aðilar kunni að eiga beitarrétt innan lögsagnarumdæmis kaupstaðarins. Þá er lögð áhersla á það að jafnvel þótt yfirvöld kunni að setja einhver skilyrði fyrir nýtingu beitarréttarins á grundvelli þessarar reglugerðar breyti það engu um inntak eignarréttarins. Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um friðhelgi eignarréttarins, veiti matsþola eftir sem áður réttarvernd, þ.e. mönnum beri réttur til að njóta eigna sinna í friði. Þess megi geta að í um 1000 metra fjarlægð sé látin í té aðstaða fyrir hestasport á beitarréttarsvæðinu.

Eiganda beri fullt verð fyrir eignarnumin verðmæti. Það sé því beinlínis rangt að telja að bætur eigi ekki að greiða þar sem annað stjórnvald geti hugsanlega takmarkað beitarréttindi matsþola. Þvert á móti kveði stjórnarskráin á um að fullt verð skuli koma fyrir eignarnumin verðmæti.

Matsþoli krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta ákvarði matsþola fullt verð fyrir þann beitarrétt á því landi sem fer undir veg þar sem hann á beitarrétt.

Samtals fara 66.426 fermetrar þess lands, þar sem Selskarð á beitarrétt, undir veginn. Matsþoli er eigandi 1/3 hluta Selskarðs, sem er í óskiptri sameign nokkurra eigenda. Matsþoli krefst því bóta fyrir beitarréttinn í réttri tiltölu við þriðjungs hlut í jörðinni, þ.e. fyrir skerðingu á 22.142 fermetrum lands að flatarmáli. Er kröfugerð matsþola miðað við þessar forsendur því þannig:

22.142 fermetrar lands að flatarmáli x kr. 1.125.- á fermetra = kr. 24.909.750.-

 

Við ákvörðun bótanna telur matsþoli að meta eigi verðmæti alls lands sem hann hefur verið sviptur beitarrétti á, enda er hann útlokaður frá hvers konar nýtingu beitarréttar á þessu landsvæði. Matsþoli leggur sérstaka áherslu á að fjárhæð bótanna samsvari „fullu verði“ í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Þess er krafist að við mat á verðmæti beitarrétti Selskarðs á landi því þar sem Vegagerðin hefur tekið umráð og tilheyrir matsþola verði lagt til grundvallar verðmat Jóns Hólm Stefánssonar frá 21. ágúst sl. en til vara verðmat Jóns Guðmundssonar, löggilts fasteignasala, en hann hafi sérstaka þekkingu á markaði og verði á landi og réttindum á höfuðborgarsvæðinu. Handhafi hins beina eignarréttar og handhafi hins óbeina eignarréttar séu háðir hvor öðrum um nýtingu eignarinnar, sérstaklega þegar um beitarrétt sé að ræða. Hafnarfjarðarbær þurfi heimild eiganda beitarréttar til að nýta svæðið þar sem um gagnkvæman eignarrétt sé að ræða og beitarréttur sé að jafnaði sá réttur sem raskast ef farið sé í framkvæmdir á svæðinu.

Þá skuli á það bent að erfitt sé að kaupa beitarrétt að landi á höfuðborgarsvæðinu, eins og fram komi í mati hins löggilta fasteignasala. Þetta hafi að sjálfsögðu áhrif til hækkunar á verðmæti beitarréttarins þar sem matsþola sé erfitt um vik að afla sér sams konar réttinda á höfuðborgarsvæðinu.

Við úrlausn máls þessa bendir matsþoli á að hestasport sé orðin viðurkennd íþrótt í þéttbýli og því megi reikna með að eftirspurn eftir beitarlandi á höfuðborgarsvæðinu muni enn aukast eftir því sem jaðarbyggð færist utar. Eigendur Selskarðs hafi skipulagt eign sína á Selskarði samkvæmt skipulaginu „sveit í borg“ með áætlanir um sölu á beitarhólfum úr beitarréttareigninni, auk þess sem hugmyndir séu um stofnun hestamannafélaga sem gætu nýtt sér beitarrétt Selskarðs. 

            Matsþoli lítur svo á að við mat á verðmæti hins eignarnumda lands eigi hann tvímælalaust rétt á því að afla sér sambærilegs beitarlands á höfuðborgarsvæðinu jafn nálægt Selskarði, en að öðrum kosti sé hann sviptur lífsgæðum og hefðu aðgerðir í för með sér velferðarmissi. Af hálfu matsþola sé byggt á því að ekki verði litið fram hjá þeirri staðreynd að land sé ávallt hærra í verði þegar það er nálægt höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega er vísað til meðfylgjandi matsgerða á því hvaða verð eigendur Selskarðs þurfi að greiða fyrir annað land með beitarrétti jafn gott og jafn nálægt Selskarði á höfuðborgarsvæðinu.

Rétt sé að ítreka að samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar skuli eiganda eignarnumins verðmætis greitt fullt verð fyrir það land sem eignarnámi er tekið. Þetta sé mikilvæg grundvallarregla og eigi allar nánari framkvæmdareglur við mat á eignarnámsbótum að endurspegla þessa mikilvægu reglu. Matsþoli telur að við mat á fullu verði hins eignarnumda svæðis eigi að miða við það verðmæti sem landið hafi sem beitarréttarland í nálægð við höfuðborgina. Með öðrum orðum þá eigi að meta land eftir staðsetningu.

Loks krefst matsþoli þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til umfangs þessa máls og þess að nauðsyn hafi borið til þess að bera mál þetta undir dómstóla. Að öðru leyti er það lagt í hendur matsnefndar eignarnámsbóta að meta þennan kostnað, en við ákvörðun hans er lagt til að hafður verði til hliðsjónar sá kostnaður sem eignarnámsþoli þarf að greiða vegna meðferðar málsins og nánari grein verður gerð fyrir við flutning málsins fyrir matsnefnd eignarnámsbóta.

Tilvísun til helstu lagaákvæða og réttarreglna:

Meðal réttarheimilda sem á er byggt eru 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1994 með síðari breytingum; 14. gr. og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu; stjórnsýslulög nr. 37/1993, einkum 11. og 12. gr.

 

Matsþoli byggir á því honum beri að fá fullt verð fyrir hin eignarnumdu verðmæti samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og af þeim sökum eigi ekki við fullum fetum hefðbundin sjónarmið skaðabótaréttar varðandi sönnun á skaðabótaskyldu tjóni. Matsþoli byggir einnig á því að hann hafi því uppfyllt sönnunarskyldu sína með framlagningu greinargerðar þessarar og áliti löggilts fasteignasala.

Um sönnunarbyrði bendir matsþoli sérstaklega á það að matsnefnd eignarnámsbóta er nefnd sem sérstaklega er skipuð til að ákvarða tjón eignarnámsþola og býr nefndin, sem er handhafi opinbers úrskurðarvalds um lögskipti, yfir víðtækri sérþekkingu á þessu sviði. Þá verður einnig að telja að nefndin hafi sjálfstæða rannsóknarskyldu um ýmis þau atriði sem byggt er á af hálfu aðila máls, þ.e. að matsnefndin geri sjálfstæða könnun á þeim atriðum sem byggt er á af hálfu aðila og réttmæti þeirra.

 

SJÓNARMIÐ VEGAGERÐARINNAR

Af hálfu Vegagerðarinnar er í fyrsta lagi á því byggt að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar vegna form- og efniságalla á málatilbúnaði eiganda Selskarðs. Matsbeiðni eða formlegt erindi þar sem meintum eignaskerðingum og andlagi eignarnámsins sé lýst liggi ekki fyrir. Fullyrðingar um meintan beitarrétt í fyrrum landi Garðakirkju séu aðeins studdar við óljós ákvæði í þinglýstum afsölum frá upphafi síðustu aldar. Í afsali því frá 30. ágúst 1913, sem eigendur Selskarðs byggi tilkall sitt á, segi að Selskarði sé áskilinn réttur til beitar í hinu selda landi svo sem verið hefur. Engin gögn liggi fyrir um hvernig umræddum afnotum hafi verið háttað á þeim tíma þegar umræddum skjölum var þinglýst og síðar. Liggi því ekki fyrir hvort og í hvaða mæli jarðarfénaði Selskarðs hafi verið beitt á umræddu svæði fyrr og síðar. Ekkert verði fullyrt um meint beitarréttindi Selskarðs nema að upplýst sé um þetta. Hefðir kunni að hafa skapast um beit sem bundið hafa eigendur Selskarðs sem ekki sé upplýst um. Þar sem á skorti að gerð sé grein fyrir því hvernig beitarrétti Selskarðs í óskiptu landi, fyrrum landi Garðakirkju, hafi verið háttað sé þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að leggja mat á meinta hagsmuni. Matsandlagið sé óljóst, þ.e. inntak meintra réttinda Selskarðs yfir þeirri tilteknu landspildu þar sem Reykjanesbraut liggi nú. Almennar skilgreiningar á fræðilegu inntaki beitarréttinda, sem eigandi Selskarðs hafi aflað sér, séu málinu óviðkomandi. Nauðsynlegt sé að lýsa raunverulegu matsandlagi með einhverjum hætti áður en unnt sé að taka mál þetta til meðferðar. Gera verði grein fyrir nýtingu á meintum beitarrétti þegar umrætt afsal hafi verið gefið út og eftir það allt fram á þennan dag ef nefndin eigi að geta tekið afstöðu til verðmætis meintra réttinda eigenda Selskarðs yfir vegstæði Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Beri því að mati Vegagerðarinnar að vísa málinu frá nefndinni þegar af þeirri ástæðu að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar fyrir nefndinni vegna þess að á skorti að matsandlagi sé lýst með þeim hætti að unnt sé að meta það til fjár. Eingöngu liggi fyrir lýsing á flatarmáli og staðsetningu svæðisins en ekki nánari grein gerð fyrir þeim afnotum sem eigendur Selskarðs hafi haft á spildunni og þeir telji sig hafa verið svipta með þeim hætti að eignarnámsbætur eigi að koma fyrir.

            Í öðru lagi sé á því byggt að Vegagerðin hafi fengið heimild þinglýsts landeiganda til umræddra framkvæmda á landi hans. Landeigandi, Hafnarfjarðarbær, hafi fullan rétt til þess að ráðstafa umræddu landi á grundvelli þinglýsts eignarréttar yfir landinu, og verði ráðstöfunarheimild hans ekki takmörkuð við óljós ákvæði í nær aldargömlum þinglýstum afsölum um meint afnotaréttindi þriðja aðila. Ótvíræð lagasjónarmið standi því í mót að vegið sé að beinum eignarrétti landeiganda með óljósu tilkalli þriðja aðila til afnotaréttar yfir landi. Ef skerða eigi þannig ráðstöfunarrétt landeiganda yfir eign sinni sé um veruleg höft að ræða á frelsi eiganda til að fara með eign sína og þar með takmörkun á eignarrétti. Hafnarfjarðarbær hafi einnig athugasemdalaust í fullan hefðartíma tekið ákvarðanir og ráðstafað landinu óháð meintum beitarrétti og þannig vikið honum til hliðar. Ekkert það komi fram í gögnum eigenda Selskarðs sem véfengt geti heimild Hafnarfjarðarbæjar til að leyfa Vegagerðinni umrædda framkvæmd án samþykkis eigenda Selskarðs. Hafi ráðstöfun landeiganda skert hagsmuni þriðja aðila sé það annað mál sem ekki verði útkljáð samkvæmt reglum um eignarnámsbætur og sé Vegagerðinni óviðkomandi.

Af hálfu Vegagerðarinnar er í þriðja lagi á því byggt að meintur beitarréttur hafi fallið niður vegna reglna allsherjarréttar um skipulag-, landnotkun og um búfjárhald. Á þeim tíma þegar umræddu afsali, sem krafa eiganda Selskarðs sé byggð á, hafi verið þinglýst, hafi landbúnaður verið stundaður á mest öllu höfuðborgarsvæðinu að undanskilinni skák í kvosinni og kannski hluta af vesturbæ Reykjavíkur. Síðan hafi mikið vatn runnið til sjávar og lausaganga búfjár verið bönnuð á öllu höfuðborgarsvæðinu og búfjárhald að mestu lagst af á svæðinu. Á umræddri landspildu, vegsvæði Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, hafi verið og sé óheimilt að hafa búfé. Óheimilt sé að halda búfé í Hafnarfjarðarbæ nema með sérstöku leyfi sbr. reglugerð um búfjárhald í Hafnarfirði nr. 596/1982. Ekki liggi fyrir að sótt hafi verið um leyfi til búfjárhalds á spildunni hjá Hafnarfjarðarbæ og allar líkur á að slíkri umsókn hefði verið synjað. Spildan sé í þéttbýlu hverfi í Hafnarfirði sem samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé ekki ætlað til búfjárhalds. Þrátt fyrir að fræðilega séð sé hugsanlegt að fá heimild til búfjárhalds innan marka Hafnarfjarðar sé ljóst að slík heimild á umræddri landspildu hefði farið þvert gegn aðalskipulagi og landnotkun á svæðinu og því aldrei verið veitt. Þar sem meintum beitarrétti, hafi hann verið fyrir hendi, hafði augljóslega verið rýmt út með ákvörðunum skipulagsyfirvalda um landnotkun löngu áður en til framkvæmda Vegagerðarinnar kom sé ekki unnt að halda því fram að framkvæmdir við Reykjanesbraut í Hafnarfirði hafi valdið skerðingu á beitarrétti á spildunni. Rétturinn hafi ekki lengur verið fyrir hendi vegna fyrrgreindra ákvarðana um landnotkun á svæðinu. Spildan sem lögð hafi verið undir Reykjanesbraut sé umlukin íbúðarbyggð, kirkjugarði og sé steinsnar frá miðbæ Hafnarfjarðar og búfjárhald á henni hefði því hvað sem líður vegaframkvæmdum verið með öllu óviðundandi og aldrei verið leyft.  Engar líkur séu leiddar að því af hálfu eigenda Selskarðs að beit hefði verið leyfð á þessum stað hefði ekki komið til vegaframkvæmda. Í ljósi þess hversu ósennilegt er að slíkt hefði verið leyft verður að telja að sína þurfi fram á að slík not landsins hefðu með vissu verið leyfð ef á það hefði reynt.

Eins og áður segi skorti á að gerð sé nánari grein fyrir þeim rétti sem Selskarð kunni að hafa átt á sínum tíma til hagagöngu fyrir fé í fyrrum landi Garðakirkju. Ekki sé ósennilegt að á sínum tíma hafi eigendur Selskarðs mátt láta fé jarðarinnar ganga laust á beit á því svæði sem hefðbundið hefur verið frá fornu fari en eins og áður segi sé ekki vitað hvernig hefðbundnum beitarafnotum hafi verið háttað. Ekkert fé hafi verið að Selskarði síðan um miðja síðustu öld eftir því sem best sé vitað. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafi lausaganga búfjár verið bönnuð á þessu svæði og gömul réttindi eins og réttur til að láta búsmala vera á beit á annarra landi smám saman í gegnum tíðina vikið fyrir breyttri landnotkun með uppbyggingu þéttbýlis á svæðinu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi samþykkt bann við lausagöngu búfjár sem m.a. taki til þessa svæðis. Sérstakt beitarhólf fyrir búsmala Garðbæinga, Hafnfirðinga og Álftnesinga hafi verið útbúið í nágrenni Krýsuvíkur. Á grundvelli reglna allsherjarréttarlegs eðlis hafi þessum réttindum verið rýmt út löngu áður en til framkvæmda Vegagerðarinnar hafi komið. Um seinan sé fyrir eigendur Selskarðs að gera nú kröfur á hendur Vegagerðinni þegar meint beitiland hafi smám saman verið lagt undir aðra landnotkun í samræmi við skipulag og þróun samfélagsins. Hin fornu beitarafnot, hvernig sem þeim hafi verið háttað, hafi fallið niður með tímanum án athugasemda eigenda Selskarðs, enda ekki verið búskapur þar í hálfa öld. Hafi Selskarð við upphaf síðustu aldar átt rétt til að láta búfé ganga laust á þessu svæði sé sá réttur fyrir löngu niður fallinn vegna breyttrar landnotkunar á svæðinu.

            Í fjórða lagi skuli ítrekað að fyrir liggi að ekki sé stundaður búskapur að Selskarði og hafi ekki verið svo síðan um miðja síðustu öld. Enginn bústofn hafi verið þar síðan og því útilokað að um nýtingu á meintum beitarrétti hafi verið að ræða. Núverandi landeigandi, Hafnarfjarðarbær, hafi því ráðstafað landinu óbundinn af meintum rétti og án athugasemda að því er séð verði af hálfu eigenda Selskarðs í fullan hefðartíma. Verði stundaður búskapur í landi Selskarðs í framtíðinni, sem heldur sé ólíklegt sé ljóst að lagning Reykjanesbrautar miðsvæðis í Hafnarfirði ein og sér hafði engin áhrif á möguleika jarðarinnar til beitar heldur þróun skipulags og landnotkunar á svæðinu undanfarna áratugi. Hvernig sem á málið sé litið sé augljóst að engin skerðing hafi átt sér stað á réttindum eigenda Selskarðs við framkvæmdir Vegagerðarinnar og hafi þeir því ekki sýnt fram á tilefni til að krefjast fyrirtöku málsins skv. 6. gr. laga nr. 11/1973.

 

 

 

 

NIÐURSTAÐA

Í 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms segir, að hafi aðili, sem heimild hefur til eignarnáms, tekið umráð eignar, geti eigandi og aðrir rétthafar krafist fyrirtöku máls, sbr. 5. gr. sömu laga. Skilyrði eignarnáms eru fyrir hendi hér ef til þess hefði þurft að taka gagnvart landeiganda en Vegagerðin hafði fengið umráð 6.7 ha spildu með samþykki hans. Jóhanna Jónsdóttir er einn eigenda jarðarinnar Selskarðs og samkvæmt gögnum átti jörðin beitarréttindi í Garðakirkjulandi. Af hennar hálfu er því haldið fram að framkvæmdir Vegagerðarinnar leiði til skerðingar á eignarréttindum hennar. Hún er eignarnámsþoli í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 11/1973. Þykir hún uppfylla þau formskilyrði sem þarf til þess að geta gert kröfu í samræmi við 6. gr. Kemur og hér til að í bókun í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. apríl sl. segir að stefnda, Vegagerðin, mótmæli ekki að jörðin Selskarð eigi beitarrétt samkvæmt þinglýstu afsali 30. ágúst 1913 um kaup Hafnarfjarðarkaupstaðar á landi samkvæmt landamerkjum, eins og þau eru afmörkuð í 1. gr. laga nr. 13/1912.  Í sömu bókun segir að ágreiningur aðila muni verða borinn upp við matsnefnd eignarnámsbóta. Til þess er  að líta að aðilar voru að ljúka ágreiningi sínum fyrir dómstólum með bókun þessari og hana verður að skilja svo að ætlunin hafi verið að fá úrlausn fyrir matsnefnd eignarnámsbóta um það hvort og þá hversu mikið verðmæti eignarnámsþoli hefði látið af hendi vegna framkvæmda Vegagerðarinnar.  Samkvæmt þessu telur matsnefndin að málið sé tækt til meðferðar fyrir nefndinni.

Af hálfu Vegagerðarinnar er helsti galli á málatilbúnaði eignarnámsþola talinn vera að tjóninu sé ekki lýst. Er á það bent að engin grein sé gerð fyrir nýtingu beitarréttar af hálfu eigenda Selskarðs. Eignarnámsþoli leggur hins vegar alla áherslu á það að réttur sá sem hann eigi, þ.e. beitarrétturinn, verði nýttur í framtíðinni og því sé í raun um það að ræða að væntingar þær sem hann hafi haft til nýtingar eignar sinnar séu að engu orðnar vegna aðgerða Vegagerðarinnar.

Samkvæmt því sem fram kom við reifun málsins fyrir nefndinni er heildarstærð lands þess sem eignarnámsþoli átti beitarrétt á 3.230 hektarar en svæði það sem Vegagerðin hefur fengið úr landinu tæplega 6,7 hektarar. Er á því byggt í aðalkröfu eignarnámsþola að þriðjungur verðmætataps eigenda Selskarðs vegna þessa sé 55.333.355 milljónir króna en til vara er gerð krafa um 24.909.750 milljónir króna. Þess ber að gæta að verðmöt þau sem lögð hafa verið fram af hálfu eignarámsþola virðast byggð á þeim grundvallarmisskilningi að verið sé að fjalla um hefðbundin eignarráð lands en ekki þröng og takmörkuð afnotaréttindi. Koma möt þessi því ekki til frekari álita við úrlausn þessa.

Matsnefnd telur óhjákvæmilegt að vekja á því athygli að allur vafi leikur á eðli og umfangi og jafnvel tilvist þeirra réttinda sem eignarnámsþoli kallar eftir. Er þess þá fyrst að geta að heimildarskjöl þau sem byggt er á eru ekki að öllu leyti skýr. Í afsali frá 29. maí 1912 fyrir jörðinni Selskarði er þau tilgreind með eftirfarandi orðalagi: „hagabeit fyrir jarðarfénaðinn í hinu óskipta beitilandi Garðahverfisbúa.” Í afsali Ráðherra Íslands frá 30. ágúst 1913 segir hins vegar: „Jörðinni Selskarði er áskilinn beitarréttur í hinni seldu landspildu svo sem verið hefur.” Er tilgreining þessi hvorki samræmd né með öllum hætti skýr. Verði réttindi þessi skýrð eignarnámsþola í hag, sem hefðbundin beitarréttindi, er þess í annan stað að gæta að á árinu 1952 tóku lög nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum gildi. Matsnefnd telur hafið yfir vafa að réttindin hefðu fallið undir gildissvið þeirra laga. Fyrir liggur að sýslumaðurinn í Gullbringu- og Kjósarsýslu birti á sínum tíma lögboðna áskorun skv. 4. gr. laganna. Ekki liggur fyrir að umræddum réttindum hafi verið lýst en vanlýsing varð til þess að réttindi  féllu bótalaust niður sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í málinu nr. 92/1995 frá 29. febrúar 1996. Allt að einu telur matsnefnd tækt, m.a. með vísan til bókunar aðila úr þinghaldi 14. apríl sl., að leysa úr málinu á þeim grundvelli að réttindin sem slík séu ennþá til staðar.

Jörðin Selskarð er nú í eyði og er ekki í landbúnaðarnotum. Jörðinni fylgdu beitarréttindi í svonefndu Garðakirkjulandi. Réttur þessi er eðli málsins samkvæmt tengdur skepnuhaldi á jörðinni Selskarði og hefur ekki verið nýttur í áratugi, a.m.k. ekki síðustu 50 árin. Eins og aðstæðum er og hefur verið háttað á svæði því sem hér um ræðir verður ekki séð að þótt landeigandi hafi látið 6,7 ha af 3.230 ha landi af hendi til Vegagerðarinnar hafi það haft nokkur áhrif á nýtingu beitarréttar eigenda Selskarðs. Fer því þannig fjarri að sýnt hafi verið fram á að umrædd ráðstöfun landeiganda leiði til þess að framtíðartekjur eignarnámsþola, vegna þess að kostir hans til að fénýta sér réttindi sín, rýrni svo nokkru nemi við umrædda ráðstöfun landeiganda.

Af hálfu eignarnámsþola hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings staðhæfingum þeirra um fyrirhugaða nýtingu  réttinda sinna. Eru í raun áhöld um það að til slíkrar nýtingar gæti komið en í því sambandi má í fyrsta lagi nefna að umrætt land er nú innan skipulags þéttbýlissvæðis sbr. að sínu leyti H 1992: 1511, uppkveðinn 2. október 1992. og jafnframt setur reglugerð nr. 596/1982 um búfjárhald í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og reglugerð um búfjárhald nr. 498/1983 í Garðabæ nýtingu beitarréttarins skorður. Enn fremur er til þess að líta að allur vafi leikur á því að réttindi þessi gætu orðið virk nema til kæmi á ný búskapur á jörðinni Selskarði. Í þessu sambandi er þess og sérstaklega að geta að ekki fæst með neinu móti séð að umfangsmikil nýting umræddra réttinda svo sem hún birtist í skjölum eignarnámsþola, m.a. með mannvirkjagerð o.fl., sé í nokkru samræmi við efnislegt inntak umræddra réttinda.

Er það því niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta að eignarnámsþola beri engar bætur úr hendi Vegagerðarinnar vegna framkvæmda Vegagerðarinnar á umræddri spildu.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms skal greiða kostnað af starfi matsnefndar úr ríkissjóði, en matsnefnd ákveði hverju sinni í úrskurði sínum, þegar ríkið er ekki eignarnemi, hverja greiðslu eignarnemi skuli inna af hendi til ríkissjóðs. Þá segir í sömu grein að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Eins og atvikum er háttað hér, þ.e. að Vegagerðin hefur samþykki allra þar til bærra aðila til vegaframkvæmda þeirra sem að framan er lýst, þar með töldum landeiganda, þykja engin efni til þess að gera Vegagerðinni að greiða kostnað vegna starfa matsnefndar. Þá telur nefndin óhæfilegt, eins og úrslit máls þessa eru, að gera Vegagerðinni að greiða kostnað eignarnámsþola vegna máls þessa og skal hann bera sjálfur kostnað sinn vegna reksturs máls síns fyrir nefndinni.

 

  

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnámsþola Jóhönnu Jónsdóttur ákvarðast ekki bætur í máli þessu.

Kostnaður matsnefndar eignarnámsbóta 620.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

                                                                        Allan V. Magnússon (sign)

                                                                                    Karl Axelsson (sign)

                                                                        Sverrir Kristinsson (sign)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum