Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 27. febrúar 2006

 

Mánudaginn 27. febrúar var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 10/2005

 

Landsnet hf.

gegn

Svavari Valtýssyni

Áreyjum, Reyðarfirði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 27. júlí 2005 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 12. ágúst 2005 fór Landsnet hf., kt. 580804-2410, Krókhálsi 5c, Reykjavík, (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna lagningar raflína í landi Áreyja, Reyðarfirði og lagningar vegnaslóða í tengslum við þá línulögn.  Eigandi Áreyja (eignarnámsþoli) er Svavar Valtýsson, kt. 120452-2749.

 

Nánar tiltekið er um að ræða að reisa 48 möstur til að bera framangreindar háspennulínur, sem eru alls um 8.324 m. að lengd í landi jarðarinnar ásamt undirstöðum og stögum og strengjum á milli mastra, leiðurum og jarðvír.  Þá þarf að leggja 7.245 m. vegslóða í landi jarðarinnar 4-5 m. breiðan.  Þá verður lagður jarðstengur um land jarðarinnar ásamt ljósleiðara.

 

Eignarnámið byggist á raforkulögum nr. 65/2003.

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Málið var fyrst tekið fyrir föstudaginn 12. ágúst 2005. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 8. september 2005.

 

Fimmtudaginn 8. september 2005 var gengið á vettvang. Vegna veikinda gat formaður matsnefndarinnar ekki mætt þá en hann fór á vettvang þann 26. október 2005.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerða og annarra ganga af hálfu eignarnema til 15. nóvember 2005 en eignarnámsþola til 29. nóvember 2005.

 

Aðlilar báðu um fresti til framlagningar greinargerða, en þann 25. janúar 2006 var málið tekið fyrir.  Þá höfðu borist greinargerðir ásamt öðrum gögnum frá báðum málsaðilum til framlagningar og voru þau gögn lögð fram. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings fyrir matsnefndinni.

 

Föstudaginn 3. febrúar 2006 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því búnu.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveðst hafa heimild til að reisa 48 möstur á landi eignarnámsþola.  Línuleiðin í landi jarðarinnar sé samtals 8.324 metrar, þar af liggi línurnar samhliða á um 5.700 metra leið. Eignarnemi bendir á framlögð skjöl varðandi nákvæma legu línanna og útlit mastra.  Eignarnemi kveður að miðað hafi verið við að landssvæði á milli staga hvers masturs sé ca. 30x40 metrar. Í samræmi við það sé miðað við að heildarstærð landssvæðis sem lendi innan staga 5,76 hektarar, þar af séu 0,48 hektarar ræktunarhæft land og 5,28 hektarar beitiland.  Eignarnemi kveður heimildina ná til að reisa mannvirkin í landi eignarnámsþola og láta þau standa þar um ókomna tíð auk þess sem í heimildinni felist umferðarréttur meðan á framkvæmdum standi auk þess sem umferðarrétturinn haldist til viðhalds og eftirlits til framtíðar.

 

Eignarnemi bendir á að samkvæmt ákvæðum 402. - 404. gr. reglugerðar nr. 264/1971, um raforkuvirki, með áorðnum breytingum, sbr. reglugerð nr. 586/2004 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971, skuli við hönnun og setningu háspennulína með málspennu hærri en 45kV fara eftir staðlinum ÍST EN 50341-1:2001, ásamt íslenska viðaukanum ÍST EN 50341-3-12:2001. Þetta feli í sér að byggingarbann sé á landinu í næsta nágrenni við línurnar. Útreiknuð mesta breidd byggingarbanns á hverju hafi sé á milli 99,3 – 123,1 metrar þar sem línurnar eru samsíða. Þar sem línurnar liggi ekki samhliða er útreiknuð mesta breidd byggingarbanns á milli 56,4 – 84,6 metrar.

 

Eignarnemi kveðst muni leggja malarbornar vegslóðir að flestum mastrastæðum línanna, til efnisflutninga og aðkomu. Heildarlengd vegslóða sé 7.245 metrar, að jafnaði 4 metrar á breidd, auk fláa (þ.e. alls 2,89 hektarar).  Heildarlengd nýlagningar vegslóða mælist á kortum 3.200 metrar að mati eignarnema, þ.e. allra hliðarslóða um 2.700 metrar og nýr slóði í mynni Áreyjardals um 500 metrar. Stærstur hluti slóðagerðar í landi Áreyja felist þó í styrkingu eldri vegar á svæðinu.

 

Eignarnemi segir að í tengslum við Fljótsdalslínur 3 og 4 verði 66kV háspennulína Hryggstekkur-Stuðlar lögð í jarðstreng og tekin niður. Jarðstrengurinn, sem verði 132 kV, verði 10.206 metrar að lengd. Núverandi lína, tréstauralína sem reist hafi verið um 1976 sé 7.000 metrar að lengd í landi Áreyja. Jarðstrengurinn verði lagður í jarðar vegsins að stærstum hluta. Eignarnemi kveður ekki vera til reglur varðandi helgunarsvæði jarðstrengja sambærilegar reglum varðandi helgunarsvæði háspennulína. Miða megi þó við að athafnasvæði sem þörf sé á vegna viðhalds jarðstrengsins sé ríflega áætlað 5 metrar til sitt hvorar hliðar. Alls sé því um 10,2 ha svæði að ræða. Ljósleiðari, sem liggi milli Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðarfirði, verði jafnframt lagður í skurð með jarðstrengnum.

 

Varðandi mat á bótum bendir eignarnemi á að hann öðlast ekki fullkominn eignarrétt á landi undir vegslóðir og línur, heldur takmarkaðan eignarrétt, afnotarétt sem fyrirtækið þurfi um ótakmarkaðan tíma eða svo lengi sem þörf verður á að umræddar línur liggi um það að mati eiganda þeirra, auk umferðarréttar. Eignarnemi geri þannig ekki athugasemd við umferð um vegslóðir eða nýtingu lands að öðru leyti svo lengi sem slíkt skapar ekki hættu fyrir rekstur línanna eða tálmi aðgang að þeim.

Eignarnemi telur tjón eignarnámsþola einskorðast við missi lands sem fari undir vegi, jarðstreng og möstur auk þess sem takmörkun verði á nýtingu þess lands sem falli innan helgunarsvæðis línanna. Eignarnemi telur ekki að eignarnámsþoli verði fyrir frekara tjóni. Hvað skerðingu vegna helgunarsvæðis varðar er þess krafist af hálfu eignarnema að tekið verði tillit til þess að eignarnámsþoli áformi virkjun í Áreyjardal með gerð uppistöðulóns. Þau áfrom muni ekki að neinu leyti raskast vegna línanna enda hafi matsbeiðandi skv. samkomulagi aðila tekið að sér að ráðast í afar kostnaðarsamar aðgerðir til að hækka möstur þau sem komi til með að standa í vatni, verði af áformuðum framkvæmdum. Ljóst megi vera af þessum sökum að tjón eignarnámsþola á því svæði sem hann áformi að virkja verði ekkert.

 

Við mat á fjárhæð bóta vegna vegslóða er þess krafist að tekið verði tillit til þess að vegurinn í Áreyjardal hafi legið þar um langan tíma. Ennfremur beri að mati eignarnema að taka tillit til þess að hluti af nýlagningu slóða, um 500 metra í mynni Áreyjardals, var lagður að beiðni landeiganda í stað þess að fylgja eldri veglínu. Við það falli sambærilegur hluti gamla vegarins til matsþola og veglínan færist nokkuð fjær bæjarstæðinu matsþola til hagsbóta.

 

Að mati eignarnema ber matsnefnd við mat á bótum í þessu máli að taka tillit til þess að áhrifasvæði þeirra mannvirkja sem um ræðir, þ.e.a.s. helgunarsvæði línananna (56 – 123 metrar), áhrifasvæði vegarins (30 metrar) og athafnasvæði vegna jarðstrengsins (10 metrar) skarist að stærstum hluta, jafnvel þannig að vegur og jarðstrengur lendi víða alfarið innan helgunarsvæðis háspennulínanna. Jarðstrengurinn fylgi veginum í Áreyjardal að mestu. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er áhrifasvæði vegarins 15 metrar frá miðju til sitt hvorar hliðar, sem þýði að athafnasvæði jarðstrengsins lendi að mestu innan áhrifasvæðis vegarins. Samkvæmt almennum reglum um mat á eignarnámsbótum eigi eignarnámsþoli ekki kröfu til þess að fá sama tjón sitt bætt tvívegis.

 

Eignarnemi telur að til frádráttar bótum sem ákvarðaðar verði vegna framkvæmdanna skuli koma hagsbætur sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum, þ.e. því að eignarnámsþola sé skilað til baka landi, þ.e. línustæði og helgunarsvæði núverandi háspennulínu Hryggstekkur-Stuðlar.

 

Eignarnemi telur að við mat á bótum í máli þessu skuli byggt á þeim frumsjónarmiðum er gilda þegar bætur eru metnar vegna eignanáms. Þannig eigi eignanámsþoli aðeins rétt á því að fá bætur fyrir endurgjald eignarnumins verðmætis og fyrir það óhagræði sem sannanlega hefur leitt til fjárhagslegs tjóns. Eignarnemi vísar sérstaklega til dóma Hæstaréttar Íslands frá árinu 1997 bls. 52 og frá 17. mars 2005 í málinu nr. 349/2004.

 

Eignarnámsþola beri því einungis fébætur fyrir þá skerðingu landsafnota sem tilkoma línanna valdi. Að því er mat á skerðingu varðar beri að hafa hliðsjón af kostum landsins til búskapar og sannanlega mögulegri nýtingu á því svæði sem um ræði. Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eingöngu verði litið við ákvörðun bótafjárhæðar til þess sem raunverulega hefur verið skert og til sannanlegs fjártjóns sem eignarnámsþoli verði fyrir.  Eignarnemi vísar til landskrár fasteigna en skv. yfirliti Fasteingamats ríkisins, dags. 14. nóvember 2005 sé fasteignamat jarðarinnar er kr. 610.000, fasteignamat ræktaðs lands, alls 27,7 ha kr. 1.386.000.

 

Eignarnemi bendir á að hann hafi þegar boðið eignarnámsþola kr. 6.153.554 í bætur og vísar í því sambandi til framlagðs útreiknings á bótum.  Eignarnemi kveður grunnin á því tilboði fyrst og fremst byggjast á niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta frá 1. júlí 1999 í samhljóða úrskurðum vegna lagningar Búrfellslínu 3 og hæstaréttardómi frá  1997, bls. 52. Þá hafi verið einnig stuðst við nýrri úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta hvað varði verðmat lands. Ennfremur hafi verið höfð hliðsjón af orðsendingum Vegagerðarinnar um landbætur vegna vegagerðar, upplýsingum frá Bændasamtökunum um ræktunarkostnað og útreikningum Suðurlandsskóga og Héraðsskóga um stofnkostnað og verðmæti skógræktar.

 

 

 

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að honum verði úrskurðaðar fullar bætur vegna lands þess sem honum ónýtist vegna framkvæmda eignarnema í landi eignarjarðar eignarnámsþola, Áreyja í Reyðarfirði, og annars tjóns sem framkvæmdirnar valda eignarnámsþola., allt að frádreginni innborgun kr. 10.000.000 sem greidd var inn á málið þann 28. júní 2005.  Þess er þess krafist að eignarnema verði gert að bera allan kostnað af málsmeðferð fyrir matsnefndinni, þ.m.t. málskostnað eignarnámsþola.

 

Eignarnámsþoli kveðst hafa rekið ýmsa starfsemi á jörðinni, m.a. framleitt hey og selt til Færeyja, lagt land undir nytjaskógrækt og komið á henni legg.  Skógræktarsamningur hafi fyrst verið gerður árið 1998, en síðan á árinu 2003 verið samið um stækkun svæðisins.  Auk þessa hafi landeigendur unnið að ýmsum hugmyndum um nýtingu jarðarinnar, megi þar nefna fiskeldi og virkjun þeirra tveggja áa sem liggi um landið. 

 

Eignarnámsþoli kveður tjón sitt vera eftirfarandi: Land fari undir staurastæður háspennulínanna, land sem ónýtist undir og kringum háspennulínurnar, land sem fari undir vegi, slóða og plön, land fari undir jarðstrengina, möguleikar á íbúðarhúsa- og sumarbústaðabyggð ónýtist, skógræktarmöguleikar í sunnanverðum Áreyjadal ónýtist, tvær malarnámur lendi undir staurastæður, skipta þurfi um girðingar umhverfis núverandi skógræktarsvæði eignarnámsþola, auk ýmissra óþæginda, rasks og fyrirhafnar sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir vegna framkvæmdanna.

 

Eignarnámsþoli flokkar sjónarmið sín um mat á bótum niður með eftirfarandi hætti:

 

a)  Stauravirki:

 

Eignarnemi bendir á að land utan við stög á hverri staurastæðu verði honum ónýtt og við það beri að miða þegar bæturnar eru metnar.  Nefna megi í því sambandi að vélum, t.d. heyvinnslutækjum, verði ekki komið við alveg upp við stögin.  Eins er notkun sem gengur út á jarðvinnslu væntanlega ekki möguleg nema nokkurn spöl frá stögunum.  Af þessum sökum vill eignarnámsþoli miða við að svæði að stærð 40 x 55 metrar verði honum ónýtt umhverfis hvert mastur.  Þetta eigi þó aðeins við um þau möstur þar sem línurnar eru samsíða, sem eru 38 neðstu möstrin.  Varðandi þau 10 sem efst eru í Áreyjadal sé hann sáttur við að miða við 30 x 40 metra svæði umhverfis hvert mastur.  Miðað við framangreint sé heildarsvæði það sem falli undir möstur alls 9,56 hektarar og töluverður hluti þess lands gott land sem m.a. mætti víða nýta til stækkunar á túnum.

 

b)  Helgunarsvæði/byggingarbannssvæði:

 

Eignarnánsþoli telur að horfa verði til tveggja atriða vegna helgunarsvæðis háspennulínanna, annars vegar lengdar línanna og hins vegar breiddar helgunarsvæðisins. 

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur fyrir land sem fari undir helgunarsvæðin verði ákvarðaðar með vísan til fordæmis Matsnefndar eignarnámsbóta í úrskurði sínum í málinu nr. 1/2005 þar sem miðað var við hlutfallið 5/7 af fullum bótum, þ.e.a.s. bótum fyrir land sem landeigendur geta engin not haft af.  Eignarnámsþoli mótmælir sérstalega þeim sjónarmiðum sem eignarnemi setur fram í greinargerð sinni, þess efnis að bætur vegna helgunarsvæðis Fljótsdalslínu 4 eigi að skerðast vegna þess að hún liggi að hluta til á sama stað og byggðalínan liggi nú.  Með því móti virðist eignarnámsþola að verið sé að fara fram á að honum verði ekki gerðar fullar bætur vegna Fljótsdalslínu 4.  Í samkomulagi aðila og af forsögu málsins sé skýrt að það séu jarðkaplarnir sem komi í stað núverandi byggðalínu, meðan að hápennulínurnar séu ný framkvæmd.  Þannig hafi eignarnemi jafnframt afgreitt málin annars staðar á línuleiðinni. 

 

c)  Vegslóðar.

 

Eignarnámsþoli telur að útreikningar eignarnema á breidd vegslóða þeirra sem lagðir verða vera vanreiknaða.  Þannig telur hann óraunhæft að miða við 4 metra breidd með fláum.  Telur eignarnámsþoli að miða eigi við mun breiðari veg við matið.  Þó telur eignarnámsþoli að draga megi um 3 m. beidd frá hluta vegarins mældum með fláum og skeringum enda hafi hann full og óheft afnot af veginum.

 

 

 

d)  Jarðkaplar.

 

Eignarnámsþoli fellst á það með með eignarnema að miða við 10 metra breitt helgunarsvæði umhverfis jarðkaplana, enda séu engar opinberar reglur til um helgunarsvæði slíkra mannvirkja.  Samkvæmt upplýsingum eignarnema sé lengd kaplanna 10.206 metrar. 

 

Eignarnámsþoli kveður framkvæmdum við lagninu kaplanna hafa verið þannig háttað, að næstum allt efni úr kapalskurðunum hefur verið fjarlægt og sett utan á veginn neðan við veg.  Nýtt fínna efni hafi síðan verið sett í skurðina.  Af þessu leiði aukin breidd vegarins auk þess sem vegbrúnin verði grófari en ella.  Eignarnámsþoli hafi gert mælingar sem sýni að breidd á þessum svæðum þar sem fara saman kaplaskurður, vegur og hrúga með afgangsefni úr skurði, sé 12,2 metrar að meðaltali.

 

Eignarnámsþoli telur að ekkert eigi að koma til frádráttar bótum þó núverandi lína sem liggi um landið verði tekin niður.  Ekkert hafi verið greitt fyrir þá línu á sínum tíma né séu að finna á þinglýsingavottorði neinar kvaðir vegna þeirrar línu í landinu.

 

e)  Skógræktarland í sunnan- og innanverðum Áreyjadal.

 

Eignarnámsþoli telur að skógrækt á því svæði sem hin nýja raflína muni liggja verði mjög óhagfelld.  Línan og vegslóðar komi til með að skera landið þannig að öll nýting landsins til skógræktar verði önug og óarðbær.  Af þessum sökum gerir eignarnámsþoli þá kröfu að spildan sem fýsileg þykir til skógræktar á því svæði verði bætt að fullu.

 

f)  Land undir sumarbústaði og ný bæjarstæði:

 

Eignarnámsþolii hefur löngum séð fyrir sér möguleika á að selja eða leigja frá sér land undir sumarbústaði í hlíðum Kolfells.  Framkvæmdir eignarnema nú hafi gert þessar hugmyndir að engu.  Eignarnámsþoli kveður eftirspurn vera eftir sumarhúsalóðum á þessu svæði, en reikna megi með að um 9 ha. lands sem annars hefði verið nýtanlegt til þeirra hluta ónýtist með tilkomu raflínunnar.

 

g)  Malarnámur:

 

Eignarnámsþoli telur að tvær námur sem eru í hans landi en munu fara undir staurastæður muni eyðileggjast.  Áætlað efnismagn í þessum námum sé 20.000 m³.  Töluverður markaður sé fyrir efni á Reyðarfirði og ætti eignarnámsþoli ekki í vandræðum með að selja allt efnið úr námunum.  Jarðvegsverktakafyrirtækið Austurpóll ehf. hafi sett fram tilboð um kaup á öllu efninu í námunum á einingaverðinu 74,70 pr. m³ og það beri að bæta honum.

 

h)  Rafmagnsgirðing:

 

Eignarnámsþoli kveðst hafa girt af alls um 126 ha. svæði til skógræktar.  Um sé að ræða rafmagnsgirðingu, en með tilkomu raflínunnar sem eignarnemi sé að reisa í landinu geti hugsanlega skapast spanáhrif milli rafmagnsgirðingarinnar og raflínunnar en slíkt geti valdið hættu.  Þetta þýði m.ö.o. að eignarnámsþoli verði að taka rafmagnsgirðinguna niður og girða landið með hefðbundinni girðingu.  Gerir eignarnámsþoli kröfu til þess að tjóns hans vegna þessa verði bætt.    

 

i)  Bætur vegna óhagræðis:

 

Eignarnámsþoli gerir kröfu til þess að honum verði sérstaklega bætt óhagræði og ónæði sem stafi af framkvæmdum eignarnema.  Megi þar nefna raskið á landinu, mikla umferð stórra vinnuvéla um landið og annarra.  Auk þessa óteljandi tilvik þar sem eignarnámsþoli og aðrir íbúar Áreyja hafa þurft að veita eignarnema og verktökum á hans vegum upplýsingar, samráð og aðstoð af ýmsu tagi, auk fyrirhafnar við samningatilraunir við eignarnema.

 

j)  Almennt um verðmæti landsins:

 

Eignarnámsþoli telur að landi því sem um ræðir í máli þessu megi skipta í þrjá verðflokka.  Í fyrsta lagi tún og annað ræktanlegt land á láglendi.  Í öðru lagi skógræktarhæft land í Áreyjadal, og loks fjalllendi ofan 400 metra hæðarlínu, sem liggur í botni dalsins.  Varðandi gæðaflokkun landsins byggi hanni á álitum skógfræðinga

 

Kröfur eignarnámsþola eru þær að lagt verði til grundvallar að verðmæti lands á láglendi sé kr. 900.000 pr. ha, í Áreyjadal kr. 700.000 pr. ha og fjalllendið kr. 100.000 pr. ha.  Varðandi tvær síðastgreindu tölurnar horfi eignarnámsþoli til úrskurðar Matsnefndarinnar í máli nr. 1/2005.  Það land þar sem einhver notkun er möguleg telur eignarnámsþoli að eigi að bætast með 5/7 hlutum af fullum bótum, sbr. nefndan úrskurð.  Eignarnámsþoli vísar sérstaklega til aukinnar eftirspurnar eftir landi á þessum slóðum og mjög hækkandi markaðsverðs á liðnum árum.

 

VI.  Niðurstaða:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.   Áreyjar er vel í sveit sett með fjölmörgum nýtingar möguleikum bæði til frístundaiðkunar og annarra nytja.  Fullvíst má telja að lagning raflínunnar um land jarðarinnar skemmi að nokkru leyti nýtinarmöguleika jarðarinnar, bæði á láglendinu framan við dalinn og í hlíðum dalsins innar.  Fallist er á það með eignarnámsþola að markaðsverð jarða á svæðinu hafi hækkað verulega á liðnum árum vegna aukinnar eftirspurnar.  Ekki er fallist á það landverð sem eignarnámsþoli telur að miða eigi við við matið.  Af hálfu matsnefndarinnar er rétt að skipta landinu í þrjá verðflokka.  Besta landið sem lægst liggur telur nefndin að eigi að meta á kr. 400.000 pr. ha., næsti flokkur lands skuli metinn á kr. 200.000 pr. ha. og það land sem hæst liggi eigi að metast á kr. 100.000 pr. ha.

 

Við útreikning lands sem fer undir möstur telur matsnefndin að miða skuli við 0,12 ha. lands undir hvert mastur (30m x 40m) enda á byggingarbannið sem nær töluvert út fyrir þessi mörk að tryggja næjanlega aðkomu að möstrunum.  Af þeim 48 möstum sem reist verða í landi eignarnámsþola lenda 12 þeirra í landi í hæsta verðflokki, 16 möstur á landi í miðflokknum og 20 möstur á verðminnsta landinu.  Samtals er því verðmæti þess lands sem fer undir raflínumöstur eignarnema kr. 1.200.000. 

 

Byggingarbann vegna línunnar telst vera 125,5 m. breitt þar sem tvöföld lína er og 65,5 m. þarsem línan er einföld.  Til frádráttar því svæði kemur það land sem eignarnemi greiðir að fullu vegna þess lands sem fer undir möstrin og vegi á byggingarbannssvæðinu. Að áliti matsnefndarinnar er verðmæti hvers ha. lands á byggingarbannsvæðinu þar sem landverðið er hæst kr. 280.000 pr. ha., kr. 100.000 pr. ha. í miðflokknum og 50.000 pr. ha. í ódýrasta flokknum.  Samtals eru því bætur fyrir land sem háð verður byggingabanni kr. 9.686.000.

 

Að áliti matsnefndarinnar eru útreikningar eignarnema á breidd vegslóða sem lagðir verða óraunhæfir.  Telur matsnefndin að miða eigi við 6 m. beiðan veg þ.m.t. fláa og er þá tekið tillit til þess að eignarnámsþoli hefur boðið 3 m. frádrátt frá raunverulegri breidd á stórum hluta vegna eigin afnota hans af veginum.  900 m. vegslóði lendir á verðmætasta landinu, 1,6 km. á landi í miðflokknum og 4,745 km. á verðminnsta landinu.  Samtals eru því bætur vegna þessa þáttar kr. 693.000.  Að auki telur matsnefndin að greiða eigi eiganrnámsþola kr. 425.000 vegna lands sem fer undir jarðstreng.

 

Svo sem að framan greinir telur matsnefndin að framkvæmd eignarnema geri jörðina Áreyjar minna áhugaverða fyrir hvers konar frístundaiðkun.  Kemur þar t.a.m. til sú sjónmengun sem hin nýja raflína kemur til með að hafa í för með sér.  Að áliti matsnefndarinnar koma 12 neðstu möstrin til með að hafa þessi áhrif sem minnkar verðmæti jarðarinnar.  Teljast hæfilegar bætur vegna þessa þáttar vera kr. 2.400.000.

 

Fallist er á það með eignarnámsþola að malarnámur eyðileggist vegna lagningu línunnar þó ekki sé fallist á að það verð sem eignarnámsþoli gerir kröfu um sé raunhæft markaðsverð fyrir efni úr námunni.  Teljast hæfilegar bætur vegna þessa þáttar vera kr. 500.000. 

 

Þá er og fallist á það með eignarnámsþola að honum beri bætur vegna rafmagnsgirðingar sem hann verður að taka niður og reisa aðra í staðin.  Hæfilegar bætur vegna þessa teljast vera kr. 530.000.

 

Með vísan til þess sem að framan greinir teljast hæfilegar eignarnámsbætur í máli þessu vera kr. 15.434.000.  Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 1.700.000 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.  Innborgun að fjárhæð kr. 10.000.000 dregst frá framangreindri matsfjárhæð.

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Landsnet hf., kt. 580804-2410, Krókhálsi 5c, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Svavari Valtýssyni, kt. 120452-2749, Áreyjum v. Reyðarfjörð, kr. 15.434.000 í eignarnámsbætur og kr. 1.700.000 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmálsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 840.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

____________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

 

 

_____________________________              _______________________________

Vífill Oddsson                                                   Magnús Leópoldsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum