Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 27. febrúar 2006

 

Mánudaginn 27. febrúar var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 11/2005

 

Landsnet hf.

gegn

Jónínu Zóphaníasdóttur og

Einari Zóphaníassyni, eigendum

Mýra á Fljótsdalshéraði.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 24. ágúst 2005 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 8. september 2005 fór Landsnet hf., kt. 580804-2410, Krókhálsi 5c, Reykjavík, (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna lagningar raflína í landi Mýra í Fljótsdalshéraði og lagningar vegnaslóða í tengslum við þá línulögn.  Eigendur Mýra (eignarnámsþolar) eru Jónína Zophoníasdóttir, kt. 280249-4089 og Einar Zophoníasson, kt. 300946-4299, Mýrum, Fljótsdalshéraði.

 

Nánar tiltekið er um að ræða að reisa 13 möstur til að bera framangreindar háspennulínur, sem eru alls um 2.344 m. að lengd í landi jarðarinnar ásamt undirstöðum og stögum og strengjum á milli mastra, leiðurum og jarðvír.  Þá þarf að leggja 3.022 m. vegslóða í landi jarðarinnar 4-5 m. breiðan.  Þá verður lagður ljósleiðarastrengur um land jarðarinnar.

 

Eignarnámið byggist á raforkulögum nr. 65/2003.

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Málið var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 8. september 2005. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 13. október 2005.

 

Vegna veikinda gat formaður matsnefndarinnar ekki mætt á vettvangsgöngu þann 8. september 2005, en hann fór á vettvang þann 26. október 2005. 

 

Aðlilar báðu um fresti til framlagningar greinargerða utan funda, en þann 25. janúar 2006 var málið tekið fyrir.  Þá höfðu borist greinargerðir ásamt öðrum gögnum frá báðum málsaðilum til framlagningar og voru þau gögn lögð fram. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings fyrir matsnefndinni.

 

Föstudaginn 3. febrúar 2006 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því búnu.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi kveðst hafa boðið eignarnámsþolum bætur vegna eignarnámsins en samningar ekki tekist og því hafi verið nauðsynlegt að vísa málinu til Matsnefndar eignarnámsbóta.  Eignarnemi kveðst muni reisa 13 möstur á landi eignarnámsþola. Lengd línananna í landi jarðarinnar sé 2.344 metrar. Landssvæði á milli staga hvers masturs sé um 30 x 40 m.  Í samræmi við það hafi verið miðað við að heildarstærð þess landssvæðis sem lendi innan staga sé 1,56 ha., þar af séu 0,48 ha. á svæði þar sem skógi hefur verið plantað, 0,72 ha. á svæði innan skógræktargirðingar þar sem útplöntun sé ekki hafin og 0,36 ha. beitiland.

 

Eignarnemi kveður heimildir sínar felast í því að reisa þessi mannvirki og að láta þau standa í landinu ótímabundið, svo lengi sem hann telji þörf á. Eignarnemi hafi umferðarrétt um land jarðarinnar meðan á framkvæmdum standi, svo og til að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með ofangreindum mannvirkjum svo lengi sem þörf krefji.

 

Eignarnemi bendir á að samkvæmt ákvæðum 402. - 404. gr. reglugerðar nr. 264/1971, um raforkuvirki, með áorðnum breytingum, sbr. reglugerð nr. 586/2004 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971, skuli við hönnun og setningu háspennulína með málspennu hærri en 45kV fara eftir staðlinum ÍST EN 50341-1:2001, ásamt íslenska viðaukanum ÍST EN 50341-3-12:2001. Útreikningur á lágmarksfjarlægðum fylgdi með matsbeiðni, þar kemur fram að útreiknuð mesta breidd byggingarbanns beggja lína á hverju hafi sé á milli 118,5 – 141,0 metrar.

 

Eignarnemi kveðst hafa miðað við það í samningaviðræðum við eignarnámsþola að byggingabann væri að meðaltali 125,5 metrar. Miðað við þá viðmiðun sé heildar stærð landssvæðis sem falli innan byggingabanns línanna 29,4 hektarar, þar af séu 9,73 hektarar á svæði þar sem skógi hafi verið plantað, 13,91 hektari á svæði innan skógræktargirðingar þar sem útplöntun sé ekki hafin, 4,95 hektarar beitiland og 0,81 hektari í árfarvegi. Ekki sé heimilt að reisa mikilvægar byggingar t.d. íbúðabyggingar og sumarhús, á þessu belti (byggingarbannssvæði/helgunarsvæði) en hinsvegar sé heimilt að stunda þar aðra landnotkun, s.s. túnrækt, beit, berjatínslu, og lágvaxna skógrækt (allt að 3,4. metra, t.d. jólatrjárækt). Einnig sé heimilt að leggja vegi og fleiri mannvirki undir línurnar, að uppfylltum vissum skilyrðum um fjarlægðir.

 

Eignarnemi kveðst hafa lagt malarbornar vegslóðir að mastrastæðum í línunum, til efnisflutninga og aðkomu. Heildarlengd vegslóða sé 3.022 metrar að lengd og að jafnaði 4 metrar á breidd, auk fláa. Meðfram aðal línuvegi sé  grafinn ljósleiðari, sem liggi frá stöðvarhúsi í Fljótsdal til álvers í Reyðarfirði.  Eignarnemi muni hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðir þessar vegna línulagnarinnar, svo og til þess að sinna framvegis endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.

 

Eignarnemi kveðst ekki öðlast fullkominn eignarrétt á landi undir vegslóðir og línur, heldur takmarkaðan eignarrétt, afnotarétt, sem fyrirtækið þurfi um ótakmarkaðan tíma. Eignarnemi gerir ekki athugasemd við að forráðamenn jarðarinnar leyfi umferð um vegslóðir eða nýtingu lands að öðru leyti svo lengi sem slíkt skapi ekki hættu fyrir rekstur línanna eða tálmi aðgang að þeim.

Eignarnemi telur tjón eignarnámsþola einskorðast við missi þess landsvæðis sem fer undir vegi og möstur auk þess sem takmörkun verði á nýtingu þess lands sem falli innan byggingarbannssvæðis línanna. Eignarnemi telur ekki að eignarnámsþolar verði fyrir frekara tjóni. Eignarnemi bendir á að eignarnámsþolar eigi aðeins kröfu til að fá bætt fjárhagslegt tjón, en ekki ófjárhagslegt.

Eignarnemi telur að við mat á bótum í máli þessu skuli byggja á þeim frumsjónarmiðum er gildi þegar bætur eru metnar vegna eignanáms. Þannig eigi eignanámsþoli aðeins rétt á því að fá bætur fyrir endurgjald eignarnumins verðmætis og fyrir það óhagræði sem sannanlega hafi leitt til fjárhagslegs tjóns. Beri hér að m.a. að líta til dóma hæstaréttar 1997:52 og frá 17. mars 2005 í málinu nr. 349/2004. Eignarnámsþola beri því einungis fébætur fyrir þá skerðingu landsafnota sem tilkoma línanna valdi. Að því er mat á skerðingu varði beri að hafa hliðsjón af kostum landsins til búskapar og sannanlega mögulega nýtingu á því svæði sem um ræði.

 

Eignarnemi telur að við mat á fjárhæð bóta verði að líta til nýtingar landssvæðis þess sem línurnar liggi um. Hér sé um það að ræða að eignarnámsþolar hafi ráðstafað meginhluta þess lands til nytjaskógræktar, skv. gildandi skógræktaráætlunum.  Ekki sé því hægt að miða við aðra nýtingu en þá sem þegar hafi verið ákveðin. Hafa verði í huga að þrátt fyrir takmörkun á skógrækt á helgunarsvæði línanna séu nýtingarmöguleikar svæðisins þó nokkrir, t.a.m. til ræktunar jólatrjáa og/eða uppeldis á trjá- og runnagróðri. Þá verði að telja að vegslóðar muni nýtast eignarnámsþolum í framtíðinni vegna skógræktar.

 

Eignarnemi telur að verðmæti jarðarinnar rýrni ekki umfram það sem bætt verði. Eignarnemi telur einnig að matsnefnd beri að taka tillit til þess að Fljótsdalslínur 3 og 4 fylgi núverandi línu 132 kV Kröflulínu 2 sem legið hafi um langt skeið um land jarðarinnar. Þá beri matsnefnd að taka tillit til þess að vegslóðar liggi að langmestu leyti innan helgunarsvæðis línanna auk allra mastra.

 

Eignarnemi vísar til þess að fasteignamat jarðarinnar sé kr. 878.000, fasteignamat ræktaðs lands, alls 31,9 ha, sé kr. 1.491.000.

 

Eignarnemi bendir á að hann hafi þegar boðið eignarnámsþola kr. 5.840.296 í bætur og vísar í því sambandi til framlagðs útreiknings á bótum.  Eignarnemi kveður grunnin á því tilboði fyrst og fremst byggjast á niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta frá 1. júlí 1999 í samhljóða úrskurðum vegna lagningar Búrfellslínu 3 og hæstaréttardómi frá  1997, bls. 52. Þá hafi verið einnig stuðst við nýrri úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta hvað varði verðmat lands. Ennfremur hafi verið höfð hliðsjón af orðsendingum Vegagerðarinnar um landbætur vegna vegagerðar, upplýsingum frá Bændasamtökunum um ræktunarkostnað og útreikningum Suðurlandsskóga og Héraðsskóga um stofnkostnað og verðmæti skógræktar.

 

Eignarnemi tekur skýrt fram að tilboð hans hafi á allan hátt verið hagkvæm fyrir landeigendur, t.d. var miðað við hámarksverð, boðin var full greiðsla fyrir möstur, vegi og byggingarbann án frádráttar, miðað var við 125,5 metra byggingarbannssvæði, landflokkun var í öllum tilfellum gróflega áætluð til hagsbóta fyrir landeigendur, miðað var við að skógræktarsvæði næðu að 400 metra hæð yfir sjávarmáli en ekki 300 metra eins og gert sé ráð fyrir í skógræktaráætlunum, auk annarra atriða. Tilboð eignarnema hafi þannig í öllum tilvikum miðað að því að landeigendur væru betur settir með samningum en með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta og/eða dómstóla.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að þeim verði metið fullt verð fyrir þær eignir og réttindi  sem eignarnám eignarnema nái til og fullt verð og bætur fyrir þær eignir og réttindi sem skerðist við eignarnámið.  Þá krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar þar með talinn 24,5% virðisaukaskatt á málflutningsþóknun samkvæmt fram lögðum reikningi.

 

Eignarnámsþolar kveða tilraunir til að ná samkomulagi við eignarnema um bætur ekki hafa skilað árangri og því hafi reynst nauðsynlegt að leggja ágreininginn fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.  Eignarnámsþolar telja sig óbundna af þeim tilboðum sem gengu milli aðila í þeim samningaviðræðum.

 

Eignarnámsþolar benda á að samkvæmt matsbeiðni sé miðað við að 13 möstur verði reist í landi jarðarinnar en í samningaferli milli aðila hafi verið miðað við 14 möstur.  Ekki sé fram komin skýring á þessari breytingu.

 

Af hálfu eignarnema er miðað að eignarnám nái til fullra afnota af spildu við hvert mastur á milli staga og sé 30 x 40 metrar við hvert mastur. Eignarnámsþolar telja rétt hér að miða afnot við stærra svæði sem nemur 5 metrum á hvora hlið enda verði land nýtt til festinga stagannna, aðkomu, eftirlits og viðhalds þeirra í þeim mæli að önnur afnot verði að fullu útilokuð.  Samkvæmt þessu telja eignarnámsþolar að bæta beri að fullu fyrir afnot af landi undir staurastæður sem nemi 2.04 hekturum (13 x 0.1575). Eignarnámsþolar gera að svo stöddu ekki athugasemd við stærð svæðis sem háð er kvöðum um byggingabann og fullan umferðarrétt en það er 29,4 hektarar (125,5 x 2.344).    

 

Eignarnámsþolar telja allt of lítið að miða við 4-5 metra breiða vegslóða, enda sé um að ræða mun meira en slóða.  Um sé að ræða uppbyggða vegi og gera megi ráð fyrir 10 metra breidd í þessu sambandi.  Samkvæmt þessu er því haldið fram af eignarnámsþolum að bæta beri 3 ha. lands vegna þessa, þ.e. 10 x 3.022 m. vegna vegalagningar og lagningu ljósleiðara.

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess sérstaklega krafist að eignarnemi bæti landspildu sem afmarkast frá mörkum byggingabanns austan línu og að landamerkjum við Lynghól og Eyrarteig. Spilda þessi liggi annars vegar frá þjóðvegi og komi í “spíss” þar sem línur fari úr landi Mýra inn í land Lynghóls og hins vegar neðan þjóðvegar niður að Grímsá þar sem línuleið fari úr landi Mýra yfir í land Eyrarteigs.  Eignarnámsþolar telja spilduna ofan þjóðvegar vera 35 ha. og neðan þjóðvegar 57 ha. þannig að samtals sé um að ræða 92 ha.  Á því er byggt af hálfu eignarnámsþola að vegna nálægðar við línurnar með því að þær “skera” spildurnar frá jörðinni, verði notkunarmöguleikar þeirra takmarkaðir verulega auk þess sem verðmæti þessa hluta landsins rýrni. Eignarnámsþolar halda fram að þetta land beri að bæta með samsvarandi hætti og það land sem falli undir byggingabann en að lágmarki 25% af fullu verði.  Til stuðnings kröfu þessari vísa eignarnámsþolar til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 1/2005 Landsnet gegn Prestsetrasjóði. 

 

Af hálfu eignarnámsþola er á því byggt að bæta beri verðlækkun og takmarkaðri nýtingarmöguleika á landi sem liggi meðfram línum vestan megin. Krafist er að bætt verði rýrnun á spildu sem 250 metrum frá þeirri línu þegar byggingarbanni sleppi.    Stærð spildunnar sé því 58,6 hektarar.  Á því er byggt að línurnar og önnur mannvirki þeim tengd muni skerða verulega nýtingarmöguleika á á spildu þeirri sem um ræðir.     Þannig verði ekki byggt á þessu svæði.  Útilokað hjóti að teljast  til allrar framtíðar að nýta land þetta til sumarhúsabyggðar eða til annarra bygginga.

 

Eignarnámsþolar halda því fram að jörðin Mýrar og mannvirki sem á henni eru lækki umtalsvert í verði vegna mannvirkja Fljótsdalslínu 3 og 4. Mannvirki eignarnema á jörðinni séu mjög stór og sýnileg og gangi í gegnum jörðina. Fjarlægð línanna við íbúðarhúsin sé innan við 1.000 metrar. Á því er byggt að slík nálægð hljóti að rýra verðgildi þessara eigna umtalsvert. Benda eignarnámsþolar á því sambandi að íbúðarhús að Eyrarteigi hafi verið bætt að fullu eftir því sem þeir best viti en það sé um 140 metrum frá mörkum byggingabanns.    

 

Eignarnámsþolar benda á að þó að jörðin Mýrar sé nú nýtt til landbúnaðar beri við mat á verðlækkun að horfa á framtíðarhorfur og möguleika varðandi nýtingu jarðarinnar. Á undanförnum árum hafi orðið mikil breyting á nýtingu lands í dreifbýli á Íslandi. Aðalkaupendahópur slíks lands sé ekki lengur fólk sem vilji stunda hefðbundinn landbúnað, heldur efnamikið fólk sem vill nýta jarðirnar og mannvirki til afþreyingar og/eða til fjárfestingar. Það þurfi því ekki að fara í grafgötur með að svo stórfellt línulögn í gegnum land og  vegir sem skera landið í hlíðinni eins og hér um ræðir hljóti að takmarka hugsanlegan kaupendahóp fasteignarinnar og þar með lækka markaðsverð jarðarinnar og þeirra mannvirkja sem á henni eru.   

 

Því er haldið fram að hluti lands Mýra hefði getað orðið ákjósanlegur fyrir sumarhúsabyggð en slíkir nýtingarmöguleikar séu vart lengur fyrir hendi. Eignarnámsþolar telja það hlutverk matsnefndar að taka afstöðu án sönnunargagna sem eignarnámsþolar afli eða leggi fram hver verði talin almenn verðrýrnun jarðar og mannvirkja að Mýrum.  Af hálfu eignarnámsþola er vísað til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 1. júlí 1999 vegna lagningar Búrfellslínu um þessi efni þar sem nefndin ákvarðaði nokkrum tilvikum sbr. og hrd. 1984:906.

 

Eignarnámsþolar telja að við mat á eignarnámsbótum beri að líta til fulls verðs þeirra réttinda sem eignarnemi fær til afnota svo og til kvaða og skerðingar sem mannvirkin og nýting þeirra hafi í för með sér. Réttur eignarnámsþola að þessu leyti sé varinn af 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og ágreiningslaust að það ákvæði feli í sér þann grundvöll sem Matsnefnd eignarnámsbóta beri að fara eftir við mat sitt.

 

Eignarnámsþolar andmæla þeim fullyrðingum sem fram koma í greinargerð eignarnámsþola að það frumsjónarmið gildi við ákvörðun eignarnámsbóta að einungis sé bætt fjártjón vegna eignarnáms. Eignarnámsbætur eru ekki skaðabætur heldur fullt verð þeirra eigna og réttinda sem eignarnemi fái eignarráð yfir auk  þess sem bæta skuli  kvaðir og skerðingu á eignum eignarnámsþola sem verði við eignarnám.

 

Af hálfu eignarnámsþola er haldið fram að ekki séu forsendur til að gera þann mun á landverði svo sem gert hafi verið í tilboði eignarnámsþola. Samkvæmt tilboðinu hafi fullt verð fyrir land neðan vegar og innan svokallaðrar skógræktargirðingar verið kr. 290.000 pr. ha. Fyrir það land sem flokkað var sem “hagi” hafi hins vegar verið boðið kr. 90.000 pr. ha.  Land það sem eignarnemi vildi einungis greiða kr. 90.000 á ha. fyrir sé efsti hluti þess lands sem línur og vegir fari um, þar sem ekki höfðu verið gerðir skógræktarsamningar. Eins og ráða megi af framlögðum gögnum fari línur út úr landi Mýra í um 300 metra hæð yfir sjávarmáli.  Eins og fram komi í greinargerð eignarnámsþola geri áætlanir ráð fyrir skógræktarsvæðum í allt að 300 metra hæð.    Þó ekki hafi verið búið að gera samning um skógrækt að Mýrum nema upp að 200 metra hæð hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að gerðir yrðu samningar um skógrækt ofar í landinu enda land það gott til skógræktar eins og land víða annars staðar á Fljótsdalshéraði í þessari hæð. Samkvæmt þessu telja eignarnámsþolar að ekki  eigi gera greinarmun á verðmæti lands með þeim hætti sem eignarnemi gerði í tilboði sínu.    Meta eigi allt landið sem skógræktarland eða land hæft til skógræktarnota.   

 

Því er haldið fram af hálfu eignarnámsþola að veruleg verðhækkun hafi almennt orðið á landi og jörðum á undanförnum tveimur árum. Það eigi ekki síst við um jarðir og byggingar í dreifbýli á Fljótsdalshéraði. Jörðin Mýrar sé í nágrenni við ört vaxandi þéttbýli á Egilsstöðum en innan við hálftíma akstur sé þar á milli við venjulegar aðstæður. Á því er byggt þegar litið er til þessa og nýlegra úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta þá séu þau verð sem eignarnemi hafi boðið ekki fullt verð miðað við aðstæður í dag.

 

Eignarnámsþolar halda fram að við ákvörðun eignarnámsbóta beri að taka tilllit til þess tíma sem afnot og umráð eignarnámsþola hafa staðið þar til fjárhæð er ákveðin af matsnefnd enda geti eignarnemi ekki átt að hagnast af því að hafa dregið að leggja málið fyrir matsnefnd. Eignarnámsþolar telja að vega verði þennan þátt í samhengi við hækkun verðs á landi frá því umráðataka fór fram í apríl 2004 til þess dags sem mat er upp kveðið.

 

VI.  Niðurstaða:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.   Mýrar er vel í sveit sett með fjölmörgum nýtingar möguleikum bæði til frístundaiðkunar og annarra nytja.  Fullvíst má telja að lagning raflínunnar um land jarðarinnar skemmi að nokkru leyti nýtinarmöguleika jarðarinnar, einkum neðst í landinu næst byggingum jarðarinnar.  Fallist er á það með eignarnámsþola að markaðsverð jarða á svæðinu hafi hækkað verulega á liðnum árum vegna aukinnar eftirspurnar.  Ekki er fallist á það landverð sem eignarnámsþoli telur að miða eigi við við matið.  Af hálfu matsnefndarinnar er rétt að skipta landinu í tvo verðflokka.  Besta landið sem lægst liggur telur nefndin að eigi að meta á kr. 400.000 pr. ha., en annað land á kr. 200.000 pr. ha.

 

Við útreikning lands sem fer undir möstur telur matsnefndin að miða skuli við 0,12 ha. lands undir hvert mastur (30m x 40m), enda á byggingarbannið sem nær töluert út fyrir þessi mörk að tryggja nægjanlega aðkomu að möstrunum.  Af þeim 13 möstum sem reist verða í landi eignarnámsþola lenda 8 þeirra í landi í hærri verðflokkinum en 5 í þeim lægri.  Samtals er því verðmæti þess lands sem fer undir raflínumöstur eignarnema kr. 504.000.

 

Byggingarbann vegna línunnar telst vera 125,5 m. breitt.  Til frádráttar því svæði kemur það land sem eignarnemi greiðir að fullu vegna þess lands sem fer undir möstrin og vegi. Að áliti matsnefndarinnar er verðmæti hvers ha. lands á byggingarbannsvæðinu þar sem landverðið er hærra kr. 280.000 pr. ha. en kr. 100.000 pr. ha. þar sem landið er verðminna.  Samtals eru því bætur fyrir land sem háð verður byggingabanni kr. 5.272.000.

 

Að áliti matsnefndarinnar eru útreikningar eignarnema á breidd vegslóða sem lagðir verða óraunhæfir.  Telur matsnefndin að miða eigi við 8 m. beiðan veg þ.m.t. fláa.  1800 m vegslóði lendir á verðmætara landinu en 1200 m. á því sem verðminna er.  Samtals eru því bætur vegna þessa þáttar kr. 768.000, þ.m.t. land sem fer undir ljósleiðara.

 

Svo sem að framan greinir telur matsnefndin að framkvæmd eignarnema geri jörðina Mýrar minna áhugaverða fyrir hvers konar frístundaiðkun.  Kemur þar t.a.m. til sú sjónmengun sem hin nýja raflína kemur til með að hafa í för með sér.  Að áliti matsnefndarinnar koma 8 neðstu möstrin til með að hafa þessi áhrif sem minnkar verðmæti jarðarinnar.  Teljast hæfilegar bætur vegna þessa þáttar vera kr. 1.600.000. 

 

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að bæta beri sérstaklega verðrýrnun á húsakosti jarðarinnar vegna línulagnarinnar.  Þá er ekki fallist á að verðrýrnun verði á landi utan byggingarbannsins að öðru leyti en því sem að framan greinir.

 

Með vísan til þess sem að framan greinir teljast hæfilegar eignarnámsbætur í máli þessu vera kr. 8.144.000.  Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 670.000, þ.m.t. virðisaukaskattur í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. 

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Landsnet hf., kt. 580804-2410, Krókhálsi 5c, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Jónínu Zophoníasdóttur, kt. 280249-4089 og Einari Zophoníassyni, kt. 300946-4299, Mýrum, Fljótsdalshéraði, kr. 8.144.000 í eignarnámsbætur og kr. 670.000 þ.m.t. virðisaukaskattur í kostnað vegna reksturs matsmálsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 840.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

____________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

 

 

_____________________________              _______________________________

Vífill Oddsson                                                   Magnús Leópoldsson

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum