Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 19/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 2. september 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni við son hennar, C, nr. 19/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 7. júlí 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 25. júní 2015, vegna umgengni kæranda við son sinn, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við kæranda, á meðan vistun barnsins utan heimilis stendur, annan hvern miðvikudag í tvo tíma í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarnefndarinnar. Þá eru símasamskipti óheimil. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að regluleg umgengni A, við barnið C, á meðan á vistun barnsins utan heimilis stendur, skuli vera annan hvern miðvikudag í tvo tíma í senn undir eftirliti barnaverndarnefndar í húsnæði á vegum nefndarinnar. Umgengni skal fara fram á E. Símasamskipti eru óheimil.

Kærandi krefst þess að umgengni verði tvisvar í mánuði, yfir helgi, þ.e. frá föstudegi til sunnudags á heimili kæranda án eftirlits. Ef ekki verði fallist á þá tilhögun þá krefst kærandi að umgengni verði annan hvern laugardag og sunnudag í sex klukkustundir í senn báða dagana á heimili kæranda án eftirlits. Þá gerir kærandi kröfu um ótakmörkuð símtöl eða fasta símatíma milli kæranda og barnsins vikulega.

Af hálfu barnaverndarnefndar B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra drengsins kemur fram í tölvupósti X til kærunefndarinnar að þau telji það nokkuð víst að það myndi ekki þjóna hagsmunum C að vera í meiri samskiptum við kæranda en nú þegar er.

I. Málavextir

Kærandi flutti til Íslands frá F með drenginn árið X. Hún á einnig X yngri börn með eiginmanni sínum, G, en börnin eru fædd X og X. Hjónin búa ekki lengur saman en fram hefur komið að þau ætli að sækja um skilnað.

Mál C hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd B frá árinu X. Í gögnum málsins kemur fram að lögregla var kölluð út vegna heimilisofbeldis á heimili kæranda seint á því ári. Af því tilefni tilkynnti lögregla barnaverndarnefnd B um aðstæður barna kæranda. Fleiri tilkynningar bárust barnaverndarnefndinni frá lögreglu vegna aðstæðna barnanna á árunum X og X.

Í greinargerð vegna könnunar máls samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga X var niðurstaðan sú að kærandi og fjölskylda hennar þyrfti mikla aðstoð strax. Samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins var í greinargerðinni lögð áhersla á að veita fjölskyldunni fjárhagslegan stuðning, tilsjónaraðili var fenginn til að aðstoða kæranda, drengnum var fenginn persónulegur ráðgjafi og óskað var eftir forgangi fyrir kæranda í félagslegt húsnæði. Þá voru gerðar meðferðaráætlanir fyrir drenginn og systur hans með gildistíma X til X. Samkvæmt gögnum málsins hafa nýrri meðferðaráætlanir verið undirritaðar frá þeim tíma, en sú nýjasta er undirrituð af starfsmanni Barnaverndar B og eiginmanni kæranda og gildir hún frá X til X. Kærandi vildi ekki undirrita þá meðferðaráætlun. Frá X til X hefur drengurinn verið með persónulegan ráðgjafa í tuttugu klukkustundir í mánuði.

Drengurinn var vistaður utan heimilis með skriflegu samþykki móður X og X ákvað barnaverndarnefnd B með úrskurði að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með X. Kærandi hefur krafist þess fyrir héraðsdómi H að úrskurðurinn verði felldur úr gildi. Af hálfu barnaverndarnefndar B var þess krafist fyrir dóminum að úrskurður nefndarinnar frá X yrði staðfestur. Einnig var þess krafist að drengurinn yrði vistaður utan heimilis á vegum barnaverndarnefndarinnar í allt að tólf mánuði frá uppkvaðningu úrskurðar samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga.

Drengurinn er vistaður tímabundið hjá J og K. Frá því að drengurinn var vistaður utan heimilis hefur hann farið í tvær heimsóknir á heimili kæranda með starfsmanni Barnaverndar B. Fyrri umgengnin átti sér stað X en að mati starfsmanns Barnaverndar sem var viðstaddur hafi skortur á tengslum milli kæranda og drengsins verið ákallandi.

Í heimsókn Barnaverndar á fósturheimili drengsins X greindu fósturforeldrar frá áhyggjum af neikvæðu áreiti kæranda í garð drengsins, en hún hringdi stöðugt í hann og sendi honum og fósturfjölskyldunni skilaboð.

Næsta umgengni átti sér stað X. Starfsmaður Barnaverndar hafði eftirlit með umgengninni og gerði athugasemd við samskipti kæranda og drengsins. Samkvæmt starfsmanninum talaði kærandi við drenginn á L og í reiðilegum tóni. Eftir umgengnina hafi drengurinn ekki viljað ræða um hana eða hvað kærandi hefði sagt við hann. Þá hefur hann samkvæmt því sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun sagst ekki lengur vilja vera með farsíma vegna stöðugra símhringinga frá kæranda.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefnd B þann  X. Fyrir fundinum lá tillaga starfsmanna Barnaverndar B um að umgengni yrði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði velferðarsviðs B. Umgengni skuli fara fram á E. Þá var lagt til að símasamskipti yrðu ekki heimiluð milli kæranda og drengsins. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni drengsins í tímabundnu fóstri var hinn kærði úrskurður kveðinn upp X.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni kemur fram að málið hafi verið lagt fyrir barnaverndarnefnd B vegna gruns um óviðunandi heimilisaðstæður og gruns um ofbeldi af hálfu kæranda. Þegar gögn málsins séu skoðuð megi sjá að engin tilkynning hafi verið send til Barnaverndar B varðandi drenginn nema frá kæranda, þ.e. tilkynningar til Barnaverndar þar sem kærandi hafi ásakað eiginmann sinn um ofbeldi í sinn garð eða að deilur hafi verið á milli þeirra. Skóli drengsins hafi ekki sent inn tilkynningar vegna hans, hvorki vegna gruns um að hann hefði verið beittur ofbeldi, né vegna þess að hann stundi ekki skóla, komi ekki á réttum tíma í skóla, hann sé ekki með réttan búnað og svo framvegis. Þvert á móti komi fram í gögnum málsins að drengurinn mæti ávallt á réttum tíma í skólann, hann sé ávallt með öll námsgögn, hann sé snyrtilegur og hegði sér almennt vel.

Þann X hafi barnaverndarnefnd B svo úrskurðað að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í allt að tvo mánuði. Þeim úrskurði hafi verið vísað til héraðsdóms H.

Í greinargerð barnaverndarnefndar B sem lögð hafi verið fram á fundi X þar sem úrskurðað var um umgengni kæranda við C sé vísað til þess að drengurinn vilji ekki dvelja á heimili kæranda, heldur vilji hann dvelja á heimili fósturforeldra. Kærandi telur það að vissu leyti skiljanlegt að hann vilji ekki búa á heimili hennar. Samskipti kæranda og eiginmanns hennar hafi verið afar erfið undanfarna mánuði og ár og hafi það bitnað á heimilislífi þeirra allra og valdið því að samskipti kæranda og drengsins hafi ekki þróast með þeim hætti sem eðlilegt væri. Nú standi hins vegar til að kærandi og eiginmaður hennar skilji og muni því samskiptaörðugleikar, sem einkennt hafi heimilislífið síðustu misseri, ekki koma til með að hafa áhrif í framtíðinni, en eiginmaður hennar sé nú þegar fluttur af heimilinu. Í því skyni að fá son sinn aftur inn á heimili sitt, hyggst kærandi reyna að styrkja og bæta tengsl sín við hann, en ekki verði séð hvernig hún eigi að fara að því, nema úrskurðað verði um verulega rýmri umgengni, á heimili kæranda og án eftirlits utanaðkomandi aðila.

Í ljósi þessa megi vísa til þess að til að stjórnvaldsákvörðun standist meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verði hún að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Til að vistun utan heimilis gagnist sem úrræði við meðferð í barnaverndarmáli þurfi málsmeðferð barnaverndaryfirvalda að stefna að því að barn komi aftur inn á heimili kynforeldra, kæranda í þessu tilfelli. Það sé því mikilvægt að kærandi fái að hafa náin og góð samskipti við son sinn, með rúmri umgengni á meðan kærandi vinni í því að styrkja tengsl sín við hann, svo að hún geti í framhaldi fengið hann aftur inn á heimili sitt, sbr. 74. gr. bvl. Ekki verði séð að úrskurður barnaverndarnefndar B sé til þess fallinn að stuðla að þessu markmiði. Umgengni tvisvar sinnum í mánuði í tvo klukkutíma í senn geti ekki talist til þess fallin að hjálpa kæranda að bæta samskipti sín og styrkja tengsl sín við son sinn. Um sé að ræða svipaða eða minni umgengni en foreldrar sem standi í forsjársviptingarmáli fái við börn sín.

Auk þess telur kærandi rannsóknarreglu barnaverndarlaga ekki hafa verið fylgt í aðdraganda úrskurðar barnaverndarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga. Úrskurðurinn virtist að stórum hluta vera byggður á tveimur stuttum heimsóknum, þar sem C hafi komið til kæranda á heimili hennar X og X. Í umsögn starfsmanns Barnaverndar B um heimsóknirnar komi aðallega fram einhversskonar ályktanir um hvað starfsmanninum finnist um samskipti kæranda við son sinn, auk þess sem starfsmaðurinn vísi til þess að samskipti sem hafi farið fram á milli kæranda og sonar hennar á L hafi hljómað eins og kærandi væri að segja eitthvað neikvætt eða skamma hann, án þess að byggja á neinu nema eigin mati.

Kærandi gerir, eins og áður komi fram, kröfu um umgengni tvisvar sinnum í mánuði, yfir helgi, þ.e. frá föstudegi fram á sunnudag, en til vara annan hvern laugardag og sunnudag frá klukkan 12:00 til 18:00. Kærandi óskar eftir því að öll umgengni við son hennar fari fram á heimili hennar, án eftirlits en ekki í húsnæði velferðarsviðs B enda sé markmið vistunar utan heimilis að sonur hennar flytji aftur heim til kæranda og því sé eðlilegt að umgengni fari fram þar. Ekkert hafi fram komið sem bendi til þess að heimili kæranda sé óviðunandi á nokkurn hátt eða að nokkuð skorti á aðbúnað drengsins þar.

Að lokum fer kærandi fram á það að símasamskipti hennar við drenginn verði ótakmörkuð. Kærandi telur það nauðsynlegt, með tengsl við son sinn í huga, að geta haft samband við hann símleiðis á meðan á fóstri standi. Að lágmarki telur hún nauðsynlegt að hún fái reglulega símatíma við drenginn til þess að halda sambandi við hann.

Kærandi telur rétta málsmeðferð í máli þessu vera að veita henni hjálparhönd til að bæta tengsl hennar og sonar hennar, svo hún geti í framhaldi fengið drenginn aftur inn á heimili sitt, í stað þess að þeim sé stíað í sundur og þeim ekki leyft að njóta umgengni hvors annars.

Kærandi ítrekar kröfur sínar og krefst þess að tekið verði mið af sameiginlegum hagsmunum hennar og barnsins. Nauðsynlegt sé að rökstyðja betur niðurstöðu barnaverndaryfirvalda og rannsaka málið betur eigi að takmarka umgengni með þeim hætti sem gert sé í úrskurði barnaverndarnefndar B. Kærandi telur að vinna þurfi ötullega í málefnum þeirra beggja til þess að bæta stöðu og samband þeirra og lýsir hún sig reiðubúna til þess að gera það í samvinnu við Barnavernd B, skóla og félagsþjónustu en grundvöllur fyrir því að hægt sé að bæta samband þeirra sé að leyfa þeim að njóta rúmrar umgengni.

III. Afstaða C

Í  skýrslu talsmanns drengsins X kemur fram að talsmaðurinn hafi hitt drenginn tvisvar sinnum á heimili núverandi fósturforeldra hans, í fyrra skiptið X og síðara skiptið X. Óskað var eftir upplýsingum um afstöðu drengsins til líðanar hans á eigin heimili, líðanar hans í samskiptum við móður, í samskiptum við stjúpföður og í samskiptum við systkini og jafnframt líðanar hans á heimili þáverandi stuðningsforeldra hans, núverandi fósturforeldra.

Í skýrslunni kemur fram að nokkurs pirrings gæti í tali drengsins í garð kæranda og systkina hans. Hann hafi verið jákvæðari í garð stjúpföður og hafi lagt mikla áherslu á að geta verið einn með honum þegar gera ætti eitthvað skemmtilegt, en ekki að hafa systkini sín eða kæranda með. Ekki hafi komið fram í máli hans að hann saknaði kæranda og hann vildi eingöngu fara til hennar í heimsókn en ekki gista hjá henni. Hann hafi tjáð sig mjög skýrt um það að sér liði vel á heimili fósturforeldranna, J og K, og hann vilji helst af öllu geta búið þar þangað til hann verði fullorðinn en ef ekki þar þá einhvers staðar annars staðar en heima hjá kæranda. Ástæða þess sé, samkvæmt því sem fram kemur í máli talsmanns og drengurinn hafi oft tjáð henni, að kærandi sé „alltaf svo pirruð og að rífast“ og að hann „nenni ekki að hlusta á hana“.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B dags. X til kærunefndarinnar kemur fram  að af gögnum málsins megi sjá að mál kæranda og sonar hennar eigi sér nokkurn aðdraganda og lengi hafi verið áhyggjur af heimilisaðstæðum drengsins. Allt frá því að málið hafi verið tilkynnt fyrst til Barnaverndar B í X hafi drengurinn ítrekað greint frá ofbeldi sem kærandi hafi beitt hann. Frásögn drengsins um ofbeldið sé staðföst og viðvarandi og studd viðtölum við stjúpföður, stjúpömmu og tilsjónaraðila kæranda.

Í viðtölum sálfræðings Barnaverndar B við drenginn í X og X komi fram mjög neikvætt viðhorf hans til kæranda en hann hafi sagt frá ofbeldi kæranda í sinn garð, að hún slái hann utan undir, klípi hann í kinnarnar og öskri á hann. Niðurstaða sálfræðingsins sé að án breyttra heimilisaðstæðna yrði árangur af viðtalsmeðferð takmarkaður. Þegar búið sé að skapa öryggi og festu í lífi hans sé mikilvægt að hann fái aðstoð við að mynda jákvæðara viðhorf til sjálfs síns og efla getu hans til að takast á við aðstæður.

Drengurinn hafi einnig þurft að búa við sjáanlega vanrækslu. Hann hafi til dæmis verið vanur að mæta klukkan X í skólann og hann hafi ekki komið heim til sín fyrr en klukkan X á kvöldin og hafi verið sofnaður klukkan X. Öllum helgum hafi hann eytt hjá vinum sínum. Fjölskylda vinar hans hafi séð um heimanámið hans og hafi þvegið fötin hans meðan hann hafi verið í heimsókn. Foreldrar bekkjarfélaga drengsins hafi haldið upp á afmæli hans.

Drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis frá X og vilji drengsins til að vera vistaður utan heimilis sé mjög skýr. Í viðtölum við talsmann hafi gætt mikils pirrings hjá drengnum í garð kæranda. Honum hafi verið tíðrætt um að hún væri alltaf svo pirruð og að rífast og að hann nennti ekki að hlusta á hana. Hann hafi sagst ekki sakna kæranda, en að hann saknaði stjúpföður og systkina sinna. Í skýrslunni komi fram skýr afstaða drengsins til þess að búa ekki á heimili foreldra sinna og að vera ekki í miklum samskiptum við kæranda.

Drengurinn hafi einnig sýnt lítinn vilja til þess að heimsækja kæranda eftir að formleg vistun hafi hafist. Skipulögð umgengni hafi farið fram tvisvar og ekki gengið vel. Í seinna skiptið hafi drengurinn óskað sjálfur eftir því að fara þegar tuttugu og fimm mínútur voru liðnar af umgengni. Drengurinn virðist þannig ekki hafa mikla þörf eða vilja til þess að umgangast kæranda lengur en í stutta stund í einu.

Kærandi hafi ekki verið fús til samstarfs við barnaverndarnefnd B og engin meðferðaráætlun sé í gildi þar sem kærandi neiti að skrifa undir slíka áætlun. Það sé því engin vinna framundan sem stefni að því að vinna í að bæta tengsl kæranda við soninn, fyrst og fremst vegna þess að kærandi hafi hafnað allri aðstoð. Jafnframt hafi kærandi lýst því yfir á fundi barnaverndarnefndarinnar að hún sé góð móðir sem þurfi því ekki aðstoð barnaverndaryfirvalda. Erfitt sé því fyrir barnaverndarnefndina að aðstoða kæranda við að leysa þann augljósa vanda sem hún eigi við að stríða og hamli tengslum hennar við drenginn. Barnaverndarnefnd B sé ekki tilbúin að rýmka umgengni kæranda við drenginn fyrr en kærandi hafi hafið einhverskonar meðferð við vanda sínum.

Varðandi símasamskipti hafi verið ákveðið að taka fyrir þau þar sem kærandi hafi misnotað það samskiptaform þannig að það hafi verið farið að valda drengnum vanlíðan og kvíða. Gögn málsins sýni að símtöl kæranda til drengsins hafi farið langt fram úr því sem góðu hófi gegni.

Ákvörðun barnaverndarnefndarinnar um umgengni sé byggð á mikilli vinnslu og fjölda skjalfestra viðtala við drenginn og fósturfjölskyldu, upplifun og reynslu starfsmanna af samskiptum móður og drengsins og síðast en ekki síst mjög skýrum vilja drengsins.

Barnaverndarnefnd B telur í ljósi ásakanna drengsins um að kærandi beiti hann ofbeldi og með hliðsjón af þeim samskiptum sem starfsmenn hafi orðið vitni að þeirra á milli sé ekki unnt að fallast á tillögu kæranda um að umgengni fari fram aðra hverja helgi án eftirlits. Slíkt sé í andstöðu við hagsmuni drengsins og til þess fallið að ógna öryggi hans og valda honum vanlíðan. Barnaverndarnefndin telur með tilli til hagsmuna og vilja drengsins að hæfileg umgengni sé tvær klukkustundir aðra hverja viku. Jafnframt sé talið nauðsynlegt að umgengni fari fram undir eftirliti starfsmanna og liður í því sé að umgengni fari fram á E. Vegna þess ónæðis sem drengurinn hafi orðið fyrir af stöðugum símhringingum eins og sjá megi af gögnum málsins hafi verið ákveðið að heimila ekki símtöl. Krefst barnaverndarnefnd B því þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra drengsins X til kærunefndarinnar kemur fram að þau telji nokkuð víst að það myndi ekki þjóna hagsmunum drengsins að vera í meiri samskiptum við kæranda en nú þegar er. Hann hafi sjálfur sagt skoðuna sína varðandi það. Ákveðið jafnvægi hefði náðst hjá honum og það yrði slæmt verði hann settur aftur í þessar aðstæður. Einnig hafi það sýnt sig að símtöl frá kæranda setji hann úr skorðum og valdi óöryggi og kvíða.

VI. Niðurstaða

C er X ára gamall drengur og hefur verið í tímabundnu fóstri hjá fósturforeldrum sínum, J og K, frá X. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá X var umgengni drengsins við kæranda ákveðin annan hvern miðvikudag í tvo tíma í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar B. Þá eru símasamskipti óheimil. Kærandi krefst umgengni tvisvar í mánuði frá föstudegi til sunnudags á heimili kæranda án eftirlits og til vara annan hvern laugardag og sunnudag í sex klukkustundir báða dagana á heimili kæranda án eftirlits. Þá gerir kærandi kröfu um ótakmörkuð símtöl eða fasta símatíma við drenginn.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. sömu laga skal taka réttmætt tillit til skoðana barns við úrlausn máls.

Hinn kærði úrskurður er byggður á því að í ljósi ásakana drengsins um að kærandi beiti hann ofbeldi og með hliðsjón af þeim samskiptum sem starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi orðið vitni að þeirra á milli sé ekki hægt að fallast á tillögu kæranda um umgengni aðra hverja helgi án eftirlits. Nefndin taldi með tilliti til hagsmuna og vilja drengsins hæfilega umgengni vera tvær klukkustundir aðra hverja viku.

Kærandi vísar til þess að engin tilkynning hafi verið send til Barnaverndar B varðandi drenginn nema frá kæranda er hún hafi ásakað eiginmann sinn um ofbeldi í sinn garð eða deilur hafi verið á milli þeirra. Ástæða þess að drengurinn vilji ekki dvelja á heimili kæranda sé sú að samskipti kæranda og eiginmanns hennar hefðu verið afar erfið undanfarna mánuði og ár og hafi það bitnað á heimilislífi þeirra allra og valdið því að samskipti kæranda og drengsins hafi ekki þróast með eðlilegum hætti. Nú sé eiginmaður hennar hins vegar fluttur af heimilinu og þau ætli að skilja og muni því samskiptaörðugleikar, sem einkennt hafi heimilislífið síðustu misseri, ekki koma til með að hafa áhrif í framtíðinni. Í því skyni að fá son sinn aftur inn á heimili sitt, hyggst kærandi reyna að styrkja og bæta tengsl sín við hann, en ekki verði séð hvernig hún eigi að fara að því, nema úrskurðað verði um verulega rýmri umgengni, á heimili kæranda og án eftirlits utanaðkomandi aðila. Kærandi telur að stefna beri að því að barnið komi aftur á heimili kæranda. Það sé því mikilvægt að kærandi fái að hafa náin og góð samskipti við son sinn, með rúmri umgengni á meðan kærandi vinni í því að styrkja tengsl sín við hann, svo að hún geti í framhaldi fengið hann aftur inn á heimili sitt, sbr. 74. gr. bvl. Ekki verði séð að úrskurður barnaverndarnefndar B sé til þess fallinn að stuðla að þessu markmiði. Umgengni tvisvar sinnum í mánuði í tvo klukkutíma í senn geti ekki talist til þess fallin að hjálpa kæranda að bæta samskipti sín og styrkja tengsl sín við son sinn.

 Kærunefndin telur að fram hafi komið í málinu að kærandi á í miklum erfiðleikum með samskipti við drenginn og þá aðila sem hafa á vegum barnaverndarnefndarinnar reynt að aðstoða hana við að bæta úr því. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að barnaverndarnefndin leggi áherslu á að kærandi undirgangist forsjárhæfnismat svo hægt verði að meta betur stuðningsþörf hennar og hvernig megi betur aðstoða hana til þess að bæta tengsl hennar og barnsins. Kærunefndin telur með vísan til þeirra málsatvika sem hér að framan er lýst nauðsynlegt að slíkt mat fari fram enda hafa tilraunir starfsmanna barnaverndarnefndarinnar til að aðstoða kæranda ekki leitt til árangurs eða úrbóta þannig að öryggi barnsins teljist tryggt með viðunandi hætti á heimili kæranda. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þær röksemdir kæranda að hún geti styrkt og bætt tengsl sín við drenginn með því að henni verði veitt verulega rýmri umgengni við hann á heimili hennar án eftirlits. Þá telur kærunefndin að þótt stefnt verði að því að drengurinn komi aftur á heimili kæranda þá leiði það ekki sjálfkrafa til þess að samskipti kæranda við drenginn verði þannig að öryggi drengsins verði tryggt á heimilinu. Drengurinn var með úrskurði barnaverndarnefndarinnar X vistaður utan heimilis samkvæmt heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. en með þeim skilyrðum sem talin eru í 26. og 27. gr. laganna getur barnaverndarnefnd samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði ef nauðsynlegt er til að tryggja öryggi barns eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Röksemdir barnaverndarnefndarinnar fyrir vistun drengsins utan heimilis eru samkvæmt úrskurði nefndarinnar frá X þær að geðrænir erfiðleikar kæranda, þráhyggja hennar og tortryggni hafi hamlað því að hún gæti nýtt sér stuðning tilsjónaraðila. Þá kemur enn fremur fram í úrskurðinum að staðan sé alvarleg og að drengurinn hafi sagt frá ofbeldi kæranda í hans garð í langan tíma. Mikilvægt sé að tryggja drengnum umönnun og stöðugleika og meðferð við þeim áföllum sem hann hafi gengið í gegnum á lífsleiðinni. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi neitað að undirrita áætlun um meðferð máls, sbr. 2. mgr. 23. gr. bvl. Við ákvörðun á umgengni kæranda við drenginn og framkvæmd umgengninnar ber að hafa hliðsjón af þessu.

Drengurinn hefur lýst því samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu talsmanns hans X að hann vilji ekki búa hjá kæranda og ekki gista hjá henni. Kærunefndin telur með vísan til þess sem fram kemur í gögnum málsins að drengurinn hafi þörf fyrir öryggi og vernd. Markmiðið með því að takmarka umgengni kæranda við drenginn er að vernda hann og tryggja öryggi hans sem að áliti kærunefndarinnar verður ekki náð með öðru vægara móti. Verður því ekki fallist á þær röksemdir kæranda að með hinni takmörkuðu umgengni, sem ákveðin var með úrskurði barnaverndarnefndarinnar, sé stefnt gegn því markmiði að drengurinn komi aftur inn á heimili kæranda eða að brotin hafi verið meðalhófsregla bvl. með úrskurðinum.

Þá vísar kærandi til þess að rannsóknarreglu barnaverndarlaga hafi ekki verið fylgt í aðdraganda úrskurðar barnaverndarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga. Úrskurðurinn virtist að stórum hluta vera byggður á tveimur stuttum heimsóknum, þar sem drengurinn hafi komið til kæranda á heimili hennar Xog X. Í umsögn starfsmanns Barnaverndar B um heimsóknirnar komi aðallega fram ályktanir um hvað starfsmanninum finnist um samskipti kæranda við son sinn, auk þess sem starfs­maðurinn vísi til þess að samskipti sem hafi farið fram á milli kæranda og sonar hennar á L hafi hljómað eins og kærandi væri að segja eitthvað neikvætt eða skamma hann, án þess að byggja á neinu nema eigin mati. Kærunefndin telur að hér verði að líta til þess að á fundi barnaverndarnefndarinnar X lýsti kærandi því að hún ætlaði ekki að samþykkja að gangast undir forsjárhæfnismat og hafði einnig lýst því áður fyrir starfsmönnum barnaverndarnefndarinnar. Til þess að unnt væri að rannsaka málið til hlítar og grípa til viðeigandi úrræða til verndar drengnum telur kærunefndin að barnaverndarnefndinni hafi verið rétt að fara fram á að kærandi gengist undir forsjárhæfnismat. Þar sem kærandi hefur ekki viljað hlíta því stoðar hana ekki að bera fyrir sig að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Þótt hér verði jafnframt að líta til þess að slíkt mat hefur að jafnaði ekki eitt og sér úrslitaáhrif á úrlausn máls verður það talið meðal grundvallargagna í máli sem þessu og til þess fallið að geta styrkt eða veikt annað sem fyrir liggur í málinu þegar leyst er úr því.

Með vísan til þessa og meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga um að taka skuli mið af því hvað þjóni hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri og samkvæmt 2. mgr. 46. gr. sömu laga um að taka skuli réttmætt tillit til skoðana barns við úrlausn máls verður að hafna því að kærandi hafi umgengni við son sinn tvisvar sinnum í mánuði, yfir helgi, þ.e. frá föstudegi fram á sunnudag, eða annan hvern laugardag og sunnudag frá klukkan 12:00 til 18:00 eins og hún fer fram á. Þá verður með vísan til sömu sjónarmiða að hafna því að öll umgengni við drenginn fari fram á heimili kæranda án eftirlits en eins og að framan greinir er markmiðið með vistun drengsins utan heimilis að tryggja öryggi hans og veita honum viðeigandi stuðning og meðferð.  Samkvæmt því ber að hafna þeirri kröfu kæranda að umgengni fari fram á heimili hennar án eftirlits en ekki í húsnæði velferðarsviðs B.

Kærandi krefst þess enn fremur að símasamskipti hennar við drenginn verði ótakmörkuð en hún telji nauðsynlegt, með tengsl við son sinn í huga, að geta haft samband við hann símleiðis meðan á fóstri standi. Að lágmarki telur hún nauðsynlegt að hún fái reglulega símatíma við drenginn til þess að halda sambandi við hann. Á þessar kröfur verður ekki fallist en kærunefndin telur slíkar símhringingar truflandi fyrir drenginn í þeim erfiðu aðstæðum sem hann hefur búið við og á meðan unnið er að því að tryggja það öryggi sem honum er nauðsynlegt og hann á rétt á samkvæmt lögum.

Kærunefnd barnaverndarmála telur með vísan til þess sem að framan greinir að umgengni kæranda við drenginn hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að þar hafi einnig verið réttilega mælt fyrir um framkvæmd umgengninnar. Með vísan til þess ber að staðfesta úrskurðinn.


Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá X varðandi umgengni A við son sinn, C, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum