Hoppa yfir valmynd

4/2010

Mál nr. 4/2010.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2010, þriðjudaginn 14. september, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gísli Gíslason og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2010 Þórir J. Einarsson, Skaftahlíð 38, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Umhverfisstofnun, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, hér eftir nefndur kærði. Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist vegna anna og sumarleyfis nefndarmanna.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

 

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 5. janúar 2010, kærði Þórir J. Einarsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Umhverfisstofnunar, (hér eftir nefnd kærði) frá 20. nóvember 2009 þess efnis að hafna því að gefa út starfsleyfi fyrir losunarstað Reykjavíkurborgar á Hólmsheiði. Úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir fékk kæruna áframsenda frá Umhverfisráðuneyti með bréfi dags. 3. mars 2010 á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í fjarveru Gunnars Eydal tók Gísli Gíslason, varamaður, sæti í nefndinni við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.  

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1. Að ákvörðun kærða frá 20. nóvember 2009 verði felld úr gildi og kærða verði gert að stöðva urðun á Hólmsheiði þar sem gilt starfsleyfi skortir.

2. Að urðunarstaðnum „losunarstaðnum“ fyrir jarðveg, sagður á Hólmsheiði verði lokað vegna þess að hann hafi ekki tilskilið starfsleyfi og þ.a.l. hafi og engin auglýsing verið birt hvorki í B-deild Stjórnartíðinda né annars staðar.

3. Að ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. nóvember 2009, sem felst í því að stofnunin hafnar því að það sé hennar skylda að gefa út starfsleyfi, verði felld úr gildi.

4. Að ákvörðun Umhverfisstofnunar þess efnis að starfsemin sé endurnýting (recovery) og að það sé á verksviði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að gefa út starfsleyfi verði felld úr gildi.

5. Að ákvörðun Umhverfisstofnunar um að það sé heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að gefa út starfsleyfi vegna endurnýtingar verði felld úr gildi.    

6. Að ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. nóvember 2009 um að orðið „landmótun“ skýri umrætt starfsleyfi og starfssemi sagt á Hólmsheiði.

7. Að ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 20. nóvember 2009, er tekur til þess að meðhöndlun á garðúrgangi og öðru rusli teljist ekki endurvinnsla, verði felld úr gildi.

8. Þess er krafist að starfsemin verði stöðvuð meðan mál þetta er til meðferðar. 

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 5. janúar 2010 ásamt fylgiskjölum. 

2. Athugasemdir kærða dags. 18. maí 2010 ásamt fylgiskjölum.   

3. Athugasemdir kæranda dags. 1. júní 2010.

4. Bréf kæranda dags. 30. ágúst 2010   

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 29. mars 2010. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik

Kærandi er eigandi að jarðspildu í Reynisvatnslandi í Reykjavík sem er staðsett í um 70 metra fjarlægð frá jaðri starfseminnar sem deilt er um. Kærandi hefur í lengri tíma verið í samskiptum við yfirvöld vegna starfseminnar og þar á meðal verið í samskiptum við kærða. Kærandi ritaði kærða bréf þann 6. ágúst og 3. október 2009 og sendi tölvupóstskeyti þann 29. október og 16. nóvember sama ár og krafðist þess að starfseminni á Hólmsheiði/Reynisvatnsheiði verði hætt. Kærði svaraði kæranda með bréfi þann 22. september og þann 20. nóvember 2009 þar sem kröfum kæranda var hafnað en kærði taldi sér óskylt að gefa út starfsleyfi fyrir starfseminni á Hólmsheiði sem hér er deilt um.

Með stjórnsýslukæru dags. 5. janúar 2010 kærði kærandi þá ákvörðun til Umhverfisráðherra en Umhverfisráðuneytið áframsendi kæruna til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi dags. 3. mars 2010.

Kærða var send kæran ásamt fylgiskjölum með bréfi dags. 29. mars og gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Með bréfi dags. 14. maí 2010 var framangreint ítrekað og bárust sjónarmið kærða þann 18. maí 2010.

Kæranda var gefinn kostur á því að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 21. maí 2010 og bárust athugasemdir þann 1. júní sl.  

IV. Málsástæður og rök kæranda. 

Kærandi telur í fyrsta lagi að starfsemin sem hér um ræðir sé urðunarstaður en ekki losunarstaður og að starfsemin sé í raun staðsett í Reynisvatnslandi á Reynisvatnsheiði en ekki á Hólmsheiði. Kærandi telur að umgengni í og við urðunarstaðinn sé þannig að sér blöskri og telur að kærða beri að gefa út starfsleyfi fyrir urðunarstaðnum. Kærandi kveður enga auglýsingu á starfsleyfi eða starfsleyfistillögum hafa farið fram eins og reglugerð gerir skylt og einnig að ekkert mat á umhverfisáhrifum hafi verið framkvæmt áður en leyfið var gefið út og það staðfest. Kærandi segir kærða notast við blekkingar og útúrsnúninga til að þurfa ekki að verða við kröfu kæranda. Kærandi kveður að kærði vísi málinu til annarra stofnana aðeins til að koma sér hjá ákvarðanatöku og þannig verða við kröfu kæranda.

Kærandi segir að kærði notist við orðið „landmótun“, sem er að finna í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, aðeins vegna þess að hugtakið hentar málstað kærða vel og þannig sé hægt að halda áfram að moka upp úrgangi og koma fyrir á svæðinu á Reynisvatnsheiði. Kærandi telur einnig ekkert samhengi vera í málatilbúnaði kærða þar sem kærði telur leyfi vera fyrir hendi til landmótunar á Hólmsheiði á þeim forsendum að þar sé verið að endurnýta úrgang og vísar í því sambandi til 3. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs þar sem orðið „landmótun“ er hluti af endurnýtingu úrgangs.  

Kærandi telur lög og reglugerðir varðandi urðunarstaðinn vera mjög óskýr og að erfitt sé fyrir almenna borgara að átta sig á þeim. Kærandi telur að kærði sé að koma að orðum og orðasamböndum sem sé ekki að finna í lögum og reglum um meðhöndlun úrgangs og villa þannig um fyrir kæranda. Nefnir kærandi sem dæmi orðin: Landmótun, jarðvegsfylling, losun ómengaðs úrgangs o.fl. og kveðst kærandi hafa lent á villigötum vegna þessa orðavals kærða á urðun og urðunarstað fyrir óvirkan úrgang.

Kærandi telur að mikil breyting hafi orðið á landslagi á austurheiðum vegna starfseminnar og telur hana vera algerlega ónauðsynlega og getur ekki fallist á að heimilt sé að halda henni áfram, þar sem fyrir hendi sé landmótun. Kærandi er því ósammála og telur starfsemina á Hólmsheiði vera haugsetningu jarðvegs sem getur haft í för með sér mengun. Kærandi telur alveg ljóst að um sé að ræða urðunarstað sem þar er starfræktur án starfsleyfis, en kærandi telur staðsetningu hans vera í andstöðu við reglur um nábýlisrétt, óþægindamörk og andmælarétt. Kærandi bendir á að við starfsemina séu sumarhús skammt undan og að staðsetning starfseminnar valdi íbúum þeirra miklum óþægindum.

Kærandi telur að lög hafi verið virt að vettugi við undirbúning og ákvarðanatöku vegna starfseminnar. Kærandi bendir á í þessu sambandi að úrskurðarnefnd í skipulags- og byggingarmálum hafi í júlí 2008 fellt úr gildi úrskurð þar sem ákvörðun borgarráðs frá árinu 2007 um að samþykkja deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar vegna stækkunar á urðunarstað fyrir óvirkan úrgang var felld úr gildi. Kærandi telur að úrskurðurinn feli það í sér að ekkert deiliskipulag sé í gildi og því sé aðalskipulag fyrir árin 2001-2004 í gildi. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir skóglendi á því svæði sem starfsemin á Reynisvatnsheiði er. Þrátt fyrir að ekki sé fyrir hendi skipulag eða starfsleyfi fyrir urðunarstaðinn sé enn verið að flytja þangað óvirkan úrgang, garðúrgang og gamalt hey í bland við annað rusl og sé þessu rutt yfir hvað sem er. Kærandi kveðst ítrekað hafa gert athugasemdir þar um en þær engu skilað. Kærandi bendir ennfremur á að á svæðinu sem starfsemin er staðsett sé skógur, varpsvæði rjúpna og mófugla sem sé í hættu vegna starfseminnar og því þurfi að vera starfsleyfi fyrir hendi. Kærandi telur að stöðva eigi starfsemina þar sem ekki sé fyrir hendi gilt starfsleyfi fyrir starfsemina á Reynisvatnsheiði.

Í andmælum kæranda ítrekar kærandi fyrri kröfur sínar. Kærandi bendir einnig á að hann hafi ítrekað sent erindi sitt til fjölmargra stjórnvalda og ekki fengið nein viðbrögð eða svör. Þvert á móti hafi hann nú fengið tilkynningu frá starfsmanni Umhverfisráðuneytisins þess efnis að kæran hafi verið framsend til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir, að hans mati án lögboðinna skýringa og um það bil tveimur mánuðum eftir að kæran var send til ráðuneytisins.

Kærandi ítrekar fyrri afstöðu sína þess efnis að kærða sé skylt að gefa út starfsleyfi fyrir urðunarstaðinn á Reynisvatnsheiði og vísar til 7. gr. reglugerðar nr. 785/1999 og fylgiskjals nr. 1 við reglugerðina. Þá telur kærandi einnig að eftirlit með starfseminni sé á herðum kærða. Þá telur kærandi að skv. XI. kafla sömu reglugerðar nr. 785/1999 skuli auglýsa starfsleyfi á fullnægjandi hátt og veita fresti til að koma að athugasemdum. Hvorugt hafi verið gert. Kærandi telur að starfsleyfisskilyrði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur fyrir losunarstað Reykjavíkurborgar á Hólmsheiði frá 30. apríl 2008 sé vinnuplagg en ekki útgefið starfsleyfi. Kærandi vill ennfremur benda á að úrgangi hafi verið komið fyrir á urðunarstaðnum í níu ár án þess að starfsleyfi hafi verið fyrr hendi og að ekkert hafi verið aðhafst af kærða eða öðrum stjórnvöldum. Kærandi telur að stöðva eigi starfsemina á Reynisvatnsheiði þar sem ekki sé fyrir hendi auglýstar starfsleyfistillögur, starfsleyfi og framkvæmdarleyfi.

Kærandi telur að greinargerð kærða lúti að því að gæta hagsmuna umhverfisráðherra og Reykjavíkurborgar og að greinargerðin sé liður í að aðstoða Reykjavíkurborg við að losa úrgang á Hólmsheiði undir þeim formerkjum að um sé að ræða losun á ómenguðum jarðvegi, í milljónum tonna, til nauðsynlegrar landmótunar. Kærandi getur ekki fallist á að það fjall af jarðvegi sem nú er kominn á svæðið fái að standa óhreyft um ókomin ár vegna landmótunar. Kærandi telur það alveg ljóst að uppmokstur jarðvegsefna sé úrgangur en ekki landmótun. Þá bendir kærandi á að kærði hafi ekki útskýrt hvað landmótun er. Kærandi telur að lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs gildi um urðunarstaðinn, en þar er ekki að finna orðið landmótun. Kærandi telur að kærði sé í greinargerð sinni að fara í gegn lagaákvæðum og reglugerðarákvæðum og taki upp í greinargerðinni það sem henti en sleppi öðru eða slíti úr samhengi. Kærandi telur það vera sorglegt að kærði firri sig ábyrgð, þrátt fyrir ítrekuð mótmæli kæranda og annarra bæði í sjónvarpi og í blaðagreinum.

Kærandi ítrekar að lokum það sjónarmið sitt að kærða sé skylt að gefa út starfsleyfi fyrir móttökustöðvar og urðunarstaði skv. fylgiskjal nr. 1 við reglugerð nr. 785/1999 um meðhöndlun úrgangs. Kærandi krefst þess að farið sé eftir lögum og reglugerðum sem gilda um urðunarstaðinn. 

 

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er úrgangur skilgreindur sem hvers kyns efni eða hlutir sem framleiðandi úrgangs, eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni, ákveður að losa sig við á tiltekinn hátt og skráður er á lista í reglugerð um úrgang, sbr. 20. gr. sömu laga. Með vísan til þessa lítur kærði svo á að efnin sem losuð eru á Hólmsheiði séu úrgangur og um hann gildi lög og reglur sem varða úrgang og meðhöndlun úrgangs. Kærði bendir á að í verkahring hans sé að gefa út starfsleyfi fyrir móttökustöðvar úrgangs, en undir móttökustöðvar falla flokkunarstöðvar og förgunarstaðir og er nánar skilgreind í 3. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Móttökustöð tekur á móti úrgangi til geymslu eða til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Kærði bendir á að förgunarstaður er staður þar sem úrgangi er fargað en þar undir falla urðunarstaðir og brennslustöðvar, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 55/2003. Urðunarstaður er staður þar sem tekið er við úrgangi þar sem honum er fargað eða hann geymdur til lengri tíma, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Kærði telur að starfsemin sem hér um ræðir sé ekki móttökustöð og þ.a.l. ekki flokkunarstöð, urðunarstöð eða brennslustöð, þar sem úrgangurinn á Hólmsheiði er ekki urðaður heldur endurnýttur til landmótunar. Kærði vill í því sambandi benda á að nýting á tilteknum úrgangstegundum eins og óvirkum úrgangi til landmótunar sé viðurkennd meðhöndlun á úrgangi og tíðkist hér á landi.

Kærði bendir á að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sé skýrlega kveðið á um skyldu heilbrigðisnefndar til að veita starfsleyfi til söfnunarstöðva og annars konar starfsemi þar sem úrgangur er meðhöndlaður. Kærði telur starfsemina á Hólmsheiði vera söfnunarstöð en ekki móttökustöð. Söfnunarstöð er því annars konar starfsemi sem 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003 vísar til. Af því leiðir að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur er starfsleyfisskyld fyrir starfsemina á Hólmsheiði. Kærði telur ekki þörf á aðgerðum vegna starfseminnar, þar sem hún er með gilt starfsleyfi útgefið af heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Kærði fór á vettvang 22. október 2009 og var starfsemin i samræmi við ákvæði starfsleyfis að því frátöldu að plast hafði farið með jarðvegi og stóð upp úr. Beindi kærði þeim athugasemdum til eftirlitsaðila með svæðinu og fór fram á úrbætur. Annars hefur eftirlit verið athugasemdalaust. Kærði kveðst ekki hafa upplýsingar um það hvernig staðið var að útgáfu starfsleyfisins og getur því ekki lagt mat á  það hvort ákvæðum laga nr. 7/1998 eða nr. 55/2003 eða ákvæðum reglugerða hafi verið fylgt eftir við útgáfu starfsleyfisins.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Í máli þessu er deilt um skyldu kærða til að gefa út starfsleyfi fyrir losunarstað  Reykjavíkurborgar á Hólmsheiði. Kærandi hefur sett fram kröfu í sjö liðum þess efnis að ákvörðun kærða frá 20. nóvember 2009 verði felld úr gildi og kærða gert skylt að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemina á Hólmsheiði.  

Kæruheimild vegna málsins er að finna í 39. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 31. gr. laga nr. 7/1998 segir að ágreiningur er varðar framkvæmd laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Meðhöndlun úrgangs skal vera háttað þannig að hún sé í samræmi við lög og reglugerðir um meðhöndlun úrgangs og skal samkvæmt þeim beita aðferðum sem ekki hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Í samræmi við framangreint er starfsleyfisskylda fyrir hendi fyrir allan atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 7. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Starfsleyfisskyldum atvinnurekstri er samkvæmt tilvitnuðum lögum og reglugerð skipt í tvennt. Annars vegar er atvinnurekstur sem kærði vinnur starfsleyfi fyrir og hefur eftirlit með og hins vegar atvinnurekstur sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaga vinna starfsleyfi fyrir og hafa eftirlit með. Kærða ber að annast starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, sbr. lög nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun er falið skv. lögum og reglugerðum. Í 2. mgr. 1. gr. þeirra laga kemur fram að kærða er skylt að annast starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins er falin samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er fjallað um starfsleyfi sem kærða er skylt að gefa út vegna atvinnureksturs sem getur haft í för með sér mengun. Í ákvæðinu kemur fram að starfsleyfisskylda kærða er bundin við atvinnurekstur sem talinn er upp í viðauka nr. I með lögunum. Í 2. mgr. 6. gr. sömu laga kemur skýrt fram að ef atvinnureksturinn er ekki talinn upp í fylgiskjali nr. I við lögin, sé það í verkahring heilbrigðisnefnda að gefa út starfsleyfi fyrir viðkomandi atvinnurekstur, sbr. viðauki nr. III. við lög nr. 7/1998. Reglugerð nr. 785/1999 er með eins skiptingu, sbr. 7. og 8. gr. reglugerðarinnar en þar segir að kærða sé skylt að gefa út starfsleyfi sem er að finna i viðauka nr. I við reglugerðina, en heilbrigðisnefnd þeim sem talin eru upp í viðauka nr. II við reglugerðina.     

Í fylgiskjali nr. I með lögum nr. 7/1998 sem var birt í Stjórnartíðindum A-deild árið 1998 á bls. 35 er að finna lista yfir atvinnurekstur sem kærða er skylt að gefa út starfsleyfi fyrir, en hann er einnig að finna í viðauka nr. I við reglugerð nr. 785/1999. Í fylgiskjali nr. I með lögum nr. 7/1998 og viðauka nr. I við reglugerð nr. 785/1999 kemur fram að kærða er skylt að gefa út starfsleyfi þegar fyrir hendi er meðferð á úrgangi hjá móttökustöð sveitarfélaga, flokkunarmiðstöð, urðunarstöð og sorpbrennslustöð. Skilgreiningar á framangreindum móttökustöðvum er að finna í 3. gr. reglugerða nr. 785/1999 og 737/2003 um meðhöndlun úrgangs sem og lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þar er flokkunarmiðstöð skilgreind sem staður þar sem tekið er við úrgangi og honum safnað saman kerfisbundið til flokkunar, til endurnýtingar og/eða förgunar. Urðunarstaður er skilgreindur sem staður þar sem tekið er við úrgangi til förgunar á eða í landi, þar á meðal urðunarstaður fyrir eigin úrgang og varanlegur staður þar sem úrgangur er geymdur til lengri tíma. Brennslustöð er skilgreind í 3. gr. laga nr. 55/2003 sem hvers kyns tækjabúnaður sem notaður er til að brenna úrgang, hvort sem hitinn sem myndast við brennsluna er nýttur eða ekki. Af framangreindu er ljóst að kærða er skylt að veita starfsleyfi fyrir atvinnurekstur ef starfsemin er móttökustöð, flokkunarstöð, urðunarstöð eða brennslustöð og meðhöndlar úrgang sem getur haft í för með sér mengun. Álitaefni er uppi í málinu hvort starfsemin á Hólmsheiði sem hér er til umfjöllunar falli undir starfsleyfisskyldan rekstur sem kærða er skylt að veita starfsleyfi fyrir.  Starfsemin á Hólmsheiði er með starfsleyfi, starfsleyfisskilyrði og almenn starfsleyfisskilyrði fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Starfsleyfið er gefið út af Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar og nær yfir losun jarðvegs og til landmótunar á Hólmsheiði. Almennu og sértæku starfsleyfisskilyrðin fyrir losunarstaðinn á Hólmsheiði kveða á um að aðeins er heimilt að taka á móti ómenguðum jarðvegi og garðúrgangi, nánar tiltekið uppgröfnum ómenguðum jarðvegi sem fjarlægja þarf af byggingarsvæðum, grjóti, möl, sandi, mold og leir, gróðurhulu, grasi, matjurtar- og blómaleifum, mosa og kjarri en aðeins ef þau eru hluti af jarðvegi sem er grafinn upp. Í skilyrðunum er sérstaklega tekið fram að óheimilt er að losa nokkuð annað en það sem þar er sérstaklega talið upp þá er tekið fram að heildarmagn sem heimilt er að losa á svæðinu séu 3,7 milljón rúmmetrar á hverju tímabili en þá er einnig tiltekið í starfsleyfisskilyrðunum að Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafi eftirlit með starfseminni. Þann 18. júní 2010 var farið á staðinn og aðstæður kannaðar. Sú könnun leiddi í ljós að svæðið er í samræmi við framangreind starfsleyfisskilyrði. Svæðið var afgirt með hliði og þar er þjappaður jarðvegur sem samanstendur aðallega af mold og smásteinum. Ekki var annar úrgangur fyrir hendi og ekki voru haugar á svæðinu heldur var svæðið slétt og jafnað niður. Af framangreindu, auk starfsleyfis og starfsleyfisskilyrða, er ljóst að starfsemin á Hólmsheiði er eðlisólík þeirri starfsemi sem fer fram á móttökustöð, flokkunarmiðstöð, urðunarstað og sorpbrennslustöð. Þar er tekið við sorpi og úrgangi á borð við heimilisúrgang, hjólbarða, málma, plast, pappa, gler o.fl. og það flokkað, baggað, urðað eða brennt. Sem dæmi um atvinnurekstur sem kærða er skylt að veita starfsleyfi fyrir er Sorpa í Gufunesi sem er móttöku-, flokkunar- og böggunarstöð fyrir úrgang og sorpurðun á Álfsnesi. Úrgangur sem heimilt er að losa á móttökustöð er í eðli sínu þannig að það hefur mengandi áhrif á umhverfið en á  Hólmsheiði er losaður ómengaður jarðvegur og garðúrgangur og hann endurnýttur til landmótunar. Framangreint hefur ekki í för með sér mengandi áhrif á umhverfið. Lög nr. 55/2003 og 7/1998 kveða á um að annars konar starfsemi en móttökustöð, flokkunarstöð, urðunarstaður og brennslustöð er starfsleyfisskyld hjá heilbrigðisnefnd, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003 og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 eins og er fyrir hendi á Hólmsheiði. Af framangreindu er ljóst að kærða er óskylt að veita starfseminni á Hólmsheiði starfsleyfi. 

Í kæru kemur fram að starfsleyfið sem gefið var út fyrir losunarstaðinn á Hólmsheiði sé ekki gilt, þar sem það var ekki auglýst eins og XI. kafli reglugerðar nr. 785/1999 kveður á um. Þar kemur fram í 24. gr. að útgefandi starfsleyfis skuli auglýsa á tryggan hátt í dagblaði eða staðarblaði ef við á að starfsleyfistillaga sé komin fram, hvers efnis hún sé og hvar hún liggi frammi. Einnig eigi að tilgreina frest til að gera athugasemdir við tillöguna sem skv. 2. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar er 4-8 vikur. Í auglýsingu nr. 852/2000 um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar kemur fram að við endurvinnslu úrgangs er ekki krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar. Er því ekki fallist á þá kröfu kæranda að starfsleyfi fyrir losunarstaðinn sé ógilt enda kærða óskylt að auglýsa starfsleyfið í samræmi við XI. kafla reglugerðar nr. 785/1999.

Í kæru kemur einnig fram að eftirlit með svæðinu sé verulega ábótavant. Af gögnum málsins er ljóst að eftirlit hefur verið haft með starfseminni af eftirlitsaðila sem er heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Af gögnum málsins má sjá að eftirlit hefur verið viðhaft á svæðinu og hafa sýnatökur verið framkvæmdar á svæðinu. Sýna eftirlitsskýrslur fram á að starfsemin sé í samræmi við gildandi starfsleyfi. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem styðja framangreinda fullyrðingu hans um ábótavant eftirlit. Verður því ekki fjallað frekar um þann þátt kærunnar.

Af öllu framangreindu er ljóst að kærða er skylt að gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem meðhöndlar úrgang ef starfsemin er móttökustöð, flokkunarstöð, urðunarstöð eða brennslustöð og starfsemin hefur í för með sér mengun. Annars konar starfsemi er starfsleyfisskyld af heilbrigðisnefnd, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Starfsemin sem um er deilt í málinu er ekki móttökustöð fyrir sorp og úrgang sem hefur í för með sér mengun, heldur losunarstaður fyrir ómengaðan jarðveg og gróðurúrgang sem er nýttur til landmótunar en óheimilt er að losa nokkuð annað á staðnum. Starfsemin hefur því ekki mengandi áhrif á umhverfið og er annars konar starfsemi í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003 og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir. Kærða er því óskylt að gefa út starfsleyfi fyrir losunarstaðinn á Hólmsheiði. Þá liggur fyrir af gögnum málsins að losunarstaðurinn er með gilt starfsleyfi sem og almenn og sértæk starfsleyfisskilyrði útgefið af heilbrigðisnefnd. Þar sem starfsemin er í samræmi við gilt starfsleyfi og starfsleyfisskilyrði, með hliðsjón af eðli starfseminnar og öllu framangreindu eru ekki forsendur til að fallast á kröfur kæranda.

Ber því að staðfesta ákvörðun kærða.

                                                            Úrskurðarorð:                                                            

Ákvörðun kærða frá 20. nóvember 2009 er staðfest.

 

  

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum