Hoppa yfir valmynd

5/2005

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2005, miðvikudaginn 23. nóvember kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.   Mætt voru  Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Lára G. Hansdóttir og Gísli Gíslason.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2005  Gunnar Már Sigfússon gegn Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Erindi Gunnars Más Sigfússonar vegna dreifingarbanns á “Hollywoodkúrinn” barst úrskurðarnefnd í febrúar 2005.  Litið er á erindið sem stjórnsýslukæru og Gunnar Már hér eftir nefndur kærandi.  Kært er dreifingarbann á “Hollywoodkúrnum”. 

Fylgjandi erindi kæranda var:

1)      Afrit af bréfi Lýðheilsustöðvar til Umhverfisstofnunar dags. 9. desember, 2004. 

Vísaði kærandi í erindi sínu til Umhverfisstofnunar og var því afrit af gögnum kæranda sent þangað og óskað greinargerðar. Umhverfisstofnun benti á að ákvörðun um sölubann hefði verið tekin af Heilbrigðseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis er hér eftir nefnt kærði. Kærða var sent afrit af gögnum kæranda með bréfi dags. 27. apríl, 2005.  Svar kærða er dags. 4. maí 2005. Bréfi kærða fylgdu eftirtalin gögn:

1)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga um ákvörðun vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli.

2)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar dags. 6. janúar, 2005 vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli.

3)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar til kærða dags. 15. 12. 2004, ásamt afriti af umsögn Lýðheilsustöðvar, vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli.

4)       Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 17. janúar, 2005 vegna 48 klukkustunda “Hollywoodkúrsins”.

5)       Afrit af bréfi kærða til kæranda dags. 20. janúar 2005 vegna kröfu kærða um að varan, 48 klukkustunda “Hollywoodkúrinn”, verði tekinn úr sölu.

6)       Afrit af bréfi Umhverfisstofnunar dags. 15. desember 2004 til kæranda vegna umsóknar um heimild til íblöndunar bætiefna í matvæli

7)       Afrit af tölvpóstsendingum milli Umhverfisstofnunar og kærða.

8)       Afrit af bréfi kæranda til Heilbrigðiseftirlits, dags. 19. janúar, 2005.

 

II.

Kærandi gerir þá kröfu að “Hollywoodkúrinn” verði ekki tekinn úr umferð strax, eins og gert hafði verið.  Lýsir hann því að þegar umsókn hans um vítamínbætingu “Hollywoodkúrsins” hafi verið send inn á sínum tíma í nóvember 2004 hafi verið unnið eftir þeim lögum og reglugerðum sem þá lágu fyrir og hafi verið unnið eftir upplýsingum af heimasíðu Lýðheilsustofnunar.  Þar sé skýrt tekið fram að hámarksskammtur A-vítamíns í formi retinols sé 7500 mg en ekki 3000 mg. eins og haldið sé fram í bréfi frá Lýðheilsustofnun.  Kveður kærandi að þegar þessi niðurstaða hafi legið fyrir hafi hann haft samband við Lýðheilsustofnun og lýst undrun sinni á því að farið væri eftir öðrum stöðlum en þeim sem séu í boði fyrir almenning. Hafi kæranda þá verið tjáð að nýverið hafi verið tekið annað viðmið fyrir A-vítamínið retinol og nýju reglurnar væru þær að hámarksskammturinn væri nú 3000 mg.  Ennfremur hafi sér verið tjáð að þetta væri svo nýtt að þetta væri ekki til á prenti í reglugerð eða á heimasíðu Lýðheilsustofnunar um hámarksskammta í matvælum.  Kærandi kveður að þar sem aðrar reglur hafi verið í gangi þegar sótt hafi verið um og þessar nýju reglur sé hvergi að finna þyki sér réttlætanlegt að hann fái að selja það magn sem eftir sé og hafi verið innkallað úr verslunum, eins og fordæmi sé fyrir hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar um nýjan vítamínbættan drykk þeirra en þeim hafi verið heimilað að selja það magn sem þegar hafi verið komið í dreifingu.  Kveður kærandi starfsmann Lýðheilsustöðvar hafa verið sammála þessu og hafi getað fallist á að það yrði selt sem þá þegar hafi verið komið í dreifingu.  Þetta hafi starfsmaðurinn tilkynnt sér.  Þess vegna finnist sér meira en furðulegt að Umhverfisstofnun geti tekið fram fyrir hendur þeirra og kippt vörunni úr sölu, þvert á ummæli starfsmanns Lýðheilsustöðvar.  Kveðst kærandi sáttur við að flytja vöruna ekki inn aftur vegna nýrra laga en óskar eftir því að fá að ljúka því magni sem þegar hafi verið komið í dreifingu.

 

III.

Eins og greint var frá var kæra send Umhverfisstofnun sem benti á að ákvörðun um sölubann hafi verið tekin af kærða.  Hins vegar upplýsti Umhverfisstofnun að hún hafi tekið þá ákvörðun 6. janúar s.l. að heimila ekki viðbætingu A-vítamíns í 48 klst. Hollywood kúrnum og sendi með gögn þar að lútandi.    

Í greinargerð kærða kemur fram að kærði hafi tekið ákvörðun um að stöðva dreifingu á umræddri vöru þegar fyrir hafi legið að Umhverfisstofnun synjaði um heimild til A-vítamínbætingar sbr. fyrrgreint bréf stofnunarinnar.  Komi ákvörðun kærða fram í erindum til GM innflutnings dags. 17. janúar 2005 og 20. janúar s.á.  Vísar kærði til þess að samkvæmt ákvæðum 22. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 hafi heilbrigðisnefnd undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla að svo miklu leyti sem það sé ekki falið öðrum aðilum.  Telji kærði sér skylt að fara að leiðbeiningum Umhverfisstofnunar í málum sem þessu. Skv. 29. gr. l. um matvæli hafi eftirlitsaðila verið heimilt að stöðva eða takmarka dreifingu vörunnar.  Að mati kærða sé ágreiningur sá sem vísað hafi verið til úrskurðar um hvort leyfa hefði átt innflytjanda að selja þær vörubirgðir sem hann átti eftir þegar afstaða Umhverfisstofnunar hafi legið fyrir.  Að mati kærða var ákvörðun um sölustöðvun tekin eftir vandaða málsmeðferð og hafi ekkert komið fram um að niðurstaðan hafi verið fengin á röngum forsendum.  Álit Umhverfisstofnunar hafi verið að hætta gæti skapast vegna ofneyslu A-vítamíns ef vítamínbætingin hefði verið heimiluð.  Vakin sé athygli á að afstaða Umhverfisstofnunar hafi verið tekin eftir að fyrir hafi legið upplýsingar sem stofnunin hafi óskað eftir svo að stofnunin gæti tekið rökstudda ákvörðun.  Sérstaklega hafi verið kannað með fulltrúa Umhverfisstofnunar hvort réttlætanlegt væri að verða við ósk innflytjanda um að fá að selja þær vörubirgðir sem til væru.  Kærði bendir á að lögð sé áhersla á að ákvörðun kærða um sölustöðvun hafi verið tekin eftir að Umhverfisstofnun hafi synjað fyrirtækinu um heimild til A-vítamínbætingar, sbr. bréf stofnunarinnar dags. 6. janúar 2005.  Áður hafi Umhverfisstofnun með bréfi dags. 15. desember 2004 gefið fyrirtækinu kost á að tjá sig um gögn og koma að andmælum. Frekari rökstuðningur Umhverfisstofnunar komi fram í tölvuskeyti til heilbrigðisfulltrúa þann 20. janúar, 2005.  Sé gerð grein fyrir ástæðum nánari skoðunar og frekari rökstuðnings.  Hafi fyrirtæki kæranda óskað eftir með erindi dags. 19. janúar, 2005 að fá að klára það magn sem komið hafi verið í dreifingu.  Af hálfu kærða hafi verið haft samráð við Umhverfisstofnun um möguleika á að breyta ákvörðun um sölustöðvun.  Með tölvuskeyti 20. janúar, 2005 hafi Umhverfisstofnun lagst gegn lengri fresti, þar sem varan hafði verið dæmd óhæf á markaði á grundvelli 10. gr. l. nr. 93/1995

Vísar kærði til þess að þar sem stjórnsýslukæran lúti að stöðvun dreifingar á þeim vörubirgðum sem til hafi verið hjá kæranda sé ekki talin ástæða til að senda afrit af fleiri gögnum.  Kærði bendir á að til séu eftirfarandi gögn sem snúi að samskiptum við fyrirtækið og um málefni þess sé óskað eftir þeim:

1)           Með tölvuskeyti frá 8. október 2004 hafi kærði fengið upplýsingar frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu í Reykjavík um að á markað sé komin “megrunarvara” sem ekki uppfylli ákvæði þeirra reglugerða sem um slíkar vörur gildi. 

2)           Eftir skoðun í verslun í Garðabæ 8. október 2004 hafi verið sent tölvuskeyti til innkaupadeildar Hagkaupa sem hafði vöruna til dreifingar þar sem innflytjandi var ekki þekktur.

3)           Innkaupadeild Hagkaupa sendi svarskeyti þann 13. október, 2004 og hafi þá upplýst innflytjanda um nauðsyn þess að hafa samband við kærða.

4)           Umsókn um starfsleyfi frá GM innflutningum ehf. móttekin 19. október 2004.

5)           Starfsleyfisumsókn tekin fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 25. október 2004.

6)           Afgreiðsla starfsleyfisumsóknar tilkynnt með bréfi dags. 27. október, 2004.

7)           Fyrirspurn barst 27. október 2004 um “Hollywoodkúrinn” frá Umhverfisstofnun þar sem tvær vikur höfðu liðið án þess að umsókn um vítamínbætingu hefði borist.

8)           15. nóvember 2004, barst tölvuskeyti frá Umhverfisstofnun um að umsókn um vítamínbætingu hafi borist.

9)           Með bréfi dags. 6. janúar, 2005  barst ákvörðun Umhverfisstofnunar um að synja GM Innflutningi um heimild til A-vítamínbætingar í 48 klst. “Hollywoodkúrinn”.

10)       Tölvuskeyti Umhverfisstofnunar með upplýsingum frá Lýðheilsustöð.

11)       Tilkynning Umhverfisstofnunar til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga um aðgerðir vegna sölustöðvunar.

 

IV.

Deilt er í máli þessu um dreifingarbann á vöru kæranda “Hollywoodkúrnum”.  Í 22. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 hefur heilbrigðisnefnd undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum aðilum.  Skv. 19. gr. rgl. nr. 285/2002 getur Hollustuvernd ríkisins veitt leyfi til notkunar bætiefna þar til reglugerð um íblöndun bætiefna hefur verið sett.  Niðurstaða Hollustuverndar um umsókn um heimild til íblöndunar í máli þessu var sú að hafna varð því magni A-vítamíns sem í vörunni var. Var álit Umhverfisstofnunar að hætta gæti skapast vegna ofneyslu A-vítamíns ef vítamínbætingin hefði verið heimiluð.  Ákvörðun kærða um sölustöðvun var tekin eftir að Umhverfisstofnun synjaði fyrirtækinu um heimild til vítamínbætingarinnar.  Með tilvísan til framangreinds og 3. og 10. gr. laga um matvæli er ákvörðun kærða um dreifingarbann staðfest.

 

 ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun kærða um dreifingarbann á vöru kæranda “Hollywoodkúrnum” er staðfest.

 

 

 

 

___________________________________

Lára G. Hansdóttir

 

 

 

__________________________         ___________________________

           Gísli Gíslason                               Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum