Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 11. apríl 2001

Miðvikudaginn 11. apríl 2001 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms tekið fyrir matsmálið nr. 10/2000

Hafnarfjarðarbær

gegn

Db. Guðna V. Björnssyni og

Db. Jóhanni Björnssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 18. desember 2000 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 5. janúar 2001 fór Hafnarfjaðarkaupstaður (eignarnemi) þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar eignarnámsbætur vegna eignarnáms á 1 ha. erfðafestulandi í Mosahlíð í Hafnarfirði. Eignarnámsþolar eru dánarbú Guðna V. Björnssonar og dánarbú Jóhanns Björnssonar. Enginn skriflegur erfðafestusamningur milli aðila liggur fyrir. Samkomulag er með aðilum um að réttindi eignarnámsþola til hins eignarnumda séu erfðafesturéttindi sem úthlutað hafi verið til ótímabundinnar notkunar til ræktunar og að heimilt hafi verði að reisa mannviki á spildunni tengd ræktuninni s.s. gripahús, kartöfluskúra o.þ.h. Engar slíkar framkvæmdir hafa átt sér stað á spildunni.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 5. janúar 2001. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fleiri gögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Mánudaginn 8. janúar 2001 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 15. janúar 2001.

Ekkert varð af fyrirtökunni þann 15. janúar 2001, en föstudaginn 26. janúar 2001 var málið tekið fyrir. Lögð var fram greinargerð af hálfu eignarnema og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 9. janúar 2001 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings.

Föstudaginn 23. mars 2001 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar án árangurs og var málinu frestað ótiltekið að beiðni aðila til að freista þess að ná sáttum.

Mánudaginn 9. apríl var málið tekið fyrir. Sættir höfðu þá ekki tekist og var málið munnlega flutt og að því búnu tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi bendir á að hin eignarnumdu réttindi séu miklum takmörkunum háð og því megi á engan hátt jafna þeim til venjulegs eignaréttar. Eignarnemi telur almennar verðhækkanir sem orðið hafa á landi upp á síðkastið eigi ekki að koma eignarnámsþola til góða í máli þessu, enda sé hann ekki eigandi landsins heldur eignarnemi sjálfur. Hin eignarnumdu réttindi séu aftur á móti þau sömu og voru og ekki sé hægt að sýna fram á að þau hafi hækkað neitt í verði þrátt fyrir hinar almennu verðhækkanir sem orðið hafa á landi.

Eignarnemi bendir á að á árinu 1995 hafi Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðað í tveimur málum, málunum nr. 3/1993 og 4/1993, er vörðuðu einnig erfðafestulönd í næsta nágrenni við land það sem hér er til umfjöllunar. Eignarnemi telur rétt að líta til þessara úrskurða við matið nú.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur fyrir hin eignarnumdu réttindi verði ekki lægri en 20.000.000- auk kostnaðar vegna rekstrar málsins fyrir matsnefndinni.

Eignarnemi heldur því fram að samkvæmt úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta og niðurstöðum dómsmála upp á síðkastið sé sífellt minni munur milli verðs erfðafesturéttinda og raunverulegra eignaréttinda. Af þessum sökum verði að taka mið af gangverði lóða á markaðnum í dag. Í þessu sambandi er bent á að reisa mætti a.m.k. 15 einbýlishús á svæðinu.

Eignarnámsþolar benda á að spilda þeirra liggi á mjög góðum stað og sé nálægt vinsælli byggð í Hafnarfirði og eftirspurn eftir einbýlishúsalóðum þar sé mikil.

Af hálfu eignarnámsþola er bent á að samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hafi verið geti verð fyrir byggingarland á höfuðborgarsvæðinu skipt þúsundum á hvern fermetra.

Af hálfu eignarnámsþola hefur verið lagður fram dómur héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-95/1994 frá 10. maí 1994 er varðar verð á erfðafestulandi í Hafnarfirði. Sérstaklega er bent á að samkvæmt dómnum er talið að verðmæti erfðafestulands sé 60% af markaðsverði eignarlands og er því talið að sú viðmiðun eigi við í máli því sem hér er til umfjöllunar.

 

VI. Álit matsnefndar:

Stærð og lega landspildu þeirrar sem um ræðir í máli þessu er ágreiningslaus með aðilum. Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að erfðafesturéttindum eins og þeim sem eignarnámsþolar áttu hér megi jafna við réttindi yfir eignarlandi, enda voru verulegar takmarkanir á nýtingarmöguleikum eignarnámsþola á spildunni svo sem lýst var í kafla II.

Réttindi þau sem eignarnámsþolar áttu voru ennfremur mun minni en réttindi þau sem um var fjallað í héraðsdómsmálinu nr. E-95/1994 sem dæmt var þann 10. maí 1994 og vitnað hefur verði til af hálfu eignarnámsþola. Af þessum sökum m.a. þykir ekki tækt að beita hér þeirri reiknireglu sem þar er fram sett.

Ljóst er að spilda sú sem mál þetta fjallar um liggur á afar heppilegum stað, næst því svæði sem vinsælt er til nýbygginga nú. Algengt var að gerðir væru erfðafestusamningar um lönd á þessu svæði og hafa deilur vegna bótagreiðslna fyrir eignarnám á þessum réttindum verið lögð fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta áður s.s. í málunum nr. 3/1993, Hafnarkaupstaður gegn Ólafi Kr. Guðmundssyni og Guðmundi Herði Guðmundssyni og matsmálinu nr. 4/1994, Hafnarfjarðarkaupstaður gegn Matthíasi Á. Mathiesen og Árna M. Mathiesen. Rétt þykir að líta m.a. til úrlausna í þeim málum við ákvörðun bóta í máli þessu, enda voru þar einnig takmörkuð réttindi sem eignarnámsþolar áttu, þó réttindin væru ekki að öllu leyti þau sömu og þau sem fjallað er um í máli þessu.

Með vísan til framanritaðs þykja hæfilegar bætur fyrir hin eignarnumdu réttindi vera kr. 2.700.000-. Þá greiði eignarnemi eignarnámsþolum kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa og kr. 360.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Hafnarfjarðarkaupstaður, Strandgötu 6, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, dánarbúi Guðna V. Björnssonar, kt. 111021-7169 og dánarbúi Jóhanns Björnssonar, kt. 041015-3309, sameiginlega kr. 2.700.000- í eignarnámsbætur og kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

Þá greiði eignarnemi kr. 360.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

Helgi Jóhannesson

 

Ragnar Ingimarsson Kristinn Gylfi Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum