Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. desember 2000

Miðvikudaginn 20. desember 2000 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 4/2000

Vegagerðin

gegn

Eigendum Skjöldólfsstaða I og II, Jökuldal

I. Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 27. janúar 2000 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 14. febrúar 2000, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í landi Skjöldólfsstaða I og II, Jökuldal. Tilefni eignarnámsins er lagning nýs vegar um landið. Andlag eignarnámsins er nánar tiltekið:

a) Eftirtalin útihús Skjölólfsstaða I skv. skráningu Fasteignamats ríkisins:

  1. Fjós byggt 1963, 82 m² að flatarmáli.

  2. Hlaða byggð 1959, 157,5 m² að flatarmáli.

  3. Fjárhús, byggt 1973, 481,8 m² að flatarmáli.

b) 2,2 ha. landspilda undir vegsvæði, 550 m. löng og 40 m. breið. Um 0,88 ha af spildunni er ræktað land, en að öðru leyti er um óræktað land að ræða sem að stærstum hluta er ræktunarhæft. Eignarnemi skilar aftur fyrra vegsvæði sem er u.þ.b. jafn langt. Skv. upplýsingum eignarnema skiptist spildan þannig að hluti hennar er í eigu skráðra eigenda Skjöldólfsstaða I en hluti hennar í óskiptri sameign eigenda Skjöldólfsstaða I og II.

Eigendur Skjöldólfsstaða I eru:

Vilhjálmur Snædal, kt. 311045-3429, Skjöldólfsstöðum I, Jökuldal, Þorsteinn Snædal, kt. 271269-2939, Álfatröð 5, Egilsstöðum og Steinunn Snædal, kt. 190872-4759, Vörðubrún, Egilsstöðum.

Eigandi Skjöldólfsstaða II er Eiríkur Skjaldarson, kt. 120853-2019, Skjöldólfsstöðum II.

Eignarnámsheimildina er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 14. febrúar 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekin tíma til vettvangsgöngu. Við fyrirtökuna tók Jörundur Gauksson hdl. lögmaður Stefáns Skjaldarsonar fram að umbj. hans hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um hina nýju veglínu auk þess sem ekki hafi verið reynt að ná sáttum við hann um bætur fyrir eignarnámið. Af hálfu lögmannsins var gerð krafa til að slíkar samningaviðræður færu fram áður en málinu yrði fram haldið. Stefán Erlendsson hdl., lögmaður Vegagerðarinnar, tók fram að Eiríkur hefði hingað til neitað öllum viðræðum um bætur. Tók Stefán jafnframt fram að væri nú vilji til slíkra samningaviðræðna væri Vegagerðin einnig tilbúin til þess.

Þriðjudaginn 5. september 2000 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Eignarnámsþolar tóku fram að ekki lægi fyrir um nákvæma skiptingu hinnar eignarnumdu landsspildu þeirra í milli. Eignarnámsþolar tóku fram að það væri því þó ekki til fyrirstöðu að landið yrði metið af nefndinni. Af hálfu Jörundar Gaukssonar hdl. lögmanns Stefáns Skjaldarsonar kom fram að hann teldi ekki forsendur til að hefja matsstörf í máli þessu þar sem ekki lægi fyrir formleg ákvörðun um hvað tekið skyldi eignarnámi. Þá kvað Jörundur umbj. sinn ekki hafa fengið tækifæri til að tjá sig um fyrirhugaða staðsetningu veglínunnar. Vilhjálmur Snædal tók fram að hann gerði ekki athugasemd við fyrirhugaða veglínu. Stefán Erlendsson hdl. lögmaður Vegagerðarinnar mótmælti bókun lögmanns Stefáns Skjaldarsonar og gerði þá kröfu að málinu yrði fram haldið. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 19. september 2000.

Samkvæmt samkomulagi við aðila málsins varð ekkert af fyrirtöku málsins þann 19. september 2000. Mánudaginn 16. október 2000 var málið tekið fyrir. Þar sem Eiríkur Skjaldarson hafði þá kært eignarnámsákvörðunina óskaði eignarnemi eftir því að þætti málsins er varðar landspilduna undir hinn nýja veg yrði frestað ótiltekið, en að nefndin úrskurðaði nú einungis bætur fyrir hinn eignarnumda húsakost. Ekki var gerð athugasemd við þetta af hálfu matsnefndarinnar og lagði eignarnemi fram greinargerð vegna þess þáttar málsins. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Mánudaginn 6. nóvember 2000 var málið tekið fyrir. Af hálfu lögmanns Skjöldólfsstaða I var lögð fram greinargerð vegna mats á bótum fyrir hinn eignarnumda húsakost. Af hálfu matsnefndarinnar var ekki talin þörf á munnlegum flutningi málsins og var málið því tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að líta beri til aldurs útihúsanna, viðhalds og ástands yfirleitt. Eignarnemi bendir á að húsin séu byggð á árunum 1959, 1963 og 1973. Líta beri til þess að viðhald hafi ekki verið mikið á húsunum í seinni tíð a.m.k. og þau séu farin að láta verulega á sjá. Þá bendir eignarnemi á að ekki liggi fyrir að um nokkra nýtingu sé að ræða á húsunum.

Eignarnemi telur eðlilegt að miða við matsverð húsanna hjá Fasteignamati ríkisins, en þar er fjósið metið á kr. 157.000, hlaðan á kr. 214.000- og fjárhúsin á kr. 514.000-. Samtals eru því húsin öll metin á kr. 885.000-. Eignaremi byggir á því að skv. 17. gr. laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna miðist fasteignamat mannvirkja við gangverð þeirra umreiknað til staðgreiðslu.

 

 

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa til þess að þeim verði ákvarðaðar kr. 12.720.000- í bætur fyrir hin eignarnumdu hús auk kr. 135.600- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni.

Eignarnámsþolar byggja kröfur sínar á því að eiganrnema beri að bæta þeim þann kostnað sem það myndi hafa í för með sér að endurbyggja þau hús sem tekin hafa verið eignarnámi. Fjárhæðin samanstendur af tölum um byggingarkostnað útihúsa sem aflað hefur verið frá byggingarþjónustu landbúnaðarins. Eignarnámsþolar taka fram að við útreikninginn hefur verið miðað við að byggð yrðu sambærileg hús, en ekki nútímalegri hús sem væru dýrari í byggingu. Eignarnámsþolar benda sérstaklega á að langt sé að Skjöldólfsstöðum frá þéttbýli og því allur flutningur á byggingarefni á staðinn dýr.

Bótakrafa eignarnámsþola sundurliðast þannig:

Bætur fyrir fjárhús kr. 6.986.000-

Bætur fyrir fjós kr. 3.060.000-

Bætur fyrir hlöðu kr. 2.674.000-

Samtals kr. 12.720.000-

VI. Álit matsnefndar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér ástand hinna eignarnumdu húsa. Fallist er á það með eignarnema að um sé að ræða gömul hús sem verulega skorti viðhald. Þá uppfylla húsin ekki nútíma kröfur í landbúnaði, s.s. með því að hægt sé að moka undan grindum í fjárhúsi með vélum eða aka dráttarvélum og vögnum inn í hlöðu.

Af hálfu matsnefndarinnar þykir ekki tækt að miða við fasteignamatsverð húsanna, enda ljóst að það fæli í sér töluverðan kostnað að koma húsunum upp og að þau geta án efa nýst þeim er búskap stundar á Skjöldólfsstöðum þrátt fyrir þá vankanta sem á þeim eru og nefndir hafa verið.

Allt að einu þykir ekki tækt að fallst á kröfu eignarnámsþola um að greiða þeim endurbyggingarvirði nýrra sambærilegra húsa, enda hefur þá ekki verið tekið tillit til afskrifta. Með hliðsjón af byggingarkostnaði nýrra sambærilegra húsa og aldurs og ástands húsanna nú þykir matsnefndinni hæfilegar bætur fyrir öll húsin vera 2.500.000-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 135.600- auk virðisaukaskatts vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 320.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, eigendum Skjöldólfsstaða I, Jökuldal, þeim Vilhjálmi Snædal, kt. 311045-3429, Skjöldólfsstöðum I, Jökuldal, Þorsteini Snædal, kt. 271269-2939, Álfatröð 5, Egilsstöðum og Steinunni Snædal, kt. 190872-4759, Vörðubrún, Egilsstöðum, sameiginlega, kr. 2.500.000- í eignarnámsbætur og kr. 135.600- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni.

Þá greiði eignarnemi kr. 320.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

Helgi Jóhannesson

Ragnar Ingimarsson Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum