Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 441/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 441/2016

Fimmtudaginn 16. mars 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 3. nóvember 2016 kærði C hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B 20. október 2016 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, D. Er þess krafist að úrskurður barnaverndarnefndarinnar verði felldur úr gildi.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er fædd árið X og lýtur forsjá kæranda sem er móðir hennar. Stúlkan er mikið fötluð. Hún er einhverf, með þroskahömlun, frávik í hreyfiþroska, flogaveik og með meltingarerfiðleika. Faðir stúlkunnar er erlendur og býr erlendis.

Mál stúlkunnar var lagt fyrir Barnaverndarnefnd B 30. október 2014. Þá samþykkti kærandi að stúlkan og systir hennar E yrðu vistaðar utan heimilis til X 2015. Í X 2014 sendi kærandi E til F með móðurömmu sinni án vitundar barnaverndar. Málið var af því tilefni lagt aftur fyrir nefndina 11. desember 2014 og var umgengni kæranda við stúlkuna breytt og kærandi samþykkti að undirgangast forsjárhæfnismat. Þegar matið lá fyrir var málið enn tekið fyrir 26. febrúar 2015. Starfsmenn barnaverndar lögðu til að stúlkan yrði áfram vistuð utan heimilis í 12 mánuði. Kærandi samþykkti að stúlkan yrði vistuð utan heimilis til X 2016 með þeim skilyrðum að hún væri ekki framfærsluskyld með stúlkunni í fóstrinu og að staðan yrði endurmetin í september 2015. Gerður var samningur um umgengni kæranda við stúlkuna aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags á heimili kæranda án eftirlits. Málið var aftur tekið fyrir 24. september 2015 vegna fyrrnefndra skilyrða kæranda. Ákveðið var að stúlkan yrði áfram í fóstri og dregið yrði úr umgengni við kæranda. Aftur var málið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B 26. febrúar 2016 og kveðinn upp sá úrskurður að stúlkan skyldi áfram dveljast utan heimilis og mál höfðað á hendur kæranda til forsjársviptingar. Engar breytingar voru gerðar á umgengni.

Kærandi krafðist aukinnar umgengni og var málið þá enn tekið fyrir 20. október 2016. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni í fóstrinu var úrskurðað um hana á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Umgengni kæranda við barnið var með úrskurði Barnaverndarnefndar B 20. október 2016 ákveðin tvisvar sinnum í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að barnið D, skuli njóta umgengni við móður, A, tvisvar sinnum í mánuði tvær klst. í senn, undir eftirliti. Barnaverndarnefnd B ákveður að við umgengni sé enginn annar viðstaddur en kynmóðir, systir barnsins, sambýlismaður móður og sonur hans.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 20. október 2016 verði felldur úr gildi. Kærandi styður kröfu sína með því að með hinum kærða úrskurði hafi Barnaverndarnefnd B brotið meginreglur barnaréttar, meðal annars 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, um að við ákvörðun beri stjórnvöldum sem fáist við málefni barna fyrst og fremst að huga að hagsmunum barns. Einnig er vísað til meginreglna barnaverndarlaga og meginreglna stjórnsýsluréttar, aðallega meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. Einnig er vísað til 7. mgr. 4. gr. og 70. gr., sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Loks er vísað til 3. gr. laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013.

Kærandi vísar til þess að hún fari með forsjá dætra sinna, E og D. Systurnar séu ekki samfeðra en kærandi deili forsjá E með föður. Mál E hafi hafist hjá Barnavernd B árið 2008 vegna ofbeldis föður E gagnvart kæranda en kærandi hafi skilið við hann í X. Áhyggjur barnaverndar hafi í upphafi beinst að heimilinu vegna ofbeldis þáverandi sambýlismanns kæranda en máli E hafi verið lokað í X 2014.

Mál D hafi verið opið hjá Barnavernd B frá því að hún fæddist. Stúlkan sé mikið fötluð; hún sé einhverf, með þroskahömlun og frávik í hreyfiþroska. Greining hafi ekki átt sér stað fyrr en í X 2013. Þá hafi stúlkan verið greind með flogaveiki í X 2016. Áhyggjur hafi verið af geðheilsu kæranda en henni hafi liðið illa þar sem hún hafi verið í ofbeldissambandi með föður E. Einnig hafi hún verið þunglynd eftir fæðingu D.

Kærandi hafi haft áhyggjur af D frá fæðingu en henni hafi ekki fundist barnið tengjast sér. Hún hafi margoft farið með stúlkuna í skoðun en ekkert hafi fundist í upphafi. Í X 2012 hafi kærandi farið með stúlkuna í sjúkraþjálfun, hafi tekið fullan þátt í þjálfuninni og átt í ágætum samskiptum við sjúkraþjálfarann. Það hafi ekki komið í ljós fyrr en árið 2013 hvað amaði að stúlkunni en þá hafi hún fengið greiningu um einhverfu o.fl. Eftir að kærandi hafi skilið við föður E árið X hafi hún nokkrum sinnum fengið aðstoð inn á heimilið en hún hafi verið ein með dæturnar, aðra erfiða og hina mikið fatlaða. Kærandi hafi verið án atvinnu, ekki talað tungumálið og haft lítið félagslegt net. Kæranda hafi liðið illa á tímabili og glímt við þunglyndi en hún sé nú komin á þunglyndislyf og mælist ekki lengur með þunglyndi. Henni líði miklu betur í dag.

Mál D hafi fyrst verið lagt fyrir fund hjá Barnaverndarnefnd B 30. október 2014. Hafi það verið vegna erfiðleika kæranda við uppeldi dætranna og veikinda hennar sjálfrar, en á þeim tíma hafi hún ekki verið búin að vinna úr veikindunum. Á fundinum hafi kærandi samþykkt að báðar dætur hennar yrðu vistaðar utan heimilis í fjóra mánuði eða til X 2015. Kærandi hafi haft umgengni við þær aðra hvora helgi án eftirlits. Málið hafi aftur verið lagt fyrir nefndina 11. desember 2014 þar sem umgengni við D hafi verið breytt og kærandi hafi samþykkt að undirgangast forsjárhæfnismat. Máli E hafi verið lokað.

Mál D hafi næst verið tekið fyrir 26. febrúar 2015 en þá hafi forsjárhæfnismat legið fyrir. Starfsmenn barnaverndar hafi lagt til að stúlkan yrði vistuð utan heimilis í tvo mánuði í viðbót og einnig að þess yrði krafist fyrir héraðsdómi að hún yrði vistuð utan heimilis í allt að 12 mánuði. Kærandi hafi ekki samþykkt þetta og því hafi verið úrskurðað í málinu. Kærandi hafi næst mætt til fundar við starfsmenn barnaverndarnefndarinnar 12. mars 2015 og þá hafi hún samþykkt vistun stúlkunnar utan heimilis til X 2016 með þeim skilyrðum að hún væri ekki framfærsluskyld með stúlkunni meðan á fóstri stæði og að endurmat á málinu færi fram í september 2015. Gerður hafi verið umgengnissamningur við kæranda um umgengni við stúlkuna aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags á heimili kæranda án eftirlits.

Málið hafi aftur verið tekið fyrir hjá Barnaverndarnefnd B 24. september 2015 svo sem umsamið var. Starfsmenn barnaverndar hafi lagt til að stúlkan yrði áfram í fóstri og að dregið yrði úr umgengni kæranda þannig að umgengni yrði annan hvorn laugardag í sex klukkustundir í senn. Eftirlit yrði haft með umgengninni en það yrði óboðað. Hafi tillögur starfsmanna verið samþykktar.

Enn hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefndina 26. febrúar 2016. Þann 10. mars 2016 hafi verið kveðinn upp úrskurður um að stúlkan yrði áfram í fóstrinu í tvo mánuði og að forsjársviptingarmál yrði höfðað á hendur kæranda. Engar breytingar hafi verið gerðar á umgengnissamningi þannig að umgengni hafi áfram verið annan hvorn laugardag í sex klukkustundir undir eftirliti í upphafi og við lok umgengni.

Þann 12. maí 2016 hafi Barnaverndarnefnd B þingfest fyrir héraðsdómi forsjársviptingarmál á hendur kæranda vegna D. Undir rekstri málsins hafi verið gert forsjárhæfnismat sálfræðings sem lagt hafi verið fram í málinu 24. ágúst 2016. Kærandi hafi gert verulegar athugasemdir við matið og farið fram á yfirmat. Kærandi hafi talið að niðurstöður undirmats væru að hluta til byggðar á röngum forsendum. Til dæmis hafi undirmatsmaður í nokkrum tilvikum aflað upplýsinga frá þriðja aðila sem ekki hafi átt við rök að styðjast. Einnig hafi tungumálaerfiðleikar á milli kæranda og þriðja aðila valdið því að upplýsingar hafi verið rangar. Þessar upplýsingar hafi verið grundvöllur að niðurstöðu undirmats um forsjárhæfni kæranda. Beðið sé yfirmats.

Þann 4. október 2016 hafi kærandi krafist þess af starfsmönnum barnaverndar að umgengni yrði aukin og yrði að minnsta kosti hvern laugardag frá kl. 12:00 til 16:00. Starfsmenn hafi lagt til að dregið yrði úr umgengni og að hún yrði einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Málið hafi verið tekið fyrir hjá Barnaverndarnefnd B 20. október 2016. Kærandi hafi talið tillögu starfsmanna byggða á niðurstöðu forsjárhæfnismats og að ekki ætti að draga úr umgengni á meðan yfirmat lægi ekki fyrir. Barnaverndarnefndin hafi úrskurðað um umgengni tvisvar sinnum í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti. Þetta sé úrskurðurinn sem krafist sé að verði felldur úr gildi í máli þessu.

Kærandi sé X ára F ríkisborgari. Hún sé matselja á[…]. Hún þurfi að vera í samskiptum við […] í starfi sínu, meðal annars […]. Hún fái mjög góð meðmæli frá yfirmanni og samstarfsfólki. Kærandi sé með góða greind og neyti hvorki áfengis né annarra vímuefna. Heimili hennar sé snyrtilegt og hún sé með röð og reglu á öllum hlutum. Hún búi ásamt eldri dóttur sinni E en unnusti kæranda sé mikið inni á heimilinu og fái son sinn í umgengni aðra hvora helgi.

D þurfi sérstaka umönnun. Kærandi hafi farið á mörg uppeldisnámskeið og reynt að tileinka sér þær aðferðir sem notaðar séu á leikskóla og fósturheimilinu, svo sem TEACCH (e. Treatment and Education of Autistic and related Communications Handicapped Children) aðferð og notkun PECS (e. The Picture Exchange Communication System) mynda sem segja megi að sé tungumál stúlkunnar. Að mati kæranda hafi hún ekki fengið næga þjálfun í þessum aðferðum vegna takmarkaðrar umgengni. Þá fái hún hvorki upplýsingar frá leikskóla né fósturforeldrum þar sem henni hafi marksvisst verið haldið frá öllu því er viðkomi stúlkunni.

Rök starfsmanna barnaverndar um minni umgengni hafi meðal annars verið þau að kærandi notaði ekki í nægum mæli þær uppeldisaðferðir sem nauðsynlegar væru. Í þessu sambandi hafi verið vísað til þess að kærandi notaði PECS myndir ekki nægilega mikið. Kærandi sé ekki sammála þessu en hafi samt óskað eftir meiri þjálfun í notkun þeirra. Kærandi hafi einnig verið vænd um að gefa stúlkunni sætindi (sykur) sem sé ekki rétt en kærandi geri íspinna fyrir stúlkuna úr ávaxtasafa. Einnig hafi kærandi beðið starfsmenn barnaverndar um leyfi til að fara inn á heimili fósturforeldra og í leikskólann til að sjá hvernig fagaðilar ynnu en henni hafi verið synjað um það. Fósturforeldrarnir hafi áður séð um einhverft barn svo að þeir séu í betri þjálfun en kærandi. Það sé mjög mikilvægt að sömu aðferðir séu notaðar alls staðar við uppeldi barnsins.

Kærandi hafi margítrekað óskað eftir meiri umgengni og aðstoð inn á heimilið en barnavernd hafi iðulega svaraði því með ferkari skerðingu á umgengni.

Í sálfræðimötum hafi komið fram að kærandi sé með persónuleikaröskun en það virðist ekki há henni í vinnu. Kærandi hafi aldrei beitt stúlkuna ofbeldi. Hún hafi reynt allt sem hún geti til að vinna með stúlkuna á viðeigandi hátt en hafi ekki verið veitt nægilegt tækifæri til þess. Hún hafi aldrei sett stúlkuna í neina þá hættu sem kalli á viðlíka viðbrögð og barnavernd hafi sýnt kæranda og dóttur hennar. Það eina sem kærandi hafi gert sé að viðurkenna vanmátt sinn við uppeldi stúlkunnar en hún hafi ítrekað greint frá því að hún vilji ná tökum á uppeldinu en til þess þurfi hún meiri þjálfun og jafnvel aðstoð.

Kærandi hafi verið til samstarfs við barnaverndaryfirvöld og ítrekað samþykkt áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis. Þá hafi kærandi farið að fyrirmælum barnaverndar um að leita sér sálrænnar aðstoðar og fara á uppeldisnámskeið. Jafnframt hafi kærandi ítrekað lýst því yfir að hún vildi bæta sig og hafi óskað eftir stuðningi til þess. Kærandi sé móttækileg fyrir tilsögn en fái ekki tækifæri til að þjálfa viðeigandi uppeldisaðferðir vegna takmarkaðrar umgengni við stúlkuna. Aðgerðir barnaverndar hafi þannig að mati kæranda brotið gegn meðalhófsreglunni, til dæmis með því að neita kæranda um aðstoð inn á heimilið. Sé þetta dæmi um hvernig barnavernd hafi beitt harkalegum aðferðum í máli kæranda og dóttur hennar, en kærandi telur engar forsendur fyrir því að umgengni hennar við stúlkuna sé svo takmörkuð.

Umgengnisréttur barns í fóstri sé tryggður í 70. gr. bvl. Nánar sé fjallað um umgengnisréttinn í 74. gr. Laganna, en samkvæmt ákvæðinu eigi barn í fóstri rétt til umgengni við foreldra sína og aðra sem eru því nákomnir. Einnig eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Að mati kæranda hafi barnaverndarnefnd ekki sýnt fram á að umgengni kæranda við stúlkuna sé svo andstæð hagsmunum hennar að svo mikil takmörkun sé réttlætanleg.

Að því er varði meðalhófsreglu skuli velja það úrræði sem vægast sé ef völ er á fleiri en einu úrræði sem þjónað geti því markmiði sem stefnt sé að. Einnig skuli hóf vera í beitingu þess úrræðis sem valið sé þannig að ekki sé gengið lengra en nauðsyn beri til. Kærandi telur að barnaverndarnefndin hafi skert umgengni kæranda við stúlkuna meira en nauðsynlegt sé og kæranda hafi verið neitað um aðstoð inn á heimilið. Þá hafi barnaverndarnefnd ekki farið fram á sviptingu í skemmri tíma eða reynt að vera áfram til samvinnu við kæranda um áframhaldandi vistun utan heimilis. Loks hafi ekki verið sýnt fram á að kærandi sé um alla framtíð óhæf til að fara með forsjá barnsins.

Þegar brotið hafi verið í bága við réttarreglu stjórnsýsluréttarins við töku stjórnvaldsákvörðunar, hafi sú regla verið lögð til grundvallar að ákvörðunin sé ógildanleg sé hún haldin form- eða efnisannmarka sem talist geti verulegur, enda mæli veigamikil rök ekki gegn því að ógilda hana. Þegar harkalegri úrræði séu notuð en nauðsyn beri til, eða gengið lengra í beitingu þess úrræðis sem valið hafi verið, sé um efnisannmarka að ræða sem leiði yfirleitt til þess að slík ákvörðun sé ógildanleg. Í þessu sambandi sé bent á dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 511/1998 (H 1999 bls. 1511) þar sem felldur hafi verið úr gildi úrskurður Barnaverndarráðs Íslands þar sem umgengni móður við barn sitt hafði verið takmörkuð óhóflega án þess að nægur rökstuðningur væri fyrir hendi.

Að mati kæranda sé sú umgengni, sem úrskurðað var um 20. október 2016, takmörkuð langt úr hófi fram. Afstöðu kæranda um önnur úrræði en forsjársviptingu hafi ekki verið gefinn gaumur og ekki sýnt fram á hvernig umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum stúlkunnar. Kærandi eigi gott heimili þar sem stúlkan búi við gott atlæti, auk þess sem kærandi njóti stuðnings unnusta síns og fjölskyldu sinnar þegar skyldmennin séu hér á landi. Kærandi hafi ekki sett sig upp á móti því að eftirlitsmaður væri viðstaddur umgengni en nýlega hafi komið í ljós að eftirlitsmaður hafi ítrekað misskilið kæranda. Hafi það valdið því að sumar upplýsingar hans til starfsmanna barnaverndar og matsmanns þess er gerði forsjárhæfnismat séu rangar. Þær upplýsingar hafi síðan verið notaðar sem grundvöllur að niðurstöðu um persónuleika kæranda og hafi leitt til neikvæðrar niðurstöðu fyrir hana, nú síðast til að minnka umgengni.

Kærandi og dóttir hennar séu nánar og sakni hvor annarrar sárt. Kærandi hafi aldrei gerst sek um annað en að eiga í erfiðleikum með að sjá ein um uppeldi stúlkunnar vegna þroskaskerðingar hennar. Úr þessu sé hægt að bæta með aðstoð inni á heimilinu þar til kærandi nái tökum á uppeldinu. Staða kæranda sé nú mun betri en þegar málið hafi hafist hjá barnavernd.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 24. nóvember 2016 er vísað til þess að mál stúlkunnar hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd B frá fæðingu hennar. Mikið ójafnvægi hafi verið á andlegri heilsu kæranda á þessum tíma og geðheilsa hennar hafi jafnan verið slæm. Hún hafi ráðið illa við skap sitt og ekki haft innsýn í eigin gjörðir.

Samstarf hafi verið við ljósmóður vegna fæðingar, sængurlegu og ungbarnaeftirlits þegar stúlkan fæddist í X 2011. Ljósmóðir hafi greint frá því að hún hafi rætt ítarlega við kæranda um að hún yrði að taka sig á og vanda sig í framkomu gagnvart dætrum sínum. Hún hafi sagst hafa orðið vitni að því að kærandi væri hranaleg við E, eldri dóttur sína, og það væri áhyggjuefni hvort hún gæti sinnt stúlkunum vegna andlegs ástands.

Í X 2011 hafi verið sótt um Áttuna uppeldisráðgjöf fyrir kæranda. Markmiðin hafi verið að veita kæranda uppeldisráðgjöf og stuðning í foreldrahlutverkinu og aðstoða hana við að setja reglur á heimilnu. Keypt hafi verið rimlarúm fyrir D og sótt um forgang í félagslegt leiguhúsnæði. Í X 2011 hafi ljósmóðir haft samband og lýst áhyggjum af tengslamyndun kæranda við stúlkuna. Tilkynning hafi borist frá heilsugæslunni þar sem kærandi hafi mælst hátt á þunglyndiskvarða og var talin líkleg til sjálfsskaða. Óttast hafi verið um að hún myndi skaða ungbarnið. Kærandi hafi verið studd fjárhagslega til að greiða leikskólagjöld. Hún hafi hitt sálfræðing á heilsugæslustöð mánaðarlega og félagsráðgjafa hálfsmánaðarlega.

Í X 2012 hafi borist tilkynning frá heilsugæslu um hranalega framkomu kæranda í garð stúlkunnar. Áhyggjur hafi verið af tengslamyndun og barnið vanörvað.

Í X 2012 hafi Áttan lokið stuðningi. Niðurstaðan hafi verið sú að kærandi sýndi væntumþykju í garð stúlkunnar en þyrfti að tileinka sér jákvæðari leiðir í uppeldi E. Talið var að stúlkurnar hefðu gott af því að fá stuðningsfjölskyldu en kærandi hafi ekki tekið vel í það. Í X 2012 hafi verið haft samband frá […]þar sem stúlkan var í sjúkraþjálfun. Áhyggjur hafi verið af því að hún fengi ekki næga örvun en hún hafi mælst lágt á hreyfiþroskaprófi. Í X 2012 hafi Heilsugæslan G upplýst um mjög mikið ójafnvægi kæranda og áhyggjur af því að hún hefði unnið stúlkunni mein en stúlkan hafi verið búin að vera mjög veik. Tilsjón hafi verið sett daglega inn á heimili kæranda.

Í X 2013 hafi lögregla óskað eftir starfsmanni barnaverndar á heimili kæranda en hún hafi sent vini smáskilaboð um að ætla að svipta sig lífi. Kærandi hafi tjáð lögreglu að hún væri að bugast en vildi ekki sérfræðiaðstoð. Hún samþykkti þó að lokum að ræða við starfsmann barnaverndar á staðnum en í því samtali hafi kærandi greint frá því að engin alvara lægi að baki hótuninni.

Til að létta undir með kæranda hafi með hennar samþykki verið ákveðið að stúlkurnar fengju stuðningsfjölskyldu. D hafi farið í frumgreiningu á Þroska- og hegðunarstöð vegna umtalsverðra frávika í þroska. Sótt hafi verið um Áttuna uppeldisráðgjöf til að styðja kæranda í uppeldishlutverkinu vegna krefjandi hegðunar stúlknanna. Ráðgjafi hafi byrjað að hitta kæranda í X 2014. Í X 2014 hafi kærandi sýnt merki um alvarlegt þunglyndi. Rætt hafi verið við hana um að hún þyrfti að vinna að bættri andlegri líðan, en ekki væri gott að stúlkurnar byggju hjá henni þegar hún væri í því ástandi sem hún hefði sjálf lýst. Kærandi hafi samþykkt að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í þrjá mánuði og að hún myndi sækja sér sálfræðiaðstoð á tímabilinu. Vinnsla Áttunnar hafi verið sett í biðstöðu þar sem stúlkurnar voru vistaðar utan heimilis um tíma. Í skýrslu Áttunnar um þá vinnu sem hafði farið fram þá um haustið hafi komið fram að meginvandi kæranda fælist í hennar eigin vanlíðan og takmörkunum hennar til að geta átt innileg og góð samskipti við dætur sínar. Hún hafi litla þolinmæði og beiti stúlkurnar fyrirvaralausum og ósanngjörnum refsingum. Mikill tími hafi farið í að ræða líðan kæranda og því takmarkað hægt að vinna að markvissri þjálfun vegna stúlkunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla stúlkunnar hafi orðið mikil breyting til hins betra á stúlkunni eftir að hún fór í fóstur í X2014. Fósturforeldrar hafi fylgt leiðbeiningum og þjálfun stúlkunnar í samráði við leikskóla, en áður höfðu borist upplýsingar frá leikskóla um að það skorti á að kærandi ynni með stúlkuna heima fyrir. Eftir að fóstrinu lauk hafi fósturforeldrar verið stuðningsfjölskylda systranna aðra hvora helgi. Sú jákvæða þróun sem orðið hafði hjá D hafi að mestu gengið til baka þegar hún fór aftur í umsjá kæranda.

Mál systranna hafi verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B 30. október 2014 vegna þess að uppi hafi verið miklar áhyggjur af forsjárhæfni kæranda og öryggi systranna í umsjá hennar. Á þessum tíma hafði mikil vinna farið fram í málinu um sex ára skeið en án þess að viðunandi árangur næðist. Gert hafi verið samkomulag við kæranda um fjögurra mánaða vistun systranna utan heimilis á meðan kærandi gengist undir forsjárhæfnismat og leitaði sér aðstoðar á geðrænum vanda sínum.

Systurnar hafi farið til sömu fósturforeldra og fyrr og kærandi hafi haft við þær umgengni aðra hvora helgi, frá föstudegi til sunnudags, auk einnar viku í janúar og febrúar. Í umgengni helgina X 2015 hafi kærandi brotið gegn samkomulaginu þegar hún hafi sent E úr landi með móðurömmu sinni. Hafi kærandi borið fyrir sig að E væri óánægð hjá fósturforeldrum en athugun starfsmanna barnaverndar hafi bent til hins gagnstæða.

Kærandi hafi gengist undir forsjárhæfnismat á tímabilinu X 2014 til X 2015. Niðurstaða matsins hafi verið sú að kærandi væri forsjárhæf svo lengi sem hún sinnti sérhæfðri viðtalsmeðferð og sýndi fram á stöðugan bata í geðheilsu. Sálfræðingur hafi verið fenginn til að veita kæranda viðtalsmeðferðina. Í greinargerð sálfræðingsins X 2015 komi fram að kærandi sé haldin miklum kvíða sem mikilvægt sé að vinna með til að hún sé í andlegu jafnvægi en það sé forsenda forsjárhæfni hennar. Einnig komi fram að kærandi sýni ýmis einkenni jaðarpersónuleikaröskunar (e. Borderline Personality Disorder) og að hún hafi ýmis persónueinkenni sem toreldi sálfræðilega meðferð. Af fimm viðtölum sem kærandi hafi komið til hafi hún lítinn áhuga sýnt á meðferð í fyrstu fjórum viðtölunum en í því fimmta hafi hún verið í betra jafnvægi.

Í annarri greinargerð frá sálfræðingnum X 2015 komi fram að kærandi hafi ekki tekið framförum á meðferðartíma. Fyrir utan erfiðleika með tilfinningastjórnun sé geta kæranda til að setja sig í spor dætra sinna takmörkuð en slíkt leiði auðveldlega af sér vanrækslu. Sálfræðingurinn hafi þarna lokið meðferðarvinnu þar sem kærandi hafði ekki sinnt henni. Kærandi hafi sagt sálfræðingnum að hún mætti aðeins til meðferðarinnar til að auka líkurnar á að fá stúlkuna heim úr fóstri. Starfsmaður barnaverndar hafi síðan átt fund með kæranda og lögmanni hennar þar sem kærandi hafi óskað þess að halda áfram í meðferð hjá sálfræðingnum. Á þá beiðni hafi verið fallist.

Í skýrslu sálfræðingsins X 2016 komi fram að jákvæðar breytingar hafi átt sér stað hjá kæranda. Hún væri almennt í betra andlegu jafnvægi og væri farin að taka geðdeyfðarlyf. Í samtali starfsmanns barnaverndar og sálfræðingsins X 2016 hafi sálfræðingurinn talið að kærandi væri fær um að annast eldri dóttur sína, E, svo framarlega sem hún væri í jafnvægi. Hann hafi á hinn bóginn sett spurningarmerki við það hvort kærandi réði við það umfangsmikla áreiti sem fylgdi umönnun D.

Stuðningsþörf D sé mjög mikil. Markviss kennsla og þjálfun samkvæmt aðferðum TEACCH og PECS hafi skilað miklum árangri en þrátt fyrir framfarir hafi hún sýnt mjög erfiða hegðun. Hún vilji stjórna og nýti öskur og aðra neikvæða hegðun til að ná sínu fram. Starfsfólk leikskóla telji að dvöl hjá fósturforeldrum hafi hjálpað til við framfarir stúlkunnar síðastliðið ár. Þau hafi verið í mjög góðu samstarfi við leikskólann, leitað aðstoðar, deilt því sem vel eða illa hafi gengið og leitað lausna.

Kærandi hafi sótt námskeið í aðferðum TEACCH og PECS, uppeldisnámskeið hjá Þroska- og hegðunarstöð og fræðslunámskeið um einhverfurófsraskanir hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Námskeiðin hafi öll verið á íslensku. Starfsmaður barnaverndar hafi rætt við kæranda um hvort hún hafi skilið innihald námskeiðanna því að viðfangsefni séu flókin á köflum. Kærandi hafi svarað því að hún kannaðist við allar þessar aðferðir og því hafi hún skilið það sem fram hafi farið. Mikilvægi þess að kærandi noti TEACCH og PECS í umgengni hafi verið ítrekað. Kærandi hafi fyrst sóst eftir auknum skilningi á aðferðunum í X 2016 á fundi með sérkennara leikskóla. Skýrslur eftirlitsmanna staðfesti að kærandi noti þessar aðferðir í umgengni með mjög takmörkuðum hætti.

PECS kerfið sé aðallega notað fyrir börn með einhverfurófsröskun sem hafi takmarkaða eða enga boðskiptafærni og búi ekki yfir færni til að nota talmál til að tjá sig. Kerfið byggi á myndum sem barnið læri að para við orð og nota sem sitt „tungumál“. Til að barnið skilji til hvers sé ætlast af því fái það mynd sem parað sé við orð og geti á móti notað ákveðna mynd af því sem það vilji segja eða gera. PECS sé þannig myndrænt tungumál í stað hefðbundins talmáls. Við innleiðingu og notkun PECS séu endurtekningar afar mikilvægar og einnig samvinna við þá sem sinni umönnun og uppeldi barnsins þar sem þessir aðilar þurfi að nota sömu myndir og sömu orð yfir sömu hluti svo að barnið skilji.

Í bréfi frá fósturmóður X 2016 lýsi hún því hvernig stúlkan hafi látið af miklum hegðunarerfiðleikum frá því að hún kom fyrst til fósturforeldra í vistun í X 2014. Hvað varði umgengni við kæranda hafi það tekið allt upp í tvo daga fyrir stúlkuna að jafna sig eftir dvölina hjá kæranda. Stúlkan hafi verið hás eftir öskur og átt erfitt með að aðlagast aftur TEACCH dagskipulagi og PECS tjáningarkerfi. Eftir að umgengni kæranda var minnkuð X 2016 hafi þessir hegðunarerfiðleikar að mati fósturforeldra minnkað.

H barnalæknir hafi verið beðinn um upplýsingar samkvæmt 44. gr. bvl. Í svari hans 15. febrúar 2016 komi fram að stúlkan hafi tekið miklum framförum í umsjón fósturforeldra og mikil breyting hafi átt sér stað í hreyfiþroska svo og öðrum þroska. Fósturforeldrar hafi sinnt heilsufarslegum málefnum stúlkunnar mjög vel og fylgt leiðbeiningum læknis í einu og öllu. Samskipti fósturforeldra við lækninn hafi verið til fyrirmyndar og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til foreldra barns með þessa fötlun.

Í skýrslu talsmanns, sem barninu hafi verið skipaður, komi fram upplýsingar um að fósturforeldrar hafi sýnt stúlkunni mjög mikla þolinmæði á heimilinu á meðan heimsókn stóð en það skipti mjög miklu máli í samskiptum við einhverfa einstaklinga sem eigi erfitt með að gera sig skiljanlega. Stúlkan hafi notað PECS kerfið til að gera sig skiljanlega og hafi meðal annars valið sér teiknimynd til að horfa á með því móti.

Að mati Barnaverndar B hafi kærandi ekki sinnt því sem ætlast hafi verið til af henni, þ.e. að vinna í andlegri heilsu sinni og afla sér þekkingar og þjálfunar vegna fötlunar stúlkunnar. Á fundi 10. mars 2016 hafi Barnaverndarnefnd B ákveðið að fara fram á það fyrir dómi að kærandi yrði svipt forsjá stúlkunnar. Stefna hafi verið þingfest X 2016. Kærandi hafi farið fram á að nýtt forsjárhæfnismat yrði gert og hafi matinu verið skilað 8. ágúst 2016. Matsmaður hafi verið viðstaddur umgengni kæranda við stúlkuna. Samskipti þeirra hafi einkennst af gleði, galsa og kraftmiklum ærslum. Kærandi hafi notað PECS myndir að einhverju leyti í samskiptum við stúlkuna til dæmis þegar henni var gefinn ís. Hún hafi á hinn bóginn ekki notað þær þegar hún hafi skipt um bleyju á stúlkunni. Öll snerting á milli mæðgnanna hafi staðið stutt. Í leiknum hafi kærandi styrkt neikvæða hegðun stúlkunnar, hegðun sem ekki sé hægt að ætlast til að barn með svo skertan þroska skilji að stundum megi hafa í frammi og stundum ekki.

Niðurstöður persónuleikaprófs, sem lagt hafi verið fyrir kæranda, sýni að hún gefi mjög jákvæða mynd af sjálfri sér þegar það henti málstað hennar. Engin einkenni kvíða, þunglyndis eða áfallastreituröskunar hafi komið fram á prófinu og því virtist andlegt ástand hennar betra en áður. Á hinn bóginn séu vísbendingar um lítið innsæi, afneitun á sálrænum erfiðleikum, mótþróa, lítið umburðarlyndi og tilhneigingu til að kenna öðrum um. Þessar vísbendingar séu í takt við klínískt mat matsmanns og gögn málsins. Einnig hafi ljósi verið varpað á að kærandi sé sjálfmiðuð í hugsun en það sé í samræmi við álit annarra sálfræðinga sem komið hafi að málinu og talið hana hafa einkenni persónuleikaröskunar. Meðal einkenna sé sjálflægni, hún eigi erfitt með að setja sig í spor annarra, eigi erfitt með að tengjast öðrum, sjái yfirleitt ekkert athugavert við eigin hegðun og hafi tilhneigingu til að kenna öðrum um. Kærandi sé meðalgreind svo að hún ætti að hafa skilning á því sem máli skipti, en sjálfmiðuð hugsun hennar og hegðun geri henni erfitt fyrir að setja þarfir stúlkunnar fram fyrir sínar eigin. Matsmaður telur að samverustundir mæðgnanna séu gleðistundir sem einkennist þó af því að þörfum stúlkunnar sé ekki mætt. Þetta skapi stúlkunni erfiðleika. Hvað varði tengsl mæðgnanna hafi matsmaður ekki treyst sér til að segja að þær séu tengdar nánum og jákvæðum tilfinningaböndum. Gleði stúlkunnar í samskiptum við kæranda gefi vísbendingar um jákvæð tilfinningatengsl en gleðin eigi rót sína að rekja til ærslnanna sem jafnan ríki í samskiptum þeirra þar sem allt virtist stúlkunni leyfilegt. Matsmaður telji kæranda sýna alvarlegt skilningsleysi á þörfum stúlkunnar og mikilvægi þess að kenna stúlkunni og leiðbeina um viðeigandi hegðun. Sömuleiðis hafi kærandi sýnt vanhæfni í að stuðla að öryggi stúlkunnar. Forsjárhæfni kæranda sé talin verulega ábótavant. Kæranda skorti jafnframt nægan skilning á fötlun stúlkunnar og þörfum hennar og hún setji eigin þarfir fram fyrir þarfir stúlkunnar. Því sé ekki að sjá að hún geti veitt stúlkunni þann mikla stuðning sem hún þurfi í öllum þroskaþáttum. Matsmaður telur líklegast að þetta sé afleiðing persónuleikaröskunar og því ekki líklegt til að breytast þannig að forsjárhæfni kæranda geti orðið fullnægjandi. Loks taki matsmaður fram að fósturforeldrar sinni hlutverki sínu af mikilli fagmennsku, þau séu í miklu samstarfi við leikskóla og aðra fagaðila og veiti stúlkunni mikið öryggi og stöðugleika.

Dagsform stúkunnar geti verið mjög misjafnt, allt frá því að vera mjög gott yfir í að hún sýni neikvæða og erfiða hegðun sem erfitt sé að ráða við. Þar skipti öllu að starfsfólk leikskóla og umönnunaraðilar taki með sama hætti á hlutunum og hafi sömu sýn á hvernig brugðist sé við hverju sinni. Mjög gott samstarf hafi verið á milli fósturforeldra og leikskóla, mál séu rædd, lausnir fundnar og ákvörðunum fylgt eftir. Dagleg samskipti fósturforeldra við leikskóla hafi verið mjög góð og fósturforeldrar hafi borið mikla ábyrgð á að upplýsingaflæði á milli leikskóla og heimilis sé gott, en auk einhverfu, þroskahömlunar og veikleika í hreyfiþroska, eigi stúlkan við töluverða meltingarerfiðleika að etja sem hái henni talsvert í daglegu lífi og nýlega hafi hún greinst með flogaveiki sem auki enn á umönnunarþörfina.

Stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis samfleytt frá X 2014 en í styttri tímabil þar áður. Markmið Barnaverndarnefndar B með vistun sé ekki að sameina fjölskyldu kæranda á ný heldur hafi verið farið fram á að kærandi verði svipt forsjá stúlkunnar.

Í skýrslum eftirlitsaðila komi skýrt fram að stúlkan borði sætindi í umgengni hjá kæranda, þrátt fyrir að hún hafi fengið leiðbeiningar um að slíkt væri slæmt fyrir stúlkuna vegna samspils flogaveiki og meltingarvanda. Athugasemdir hafi verið gerðar við kæranda vegna þessa. Einnig liggi fyrir að kærandi noti PECS tjáningarkerfi ekki markvisst þó að hún grípi til þess annað slagið.

Vegna sumarfrís kæranda í júlí 2016 hafi fallið niður tvær umgengnishelgar. Kærandi hafi farið fram á að fá þær „bættar upp“ þegar hún kæmi til baka úr fríi og vildi fá stúlkuna í umgengni fjórar helgar í röð í ágúst. Beiðninni hafi verið hafnað en kæranda þess í stað boðið upp á að fá aukalega tvær viðbótarhelgar á tveggja mánaða tímabili í september og október. Með þessu fyrirkomulagi hafi stúlkan í tvígang átt að fara tvær helgar í röð í umgengni til kæranda. Kærandi hafi einnig óskað þess að umgengni 10. september 2016 yrði færð til 17. september. Hafi það verið samþykkt og þar með hafi umgengni átt sér stað þrjár helgar í röð (17. og 24. september og 1. október). Eftir umgengni 24. september hafi fósturforeldrar haft samband við félagsráðgjafa og greint frá krefjandi og neikvæðri hegðun stúlkunnar eftir tvær umgengnishelgar í röð. Rúman sólarhring hafi tekið að vinda ofan af hegðunarbreytingum. Almennt reyndist umgengni við kæranda stúlkunni erfið en við tvær umgengnishelgar í röð hafi erfiðleikarnir orðið mun meiri. Stúlkan hafi verið mjög óróleg og farið illa eftir PECS kerfinu. Hún hafi ekki leyft heimilismönnum á fósturheimili að snerta sig en það sé þáttur sem mikið hafi verið unnið með. Þegar kærandi hafi farið fram á meiri umgengni hafi það í framangreindu ljósi verið tillaga starfsmanna barnaverndar að dregið yrði úr umgengninni.

Þegar tekin sé ákvörðun um umgengni kæranda við stúlkuna verði úrskurðarnefndin að hafa í huga sérstöðu stúlkunnar og þá miklu umönnun sem hún þurfi á að halda vegna fötlunar sinnar. Þekkt sé að bestur árangur í þjálfun barna á einhverfurófi fáist með því að allir sem að barninu komi séu samstíga og beiti sömu viðurkenndu aðferðum eins og TEACCH og PECS. Barnaverndarnefnd B hafni því að kærandi hafi ekki verið studd eða leiðbeint með þjálfun eða að hún hafi ekki fengið tækifæri til að sanna sig. Umgengni í upphafi fósturvistunar hafi verið aðra hvora helgi en dregið hafi verið úr umgengni, meðal annars vegna þess að kærandi hafi ekki tileinkað sér nauðsynlegar aðferðir við umönnun stúlkunnar með neikvæðum afleiðingum fyrir líðan hennar og framfarir. Kærandi virðist því ekki hafa skilning á því sem máli skipti og sjálfmiðuð hugsun hennar og hegðun geri henni erfitt fyrir um að setja þarfir stúlkunnar framar sínum eigin. Það hafi einnig hamlað vinnslu málsins að kærandi sé mjög tortryggin í garð þeirra stofnana sem eigi að veita henni aðstoð og erfitt hafi verið að vinna með henni að hagsmunum stúlkunnar. Hún saki fósturforeldra um að vinna stúlkunni mein og starfsmenn um að brjóta á réttindum sínum. Niðurstaða undirmatmanns sé sú að kærandi sé ekki hæf til að fara með forsjá stúlkunnar, meðal annars sökum persónuleikaröskunar.

Mikilvægt sé að sem mestur stöðugleiki ríki í kringum stúlkuna og að daglegt líf hennar sé samkvæmt skipulagi sem sérstaklega hafi verið gert fyrir hana í samræmi við viðurkenndar aðferðir. Í forsjárhæfnismati komi skýrt fram að fósturforeldrar sinni umönnun og uppeldi stúlkunnar vel og eigi gott samstarf við leikskóla. Kærandi hafni því að umgengni hennar við stúlkuna ýti undir hegðunarerfiðleika hennar og vanlíðan. Kærandi haldi því fram að þvert á móti sé það vegna þess að stúlkan sakni móður sinnar. Kærandi afneiti niðurstöðum forsjárhæfnismats og segi niðurstöðuna byggjast á tungumálaörðugleikum. Hún hafi því farið fram á yfirmat. Þessi afstaða kæranda komi barnaverndarnefnd ekki á óvart í ljósi persónuleikaröskunar kæranda og sjálflægni sem lýsi sér meðal annars í því að hún sjái yfirleitt ekkert athugavert við eigin hegðun og hafi tilhneigingu til þess að kenna öðrum um.

Á fundi sínum 10. mars 2016 hafi Barnaverndarnefnd B ákveðið að fara fram á forsjársviptingu þar sem nefndin telji kæranda ekki forsjárhæfa. Stúlkan fái ekki viðeigandi þjálfun og meðferð í umsjá kæranda. Stefna barnaverndarnefndarinnar sé sú að stúlkan fari ekki aftur til kæranda og verði ákvörðun um umgengni að taka mið af því. Barnaverndarnefnd B telur með vísan til þess sem rakið hefur verið að það sé stúlkunni fyrir bestu að stytta umgengnistíma kæranda. Umgengni tvisvar sinnum í mánuði í tvær klukkustundir í senn sé talin fullnægja því að stúlkan þekki áfram móður sína og systur án þess að því fylgi of mikið álag fyrir hana. Talin sé þörf á eftirliti með umgengni með tilliti til öryggis stúlkunnar og til að kærandi geti leitað aðstoðar sé hún í vafa um aðferðir PECS og TEACCH. Með vísan til skýrslna eftirlitsmanna þyki nefndinni nauðsynlegt að ákveða að við umgengni séu ekki aðrir viðstaddir en kærandi, systir stúlkunnar, sambýlismaður kæranda og sonur hans.

Með vísan til alls, sem hér hefur verið rakið, er það krafa Barnaverndarnefndar B að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Niðurstaða

D er rúmlega X ára stúlka og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum samfellt frá frá X 2014 en var hjá þeim í styttri tímabil þar áður. Samkvæmt gögnum málsins hafa barnaverndaryfirvöld haft afskipti af högum stúlkunnar frá fæðingu. Stúlkan var í umsjá móður sinnar til X 2014 er hún var X ára gömul.

Í málinu liggur fyrir að Barnaverndarnefnd B hefur höfðað forsjársviptingarmál á hendur kæranda fyrir héraðsdómi. Í málinu hafa verið lagðar fram matsgerð og yfirmatsgerð um forsjárhæfni kæranda en yfirmatsgerðin, sem dagsett er 22. febrúar 2017, barst úrskurðarnefndinni við meðferð málsins.

Í yfirmatsgerð segir að stúlkan glími við alvarlega fötlun og muni þurfa verulegan stuðning allt sitt líf. Máli hennar verði sinnt á fagsviði langtímaeftirlits hjá Greiningarstöð ríkisins en sviðið fylgir verulega fötluðum börnum eftir til 18 ára aldurs. Yfirmatsmenn greina frá því að forsaga málsins bendi til erfiðleika í persónugerð kæranda, en einnig hafi fengist vísbendingar þess efnis í viðtölum yfirmatsmanna við kæranda og í niðurstöðum sálfræðilegra prófa. Kærandi segist til að mynda hafa sóst eftir aðstoð félagsþjónustu og Barnaverndar B á sínum tíma en logið til um eigin hagi og líðan til þess að fá stuðning til að greiða leikskólagjöld og þess háttar fyrir dætur sínar. Þá hafi kærandi ítrekað lent í árekstrum við fólk allt frá upphafi málsins og tali um fagfólk og aðra sem komið hafi að málinu með mjög neikvæðum hætti. Niðurstaða persónuleikaprófs bendi til þess að kærandi sé tortryggin og geti verið erfið í samkiptum við fólk. Hún sé fljót að sjá ósanngirni í því hvernig aðrir komi fram, hafi tilhneigingu til að fyllast óvild, vera langrækin og kenna öðrum um misfarir sínar. Vegna þessara persónuleikaþátta geti samskipti hennar við aðra orðið erfið jafnvel þó að henni bjóðist stuðningur og aðstoð. Þá gefi svör hennar á persónuleikaprófi til kynna að áhugahvöt gagnvart því að þiggja aðstoð sé minni en meðal fólks almennt og að hún sjái enga ástæðu til að gera neinar breytingar á sjálfri sér. Þetta sé í samræmi við forsögu málsins því þrátt fyrir tíð og kröftug inngrip frá barnavernd hafi samvinna við kæranda gengið illa, hegðun verið óútreiknanleg og samstarf við hana erfitt. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi ýmsa styrkleika til að bera. Hún hafi komið sér vel fyrir félagslega og sé með trygga búsetu og atvinnu. Hún sé við góða heilsu og engar vísbendingar um óreglu. Hún hafi sýnt þrautseigju og dugnað við að koma sér fyrir í ókunnugu landi. Ást hennar til dætranna virðist enn fremur mjög sterk.

Í yfirmati kemur einnig fram að kærandi hafi snemma haft áhyggjur af þroska og hegðun D en ekki fundist hún fá hlustun. Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi þar að einhverju leyti haft rétt fyrir sér, en einnig að hún hafi ekki viljað nýta sér stuðning nema hann væri á hennar forsendum. Hún virðist eiga erfitt með að setja sig í spor dætra sinna og ekki búa yfir þeirri félagslegu færni sem nauðsynleg sé til að geta verið til samvinnu við alla þá sérfræðinga sem komi að málum D. Miðað við gögn málsins og vinnslu yfirmatsmanna hafi kæranda skort innsæi í hvernig hegðun hennar, framkoma og uppeldisaðferðir hafi haft áhrif á stöðu hennar og D í dag. Hluti af vandanum gæti verið menningarmunur og tungumálaörðugleikar eins og kærandi vilji meina, en umfangið sé það mikið og atburðirnir það margir að vandinn liggi að mati yfirmatsmanna að stórum hluta í persónugerð kæranda.

Að því er varði forsjárhæfni kæranda segja yfirmatsmenn að D glími við alvarlega fötlun og muni þurfa verulegan stuðning allt sitt líf. Það sé því ljóst að umönnunaraðilar stúlkunnar þurfi að vera í miklum samskiptum við ýmsa fagaðila næstu X árin, þar á meðal starfsmenn Barnaverndar B. Yfirmatsmenn telja að kærandi glími ekki við alvarleg frávik að því er varði andlega eða vitræna færni og því ætti hún að hafa burði til að annast stúlkuna væri hún í samstarfi við barnavernd og önnur úrræði. Sé litið til forsögunnar megi sjá að þarna liggi hennar helsti vandi. Í viðtölum við yfirmatsmenn segist kærandi hiklaust hafa logið að barnavernd til að fá vissan stuðning. Í dag reyni kærandi að draga úr því sem hún hafi áður sagt til að halda forsjá dóttur sinnar. Því sé erfitt að átta sig á því hvenær kærandi segi satt. Niðurstaða úr persónuleikamati yfirmats sé í nokkru samræmi við það sem fram hafi komið í undirmati. Í báðum tilvikum hafi komið fram tilhneiging til sjálfsfegrunar, en einnig hafi komið skýrt fram að kærandi sjái fátt sem hún þurfi að breyta í eigin fari og telji sig þurfa litla hjálp. Hún virðist því ofmeta getu sína sé litið til forsögunnar og þess hversu illa D sé stödd í dag. Sé litið til gagna málsins, þar á meðal gagna frá ráðgjöfum Áttunnar, starfsfólki leikskóla og barnaverndar, komi fram að kærandi hafi ítrekað lýst því yfir að hún sé tæp á taugum og geti hugsað sér að taka eigið líf. Kærandi neiti þó allri andlegri vanlíðan. Enn sé hér ósamræmi í því sem kærandi beri á borð og hvað gögn málsins fjalli um. Þetta dragi allt úr trúverðugleika kæranda og samræmist ályktunum matsmanns í undirmati að það skorti verulega á innsæi kæranda í eigin vanda og stöðu málsins.

Loks telja yfirmatsmenn að tengsl kæranda og stúlkunnar séu mjög góð og að stúlkan tengist kæranda best. Börn með þau frávik er stúlkan sýni geti átt í verulegum vanda með að tengjast öðrum en þurfi engu að síður á þeirri nánd að halda. Yfirmatsmenn telja að það geti valdið stúlkunni skaða verði hún svipt umgengni og tengslum við kæranda.

Kærandi hefur haft umgengni við D allt frá því er hún fór fyrst í fóstur. Fyrst var regluleg umgengni kæranda við hana aðra hvora helgi án eftirlits. Með úrskurði Barnaverndarnefndar B 24. september 2015 var dregið úr umgengni og hún ákveðin tvo laugardaga í mánuði í sex klukkustundir í senn. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B frá 20. október 2016 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin tvisvar sinnum í mánuði í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti. Kærandi gerir ekki kröfu um aukna umgengni en krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum stúlkunnar best. Þar ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að annast verði um stúlkuna með þeim hætti að öryggi, friður, ró og stöðugleiki ríki í lífi hennar en jafnframt að henni sé sinnt á fullnægjandi hátt vegna fötlunar hennar. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Af gögnum málsins, meðal annars skýrslum dómkvaddra matsmanna og skýrslum eftirlitsmanna barnaverndar, má ráða að kærandi hefur átt það til að taka eigin langanir fram yfir þarfir stúlkunnar í umgengni. Sömu gögn sýna að kærandi notar PECS myndir að einhverju marki í samskiptum við stúlkuna en gerir það ekki með markvissum hætti. Notkun myndanna er það tjáningarform sem stúlkunni er kennt í leikskóla og miðast við fötlun hennar. Takmörkuð notkun kæranda á myndunum leiðir til þess að stúlkan fær hvorki nauðsynlega þjálfun né örvun í þessu tjáningarformi á heimili kæranda. Þá má einnig ráða af gögnum málsins að kæranda skortir skilning á þeirri fötlun sem stúlkan glímir við. Þetta sýna til dæmis lýsing á leik mæðgnanna og lýsingar eftirlitsmanna með umgengni. Gögnin sýna einnig fram á að kærandi gefur stúlkunni talsverð sætindi sem eru talin slæm fyrir stúlkuna vegna samspils flogaveiki og meltingarvanda.

Mikilvægt er að daglegt líf stúlkunnar sé samkvæmt skipulagi og í samræmi við viðurkenndar aðferðir, en að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að kærandi hefur ekki tileinkað sér þessar aðferðir að því marki sem nauðsynlegt er. Með vísan til undirmats og yfirmats er kærandi afar erfið í samvinnu og samstarfi öllu. Þá er einnig litið til persónulegra eiginleika hennar, svo sem þess að hún hefur ekki verið heiðarleg í samskiptum og telur að hún þurfi litlu sem engu að breyta í eigin fari, þrátt fyrir slæma stöðu stúlkunnar. Haga þarf umgengninni með þeim hætti að framfarir stúlkunnar gangi ekki til baka, að hegðunarmynstur hennar verði ekki neikvætt eftir umgengni eða að umgengni raski ekki ró hennar um of. Í málinu hefur komið fram að umgengni hefur reynst stúlkunni erfið. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin að takmarka þurfi umgengni kæranda við stúlkuna en þó á þann veg að stúlkan fái þau samskipti við kæranda sem hún hefur þörf fyrir.

Kærandi telur að við meðferð málsins hafi meðalhófsreglu ekki verið framfylgt. Reglan hafi meðal annars verið brotin með því að neita kæranda um aðstoð inn á heimilið. Kærandi kveðst hvorki hafa fengið næga þjálfun í TEACCH aðferð né notkun PECS mynda vegna takmarkaðrar umgengni. Hún kveðst þó hafa farið á mörg uppeldisnámskeið og reynt að tileinka sér þessar aðferðir. Þá kveðst kærandi hafa reynt allt sem hún hafi getað til að vinna með stúlkuna á viðeigandi hátt en ekki verið veitt nægilegt tækifæri til þess.

Af gögnum málsins má sjá að aðstoð við kæranda hófst þegar stúlkan var nýfædd í X 2011. Hún fékk stuðning frá Áttunni uppeldisráðgjöf sem fólst meðal annars í stuðningi við uppeldið. Einnig fékk hún fjárhagslegan stuðning og forgang í félagslegt leiguhúsnæði. Áttan lauk stuðningi sínum í X 2012 og var þá talið að dætur kæranda hefðu gott af því að fá stuðningsfjölskyldu. Því hafnaði kærandi. Í X 2012 var sett dagleg tilsjón inn á heimili kæranda. Á árinu 2013 samþykkti kærandi að dæturnar fengju stuðningsfjölskyldu og kærandi fékk áfram fjárhagslegan stuðning. Í X 2014 fékk kærandi aftur stuðning frá Áttunni. Í X 2014 er kærandi sýndi merki um alvarlegt þunglyndi, samþykkti hún að stúlkurnar yrðu vistaðar utan heimilis í þrjá mánuði og að hún myndi sækja sér sálfræðiaðstoð á þeim tíma. Eftir að fósturvistun lauk tóku fósturforeldrar að sér að vera stuðningsfjölskylda við stúlkurnar aðra hvora helgi. Í X 2014 samþykkti kærandi að systurnar yrðu vistaðar utan heimilis í fjóra mánuði á meðan hún myndi sjálf gangast undir forsjárhæfnismat og leita sér aðstoðar á geðrænum vanda sínum. Kærandi fékk síðan sérhæfða viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Greidd hafa verið fyrir kæranda námskeið í aðferðum PECS og TEACCH, uppeldisnámskeið hjá Þroska- og hegðunarstöð og fræðslunámskeið um einhverfurófsraskanir hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Fjárhagsstuðningur við kæranda hefur enn fremur falist í því að Barnavernd B hefur greitt fyrir hana skólagjöld, dagforeldragjöld, sjúkraþjálfun, viðtöl við sálfræðing, félagsráðgjafa o.fl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur stuðningur við kæranda verið mikill og víðtækur um langt skeið, samanber það sem rakið er hér að framan. Kærandi hefur fengið umtalsvert svigrúm til að bæta andlega líðan sína og tækifæri til að kynna sér þær uppeldisaðferðir sem eru við hæfi D svo að hún gæti sinnt foreldrahlutverkinu og þörfum stúlkunnar á fullnægjandi hátt. Úrskurðarnefndin tekur því ekki undir með kæranda að meðalhófsreglan hafi verið brotin við meðferð málsins með því að neita henni um viðeigandi stuðning.

Þegar framangreind atriði eru virt telur úrskurðarnefndin að umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið hæfilega ákveðin í hinum kærða úrskurði. Með vísan til þess svo og til 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga verður hinn kærði úrskurður ekki felldur úr gildi eins og kærandi krefst. Samkvæmt því ber að staðfesta úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 20. október 2016 varðandi umgengni A við dóttur hennar, D, er staðfestur.

Lára Sverrisdóttir

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum