Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 399/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 399/2016

Föstudaginn 17. mars 2017

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 14. október 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 30. september 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 11. nóvember 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. desember 2016. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi sama dag og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 2. janúar 2017. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 6. janúar 2017 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 11. janúar 2017. Hún var send kærendum með bréfi samdægurs og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum. Andmæli kærenda við framhaldsgreinargerð umboðsmanns bárust með bréfi 21. janúar 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1975 og 1976. Þau eru gift og búa ásamt X börnum sínum í eigin húsnæði að C, sem er 177,3 fermetra einbýlishús.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 2. september 2016, eru 28.547.828 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til þess að þau hafi selt jörð sína D árið 2008 en aldrei fengið nema hluta kaupverðsins greiddan. Þetta hafi orðið til þess að þau hafi átt í erfiðleikum með að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 28. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þrír umsjónarmenn hafa komið að máli kærenda sem var lengi í biðstöðu vegna óvissu um fjárhæð kröfu frá Ríkisskattstjóra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. júlí 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Að mati umsjónarmanns hefðu kærendur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem væri umfram það sem þau hafi þurft til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi ekkert lagt fyrir á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, en samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefðu þau átt að geta lagt fyrir að minnsta kosti 4.267.797 krónur á tímabilinu.

Með bréfum umboðsmanns skuldara til kærenda 2. og 13. september 2016 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests á framkominni tillögu umsjónarmanns. Þá var þeim jafnframt gefinn kostur á því að leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Efnisleg andmæli bárust ekki.

Með bréfi til kærenda 30. september 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði staðfest.

Í tilkynningu umboðsmanns skuldara til kærenda 13. september 2016 sé gert ráð fyrir því við útreikning á sparnaði að mánaðarlegur framfærslukostnaður þeirra sé 399.061 króna. Kærendur kveða ýmsa liði hafa verið vanáætlaða í þessum framfærslukostnaði og óska eftir að tekið verði tillit til þess kostnaðar þeirra sem sé hærri en umboðsmaður geri ráð fyrir.

Kærendur kveðast áður hafa sent umboðsmanni upplýsingar um bifreið sem þau hafi keypt í X 2011 á X krónur en á nafni móður kæranda A. Vegna óvissu um hvað kærendur hafi mátt gera, á meðan umsókn þeirra um greiðsluaðlögun væri til meðferðar, hafi orðið úr að móðir kæranda A hafi skráð bifreiðina á sig. Raunverulegir kaupendur hafi hins vegar verið kærendur og hafi þau greitt henni kaupverðið í hlutum. Kærendur óska eftir því að tekið verði tillit til þessa kostnaðar við útreikning á áætluðum sparnaði.

Að því er kostnað kærenda við rekstur ökutækja varði virtist umboðsmaður skuldara aðeins taka tillit til kostnaðar vegna trygginga. Kærendur krefjast þess að einnig sé tekið tillit til annars kostnaðar við rekstur ökutækja, svo sem eldsneytis- og viðgerðarkostnaðar, skatta o.fl. Bifreiðin X sé í eigu dóttur kærenda en þau greiði tryggingar og annan rekstrarkostnað bifreiðarinnar.

Árið 2009 hafi kærendur selt jörðina D. Söluverð hafi verið 29.143.580 krónur og hafi 17.143.580 krónur verið greiddar með yfirtöku áhvílandi veðskulda. Það sem eftir stóð, 12.000.000 króna, hafi átt að greiðast með […] 15. október 2009 en kaupandi hafi ekki staðið við þann hluta kaupsamnings. Af þessum sökum hafi afsal fyrir D ekki verið gefið út. Sá söluhagnaður sem myndast hafi á grundvelli kaupverðs samkvæmt hinum vanefnda kaupsamningi hafi myndað skattskuld að höfuðstólsfjárhæð 5.229.855 krónur. Skattskuldin hafi fyrnst í lok árs 2015 en fram að þeim tíma hafi verið dregið af launum kæranda A til greiðslu inn á skattskuldina. Kærendur óska eftir því að tekið verði tillit til afdreginnar fjárhæðar við útreikning á áætluðum sparnaði.

Í málflutningi umboðsmanns skuldara komi fram að ekki hafi verið sýnt fram á að kærendur hafi í raun greitt þá reikninga sem lagðir hafi verið fram. Kærendur hafi eytt ómældum tíma í að sýna fram á að þau hafi sannarlega greitt þessa reikninga og hafi ekki getað vænst þess að allar þeirra greiðslur yrðu véfengdar. Af þeim sökum hafi þau ekki farið fram á að fá staðfestingu í hvert skipti eða óskað þess að fylgigögn yrðu hengd við reikninginn sem sýndu fram á greiðslu hans og hvaðan greiðsla kæmi. Kærendur mótmæla því þannig harðlega að ekki sé tekið tillit til þessara reikninga.

Samandreginn kostnaður sem kærendur óska eftir að tekið verði tillit til við útreikning sparnaðar er eftirfarandi í krónum:

Vátryggingar 1.245.787
Kostnaður vegna bifreiða og véla 1.223.542
Ýmiss kostnaður 984.840
Kaup á bifreið 810.186
Opinber gjöld 1.588.564
Kostnaður alls: 5.852.919

Kærendur hafi lagt fyrir 555.317 krónur eins og sjá megi af framlögðum gögnum.

Kærendur vísa til þess að umboðsmaður skuldara hafi sent þeim bréf 2. september 2016 þar sem þeim voru kynntar ástæður sem leitt gætu til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. og hafi þeim verið veittur einnar viku frestur til að bregðast við. Þetta bréf hafi aftur verið sent kærendum í ábyrgðarpósti 13. september 2016 og þeim verið veittur viðbótarfrestur til 29. september 2016 til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þann dag hafi umboðsmaður kærenda haft samband við starfsmann umboðsmanns skuldara með tölvupósti og spurst fyrir um hvort búið væri að taka tillit til þess sem dregið hafi verið af launum kæranda A vegna framangreindrar skattskuldar. Svar hafi borist um hæl og í framhaldinu hafi umboðsmaður kærenda upplýst að hann myndi útvega gögn vegna þessa. Daginn eftir, 30. september 2016, hafi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda borist með tölvupósti.

Að mati kærenda verði ekki séð hvernig umboðsmaður hafi framfylgt rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 10. gr. stjórnsýslulaga segi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Markmið þeirrar reglu sé að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir séu bæði löglegar og réttar. Mál teljist nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hafi verið aflað sem nauðsynlegar séu til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Af fyrrnefndum tölvupósti 29. september 2016 megi ljóst vera að upplýsingar um launafrádrátt kæranda A hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin 30. september 2016. Umboðsmaður hafi þó kosið að líta fram hjá því að þeirra upplýsinga væri að vænta. Kærendur telja að með þessu hafi rannsóknarreglan verið brotin. Þá hafi meðalhófsreglan einnig verið brotin þar sem ákvörðun í málinu hafi verið tekin þrátt fyrir að ekki lægju allar upplýsingar fyrir í því. Samkvæmt meðalhófsreglunni eigi efni ákvörðunar að vera til þess fallið að ná því markmiði sem að sé stefnt. Velja skuli það úrræði sem vægast sé og gæta hófs í beitingu þess. Með því að taka ákvörðun í máli kærenda innan við sólarhring eftir að umboðsmanni hafi orðið ljóst að upplýsingar vantaði í málið, verði vart talið að náð sé því markmiði sem stefnt hafi verið að, hvað þá að vægasta úrræðið hafi verið valið.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 hafi umsókn kærenda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verið samþykkt. Bréfi þessu hafi fylgt útprentað blað með skyldum kærenda samkvæmt 12. gr. lge. Þar komi fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þarna hafi engin viðmið verið sett fram um hvaða útgjöld teldust ekki nauðsynleg til að sjá kærendum og fjölskyldu þeirra farborða. Ekki komi heldur fram fyrirmæli um hvað leggja eigi til hliðar á mánuði miðað við áætlaða greiðslugetu. Bréfinu hafi á hinn bóginn fylgt almennar upplýsingar samkvæmt umsókn um greiðsluaðlögun um tekjur, eignir, skuldir og framfærslu.

Markmið með greiðsluaðlögun sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í samskiptum hins almenna borgara við stjórnvöld þurfi borgarinn oft á leiðbeiningum að halda. Þá beri stjórnvöldum að veita þær leiðbeiningar sem nauðsynlegar séu svo að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt, sbr. leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þannig þurfi að gæta þess að veita aðila einstaklingsbundnar leiðbeiningar þegar hann hafi sýnilega þörf fyrir þær.

Fjármálalæsi sé ekki einn af kostum kærenda og megi í raun ætla að stór hluti þeirra einstaklinga sem þurfi að leita til umboðsmanns skuldara sé á sama báti. Það geti því ekki verið venjubundin vinnuregla umboðsmanns að ganga út frá því að viðskiptavinir þurfi ekki á einstaklingsbundnum leiðbeiningum að halda. Þar sem fjármálalæsi skorti eigi einstaklingar til dæmis erfitt með að gera áætlanir til framtíðar og bregðast skynsamlega við breyttum fjárhagslegum forsendum. Þar gegni hin einstaklingsmiðaða leiðbeiningarskylda stjórnvalds veigamiklu hlutverki. Kærendum hafi ekki verið í lófa lagið að átta sig á samhengi og innihaldi þeirra skjala sem umboðsmaður hafi sent þeim 10. maí 2012 og átta sig á því hvaða mörk væru á mánaðarlegum kostnaði og þar með hvaða áætluðu fjárhæðir þau hefðu átt að eiga möguleika til að spara á ársgrundvelli. Þau hafi ekki fengið einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar og álit umboðsmanns á árlegum sparnaði kærenda hafi ekki legið fyrir, þ.e. ekki fyrr en heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 13. september 2016 sé umfjöllun um þau útgjöld sem kærendur hafi orðið að greiða frá árinu 2011. Ýmist hafi verið gerðar athugasemdir við útgjöldin eða þau samþykkt við útreikning á áætluðum sparnaði frá þessum tíma. Í bréfinu segi meðal annars: „Tekið hefur verið tillit til framlagðra reikninga vegna fermingar, aukinna ökuréttinda, viðgerða á húsnæði og kaupa á gleraugum, þvottavél og sjónvarpi, alls að fjárhæð 991.677 kr.“

Þessir liðir skiptist í krónum þannig:

Reikningar vegna fermingar 241.405
Aukin ökuréttindi 325.000
Viðgerð á húsnæði, kaup á gleraugum,
þvottavél og sjónvarpi 462.707
Samtals 1.029.112

Samtalan sé 37.435 krónum hærri en umboðsmaður hafi samþykkt að taka tillit til. Þar af virtist kostnaður vegna fermingarveislu, annar en fermingargjöf, ekki hafa verið samþykktur þrátt fyrir að texti bréfsins gefi annað í skyn.

Í ljósi alls þess er rakið hafi verið, verði ekki séð að fyrrgreint bréf umboðsmanns hafi verið nægilega skýrt til að kærendur gætu nýtt sér andmælarétt sinn samkvæmt 1. mgr. 13. gr. stjórnsýslulaga með eðlilegum hætti.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem notið hafi greiðsluskjóls hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 10. maí 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Einnig hafi skyldurnar verið útskýrðar aftur og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og kærenda. Kærendum hafi því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 60 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 30. júní 2016. Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, öðrum opinberum gögnum og skattframtölum og tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal barnabótum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé mismunur meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar nefndur greiðslugeta.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 2016 2015 2014 2013 2012 2011 Tekjur alls
Launatekjur 3.260.136 6.268.449 5.904.934 5.241.203 5.122.722 2.293.181 28.090.625
Barna/vaxtabætur o.fl. 85.896 244.236 255.550 237.466 192.714 0 1.015.862
Tekjur úr rekstri skv. framtali 149.243 71.760 221.003
Samtals 3.346.032 6.661.928 6.160.484 5.478.669 5.315.436 2.364.941 29.327.490
Sparnaður 2016 2015 2014 2013 2012 2011 Sparnaður alls
Heildartekjur á ári 3.346.032 6.661.928 6.160.484 5.478.669 5.315.436 2.364.941 29.327.490
Meðaltekjur á mánuði 557.672 555.161 513.374 456.556 442.953 394.157 488.791
Framfærslukostnaður á mán. 399.061 399.061 399.061 399.061 399.061 399.061 399.061
Greiðslugeta á mánuði 158.611 156.100 114.313 114.313 43.892 -4.904 89.730
Áætlaður sparnaður 951.666 1.873.196 1.371.752 689.937 526.704 -29.425 5.383.830

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 399.061 króna á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og sé framfærslukostnaður ágústmánaðar 2016 fyrir hjón með tvö börn á framfæri lagður til grundvallar. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft ráðstöfunartekjur alls að fjárhæð 29.327.490 krónur á framangreindu tímabili og hafi átt að geta lagt fyrir 5.383.830 krónur.

Kærendur hafi lagt fram kvittanir hjá umsjónarmanni að fjárhæð 3.108.539 krónur sem þau telji að megi rekja til óvæntra útgjalda á tímabili greiðsluskjóls. Útgjöld að fjárhæð 67.481 króna séu til komin áður en kærendur hafi fengið greiðsluskjól. Þá flokkist hluti útgjaldanna undir almennan framfærslukostnað og geti því ekki talist til óvæntra útgjalda. Stærsti einstaki kostnaðarliðurinn sé vegna bílaviðgerða og nemi alls 1.851.323 krónum. Umsjónarmaður hafi gert athugasemdir við þessa reikninga og talið hluta þeirra tilkomna vegna viðgerða ökutækja sem ekki hafi verið í eigu kærenda. Einnig hafi umsjónarmaður talið líklegt að hluta reikninganna mætti rekja til viðgerða vegna sjálfstæðs atvinnureksturs kærenda og að útgjöld vegna þeirra hefðu þegar verið dregin frá rekstrartekjum. Skoðun umboðsmanns skuldara á nefndum reikningum renni stoðum undir þetta þar sem hluti þeirra sé vegna viðgerða og varahluta í [...] og kerru sem ekki teljist til farartækja heimilis. Hvað sem því líði telur umboðsmaður að kostnaður við viðgerðir á ökutækjum og öðrum farartækjum upp á 1.851.323 krónur á tíma greiðsluskjóls sé ríflegur í ljósi þess að kærendum hafi borið að halda útgjöldum í hófi meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum stæði. Þessu til viðbótar séu reikningar að fjárhæð 1.575.417 krónur ekki staðfestir með greiðslu og því liggi ekki fyrir hvort þeir hafi í reynd verið greiddir.

Kærendur hafi einnig lagt fram ýmsar aðrar kvittanir svo sem vegna kostnaðar við fermingu, öflunar aukinna ökuréttinda, viðgerða á húsnæði, kaupa á gleraugum, þvottavél og sjónvarpi, samtals að fjárhæð 991.677 krónur.

Með kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi fylgt ýmis gögn frá kærendum. Meðal annars hafi fylgt færsluyfirlit frá Sjóvá þar sem fram komi að kærendur hafi greitt alls 1.060.947 krónur í tryggingar á tímabilinu 1. janúar 2013 til 3. október 2016 og reikning vegna bílaviðgerða að fjárhæð 7.765 krónur. Önnur gögn sem kærendur hafi lagt fram séu til dæmis reikningar sem ekki liggi fyrir hvort séu greiddir og 26 blaðsíðna hreyfingalisti frá F.

Við mat á greiðslugetu kærenda hafi framfærslukostnaður þeirra verið áætlaður 399.061 króna á mánuði. Þar hafi verið áætlað að kostnaður vegna trygginga, annarra en bílatrygginga, væri 4.000 krónur á mánuði. Af framangreindu yfirliti Sjóvár megi ráða að iðgjöld vegna trygginga annarra en bílatrygginga hafi numið alls 730.140 krónum á því 46 mánaða tímabili sem yfirlitið nái til. Samkvæmt þessu hafi kærendur að jafnaði greitt 15.873 krónur á mánuði í tryggingar aðrar en bílatryggingar. Við mat á sparnaði kærenda beri að taka tillit til þessa. Þannig sé 11.873 krónum (15.873 - 4.000) á mánuði bætt við framfærslukostnað kærenda. Einnig sé tekið tillit til kostnaðar við bílaviðgerð að fjárhæð 7.765 krónur.

Samkvæmt fyrrnefndu yfirliti Sjóvár hafi kærandi B greitt ökutækjatryggingar vegna þriggja ökutækja á tímabilinu 1. janúar 2013 til 3. október 2016. Í fyrsta lagi sé um að ræða tryggingar vegna […]. Í öðru lagi sé um að ræða tryggingar vegna ökutækisins Y sem sé í eigu G, móður kæranda A. Kærendur hafi afnot af ökutækinu og segja G skráða eiganda þess til málamynda. Í þriðja lagi hafi nýverið bæst við ökutækjatrygging vegna bifreiðarinnar X sem einnig sé í eigu G en ekki hafi verið greint frá þeirri bifreið áður. Í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara sé gert ráð fyrir kostnaði við rekstur bíls og/eða almenningssamgöngur að fjárhæð 58.314 krónur á mánuði að meðtöldum ökutækjatryggingum. Samkvæmt færsluyfirlitinu hafi kærandi B greitt 317.781 krónu fyrir ökutækjatryggingar á því 46 mánaða tímabili sem yfirlitið greini, eða samtals 6.908 krónur á mánuði. Þyki því ekki sýnt að kostnaður kærenda vegna rekstrar ökutækja sé meiri en viðmið umboðsmanns geri ráð fyrir.

Með kæru hafi einnig verið lögð fram gögn er sýni fram á að Sýslumaðurinn í H hafi dregið alls 1.130.000 krónur af launum kæranda A eftir að kærendur komust í greiðsluskjól. Umboðsmaður vísar til þess að hann hafi tekið tillit til þessa á síðari stigum við mat á sparnaði kærenda.

Miðað við ofangreint telur umboðsmaður að kærendur hafi aðeins lagt fram skýringar vegna hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. eða 2.841.822 króna. Þannig vanti 2.542.008 krónur upp á sparnað kærenda á tímabili greiðsluskjóls en þau hafi ekki sýnt fram á neinn sparnað. Því verði að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem þau hafi haft umfram framfærslukostnað í greiðsluskjólinu.

Í kæru komi fram að kærendur hafi keypt bifreið í X 2011 um fjórum mánuðum eftir að þau hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun og greiðsluskjól hófst. Það hafi þau gert með því móti að G, móðir kæranda A, hafi keypt bifreiðina og verið skráð fyrir henni en kærendur greitt henni til baka í hlutum. Kærendur bendi á að fylgigögn sýni fram á þetta. Meðal þeirra gagna sé tölvupóstur frá bílasölunni til kærenda X 2016 þar sem staðfest sé að G hafi keypt bifreiðina X 2011 fyrir 800.000 krónur. Einnig hafi verið lagt fram yfirlit frá J banka X 2011 sem sýni fram á að kærandi A hafi millifært 810.186 krónur af reikningi sínum til bílasölunnar. Ekki liggi fyrir hvort G hafi áður millifært fjárhæðina á reikning kæranda A svo að hin síðarnefnda gæti millifært til bílasölunnar. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á hvenær kærendur hafi endurgreitt Erlu kaupverðið.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu, sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærendur geri athugasemdir við tímafresti í kjölfar þess að embættið hafi sent þeim andmælabréf í tölvupósti 2. september 2016. Kærendum hafi upphaflega verið veittur viku andmælafrestur frá móttöku bréfs. Bréfið hafi svo verið sent í ábygðarpósti 13. september 2016 og embættið orðið við beiðni kærenda um frest til 29. september 2016 til að koma á framfæri andmælum. Í tölvupóstsamskiptum embættisins og umboðsmanns kærenda þann dag hafi ekki verið óskað eftir frekari fresti og því hafi ákvörðun í málinu verið tekin þegar fresturinn var liðinn. Í samskiptum við kærendur og umboðsmann þeirra hafi ekki komið fram að annað þeirra væri við vinnu utan alfaraleiðar á þessum tíma og því væri erfiðleikum bundið fyrir þau að bregðast við bréfum embættisins.

Kærendur geri einnig athugasemdir við að þau hafi ekki fengið einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar frá umboðsmanni skuldara varðandi skyldur þeirra til að leggja til hliðar fjármuni í greiðsluskjóli. Til viðbótar við þær skriflegu upplýsingar, sem kærendur hafi fengið þegar umsókn þeirra var samþykkt 10. maí 2012 og í bréfi 27. nóvember sama ár, hafi starfsmaður embættisins hringt í þau 19. júní 2012 og meðal annars rætt um sparnað þeirra. Þá hafi þeir umsjónarmenn sem komið hafi að málinu allir fjallað um sparnaðinn í samskiptum sínum við kærendur. Kærendum hefði því mátt vera ljóst að þeim bæri að virða skyldur sínar í greiðsluskjóli og leggja til hliðar þá fjármuni sem voru umfram framfærslukostnað þeirra. Hefðu kærendur verið í vafa hefði þeim verið í lófa lagið að leita leiðbeininga hjá embættinu. Með vísan til þessa telji embættið að ákvæðum 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið fylgt við meðferð málsins.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Að mati kærenda framfylgdi umboðsmaður skuldara hvorki rannsóknarreglu 10. gr. né meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Rannsóknarreglan hafi verið brotin þar sem upplýsingar um launafrádrátt kæranda A lágu ekki fyrir þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin 30. september 2016. Þá hafi meðalhófsregla verið brotin þar sem ákvörðun í málinu var tekin innan við sólarhring eftir að umboðsmanni hafi orðið ljóst að upplýsingar vantaði í málið.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Í máli þessu byggði umboðsmaður skuldara ákvörðun sína um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á því að þau hefðu ekki lagt til hliðar í greiðsluskjóli í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Til grundvallar þessu mati umboðsmanns lágu þær upplýsingar sem embættið hafði sjálft aflað, auk upplýsinga sem kærendur höfðu veitt. Ekki verður fallist á það með kærendum að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti þar sem upplýsingar um launafrádrátt voru þess eðlis að umboðsmaður hafði ekki aðgang að þeim og kærendur urðu sjálf að koma þeim á framfæri. Þá var kærendum boðið að koma athugasemdum sínum og viðhlítandi upplýsingum á framfæri með bréfum 2. og 13. september 2016. Þegar ákvörðun umboðsmanns var tekin 30. september 2016, var frestur til að skila gögnum liðinn en kærendur höfðu þó ekki lagt fram nein gögn um frádrátt af launum kæranda A. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins.

Kærendur telja enn fremur að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins. Samkvæmt lagaákvæðinu skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í tilviki kærenda hafa þau óskað greiðsluaðlögunar en voru ekki talin uppfylla skilyrði lge. svo að hægt væri að koma á greiðsluaðlögunarsamningi. Samkvæmt ákvæðum laganna voru þá ekki aðrir möguleikar fyrir hendi en að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður. Ekki verður því talið að meðalhófsreglan hafi verið brotin við meðferð málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar það fé sem þeim bar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni þar sem þau fengu ekki einstaklingsbundnar leiðbeiningar um fjárhæð sparnaðar í greiðsluskjóli. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, og komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá kom fram að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðsla stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum sem voru í greiðsluskjóli bréf 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Úrskurðarnefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslukostnaði sínum eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 þar sem kærendum var veitt heimild til greiðsluaðlögunar var þeim einnig bent á skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge.

Úrskurðarnefndin telur þannig að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningum sem sendar voru kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefjist þegar umsókn um greiðsluaðlögun sé móttekin og frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit úrskurðarnefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 28. júní 2011.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 5. júlí 2016 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 30. september 2016.

Að mati umboðsmanns skuldara vantaði 2.542.008 krónur upp á sparnað kærenda þegar þau höfðu gert grein fyrir útgjöldum sínum frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, nánar tiltekið er um að ræða tímabilið 1. júlí 2011 til 30. júní 2016. Kærendur telja sig hafa lagt til hliðar í samræmi við skyldur sínar.

Samkvæmt fyrirliggjandi álagningarseðlum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur A 1.252.397
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 208.733
Nettótekjur B 1.040.784
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 173.464
Nettótekjur alls 2.293.181
Mánaðartekjur alls að meðaltali 382.197
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.612.358
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 217.697
Nettótekjur B 2.510.364
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 209.197
Nettótekjur alls 5.122.722
Mánaðartekjur alls að meðaltali 426.894
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.566.216
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 213.851
Nettótekjur B 2.674.987
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 222.916
Nettótekjur alls 5.241.203
Mánaðartekjur alls að meðaltali 436.767
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.979.384
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 248.282
Nettótekjur B 2.925.550
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 243.796
Nettótekjur alls 5.904.934
Mánaðartekjur alls að meðaltali 492.078
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.155.807
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 262.984
Nettótekjur B 3.112.642
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 259.387
Nettótekjur alls 6.268.449
Mánaðartekjur alls að meðaltali 522.371
Tímabilið 1. janúar 2016 til 31. júlí 2016: Sjö mánuðir*
Nettótekjur A 2.087.800
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 298.257
Nettótekjur B 1.564.427
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 223.490
Nettótekjur alls 3.652.227
Mánaðartekjur alls að meðaltali 521.747
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 28.482.716
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 466.930

*Í málinu er ekki upplýst um ráðstöfunartekjur fyrir ágúst og september 2016 en niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana var 30. september 2016. Því er byggt á tekjum janúar til júlí 2016.

Sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. júlí 2016: 61 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 28.482.716
Bótagreiðslur 1.139.790
Launafrádráttur vegna skattskuldar -1.130.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 28.492.506
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 467.090
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 399.061
Greiðslugeta kærenda á mánuði að meðaltali 68.029
Alls sparnaður í 61 mánuð í greiðsluskjóli x 68.029 4.149.785

Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 4.149.785krónur á tímabilinu.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur hafa lagt fram 152 kvittanir, reikninga, greiðsluseðla og yfirlit vegna útgjalda á tímabili greiðsluskjóls sem þau telja að hafi verið óvænt og/eða hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Fjárhæð útgjaldanna er samtals 7.001.877 krónur. Langstærsti liðurinn varðar bílakaup og -viðgerðir.

Kærendur hafa greint frá því að bifreiðin Y hafi verið keypt í X 2011 en þau hafi þurft á nýrri að halda þar sem eldri bifreið þeirra var orðin ónýt. Bifreiðin hafi verið keypt í nafni G, móður kæranda G, en í raun voru kærendur kaupendurnir. Kaupverðið hafi verið 800.000 krónur. Í málinu hafa kærendur lagt fram yfirlit yfir hreyfingar bankareiknings kæranda A hjá J banka hf. Þar má sjá að X 2011 greiddi hún K ehf. 810.186 krónur. Kærendur hafa einnig lagt fram tölvupóst X 2016 frá K ehf. þar sem fram kemur að G hafi keypt bifreiðina Y, kaupverðið hafi verið 800.000 krónur og verið staðgreitt X 2011.

Að sögn kærenda fóru þau þessa leið við bílakaupin vegna óvissu um hvað þeim var heimilt að gera á tímabili greiðsluskjóls. Væru kærendur í vafa um þetta hefðu þau átt að leita ráða hjá umboðsmanni skuldara en það gerðu þau ekki. Þess í stað greiddu þau fyrir bifreið sem aldrei hefur verið skráð eign þeirra. Eins og áður hefur verið vikið að bar kærendum að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 28. apríl 2011. Með því að standa með þessum hætti að bílakaupunum, þ.e. greiða kaupverð bifreiðarinnar en láta þriðja mann vera skráðan eiganda hennar frá þeim tíma, telur úrskurðarnefndin að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum um að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli, enda hafa þau ekki sýnt fram á að bifreiðakaupin hafi verið nauðsynleg til að sjá fjölskyldunni farborða. Kaupverð bílsins verður því ekki dregið frá útreiknuðum sparnaði kærenda í greiðsluskjólinu.

Kærendur hafa lagt fram 40 reikninga og 20 millifærslukvittanir samtals að fjárhæð 2.232.436 krónur vegna bíldekkja, varahluta og viðgerða á bílum, […] og kerru. Einnig hafa þau lagt fram fimm greiðsluseðla að fjárhæð 203.414 krónur vegna viðgerða á […] en ekki liggur fyrir hvort seðlarnir hafi verið greiddir. Að því er varðar reikninga vegna bifreiða er einn reikningur vegna bifreiðar kærenda Z og er hann að fjárhæð 25.618 krónur. Reikningar vegna viðgerða á […] eru að fjárhæð 207.012 krónur. Reikningur vegna kerru er að fjárhæð 25.046 krónur. Aðrir reikningar og kvittanir eru ýmist vegna ökutækja sem ekki eru í eigu kærenda eða ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða bíl eða ökutæki er verið að gera við eða kaupa í varahluti.

Við útreikning á sparnaði kærenda verður tekið tillit til reiknings vegna bifreiðar kærenda að fjárhæð 25.618 krónur og kemur sú fjárhæð til frádráttar á sparnaði, sbr. hér síðar. Að því er varðar […] hafa kærendur greint frá því að hann hafi ekki verið skráður á skattframtöl þeirra frá því að þau hættu […]. Þau noti […] nú í ýmis verk er snúi að […] þeirra. Í málinu hafa kærendur ekki sýnt fram á að […] sé í þeirra eigu. Þessi kostnaður fellur samkvæmt þessu ekki undir kostnað sem heimilt er að draga frá útreiknuðum sparnaði. Að því er varðar kostnað vegna viðgerðar á kerru hafa kærendur hvorki sýnt fram á að hún sé í þeirra eigu né að hún sé þeim nauðsynleg til framfærslu og verður því ekki tekið tillit til þess kostnaðar.

Kærendur hafa lagt fram yfirlit yfir þær tryggingar sem þau hafa greitt í greiðsluskjóli en greiðslurnar nema 1.034.988 krónum. Af þeirri fjárhæð eru 347.770 krónur vegna […] og bifreiða sem ekki eru í eigu kærenda. Mismunurinn (1.034.988 - 347.770) er 687.218 krónur eða að meðaltali 10.908 krónur á mánuði þann tíma sem kærendur hafa verið í greiðsluskjóli. Í yfirliti yfir framfærslukostnað er gert ráð fyrir að mánaðarlegur kostnaður kærenda við tryggingar sé 4.000 krónur. Samkvæmt þessu er mánaðarlegur tryggingakostnaður kærenda 6.908 krónum (10.908 – 4.000) hærri en framfærsluviðmið gerir ráð fyrir. Á tímabili greiðsluskjóls er umfram kostnaður kærenda vegna trygginga því 435.204 krónur (6.908 * 63) og verður sú fjárhæð dregin frá útreiknuðum sparnaði kærenda.

Einnig hafa kærendur lagt fram kvittanir vegna fasteignagjalda, samskipta, hitaveitu og ýmissa smáútgjalda að fjárhæð samtals 118.550 krónur. Þau hafa enn fremur lagt fram kvittanir vegna læknisþjónustu að fjárhæð alls 41.458 krónur. Tekið er tillit til þessara útgjalda í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara og er því ekki unnt að draga þau frá útreiknuðum sparnaði kærenda.

Þá hafa verið lagðar fram kvittanir vegna greiðslu tómstunda, þ.e. greiðsla til L að fjárhæð 12.347 krónur, vegna kaupa á reiðhjólum að fjárhæð 62.890 krónur og gítars að fjárhæð 44.800 krónur. Alls nema þessi útgjöld 120.037 krónum. Í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara er gert ráð fyrir kostnaði við tómstundir að fjárhæð 43.251 króna á mánuði eða 2.724.813 krónur á tíma greiðsluskjóls. Sá kostnaður sem kvittanirnar sýna fram á er því innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara.

Lagðar hafa verið fram tvær kvittanir vegna kaupa á tölvum. Annars vegar er um að ræða kaup á fartölvu 6. apríl 2013 að fjárhæð 105.150 krónur. Hins vegar kaup á spjaldtölvu 14. maí 2013 að fjárhæð 98.820 krónur. Að mati úrskurðarnefndarinnar er einungis hægt að fallast á að kaup á einni tölvu hafi verið nauðsynleg fyrir kærendur og verður því tekið tillit til kaupa á dýrari tölvunni.

Framvísað hefur verið kvittunum vegna kostnaðar við eldsneyti að fjárhæð 165.296 krónur og veggjald að fjárhæð 34.000 krónur. Í yfirliti yfir framfærslukostnað kærenda er gert ráð fyrir að mánaðarlegur kostnaður kærenda við rekstur bíls sé 58.314 krónur á mánuði eða alls 3.673.782 krónur á tímabilinu. Fyrrgreind útgjöld falla innan framfærsluviðmiða þeirra og er því ekki unnt að draga þau frá útreiknuðum sparnaði kærenda.

Þá hafa einnig verið lagðar fram kvittanir vegna ökunáms dóttur kærenda að fjárhæð 120.000 krónur og námsgjalda að fjárhæð 103.200 krónur. Hvorugt telst nauðsynlegt til að sjá kærendum og fjölskyldu þeirra farborða og verður því ekki tekið tillit til þessara útgjalda við útreikning á sparnaði kærenda í greiðsluskjóli.

Einnig hafa kærendur framvísað reikningum vegna áburðar, flutninga, rafstöðvar, viðgerðarsetts o.fl. samtals að fjárhæð 568.793 krónur. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að þessi útgjöld hafi verið þeim nauðsynleg til framfærslu og verður því ekki tekið tillit þeirra.

Enn fremur hefur verið framvísað hreyfingalista skuldunauta frá F á nafni kæranda A fyrir tímabilið 1. janúar 2011 til 31. ágúst 2016. Samkvæmt listanum hefur kærandinn greitt reikninga útgefna af F að fjárhæð 5.858.795 krónur á tímabilinu. Engar upplýsingar liggja fyrir um þær vörur sem verið er að greiða fyrir og því getur listinn ekki talist sýna fram á óvænt útgjöld eða útgjöld umfram framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara.

Hins vegar hafa kærendur lagt fram eftirtalda reikninga og með þeim sýnt fram á aukinn kostnað, sbr. það sem greinir hér að framan, sem tekið verður tillit til við útreikning á sparnaði þeirra:

Hvað greitt/keypt Fjárhæð
Tryggingar umfram 435.204
framfærsluviðmið
Viðgerð og varahlutir Z 25.618
Viðgerð á þvottavél 46.118
Kaup á þvottavél 74.995
Aukin ökuréttindi 325.000
Hjálpartæki 18.700
Rúm 69.899
Lyf fyrir dýr 4.046
Gerð skattframtals 16.498
Vörur vegna fermingar 7.695
Sjónvarp 69.995
Leiga á sal vegna fermingar 20.440
Fermingarfræðsla 9.300
Vinna og efni vegna 236.599
viðgerðar á húsnæði
Gleraugu 35.000
Fartölva 105.150
Samtals: 1.065.053

Þegar ofanritaðar upplýsingar eru teknar saman hefðu kærendur átt að leggja fyrir 4.149.785 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Frá þeirri fjárhæð dragast 1.065.053 krónur vegna óvæntra útgjalda eða útgjalda sem voru hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara tiltók. Alls hefðu kærendur því átt að leggja fyrir 3.084.732 krónur. Sparnaður þeirra nemur 555.317 krónum og vantar því 2.529.415 krónur upp á sparnað þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Eins og fram er komið er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til framangreinds, að þeim hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Það hafa þau ekki gert í samræmi við þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt lagaákvæðinu, sbr. framangreinda útreikninga.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum