Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 14/2006:

A

gegn

sýslumanninum á Húsavík

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 16. apríl 2007 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 9. nóvember 2006, var óskað eftir því að hálfu Stéttarfélags lögfræðinga, f.h. A, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort mismunur á launagreiðslum til A, sem sýslumannsfulltrúa við embætti sýslumannsins á Húsavík, og karlkyns sýslumannsfulltrúa fælu í sér mismunun sem bryti í bága við ákvæði laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt meðfylgjandi gögnum var kynnt sýslumanninum á Húsavík með bréfi, dags. 14. nóvember 2006. Umsögn sýslumannsins ásamt fylgigögnum barst með bréfi, dags. 27. nóvember 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri.

Með bréfi til sýslumannsins á Húsavík, dags. 28. nóvember 2006, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir afriti launaseðla kæranda og þess karlkyns fulltrúa sem hún bar laun sín saman við fyrstu níu mánuði ársins 2006. Umbeðin gögn bárust nefndinni með bréfi, dags. 6. desember 2006.

Athugasemdir kæranda við umsögn sýslumannsins á Húsavík ásamt fylgigögnum bárust með bréfi, dags. 14. desember 2006. Frekari fylgigögn bárust með tölvupósti, dags. 14. desember 2006. Sýslumanninum voru sendar athugasemdirnar ásamt gögnum til kynningar með bréfi, dags. 15. desember 2006.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði með bréfi, dags. 20. desember 2006, eftir frekari útskýringum á skjali sem fól í sér samanburð á launum kæranda og samstarfsmanns hennar og fylgt hafði athugasemdum kæranda, dags. 14. desember 2006. Óskað var eftir því að yfirvinna yrði sundurgreind í unna yfirvinnu og fasta óunna yfirvinnu. Einnig var óskað eftir því að ef um sérstakar greiðslur væri að ræða, svo sem launaleiðréttingar, þá væri þeirra sérstaklega getið. Umbeðnar skýringar bárust með tölvupósti, dags. 9. janúar 2007, og voru þær sendar sýslumanninum á Húsavík til kynningar með bréfi, dags. 25. janúar 2007.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði jafnframt með bréfi, dags. 20. desember 2006, eftir gögnum frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Óskað var eftir upplýsingum um hvert væri fyrirkomulag kjara staðgengils sýslumanns við embætti sýslumanna þar sem löglærðir fulltrúar væru þrír eða færri. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um það hvort staðgenglar sýslumanna nytu sérstakrar umbunar fyrir það hlutverk sitt og hvort sú umbun væri fólgin í almennum kjörum viðkomandi starfsmanns þannig að hann raðaðist í hærri launaflokk, nyti fastrar yfirvinnu eða annars konar greiðslna eða hvort sá háttur væri hafður á að viðkomandi starfsmaður nyti kjara sýslumanns þegar hann leysti hann af. Umbeðin gögn bárust nefndinni eftir ítrekun, dags. 17. janúar 2007, með bréfi, dags. 22. janúar 2007, og voru þau send kæranda og sýslumanninum á Húsavík til kynningar með bréfum, dags. 25. janúar 2007.

Athugasemdir sýslumannsins á Húsavík bárust með bréfi, dags. 7. febrúar 2007, og voru þær sendar kæranda til kynningar. Tölvupóstur barst frá kæranda, dags. 20. febrúar 2007, þar sem fram kom að kærandi gerði ekki frekari athugasemdir í málinu heldur vísaði til fyrri athugasemda sinna.

 

II.

Málavaxtalýsing

Þann 1. janúar 2002 hóf kærandi störf sem fulltrúi við embætti sýslumannsins á Húsavík þar sem hún hafði umsjón með opinberum málum, sifjamálum, þinglýsingum og firmaskrá. Kærandi þiggur laun samkvæmt launaflokki B að viðbættum 40 óunnum yfirvinnutímum á mánuði og orlofi. Þann 1. júlí 2004 hóf karlmaður, S, störf sem fulltrúi við embættið og var honum falið að sinna opinberum málum og sifjamálum auk umsjónar með dánarbúum og fjárnámum. Að sögn sýslumanns var honum síðar falið starf staðgengils. Þegar S var ráðinn mun hann hafa haldið óbreyttum þeim kjörum sem hann hafði í fyrra starfi sínu hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, þ.e. laun samkvæmt launaflokki C. Laun S voru síðan hækkuð í launaflokk D þann 1. nóvember 2005, sem að sögn sýslumanns tengdist því að honum hafi verið falið að gegna starfi staðgengils sýslumanns.

Kærandi telur sér vera mismunað þar sem henni hafi verið greidd lægri laun en S fyrir jafnverðmætt og sambærilegt starf. Kærandi segist hafa vissu fyrir því að töluverður munur sé á launum hennar og S. Þennan launamun sé að mati kæranda ekki hægt að skýra með öðru en kynferði.

Sýslumaðurinn á Húsavík heldur því fram að störf kæranda og S séu ekki sambærileg og jafnverðmæt. Sá munur sem sé á launagreiðslum til kæranda og S sé mun minni en haldið sé fram í kærunni auk þess sem hann skýrist af málefnalegum ástæðum sem ekkert hafi með kynferði umræddra starfsmanna að gera.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi sé fædd árið 1968 og hafi útskrifast sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995. Hún hafi aflað sér málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi árið 2000 og lokið meistaranámi í alþjóðlegum samanburðarrétti frá Háskólanum í Miami árið 2001 (LL.M). Auk þess hafi hún hlotið diplóma í alþjóðarétti árið 1999 frá hebreska háskólanum í Jerúsalem (Certificate in International Studies). Árin 1993 og 1994 hafi hún verið í námsvist hjá sýslumanninum í Reykjavík. Hún hafi verið í starfsnámi hjá Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg frá september til desember árið 2001. Árið 1996 hafi hún verið aðstoðarmaður Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við Háskóla Íslands, og svo starfað hjá skattstjóranum í Reykjavík árin 1997 til 2000. Samhliða störfum sínum hjá sýslumanninum á Húsavík hafi hún sinnt stundakennslu í samanburðarréttarfari við Háskólann á Akureyri. Auk þess hafi kærandi stundað ýmis ritstörf og sé með kunnáttu í dönsku, ensku, frönsku, þýsku, auk nokkurrar kunnáttu í ítölsku.

Í kærunni segir um S að hann sé fæddur árið 1974 og hafi útskrifast sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999. Frá 1. október 1999 til 30. apríl 2001 hafi hann starfað sem fulltrúi á lögfræðistofunni E sf. Hann hafi aflað sér málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi árið 2000 og stundað nám í afbrotafræði og refsirétti við Glasgow Graduate School of Law haustið 2002 en ekki lokið prófgráðu. Auk þess hafi hann verið í námsvist hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 1997. Áður en hann hóf störf hjá sýslumanninum á Húsavík hafi hann verið fulltrúi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík í tvö ár frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2004. Hann hafi tekið sér árshlé á þessu tímabili á meðan hann dvaldi við nám í Skotlandi auk þess sem hann starfaði hjá saksóknaraembættinu í Glasgow frá maí til ágúst árið 2003. Um tungumálakunnáttu S segir að hann kunni ensku og dönsku auk þess að hafa nokkra kunnáttu í þýsku.

Að sögn kæranda óskaði hún sjálf óformlegra skýringa á því við sýslumanninn í hverju launamunur hennar og S væri fólginn. Fékk hún þær skýringar að S hefði haldið þeim launum sem hann var með í starfi sínu hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Þegar hún hafi svo óskað leiðréttingar launa sinna til samræmis við S hafi hún fengið þau svör að hún þyrfti enga launahækkun, hún hefði ágætis laun. Hafi hún þá leitað til Stéttarfélags lögfræðinga, en kærandi og S eru bæði félagsmenn í stéttarfélaginu og taka laun samkvæmt kjarasamningi félagsins við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2006, hafi stéttarfélag kæranda, með vísan til 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, óskað eftir skriflegum rökstuðningi fyrir meintum kynbundnum kjaramun. Samkvæmt upplýsingum stéttarfélagsins hafi S F krónum hærri dagvinnulaun á mánuði en kærandi.

Í rökstuðningi sýslumannsins á Húsavík til Stéttarfélags lögfræðinga, dags. 12. september 2006, hafi hann ekki mótmælt því að mismunur sé á launum S og kæranda en skýrt þann mun með sitthvorum uppruna kjara þeirra þar sem samið hafi verið beint við kæranda á þeim nótum sem tíðkast hafði um langt árabil hjá löglærðum fulltrúum embættisins. Samið hefði verið um tiltekinn launaflokk og tiltekinn fjölda óunninna yfirvinnustunda. S hafði hins vegar verið ráðinn á þeim kjörum sem um hafði verið samið í fyrra starfi hans hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík en þar hafði sá hluti kjara hans sem falist hafði í óunninni yfirvinnu verið felldur inn í föst laun. Af þessu tvennu skýrist launamunur og hafi það ekkert með kynferði að gera.

Í bréfinu vísi sýslumaður jafnframt til þess að vinna við stofnanasamninga standi yfir og að nefnd á vegum Sýslumannafélags Íslands fari með samningsumboð fyrir embætti hans. Þeirri samningsgerð sé ekki lokið og að hann ætli að það kunni að vera ástæðan fyrir því að þessi tvenns konar launakerfi hafi ekki verið samræmd, hvorki hjá embætti hans né annars staðar þar sem samningarnir eigi við. Þá telji hann engin formleg tilefni hafa gefist til endurskoðunar á launakjörum kæranda, svo muni ekki verða fyrr en stofnanasamningurinn liggi fyrir. Í lok bréfsins nefni sýslumaður að hann hafi falið S að gegna starfi staðgengils síns.

Kærandi telur að með því að ákvarða henni lægri laun fyrir jafnverðmætt og sambærilegt starf og karlkyns starfsmaður embættisins gegni hafi sýslumaðurinn á Húsavík brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skuli konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000 skuli greiða konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Um þetta megi einnig vísa til 69. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 og 1. gr. tilskipunar nr. 75/117/EBE.

Kærandi byggir á því að starf hennar sé jafnverðmætt og sambærilegt og starf S. Vísar hún til þess að þau séu bæði lögfræðimenntuð, verksvið þeirra sé sambærilegt og vinnuframlag þeirra ámóta. Hún sé þar að auki með meiri menntun en S, hann sé sex árum yngri og hafi fjögurra ára skemmri prófaldur og þar af leiðandi minni starfsreynslu, auk þess sem starfsaldur hennar hjá embættinu sé lengri. Þannig megi halda því fram að hún eigi að vera hærra launuð en S séu þeir þættir teknir inn í ákvörðun launa.

Að sögn kæranda hefur hún vissu fyrir því að töluverður munur sé á launum hennar og S, eða F krónur á mánuði í dagvinnulaun, og þeim launamun hafi ekki verið mótmælt af hálfu sýslumanns. Þennan launamun sé að mati kæranda ekki hægt að skýra með öðru en kynferði. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og hafi það verið margstaðfest í dómum Hæstaréttar.

Að mati kæranda sé það ekki hlutlæg og málefnaleg skýring á mismunandi kjörum kæranda og S að S hafi haldið óbreyttum launakjörum sem hann var með hjá lögreglustjóranum í Reykjavík þegar hann hóf störf við embætti sýslumannsins á Húsavík. Röksemdum sýslumanns að launamunurinn stafi af því að stofnanasamningum sé ólokið sé einnig hafnað sem hlutlægum og málefnalegum ástæðum fyrir launamuninum. Stofnanasamningar tryggi almennt að málefnaleg rök séu fyrir mismunandi grunnlaunum, svo sem vegna viðbótarmenntunar og hærri próf- og starfsaldurs. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum hnígi öll rök að því að kærandi ætti að vera á hærri launum en S.

Kærandi telur að sýslumanninum á Húsavík standi það nær að sýna fram á að umrædd mismunun stafi af öðru en kynferði og krefst hún þess að við úrlausn málsins verði beitt sönnunarreglu 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000.

Að mati kæranda geti það alls ekki talist málefnalegur og hlutlægur rökstuðningur fyrir launamun kæranda og S að vísa til meintra bresta í kjarasamningsgerð sýslumannsembætta líkt og sýslumaðurinn geri. Þá vísar kærandi þeim röksemdum sýslumanns á bug að sá munur sem sé á launagreiðslum til kæranda og S sé að miklu mun minni en haldið sé fram í kæru. Eins og fram komi í greinargerð sýslumanns sé kærandi í launaflokki B sem nemi G krónum á mánuði en S hafi við ráðningu verið skipað í launaflokk C sem nemi H krónum á mánuði. S hafi síðan verið færður í launaflokk D sem nemi I krónum í mánaðarlaun. Þegar heildarlaun séu skoðuð frá árunum 2004 til 2006 hafi kærandi einungis í fimm tilvikum af þrjátíu og fjórum hærri heildarlaun en S.

Þó S hafi verið staðgengill sýslumanns síðastliðna mánuði réttlæti það ekki með nokkru móti þann mikla mun sem sé á launum kæranda og S, hvorki eins og hann sé í dag né heldur hvernig hann hafi verið allt frá ráðningu S. Sýslumaður hafi meðal annars vísað til þessa staðgengilsstarfs sem málefnalega forsendu fyrir launamuninum. Stéttarfélag kæranda og S hafi þann 28. ágúst 2006 sent bréf til félagsmanna sinna þar sem meðal annars hafi verið óskað eftir upplýsingum um hvort félagsmenn væru staðgenglar sýslumanna. Í svarbréfi S til félagsins, dags. 1. september 2006, hafi hann merkt sérstaklega við að hann væri ekki staðgengill sýslumanns og greint frá því að helstu verkefni sín væru opinber mál, dánarbú og fullnustugerðir. Skömmu síðar, eða þann 20. september 2006, hafi S leiðrétt upplýsingar sínar og kvaðst hafa gegnt hlutverki staðgengils frá 1. nóvember 2005. Samkvæmt upplýsingum frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi engin formleg tillaga borist frá sýslumanninum á Húsavík til ráðuneytisins um að fela S að vera staðgengill sýslumanns eins og verið hafi vegna fyrri staðgengils. Í samningi Stéttarfélags lögfræðinga sé eins launaflokks hækkun viðmiðið fyrir að vera staðgengill. Samkvæmt nýundirrituðum stofnanasamningi við sýslumenn raðist staðgenglar sýslumanna einum launaflokki ofar en ella sem þýði um 15.000 króna hærri mánaðarlaun borið saman við aðra löglærða fulltrúa. Þá ætti kærandi að fá einn aukalaunaflokk til hækkunar fyrir meistarapróf sitt sem hún hafi til viðbótar cand. jur. prófi.

Kærandi hafi frá því hún hóf störf hjá sýslumannsembættinu óskað eftir því að vera staðgengill sýslumanns. Ástæðan fyrir því sé sú að forverar hennar í starfi hafi báðir gegnt stöðu staðgengils. Kærandi sinni sömu verkefnum og forverar hennar gerðu að því undanskildu að sýslumaður sjái nú um nauðungarsölur. Á móti komi að fjöldi lögreglumála sem kærandi hafi á hendi hafi hins vegar aukist. Sýslumaður hafi frá því að kærandi hóf störf ekki tekið í mál að kærandi gerðist staðgengill sinn. Kærandi hafi í byrjun starfs síns hjá sýslumanni verið eini fulltrúinn í fullu starfi. Ástæður þær sem sýslumaður hafi nefnt fyrir því að gera kæranda ekki að staðgengli sínum séu að staðgengilsskipanir undanfarinna ára hafi skapað óánægju hjá öðrum fulltrúa við embættið. Eins hafi sýslumaður sagt að það væri engin ástæða til þess að tilnefna staðgengil því að sýslumaður hefði á að skipa svo góðu starfsfólki og að hún hafi ekki haft mikla reynslu af störfum við sýslumannsembættið. Þetta hafi hann sagt um mitt árið 2004 þegar kærandi hafi verið búin að starfa við embættið í tvö og hálft ár.

Að mati kæranda á sá málatilbúnaður sýslumanns að framhaldsnám hennar hafi lítið gildi og tilvísun hans til dóms Hæstaréttar í máli nr. 330/2003 ekki við rök að styðjast. Tilvitnaður hæstaréttardómur hafi ekkert gildi í því máli sem hér um ræðir þar sem menntunarmatið sem fram fór var vegna stöðuveitingar en ekki vegna launamisréttis sem sé tilefni þessarar kæru. Þá megi nefna að reynsla og menntun kæranda hljóti að hafa verið jafn mikilvægur þáttur við ráðningu til sýslumannsembættisins á sínum tíma, rétt eins og þegar S hafi verið ráðinn. Því sé vísun sýslumanns til starfsreynslu S hjá lögreglustjóranum í Reykjavík ekki málefnaleg ástæða fyrir launamuninum.

Að mati kæranda hefur sýslumanni ekki með neinu móti tekist að sýna fram á að launamunur kæranda og karlkyns lögfræðings í jafnverðmætu og sambærilegu starfi stafi af öðru en kynferði, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000. Þá telur kærandi að sýslumanni hafi ekki tekist að sýna fram á að starf S sé verðmætara og reyndar sé það mat kæranda að miðað við menntun, starfsaldur og reynslu sé starf kæranda verðmætara. Með vísan til framangreindra athugasemda við greinargerð sýslumannsins á Húsavík og röksemda í kæru, dags. 9. nóvember 2006, óskar kærandi eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki kæruna til meðferðar.

 

IV.

Sjónarmið sýslumannsins á Húsavík

Af hálfu sýslumannsins á Húsavík er á því byggt að sá munur sem er á launagreiðslum til kæranda og karlkyns fulltrúans við embættið sé miklu mun minni en haldið er fram í framkominni kæru og skýrist af málefnalegum ástæðum sem ekkert hafi með kynferði umræddra starfsmanna að gera.

Í bréfi sýslumanns, dags. 12. september 2006, til Stéttarfélags lögfræðinga sé rakið hvernig kjör umræddra tveggja fulltrúa við embættið séu til komin. Grundvöllur kjara kæranda sé hinn sami og hafi gilt fyrir þá fulltrúa sem áður hafi starfað hjá embættinu og hafi byggst á stofnanasamningi frá árinu 1997, þ.e. tiltekinn launaflokkur í samræmi við stofnanasamninginn, nú X að fjárhæð G krónur, að viðbættum 40 óunnum yfirvinnustundum á mánuði, nú J krónur, og orlofi 13,04%, nú K krónur, eða samtals í dagvinnulaun L krónur. Sá stofnanasamningur var til endurskoðunar og til hafi staðið að gera nýjan sem taka átti gildi 1. maí 2006. Sú stefna sem mörkuð var með stofnanasamningnum 1997 hafi raskast og kjaraákvarðanir fyrir hina ýmsu löglærðu fulltrúa hjá lögreglustjóra- og sýslumannsembættum smátt og smátt farið í ýmsar áttir.

Sýslumaður hafi staðið frammi fyrir ofangreindum brestum í kjarasamningsgerð sýslumannsembætta og löglærðra fulltrúa þegar að því hafi komið á árinu 2004 að ráða nýjan fulltrúa til starfa við embættið. Hafi sýslumaður því fallist á að S myndi halda þeim kjörum sem hann hafði hjá lögreglustjóranum í Reykjavík sem síðar hafi verið hækkuð þegar sýslumaður fól S að gegn starfi staðgengils síns. Þegar lýst ráðningarkjör kæranda og S séu skoðuð, þ.e. áður en S varð staðgengill sýslumanns, liggi fyrir að kjör S hafi verið eilítið verri en kæranda hvað dagvinnu varðaði. Hins vegar hafi hin mismunandi samsetning dagvinnulauna leitt af sér nokkuð hærra tímagjald fyrir unna yfirvinnu S og gæsluvaktir heldur en kærandi hafi notið.

Vegna þeirra aðstæðna sem lýst er að framan hafi legið fyrir að nauðsynlegt væri að samræma kjör allra þeirra sem áðurnefndur stofnanasamningur tók til. Því hafi ekki verið forsendur til að endurskoða kjör kæranda fyrr en stofnanasamningur lægi fyrir, en hann var undirritaður 11. desember 2006. Í kjölfar hans og kjarasamnings sem undirritaður hafi verið 8. febrúar 2005 sé kominn á nauðsynlegur grundvöllur undir einstaklingsbundnar kjaraákvarðanir.

Sýslumaður hafi vakið athygli kæranda og talsmanns hans á þessu og lýst vilja sínum til að ganga frá slíkri ákvörðun með samningi svo sem stofnanasamningurinn geri ráð fyrir. Talsmaður hafi svarað sýslumanni með bréfi sem honum hafi virst vera þess efnis að þessi samningsgerð væri óviðkomandi þeim ágreiningi um launakjör kæranda sem hér hafi verið lagður fyrir kærunefnd jafnréttismála. Sé sá skilningur réttur sé sýslumaður honum ósammála. Samkomulag um launaákvörðun fyrir kæranda á grundvelli stofnanasamningsins hefur ekki náðst og hefur þeim ágreiningi verið skotið til samstarfsnefndar samkvæmt ákvæðum stofnanasamningsins.

Sýslumaður vill taka það sérstaklega fram að það sé rangt hjá kæranda að hann hafi látið þau orð falla við hana að hún þyrfti enga launahækkun, hún hefði ágætis laun. Svar sýslumanns við munnlegri athugasemd kæranda um miðjan ágúst síðastliðinn hafi verið efnislega að rétt væri að bíða eftir niðurstöðu samningaviðræðna um stofnanasamning áður en afstaða yrði tekin til þess hvort efni stæðu til þess að breyta ráðningarkjörum kæranda.

Í framkominni kæru sé meðal annars að finna útlistun kæranda á vinnuframlagi sínu. Af því tilefni vill sýslumaður taka fram að þegar kærandi hafi komið til starfa hafi staðið til að hún tæki við starfi fyrirrennara síns og henni því ætlað hafa yfirsýn og umsjón með opinberum málum, þinglýsingum og sifjamálum. Þar sem kærandi hafi verið óvön á þessum starfsvettvangi hafi þess vart verið að vænta að hún gæti umsvifalaust ráðið við öll þau verkefni sem þessu starfi tilheyrðu. Að teknu tilliti til þess hafi sýslumaður sjálfur tekið nauðungarsölur í sínar hendur. Ætlun sýslumanns hafi hins vegar verið sú að kærandi tæki smátt og smátt við auknum verkefnum þar til starf hennar væri orðið sem líkast starfi fyrirrennara hennar. Þetta hafi ekki orðið raunin heldur fremur sú að þau verkefni sem starfinu hafi áður tilheyrt hafi dreifst á fleiri hendur. Þá hafi ekki verið tilefni til að bæta nauðungarsölum á kæranda og hann ekki haft frumkvæði að því að taka við málaflokknum.

Atbeina sýslumanns að þinglýsingarverkefnum lýsi kærandi svo að sýslumaður leysi hann af í forföllum hans. Þar sé ekki öll sagan sögð. Nákvæmari lýsing á verkaskiptingu við þinglýsingar sé að mati sýslumanns sú að tæknileg yfirsýn, heildarumsjón og langflest afgreiðsluverkefni séu í höndum ólöglærðs starfsmanns. Heildarfyrirsvar málaflokksins og framkvæmd flóknari og umfangsmeiri þinglýsingarverkefna, sem nauðsynlegt er að lögfræðingur komi að, hafi fallið á sýslumann og annist hann þau sjálfur og veiti þær skýringar og upplýsingar úr þinglýsingarbókum sem ekki sé á færi ólöglærðra starfsmanna að átta sig á. Þá hafi aðrar leiðbeiningar og stuðningur við þá komið í hlut sýslumanns. Kærandi áriti hins vegar þinglýsingarskjöl um innfærslu og sé ætlað að ljúka frágangi tölvuvinnslu í þingalýsingarvettvangi Landsskrár fasteigna. Verkefnum við firmaskrá hafi farið fækkandi undanfarin ár og viti sýslumaður ekki til þess að kærandi hafi fengið viðfangsefni við þann málaflokk svo neinu nemi.

Eins og hér hafi verið gerð grein fyrir hafi kærandi ekki tekið við nema hluta þeirra verkefna sem fyrirrennarar hennar, sem bjuggu við sams konar launakjör, hafi haft með höndum og hafi hún síðan hvorki leitað eftir né bætt á sig nýjum verkefnum.

Ætla megi af málsatvikalýsingu í kærunni að sérhæfing eftir málaflokkum sé lýsandi skilgreining á starfsskyldum löglærðra fulltrúa. Störf á sýsluskrifstofu séu hins vegar þess eðlis að þau spanni fjölmörg lögfræðileg sérfræðisvið og því ekki hægt að koma við nema leiðbeinandi afmörkun í verkaskiptingu. Mikilvægt hlutverk löglærðra fulltrúa sé að stuðla að því eftir föngum í góðu samstarfi við aðra starfsmenn að upplýsa um og tryggja lögfræðilega rétta stjórnsýslu auk þess að upplýsa viðskiptamenn um ýmis lagaatriði.

Sýslumaður hafi undanfarin ár verið að vinna að því að móta og hrinda í framkvæmd formlegum skipulagsbreytingum við embættið og hafi hann sérstaklega falið S, staðgengli sínum, að vinna að þessu verki með sér auk annarra sérhæfðra verka. Staðfesting dómsmálaráðuneytisins liggi ekki fyrir á staðgengilshlutverki S en í þeim tilvikum þegar sýslumaður hefur verið algerlega forfallaður, eins og vikið er að í greinargerð kæranda, hafi sýslumaður fengið formlega staðfestingu ráðuneytisins vegna staðgengils síns.

Hvað umfjöllun kæranda um menntun sína og S varði þykir sýslumanni rétt að benda á, án þess að með því sé á nokkurn hátt ætlunin að gera lítið úr menntun kæranda, að nám það sem kærandi stundaði eftir lagapróf tengist viðfangsefnum þeim sem hún hafi með höndum í starfi sínu við embættið í besta falli með fjarlægum hætti. Í þessu sambandi vísi sýslumaður til dóms Hæstaréttar í máli nr. 330/2003.

Þá þyki sýslumanni einnig rétt að benda á að starfsreynsla S fyrir ráðningu til embættisins, þ.e. starf hans hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, hafi verið mikilvægur þáttur í þeirri ákvörðun sýslumanns að ráða S til embættisins en ekki aðra umsækjendur, enda sé starfsreynslan á sviði sem sífellt hafi orðið fyrirferðarmeira í starfsemi embættisins.

Eins hafi sýslumaður ítarlega rakið liggi fyrir með skýrum hætti, og tryggilega stutt gögnum, af hvaða ástæðum ráðningarkjör kæranda og S séu misjafnlega uppbyggð. Þá hafi sýslumaður einnig sýnt fram á að laun kæranda fyrir dagvinnu hafi verið eilítið hærri en S þegar hann hóf störf við embættið. S hafi verið ákveðin nokkuð hærri laun fyrir dagvinnu þegar sýslumaður hafi falið honum að vera staðgengill sinn. Til þess hafi hann haft fulla heimild og sá munur dagvinnulauna sem af þessu stafi sé fyllilega málefnalegur og eðlilegur. Sýslumaður getur þess einnig að umræddur munur á uppbyggingu kjara kæranda og S fyrir dagvinnu hafi leitt til þess að tímagjald fyrir unna yfirvinnu og gæsluvaktir hafi orðið nokkuð hærra hjá S en kæranda. Að öllu þessu virtu liggi fyrir að sá munur sem sé á launakjörum S og kæranda skýrist af allt öðrum þáttum en kynferði. Tilvitnuð 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000 eigi því ekki við í málinu.

Telji kærunefndin, þrátt fyrir framangreint, að nefnt ákvæði laga nr. 96/2000 eigi við í málinu hafa verið færð rök fyrir því að launamunurinn sé mun minni en kærandi haldi fram, auk þess sem hann eigi sér málefnalegar skýringar sem lúti að vinnuframlagi umræddra starfsmanna og umfangi starfa þeirra.

Kærandi hafi ekki uppfyllt væntingar þær sem sýslumaður hafi haft til hennar í starfi. Því hafi verið ljóst að boð um einhvers konar hækkun launa hefði gefið röng skilaboð og ekki stuðst við nauðsynlegar forsendur. Áður en að því kæmi hefði þurft að fara fram viðfangsefna- og frammistöðumat. Með tilliti til þess að kærandi hafi ekki farið formlega fram á breytingar á þeim launakjörum sínum sem þá hafi gilt hafi ekkert tilefni verið til breytinga. Eins hafi sýslumaður ekki haft, með tilliti til þess hvernig kærandi hafi leyst starfsskyldur sínar af hendi, tilefni til að hafa frumkvæði að endurskoðun þeirra.

Af hálfu kæranda sé að því vikið að hún hafi leitað eftir því að vera staðgengill sýslumanns. Þótt sýslumaður hafi upphaflega gert ráð fyrir að koma myndi að því hafi hann strax í upphafi starfsferils kæranda við embættið talið sig verða varan við að henni hrysi hugur við því að taka það hlutverk að sér og það myndi reynast henni ofviða. Samskipti kæranda við annað starfsfólk hafi verið stirð og án tilætlaðs árangurs. Í bréfi sýslumanns til samstarfsnefndar um stofnanasamning sé sérstaklega lýst hvernig upp úr samskiptum við lögreglumenn embættisins hafi slitnað. Áður sé því lýst að samstarf og hlutur kæranda í umsjón og framkvæmd þinglýsinga sé ekki eins og að hafi verið stefnt. Nálgun kæranda á viðfangsefni sín hafi leitt til þess að sýslumaður þurfti að leita annarra lausna í starfsháttum embættisins. Ein þeirra hafi verið sú að fela S staðgengilsstarfið.

Sýslumaður mótmælir því að kjör S hafi verið ákveðin með einhliða ákvörðun sýslumanns. S hafi á sínum tíma verið einn þriggja umsækjenda um starf fulltrúa við embætti sýslumanns og sá sem hann hafi talið hæfastan eftir að hafa rætt við umsækjendur og farið yfir þau gögn sem umsóknum þeirra fylgdu. Sýslumaður hafi því næst hafið viðræður við S um ráðningarkjör hans og liggi niðurstaðan úr þeim viðræðum fyrir í málinu. Það sé því misskilningur hjá kæranda að sýslumaður hafi ákveðið kjör S einhliða.

Að endingu vill sýslumaður hnykkja á því að það sé kærandi sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að störf hennar og S séu og hafi verið jafnverðmæt og sambærileg. Sýslumaður telur að kæranda hafi ekki tekist slík sönnun. Með vísan til þess sem að framan sé rakið telur sýslumaður þvert á móti að fram sé komið í málinu að starf kæranda sé ekki jafnverðmætt og sambærilegt og starf S. Sönnunarreglu 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000 verði því ekki beitt í málinu. En jafnvel þótt nefndin telji regluna eiga við telur sýslumaður að af sinni hálfu hafi verið sýnt fram á að sá munur sem sé á kjörum kæranda og S stafi af öðru en kynferði.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Af ákvæðinu má ráða að störf þau sem um ræðir þurfa að teljast vera jafnverðmæt og sambærileg. Að fenginni niðurstöðu um að störfin séu það ber atvinnurekandi sönnunarbyrðina fyrir því að málefnalegar forsendur en ekki kynferði séu fyrir launamun ef honum er til að dreifa.

Í máli þessu er um það deilt hvort störf kæranda sem starfar sem sýslumannsfulltrúi við embætti sýslumannsins á Húsavík hafi verið jafnverðmæt og sambærileg störfum karlkyns sýslumannsfulltrúa við embættið, en því er meðal annars haldið fram í málinu að karlmaðurinn hafi jafnframt gegnt stöðu staðgengils sýslumanns. Kærandi hóf störf við embættið þann 1. janúar 2002 og er á því byggt af hálfu kæranda að karlmaðurinn hafi þegið hærri laun frá því að hann hóf störf við embættið þann 1. júlí 2004. Á því er byggt af hálfu kæranda að þau gegni jafnverðmætu og sambærilegu starfi og að hærri laun karlmannsins verði ekki skýrð með öðru en kynferði hennar.

Af hálfu embættis sýslumannsins á Húsavík hefur sjónarmiðum kæranda verið andmælt og á því byggt að umrædd störf séu ekki sambærileg og jafnverðmæt, auk þess sem launamunurinn skýrist af málefnalegum sjónarmiðum. Við ráðningu kæranda hafi laun hennar verið ákvörðuð eftir þeim kjarasamningum sem í gildi voru á þeim tíma, en þar hafi verið miðað við föst mánaðarlaun auk greiðslu fyrir óunna yfirvinnu. Hins vegar hafi við ráðningu karlmannsins verið samið um að hann héldi þeim launum sem hann hafði haft í starfi hans hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík, en inn í föst laun hans þar hafi verið felldar greiðslur vegna óunninnar yfirvinnu. Laun karlmannsins hafi svo hækkað þegar sú ákvörðun hafi verið tekin að gera karlmanninn að staðgengli sýslumanns. Þá er jafnframt byggt á því að vinnuframlag og umfang starfs karlmannsins hafi verið meira en kæranda og á því hafi launamunurinn grundvallast, auk annarra atriða sem tengjast því að gerð stofnanasamnings hafi ekki verið lokið.

Um sýslumenn gilda lög nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Þar kemur fram í 1. gr. að sýslumenn fara hver í sínu umdæmi með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Samkvæmt 6. gr. laganna getur dómsmálaráðherra að tillögu sýslumanns kveðið á um skiptingu sýslumannsembættis í deildir eftir verkefnum. Þá er einnig heimilt að ráða sérstaka deildarstjóra sem veita viðkomandi deildum forstöðu á ábyrgð sýslumanns. Séu starfsdeildir við sýslumannsembætti fleiri en ein skal einn deildarstjóra teljast staðgengill sýslumanns enda fullnægi hann hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembættið. Í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að við sýslumannsembættið skuli að auki vera það starfslið sem sýslumaður telur þörf á.

Við meðferð málsins hefur kærunefnd jafnréttismála óskað eftir upplýsingum um það fyrirkomulag sem tíðkast við ákvörðun kjara staðgengla sýslumanna. Í svari fjármálaráðuneytisins frá 22. janúar 2007 kom fram að löglærðir fulltrúar sýslumannsembætta fá greidd laun eftir kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og fari um launaákvarðanir þeirra samkvæmt stofnanasamningi sem gerður er á grundvelli 11. kafla kjarasamningsins, en að auki sé gerður sérstakur stofnanasamningur milli sýslumannsembættanna og stéttarfélaga. Í 9. kafla stofnanasamnings þess sem tekur til starfa kæranda komi fram að ekki þurfi að jafnaði að fela starfsmanni sérstaklega að gegna starfi yfirmanns nema fjarvera yfirmanns vari lengur en sjö vinnudaga samfellt. Í grein 9.2.1 komi fram að sé aðalstarf starfsmannsins launað sem staðgengilsstarf beri starfsmanninum laun eftir launaflokki hans ef hann gegni starfi yfirmanns lengur en fjórar vikur samfellt eða hann hafi gegnt starfi yfirmanns lengur en sex vikur á hverjum tólf mánuðum. Sé starfsmaður hins vegar ekki í stöðu staðgengils yfirmanns, en er samt sem áður falið að gegna störfum hans í forföllum, þá þiggi hann laun eftir launaflokki hins forfallaða starfsmanns þann tíma sem hann gegnir starfi hans. Í svari fjármálaráðuneytis kemur fram að staðgengill sýslumanns raðist almennt einum flokki ofar en hann myndi ella raðast samkvæmt gildandi stofnanasamningi. Sambærilegt ákvæði hafi verið í bókun með fyrri stofnanasamningi.

Í málinu liggur ekki fyrir formleg tilnefning karlmannsins í stöðu staðgengils sýslumanns. Þá hefur þeirri fullyrðingu kæranda ekki verið mótmælt að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hafi ekki borist tillaga sýslumanns um að fela karlmanninum að vera staðgengill. Í málinu liggur jafnframt fyrir tölvupóstur, dags. 1. september 2006, frá karlkyns lögfræðingi embættisins til stéttarfélags hans og kæranda sem sendur var í kjölfar könnunar stéttarfélagsins á ráðningarkjörum félagsmanna. Í þeim pósti tekur karlmaðurinn það sérstaklega fram að hann sé ekki staðgengill sýslumanns. Tölvupóstur sama starfsmanns, dags. 20. september 2006, liggur einnig fyrir þar sem hann upplýsir að hann hafi gert mistök við gerð framangreinds eyðublaðs, enda hafi hann verið staðgengill sýslumanns frá 1. nóvember 2005.

Við mat á því hvort störf eru jafnverðmæt og sambærileg hefur verið litið til þess hvort þau séu sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði, og því hvort störfunum hafi verið ætlað nokkuð jafnræði í ytri ásýnd. Byggt hefur verið á heildstæðu mati og getur verið um slík störf að ræða, þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Við mat á því á hvort störf kæranda og þess karlmanns sem hún ber kjör sín saman við séu sambærileg og jafnverðmæt í skilningi 2. mgr. 23. gr. laga nr. 90/2000 verður litið til þess að bæði starfa þau sem lögfræðingar hjá embætti sýslumannsins á Húsavík. Ekki hefur verið framkvæmt formlegt starfsmat á störfum lögfræðinganna og starfslýsingar liggja ekki fyrir. Við meðferð málsins hefur komið fram að starfsmennirnir fara báðir með almenna málaflokka embættisins. Hafi kærandi farið með opinber mál, sifjamál, þinglýsingar og firmaskrá. Karlmaðurinn hafi hins vegar farið með opinber mál, sifjamál, skipti dánarbúa og aðfarargerðir. Þá hafi þau að auki bæði sinnt embættisferðum fyrir embættið. Þegar framangreint er virt verður að telja að kærandi hafi leitt verulegar líkur að því að starf hennar og þess karlmanns sem hún ber kjör sín saman við hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði að þau verði að teljast sambærileg og jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga.

Af þeim launaseðlum sem lagðir hafa verið fyrir kærunefndina er ljóst að kærandi hefur fengið lægri laun en karlmaðurinn sem hún ber sig saman við. Hefur sýslumaðurinn á Húsavík borið því við að launamunurinn skýrist af öðru en kynferði þar sem karlmaðurinn hafi verið staðgengill sýslumanns frá 1. nóvember 2005 auk þess sem hann hafi sinnt víðtækari og verðmætari starfsskyldum. Að framan hefur verið gerð grein fyrir því að ekki virðist hafa verið gengið formlega frá ráðningu karlmannsins í stöðu staðgengils, sbr. ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 92/1989. Það hafi hins vegar verið gert á árinu 1999 þegar þáverandi starfsmaður embættisins var ráðinn til að gegna stöðu staðgengils sýslumanns.

Í ljósi þess að enginn samanburður hefur farið fram á inntaki starfa kæranda og þess karlmanns sem hún ber kjör sín saman við verður ekki talið að sýslumanninum á Húsavík hafi tekist að sanna að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið þeim kjaramuni sem er á störfunum. Enda þótt fallist væri á að karlmaðurinn hafi gegnt stöðu staðgengils sýslumanns skýrir það einungis hluta þess munar sem er á kjörum aðilanna þar sem munurinn er meiri en leiðir af umbun fyrir staðgengilshlutverk. Þá er það jafnframt álit kærunefndar að tilvist stofnanasamninga sem gerðir eru á grundvelli kjarasamninga geta ekki réttlætt þann launamun sem um er að tefla í máli þessu.

Með vísan til framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttismála að sýslumaðurinn á Húsavík hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launa til handa kæranda.

 

 

Björn L. Bergsson

Erla S. Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum