Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 289/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 289/2017

Föstudaginn 3. nóvember 2017

A
gegn
umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Þann 8. ágúst 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. júlí 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 23. ágúst 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. september 2017.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi sama dag og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1974. Hann býr ásamt eiginkonu og X börnum í húsnæði eiginkonu að B í C. Kærandi er eigandi íbúðar að D í C. Hann er [...] og starfar hjá E ehf.

Heildarskuldir kæranda eru 35.513.958 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 6. apríl 2017. Kærandi stofnaði til helstu skulda á árinu 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til kaupa á íbúðarhúsnæði á árinu 2007 og launalækkunar.

Kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 1. ágúst 2012 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. janúar 2013 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í ákvörðun umboðsmanns og sérstöku fylgiskjali með henni var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Alls hafa þrír umsjónarmenn komið að máli kæranda. Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. lge.

Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. ágúst 2015. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 25. ágúst 2016 var ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar umboðsmanns að nýju.

Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður öðru sinni 13. janúar 2017. Ákvörðunin var kærð og 4. maí 2017 hnekkti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðuninni og lagði fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar að nýju. Mál kæranda barst því umboðsmanni skuldara til efnislegrar meðferðar enn á ný.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 24. maí 2017. Með bréfinu var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans í þriðja sinn samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi átti í framhaldinu tölvupóstsamskipti við umboðsmann skuldara og lagði fram skýringar og gögn.

Með bréfi til kæranda 24. júlí 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og a-, c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ósammála þeirri fullyrðingu umboðsmanns skuldara að hann hafi ekki innheimt eðlilegt endurgjald fyrir afnot þriðja aðila af fasteign sinni og hafi með því látið af hendi verðmæti sem gagnist geti lánardrottnum sem greiðsla. Kærandi telji sig hafa innheimt eðlilegt endurgjald fyrir afnot af eigninni. Leigjandinn hafi greitt 100.000 krónur á mánuði fyrir utan tvo mánuði þar sem hann hafi fengið að greiða 90.000 krónur. Þá greiði leigjandi 20.000 krónur á mánuði til hússjóðs þannig að hann greiði alls 120.000 krónur á mánuði sem sé eðlileg leiga fyrir þriggja herbergja íbúð D í C, sérstaklega þegar óvíst sé hve lengi afnotin geti staðið.

Líta verði heildstætt á málið. Kærandi hafi lánað íbúð sína árið 2015 þegar búið hafi verið að fella niður greiðsluaðlögun hans. Hann hafi kært það til velferðarráðuneytisins og fengið svör um að niðurstaða kæmi eftir tvo mánuði. Það hljóti að vera eðlilegt að fá 120.000 krónur á mánuði fyrir íbúð þegar afnotin standi í tvo mánuði eða minna. Kærandi hafi ekki haft hugmynd um að bið eftir niðurstöðu kærumáls yrði lengri en tveir mánuðir. Það gefi auga leið að leiguverð fari meðal annars eftir leigutíma. Leigjendur sækist almennt ekki eftir húsnæði sem sé í uppboðsmeðferð eins og eign hans hafi verið. Kærandi hafi haft samband við sýslumann þegar greiðsluaðlögunarumleitanir hans hafi verið felldar niður og verið sagt að þar sem eign hans hafi verið komin á svokallaða framhaldssölu yrði hún seld strax. Kærandi hefði einnig spurt hvort leigjandi hefði einhver réttindi, færi svo að kærandi leigði eignina út. Kæranda hefði verið svarað þannig að svo væri ekki, leigjandi þyrfti að fara strax úr eigninni. Þess vegna hafi kærandi ekki talið forsvaranlegt að leigja fjölskyldu til tveggja mánaða á hæsta mögulega leigugjaldi.

Það sjáist á bréfi umboðsmanns skuldara að hann sé algerlega ómeðvitaður um leigumarkaðinn á Íslandi. Umboðsmaður segi að kærandi hefði átt að leigja eignina út tímabundið eða til skemmri tíma í einu. Kærandi ítreki að það hafi verið búið að vísa honum úr greiðsluaðlögun og hann hafi átt að fá endanlega niðurstöðu innan tveggja mánaða. Kærandi hafi reglulega fengið bréf frá velferðarráðuneytinu þar sem beðist hafi verið afsökunar á drætti málsins og að niðurstöðu mætti vænta innan skamms. Það leigi enginn íbúð á almennum markaði í svona óvissu nema gegn því að leiga sé aðeins lægri en ella.

Umboðsmaður álíti að kærandi hefði getað leigt íbúðina með fyrirvara um sölu hennar. Það sé ekki rétt hjá umboðsmanni. Í fyrsta lagi hafi kærandi ekki ætlað að selja eignina og í öðru lagi hafi ástæðan fyrir því að ekki hafi verið hægt að leigja á hæsta verði verið sú að óvissa hafi verið um lengd leigusamnings. Nú segi umboðsmaður skuldara að leigjandi megi halda áfram að leigja eignina í 12 mánuði eftir nauðungarsölu. Þetta hafi umboðsmaður ekki sagt áður og það sé heldur ekki í samræmi við þær upplýsingar sem kærandi hafi fengið hjá sýslumanni 2015, enda hafi heimild þessa efnis ekki komið í lög fyrr en sumarið 2016. Því líti kærandi þannig á að hann hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að hafa tekjur af eigninni.

Umboðsmaður skuldara sé í mikilli villu um leiguverð íbúðarhúsnæðis á D í C. Embættið vilji miða við meðal leiguverð fyrir C og F. Kærandi telji það almenna vitneskju að íbúð í F sé leigð á mun hærra verði en íbúð í C og hvað þá á D, sem sé eitt ódýrasta svæðið á höfuðborgarsvæðinu. Einnig verði að líta til þess að leiguverð hafi hækkað frá árinu 2015 er kærandi lánaði íbúð sína.

Umboðsmaður telji ósannað að kærandi hafi leigt íbúð sína út þar sem leigjandinn hafi greitt kæranda í peningum en ekki lagt inn á bankareikning. Því álíti umboðsmaður að kærandi hafi haft neikvæðar tekjur um 11.000 krónur. Kærandi skilji ekki af hverju umboðsmaður rengi sig. Það sjáist að kærandi hafi lagt til hliðar svo að það sé ljóst að hann hafi fengið umræddar 100.000 krónur í húsaleigu. Kærandi hafi spurt umboðsmann hvernig hann eigi að sýna fram á þetta með betri hætti en fátt sé um svör. Kærandi sé boðinn og búinn til að gera það sem umboðsmaður óski eftir í þessu sambandi.

Að mati kæranda verði lánardrottnar ekki af greiðslum. Kærandi hafi samviskusamlega lagt til hliðar og það þrátt fyrir að hafa eignast X börn á tímabilinu og gift sig. Hefði hann fengið greidda hærri húsaleigu hefðu lánardrottnar ekki notið þess heldur hefði kærandi greitt samsvarandi fjárhæð til eiginkonu sinnar fyrir afnot af fasteign hennar þar sem þau búi og rekstrarkostnað vegna eignarinnar. Til að tryggja hagsmuni lánardrottna hafi verið ákveðið að kærandi greiddi eiginkonu sinni aðeins það sem hann fengi greitt fyrir útleigu á íbúð sinni. Greiðsla eiginkonu kæranda af veðláni sé 175.000 krónur, fasteignagjöld séu rúmlega 40.000 krónur og hiti og rafmagn 40.000 krónur. Hlutur kæranda sé þannig hærri en 100.000 krónur. Lánardrottnar séu því ekki að verða af neinum fjármunum.

Umboðsmaður skuldara haldi því fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á þá fjárhæð sem hann kveðist hafa lagt til hliðar á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir og með því hafi hann brotið gegn skyldum sínum við greiðsluaðlögun. Þetta telji kærandi bull. Hann sé ekki skyldugur til að geyma fjármuni sína í banka og hafi engan áhuga á að gera það. Kærandi hafi alltaf sýnt fram á það sem hann hafi til ráðstöfunar fyrir lánardrottna með því að leggja inn á bankareikning í stutta stund til staðfestingar og aldrei fengið athugasemd við það. Fjármunir kæranda séu til staðar og standi lánardrottnum til ráðstöfunar.

Þá telji umboðsmaður skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem fyrirliggjandi upplýsingar um ráðstöfunartekjur séu óljósar. Kærandi skilji ekki þetta bull. Hann vísar til þess að eitthvert excel skjal eigi að sýna fram á mun á launum og veltu á bankareikningi. Kærandi hafi veitt umboðsmanni leyfi til að skoða bankareikninga sína, enda hafi hann ekkert að fela. Þar sem hann taki mestan part launa sinna út af bankareikningi um mánaðamót og þurfi stundum að leggja aftur inn á reikninginn þegar líði á mánuðinn, komi líklega fram einhver skekkja. Svo hafi kærandi nokkrum sinnum lagt sparnað sinni inn á reikninginn til að sýna umboðsmanni fram á hann. Þetta hafi ekkert með tekjur kæranda að gera. Kærandi sé launþegi hjá stóru fyrirtæki og öll laun séu gefin upp.

Kærandi gerir athugasemdir við vinnubrögð umboðsmanns skuldara og krefst þess að embættið fái aðfinnslur fyrir slæm vinnubrögð í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Mál kæranda hafi verið lagt fyrir umboðsmann skuldara að nýju eftir kæruferli. Eftir skoðun á málinu hafi embættið komist að þeirri niðurstöðu að greiðsluaðlögun væri óheimil þar sem kærandi hefði brotið gegn skyldum sínum í greiðsluaðlögunarferli. Þá þyki fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda.

Í 12. gr. lge. sé að finna ákvæði um skyldur skuldara á meðan hann leiti greiðsluaðlögunar. Víki skuldari vísvitandi frá þessum skyldum geti slíkt leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Í tilviki kæranda hafi honum borið að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. frá 7. janúar 2013 þegar honum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Í c- og d-liðum 12. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli ekki grípa til umfangsmeiri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem geti gagnast lánardrottnum sem greiðsla, stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Fyrir liggi að kærandi eigi 108,3 fermetra íbúð að D í C. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi hann flutt lögheimili sitt frá D yfir á B í C, sem sé í eigu eiginkonu kæranda, X 2015. Í tölvupósti kæranda til Embættis umboðsmanns skuldara 31. október 2016 hafi hann greint frá því að kunningi hans hefði búið í íbúðinni að D frá því að kærandi flutti þaðan. Kærandi hafi gefið þá skýringu að kunninginn hafi búið þar gegn greiðslu sem væri ekki hærri en sú greiðsla sem kærandi greiddi sjálfur vegna búsetu sinnar á B. Í tölvupósti til embættisins 10. nóvember 2016 hafi kærandi greint frá því að mánaðarleg leigugreiðsla kunningjans væri 90.000 krónur til 100.000 krónur á mánuði en það sé sú fjárhæð sem kærandi greiði mánaðarlega til eiginkonu sinnar vegna búsetu í fasteign hennar. Kærandi hafi jafnframt gert grein fyrir því að hann gæti ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar á umræddum leigutekjum. Kærandi hafi staðfest húsnæðiskostnað sinn vegna búsetu í eign maka með því að framvísa reikningsyfirliti sem sýndi mánaðarlega millifærslu af eigin reikningi yfir á reikning maka á tímabilinu 31. júlí 2015 til 31. október 2016. Af þeim fimmtán millifærslum sem yfirlitið nái til hafi kærandi millifært 100.000 krónur í þrettán skipti og 150.000 krónur í tvö skipti.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár frá mars 2017 um leiguverð þriggja herbergja íbúða í F og C ætti mánaðarlegt leiguverð fyrir íbúð kæranda að geta verið um 235.444 krónur (2.174 krónur x 108,3 fmermetrar). Samkvæmt sömu heimild gæti leiguverð íbúðarinnar hafa verið um 200.463 krónur (1.851 krónur x 108,3 fermetrar) á mánuði í september 2015 þegar kærandi segi eignina hafa farið í útleigu. Hafi leigutekjurnar numið 90.000 krónum til 100.000 krónum á mánuði, verði að telja að kærandi hafi ekki aflað eðlilegs endurgjalds fyrir afnot þriðja aðila af eigninni. Hafi kærandi ekki haft neinar leigutekjur af eigninni, eftir að hann flutti sjálfur af henni, verði jafnframt að telja að hann hafi brotið í bága við skyldur sínar við greiðsluaðlögun með því að afla ekki mögulegra tekna. Embættið telur sig ekki geta gengið út frá því að kærandi hafi haft leigutekjur þar sem engin gögn hafi verið lögð fram þar að lútandi.

Embætti umboðsmanns álíti að sú háttsemi kæranda að afla ekki eðlilegra leigutekna af íbúð sinni á sama tíma og kröfur hafi verið í vanskilum, teljist ráðstöfun sem gæti skaðað hagsmuni lánardrottna þar sem leigutekjurnar gætu gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Miðað við að eignin hafi verið í útleigu frá X 2015 til og með X 2016, í alls 20 mánuði, hefðu leigutekjurnar átt að geta verið 4.009.260 krónur til 4.708.880 krónur, sbr. fyrrnefndar forsendur. Hafi kærandi leigt eignina út á 90.000 krónur til 100.000 krónur á mánuði ættu leigutekjur alls að hafa verið 1.800.000 krónur til 2.000.000 krónur brúttó á tímabilinu. Kærandi hafi á hinn bóginn ekki sýnt fram á að hafa yfirhöfuð haft leigutekjur, enda hafi hann í fyrri samskiptum sínum við embættið greint frá því að ekki liggi fyrir gögn sem staðfesti leigutekjurnar.

Í tölvupósti 22. júní 2017 andmæli kærandi því að hann hefði getað leigt íbúð sína út fyrir 200.000 krónur til 230.000 krónur á mánuði. Hann segi leiguverð á D í C ekki svo hátt en kveður mögulegt leiguverð þriggja herbergja íbúðar þar geti verið um 160.000 krónur. Þá megi skilja á kæranda að hann telji ekki rétt að miða við meðal leiguverð íbúða í C og F þegar lagt sé mat á leiguverð íbúðar á D í C. Einnig bendi kærandi á að í ljósi umsóknar hans um greiðsluaðlögun hafi hann ekki talið sig geta leigt eignina út á almennum markaði.

Mat embættisins á leiguverði íbúðar kæranda byggi á samantekt Þjóðskrár á þinglýstum leigusamningum í mars 2017. Í samantektinni sé sleppt samningum sem séu eldri en 60 daga við þinglýsingu en einnig sé sleppt samningum þar sem herbergjafjöldi íbúða sé óþekktur og samningum um félagslegar íbúðir. Þessar upplýsingar byggi því á nýlegum þinglýstum samningum um eignir á almennum markaði á sama svæði og með sama herbergjafjölda og eign kæranda. Um meðaltalsfjárhæðir sé að ræða og því ættu þær að byggja á leigusamningum, bæði vegna íbúða í dýrari og ódýrari hverfum F og C. Embættið telji sig ekki hafa annað viðmið en umrædda samantekt Þjóðskrár en kærandi hafi ekki sýnt fram á að eðlilegt leiguverð fyrir íbúð hans sé lægra en það sem upplýsingar Þjóðskrár gefi til kynna.

Varðandi þá skýringu kæranda að í ljósi aðstæðna hafi hann ekki talið sig geta leigt íbúðina út á almennum markaði þá hafi skyldur samkvæmt 12. gr. lge. hvílt á kæranda allan þann tíma sem hann hafi notið greiðsluskjóls samkvæmt 11. gr. lge. Því líti embættið svo á að kæranda hafi borið að innheimta eðlilegt endurgjald fyrir afnot þriðja aðila af íbúð sinni allt frá því að hann flutti sjálfur úr íbúðinni og óháð því í hvaða ferli umsókn hans sé. Kærandi hefði getað leigt eignina út tímabundið, til skemmri tíma í einu, eða sett fyrirvara um sölu hennar. Sé eign seld nauðungarsölu þegar gerður hafi verið skriflegur samningur um leigu hennar njóti leigjandinn réttar til að nýta eignina út leigutímann eða í allt að tólf mánuði eftir nauðungarsöluna, sbr. 11. tölulið 28. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.

Af c-lið 1. mgr. 12. gr. leiði að kæranda hafi borið að innheimta eðlilegt endurgjald vegna afnota þriðja manns af íbúð hans. Kærandi hafi greint frá því að leigutekjur hafi numið 90.000 til 100.000 krónum á mánuði frá því að hann flutti sjálfur úr eigninni. Hann hafi þó ekki sýnt fram á að hann hafi haft leigutekjur og borið því við að leigugreiðslurnar séu ekki lagðar inn á bankareikning. Í málinu liggi því hvorki fyrir staðfesting á því að kærandi hafi haft leigutekjur né hverjar leigutekjurnar hafi verið.

Með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta eðlilegar leigutekjur af eign sinni sé litið svo á að kærandi hafi látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og þar með hafi hann jafnframt gert ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Embættið byggi þetta á fyrirliggjandi gögnum en í málinu hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn sem staðfesti að hann hafi haft tekjur af útleigu eignarinnar. Vísi embættið í þessu sambandi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 3. nóvember 2014 í máli nr. 128/2012.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól hafi staðið yfir frá 7. janúar 2013, eða í rúmlega 51 mánuð sé miðað við tímabilið frá febrúar 2013 til og með apríl 2017. Með framlagningu reikningsyfirlits 31. október 2016 hafi kærandi sýnt fram á að eiga 2.086.035 krónur á bankareikningi. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. janúar 2017 um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi verið tiltekið að kærandi hefði uppfyllt þá skyldu sína að leggja til hliðar fjármuni, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Við athugun embættisins 24. maí 2017 hafi komið í ljós að ekki var lengur innstæða á bankareikningnum og hafi kærandi því verið beðinn um að sýna fram á sparnað. Kærandi hafi þá framvísað ódagsettu skjáskoti af bankareikningi sem sýni innstæðu að fjárhæð 2.150.166 krónur. Þar sem upplýsingar kæranda um bankainnstæðu hafi verið ódagsettar hafi embættið kallað eftir upplýsingum um fjárhæð bankainnstæðu hjá Arion banka hf. 28. júní 2017. Innistæða á reikningnum hafi verið undir 3.000 krónum. Hafi kæranda þá aftur verið boðið að sýna fram á fjárhæð sparnaðar og hann jafnframt beðinn um að geyma sparnaðinn inni á bankareikningi sínum á meðan mál hans væri til vinnslu hjá embættinu svo að ganga mætti út frá því að fjárhæðin væri aðgengileg. Kærandi hafi ekki svarað. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki staðfest að hann ætti þann sparnað sem hann hafi gefið til kynna að hann ætti þá geti embættið ekki gengið út frá því að sparnaðurinn sé til staðar. Því verði ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi hafi brotið í bága við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Sé miðað við meðaltekjur kæranda fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 og framfærslukostnað hans í maí 2017 sé ekki gert ráð fyrir að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar frekari fjármuni frá því í janúar 2017 en þá hafi sparnaður hans verið talinn viðunandi. Mánaðarleg greiðslugeta kæranda hafi verið neikvæð um rúmlega 11.000 krónur fyrstu fimm mánuði ársins 2017. Ef kærandi hefði til viðbótar haft tekjur af útleigu fasteignar sinnar hefði mánaðarleg greiðslugeta hans verið jákvæð og hann hefði þar með átt að geta aukið við sparnað sinn. Hafi hann haft 100.000 krónur í mánaðarlegar leigutekjur á umræddum tíma hefði hann átt að geta lagt til hliðar um það bil 89.000 krónur á mánuði.

Með bréfi 24. maí 2017 hafi kæranda verið veitt færi á að greina frá því hvort hann hefði orðið fyrir óvæntum útgjöldum sem skert hafi getu hans til að leggja til hliðar fjármuni. Hann hafi einnig verið beðinn um að staðfesta útgjöldin með framlagningu gagna. Í svari 22. júní 2017 hafi kærandi greint frá því að afborganir af veðlánum maka hans hafi upphaflega numið 227.000 krónum og að hann þurfi að leggja eitthvað til heimilisins. Kærandi hafi þó ekki greint frá því hvort hann væri farinn að greiða meira en 100.000 krónur til heimilisins, en hann hafði áður sýnt fram á að það væri hans framlag í sameiginlegan húsnæðiskostnað. Þá hafi kærandi ekki sent staðfestingu á útlögðum kostnaði vegna heimilisreksturs eða tiltekið nákvæmlega hvert hans framlag væri. Kærandi hafi einnig greint frá því að hann hefði orðið fyrir útgjöldum þar sem hann og maki hans hafi gift sig í júní síðastliðinn. Kærandi hafi þó hvorki tiltekið né sýnt fram á fjárhæð þess kostnaðar sem hann hafi orðið fyrir vegna þessa.

Varðandi möguleika kæranda til að leggja til hliðar fjármuni frá því að sparnaður hans var metinn fullnægjandi í janúar 2017, telji embættið að óvissa með leigutekjur og skortur á gögnum vegna mögulegra útgjalda hafi í för með sér að ekki sé unnt að meta hvort kærandi hafi átt að auka við sparnað sinn frá þeim tíma. Tiltekið hafi verið í bréfum til kæranda 24. maí og 30. júní 2017 að nauðsynlegt væri að staðfesta umfram útgjöld með framlagningu gagna, enda teldist fjárhagur hans að öðrum kosti óglöggur. Því verði ekki séð hvort kærandi hefði átt að geta bætt við sparnað sinn eða þurft að ganga á þann sparnað sem hann hafi þegar átt.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 4. gr. lge. séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til greiðsluaðlögunar. Í 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. segi að í umsókn skuli liggja fyrir hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra. Í 6. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. segi að í umsókn skuli liggja fyrir mat skuldara á mánaðarlegum útgjöldum sínum, þar á meðal vegna framfærslu, opinberra gjalda, húsnæðis og afborgana af skuldum.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann, ef þörf krefji, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Í greinargerð frumvarps til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Hins vegar sé ljóst að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og skuli umboðsmaður aðstoða skuldara við gagnaöflun, auk þess sem embættið geti aflað upplýsinga sjálft, með heimild frá skuldara. Þegar ómögulegt eða erfitt sé um vik fyrir umboðsmann skuldara að nálgast einhver gögn sé það á ábyrgð skuldarans að afla þeirra.

Með tölvupósti og ábyrgðarbréfi 30. júní 2017 hafi kærandi verið beðinn um að skýra mismun á veltu hans á launareikningi í Arion banka hf. og launaveltu samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, sjá töflu. Kærandi hafi við fyrri vinnslu málsins hjá embættinu veitt upplýsingar sem hafi þótt fullnægjandi hvað þetta varði og því hafi einungis verið óskað eftir því að hann skýrði mismun á veltu frá 1. nóvember 2016. Hafi kæranda verið bent á að senda færsluyfirlit launareiknings eða veita embættinu heimild til að afla færsluyfirlits vegna tímabilsins frá 1. nóvember 2016 þar sem yfirlitið gæti varpað ljósi á það í hverju mismunurinn fælist. Kærandi hafi ekki svarað.

velta á reikningi vs. launavelta
tímabil velta á reikningi nr. X nettótekjur skv. rsk mism.
2015 7.482.025 5.234.269 2.247.756
2016 10.379.762 4.574.982 5.804.780
2017 4.289.535 1.957.620 2.331.915
alls 22.151.322 11.766.871 10.384.451

Til að unnt sé að gera raunhæfan samning um greiðsluaðlögun fyrir skuldara þurfi fyrirliggjandi gögn um fjárhag hans að endurspegla raunverulega stöðu. Ljóst þurfi að vera hverjar ráðstöfunartekjur séu og þar með geta skuldara til að greiða af skuldbindingum sínum. Upplýsingar um tekjur skuldara sem séu taldar fram á staðgreiðsluskrá verði að telja þess eðlis að það sé einungis á færi skuldarans sjálfs að veita upplýsingar um þær. Þar sem kærandi hafi ekki veitt skýringar á því hvað valdi misræmi á uppgefnum tekjum og innborgunum á bankareikning hans þyki fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhag hans óglöggar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þá sé einnig vísað til þess að óglögg mynd af fjárhag kæranda hafi áhrif við mat á því hver fjárhæð sparnaðar kæranda ætti að geta verið, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum við greiðsluaðlögun með því að innheimta ekki eðlilegt endurgjald fyrir afnot þriðja manns af fasteign sinni. Með þeirri háttsemi hafi hann látið af hendi verðmæti sem hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Þá sé háttsemin þess eðlis að hún geti skaðað hagsmuni lánardrottna. Með því að sýna ekki fram á þá fjárhæð sem kærandi kveðist hafa lagt til hliðar í greiðsluskjóli hafi kærandi einnig brotið í bága við skyldur sínar við greiðsluaðlögun. Jafnframt þyki óhjákvæmilegt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem fyrirliggjandi upplýsingar um ráðstöfunartekjur séu óljósar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og a-, c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði staðfest með vísan til forsendna.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. og a-, c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. kemur fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Loks segir í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi starfað sem launþegi hjá E ehf. frá 2012. Hann fékk einnig greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði árin 2013, 2014, 2015 og 2016. Árið 2015 hafði kærandi hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri að fjárhæð 2.727 krónur og árið 2016 voru hreinar tekjur hans af eigin atvinnurekstri 18.854 krónur. Tekjur frá öðrum hefur kærandi ekki gefið upp til skatts.

Kærandi kveðst hafa leigt út íbúð sem hann á að D í C frá árinu 2015 fyrir 100.000 krónur á mánuði auk hússjóðsgjalda. Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn um húsaleigutekjurnar né talið þær fram til skatts. Samkvæmt tölvupósti kæranda til umboðsmanns skuldara 15. nóvember 2016 getur hann ekki stutt staðhæfingu sína um að hann hafi fengið leigugreiðslur með yfirlitum þar sem peningarnir „hafi ekki verið lagðir inn á hann“. Hann hefur heldur ekki stutt staðhæfinguna um leigugreiðslur með öðrum viðhlítandi hætti en hann heldur því fram að leigan hafi verið greidd með peningum.

Við málsmeðferð hjá úrskurðarnefndinni var þess óskað að kærandi legði fram gögn er sýndu fram á fjárhæð sparnaðar miðað við kærudag, 7. ágúst 2017. Kærandi lagði á hinn bóginn fram stöðuyfirlit af bankareikningi sínum miðað við 11. október 2017 þar sem fram kom að innstæða á reikningnum væri 2.567.324 krónur. Var þess þá óskað að kærandi legði fram yfirlit af bankareikningi sínum frá því að fyrst var úrskurðað í máli hans 25. ágúst 2016 og til 16. október 2017. Kærandi lagði yfirlitið fram og samkvæmt því var innstæða hans 75.256 krónur 16. október 2017.

Samkvæmt bankayfirlitinu fékk kærandi eftirfarandi greiðslur hærri en 85.000 krónur, auk launa, inn á bankareikninginn á tímabilinu 25. ágúst 2016 og til 16. október 2017:

Dags. Fjárhæð Greiðandi/skýring
13.9.2016 581.800 G
11.10.2016 190.000 H
13.10.2016 1.800.000 Eiginkona
31.10.2016 1.895.000 Eiginkona
19.12.2016 130.000 I
16.01.2017 85.000 J
23.6.2017* 2.150.000 Eiginkona
4.9.2017 196.650 K/leiga
11.9.2017 150.000 L ehf.
2.10.2017 218.500 K/leiga
11.10.2017 179.000 M
11.10.2017* 2.475.000 Eiginkona
Alls: 10.050.950

Á sama tímabili voru þær fjárhæðir sem kærandi lagði inn til annarra einstaklinga umfram 45.000 krónur eftirfarandi, en allar voru þær inn á bankareikning eiginkonu kæranda:

Dags. Fjárhæð Viðtakandi
1.9.2016 100.000 Eiginkona
30.9.2016 100.000 Eiginkona
13.10.2016 1.800.000 Eiginkona
31.10.2016 1.895.000 Eiginkona
1.11.2016 150.000 Eiginkona
1.12.2016 150.000 Eiginkona
15.12.2016 46.000 Eiginkona
2.1.2017 100.000 Eiginkona
31.1.2017 100.000 Eiginkona
28.2.2017 100.000 Eiginkona
31.3.2017 100.000 Eiginkona
27.4.2017 100.000 Eiginkona
1.6.2017 100.000 Eiginkona
*23.6.2017 2.150.000 Eiginkona
3.7.2017 100.000 Eiginkona
31.8.2017 100.000 Eiginkona
29.9.2017 100.000 Eiginkona
*12.10.2017 2.475.000 Eiginkona
Alls: 9.766.000

Skyggðir dálkar sýna fjárhæðir sem eiginkona kæranda lagði inn á bankareikning hans en kærandi endurgreiddi henni sama dag eða daginn eftir. Stjörnumerktir dálkar eiga við dagsetningar þar sem kærandi var beðinn um að sýna fram á sparnað sinn.

Við skoðun á fjárhag kæranda er nauðsynlegt að bera saman töflurnar hér að ofan. Sjá má að kærandi hefur í tvígang á árinu 2017 haldið því fram að hann eigi fjármuni sem eiginkona hans hefur lagt inn á reikning hans, en hann hefur endurgreitt henni samdægurs eða daginn eftir. Við þessar aðstæður er að mati úrskurðarnefndarinnar hvorki hægt að líta þannig á að þessir fjármunir séu í eigu kæranda né kröfuhöfum til reiðu. Sú staðhæfing kæranda að hann hafi alltaf sýnt fram á það fé sem hann hafi til ráðstöfunar fyrir lánardrottna með því að leggja sjálfur tímabundið inn á bankareikning sinn á sér því ekki stoð í gögnum málsins.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar fékk kærandi greiðslur frá fimm einstaklingum að fjárhæð alls 999.150 krónur. Lægsta greiðslan nam 85.000 krónum en sú hæsta 218.500 krónum. Tvær þessara greiðslna eru merktar „leiga“ og stafa báðar frá sama manni en kærandi hefur þó greint frá því að þær tekjur sem hann hafi fengið fyrir útleigu á íbúð sinni hafi ekki borist honum sjálfum. Ekkert í gögnum málsins bendir til að um sé að ræða launagreiðslur. Þá hefur kærandi fengið 731.800 krónur frá lögaðilum á sama tímabili en engar skýringar liggja fyrir á þeim greiðslum.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að leita samninga um greiðsluaðlögun, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að óljóst sé hvaða tekjur kærandi hafi. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga er því ekki unnt að ákvarða hvað kærandi gæti greitt mánaðarlega af skuldum sínum og því ekki mögulegt að gera fyrir hann samning til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt þessu telst fjárhagur kæranda óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. þar sem segir að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Umboðsmaður telur að í ljósi þess að kærandi hafi ekki staðfest að hann eigi þann sparnað sem hann hafi gefið til kynna að hann ætti, geti embættið ekki gengið út frá því að sparnaðurinn sé til staðar. Eins og rakið hefur verið er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þær aðstæður valda því að ekki er unnt að sjá hvort og þá hve mikið fé kærandi hafði til ráðstöfunar umfram framfærslukostnað og önnur nauðsynleg útgjöld á tímabili greiðsluskjóls. Það er því álit úrskurðarnefndarinnar að ekki séu skilyrði til að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi látið af hendi eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Það hafi hann gert með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta eðlilegar leigugreiðslur af eign sinni. Eins og áður er rakið hefur kærandi ekki lagt fram gögn er staðfesta að hann hafi haft tekjur af útleigu eignarinnar og hann hefur ekki talið leigutekjur fram til skatts. Þá hefur hann sjálfur greint frá því að leigugreiðslur hafi ekki verið lagðir inn á hann. Samkvæmt þessu er ekki hægt að líta öðruvísi á en þannig að kærandi hafi brotið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fyrir liggur að hann hafi ekki hirt um að hafa leigutekjur af eigninni sem hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla.

Loks telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í þessu sambandi vísar umboðsmaður skuldara til þess að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að innheimta eðlilegar leigugreiðslur af eign sinni. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið benda gögn málsins til þess að kærandi hafi annað tveggja látið hjá líða að innheimta leigu af íbúð sinni, á því tímabili sem hér skiptir máli, eða látið ráðstafa leigufjárhæð beint til þriðja manns. Því liggur fyrir að ráðstafanir kæranda varðandi húsaleigu hafa valdið því að hann hefur ekki til reiðu þá fjármuni til að greiða kröfuhöfum við gerð greiðsluaðlögunarsamnings sem hann ella hefði haft. Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi með framgöngu sinni einnig brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Eins og málið liggur nú fyrir og hér að framan er rakið, er ekki tilefni til að umboðsmaður skuldara sæti aðfinnslum vegna slæmra vinnubragða svo sem kærandi krefst. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Björn Jóhannesson

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum