Hoppa yfir valmynd

Mál 01040021

Ráðuneytinu hefur borist kæra Gunnars Einarssonar, Daðastöðum dagsett 31. mars 2001, vegna útgáfu Hollustuverndar ríkisins á starfsleyfi til handa Silfurstjörnunni hf. í Öxarfirði.

I. Hin kærða ákvörðun

Þann 19. mars sl. gaf Hollustuvernd ríkisins út starfsleyfi fyrir fiskeldisstöð Silfurstjörnunar hf. í Núpsmýri í Öxarfirði. Starfsleyfið gildir í 4. ár. Þau atriði sem kærandi gerir athugasemdir við í starfsleyfi eru eftirfarandi:

"2.0 Varnir gegn mengun umhverfis

2.1 Fyrirtækið skal setja upp hreinsibúnað svo uppfyllt séu skilyrði 3. kafla starfsleyfisins og markmiðum um ástand viðtaka sbr. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

2.2 Þannig skal gengið frá frárennsli að samgangur fiska í umhverfinu og fiska í stöðinni verði útilokaður og að sjálfdauður fiskur berist ekki með frárennslinu, sbr. 64. og 65. gr. laga nr. 76/1970, með síðari breytingum, um lax- og silungaveiði.

2.3 Skólp frá salernum og hreinlætisaðstöðu skal leitt í rotþró og siturlögn. Um fyrirkomulag og staðsetningu rotþróa skal fara samkvæmt fyrirmælum byggingarnefndar og heilbrigðisnefndar.

2.4 Stöðinni er skylt að ganga þannig frá olíubirgðum, olíuúrgangi, eiturefnum og hættulegum efnum að ekki sé hætta á að þessi efni berist út í umhverfið, í yfirborðsvatn eða í grunnvatn. Mengunarvarnarbúnaður vegna hættulegra efna skal vera samþykktur af Hollustuvernd ríkisins.

2.5 Stöðinni er skylt að sjá um að hindraður sé aðgangur vargfugls og annarra villtra dýra að úrgangi og hreinsivirki stöðvarinnar.

2.6 Frárennslislögn frá eldiskerum sé leidd í setþró með rúmmál sem tekur sem næst 18 mínútna rennsli miðað við vatnsnotkun í stöðinni. Hægt skal vera að hleypa fráveituvatni framhjá setþrónni tímabundið vegna viðhalds og hreinsunar. Hún skal hreinsuð þannig að vatni í þrónni er fleytt ofan af seyrunni. Fastur þröskuldur skal vera neðst við útfall þróarinnar, þannig að ekki sé hægt að tæma þróna alveg. Seyra má ekki vera uppgrugguð í þessu vatni sem hleypt er út. Því næst er seyrunni dælt úr þrónni og skal útfall hennar þá vera lokað. Skila á greinargerð til Hollustuverndar ríkisins um hvernig staðið er að hreinsun þróarinnar.

2.7 Auðvelt skal vera að komast að safnþró fyrir seyru til að dæla úr henni, og skal það gert ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Seyru skal komið fyrir á viðurkenndan móttökustað. Heimilt er að nýta seyru sem áburð á tún að fengnu leyfi eftirlitsaðila.

2.8 Ef í ljós koma óæskileg mengunaráhrif vegna stöðvarinnar sbr. ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, er skylt að gera ráðstafanir til úrbóta þ. m. t. að koma á viðeigandi mengunarvarnabúnaði, eða draga úr framleiðslu.

2.9 Fyrirtækið skal hafa fullnægjandi búnað, t. d. síukerfi fyrir slóg til að hindra að föst óhreinindi berist í fráveitukerfið frá vinnslu og slátrun eldisfisks.

2.10 Óheimilt er að farga úrgangi frá slátrun eldisfisks þ. m. t. slógi, beinum og roði niður um niðurföll. Slíkan úrgang skal farga í samráði við eftirlitsaðila.

3. Losunarmörk og gæðamarkmið

3.1 Eftirfarandi hámarksmagn mengandi efna sem losuð eru í viðtaka skulu gilda: Efnasambönd fosfórs: 7 kg P/framleitt tonn. Efnasambönd köfnunarefnis: 60 kg N/framleitt tonn. Ef fyrir liggur fullnægjandi úttekt á því hversu mikla mengun viðtakinn þolir m.t.t. fosfórs og köfnunarefnis getur Hollustuvernd ríkisins heimilað rýmri mörk en hér greinir.

3.2 Stöðinni er skylt að sjá um að frágangur við útrás þar sem fráveituvatn er leitt í á eða vatn,sé ekki:

-Set eða útfellingar

-Þekjur af rotverum (bakteríur og sveppir).

-Olía eða froða.

-Sorp eða aðrir aðskotahlutir

-Efni sem veldur óþægilegri lykt, lit eða gruggi.

3.3 Þar sem fráveituvatn er leitt í á eða vatn, skal eftirfarandi gilda utan þynningarsvæðis:

Hámarkshitabreyting af völdum frárennslis: 2°C

Súrefnismettun, lágmark: 70%

Má ekki fara undir 6 mg/O2/l

50% af tímanum yfir 9 mg O2/l

Sýrustig, pH: 6-9

Hámarksbreyting á sýrustigi vegna frárennslis: 0,5

Ammoníak NH3: Minna en 0,025 mg/l

Súrefnisnotkun BOD5: hæst 4 mg O2/l (=COD: 20 mg O2/l)

HOCl: Hæst 0,004 mg/l

Olíur og fitur: olíubrák má ekki sjást

Hámarksaukning á svifögnum vegna frárennslis: 2 mg/l

4. Eftirlit

4.1 Umsjónarmaður stöðvarinnar skal annast innra eftirlit með framleiðslu stöðvarinnar og halda skrá yfir helstu atriði sem máli skipta varðandi framleiðslu, svo sem:

a) Fjölda og þyngd fiska og breytingum á þessum tölum vegna flutninga, sölu eða dauða.

b) Fóðurnotkun

c) Vatnsnotkun.

4.2 Umsjónamaður stöðvarinnar skal halda skrá yfir notkun hættulegra efna og lyfja.

4.3 Umsjónarmaður stöðvarinnar skal halda skrá yfir helstu atriði sem varða rekstur hreinsibúnaðar, svo sem: stöðvanir í rekstri búnaðar vegna hreinsunar eða annarra ástæðna. Einnig upplýsingar um tæmingu á seyru, svo sem dagsetningu, magn og um förgun seyrunnar.

4.4 Stöðin skal háð reglubundnu eftirliti Hollustuverndar ríkisins í 3. flokki sbr. 12. gr.. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit.

4.5 Eftirlitsaðili eða aðili á hans vegum, tekur annað hvert ár, sýni til greininga á köfnunarefni (heildar N) og fosfór (heildar P) og COD eða TOC. Sýnin sem greind eru á kostnað fyrirtækisins eru tekin við inntak og við úttak hreinsibúnaðar, í viðtaka og af seyru. Mæla skal svifagnir á hverju ári.

4.6 Auðvelt skal vera að koma fyrir sýnatökubúnaði. Einnig skal útfall, eða inntak hreinsibúnaðar vera þannig hannað, að auðvelt sé að mæla vatnsrennsli.

4.7 Fyrirtækið tilkynni Hollustuvernd ríkisins ef erfiðleikar koma upp við rekstur hreinsibúnaðarins. Fyrirtækið leggi fyrir eftirlitsaðila tímasetta áætlun um lagfæringar og raskist áætlanirnar ber að tilkynna þær til eftirlitsaðila. Þegar framkvæmdum er lokið ber að tilkynna það til eftirlitsaðila.

......

7. Ákvæði til bráðabirgða.

1. Fyrirtækið skal fyrir 1. júní næstkomandi hafa uppfyllt ákvæði gr. 2.6 um hreinsikerfi á frárennslislögn frá eldiskerum.

2. Fiskar þeir sem í setþrónni eru skulu fyrir 1. apríl næstkomandi vera deyddir og urðaðir á viðurkenndum urðunarstað.

3. Fyrirtækið skal fyrir 1. maí gera grein fyrir vatnsmagni sem leitt er í Núpsvatn og efnasamsetningu vatnsins með tilliti til seltu, köfnunarefnis, fosfórs og súrefnisþarfar (COD).

4. Fyrirtækið skal fyrir 1. júní n.k. koma viðeigandi síubúnaði á frárennsli frá sláturhúsi sbr. gr. 2.9."

 

II. Kröfur og málsástæður kæranda

Kærandi gerir þær kröfur að starfsleyfi Silfurstjörnunar hf. verði aðeins gefið út til bráðabirgða og að hlutlaus aðili verði fengin til að kanna hvaða áhrif dæling Silfurstjörnunar hf. hefur á varnarkerfi Daðastaðamýrinnar. Til vara krefst kærandi að honum verði veittur styrkur til að standa fyrir mælingum.

Kærandi bendir á kröfu sinni til stuðnings að lög leyfi ekki að mikið magn órotnaðs lífræns úrgangs sé hleypt í ár eins og það sem kemur frá Silfurstjörnunni. Einnig að í fyrra starfsleyfi hafi verið ákvæði eins og í hinu kærða um að það væri til staðar setþró þar sem grófhreinsað skyldi affall frá kerjum, að ekki skyldu vera mávar í úrgangi frá verksmiðjunni og að affall frá klósettum og slátrun færu í rotþró. Kærandi telur að starfsleyfishafi hafi gróflega brotið gegn ofangreindum ákvæðum fyrra starfsleyfis og því ætti fyrirtækið aðeins af fá tímabundið starfsleyfi eða að í starfsleyfinu sé ákvæði um að það falli úr gildi sé ekki farið að skilyrðum þess.

Kærandi gerir athugasemdir við að Silfurstjarnan hleypi án hreinsunar vatni í Núpsvatn, en það sé ekkert í hvorki fyrra né gildandi starfsleyfi sem heimili það. Kærandi telur þessa losun ekki í samræmi við starfsleyfi og að banna ætti hana tafarlaust eða setja skilyrði um losunina í starfsleyfi.

Kærandi telur að eftir að Silfurstjarnan hóf að dæla vatni úr vatnskerfi Daðastaðamýrar hafi Daðastaðamýri byrjað að þorna, en í dag séu flóar þurrir sem engar heimildir séu um að þornað hafi áður. Það sé alþekkt að lindir þorni þegar farið er að dæla vatni úr jarðlögum jafnvel þó holur séu fóðraðar langt niður og dælt sé af miklu dýpi. Þegar þornun verður um leið og byrjað er að dæla vanti úr holum á svæðinu er eðlilegast að ætla að dælingin eigi verulegan þátt í þeirri þornun. Kærandi telur að ef dæling Silfurstjörnunar á þátt í að þurrka lindir eða lækka vatnsborð Daðastaðamýrarinnar þá stangast það á við vatnalög. Kærandi fór fram á að hlutlausir aðilar yrðu fengnir til að gera mælingar á, rennsli úr lækjum á svæðinu, þrýsting á vatnakerfinu sem dælt er úr (gegnum holu eða holur) sem til eru mælingar á áður en farið var að dæla, á hæð vatns í mýrinni til að kanna hvort vatnsborð hallar í átt að upptökustöðum og að síðustu endurtaka mælingar á breytingum sem eru að verða á gróðurfari mýrarinnar. Kærandi telur að Orkustofnun geti ekki verið hlutlaus úrskurðar eða umsagnaraðili þar sem stofnunin hafi mælt með því að borað var þarna í upphafi. Kærandi gagnrýrir einnig að Hollustuvernd ríkisins hafi leitað álits Orkustofnunar á þornun mýrarinnar og að Hollustuvernd ríkisins hafi ekki litið á umsögnina sem hlutdræga og hefði átt að leyfa kæranda að gagnrýna hana eða að lágmarki láta kanna forsendur hennar.

III. Umsagnir og athugasemdir.

Ráðuneytið óskaði með bréfum dagsettum 6. apríl 2001 eftir umsögunum um fram komna kæru frá Hollustuvernd ríkisins, Öxarfjarðarhreppi, Silfurstjörnunni hf. og Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

Einnig óskaði ráðuneytið með bréfi dagsettu 17. apríl 2001 eftir umsögn Vegagerðarinnar á því hvort vegaframkvæmdir við Jökulsá á Fjöllum geti haft áhrif á vatnsmagn sem rennur í Sandá og hvert gerðir hafa verið leiði- eða varnargarðar á vatnasviði Sandár sem leitt geti jökulvatn frá Sandá og valdið því að vatnsmagn Brunnár hafi minnkað. Í umsögn Vegagerðarinnar sem dagsett er 26. apríl 2001 kemur fram að þann 1. ágúst 1999 hafi komið mikið flóð í Jökulsá á Fjöllum og Sandá sem meðal annars olli því að brú á Sandá eyðilagðist og þurfti því að byggja nýja. Stífla þurfti Sandá með garði skammt neðan við brúnna á Jökulsá til þess að hægt væri að byggja brúnna og við þá framkvæmd minnkaði vatnsmagn Brunnár verulega og var það ástand viðvarandi á meðan á framkvæmdum stóð. Stíflan var að hluta til fjarlægð 6. júní 2000 og að öllu leyti í september sama ár og er því vatnsmagnið í Brunná það sama og verið hefur um árabil. Einnig kemur fram að ekki hafa verið gerðir leiði- eða varnargarðar á vatnasviði Sandár og að vegaframkvæmdir við Jökulsá á Fjöllum hafa ekki áhrif á vatnsmagn sem rennur í Sandá.

Vegagerðin upplýsti einnig að síðastliðið sumar var unnið við gerð leiðigarða við Jökulsá á Fjöllum (Bakkahlaup) en það hafi ekki á nokkurn hátt áhrif á vatnsmagn í Sandá.

Í umsögn Hollustuverndar ríkisins frá 30. apríl sl. segir að stofnuninni hafi á sínum tíma borist fjórar athugasemdir við auglýst drög að starfsleyfi. Vegna þeirra var starfsleyfi breytt og komið til móts við flestar athugasemdir. Meðal atriða sem var breytt var lengd starfsleyfis úr 10 árum í 4 ár og sett voru inn ákvæði til bráðabirgða um kröfur sem starfsleyfishafa sé skylt að vera búinn að uppfylla fyrir 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2001. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir ennfremur:

1. "Í starfsleyfi Silfurstjörnunnar eru ákvæði sem taka á losun úrgangs. Ákvæðin eru byggð á reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999, sbr. gr. 7.1 en þar er kveðið á að skólp skuli hreinsa með tveggja þrepa hreinsun eða sambærilegri hreinsun áður en því er veitt í viðtaka. Einnig er ákvæði í grein 13.3 um að fráveituvatni einstakra húsa skuli veitt í rotþró. Einnig eru ákvæði í gr. 12. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns þar sem fjallað er um starfsleyfi. Í starfsleyfi fiskeldisstöðvar Silfurstjörnunnar er tekið á öllum þessum ákvæðum. Vakin athygli á ákvæðum til bráðabirgða í starfsleyfinu, en þar er fiskeldisstöðinni gert að uppfylla ákveðin skilyrði fyrir 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2001.

2. Varðandi lið (A). Tvær setþrær eru til staðar. Í starfsleyfinu er kveðið á um hreinsun þróanna. Sú eldri var yfirfull og í henni voru lifandi laxar þegar starfsmenn Hollustuverndar ríkisins komu í eftirlitsferð. Tekið var á þessu í bráðabirgðaákvæðum í nýju starfsleyfi Nýrri setþróin er tengd kerum sem í er regnbogasilungur, og þar er ætlunin að beita nýrri hreinsunartækni á eldisvatnið og nýta það allt að fjórum sinnum.

Varðandi lið (B). Skv. gr. 2.5 í starfsleyfinu ber stöðinni skylda til þess að hindra aðgang vargfugls og annarra villtra dýra að úrgangi og hreinsivirki stöðvarinnar. Ætið sem þeir sækjast eftir er í frárennsli frá sláturhúsi sem losað er í þró með yfirfall í Brunná. Í nýja starfsleyfinu er ákvæði í gr. 2.9 og 2.10 sem taka á förgun úrgangs frá sláturhúsi.

Varðandi (C) lið. Affall frá klósettum fer í rotþró og hefur stofnunin ekki aðrar upplýsingar en að það skilyrði sé uppfyllt. Úrgangur frá slátrun fer í þró sem tæmd er tvisvar á ári og er með yfirfall í Brunná, sbr. (B) lið hér á undan. Á þessu er tekið í bráðabirgðaákvæðum starfsleyfisins. Þar segir í kafla 7, 4. tölulið: Fyrirtækið skal fyrir 1. júní n.k. koma viðeigandi síubúnaði á frárennsli frá sláturhúsi, sbr. gr. 2.9.

3. Í skoðunarferð starfsmanna Hollustuverndar ríkisins á vettvang 15. mars s.l., kom í ljós að fyrirtækið losar vatn í Núpsvatn. Forráðamenn Silfurstjörnunnar upplýstu ekki um þessa losun. Í starfsleyfið var því sett bráðabirgðaákvæði, töluliður 3, að fyrirtækið ætti að gera grein fyrir magni og efnasamsetningu þess vatns sem leitt væri út í Núpsvatn fyrir 1. maí n.k

Hollustuvernd ríkisins hefur borist bréf frá Silfurstjörnunni um að vatnið sem losað er í Núpsvatn sé vatn frá sveltikerum sem ekki er leitt að staðaldri út í Núpsvatn. Fyrirtækið hefur frest til 1. maí n.k. til að senda stofnuninni niðurstöður efnagreiningar á vatninu. Þegar þær niðurstöður liggja fyrir verður tekin ákvörðun um förgun þessa vatns.

4. Hollustuvernd ríkisins aflaði upplýsinga hjá Orkustofnun um vatnstöku Silfurstjörnunnar úr Daðastaðamýri. Samkvæmt umsögn Orkustofnunar er ekkert sem bendir til að vatnstaka fyrirtækisins úr lokuðum veiti á yfir 100 metra dýpi hafi áhrif á grunnvatnshæð mýrarinnar. Hollustuvernd ríkisins taldi við útgáfu á starfsleyfi fyrir fiskeldisstöð Silfurstjörnunnar ekki vera forsendur til að leggja þær byrðar á fyrirtækið að kosta rannsóknir á þornun eða breytingum á grunnvatnshæð mýrarinnar þegar ekki væri hægt að sjá beint samband á milli vatnstöku úr lokuðum veiti og minnkaðs yfirborðsvatns í mýrinni. Hollustuvernd bendir á að í ferð starfsmanna stofnunarinnar norður kom fram að Vegagerðin stíflaði fyrir nokkrum árum farveg Sandár að hluta vegna brúargerðar. Í ferðinni kom einnig fram að árfarvegur Brunnár hefur lækkað um 80-100 cm, og ósar hennar færst innar í landið ásamt því að mýrarnar við Akursel, sem er eyðibýli handan árinnar, hafa einnig þornað. Í svari Vegagerðarinnar í bréfi til umhverfisráðuneytisins dagsettu 26. apríl s.l. varðandi þá stíflugerð kemur fram að síðsumars 1999 hafi Sandá verið stífluð. Stíflan var fjarlægð að hluta 6. júní 2000 og að öllu leiti í september sama ár. Jökulvatn úr Sandá barst því ekki í rúmt ár í Brunná. Ekki liggja fyrir upplýsingar hvort lækkunin sé jafnmikil yfir allt árið. Hollustuvernd ríkisins telur erfitt að segja um hvort þessi 80-100 cm lækkun vatnsborðs nái bæði til vetrar- og sumarrennslis árinnar eða hvort þessi vatnsborðslækkun hafi einungis verið tímabundin vegna framkvæmda Vegagerðarinnar síðsumars 1999 til september 2000. Ljóst er að vatnabúskapur Daðastaðamýrarinnar er flókinn og engan veginn einhlýtt að rekja megi breytingar á vatnsstöðu til einstakra framkvæmda eða náttúrulegra breytinga án undangenginna rannsókna. Ekki er unnt að skera úr um slíkt nema farið verði út í ítarlegar rannsóknir á hugsanlegum áhrifum sem vatnstaka Silfurstjörnunnar, framkvæmdir Vegagerðarinnar við Sandá, og aðrar framkvæmdir á svæðinu, geta hafa haft á vatnsbúskapinn. Hollustuvernd ríkisins er enn þeirrar skoðunar þegar jafnræðisreglan er höfð í huga að ekki sé hægt að leggja þær byrðar á fyrirtækið eitt að kosta rannsóknir á breytingum á grunnvatnshæð mýrarinnar.

Hollustuvernd ríkisins sér ekki ástæðu til að veita umsögn um önnur atriði í kæru Gunnars Einarssonar.

Niðurstaða Hollustuverndar ríkisins er að í nýútgefnu starfsleyfi sé tekið á þeim atriðum kærunnar sem fram koma í liðum 1-3 og því séu ekki ástæður til að breyta starfsleyfinu.

Þornun Daðastaðamýrar er samkvæmt sérfræðiáliti Orkustofnunar ekki hægt að tengja vatnstöku fyrirtækisins beint. Ekki kemur fram í bréfi Vegagerðarinnar neitt beint samband milli framkvæmda Vegagerðarinnar og vatnsbúskapar mýrarinnar. Stofnunin telur því eðlilegt að farið verði út í rannsóknir á vatnsbúskap Daðastaðamýrarinnar eins og áður hefur komið fram. "

Hollustuvernd ríkisins óskaði eftir greinargerð frá Orkustofnun varðandi vatnsbúskap Silfurstjörnunar í Öxarfirði vegna vinnslu við starfsleyfi fiskeldisstöðvarinnar. Í greinargerð Orkustofnunar dagsettri 19. mars 2001 segir m.a. að grunnvatnskerfi Núpsmýrar séu tvö hið efra í mýrinni sjálfri og hið neðra í bólstrabergsmyndum neðan við þétt sand og leirlög og er það kerfi feikilega vatnsgæft. Ennfremur segir orðrétt:

"Silfurstjarnan nýtir vatn úr neðra kerfinu og hefur sú nýting ekki áhrif á vatnsbúskap efra kerfisins. Um það vitnar bæði Núpsvatnið sjálft og svo vatnsrennsli í Stóralæk, sem er eins konar yfirfallsvatn úr neðra kerfinu.

Vatnsstaða í mýrum er almennt séð háð úrkomumagni, sem bæði getur verið breytilegt milli ára og árstíða. Mýrar er hægt að ræsa fram með skurðum og þurrka upp. Nú háttar svo til við Núpsmýri að hluti af Jökulsá á Fjöllum, sem þar heitir Brunná, rennur til sjávar við Núpsmýrina. Árósin flutti sig sunnar og vestar fyrir nokkrum árum og við það virðist vatnsborð árinnar hafa lækkað um tæpan 1 meter við Núpsmýrina, og hefur áin trúlega grafið sig eitthvað niður. Mýrnar vestan ár í landi Akursels þornuðu upp í framhaldi af því, og kann svipað að hafa átt sér stað austan ár að einhverju leyti, þó hvorki sjáist þess merki í Núpsvatninu sjálf né í Stóralæk svo sem að ofan greinir. Flóðvarnargarður var auk þess gerður við Jökulsá rétt neðan gljúfursins til að tempra náttúrulegt innrennsli í Sandá (síðar Brunná nær ósum) í flóðum. Við það minnkaði aurburður í Sandá eitthvað, sem kanna að eiga einhvern þátt í málinu. Auk þess gæti land hafa risið eitthvað frá því að Silfurstjarnan hóf starfsemi sína, en engin gögn eru til þar um.

Í ljósi ofansagðs er því ekki ástæða til að ætla að vatnsnám Silfurstjörnunar hf. til fiskeldis hafi nokkur áhrif á vatnsbúskap Núpsmýrarinnar sjálfrar."

Sveitarstjórn Öxarfjarðarhreps taldi sig ekki hafa forsendur til að taka efnislega afstöðu til kæru Gunnars Einarssonar vegna starfsleyfis Silfurstjörnunar hf.

Umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands barst ráðuneytinu 18. apríl sl. og þar segir m.a. að ljóst sé að affall frá kerjum sem leitt er í setþró sé skólp. Hins vegar sé ákvæði í starfsleyfi um hámarksmagn mengandi efna sem losuð eru í viðtaka, ákvæði um ástand og útlit viðtaka vegna losunar og ákvæða um umhverfismörk utan þynningarsvæðis. Heilbrigðiseftirlitið bendir á að sú setþró sem notast hefur verið við frá því að stöðin tók til starfa árið 1988 hafi aðeins einu sinni verið tæmd en nú sé svo komið að hún sé hálffull af botnfalli. Sérfræðingar Hollustuverndar ríkisins hafa áður reiknað það út og sett í starfsleyfi að viðverutími í þrónni þyrfti að vera 18 mínútur til þess að agnir nái að setjast til en miðað við útreikninga á setþrónni eins og hún er núna er viðverutíminn 4,4 mínútur. Miðað við 18. mínútna viðverutíma þyrfti stærð þróarinnar að vera 4. sinnum stærri en núverandi þró.

Hvað varðar þá röksemd að vargfugl sé í úrgangi frá verksmiðjunni bendir Heilbrigðiseftirlitið á að Hollustuvernd hafi gert kröfu um að frárennsli frá vinnslusal sláturhússins verði síað með því að setja slógsíur á frárennslið og að búnaður því tengdur skuli vera kominn upp fyrir 1. júní 2001. Það sama á við um affall frá klósettum og slátrun.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands telur að það hafi farið fram hjá Hollustuvernd ríkisins að vatni sé hleypt í Núpsvatn án hreinsunar. Þar sé um að ræða vatn frá kerum sem í er fiskur sem bíður slátrunar. Mestu skipti hvers konar vatn sé um að ræða en Hollustuvernd hafi krafið fyrirtækið um upplýsingar um vatnsmagn og efnasamsetningu og á fyrirtækið að skila þessum upplýsingum fyrir 1. maí 2001 og á grunni þeirrar niðurstöðu sé rétt að mati Heilbrigðiseftirlitsins að taka ákvörðun um hvort ástæða sé til að banna fyrirtækinu að veita þessu vatni í Núpsvatn.

Hvað varðar þornun Daðastaðamýrar telur Heilbrigðiseftirlit Norðurlands að greinargerð Orkustofnunar hljóti að vega þungt þar sem Orkustofnun sé eini opinberi aðilinn sem sinnir vatnarannsóknum. Og að það sé mat Orkustofnunar að það sé ekkert sem bendi til að vatnstaka Silfurstjörnunar úr lokuðum veiti á meira en 100 metra dýpi hafi áhrif á grunnvatnshæð Daðastaðamýrar.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands tekur fram í umsögn sinni að ljóst sé að nokkuð hafi skort á að Silfurstjarnan ehf. hafi uppfyllt til fullnustu sett starfsskilyrði en með nýju starfsleyfi sé skerpt á öllu sem stuðar að bættum mengunarvörnum og það sé því skoðun heilbrigðiseftirlitsins að Hollustuvernd ríkisins mundi framvegis ganga harðar eftir því að fyrirtækið fari eftir þeim fyrirmælum sem starfsleyfið kveður á um.

Silfurstjarnan hf. sendi ráðuneytinu umsögn sína með bréfi dagsettu 18. apríl sl. Í umsögn Silfurstjörnunar kemur m.a. fram að það sé til staðar setþró sem tekur u.þ.b. 18. mínútna meðalrennsli sem krafist er í starfsleyfi en Hollustuvernd hafi að vísu gert athugasemdir sem bætt verður úr á tilsettum tíma. Starfsleyfishafi segir í umsögn sinni að fyrirtækið geri allt sem það geti til að halda vargfugli frá stöðinni og hafi það fengið sveitarfélagið til að láta meindýraeyði eyða vargfugli. Það sé hins vegar ekki rétt að við stöðina sé alltaf vargfugl, hann sækir að þegar erfitt er með fæðu annarsstaðar sem sé eðlilegt að fuglin sæki þangað sem ætis er von hvort sem það er til staðar eða ekki. Silfurstjarnar bendir á að afföll frá klósettum og slátrun fari í gegnum rotþró, Hollustuvernd ríkisins hafi farið fram á úrbætur sem fyrirtækið muni gera á tilsettum tíma.

Hvað varðar vatn sem fer án hreinsunar í Núpsvatn segir í umsögn Silfurstjörnunar orðrétt:

"3. liður. Varðandi vatn sem fer án hreinsunar í Núpsvatn. Hér í stöðinni eru þrjú sveltikör þar sem við geymum fisk í sem bíður slátrunar. Þessi fiskur hefur verið í svelti í 3-4 daga þegar hann kemur í þessi kör. Afrennslið frá þessum körum rennur í brunn og úr honum er dælt upp í næsta eldiskar og þaðan fer vatnið úr í frárennsli stöðvarinnar sem fer í settjörn. 3-4 sinnum í viku er slátrað úr nefndum sveltikörum og við þá aðgerð þarf að lækka vatnið í sveltikörunum og þá hefur dælan sem ætlað er að dæla vatninu ekki við og því fer yfirfall úr brunninum út í tvær tjarnir sem hafa affall í Núpsvatn. Hér er um að ræða óverulegt magn af vatni, stundum ekkert og stundum fara c.a. 4-6 ltr.sek. Vatnið sem hér um ræðir er c.a. 9°C og u.þ.b. 8 prómill salt. Hollustuvernd óskaði eftir því að við látum rannsaka vatnið og verður það gert. Hollustuvernd hefur komið hér flest ár frá byrjum (sic) en ekki gert athugasemd við þetta yfirfall. Sjálfur hef ég mælt af og til seltu í Núpsvatni en hún greinist ekki á okkar mælitæki. Ef það væri svo, eins og látið er að liggja í kærunni að við látum vatn renna út í Núpsvatn til að það takist ekki eftir því að vatnið sé að þorna upp, af hverju er Núpsvatnið þá ekki salt? Á heitum sumardegi hlýtur að vera mikil uppgufun úr vatni eins og Núpsvatni. Það er hins (sic) vegar ekki mikið mál fyrir okkur að loka alveg fyrir þetta yfirfall."

Varðandi þornun Daðastaðamýrarinnar er Silfurstjarnan hf. sammála kæranda um að grunnvatn í mýrunum við ána hafi lækkað á undanförnum árum og eigi það við um mýrarnar báðum megin við ána. Það sé hins vegar erfitt að segja hvað valdi þessari lækkun á grunnvatni í mýrinni en bendir á að Brunná hefur grafið sig niður um u.þ.b. 80 sm. við fiskeldisstöðina og um 50 til 100 sm suður við Þverá sem er 6. km inn í landi. Starfsleyfishafi bendir einnig á að mælingar á niðurdrætti í borholum sem fyrirtækið hefur fylgst með hefur ekki aukist á undanförnum árum. Varðandi rannsóknir á vatnsbúskap á Núps/Daðastaðamýri tekur starfsleyfishafi fram að það geti verið erfitt að ákveða hvað á að rannsaka og við hvað á að miða, meðan svo sé verði engin marktæk niðurstaða vegna þess að það geta legið svo margar ástæður fyrir því að grunnvatn lækki.

Í athugasemdum kæranda við fram komnum umsögnum segir m.a. að í bréfi Silfurstjörnunar komi fram að þeir þurfi ekki að sleppa vatni í Núpsvatn og voni hann til þess að þeir hætti því. Kærandi gerir einnig athugasemdir við að Hollustuvernd haldi áfram að vísa í umsögn Orkustofnunar í stað þess að fá aðra til að túlka fyrirliggjandi gögn þrátt fyrir að Orkustofnun geti ekki talist hlutlaus aðili.

Kærandi vísar einnig í gögn frá Orkustofnun þar sem komi fram sú skoðun stofnunarinnar að rennslið í Stóralæk sé eins og yfirfall úr neðra vatnskerfi Daðastaðamýrarinnar. Kærandi bendir á að það sé keimlík niðurstaða og hann hafi haldið fram nema hvað helst að hann hafi haldið því fram að aðrar uppsprettur sem þarna eru og hafa minnkað og horfið séu eining tengdar þessu kerfi og að engin rök hafa verið færð fram gegn þeirri skoðun. Orkustofnun haldi því fram að Stórilækur hafi ekki minnkað en kærandi heldur því fram að hann hafi minnkað og sé ekki svipur hjá sjón og að Orkustofnun byggi ekki álit sitt á nýlegum mælingum á Stóralæk allaveganna fylgi þær ekki með umsögn þeirra. Kærandi óskar því eftir við umhverfisráðuneytið að það gefi aðeins út tímabundið starfsleyfi þar til kærandi geti lagt fram nýjar mælingar á rennsli Stóralækjar og mælingar á affalli Núpsvatns. Mælingarnar séu einfaldar og ódýrar og kæranda ekki ofviða, en þær séu aðeins marktækar ef þær eru gerðar á svipuðum árstíma og áður. Kærandi bendir á að verði ekki gerðar nýjar mælingar á Stóralæk og affalli Núpsvatns áður en ákvarðanir verða teknar gæti umhverfisráðuneytið verið að byggja ákvarðanir á röngum ef ekki fölsuðum upplýsingum. Það sé jafn ólöglegt ef dæling Silfurstjörnunar breytir rennsli Stóralækjar eins og ef hún þurrkar mýrina.

Kærandi segir einnig að það hafi verið hans megin krafa að nauðsynlegt væri að kanna nánar vatnsbúskap Daðastaðamýrarinnar og að Hollustuvernd ríkisins segi í umsögn sinni að full ástæða sé til að kanna hann nánar. Mælingar á Stóralæk gæti verði byrjunin og vísað vegin.

 

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

Kærandi byggir kröfu sinni til stuðnings á að lög leyfi ekki að mikið magn órotnaðs lífræns úrgangs frá Silfurstjörnuni hf. sé hleypt í ár. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins segir að í starfsleyfi Silfurstjörnunar séu ákvæði sem taka á losun úrgangs og byggi þau ákvæði á reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Hollustuvernd vísar einnig til ákvæða til bráðabirgða í starfsleyfi en þar sé starfsleyfishafa gert að uppfylla ákveðin skilyrði fyrir 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2001. Í hinu kærða starfsleyfi er fjallað um losun úrgangs í kafla 2, og 3 auk þess snúa ákvæði 1 og 4 í ákvæði til bráðabirgða um ákveðin skilyrði sem stöðinni ber að uppfylla fyrir 1. júní 2001. Ráðuneytið felst ekki á þá röksemd kæranda að starfsleyfi heimili að mikið magn lífræns úrgangs sé hleypt í ár.

Kærandi bendir á að í fyrra starfsleyfi stöðvarinnar hafi verið ákvæði eins og í hinu kærða um að það væri til staðar setþró þar sem grófhreinsað skyldi affall frá kerjum, að ekki skyldu vera mávar í úrgangi frá verksmiðjunni og að affall frá klósettum og slátrun færu í rotþró. Starfsleyfishafi hafi brotið gróflega gegn ákvæðum starfsleyfisins og því ætti það einungis að fá tímabundið starfsleyfi eða í því séu ákvæði um að starfsleyfið falli úr gildi sé ekki farið að skilyrðum þess.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun segir að starfsleyfi skuli gefin út til tiltekins tíma. Í IX. kafli reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit er fjallað um valdsvið og þær þvingunaraðgerðir sem eftirlitsaðila getur gripið til telji hann að starfsleyfishafi fylgi ekki ákvæðum laga, reglugerða né starfsleyfis. Ein af þeim þvingunaraðgerðum sem eftirlitsaðili getur gripið til sbr. 31. gr. reglugerðar 786/1999 er afturköllun starfsleyfis. Ráðuneytið bendir á að ekki er heimilt samkvæmt reglugerð 785/1999 að gefa starfsleyfi út til bráðabirgða heldur á sbr. 1. mgr. 12. gr. sömu reglugerðar að gefa þau út til tiltekins tíma sá tími er hins vegar ekki tiltekin. Í 20. gr. sömu reglugerðar segir að endurskoða skuli starfsleyfi að jafnaði á fjögurra ára fresti en ákveðna vísireglu er að finna í framangreindri 20. gr. um til hversu langan tíma gefa skuli út starfsleyfi. Ráðuneytið getur því ekki orðið við kröfu kæranda um að gefa úr bráðabirgðaleyfi. Ráðuneytið bendir á að ein af þeim þvingunarheimildum sem eftirlitsaðili hefur telji hann að starfsleyfishafi uppfylli ekki ákvæði starfsleyfis sé að afturkalla starfsleyfi.

Kærandi gerir athugasemdir við að Silfurstjarnan hleypi vatni í Núpsvatn án hreinsunar, en það sé ekkert í hvorki fyrra né gildandi starfsleyfi sem heimili það. Kærandi telur þessa losun ekki í samræmi við starfsleyfi og að banna ætti hana tafarlaust eða setja skilyrði um losunina í starfsleyfi. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að sett hafi verið í hið kærða stafsleyfi ákvæði til bráðabirgða þar sem fyrirtækinu er gert að gera eftirlitsaðila grein fyrir magni og efnasamsetningu þess vatns sem leitt væri í Núpsvatn og að þegar þær niðurstöður liggja fyrir muni verða tekin ákvörðun um förgun þessa vatns en að vatnis sé ekki leitt að staðaldri í Núpsvatn. Í umsögn starfsleyfishafa segir að það sé ekki mikið mál fyrir fyrirtækið að loka alveg fyrir yfirfall frá sveltikerjum í Núpsvatn. Í hinu kærða starfsleyfi er Silfurstjörnunni gert að gera grein fyrir vatnsmagni sem leitt er í Núpsvatn og efnasamsetningu vatnsins með tilliti til seltu, köfnunarefnis, fosfórs og súrefnisþarfar fyrir 1. maí sl. Hollustuvernd ríkisins á því eftir að taka ákvörðun um hvort heimilt sé að yfirfalli frá sveltikerjum sé leitt í Núpsvatn eða það bannað með hliðsjón af efnasamsetningu vatnsins. Með vísun til ofangreinds felst ráðuneytið ekki á kröfu kæranda.

Kærandi telur að eftir að Silfurstjarnan hóf að dæla vatni úr vatnskerfi Daðastaðamýrar hafi Daðastaðamýri byrjað að þorna. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins um þennan kærulið segir að stofnunin hafi aflað upplýsinga hjá Orkustofnun um vatnstöku Silfurstjörnunar úr Daðastaðamýri og að samkvæmt Orkustofnun sé ekkert sem bendir til að vatnstaka Silfurstjörnunar hafi áhrif á grunnvatnshæð mýrarinnar. Hollustuvernd taldi því að ekki væru forsendur til að leggja þær byrðar á fiskeldisstöðina að kosta rannsóknir á þornun eða breytingum á grunnvatnshæð mýrarinnar þegar ekki væri hægt að sjá beint samband á milli vatnstöku úr lokuðum veiti og minnkaðs yfirborðsvatns úr mýrinni. Einnig bendir Hollustuvernd ríkisins á að vatnsbúskapur Daðastaðamýrarinnar sé flókinn og engan veginn einhlítt að rekja megi breytingar á vatnsstöðu til einstakrar framkvæmda eða náttúrulegra breytinga án undangenginna rannsókna. Ekki sé hægt að skera úr um slíkt nema farið verði út í ítarlegar rannsóknir á hugsanlegum áhrifum sem vatnstaka Silfurstjörnunar, framkvæmdir Vegagerðarinnar við Sandá og aðrar framkvæmdir á svæðinu geta haft á vatnsbúskapinn. Stofnunin sé því enn þeirrar skoðunar að þegar jafnræðisregla stjórnsýslulaganna sé höfð í huga þá sé ekki hægt að leggja þær byrðar á starfsleyfishafa einan að kosta rannsóknir á breytingum á grunnvatnshæð mýrarinnar. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands telur hvað varðar þornun Daðastaðamýrarinnar þá hljóti greinargerð Orkustofnunar að vega þungt þar sem hún sé eini opinberi aðilinn sem sinni vatnsrannsóknum að það sé mat stofnunarinnar að það sé ekkert sem bendi til þess að vatnstaka Silfurstjörnunar úr lokuðum veiti á meira en 100 metra dýpi hafi áhrif á grunnvatnshæð Daðastaðamýrarinnar. Starfsleyfishafi er sammála kæranda um að grunnvatn í mýrunum við ána hafi lækkað á undaförnum árum það sé hins vegar erfitt að segja hvað valdi þessari lækkun á grunnvatni í mýrinni en starfsleyfishafi bendir á að Brunná hefur grafið sig niður um u.þ.b. 80 sm við fiskeldisstöðina og um 50 til 100 sm suður við Þverá sem er 6. km inn í landi. Starfsleyfishafi bendir einnig að mælingar á niðurdrætti í borholum sem fyrirtækið hefur fylgst með hefur ekki aukist á undanförnum árum.

Í greinargerð Orkustofnunar kemur fram að grunnvatnskerfi Núpsmýrar séu tvö, hið efra í mýrinni sjálfri en hið neðra í bólstrabergsmyndun og sé það feikilega vatnsgæft. Silfurstjarnan nýti vatn úr neðra kerfinu og hefur sú nýting að mati Orkustofnunar ekki áhrif á vatnsbúskap efra kerfisins. Um það vitni bæði Núpsvatnið sjálft og svo vatnsrennsli í Stóralæk, sem er einskonar yfirfallsvatn úr neðra kerfinu. Hins vegar bendir Orkustofnun á að vatnsborð Brunnár hafi lækkað um tæpan 1. meter við Núpsmýrina og að áin hafi trúlega grafið sig eitthvað niður. Mýrnar vestan ár í landi Akursels þornuðu í framhaldi af því og að svipað gæti hafa átt sér stað austan ár að einhverju leyti þó hvorki sjáist þess merki í Núpsvatninu sjálfu né í Stóralæk. Auk þess bendir Orkustofnun á að flóðvatnargarður sem gerður var í Jökulsá gæti temprað náttúrulegt innrennsli í Sandá síðar Brunná í flóðum og það minnkað aurburð í Sandá sem kunni að eiga einhvern þátt í málinu. Og að land gæti hafa risið eitthvað frá því að Silfurstjarnan hóf starfsemi sína.

Kærandi segir í athugasemdum sínum við fram komnar umsagnir að sú skoðun Orkustofnunar að rennslið í Stóralæk sé eins og yfirfall úr neðra vatnskerfi Daðastaðamýrarinnar sé keimlík niðurstaða og hann hafi haldið fram nema hvað helst að hann hafi haldið því fram að aðrar uppsprettur sem þarna eru hafi minnkað og horfið séu einnig tengdar kerfinu. Kærandi telur að Stórilækur hafi minnkað og sé ekki svipur hjá sjón og að sú skoðun Orkustofnunar að rennsli í læknum hafi ekki minnkað sé ekki byggð á nýlegum mælingum á Stóralæk. Kærandi óskaði því eftir í athugasemdum sínum við fram komnar umsagnir að umhverfisráðuneytið gefi aðeins út tímabundið starfsleyfi þar til kærandi lagt fram nýjar mælingar á Stóralæk og affalli Núpsvatns. Það sé jafn ólöglegt ef dæling Silfurstjörnunar breytir rennsli Stóralækjar eins og ef hún þurrkar mýrina.

Í tengslum við meinta þurrkun Daðastaðamýrar eða breytinga á rennsli Stóralækjar telur ráðuneytið að byggja verði á greinargerð Orkustofnunar um vatnsbúskap Núpsmýrar/Daðastaðamýrar og felst ráðuneytið ekki á að stofnunin sé vanhæf þar sem hún hafi komið fyrr að málinu. Hér er um að ræða faglegt mat sérfræðistofnunar sem býr yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Mat Orkustofnunar er að það sé ekkert sem bendi til að vatnstaka Silfurstjörnunar hafi áhrif á grunnvatnshæð Núpsmýrar/Daðastaðamýrar heldur gæti skýringa verið að leyta annarsstaðar. Kærandi, starfsleyfishafi og umsagnaraðilar eru sammála um að mýrar í nágrenni Brunnár hafi þornað, en einnig að ekki sé ljóst af hverju, en Orkustofun tekur þó fram að nýting Silfurstjörnunar hafi ekki áhrif á vatnsbúskap Núpsmýrar. Ráðuneytið vill benda á að ekki er hægt í starfsleyfi að skylda fyrirtæki til að standa að rannsóknum á tilteknum þáttum sem fyrirfram eru ekki taldir valda þeim vanda sem rannsaka á. Með vísun til framangreinds felst ráðuneytið ekki á kröfur kæranda.

Úrskurðarorð.

Starfsleyfi útgefið af Hollustuvernd ríkisins fyrir fiskeldisstöð Silfurstjörnunar hf. í Núpsmýri í Öxarfirði þann 19. mars 2001 skal óbreytt standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum