Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 29/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík


Miðvikudaginn 30. desember 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hans, B, nr. 29/2015.

Kveðinn var upp svofelldur


Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 26. október 2015 skaut C hrl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 29. september 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni B við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í allt að þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti fósturforeldra á heimili þeirra á þeim stað sem samkomulag næst um. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B hafi umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári í allt að 3 klst. í senn undir eftirliti fósturforeldra á heimili þeirra eða á öðrum þeim stað sem samkomulag næst um. Umgengni verði með þessum hætti í varanlegu fóstri.

Kærandi krefst þess að þeirri skipan umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði verði breytt, annars vegar að hin skerta umgengni stúlkunnar við kæranda verði ekki ótímabundin heldur markaður skemmri tími eða til hálfs árs og staðan þá endurmetin og hins vegar að umgengnin verði tíðari, ekki sjaldnar en tvisvar í mánuði og þá lengri í hvert skipti. Að auki er krafist þóknunar til handa lögmanni kæranda.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra B kemur fram í tölvupósti 18. nóvember 2015 til kærunefndarinnar að þau telji kæranda ekki færan um að annast stúlkuna vegna þroskaskerðingar og annmarka sinna og telja þau umgengninni best varið þannig að kærandi hitti stúlkuna á heimili þeirra undir þeirra eftirliti.

I. Málavextir

Stúlkan B er fædd árið X og er nú X ára gömul. Foreldrar stúlkunnar, D og kærandi, afsöluðu sér forsjá stúlkunnar til barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. október 2014. Stúlkan var fyrst vistuð á heimili móðurforeldra 23. september 2013 og var sú vistun að ósk foreldra stúlkunnar. Stúlkan er nú í varanlegu fóstri hjá móðurforeldrum sínum en gengið var frá fóstursamningi þess efnis 9. janúar 2015. Móðir stúlkunnar hefur glímt við geðræn veikindi í mörg ár og er kærandi greindur með E, líkt og fram kemur í gögnum málsins.

Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 24. júní 2015 var tekin fyrir beiðni kæranda um umgengni við stúlkuna. Á fundinum var bókað að starfsmenn teldu að hæfileg umgengni stúlkunnar við kæranda væri fjórum sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi hafnaði tillögum starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og óskaði eftir því að málið yrði tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Málið var lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. september 2015. Fyrir fundinum lá fyrrgreind tillaga starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur um umgengni. Stúlkunni hafði verið skipaður talsmaður og í skýrslu talsmanns 27. september 2015 kemur fram að hún vilji umgangast kæranda en jafnframt að fósturmóðir hennar sé viðstödd umgengnina. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni var málið tekið til úrskurðar á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.

II. Afstaða kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki mótmælt því að stúlkan sé í fóstri, enda séu fósturforeldrarnir afi hennar og amma og sé hún þar í góðu atlæti. Kærandi telur hins vegar að stúlkan og honum sé skömmtuð of lítil umgengni, sérstaklega í ljósi þess að engin takmörk séu á umgengni móðurinnar, þrátt fyrir skort hennar á hæfni.

Það sé auðvitað krafa kæranda að til langs tíma fái hann eðlilega umgengni við dóttur sína og hún við hann, án takmarkana og eftirlits og reglubundið. En eins og fram komi í forsendum hins kærða úrskurðar sé kærandi reiðubúinn til þess að una því að umgengni verði undir eftirliti. Hafi sú tillaga verið lögð fram við barnaverndarnefnd Reykjavíkur að um yrði að ræða umgengni undir eftirliti eitt til tvö skipti í mánuði næsta hálfa árið, en síðan yrði skoðað með framhaldið.

Að mati kæranda sé hin kærða niðurstaða með öllu órökstudd. Fyrir liggi, samkvæmt skýrslu talsmanns 27. september 2015, að stúlkan vilji eiga umgengni við kæranda og fósturforeldrarnir hafi síður en svo nokkuð á móti umgengni en telji að hún verði að vera undir eftirliti, a.m.k. til að byrja með. Hafi það ekkert með þær sakir að gera sem bornar hafi verið á hann heldur telji þau hann ekki hæfan til að sinna umgengni á eigin spýtur.

Það sé að mati kæranda algjörlega fráleitt að ætla föður og dóttur, sem séu mjög hænd að hvort öðru, að hittast aðeins fjórum sinnum á ári, án nokkurra málefnalegra röksemda, en með vísan til þess að stúlkan eigi að aðlagast fósturfjölskyldu á sama tíma og engin takmörk séu á umgengni móðurinnar við stúlkuna sé því fráleitt að vísa til þess að umgengni við kynforeldra raski ró stúlkunnar í fóstrinu. Sé þetta á skjön við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, meðalhófsregluna og þá kröfu stjórnsýsluréttarins að stjórnvaldsákvörðun skuli vera rökstudd.

III. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndar barnaverndarmála 3. nóvember 2015 er mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda að hin kærða niðurstaða sé með öllu órökstudd. Bæði í bókun barnaverndarnefndarinnar og hinum kærða úrskurði sé ákvörðunin rökstudd m.a. með vísan til neðangreinds.

Samkvæmt 74. gr. bvl. eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mark af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir því að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

Stúlkan sé vistuð í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis til átján ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins, með vísan til allra gagna þess og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi, hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundinum 29. september 2015 að hæfilegt væri að umgengni færi fram fjórum sinnum á ári. Mikilvægt sé að skapa stúlkunni stöðugleika og öryggi en slíkt sé nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

Í ljósi ofangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra B 18. nóvember 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að kærandi sé ekki fær um að annast stúlkuna vegna þroskaskerðingar og annmarka sinna og telji þau umgengninni best varið þannig að hann hitti stúlkuna á heimili þeirra undir þeirra eftirliti. Þau sjái ekki að þroski hans breytist með árunum og því myndi umgengnin haldast óbreytt. Þau hafi farið reglulega með stúlkuna til föðurömmu sinnar á elliheimili og þá komi kærandi þangað líka. Þegar kærandi komi til þeirra að hitta stúlkuna séu þau ekki með neina skeiðklukku á þeim tíma sem þau hittist. Þau séu miklir vinir og leikfélagar og fóstuforeldrar leyfi þeim að njóta samverunnar og síðan borði þau saman áður en kærandi fari heim. Fósturforeldrar hafi sagt kæranda að hann megi hringja þegar hann vilji og tala við stúlkuna. Öll umgengni þurfi að vera undir eftirliti og ef þau sjái ekki um það eftirlit þurfi einhver annar utanaðkomandi að sjá um það.

V. Niðurstaða

B er X ára gömul og er hjá fósturforeldrum sínum, E og F, í varanlegu fóstri en þau eru móðuramma og móðurafi hennar. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarefndar Reykjavíkur frá 29. september 2015 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í allt að þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti fósturforeldra á heimili þeirra eða á þeim stað sem samkomulag næðist um.

Kærandi krefst þess að þeirri skipan umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði verði breytt, annars vegar að hin skerta umgengni stúlkunnar við kæranda verði ekki ótímabundin heldur markaður skemmri tími eða til hálfs árs og staðan þá endurmetin og hins vegar að umgengnin verði tíðari, ekki sjaldnar en tvisvar í mánuði og þá lengri í hvert skipti. Að auki er krafist þóknunar til handa lögmanni kæranda.

Krafa kæranda þess efnis að hinni skertu umgengni verði markaður skemmri tími og að staðan verði endurmetin að liðnum sex mánuðum verður að skoða í ljósi þess að samkvæmt 6. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga geta þeir sem umgengni eiga að rækja krafist þess að barnaverndarnefnd endurskoði fyrri úrskurð sinn um umgengnisrétt, en barnaverndarnefnd er ekki skylt að taka slíka kröfu til efnisúrlausnar nema liðnir séu tólf mánuðir hið skemmsta frá því að úrskurður barnaverndarnefndar eða kærunefndar barnaverndarmála var kveðinn upp. Með tilliti til þessa verður að líta svo á að metið verði hvort og hvenær tímabært geti verið að endurskoða hina kærðu ákvörðun og telst hún að því leyti ekki ótímabundin. Kemur því ekki til þess að marka umgengninni skemmri tíma, eins og kærandi krefst, og ber þar með að hafna þeirri kröfu.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé með öllu órökstudd. Honum og dóttur hans hafi verið skömmtuð allt of lítil umgengni. Það séu ekki málefnalegar röksemdir, sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun, að stúlkan eigi að aðlagast fósturfjölskyldunni og að umgengni við foreldra raski ró stúlkunnar í fóstrinu á sama tíma og engin takmörk séu á umgengni móðurinnar við stúlkuna.

Umgengni barns í fóstri við foreldri sitt ber að ákveða samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga en þar kemur fram að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við foreldra. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þegar tekin er afstaða til umgengnis barns við foreldra skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.  

Þegar metið er í máli þessu hvað þjóni hagsmunum barnsins best verður að taka mið af þeirri stöðu sem barnið er í. Þegar barn er í varanlegu fóstri þjónar það ekki hagsmunum þess að vinna að því að viðhalda eða styrkja tengsl þess við foreldra sína heldur er markmiðið með umgengni að barnið þekki uppruna sinn. Einnig verður að skilgreina hagsmuni barns í varanlegu fóstri þannig að hagur þess sé að umgengni við foreldri sé reglubundin, vel skipulögð og í föstum skorðum. Verði þessa ekki gætt myndi það óhjákvæmilega raska ró stúlkunnar í fóstrinu. Breytir engu í því sambandi hvernig umgengni stúlkunnar við móður hennar er háttað en um hana gildir þó hið sama og varðandi umgengni stúlkunnar við kæranda, þ.e. að hag stúlkunnar verður að telja best borgið með fastákveðinni, reglubundinni og skipulagðri umgengni í þeim tilgangi að hún raski sem minnst ró hennar. Ákvörðun um umgengni við móðurina og tilhögun hennar er þó ekki til umfjöllunar í málinu og kemur því ekki til frekari álita við úrlausnina.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að stúlkan sé í varanlegu fóstri í samræmi við yfirlýsingu foreldra hennar 29. október 2014. Vísað er enn fremur til þess að markmiðið með varanlegu fóstri sé að stúlkan aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn sé að ræða og taki umgengni við kynforeldra mið af því. Enn fremur er vísað til þess að umgengi barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Var það talið þjóna hagsmunum stúlkunnar best að umgengni við kæranda yrði fjórum sinnum á ári. Verður að telja þessar röksemdir barnaverndarnefndarinnar fyrir hinni kærðu ákvörðun málefnalegar og í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við ákvörðun á umgengni barns í varanlegu fóstri við foreldri sitt samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga. Umgengnin, sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði, var því réttilega miðuð við þær aðstæður stúlkunnar að hún er í varanlegu fóstri og að hún hafi þörf fyrir ró í fóstrinu. Með tilliti til alls þessa verður að telja að ákvörðun um umgengni kæranda við stúlkuna hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði.

Krafa kæranda um þóknun til handa lögmanni hennar verður á þessu stigi ekki borin undir kærunefndina en samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnda barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setur. Með vísan til þess ber að vísa þóknunarkröfunni frá kærunefndinni.

Samkvæmt framangreindu ber að staðfesta hinn kærða úrskurð. 

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 29. september 2015 varðandi umgengni A við dóttur sína, B, er staðfestur. Kröfu kæranda um þóknun er vísað frá kærunefndinni.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum