Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 248/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 29. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 248/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020058

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. febrúar 2018 kærði einstaklingur sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Danmerkur.

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. júlí 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Þann 20. júlí 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 25. júlí 2017 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 13. nóvember 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 15/2018, dags. 9. janúar 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Útlendingastofnun ákvað þann 31. janúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 9. febrúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 19. febrúar 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 26. febrúar 2018. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 24. apríl 2018. Kærandi kom fyrir nefndina þann 3. maí 2018 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga. Viðstaddur var talsmaður kæranda auk þess sem notast var við símatúlk.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur. Flutningur kæranda til Danmerkur fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sérstakar aðstæður væru ekki fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Danmerkur, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi byggði mál sitt á því að þar sem hann ætti bróður hér á landi sem hefði búið hér […] og væri með stöðu flóttamanns bæri að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var niðurstaða Útlendingastofnunar varðandi þennan þátt málsins sú að kærandi og bróðir hans væru ekki mjög nánir en bróðir hans hefði búið hér á landi í mörg ár án þess að kærandi hefði vitað til þess. Þá var vísað í framkvæmd kærunefndar en þar hefði verið lagt til grundvallar að mat á því hvort rétt væri að taka umsókn til efnismeðferðar vegna 2. mgr. 36. gr. laganna fæli í sér heildstætt mat á þeim atriðum sem fallið gætu undir sérstök tengsl og sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna. Því næst rakti Útlendingastofnun framkvæmd kærunefndar við túlkun á hugtakinu sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru uppi sérstakar ástæður í máli kæranda auk þess teldi stofnunin að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda koma fram athugasemdir við framkvæmd Útlendingastofnunar. Kærandi mótmæli þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunnar að hann hafi ekki sannað nægilega hver hann sé auk þess sem hann mótmæli því að framburður hans um niðurstöðu máls hans í Danmörku hafi verið ótrúverðugur. Kærandi sé ekki lögfróður og því líklegt að hann hafi misskilið stöðu sína í Danmörku. Þá bendi kærandi á að hann sé ungur að árum og beri að hafa það í huga við ákvörðunartöku í máli hans.

Kærandi byggir kröfu sína, um að ákvörðuninni verði hrundið og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, á því að hann hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi bendi á að í athugasemdum með ákvæðinu komi fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat til þess að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiði af sérstökum reglum, svo sem ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá komi skýrt fram í frumvarpinu að í þeim tilvikum þegar kærandi eigi ættingja hér á landi en ekki í viðtökuríki þá beri að taka umsókn til efnismeðferðar hér á landi. Þá bendi kærandi á að ekki sé hægt að túlka ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga til samræmis við 78. gr. laganna sem fjalli um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Til stuðnings því bendi kærandi á úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli nr. 73/2017.

Kærandi bendir á að hann þekki engan í Danmörku, tali ekki tungumálið og hafi orðið fyrir aðkasti þar. Hér á landi eigi hann aftur á móti bróður og hafi það verið vilji löggjafans að taka ætti mál eins og hans til efnismeðferðar. Kærandi mótmæli því að einungis eigi að líta til fyrri dvalar þegar metið sé hvort um sérstök tengsl sé að ræða í máli hans enda myndist tengsl við landið ekki einungis af dvalartíma heldur verði einnig að miða við hvernig fólk tengist landinu og hvort það eigi ættmenni hér á landi eður ei. Þá bendi kærandi á að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í Danmörku […].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. b kemur fram að við mat á því hvort heimilt sé að taka mál til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, er stjórnvöldum m.a. heimilt að líta til tengsla á grundvelli fyrri dvalar umsækjanda.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og tengsl hans við landið

Í málinu byggir kærandi á því að taka eigi umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á þeim grundvelli að hann hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísar kærandi einkum til þess að hann eigi bróður hér á landi.

Við túlkun ákvæða 36. gr. laga um útlendinga tekur kærunefnd fram að hin almenna regla sem kemur fram í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er sú að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar. Ef skilyrði a- til c-liðar eru fyrir hendi er heimilt að víkja frá þeirri meginreglu og synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Þó skal taka umsókn til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna. Í athugasemdum sem fylgdu 36. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2016 kemur fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í framkvæmd kærunefndar hefur verið lagt til grundvallar að umsókn geti verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laganna vegna heilstæðs mats á þeim atriðum sem fallið geta undir sérstök tengsl og sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er einnig ljóst af framkvæmd kærunefndar að báðir þættirnir þurfi ekki að vera til staðar svo umsókn verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli ákvæðisins. Í því sambandi er áréttað að orðalag 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skýrt um þetta atriði, en þar segir m.a. að taka skuli máli til efnismeðferðar hafi umsækjandi slík sérstök tengsl við landið eða að sérstakar ástæður mæli með því.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þannig verði að leggja til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilfella þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdirnar í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjanda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða.

Jafnframt sé ljóst að þau tengsl sem ákvæðið vísar til geta verið fjarlægari en þau nánu fjölskyldutengsl sem Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um. Þá bendir kærunefnd á að í lögskýringargögnum að baki 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er vísað til ættingja varðandi það hvenær um sérstök tengsl geti verið að ræða skv. ákvæðinu. Hugtakið ættingi er ekki skilgreint í lögum um útlendinga né í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum. Það verður því að meta í hverju máli fyrir sig hvort sá sem umsækjandi byggir tengsl sín við landið á teljist ættingi. Kærunefnd tekur fram að hún telur ekki unnt að horfa til skilgreiningar á nánum aðstandanda í 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga við mat á sérstökum tengslum skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem um annað og þrengra hugtak sé að ræða.

Í ljósi alls framangreinds telur kærunefnd að leggja skuli til grundvallar að ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl verði beitt á þann veg að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, þá verði umsóknin tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið. Sé talið að um ættingja sé að ræða verður því að leggja mat á hversu rík tengsl eru milli ættingjanna hér á landi.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 31. október 2017 hafa sérstök tengsl við Ísland þar sem hann eigi bróður hér á landi. Kærandi hafi verið einangraður í Danmörku, átti engan að og ekkert bakland.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var lagt til grundvallar að kærandi eigi bróður hér á landi sem sé íslenskur ríkisborgari. Þó kemur fram í ákvörðuninni að kærandi hafi ekki lagt fullnægjandi sönnun fyrir auðkenni sínu. Stofnunin lagði til grundvallar þeirri ályktun sinni að kærandi og maður sem hann kveður vera bróður sinn væru bræður að kærandi hafi ritað nafn bróður síns og foreldra þeirra á blað og þær upplýsingar hafi komið heim og saman við gögn sem tengdust umsókn bróður hans hjá stofnuninni á sínum tíma. Þá hafi kærandi einnig óskað eftir að rannsókn yrði gerð á erfðaefni þeirra til þess að sanna skyldleikann en niðurstaðan liggi ekki fyrir að svo stöddu. Þar sem lagt var til grundvallar ákvörðunarinnar að þeir væru bræður telur nefndin sig ekki hafa forsendur til annars en að leggja til grundvallar að þeir séu sannarlega bræður. Þá er það mat kærunefndar að bróðir teljist ættingi, eins og atvikum er háttað í þessu tiltekna máli. Liggur jafnframt fyrir að kærandi á ekki ættingja í viðtökuríki. Verður því lagt til grundvallar í máli þessu að kærandi eigi bróður sem hafi heimild til dvalar hér á landi.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann og bróðir hans séu nánir. Þeir séu vel tengdir og í miklum samskiptum. Kærandi hafi komið til Íslands þegar hann frétti af því, á meðan hann bjó í Danmörku, að bróðir hans væri niðurkominn hér á landi. Þá njóti þeir stuðnings hvors annars auk þess sem að kærandi annist bróður […]. Í gögnum málsins liggur fyrir bréf frá bróður kæranda þar sem bróðir hans lýsi því hvernig kærandi annist sig og bendi hann á að þeir séu í mjög góðu sambandi. Þá komi fram að kærandi aðstoði bróður sinn með börn hans og bróðir kæranda styðji kæranda jafnframt fjárhagslega. Þá liggur auk þess fyrir bréf frá einstaklingi að nafni […] þar sem fram komi að hún þekki bræðurna, þeir séu sannarlega mjög nánir og að þeir hjálpi hvorum öðrum.

Þann 16. apríl 2018 bauð kærunefnd kæranda að leggja fram frekari gögn til staðfestingar á tengslum hans við bróður sinn. Gögnin bárust þann 24. apríl 2018 og í þeim er að finna afrit af samskiptum kæranda við bróður sinn í gegnum samskiptaforritið Messenger frá árinu 2014 auk ljósmynda af kæranda, bróður hans og börnum bróður hans. Var kærandi í kjölfarið boðaður í viðtal þann 23. apríl 2018. Viðtal kæranda hjá kærunefnd fór fram þann 3. maí 2018. Þar kom fram að heilsufar bróður hans hafi versnað og var kærandi beðinn um að skila til nefndarinnar frekari gögnum varðandi heilsu bróður síns. Þann 7. maí 2018 barst kærunefnd læknisvottorð þar sem fram komi að bróðir hans hafi […]. Í viðtalinu lýsti kærandi aðstæðum sínum í heimaríki og skýrði út hvers vegna hann hafi ekki vitað um afdrif bróður síns fyrr en hann frétti af honum þegar hann bjó í Danmörku. Hafi kærandi í kjölfarið haft samband við bróður sinn og ákveðið að koma hingað til lands og óska eftir alþjóðlegri vernd þar sem hann nyti stuðnings bróður síns. Kom enn fremur fram í viðtali kæranda á hvaða hátt hann aðstoði bróður sinn vegna veikinda hans.

Kærunefnd hefur lagt mat á þau gögn sem kærandi hefur lagt fram og telur þau trúverðug varðandi tengsl bræðranna. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi sýnt fram á, með trúverðugum gögnum, að kærandi hafi raunveruleg og sérstök tengsl við bróður sinn hér á landi. Kærandi er ungur að árum og nýtur hér á landi stuðnings bróður síns, og fjölskyldu hans, sem hann jafnframt annast vegna veikinda bróður hans.

Er það því mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting danskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá séu tengsl kæranda við landið með þeim hætti að í þessu tilviki sé nærtækast að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi. Beri því eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki slíkt sérstök tengsl við landið að taka bæri umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Meðal annars var vísað til þess að í framkvæmd kærunefndar hafi verið lagt til grundvallar að mat á því hvort rétt sé að taka umsókn til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga feli í sér heildstætt mat á þeim atriðum sem geti fallið undir sérstök tengsl eða sérstakar ástæður í skilningi ákvæðisins. Í forsendum niðurstöðu Útlendingastofnunar var jafnframt tekið fram að við matið væri unnt að hafa til hliðsjónar að túlka 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga til samræmis við 78. gr. sömu laga. Þá var vísað til skilgreiningar á hugtakinu aðstandendur í 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og tekið fram að í úrskurði kærunefndar nr. 397/2017 segi að ekki verði séð af lögskýringargögnum að ætlunin hafi verið að túlkun á 2. mgr. 36. gr. geti ekki takmarkast við þá þröngu skýringu á hugtakinu aðstandendur sem finna megi í 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Vegna framangreinds rökstuðnings tekur kærunefnd í fyrsta lagi fram að í úrskurði kærunefndar nr. 397/2017, dags. 6. júlí 2017, gerði kærunefnd athugasemd við að Útlendingastofnun túlkaði hugtakið sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga til samræmis við 78. gr. laganna, sem fjallar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland. Kærunefnd ítrekar að ekki verður séð af lögskýringargögnum að ætlunin hafi verið að túlkun á 2. mgr. 36. gr. yrði byggð á 78. gr., en í síðarnefnda ákvæðinu er fjallað um aðstæður sem ekki verður jafnað til þeirra stöðu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eru í. Í framangreindum úrskurði gerði kærunefnd jafnframt athugasemd við að Útlendingastofnun liti til skilgreiningar Dyflinnarreglugerðarinnar á hugtakinu aðstandendur. Kærunefnd áréttar, með vísan til lögskýringargagna, að túlkun á hugtakinu sérstök tengsl í 2. mgr. 36. gr. geti ekki takmarkast við þá þröngu skýringu á hugtakinu aðstandendur sem finna má í 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar sem Dyflinnarreglugerðin kveður á um þrengri túlkun á hugtakinu aðstandandi, heldur en lög um útlendinga gera, verður sú skilgreining ekki lögð til grundvallar við mat á sérstökum tengslum skv. 2. mgr. 36. gr. Kærunefnd telur ljóst að stofnunin hefur rangt eftir nefndinni þegar hún vísar til umfjöllunar kærunefndar um þetta atriði í hinni kærðu ákvörðun og gerir athugasemd við þessa umfjöllun og leggur áherslu á að mat Útlendingastofnunar verði framvegis í samræmi við þau sjónarmið sem kærunefnd hefur sett fram í úrskurðum sínum.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                   Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum