Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 79/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 79/2019

Miðvikudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 19. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. janúar 2019 um greiðslu barnalífeyris vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 13. desember 2018, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna náms frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfum, dags. 19. desember 2018 og 3. janúar 2019, óskaði stofnunin eftir nánari gögnum frá kæranda varðandi námsframvindu og upplýsinga um starfshlutfall hans. Kærandi lagði fram umbeðin gögn til stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 17. janúar 2019, synjaði Tryggingastofnun kæranda um barnalífeyri vegna náms á grundvelli tekna samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 140/2006 um heimild Tryggingastofnunar til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 15. mars 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. mars 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en að ráða má af kæru að hann óski þess að synjun Tryggingastofnunar á greiðslu barnalífeyris vegna náms verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið tvöfaldan barnalífeyrir vegna náms vegna [...]. Síðastliðið sumar hafi hann unnið mikla [...] hjá B og unnið á [...]. Kærandi geri sér grein fyrir því að á þessum tíma hafi hann verið að fá góð laun en þetta hafi verið [...] að mestu. Með skóla sé hann að vinna á [...] og hjá B á [...]. Kæranda finnist óréttlátt að honum sé synjað um barnalífeyri vegna þess að hann sé duglegur að vinna.

Á meðan kærandi sé í námi sé hann ekki að fá X kr. í laun á meðan þar sem hann verði einnig að taka [...] eftir skóla […]. Kærandi hafi skilað inn umbeðnum gögnum en Tryggingastofnun hafi ekki tekið mark á þeim. Kærandi sé að ljúka námi á X ári og þessi peningur skipti hann miklu máli.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að samkvæmt 3. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir og enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og starfsþjálfun. Skilyrði sé að námið og þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár. Einnig komi fram að við ákvörðun á rétti til barnalífeyris samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hafi.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 140/2006, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, segi að Tryggingastofnun meti sönnun um skólavist og starfsþjálfun og skuli ungmenni framvísa staðfestum gögnum frá skóla ásamt yfirliti yfir fyrri námsárangur í upphafi hverrar annar. Skilyrði sé að ungmenni stundi sannanlega nám og að námið eða þjálfunin taki að minnsta kosti sex mánuði hvert ár.

Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að við mat á umsókn skuli Tryggingastofnun ríkisins taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra, sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Að jafnaði skuli miðað við að mánaðarlegar tekjur umsækjanda séu að meðaltali ekki hærri en sem nemi sjöfaldri fjárhæð barnalífeyris á hverjum tíma.

Kærandi, sem hafi fengið greiddan barnalífeyri vegna náms frá X, hafi sótt um áframhaldandi greiðslu með rafrænni umsókn, móttekinni hjá Tryggingastofnun þann 13. desember 2018. Með umsókninni hafi fylgt skólavottorð og staðfesting frá vinnuveitanda.

Með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 19. desember 2018 og dags. 3. janúar 2019, hafi verið óskað frekari gagna frá kæranda sem hafi lagt fram umbeðin gögn.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafi tekjur kæranda verið hærri en sem nemi sjöföldum  barnalífeyri. Á árinu 2018 hafi fjárhæð barnalífeyris verið 33.168 kr. þannig að sjöfaldur barnalífeyrir hafi því verið 232.176 kr. á mánuði og á árinu 2019 sé fjárhæð barnalífeyris 34.362 kr. þannig að sjöfaldur barnalífeyrir sé 240.534 kr. 

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK fyrir tekjuárið 2018 hafi launatekjur kæranda verið X kr. eða að meðaltali X kr. á mánuði að teknu tilliti til þess að greiðslur frá C séu […] en ekki launatekjur. Vakin sé athygli á því að við mat á umsókn kæranda hafi á ívilnandi hátt eingöngu verið litið á síðustu X mánuði ársins en á tímabilinu X til X 2018 hafi launatekjur kæranda verið X kr. eða X kr. að meðaltali á mánuði. Með vísan til framangreindra reglugerða hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslum barnalífeyris vegna náms fyrir vorönn 2019 yrði frestað en að honum hafi verið gefinn kostur á að senda inn nýjar tekjuupplýsingar að lokinni önninni.

Í þessu sambandi sé einnig á það bent að samkvæmt upplýsingum í staðgreiðsluskrá RSK beri upplýsingar um launatekjur kæranda í X og X 2019 með sér að tekjur hans séu nú umtalsvert hærri en þær hafi verið á árinu 2018.

Tryggingastofnun telji því ekki grundvöll til að breyta ákvörðun sinni um frestun barnalífeyris vegna náms til kæranda 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. janúar 2019, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms var synjað vegna þess að tekjur kæranda voru umfram viðmiðunarmörk í 6. gr. reglugerðar nr. 140/2016. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða barnalífeyri, þrátt fyrir að tekjur kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum reglugerðarinnar.

Um barnalífeyri vegna menntunar er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 3. gr. laga um félagslega aðstoð er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir eru látnir og enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir. Þá segir í 10. málsl. 3. gr. laganna að við ákvörðun á rétti til barnalífeyris sé heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hafi. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þess.

Reglugerð nr. 140/2006, um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að greiða barnalífeyri vegna náms eða starfsþjálfunar ungmenna á aldrinum 18-20 ára, hefur verið sett með framangreindri lagaheimild. Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að við mat á umsókn skuli Tryggingastofnun taka tillit til allra aðstæðna umsækjanda, félagslegra sem efnahagslegra, sem áhrif geti haft á það hvort samþykkja skuli umsókn eða hafna henni. Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skuli að jafnaði miðað við að mánaðarlegar tekjur umsækjanda séu að meðaltali ekki hærri en sem nemur sjöfaldri fjárhæð barnalífeyris á hverjum tíma. Í reglugerð nr. 1202/2018 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2019 segir að barnalífeyrir sé 34.362 kr. á mánuði.

Samkvæmt framangreindu skal að jafnaði ekki greiða barnalífeyri vegna náms ef mánaðarlegar tekjur umsækjanda eru hærri en sem nemur sjöfaldri fjárhæð barnalífeyris á hverjum tíma, þ.e. samtals 232.176 kr. á mánuði á árinu 2018 og 240.534 kr. á mánuði á árinu 2019.

Kærandi byggir á því að hann hafi unnið mikið X 2018 en hann fái ekki X kr. í laun á mánuði á meðan hann sé í námi.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK voru launatekjur kæranda á árinu 2018 að meðaltali X kr. á mánuði og síðustu X mánuði ársins 2018 voru launatekjurnar að meðaltali X kr. á mánuði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá eru launatekjur kæranda því yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt framangreindum reglugerðarákvæðum, hvort sem litið er til ársins 2018 í heild eða þeirra mánaða á haustönn 2018 þegar kærandi var í námi. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála var Tryggingastofnun ríkisins því heimilt að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris vegna náms.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. janúar 2019, um synjun á umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms, staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um barnalífeyri vegna náms, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum