Hoppa yfir valmynd

Mál nr. IRR15010151

Ár 2015, þann 8. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR15010151

 

Kæra [A]
á ákvörðun
sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 2. janúar 2015 kærði [A] (hér eftir nefndur [A]), […], ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur sýslumaður) um gildistíma ökuréttinda í útgefnu ökuskírteini […] þann 28. október 2014. Krefst [A] þess að gildistími skírteinisins verði til 2050 líkt og í eldra ökuskírteini í stað 28. október 2029. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins sótti [A] um endurnýjun ökuréttinda til sýslumanns og fékk útgefið nýtt fullnaðarskírteini þann 28. október 2014. Var gildistími skírteinisins 15 ár sbr. ákvæði 3. mgr. 51. gr. umferðarlaga.

Með kæru dagsettri þann 2. janúar 2015 fór [A] þess á leit að að ökuskírteinið myndi gilda til 2050 en ekki 2029 líkt og fram kemur í skírteininu.

Með bréfum ráðuneytisins dags. 27. janúar og 2. mars 2015 var sýslumanni gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi sýslumanns dags. 12. mars 2015.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. mars 2015 var [A] gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sýslumanns. Bárust ráðuneytinu athugasemdir [A] með bréfi hans dagsettu 24. apríl 2015.

Með bréfi ráðuneytisins til [A] dags. 8. maí 2015 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök [A]

Í kæru greinir [A] frá því að hann hafi þurft að endurnýja aukin ökuréttindi sín en 10 ára gildistími þeirra réttinda hafi verið liðinn. Hafi nýtt ökuskírteini verið gefið út þann 28. október 2014. Engar upplýsingar hafi komið fram í því ferli sem gefið hafi til kynna að endurnýjun aukinna ökuréttinda hefði áhrif á gildistíma almennra ökuréttinda en samkvæmt eldra ökuskírteini hafi gildistími þeirra verið til ársins 2050. Kveðst[A] ekki hafa haft ástæðu til að ætla að endurnýjun aukinna ökuréttinda hefði áhrif á önnur ökuréttindi. Þegar [A] hafi fengið ökuskírteinið í hendur hafi komið í ljós að gildistími almennra ökuréttinda hafi verið styttur til ársins 2029. Lítur [A] svo á að hann hafi verið sviptur ökurétti á árunum 2029-2050 án sakar og án þess að heimild sé fyrir slíkri sviptingu í lögum.

[A] telur vandséð hvernig sýslumaður getur komist að þeirri niðurstöðu að um rétta framkvæmd sé að ræða. Ekki sé deilt um lögmæti þeirrar breytingar að gildistími ökuskírteina sé 15 ár líkt og fram kemur í umferðarlögum. Sú breyting að stytta gildistíma ökuskírteina sé hins vegar gerð með lögum nr. 152/2012. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum komi fram að með 1. gr. sé lögð til sú breyting á gildandi lögum að fullnaðarskírteini gildi ekki lengur þar til hlutaðeigandi sé fullra 70 ára heldur einungis í 15 ár frá útgáfu þess. Lögin skuli þó ekki hafa áhrif á ökuréttindi sem hafi verið veitt eða verið aflað fyrir gildistöku laganna. Gildistökuákvæði sé miðað við 19. janúar 2013 en frá og með þeirri dagsetningu skuli skírteinin gefin út samkvæmt hinum nýja gildistíma, eða í 15 ár. Þarna segi svo ekki verði um villst að breytingin eigi ekki með nokkrum hætti að hafa áhrif á áður útgefin ökuréttindi. Hafi það verið vilji löggjafans að breyta alfarið útgáfutíma ökuréttinda hefði það verið gert með lögum nr. 152/2012.

[A] telur að sá skilningur sýslumanns að ökuréttindi séu veitt ökuskírteini [A] en ekki honum sem persónu standist ekki. Sýslumaður rugli þar saman tveimur aðskildum hlutum, annars vegar endurnýjun ökuréttinda og hins vegar endurnýjun skírteinisins sjálfs. Það síðar nefnda hafi engin áhrif á ökuréttindi viðkomandi. Fyrr nefndur texti úr greinargerð með lögum nr. 152/2012 staðfesti það álit [A]. Þá getur [A] þess að á ökuskírteinum sé gildistími ökuréttinda sérstaklega tilgreindur á bakhlið skírteinis en gildistími ökuskírteinisins sé tilgreindur á framhlið þess. Framkvæmd sýslumanns við endurnýjun ökuskírteina hafi með tilviljanakenndum og afar íþyngjandi hætti haft áhrif á ökuréttindi. Muni framkvæmdin hafa áhrif á ökuréttindi atvinnubílstjóra, annarra aðila með aukin ökuréttindi sem óska endurnýjunar þeirra réttinda að ótöldum þeim aðilum sem týna ökuskírteinum. Standist ekki að slík framkvæmd hafi verið vilji löggjafans. Augljóst sé að þeirri breytingu að gefa ökuskírteini út til 15 ára í senn sé eingöngu ætlað að hafa áhrif á ökuréttindi sem gefin hafi verið út til bráðabirgða sem og á yngri kynslóðir sem ekki hafi öðlast ökuréttindi þegar lögin tóku gildi. Telur [A] að sýslumaður hafi á ólögmætan hátt svipt [A] almennum ökuréttindum á tímabilinu 2029-2050 og sé um að ræða afar íþyngjandi ákvörðun. Þá sé framkvæmd sýslumanns brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Um hafi verið að ræða einhliða ákvörðun sýslumanns en [A] hafi ekki verið gefinn kostur á andmælum eða því að sleppa endurnýjun aukinna ökuréttinda til að forðast sviptingu almennra ökuréttinda.

Í andmælum sínum áréttar [A] að með ákvörðun sýslumanns hafi hann verið sviptur almennum ökuréttindum í 21 ár enda geti [A] ekki gert ráð fyrir að halda ökuréttindum nema til ársins 2029 í staðinn fyrir að vera með ökuréttindi til ársins 2050. Geti sýslumaður ekki sagt til um hvaða lög muni gilda á Íslandi eftir 15 ár. Því sé ekki hægt að ganga út frá því að hægt verði að endurnýja ökuréttindi að þeim tíma liðnum. Þó það verði mögulegt geti það haft í för með sér verulegan kostnað. Sé ekki hægt að segja til um hvaða lög og reglur verði í gildi eftir 15 ár og því verði að líta svo á að sýslumaður hafi svipt [A] ökuréttindum. Þá eigi fullyrðing sýslumanns þess efnis að þegar sótt er um endurnýjun aukinna ökuréttinda verði að telja að öll réttindi samkvæmt skírteininu verði endurnýjuð í samræmi við gildandi lög á þeim tíma sem endurnýjun á sér stað sér ekki stoð í lögum auk þess sem hún gangi gegn greinargerð með lögum nr. 152/2012. Þá telur [A] að sýslumaður hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum. Hafi [A] ekki verið veittar neinar leiðbeiningar um hvaða áhrif endurnýjun ökuskírteinis hefði á önnur ökuréttindi.

 

IV.    Umsögn  sýslumanns

Sýslumaður vísar í umsögn sinni til úrskurðar ráðuneytisins í máli IRR13050290. Það sé mat sýslumanns að um sé að ræða sambærilegt erindi og telja verði að sýslumanni sé skylt að afgreiða málið með sama hætti. Vísar sýslumaður til rökstuðnings þess úrskurðar. Breyti engu þar um þótt um endurnýjun aukinna réttinda sé að ræða eins og í þessu máli en ekki að auknum réttindum sé bætt við eins og í máli IRR13050290. Þegar sótt er um endurnýjun aukinna ökuréttinda verði að telja að öll réttindi samkvæmt skírteininu verði endurnýjuð í samræmi við gildandi lög á þeim tíma sem endurnýjunin á sér stað. [A] hafi fengið fullnaðarskírteini útgefið 28. október 2014 og sé gildistími þess 15 ár, sbr. 3. mgr. 51. gr. umferðarlaga. Ekki sé fallist á að sýslumaður hafi svipt [A] almennum ökuréttindum þar sem hann geti lögum samkvæmt óskað eftir endurnýjun ökuskírteinis að loknum gildistíma þess uppfylli hann skilyrði umferðarlaga og reglugerðar nr. 830/2012 á þeim tíma.

 

V.    Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er útgáfa endurnýjaðs ökuskírteinis [A] sem gefið var út af sýslumanni þann 28. október 2014. Gildir skírteinið til 28. október 2029. Krefst [A] þess að gildistíminn verði leiðréttur þar sem fyrra skírteini hans gilti til ársins 2050 eða til 70 ára aldurs hans. Hafa sjónarmið [A] fyrir kröfunni verið rakin hér að framan.

Ráðuneytið áréttar að sömu sjónarmið eiga við úrlausn þessa máls og í úrskurði í IRR13050290 sem kveðinn var upp þann 30. janúar 2014. Samkvæmt 3. mgr. 51. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 152/2012, gildir fullnaðarökuskírteini í 15 ár. Var ákvæðinu breytt með lögunum frá 2012 og kveðið á um 15 ára gildistíma fullnaðarskírteinis í stað þess að áður gilti skírteinið til 70 ára aldurs skírteinishafa. Þegar [A] endurnýjaði ökuskírteini sitt bar sýslumanni því að kveða á um 15 ára gildistíma ökuréttinda [A] í samræmi við fyrrnefnt ákvæði umferðarlaga enda ber við endurnýjun réttinda að fylgja fyrirmælum þeirra laga sem í gildi eru þegar endurnýjunin á sér stað. Þá er réttilega á það bent af hálfu sýslumanns að þegar bætt er við ökuréttindum eru öll réttindi samkvæmt skírteininu endurnýjuð í samræmi við gildandi lög á þeim tíma sem endurnýjunin á sér stað. Þá bendir ráðuneytið einnig á að samkvæmt 5. mgr. 51. gr. umferðarlaga má endurnýja ökuskírteini að loknum gildistíma enda fullnægi hlutaðeigandi enn skilyrðum til að fá ökuskírteini útgefið. Sé því ekki um það að ræða að [A] hafi verið sviptur ökurétti á tímabilinu frá 2029 til 2050 líkt og hann heldur fram. Þá telur ráðuneytið að sýslumanni hafi ekki verið skylt að leiðbeina [A] sérstaklega né gefa honum kost á að tjá sig áður en ökuréttindi hans voru endurnýjuð enda fyrirmæli 3. mgr. 51. gr. umferðarlaga skýr. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um gildistíma ökuréttinda til 15 ára við endurnýjun ökuskírteinis [A] þann 28. október 2014.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum