Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 71/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 71/2015

Fimmtudaginn 14. apríl 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Margrét Gunnlaugsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 9. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar frá x október 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um útgáfu á U2-vottorði til að fá greiddar atvinnuleysisbætur í B á meðan hún leitaði sér að vinnu þar með umsókn, dags. 3. júlí 2015. Þá sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. júlí 2015. Kærandi sótti jafnframt um undanþágu frá kröfu laganna um að umsækjandi um U2-vottorð þurfi að uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar a.m.k. fjórum vikum fyrir brottfarardag.

Umsókn kæranda um U2-vottorð var samþykkt með gildistíma frá x júlí 2015 til x október 2015. Vottorðið var gefið út 4. ágúst 2015 og sent á heimilisfang kæranda í B. Kærandi skráði sig hjá vinnumiðlun í B þann 26. ágúst 2015.

Með tilkynningu í gegnum vefgátt Vinnumálastofnunar þann 20. október 2015 var kæranda bent á að hún þyrfti að mæta á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að staðfesta heimkomu. Athygli var vakin á því að ef tilkynning um heimkomu bærist ekki innan sjö virkra daga frá lokadegi U2-vottorðsins myndi réttur hennar til atvinnuleysisbóta falla niður. Kærandi hafði ekki samband við Vinnumálastofnun.

Með bréfi, dags. 26. október 2015, var kæranda tilkynnt um að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hefðu verið stöðvaðar þar sem hún hafi ekki tilkynnt um heimkomu sína skriflega til Vinnumálastofnunar innan lögboðins frests, sbr. 46. gr. laga nr. 56/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi gerði athugasemdir við afgreiðslu Vinnumálastofnunar á máli hennar með tölvupósti þann 27. október 2015. Kæranda var svarað með tölvupósti þann 30. október 2015 þar sem niðurstaðan var ítrekuð.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 9. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 16. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 4. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2015, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 2. janúar 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð. Kærandi greinir frá því í kæru að henni hafi verið tjáð að hún fengi þrjá mánuði á atvinnuleysisbótum í leit að vinnu erlendis þar sem maður hennar hafi fengið vinnu erlendis. Hún hafi aldrei þurft að þiggja atvinnuleysisbætur og þekki ekki ferlið. Þess vegna hafi hún alfarið treyst á starfsmenn Vinnumálastofnunar. Hún hafi mörgum sinnum farið til þeirra til þess að fá leiðbeiningar.

Fram kemur að orlof hennar hafi klárast 20. ágúst og hún hafi fengið síðustu greiðslu í lok ágúst. Þetta sé allt saman skráð hjá Vinnumálastofnun. Henni hafi verið tjáð að ekkert myndi gerast varðandi atvinnuleysistryggingar fyrr en hún væri búin með orlofið og hefði fengið síðustu launagreiðslu. Hún hafi margsinnis tekið skýrt fram að hún færi út til eiginmanns síns þegar hún tæki út orlofið sitt.

Kærandi byggir á því að henni hafi verið tjáð að það væri mjög mikilvægt að skrá sig á vef „C“ um leið og hún myndi skrá sig inn í landið sem hún hafi gert. Hún hafi fengið senda pappíra út um miðjan ágúst og skilað þeim inn í lok ágúst. Henni hafi verið tjáð af starfsmanni þar að atvinnuleysistímabil hennar myndi hefjast um leið. Hún hafi gert það sama og aðrir Íslendingar sem flytji til B, þ.e. fengið nýja kennitölu og skattkort og flutt lögheimilið til manns síns.

Þá segir að hún geri ráð fyrir að hún hafi verið að tala við sumarstarfsmann þegar hún hafi unnið í sínum málum á Íslandi og hann hafi gefið henni rangar upplýsingar. Hún spyr hvers vegna í ósköpunum hún ætti að gera eitthvað sem myndi valda því að hún fengi ekki bætur. Hún telji að það sé augljóst að mistök hafi verið gerð. Hún sé ekki viljandi að svíkja út bætur eða að gera eitthvað óheiðarlegt. Henni finnist það að skrá sig strax inn í landið og hefja atvinnuleit sé frekar jákvætt, bæði fyrir hana og atvinnuleysissjóð, því að þetta auki möguleika hennar á að fá vinnu.

Hún hafi síðan fengið bréf frá Greiðslustofu þar sem fram hafi komið að þar sem hún sé ekki búin að gefa upp hvenær hún komi heim þá falli greiðslur til hennar niður. Henni sé jafnframt sagt að þessir þrír mánuðir hafi byrjað að telja um leið og hún hafi skráð sig inn í landið eða farið brott frá Íslandi. Tíminn hafi sem sagt byrjað að líða þegar hún hafi verið í orlofi. Henni hafi verið sagt að brottfarardagur skipti ekki neinu máli og ekki heldur skráning í B, þrátt fyrir að hún hafi sérstaklega spurt starfsmann að því.

Það sé alls staðar skráð að hún sé að fylgja manni sínum til útlanda vegna þess að hann hafi fengið vinnu þar. Hún sé ekki á leið til Íslands. Vinnumálastofnun hafi vísað í einhver lög. Það megi vel vera að lögin segi þetta en henni hafi alltaf verið tjáð að tíminn byrjaði ekki að líða fyrr en atvinnuleysistímabilið myndi byrja hjá henni. Hún hafi lesið að það væri hægt að fá bótagreiðslur erlendis í atvinnuleit í þrjá mánuði og ef viðkomandi fengi ekki vinnu þá yrði hann að koma aftur til Íslands ef hann ætlaði að halda bótum á Íslandi. Henni finnist það hart ef mistök, sem hún hafi gert vegna rangra leiðbeininga frá starfsmanni, valdi því að hún missi þær bætur sem henni hafi verið lofaðar.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún sé ekki sátt við að pappírarnir hafi ekki verið rétt útfylltir. Samkvæmt öllum gögnum sem Vinnumálastofnun hafi haft þá sé alveg augljóst að hún hafi ekki getað fengið þrjá mánuði greidda. Hún spyr hvers vegna enginn hafi sagt henni frá því. Hún skilji ekki hvernig það sé hægt að greiða út atvinnuleysisbætur eða réttara sagt heimila greiðslu á atvinnuleysisbótum þegar viðtakandi megi ekki samkvæmt lögum þiggja bætur því viðkomandi sé enn á launum. Þetta sé aðalástæðan fyrir kæru hennar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þar sem kærandi hafi farið til útlanda svo skömmu eftir að hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun hafi ekki verið unnt að meta bótarétt hennar fyrir brottfarardag. Þann 29. júlí hafi greiðslustofa Vinnumálastofnunar lokið afgreiðslu á umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda hafi hún starfað hjá D til x júlí 2015. Umsókn kæranda hafi því verið samþykkt frá x júlí. Að auki hafi hún átt eftir að taka út 23 daga í ótekið orlof við starfslok. Kærandi hafi því verið skráð í orlof frá x júlí til x ágúst 2015.

Ekki hafi verið skýrt í umsókn um U2-vottorð hvort kærandi hygðist fara út x eða x júlí  en fulltrúi stofnunarinnar hafi talið að brottfarardagur kæranda væri x júlí 2015, enda hafi síðasti starfsdagur kæranda samkvæmt vottorði vinnuveitanda verið x júlí 2015. Umsókn kæranda um U2-vottorð hafi verið samþykkt og vottorðið gefið út 4. ágúst 2015. Þar sem kærandi hefði þegar verið farin úr landi og getað nýtt sér undanþáguákvæði 2. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi U2-vottorðið verið sent kæranda á heimilisfang hennar í B. Þriggja mánaða gildistími U2-vottorðs kæranda hafi því verið frá x júlí til x október 2015. Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggi fyrir í máli kæranda sé ljóst að hún hafi farið til útlanda x júlí 2015.

Þá segir að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu. Í kaflanum sé að finna ákvæði er lúti að atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. 

Samkvæmt 42. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda sem sé í atvinnuleit í öðru EES-ríki ef hann uppfylli tiltekin skilyrði.  Í 3. mgr. 42. gr. segir að Vinnumálastofnun gefi út viðeigandi vottorð til staðfestingar á rétti hins tryggða samkvæmt ákvæðinu. Í 1. mgr. 43. gr. laganna segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir sé af tímabili samkvæmt 29. gr. laganna.

Í ákvæðinu komi skýrt fram að það tímabil sem Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til umsækjanda í atvinnuleit erlendis hefjist á brottfarardegi viðkomandi.  Vinnumálastofnun sé því ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til einstaklings lengur en í þrjá mánuði frá brottfarardegi hans. Í tilfelli kæranda hafi hún farið af landi brott x júlí 2015. Sökum þess að í umsókn kæranda um U2-vottorð hafi verið örðugt að greina hvort hún hugðist fara utan x eða x júlí hafi brottfarardagur hennar verið skráður x júlí 2015.  Þar sem Vinnumálastofnun hefði hæglega getað kannað betur dagsetningu með því að hafa samband við kæranda og þar sem skráður brottfarardagur sé hagstæðari fyrir kæranda telji Vinnumálastofnun ekki efni til að leiðrétta þá dagsetningu afturvirkt.

Samkvæmt framangreindu geti kærandi í mesta lagi átt rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hún leiti að vinnu í B frá x júlí 2015 til x október 2015. U2-vottorð hafi því verið gefið út fyrir það tímabil. Í d-lið 1. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það sé skilyrði fyrir að atvinnuleitandi geti nýtt sér heimild samkvæmt ákvæðinu að viðkomandi skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki þar sem atvinnuleitin fari fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virkra daga frá brottfarardegi. Enn fremur segi í 3. mgr. 42. gr. að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita atvinnuleitanda lengri tíma til að skrá sig hjá hinni erlendu vinnumiðlun. Sé slík heimild veitt falli greiðslur atvinnuleysisbóta til atvinnuleitanda niður frá og með brottfarardegi og hefjist að nýju við skráningu erlendis.

Eins og fram komi í U009-vottorði frá vinnumiðlun í B hafi kærandi fyrst skráð sig í atvinnuleit þar 26. ágúst 2015. Kærandi geti því fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá og með 26. ágúst 2015. Lagaheimild 3. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi eingöngu að Vinnumálastofnun geti veitt atvinnuleitanda frest til að skrá sig hjá vinnumiðlun erlendis og að greiðslur hefjist fyrst við það tímamark. Ákvæðið feli ekki í sér heimild til að lengja tímabil samkvæmt 42. gr. laganna. Í ljósi framangreinds geti kærandi eingöngu átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá 26. ágúst til x október 2015.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar geri kærandi athugasemd við skráningu á óteknu orlofi hennar frá fyrri vinnuveitanda. Vinnumálastofnun bendi á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist hver sá, sem hafi fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fái greiðslur vegna starfsloka, ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eigi við um. Vinnumálastofnun sé því ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur á sama tíma og kærandi eigi rétt á orlofi frá fyrrverandi vinnuveitanda. Þar að auki verði ekki séð að skráning á orlofi kærandi hafi áhrif á niðurstöðu í máli hennar. Kærandi hafi verið skráð í orlof frá x júlí til x ágúst 2015. Þar sem kærandi hafi skráð sig fyrst hjá vinnumiðlun erlendis þann 26. ágúst hafi orlofsskráning ekki áhrif á greiðslur til hennar.

Kærandi haldi því einnig fram í kæru sinni til nefndarinnar að Vinnumálastofnun hafi veitt henni rangar upplýsingar. Kærandi segi meðal annars að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi tjáð henni að hún gæti hafið tímabil sitt í lok ágúst. Þá segi kærandi að henni hafi verið tjáð að hvorki brottfarardagur né skráning í B skipti nokkru máli. Vinnumálastofnun fallist ekki á framangreindar málsástæður kæranda. Ekkert í gögnum máls styðji þá fullyrðingu kæranda að starfsfólk hafi veitt henni upplýsingar sem stangist algerlega á við lagareglur er lúti að verksviði stofnunarinnar. Þá sé bent á að kærandi hafi fyllt út og skilað umsókn um U2-vottorð þann 3. júlí 2015. Á þeirri umsókn haki kærandi við að hafa fengið afhent upplýsingablað um þær reglur sem gildi um flutning atvinnuleysisbóta á milli EES-landa. Á því upplýsingablaði sé meðal annars að finna kafla um skráningu hjá vinnumiðlun í gistilandi. Þar sé skýrt tekið fram að atvinnuleitandi þurfi að skrá sig hjá vinnumiðlun erlendis innan sjö daga frá gildistöku vottorðsins annars verði fyrst greitt frá skráningardegi erlendis. Í umræddum upplýsingabæklingi komi einnig fram að U2-vottorð hafi fastmótaðan gildistíma og óheimilt sé að framlengja tímabilið.  

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi skráð sig fyrst hjá vinnumiðlun í B þann 26. ágúst 2015. Tímabilinu samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 54/2006 hafi lokið þann 15. október. Sú dagsetning sé skráð á vottorð kæranda. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki tilkynnt um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan þess frests sem kveðið sé á um í 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda falli því niður frá og með þeim degi er tímabili U2-vottorðs hafi lokið. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum frá x ágúst 2015 til x október 2015.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá x október 2015.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það eitt af almennum skilyrðum fyrir því að atvinnuleitandi teljist tryggður samkvæmt lögunum að hann sé búsettur og staddur hér á landi.

Í VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er að finna undanþágu frá framangreindri meginreglu um búsetu á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laganna er heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til þess sem telst tryggður samkvæmt lögunum og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamingi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 42. gr. laganna er eitt af skilyrðunum það að atvinnuleitandi skrái sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlun í því ríki sem atvinnuleitin fer fram samkvæmt lögum þess ríkis innan sjö virka daga frá brottfarardegi. Hins vegar segir í 3. mgr. 42. gr. laganna að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita hinum tryggða lengri tíma til að skrá sig hjá hinni erlendu vinnumiðlun en kveðið sé á um í framangreindum d-lið 1. mgr. 42. gr. laganna. Greiðslur atvinnuleysisbóta falli þá niður frá og með brottfarardegi og hefjist að nýju við skráningu erlendis.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er Vinnumálastofnun heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samkvæmt 42. gr. laganna í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða en þó aldrei í lengri tíma en sem eftir sé af tímabili atvinnuleysisbóta samkvæmt 29. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi til B þann x júlí 2015 til þess að leita að starfi þar sem maður hennar var þar í vinnu. Í hinni kærðu ákvörðun er lagt til grundvallar að kærandi hafi farið af landi brott þann x júlí 2015 og gildistími U2-vottorðisins var frá x júlí 2015 til x október 2015. Vinnumálastofnun taldi ekki ástæðu til að breyta brottfarardeginum sem stofnunin miðaði við þar sem x júlí 2015 er hagstæðari dagsetning fyrir kæranda heldur en x júlí 2015 og mistök hefðu verið gerð af hálfu stofnunarinnar. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við þá niðurstöðu að miða brottför kæranda við x júlí 2015.

Kærandi er ósátt við að greiðslur bóta til hennar hafi verið stöðvaðar þann x október 2015 þar sem hún telur sig hafa átt rétt á að fá greiddar bætur í þrjá mánuði en greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hófust ekki fyrr en þann 26. ágúst 2015. Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi sig ekki hjá atvinnumiðlun í B fyrr en þann 26. ágúst 2015. Þar sem kærandi skráði sig ekki hjá atvinnumiðlun innan sjö daga frá brottfarardegi átti hún ekki rétt á bótum fyrr en hún skráði sig þann 26. ágúst 2015, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá er ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur vegna atvinnuleitar erlendis í lengri tíma en þrjá mánuði frá brottfarardegi samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna. Framangreint skilyrði, þ.e. að miða upphafstíma þriggja mánaða tímabilsins við brottfarardag, er ófrávíkjanlegt. Þannig er ekki heimilt að miða upphafstíma tímabilsins við skráningu hjá atvinnumiðlun þrátt fyrir að bótagreiðslur hefjist ekki fyrr en á þeim tíma.

Kærandi vefengir í raun ekki að afgreiðsla Vinnumálastofnunar hafi verið í samræmi við lög. Hún gerir hins vegar athugasemd við að henni hafi ekki verið leiðbeint nægjanlega vel. Kærandi byggir á því að Vinnumálastofnun hafi mátt vera ljóst af öllum gögnum málsins að kærandi gæti ómögulega fengið greiðslur í þrjá mánuði en samt hafi henni ekki verið leiðbeint um það við útfyllingu á pappírum. Henni hafi í raun verið sagt að brottfarardagur skipti engu máli í þessu samhengi.

Erfitt er að segja til um hvað fór nákvæmlega fram á milli kæranda og starfsmanna Vinnumálastofnunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er hins vegar ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi fengið rangar leiðbeiningar. Fyrir liggur að kærandi sótti um U2-vottorð áður en hún sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta og því hafði Vinnumálastofnun ekki fengið vottorð vinnuveitanda, þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um orlofsrétt kæranda, þegar kærandi sótti um U2-vottorðið. Úrskurðarnefndin telur því ekkert benda til þess að Vinnumálastofnun hafi haft tilefni til þess að leiðbeina kæranda um að það gæti verið hagstæðara fyrir hana að fara út til B síðar. Þá sótti kærandi einungis um bætur og U2-vottorð nokkrum dögum fyrir brottför og því var ekki hægt að afgreiða umsókn hennar áður en hún fór út. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því ákvörðun Vinnumálastofnunar ekki breytt á þeim grundvelli að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Vinnumálastofnun hafi borið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þann x október 2015, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá x október 2015, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum