Hoppa yfir valmynd

Mál 00100030


Ráðuneytinu hefur borist kæra frá Guðjóni Ólafi Jónssyni hdl. f.h. Stjörnugrís hf, Vallá Kjalarnesi dagsett 3. október 2000 vegna ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 13. september 2000 um að hafna að taka til efnislegrar afgreiðslu umsókn kæranda um starfsleyfi fyrir stækkun svínabús að Melum í Leirár- og Melahreppi í Borgarfjarðarsýslu nema kærandi tilkynni Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd samkvæmt 6. gr. g- lið 1. tölulið 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.




I. Hin kærða ákvörðun.


Með bréfi Heilbrigðisnefndar Vesturlands dagsettu 18. september 2000 er Stjörnugrís hf. tilkynnt um ákvörðun nefndarinnar frá 13. september þar sem nefndin samþykkti að benda fyrirtækinu á að áður en starfsleyfi geti verið afgreitt fyrir fyrirtækið skuli Stjörnugrís hf. tilkynna til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd sína.




II. Málsatvik.


Með bréfi dagsettu 29. júní 1999 var umhverfisráðuneytinu tilkynnt með vísan til 6. gr. þágildandi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 að fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda á Melum um að reisa þar svínabú kynnu að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Í úrskurði umhverfisráðuneytisins vegna málsins dagsettum 30. ágúst 1999 tók ráðuneytið þá ákvörðun að bygging og rekstur búsins skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Kærandi taldi ákvörðun ráðuneytisins ólögmæta og fór með málið fyrir dómstóla. Með dómi Hæstaréttar Íslands þann 13. apríl 2000 var ákvörðun umhverfisráðuneytisins felld úr gildi.


Þann 7. ágúst 1999 sótti kærandi um starfsleyfi fyrir 2950 grísa búi. Heilbrigðisnefnd Vesturlands gaf þann 22. desember út starfsleyfi fyrir svínabú kæranda á Melum fyrir "þauleldi á fráfærugrísum, þar til þeir ná sláturstærð, í svínahúsi þar sem ekki skulu hýstir fleiri en 2950 grísir samtímis."


Þann 14. apríl 2000 sótti kærandi um starfsleyfi vegna stækkunar búsins upp í 7840-8960 grísa bú.


Á fundi Heilbrigðisnefndar Vesturlands þann 17. maí 2000 samþykkti nefndin að senda Skipulagsstofnun bréf þar sem álit nefndarinnar um að ekki þyrfti að óska eftir mati á umhverfisáhrifum kæmi fram. Með bréfi Skipulagsstofnunar dagsettu 29. maí 2000 var vísað nýsamþykktra laga um mat á umhverfisáhrifum sem enn höfðu ekki tekið gildi um að kveðið væri á um það í viðauka við lögin að stöðvar þar sem fram færi þauleldi svína með 3000 stæði fyrir alisvín eða fleiri væru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum.


Á fundi Heilbrigðisnefndar Vesturlands þann 9. júní 2000 var ákveðið að auglýsa fyrirliggjandi starfsleyfisdrög sem var ætlað að gilda fyrir þauleldi á fráfærugrísum þar til þeir ná sláturstærð í svínahúsi þar sem ekki skulu hýstir fleiri en 8000 grísir samtímis.


Á fundi Heilbrigðisnefndar Vesturlands þann 10 ágúst 2000 var ákveðið að leita álits umhverfisráðuneytisins á því hvort breytingar á starfsleyfi kæranda þyrftu að sæta mati á umhverfisáhrifum. Með bréfi umhverfisráðuneytisins frá 4. september til heilbrigðiseftirlits Vesturlands segir eftirfarandi:





"Með úrskurði ráðuneytisins frá 4. september 2000 í máli Salar Islandica var úrskurðað um lagaskil eldri og gildandi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í framangreindu máli að beita beri lögum nr. 106/2000 um umsóknir um útgáfu á starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem fellur undir framangreind lög, sem barst fyrir gildistöku laganna og hafði ekki hlotið afgreiðslu fyrir þann dag eða 6. júní 2000. Varðandi rökstuðning fyrir niðurstöðu ráðuneytisins er vísað til kafla IV.1-3. í úrskurðinum.



Fyrirspurn yðar lítur að sama álitaefninu og um var að ræða í ofangreindu máli. Með vísan til framangreinds úrskurðar er það niðurstaða ráðuneytisins að lög nr. 106/2000 gildi um breytingu á starfsleyfi fyrir svínabúið að Melum. Fyrirhuguð framkvæmd fellur undir a. lið 13. töluliðar 2. viðauka laga nr. 106/2000, sbr. ii. liður 19. töluliðar 1. viðauka sömu laga."



Á fundi Heilbrigðisnefndar Vesturlands þann 13. september 2000 var umsókn kæranda tekin fyrir og í ljósi afstöðu ráðuneytisins, tók nefndin þá ákvörðun sem fjallað er um hér.


Kærandi gerði þá kröfu í máli þessu að umhverfisráðherra og starfsfólk umhverfisráðuneytisins víki sæti við meðferð málsins og að settur verði umhverfisráðherra ad hoc til meðferðar þess. Með bréfi dagsettu 23. október 2000 tók ráðuneytið þá ákvörðun að þeir starfsmenn ráðuneytisins sem komið hafa beint að afgreiðslu erindis til heilbrigðiseftirlits Vesturlands dags. 4. september 2000 skulu ekki taka þátt í meðferð málsins vegna hinnar kærðu ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 13. september. Ráðuneytið féllst að öðru leyti ekki á kröfu kæranda að umhverfisráðherra og undirmenn hans viki sæti við meðferð kærumálsins frá 13. september 2000.




III. Kröfur og málsástæður kæranda.


Stjörnugrís hf. gerir þær kröfur að ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 13. september 2000 verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir nefndina að taka umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu.


Málsástæður kæranda eru m.a. eftirfarandi:



Í fyrsta lagi að mál þetta hefði aldrei komið upp nú ef umhverfisráðherra hefði ekki tekið þá ólögmætu ákvörðun á sínum tíma að rekstur og bygging svínabús kæranda skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun hefur valdið töfum og tjóni. Sökum ákvörðunar umhverfisráðherra var þýðingarlaust fyrir kæranda sumarið 1999 að sækja um byggingar- og starfsleyfi fyrir þann rekstur sem hann fyrirhugaði að hafa á jörðinni og deiliskipulag gerði ráð fyrir. Beri Heilbrigðisnefnd Vesturlands því þegar af þeim sökum og í ljósi ótvíræðrar niðurstöðu Hæstaréttar að taka starfsleyfisumsókn kæranda til efnislegrar niðurstöðu.


Í öðru lagi bendir kærandi á að jafnvel þó litið yrði fram hjá þeim töfum og vandræðum sem umhverfisráðherra olli kæranda með hinni ólögmætu ákvörðun sinni þá beri Heilbrigðisnefnd Vesturlands að afgreiða umsókn kæranda á grundvelli þeirra laga og krafna sem voru í gildi þegar umsóknin var lögð fram.


Kærandi telur því að ákvæðum laga nr. 106/2000, sem tóku gildi löngu eftir að kærandi leitaði fyrst til heilbrigðiseftirlits og sannanlega um tveimur mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn um breytingu á því starfsleyfi sem honum var þó unnt að fá útgefið á síðastliðnu ári, verði ekki beitt við afgreiðslu máls hans. Verði það því ekki gert að skilyrði fyrir efnislegri afgreiðslu á umsókn um breytingu á starfsleyfi að hann tilkynni áður um framkvæmdina til Skipulagsstofnunar. Verði því að fella ákvörðun heilbrigðisnefndar úr gildi og leggja fyrir nefndina að taka umsóknina til efnislegrar afgreiðslu.


Þá bendir kærandi á að byggingarnefnd hefur án athugasemda gefið út leyfi til byggingar síðari áfanga þess svínabús sem kærandi ætlar undir starfsemi sína að Melum, en eins og fyrr var rakið varð kærandi að sækja um leyfi til byggingar hússins í tvennu lagi vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar umhverfisráðherra. Telur kærandi að gæta verði samræmis í ákvörðunum stjórnvalda í málum hans.




IV. Umsagnir og álit.


Ráðuneytið sendi með bréfum dagsettum 30. október 2000 kæru Stjörnugríss hf. til umsagna Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Hollustuverndar ríkisins og Leirár- og Melahrepps.


Ráðuneytinu barst umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands með bréfi dagsettu 7. nóvember 2000. Í umsögn Heilbrigðisnefndar kom m.a. fram að nefndin teldi sig hafa farið að gildandi lögum og reglugerðum í máli þessu.


Umsögn Hollustuverndar ríkisins barst ráðuneytinu með bréfi dagsettu 13. nóvember 2000 og kemur þar m.a. fram að stofnunin standi við álit sitt varðandi ákvörðun um Salar Islandica þar sem það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að framkvæmdaraðili ætti að tilkynna framkvæmd til Skipulagsstofnunar á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum þrátt fyrir að umsókn hafi borist þegar eldri lög um mat á umhverfisáhrifum voru í gildi. Að öðru leyti vildi Hollustuvernd ríkisins ekki tjá sig um kæruna þar sem hún varðar lagatæknileg atriði.


Umsögn Leirárs- og Melahrepps barst ráðuneytinu þann 7. nóvember 2000. Í henni segir m.a. að sveitarstjórn taki ekki afstöðu til kæru Stjörnugrís hf. en tekur fram að sveitarstjórn hafi fjallað á tveimur fundum um breytingu á starfsleyfi fyrir Stjörnugrís hf. og þar samþykkt að gera ekki athugasemdir við breytingu á starfsleyfi fyrirtækisins.


Ofangreindar umsagnir voru sendar til kæranda með bréfi ráðuneytisins dagsettu 20 nóvember 2000 og honum gefin kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna þeirra. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 22. nóvember 2000 og í þeim kemur m.a. fram að kærandi telur að hann hefði án alls efa fengið útgefið starfsleyfi sumarið 1999 ef ekki hefði komið til hin ólögmæta ákvörðun umhverfisráðherra, og þess vegna sé mál hans ekki sambærilegt við mál Salar Islandica sem vísað var til í gögnum málsins. Þar að auki telur kærandi að afgreiða verði umsókn hans um starfsleyfi á grundvelli þeirra laga sem voru í gildi þegar umsóknin var lögð fram.




V. Niðurstaða ráðuneytisins.


Kærandi byggir kröfu sína í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að mál hans og Salar Islandica séu ekki sambærileg vegna tafa sem urðu á afgreiðslu máls hans á árinu 1999 vegna ólögmætrar ákvörðunar umhverfisráðherra sem felld var úr gildi með dómi Hæstaréttar frá 13. apríl 2000.


Ljóst er að eftir að úrskurður ráðherra féll þann 30. ágúst 1999 var kæranda ekki heimilt að fara í framkvæmdir við 20.000 eldisgrísa bú eins og hann segist hafa ætlað sér. Rétt er hins vegar að taka fram að kærandi fékk starfsleyfi og byggingarleyfi fyrir 2950 grísa bú og var sú framkvæmd ekki tilkynnt til ráðuneytisins. Ráðuneytið byggði úrskurð sinn frá 30. ágúst 1999 á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 63/1993 þar sem sagði: "Umhverfisráðherra er heimilt, að fengnu áliti skipulagsstjóra, að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, en ekki er getið í 5. gr., verði háðar mati samkvæmt lögum þessum." Ráðuneytinu bar því samkvæmt þágildandi lögum að ákveða hvort framkvæmd sem kynni að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag verði háð mati á umhverfisáhrifum. Í dómi Hæstaréttar frá 13. apríl 2000 var niðurstaða dómsins hins vegar sú að framangreind 1. mgr. 6. gr. laganna stæðist ekki stjórnarskrá og því var ákvörðun umhverfisráðherra dæmd ólögmæt. Ráðuneytið ítrekar hins vegar þá skoðun sína að því hafi borið að fara eftir þeim lögum sem í gildi voru þegar ákvörðun um að hin fyrirhugaða framkvæmd væri matskyld var tekin og felst því ekki þá málsástæðu kæranda að ný lög um mat á umhverfisáhrifum geti ekki haft áhrif á málið sem kærandi telur að hefði átt að vera afgreitt frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands fyrir gildistöku laganna.


Það er ljóst að þetta mál og mál Salar Islandica eru ekki sambærileg sbr. það sem nefnt er hér að ofan. Þó að málin séu ólík hvað varðar málavexti m.a. vegna fyrri afskipta ráðuneytisins af máli Stjörnugrís, þá hefur það ekki þýðingu varðandi það álitaefni sem hér er til meðferðar sem varðar lagaskil milli eldri og yngri laga um mat á umhverfisáhrifum.


Kærandi byggir kröfu sínu í öðru lagi á því að jafnvel þótt litið yrði framhjá þeim töfum og vandræðum sem hin ólögmæta ákvörðun umhverfisráðherra olli beri að afgreiða umsókn kæranda á grundvelli þeirra laga og krafna sem voru í gildi þegar umsókn kæranda var lögð fram. Hér er um nákvæmlega sama álitaefnið að ræða og í áðurnefndu máli Salar Islandica þar sem umsókn um starfsleyfi hafði í báðum tilvikum ekki verið afgreidd þegar ný lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 tóku gildi.


Að mati ráðuneytisins ber í máli þessu að beita lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum um umsókn kæranda um útgáfu á starfsleyfi fyrir kæranda þar sem umsókn hans hafði ekki hlotið afgreiðslu fyrir gildistöku áðurnefndra laga en þau tóku gildi 6. júní 2000. Í þessu tilviki skiptir ekki máli fyrri meðferð málsins hjá ráðherra og hvort kærandi hafi orðið fyrir töfum og tjóni við þá málsmeðferð eins og hann heldur fram enda er sá þáttur ekki til meðferðar hér. Um rökstuðning fyrir niðurstöðu sinni vísar ráðuneytið til meðfylgjandi úrskurðar ráðherra frá 4. september 2000 í máli Salar Islandica.




Úrskurðarorð.


Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands frá 13. september 2000 skal óbreytt standa. Stjörnugrís hf, skal tilkynna fyrirhugaða framkvæmd sína til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum