Hoppa yfir valmynd

Mál 00070054



Ráðuneytinu hafa borist tíu kærur vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 7. júlí 2000 um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Um er að ræða kærur Ingólfs Á. Jóhannessonar, dags. 11. ágúst 2000, Kára Þorgrímssonar og Gylfa Yngvarssonar, dags. 14. ágúst 2000, Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, dags. 14. ágúst 2000, Náttúruverndar ríkisins, dags. 15. ágúst 2000, SUNN, dags. 15. ágúst 2000, Eysteins Sigurðssonar, dags. 15. ágúst 2000, Bergþóru Kristjánsdóttur, Hrafnhildar Hannesdóttur og Málmfríðar Einarsdóttur, dags. 15. ágúst 2000, Kísiliðjunnar við Mývatn, dags. 16. ágúst 2000, Fuglaverndarfélags Íslands, dags. 16. ágúst 2000 og Náttúruverndarsamtaka Íslands, dags. 16. ágúst 2000.





I. Hinn kærði úrskurður.



Kísiliðjan hf. tilkynnti þann 2. maí 2000 til annarrar athugunar kísilgúrvinnslu úr Mývatni samkvæmt lögum nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.



Úrskurður skipulagsstjóra hljóðar svo:







"Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 hefur skipulagsstjóri ríkisins farið yfir þau gögn sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu ásamt umsögnum, athugasemdum, frekari gögnum framkvæmdaraðila, sérfræðiálitum um strauma og setflutninga og lífríki og svörum framkvæmdaraðila.



6.1 Með vísun til niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er gerð krafa um frekari könnun eftirtalinna þátta varðandi efnistöku á námusvæði 1:







Kortlagning námusvæðis 1 og næsta nágrennis þess: Framkvæmdaraðili standi fyrir kortlagningu botnsamfélags á og umhverfis námusvæði 1 og leggi fram frekari upplýsingar um magn, tegundasamsetningu og búsvæði. Leggja þarf mat á þýðingu þess fyrir vistkerfi Mývatns að nema brott rýra botnsamfélag á og við námusvæði 1.



Talning og mat fjölda, þéttleika og hegðunarmynstri fugla vor og sumar á og nærri námusvæði 1. Þessar upplýsingar verða metnar í samhengi við heildarstofna fugla á Mývatni og á landinu öllu.



Mat á gildi námusvæðis 1 og umhverfis þess fyrir viðgang fuglastofna.



Mat á staðbundnum áhrifum námuvinnslu á næringarflæði frá seti vegna brottnáms botngróðursamfélaga.



6.2 Með vísun til niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er fallist á efnistöku á námusvæði 2 eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, með þeim breytingum að vinna megi niður á fulla setdýpt innan námusvæðis 2, með eftirfarandi skilyrðum:



Kortlagning námusvæðis 2 og næsta nágrenni þess: Framkvæmdaraðili standi fyrir kortlagningu botnsamfélags á og umhverfis námusvæði 2 áður en til framkvæmda kemur. Niðurstöður þeirrar kortlagningar verði notaðar við ákvarðanir um nánari afmörkun og tilhögun efnistöku.



Ásættanlegt áhrifasvæði námuvinnslu: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að afmörkun áhrifasvæðis námuvinnslu á námusvæði 2. Afmörkun áhrifasvæðis skal miða við að tryggt sé að ungauppeldissvæði við Háey og svæði milli Háeyjar og lands, sem lýst hefur verið sem þröskuldi gagnvart straumum og setflutningum frá námusvæði 2, verði ekki fyrir áhrifum af námuvinnslunni vegna strauma og setflutninga. Að öðru leyti miði afmörkun áhrifasvæðis námuvinnslu á námusvæði 2 við að áhrifa af náumvinnslunni gæti sem minnst út fyrir námusvæðið.



Framkvæmdaáætlun: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að ítarlegri framkvæmdaáætlun, þar sem gerð verið grein fyrir skilgreindum áföngum, staðsetningu, stefnu og lögun vinnslureita ásamt því að með rökstuddum hætti verði sýnt fram á hvernig komið verði í veg fyrir rof utan áður skilgreinds áhrifasvæðis námusvæðis 2.



Mótvægisaðgerðir: Framkvæmdaraðili leggi fram útfærðar hugmyndir og áætlanir um prófanir mögulegra mótvægisaðgerða gegn áhrifum námuvinnslu á strauma og setflutninga áður en til framkvæmda kemur.



Vöktun strauma og setflutninga og botnsamfélaga: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að að vöktunaráætlun vegna hugsanlegra áhrifa námuvinnslu á strauma og setflutninga og botnsamfélög áður en til framkvæmda kemur. Vöktunaráætlun taki mið af því að svæðin milli Hrúteyjar og lands og Háeyjar og lands hafa verið skilgreind sem viðkvæm fyrir breytingum vegna hættu á rofi. Tryggt verði að fyrstu mælingar samkvæmt vöktunaráætlun fari fram áður en framkvæmdir hefjast. Í tillögu að vöktunaráætlun komi einnig fram tillaga framkvæmdaraðila að viðmiðum fyrir hvenær grípa skuli til mótvægisaðgerða eða breytingum á tilhögum vinnslu. Tillaga að vöktunaráætlun taki einnig á vöktun myndunar súrefnisfirrts botnslags í námugryfjum vegna mögulegra áhrifa slíks botnslags á vistkerfið.



Vöktun fuglalífs: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að vöktunaráætlun vegna hugsanlegra áhrifa námuvinnslu á fuglalíf áður en til framkvæmda kemur. Þar komi fram hvernig staðið verði að reglubundnum athugunum á fjölda, þéttleika og hegðunarmynstri fugla vor og sumar á og nærri námusvæði 2. Þessar upplýsingar verði metnar í samhengi við heildarstofna fugla á Mývatni og á landinu öllu.



Vöktun áhrifa á fisk: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu vegna hugsanlegra áhrifa námuvinnslu á viðgang fiskistofna áður en til framkvæmda kemur. Þar komi fram hvernig staðið verði að reglubundnum athugunum á viðgangi fiskistofna.



Landnám hágróðurs og annarra botnsamfélaga á röskuðum svæðum: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að áætlun hvernig staðið verði að athugunum á landnámi hágróðurs og annarra botnsamfélaga á röskuðum svæðum.



Ofangreindar tillögur framkvæmdaraðila að framkvæmda- og vöktunaráætlunum verði lagðar fram til þeirra aðila sem veita þurfa leyfi til tiltekinna hluta framkvæmdarinnar eða framkvæmdarinnar í heild.







9. Ákomu næringarefna frá affalli Kísiliðjunnar verði haldið í lágmarki. Sýnt verði fram á hvernig komið verði í veg fyrir að affallsvatn frá kísilgúrvinnslu valdi óásættanlegri aukningu á magni niturs og fosfórs í Mývatni.



10. Við skipulag mannvirkjagerðar og framkvæmda verði miðað að því að sjónrænum áhrifum verði haldið í lágmarki.



11. Hverskonar mengun frá dælingarbúnaði og landaðstöðu í Helgavogi og sunnan Landteiga verði haldið í lágmarki."





II. Málsatvik.



1.



Lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 voru felld úr gildi með lögum nr. 106/2000. Um kæru þessa fer þó samkvæmt lögum nr. 63/1993.



Þar sem nokkrir lögbundnir umsagnaraðilar um kærumálið eru kærendur tók ráðuneytið þá ákvörðun að leita ekki eftir umsögnum þeirra enda áttu þeir andmælarétt sem kærendur í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gafst því færi á að koma áliti sínu að á fram komnum kærum en einnig á fram komnum umsögnum.



Ráðuneytið tilkynnti í bréfi dagsettu 19. september 2000 Kísiliðjunni hf. og bréfum dagsettum 21. september 2000 öðrum kærendum að vegna þess hversu margar og umfangsmiklar kærur bárust ráðuneytinu vegna úrskurðar skipulagsstjóra frá 7. júlí 2000 um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatn, væri ljóst að ráðuneytið gæti ekki úrskurðað innan þess frests sem lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, gera ráð fyrir.



2.



Úrskurður skipulagsstjóra um frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni frá 3. nóvember 1999 er svohljóðandi:







"Í samræmi við 8. grein laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 hefur skipulagsstjóri ríkisins farið yfir frammatsskýrslu framkvæmdaraðila ásamt umsögnum, athugasemdum, frekari gögnum framkvæmdaraðila og sérfræðiálitum um lífríki, strauma og setflutninga.



Með vísun til niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar skal ráðast í frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Þar komi fram:







1. Lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, þ.m.t. um afmörkun og dýpt námusvæða, heildarefnistöku og hámarksefnatöku á ári, tilhögun vinnslu, staðsetningu og gerð nýrra mannvirkja, jarðrask, förgun úrgangs og um aðra þætti starfseminnar sem kunna að valda loft-, hljóð- eða sjónmengun. Ennfremur verði, eftir því sem við getur átt, gerð grein fyrir öðrum þeim framkvæmdakostum sem framkvæmdaraðili telur raunhæfa.



2. Upplýsingar um hversu dæmigerð þau ár sem lögð eru til grundvallar líkanreikningum eru fyrir veðurfar yfir íslaus tímabil við Mývatn m.a. hvað varðar ríkjandi vindáttir og tíðni og vægi vinds.



3. Frekari upplýsingar um áhrif námuvinnslu á setflutninga í Ytriflóa. Leggja þarf fram kort yfir núverandi rofsvæði og kort yfir þau svæði þar sem talið er að helst muni gæta setflutninga vegna fyrirhugaðs efnisnáms. Leggja þarf mat á hlutdeild lífræns sets í því seti sem safnast á námusvæði.



4. Frekari upplýsingar um áhrif námuvinnslu á setflutninga í Syðriflóa. Meta þarf og kortleggja hvar gera megi ráð fyrir helstu rofsvæðum vegna efnistöku í Syðriflóa út frá samanburði við stærð og staðsetningu rofsvæða í Ytriflóa og mati á eiginleikum sets í Syðriflóa. Leggja þarf mat á hlutdeild lífræns sets í því seti sem safnast á námusvæði.



5. Afmörkun allra fyrirhugaðra náumsvæða og kortlagning rofsvæða. Á grundvelli þessa verði lagðar fram upplýsingar um stærð og gerð þeirra botngróðursamfélaga sem hverfa eða rýrna vegna fyrirhugaðrar námuvinnslu og lagt mat á áhrif þess á frumframleiðni og botndýr.



6. Upplýsingar um fjölda fugla að sumarlagi á Ytriflóa og fjölda og útbreiðslu fugla á Syðriflóa. Lagt verði mat á hvaða áhrif skerðing botnsamfélaga vegna efnisnáms og rofs hefur á þær fuglategundir sem byggja afkomu sína á þeim.



7. Upplýsingar um veiði í Ytriflóa og Syðriflóa og mat á því hvort skerðing botnsamfélaga á námu- og rofsvæðum kunni að hafa áhrif á framvindu silunga með tilliti til fæðuskilyrða.



8. Mat á mikilvægi næringarefnaflæðis frá seti á þeim gróðursvæðum sem hverfa eða rýrna við námuvinnslu og frá seti í námugryfjum. Lagt verði mat á hlutdeild þeirra í næringarefnahringrás og framleiðni vetnis.



9. Upplýsingar um væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs í affallsvatni frá Kísiliðjunni og mat á hvað sé ásættanlegur hámarksstyrkur þess m.t.t. áhrifa á lífríki vatnsins.



10. Upplýsingar um rek frá Mývatni í Laxá og mat á hvort áhrif breytinga á setflutningum í Mývatni vegna námuvinnslu kunni að hafa áhrif á rek í Laxá og lífríki hennar.



11. Á grundvelli niðurstaðna liða 1-10 hér að framan verði lagt frekara mat á áhrif framkvæmdarinnar á byggð og atvinnulíf á svæðinu."





3.



Ráðuneytið óskaði eftir áliti sérfróðra aðila á þeim atriðum sem snertu setflutninga og atriði tengd lífríkinu. Gunnar Steinn Jónsson, líffræðingur gaf álit sitt á þeim þáttum sem snertu lífríkið en Gunnar Guðni Tómasson, verkfræðingur á þeim atriðum sem snerta setflutninga.



Í áliti Gunnars Guðna Tómassonar verkfræðings segir:









"1. Skýrsla DHI



Í nokkrum kæranna kemur fram veruleg gagnrýni á umsögn DHI til skipulagsstjóra og um leið hversu mikil áhersla er lögð á hana í úrskurðinum. Kærendur telja umsögnina um margt gallaða og að margar ályktanir sem í henni eru dregnar standist ekki.



Hvað varðar setflutninga er umsögn DHI verulegum annmörkum háð. Hún er unnin á stuttum tíma og höfundum hennar virðist ekki hafa gefist tími eða ekki haft þekkingu til að kynna sér málið til fullnustu. Fram kemur lítið rökstudd gagnrýni á líkanreikninga á straumum og setflutningum í vatninu og höfundar virðast ekki gera sér ljóst samspil öldu og strauma við rof og flutning efnis innan vatnsins. Höfundar setja fram ýmsar fullyrðingar, m.a. að setflutningar séu líklega verulega ofmetnir í líkaninu, án þess að færð séu fyrir þeim fullnægjandi rök.



Í umsögninni eru einnig dregnar víðtækar ályktanir um áhrif kísilgúrnáms á umhverfi vatnsins, þ.m.t. lífríki, eða svo vitnað sé beint í úrskurð skipulagsstjóra: "Meginniðurstaða sérfræðiálits DHI Water & Environment er að fyrirhugað kísilgúrnám sem lýst er í matsskýrslu muni ekki hafa umtalsverð áhrif á umhverfi vatnsins, að því gefnu að á námusvæðunum sjálfum séu ekki lykilbúsvæði neinna tegunda sem lifa í eða við vatnið". Hér virðast höfundar komnir verulega út fyrir sitt sérsvið, enda kemur fram í upphafi umsagnar þeirra að DHI komi að málinu sem sérfræðingar í straumfræði og setflutningum.



Að mati undirritaðs veikir það úrskurð skipulagsstjóra talsvert hversu mikil áhersla er lögð þar á umsögn DHI, og hún jafnvel tekin fram yfir aðrar upplýsingar og niðurstöður sem fyrir liggja. Umsögnin er fljótfærnislega unnin og í henni eru dregnar víðtækar ályktanir og settar fram ýmsar fullyrðingar sem byggja á mjög veikum grunni.



2. Viðmiðunarstærð fyrir setmagn



Í nokkrum kæranna er gagnrýnd sú viðmiðunarstærð sem settap í gryfjur er borið saman við. Þær stærðir sem hugsanlega kemur til greina að bera árlegt settap í gryfjur saman við eru eftirfarandi:



a. Heildarmagn sets í vatninu



b. Árlegir heildarsetflutningar í vatninu



c. Magn sets sem tekur þátt í setflutningum hvers árs



d. Árleg nýmyndun sets í vatninu





DHI velur í sinni umsögn að bera settap í gryfjur saman við heildarmagn sets í vatninu. Slíkur samanburður hlýtur að vera mjög vafasamur í ljósi þeirrar staðreyndar að athuganir líffræðinga benda til að efsti og lífrænasti hluti setsins (örfáir sentimetrar að þykkt) sé aðalundirstaða lífríkisins í vatninu, en heildarþykkt sets í vatninu er miklu meiri. Ályktanir sem dregnar eru af þessum samanburði eru því vafasamar.



Í matsskýrslu og skýrslu Vatnaskila (Viðauki 2 með matsskýrslu) er settap í gryfjur einungis borið saman við heildarsetflutninga í vatninu. Reyndar er orðalag í samantekt fremst í matsskýrslu villandi í þessu sambandi, en þar segir: "Fram kemur að aukning í setflutningum inn á námusvæðin umfram það sem á sér stað við náttúruleg skilyrði er einungis um 2% þess sets sem af náttúrulegum ástæðum er á ferð í vatninu hverju sinni". Hér er átt við 2% af heildarsetflutningum ársins, eins og skýrt kemur fram í skýrslu Vatnaskil. Af þessu er dregin sú ályktun að áhrif breytinga á setflutningum og aukning á rofi á botni vatnsins séu óveruleg. Þessi samanburður getur einnig verið varasamur og ályktanir sem af honum eru dregnar því ekki endilega áreiðanlegar.



Samanburður við magn nýmyndaðs sets, þ.e. þess sets sem myndast nýtt á hverju ári, getur einnig verið varasamur. Ef magn nýmyndaðs sets er minna en magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum hvers árs, þá blandast nýmyndaða setið fljótt öðru seti sem tekur þátt í setflutningum þannig að ekki verður hægt að greina á milli hvers konar set er að tapast í gryfjurnar.



Mun eðlilegra hlýtur að vera að bera magn settaps í gryfjur saman við magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum í vatninu. Þetta magn er væntanlega talsvert minna en heildarsetflutningar í vatninu þar sem hver setögn getur flust oftar en einu sinni innan hvers árs. Í skýrslu Vatnaskila frá 1993 er reynt að meta þetta magn gróft og niðurstaðan er um þriðjungur heildarsetflutninga í vatninu. Líkanið hefur þó tilhneigingu til að ofmeta þetta magn. Neðri mörk á þessa stærð má fá með því að skoða það magn sets sem er upphrært í vatninu í stærsta atburði hvers árs. Grófir útreikningar benda til að það magn sé nokkrir tugir þúsunda tonna.



Að mati undirritaðs er það galli á matsskýrslu og úrskurði skipulagsstjóra að ekki skuli reynt að meta það magn sets sem tekur þátt í setflutningum hvers árs til samanburðar við það magn sem tapast í gryfjur. Sá samanburður sem gerður er við heildarsetflutninga ársins er varasamur og ályktanir sem af honum eru dregnar geta verið vafasamar.



3. Dýpi á námuvinnslusvæðum



Í úrskurði sínum leggur skipulagsstjóri til að kannaður sé til hlítar sá möguleiki að auka dýpi á námuvinnslusvæðum en takmarka á móti flatarmál þeirra. Setmyndun í gryfjur líkar þeim sem myndast á fyrirhuguðum námuvinnslusvæðum er fyrst og fremst háð flatarmáli þeirra, en ekki dýpi. Undirritaður er því sammála því sjónarmiði sem kemur fram í matsskýrslu og úrskurði skipulagsstjóra að með tilliti til setflutninga og settaps í gryfjur sé æskilegt að hafa námuvinnslusvæði frekar minni að flatarmáli, en dýpri. Hins vegar geta önnur sjónarmið, svo sem áhrif dýptar á lífríki á botni vatnsins, vegið hér á móti. Á þau er ekki lagt mat hér.



Samantekt



Að mati undirritaðs er fræðilegur grunnur þeirra útreikninga á setflutningum sem settir eru fram í matsskýrslu traustur og niðurstöður varðandi breytingar á setflutningum og tap sets í gryfjur eins áreiðanlegar og kostur er. Sú niðurstaða matsskýrslu og úrskurðar skipulagsstjóra að fyrirhuguð námavinnsla hafi ekki veruleg áhrif á heildarsetflutninga innan vatnsins er rétt.



Þar með er ekki sagt að áhrif á lífríki vatnsins geti ekki verið umtalsverð. Eins og fram kom í byrjun liggur sú túlkun utan sérsviðs þess sem þetta ritar að öðru leyti en því hvaða viðmiðunarstærð rétt sé að bera magn tapaðs sets saman við. Í úrskurði skipulagsstjóra er fallist á þá framsetningu framkvæmdaaðila að bera magn tapaðs sets einungis saman við heildarsetflutninga í vatninu og ályktanir eru dregnar af þeim samanburði. Ekki er gerð tilraun til að meta magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum hvers árs, sem er þó að mati undirritaðs mun eðlilegri viðmiðunarstærð. Að þessu leyti eru matsskýrsla og úrskurður skipulagsstjóra gölluð. Að fenginni þessari viðmiðunarstærð er hins vegar annarra að meta hvort áhrif á lífríki vatnsins verði veruleg eða ekki.



Annar augljós galli á úrskurði skipulagsstjóra er sú mikla áhersla sem þar er lögð á umsögn DHI. Umsögnin er verulegum annmörkum háð eins og lýst var hér að framan og áhersla skipulagsstjóra á hana veikir því úrskurð hans verulega.



Undirritaður er sammála þeirri niðurstöðu matsskýrslu og úrskurðar skipulagsstjóra að með tilliti til settaps í gryfjur sé æskilegt að hafa námuvinnslusvæði frekar minni að flatarmáli en dýpri."





Í umsögn Gunnars Steins Jónssonar líffræðings segir hvað varðar flutning fæðu og næringarefna lífríkisins af ódældum svæðum yfir til námusvæðanna eftirfarandi:







"Undirritaður telur að umfjöllun um mikilvægi sets í vistkerfi Mývatns sé ekki nema að litlu leyti gerð skil í gögnum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta á fyrst og fremst við um hlutverk setsins í fæðuvef Mývatns. Undirritaður telur að þegar verið er að meta áhrif setsöfnunar í gryfjur á fæðuvef vatnsins sé ekki fullnægjandi að líta á heildarsetmagn vatnsins, heldur verði að meta flutninga og uppsöfnun nýmyndaðs sets sérstaklega og óháð mati á rofhættu í nágrenni vinnslusvæða sem vissulega getur haft áhrif á búsvæði.



Undirritaður telur því, vegna skorts á upplýsingum, ekki forsendur fyrir því að leggja persónulegt mat á hvort áhrifin geti verið umtalsverð, en bendir á að alþjóðlegur matshópur sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu (apríl 2000) kom að þessu atriði í skýrslu sinni.



Undirritaður telur að



-meta þurfi flutninga og uppsöfnun nýmyndaðs sets sérstaklega og óháð mati á rofhættu í nágrenni vinnslusvæða sem vissulega getur haft áhrif á búsvæði.



-vegna skorts á upplýsingum, sé ekki forsendur fyrir því að leggja persónulegt mat á hvort áhrifin geti verið umtalsverð



Hann telur að hið kærða atriði sé eitt af grundvallaratriðunum í umræðunum um áhrif frá námavinnslunni, en líklega atriði sem erfitt er að meta fyrirfram. Ef til þess kemur að framkvæmdin verður leyfð er það mikilvægt að þessu atriði verði gefinn fullur gaumur þegar teknar verða ákvarðanir um vöktunaráætlanir með vinnslunni. Þá þurfi í starfsleyfi með starfseminni að vera ákvæði sem kveði skýrt á um hvernig bregðast skuli við komi í ljós að vinnslan hafi veruleg áhrif á undirstöður vistkerfisins í vatninu."



Í greinargerð Gunnars Steins Jónssonar um þessi atriði segir:







"Um þessi atriði segir í matsskýrslu: "Erfitt er að gera sér skýra grein fyrir afleiðingum röskunar sem verður á samsetningu sets og setmyndun utan námasvæðanna. Sumir líffræðingar hafa lýst áhyggjum af því að verði settap ofan í námugryfjur af þeim stærðarskala að það sé hátt hlutfall af magni sets sem nýmyndast við náttúruleg skilyrði geti slíkt valdið breytingum á undirstöðum lífríkisins. Þetta skýrist af þeirri einföldu staðreynd að í grunnum vötnum eru frumframleiðendur á botni hlutfallslega mikilvægir auk þess sem mikilvægustu stofnar botndýra byggja afkomu sína á lífræna laginu sem liggur í efstu millimetrum setsins eða situr á botngróðri. Nálgist settapið að vera jafnmikið og nýmyndunin eða meira geta rofsvæði sem fyrir eru stækkað og jafnvel ný myndast. Þetta getur leitt til þess að botninn verði sendinn líkt og gerst hefur í Ytriflóa. Slíkar breytingar geta haft áhrif á innri ákomu og hringrás næringarefna í vatninu. Óljóst er hvaða afleiðingar þær breytingar hefðu á frumframleiðslu og smádýrasamfélög á botni."



Um mikilvægi sets í annarsvegar fæðuvef og hins vegar flæði næringarefna í Mývatni má sjá á 4. og 6. mynd í skýrslu sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir (júlí 1991). En þar eru m. a. sýnd tengsl sets og frumframleiðslu botn og svifgróðurs, en frumframleiðslan er undirstaða fæðuvefs vatnsins. Í sömu skýrslu þar sem fjallað er um áhrif kísilgúrnáms á lífverur (12.5. Botndýr): "Hér er átt við svæði þar sem framboð á nýmynduðu lífrænu efni minnkar, án þess að rof eigi sér stað (sjá kafla um setflutninga). Lífræn rotnandi efni ("grot") eru meginuppistaðan í fæðu flestallra mýtegunda (heimildatilvísun). Framboð á fæðu ræður því hve mikið getur orðið af mýi. Dragi úr framboði á nýmynduðu groti munu margir mýstofnar vatnsins minnka. Hið sama á e.t. v. við um önnur botndýr"



Víða í textum líffræðinga er vikið að mikilvægi setsins sem fæðu og vísar kærandi Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn í heimildir þar sem fjallað er um það sérstaklega. Í grein Péturs M. Jónassonar (1979. The Lake Mývatn ecosystem, Iceland. OIKOS 32: 289-305) er t. d. að finna mikilvægar upplýsingar, m. a. lagt tölulegt mat á orkuflæði milli fæðuþrepa. Þar er einnig umfjöllun um mikilvægi orkuinnihalds fæðunnar fyrir grotætur.



Í skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneyti (apríl 2000) er vikið að framangreindu atriði m. a. með eftirfarandi orðum: "Hætta er á að ferskasta setið, sem einnig er fínkornast og lífrænast, flytjist niður á dýpkuð svæði og skilji eftir næringarsnautt, sandkennt og mestmegnis ólífrænt set. Þótt þetta yrði til þess að botndýraframleiðni ykist á dýpkuðum svæðunum af því að stöðugt flyttist þangað fóður, þá yrði það einnig til þess að framleiðsla á öðrum svæðum hið næsta minnkaði að sama skapi. Þetta gæti orðið afdrifaríkt í Syðriflóa ef tiltölulega lítið svæði yrði til þess að framleiðni minnkaði á öllum öðrum svæðum. Ekki hefur þó verið sýnt fram á það að svo örlagaríkar breytingar hafi orðið í Ytriflóa. Breytingar á setflutningum vegna vinnslu gætu einnig haft áhrif á lykiltegundir meðal botnþörunga eins og Cladophora-kúlur".



Sá úrskurður Skipulagsstjóra að heimila vinnslu niður á fulla setdýpt (sums staðar rúmlega 10 m setþykkt) á svæði 2 er í trássi við varnaðarorð margra íslenskra og erlendra sérfræðinga. Þessi úrskurður er einnig gallaður í ljósi þess að framkvæmdaaðili lagði ekki fram þau gögn um svæðið sem skipulagsstofnun kallaði eftir að loknu frummati. Vísindaleg óvissa er hér notuð til að heimila framkvæmdir og stríðir það gegn varúðarreglunni."



Í áliti Gunnars Steins Jónssonar varðandi þá röksemd nokkurra kærenda að framkvæmdaraðili hafi ekki lagt fram þau gögn um svæðið sem skipulagsstofnun kallaði eftir að loknu frummati og að vísindaleg óvissa væri notuð til að heimila framkvæmdir og stríði það gegn varúðarreglunni, segir:







"Varðandi seinni liðinn er ljóst að í úrskurði Skipulagsstjóra er krafist frekari könnunar varðandi efnistöku á námusvæði 1. Hins vegar er fallist á efnistöku á námusvæði 2 með skilyrðum. Ályktað er að ekkert í framlögðum gögnum bendi til þess að námuvinnsla þurfi að hafa umtalsverð áhrif á lífríki að því tilskyldu að farið sé að þeim skilyrðum sem Skipulagsstjóri setur. Undirritaður sér ekki ástæðu til að gera athugasemd við þessa röksemdafærslu og niðurstöðu Skipulagsstjóra."



Í greinargerð Gunnars Steins Jónssonar segir m.a. um ofangreint atriði:







"Bein áhrif kísilgúrtöku á botn eru: Búsvæði sem fyrir eru, eru eyðilögð með kísilgúrnáminu. Þetta eru yfirleitt grunn svæði, vaxin rótföstum stórgróðri. Þegar gróðurinn er numinn brott hverfa með honum búsvæði sem fylgdu botngerð og gróðri. Botn námasvæða er yfirleitt þakinn lausu og fremur óstöðugu seti. Framleiðni tiltekinna dýrategunda s.s. kornátu og lirfa tiltekinna mýtegunda minnkar. Dýpi vex og botngróður á óvíða skilyrði til að ná fótfestu á ný vegna lakari birtuskilyrða. Sama getur átt við um framleiðslu botnþörunga, en stór hluti af frumframleiðslu vatnsins er talin eiga sér stað við botn. Frumframleiðni hrakar og það dregur úr framleiðni mikilvægustu átustofna fyrir fugla og fisk samfara brottnámi stórgróðurs og auknu dýpi. Það eru einkum ýmsar tegundir ífánu og rándýr sem lifa á þeim sem hafa náð fótfestu á botni námasvæðisins. Framleiðsla svifs getur aukist á kostnað botnframleiðslu (endursagt frá: Jón S. Ólafsson og Sigurður S. Snorrason 1999). Enginn vafi leiki á því að á námasvæðinu hafi fæðuskilyrði langflestra fuglategunda versnað vegna aukins dýpis og brottnáms hágróðurs. Áhrif ofangreindrar búsvæðaröskunar á bleikjuna og urriðann í Ytriflóa eru minna þekkt (endursagt frá: Jón S. Ólafsson og Sigurður S. Snorrason 1999).



Í matsskýrslunni kemur fram að kortlagning á dreifingu vatnafugla á Ytriflóa bendi til þess að þeir sæki síður á svæði þar sem kísilgúrnám hefur farið fram en á þau svæði sem eru ósnortin . Þetta á sérstaklega við um gráendur og álftir, sem kafa ekki eftir æti. Þéttleiki annarra vatnafugla, svo sem skúfandar og flórgoða, er einnig mestur utan dældra svæða á Ytriflóa



Í sérfræðiáliti (Einar Hjörleifsson og Kristinn Guðmundsson, 20. júní 2000) segir að út frá fyrirliggjandi gögnum sé hins vegar ekki hægt að meta með hlutlægum hætti vægi fyrirhugaðs námusvæðis fyrir einstakar andategundir eða lífskeið þeirra og því sé ógerlegt að meta áhrif námavinnslu á þessu svæði á viðkomu viðkomandi andategundir. Hvorki uppeldissvæði andategunda almennt né útbreiðsla fullorðinna dýra virðast hins vegar vera einskorðuð við svæðið í kringum Boli. Því sé ekki líklegt að fyrirhuguð námuvinnsla hafi umtalsverð áhrif á fjölbreytileika fuglalífs við Mývatn. Í sérfræðiálitinu er einnig ályktað að í ljósi þess hve lítið er um rótfastar plöntur í Syðriflóa verði að telja að brottnám 1/3 af þráðnykrusamfélaginu í Syðriflóa, með námuvinnslu á svæði 1, til viðbótar því sem nú þegar hefur verið veitt leyfi til að nema brott 7/10 hluta þessa samfélagsins í Ytriflóa, umtalsverða skerðingu. Um botnsamfélag á svæði 2 er ályktað að það einkennist af leðju, en kúluskít er þar að finna í sumum árum. Það liggi nokkuð dýpra en svæði 1 og sé það líklega ástæða þess að háplöntur séu þar ekki ríkjandi. Fyrir utan það að dýpi sé nokkuð minna en almennt er í Syðriflóa sé líklegt út frá fyrirliggjandi gögnum að svæði 2 hafi litla sérstöðu botngerð varðar.



Í matsskýrslu segir að álykta megi sem svo að hafi starfsemi Kísiliðjunnar merkjanleg áhrif á silungastofna Ytriflóa, þá sé helst að leita orsakasamhengis í tengslum við áhrif dælingar á hornsílastofninn. Í Syðriflóa sé hornsílastofninn ekki eins þéttur og í Ytriflóa og sveiflur í honum eru mun meiri. Væntanlega skipta breytilegar aðstæður milli ára til hreiðurgerðar og hrygningar hornsíla þar miklu máli, enda þekja hágróðursamfélög einungis lítinn hluta Syðriflóa. Því verður að teljast líklegt að kísilgúrvinnsla í Syðriflóa muni hafa lítil áhrif á fæðuskilyrði bleikju og urriða, hvort heldur sé með beinum eða óbeinum hætti."



Um hagsmuni bænda vegna silungsveiði, eggjatöku og önnur gæði vatnsins segir Gunnar Steinn Jónsson:







"Í úrskurði Skipulagsstjóra er krafist frekari könnunar varðandi efnistöku á námusvæði 1 (sjá umfjöllun hér að framan). Hins vegar er fallist á efnistöku á námusvæði 2 með skilyrðum. Ályktað er að ekkert í framlögðum gögnum bendi til þess að námuvinnsla þar þurfi að hafa umtalsverð áhrif á fuglalíf né fæðuskilyrði og viðgang silungs að því tilskyldu að unnt sé að afmarka áhrifasvæði námasvæðisins með viðeigandi vinnutilhögun og mótvægisaðgerðum. Undirritaður sér ekkert athugavert við röksemdafærslu og niðurstöðu Skipulagsstjóra.



Í greinargerð um ofangreind atriði segir:







"Í skýrslu sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir (júlí 1991) er fjallað um hinar stórfelldu sveiflur í afkomu anda, svo og bleikju, sem er uppistaðan í silungshlunnindum Mývatnsbænda. Meðalafli silungs hefur minnkað og sveiflur hafa orðið mun meiri á síðustu tuttugu árum en á næstu fjörutíu ár þar á undan. Ástæður fyrir þessum sveiflum eru hins vegar ekki skýrðar og eru ekki í auðsýnilegu sambandi við starfsemi Kísiliðjunnar þó þær hafi magnast á starfstíma hennar. Sjá einnig lið C) hér að framan."



Um atriði sem tengjast losun næringarefna segir Gunnar Steinn Jónsson eftirfarandi:







"Að mati undirritaðs er engin leið, út frá fyrirliggjandi gögnum, að meta hvaða áhrif aukin næringarefnalosun hefur haft í Mývatni. Allar tilraunir til skýringa verður að skoða sem tilgátur. Aukið næringarefnastreymi er þó ávallt talið valda aukinni frumframleiðni, oftast í svifi, en einnig t.d. hjá ásætuþörungum og botngróðri. Undirritaður telur því ekki líklegt að sjá megi bein orsakatengsl milli aukinnar næringarefnaákomu og að vatnablómi hafi brugðist (sjá einnig 2. kæruatriði hér á eftir).





Aukna næringarefnaákomu af manna völdum í náttúruleg vistkerfi ber að hindra eins og kostur er, ekki síst í vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar, því hún getur hugsanlega raskað samkeppnisstöðu tegunda innbyrðis, áður en því stigi er náð sem skilgreina má sem ofauðgun.



Aðgerðir til mengunarvarna samkvæmt lögum og reglugerðum er að beita bestu tækni sem völ er á atvinnustarfsemi, góðum búskaparháttum í landbúnaði og koma á a. m. k. tveggja þrepa hreinsum í fráveitumálum. Að mati undirritaðs eru óunnin verkefni á þessu sviði við Mývatn.



Undirritaður telur að engin leið sé út frá fyrirliggjandi gögnum að meta hvaða áhrif aukin næringarefnalosun hefur haft í Mývatni og langtímarannsóknir þurfi til að skýra það orsakasamband óyggjandi. Hann telur hins vegar að taka megi á hluta þessara atriða í starfsleyfi og með bættum mengunarvörnum t. d. varðandi frárennsli frá íbúðabyggð í Mývatnssveit. Einnig bendir hann á 5. gr. laga nr. 36/1974 með síðari breytingum, þar sem umhverfisráðherra er falið að setja reglugerð um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess, sem lögin taka til."



Í greinargerð Gunnars Steins um þetta atriði segir eftirfarandi:







"Í skýrslu sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir (júlí 1991) segir: Mismunandi þörungategundir blómstra í einstökum árum. Sum árin eru blágrænir þörungar, vatnablómi (Anabaena flos-aquae), í miklu magni og skyggja á botngróður og draga úr vexti hans. Önnur ár er vatnið svo til tært og botngróður í blóma. Þá dafna fremur þau botndýr sem sem kafendur og silungar sækjast eftir. Þegar blágrænir svifþörungar eru ráðandi berst mikið af lífrænu efni niður í Laxá og bitmý þar hefur nóg æti og þar með urriði, húsönd og straumönd í Laxá.



1) Aukin ákoma:



Á tímabilinu 1969 til 1990 er talið að ákoma á vatnið allt hafi aukist hvað P varðar úr 1,45 til 1,47 g P / m2 á ári. Á sama tíma er jókst niturákoma úr 1,02 í 1,84 g N / m2 á ári. Ákoman jókst mest í Ytriflóa (úr 0,98 í 1,27 g P / m2 á ári og úr 1,64 í 5,3 g N / m2 á ári). Talið er að frá Kísiliðjunni berist um 10 tonn niturs og 2 tonn fosfórs uppleyst sem berst með jarðvatni í átt til Mývatns (Skýrsla sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir, júlí 1991). Ákoma næringarefna stafar einnig frá skólpi frá íbúum, ferðamönnum og vegna landbúnaðar.



Dæmi um mat á hugsanlegum áhrifum má m.a. finna í skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu (apríl 2000), en þar segir um auðveldari aðgang að næringarsöltum: Þetta eykur ekki aðeins frumframleiðni heldur getur það valdið því að frumframleiðnin færist frá botninum upp í efri lög vatnsins.



Í skýrslu sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir (júlí 1991) segir að í samanburði við heildarumsetningu þessara efna í vatninu sjálfu eru áhrif þessara breytinga í ákomu lítil á næringarbúskap vatnsins og þeirra gætir ekki mælanlega í styrk næringarefna í vatninu. Hlutfallslega meiri aukning á innflæði nitursambanda en fosfórsambanda gæti þó haft áhrif á samsetningu þörungagróðurs.



2) Næringarefnaflæði frá seti.



Í matsskýrslu kemur eftirfarandi fram (skýrsla Sigurðar R. Gíslasonar): Svæði 1. Svæðið breytist úr þráðnykrusvæði í djúpt gróðurlaust svæði, vatnsdýpi úr 2-3 m í 4,5 m. Ekki eru til gögn um núverandi aðstæður í setvatninu á svæðinu en líklegt er að styrkur fosfórs og járns sé lítill í efstu 20 sm setsins, setið sé súrefnisríkt allt niður á 20 sm. Næringarefnin í setinu eru bundin í plönturnar fyrri hluta sumars en losna út í vatnsbolinn við hrörnun plantna seinni hluta sumars. Plönturnar verja botninn fyrir rofi þegar vindhraði er mikill. Við vinnslu kísilgúrs niður á 4,5 m má gera ráð fyrir aukinni setsöfnun, setvatnið verður súrefnissnautt allt upp að efstu 5 sm. Flatarmál vinnslusvæðis 1 er um 1/92 af heildarflatarmáli Mývatns. Mjög einfaldaðir reikningar af reiki næringarefna um botn vinnslusvæðis 1 benda til að reikið á svæðinu sé minna en 1/1000 þess sem þarf til þess að standa undir frumframleiðni í vatninu. Svæði 2. Svæðið breytist úr kúluskítssvæði í djúpt gróðurlaust svæði. Vatnsdýpi breytist úr 2-3m í 6,5 m. Líklegt er að styrkur næringarefna í setvatninu á þessu svæði sé mikill allt að efstu 5 sm í setvatninu og verði það einnig nokkrum árum eftir vinnslu. Flatarmál vinnslusvæðis 2 er um 1/44 hluti af flatarmáli Mývatns. Mjög einfaldaðir reikningar af reiki næringarefna um botn vinnslusvæðis 1 benda til að reikið á svæðinu sé minna en 1/1000 þess sem þarf til þess að standa undir frumframleiðni í vatninu."



Um það kæruatriði að það lægi ljóst fyrir hvar afrennsli verksmiðjunnar lendir og hvaða áhrif það hefur á svæðið segir Gunnar Steinn Jónsson:







"Undirritaður telur að fyrirtækinu eigi að vera unnt að gera grein fyrir þeirri losun sem frá því stafar og hvað mikill hluti hennar berst til Mývatns. Hins vegar virðist, m. a. með tilvísun til skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu (apríl 2000) að ekki séu fyrir hendi gögn til að meta með óyggjandi hætti áhrif næringarefnaákomu á lífríki vatnsins. Allt mat á því byggist á áliti sérfræðinga. Undirritaður vísar sérstaklega í álit framangreindra sérfræðinga, þar sem segir: "Þótt enn skorti á fullan skilning á fæðubrautum vatnsins teljum við samt sem áður að ekki sé unnt að tengja sveiflurnar kísilgúrnáminu á ótvíræðan hátt." Undirritaður sér því ekki ástæðu til að gera athugasemd við röksemdafærslu og niðurstöðu Skipulagsstjóra."



Í greinargerð Gunnars Steins Jónssonar um framangreint atriði segir:







"Kæruatriði beinast væntanlega hvað fyrra atriðið varðar að því að nýlegar rannsóknir á grunnvatnsrennsli frá Bjarnaflagi gefa í skyn að grunnvatnsstreymi þaðan kunni að berast mun sunnar með austurströnd vatnsins en áður var talið. Rannsóknum hvað þetta varðar eru enn ekki lokið svo undirrituðum sé kunnugt og telur því of snemmt að álykta um afleiðingar hugsanlegra breyttra grunnvatnslíkana á mat á næringarefnaákomu.



Í úrskurði Skipulagsstjóra, varðandi seinna kæruatriðið, kemur fram að hann telji að í matsskýrslu séu hvorki lagðar fram upplýsingar um væntanlegan styrk niturs og fosfórs í affallsvatni Kísiliðjunnar vegna fyrirhugaðar vinnslu, né um áhrif affallsvatnsins á lífríki Mývatns. Skipulagsstjóri telur að slíkar upplýsingar þurfi að liggja fyrir til að unnt sé að leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Skipulagsstjóri tekur á þessu (vöntun á upplýsingum) með því að setja skilyrði hvað ákomu varðar."



Í áliti Gunnars Steins Jónssonar segir:







"Skipulagsstjóri hefur úrskurðað að vinna megi kísilgúr á svæði 2 með skilyrðum, þ. e. að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð áhrif. Í úrskurðinum fjallar hann sérstaklega um áhrif á strauma og setflutninga, frumframleiðni botndýr og gróður, fuglalíf, silung og næringarefnaflæði og kemst að niðurstöðu.



Á bls. 37 í úrskurðinum fjallar Skipulagsstjóri um að skilyrða eigi í leyfi til framkvæmdanna þannig að unnt verði að stöðva vinnslu og afturkalla leyfi ef óæskilegra áhrifa á Mývatn verði vart.



Líta verður á framangreind ummæli sem fyrirmæli til leyfisveitenda um að tryggja að hægt verði að grípa til aðgerða þegar í stað ef óæskilegra áhrifa á lífríki Mývatns verður vart.



Einnig vekur hann sérstaka athygli á að til að slíkt eigi að vera unnt þurfi að liggja fyrir skýr viðmið í leyfum til framkvæmdanna. Einnig bendir Skipulagsstjóri á að erfitt geti verið að snúa við óæskilegum áhrifum námavinnslu á lífríki vatnsins sem fram kunna að koma.



Í ljósi úrskurðarins eru hér að hluta til um huglægar vangaveltur að ræða, því Skipulagsstjóri vísar ekki í tiltekin atriði sem eftir standa ósvöruð í matsskýrslu og kunna að valda þessum áhrifum. Hann virðist vera að vísa með almennum hætti til atriða sem kunna að koma upp og ekki voru séð fyrir við gerð matsskýrslu og þá til atriða sem kynnu að ná til vatnsins alls. Líta má svo á að Skipulagsstjóri sé að setja fram leiðbeiningu til leyfisveitenda. Framangreindar leiðbeiningar á bls. 37 má túlka sem gerð viðbragðsáætlana í varúðarskyni.



Ef kærandi hefur í huga að slíkar viðbragðsáætlanir hafi ekki verið gerðar sérstaklega vegna hugsanlegrar rýrnunar lífrænasta setsins á grundvelli þess að hann telji að það atriði hafi ekki verið gerð nægileg skil í matsskýrslu, þá má vísa til þess að í skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneyti (apríl 2000) er vikið að framangreindu atriði m. a. með eftirfarandi orðum (áliti): "Hætta er á að ferskasta setið, sem einnig er fínkornast og lífrænast, flytjist niður á dýpkuð svæði og skilji eftir næringarsnautt, sandkennt og mestmegnis ólífrænt set. Þótt þetta yrði til þess að botndýraframleiðni ykist á dýpkuðum svæðunum af því að stöðugt flyttist þangað fóður, þá yrði það einnig til þess að framleiðsla á öðrum svæðum hið næsta minnkaði að sama skapi. Þetta gæti orðið afdrifaríkt í Syðriflóa ef tiltölulega lítið svæði yrði til þess að framleiðni minnkaði á öllum öðrum svæðum. Ekki hefur þó verið sýnt fram á það að svo örlagaríkar breytingar hafi orðið í Ytriflóa". "



Ráðuneytið óskaði eftir tillögum að skilyrðum til að meta hlutdeild nýmyndaðs sets í því seti sem safnast fyrir á námusvæðum Syðriflóa. Í tillögu Gunnars Steins Jónssonar segir:





"Tillaga að skilyrðum til að meta hlutdeild nýmyndaðs sets í því seti sem safnast fyrir á námusvæðum í Syðriflóa.



Vöktun uppsöfnunar nýmyndaðs sets: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að vöktunaráætlun vegna nýmyndaðs sets. Vöktunaráætluninni er ætlað að leiða í ljós hlutdeild nýmyndaðs sets í heildaruppsöfnun sets á námusvæðum í Syðriflóa. Henni er einnig ætlað að leiða í ljós hvað það er stór hluti af framleiðslu á nýmynduðu seti í Syðriflóa.



Þessar tillögur gera ekki ráð fyrir hvernig bregðast skuli við ef í ljós kemur að vinnslan hafi áhrif á undirstöður vistkerfisins í vatninu. Mér sýnist að aðeins í lið 5. í gr. 6.2. í úrskurði Skipulagsstjóra sé að finna tilvísun í gerð viðmiðana fyrir hvenær skuli grípa til mótvægisaðgerða eða breytinga á tilhögun vinnslu. Sú tilvísun gæti einnig náð til þessa liðar (t.d. með tilvísun: "þetta ákvæði um mótvægisaðgerðir og viðbrögð nær einnig til liðar xx,,). Einnig má gera ráð fyrir að leyfisveitanda sé skylt að setja ákvæði um aðgerðir í leyfi, enda er í starfsleyfum venjulega ákvæði um inngrip ef í ljós koma óæskileg umhverfisáhrif sem ekki voru séð fyrir. Það er því e. t. v. ekki þörf á að tiltaka viðbrögð í hverju tilviki fyrir sig sérstaklega."





III. Kröfur og málsástæður kærenda.



1.



Kærandi Ingólfur Ásgeir Jóhannesson fer fram á að breytt verði úrskurði skipulagsstjóra um kísilgúrvinnslu úr Mývatni og slík efnistaka bönnuð. Forsendur kærenda fyrir kröfu sinni eru:











"Mývatn er ein af mikilvægustu náttúruperlum Íslands, bæði hvað snertir einstakt lífríki og sérstæða náttúrufegurð. Mývatn og Laxá eru friðuð með sérstökum lögum og Mývatn er á Ramsarskránni um alþjóðlega mikilvæga votlendisstaði. Stóriðja á ekki heima í þessu umhverfi og námugröftur er svo augljóslega andstæður markmiðum verndunarlaganna að varla ætti að vera þörf ítarlegra greinargerða þar að lútandi.



Í matsskýrslum Kísiliðjunnar er EKKI sýnt fram á að óhætt sé at taka kísilgúr úr Mývatni án skaða á lífríki vatnsins og í síðari matsskýrslu Kísiliðjunnar er spurningum skipulagsstjóra varðandi frekara mat er ekki svarað með fullnægjandi hætti. Mikil óvissa ríkjandi um áhrif efnistökunnar, sjá m.a. athugasemdir mínar við síðari matsskýrslu (fylgiskjal).



Í úrskurði sínum tekur skipulagsstjóri ekki afstöðu til þeirra verndarpólitísku raka sem sett voru fram í athugasemdum mínum til hans sem mér er kunnugt um að Náttúruverndarsamtök Íslands, SUNN-Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi o.fl. aðilar settu einnig fram.



Fullyrðingar um atvinnuleysi og brottflutning sem fram koma í matsskýrslum og áróðri Kísiliðju og meiri hluta hreppsnefndar Skútustaðahrepps eru ekki rökstuddar með félagsvísindalegum eða sagnfræðilegum rannsóknum í byggðarlaginu. Ekki hefur verið gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum gagnvart atvinnumissi, hvorki í matsskýrslum Kísiliðjunnar né í skipulagsvinnu sveitarfélagsins eða annarri opinberri stefnumótun, svo að mér sé kunnugt um. Fráleitt er að taka þá áhættu að halda áfram námugreftri úr Mývatni án þess að fyrir liggi miklu betri greinargerð um félags- og atvinnuþróun í fortíð og nútíð en liggur fyrir.



Mikil gagnrýni hefur komið fram opinberlega á skýrslu dansks ráðgjafafyrirtækis en úrskurður skipulagsstjóra virðist byggður að verulegu leyti á þeirri skýrslu. Slík gagnrýni ein og sér hlýtur að leiða til þess að úrskurðurinn er ónothæfur og krefjist sérlega vandaðrar yfirferðar."





2.



Kærandi Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn fer fram á að felldur verði úr gildi úrskurður skipulagsstjóra um að "fallist [verði] á efnistöku á námusvæði 2 eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, með þeim breytingum að megi niður í fulla setdýpt innan námusvæðis 2." Gerir kærandi þá kröfu að ekki verði heimilað að nema botnset til kísilgúrvinnslu af öðrum svæðum vatnsins, en sýnd eru á teikningu með námuleyfinu frá 7. apríl 1993.



Málsástæður og röksemdir kæranda fyrir kröfu sinni eru eftirfarandi:









"1. Í úrskurðinum er ekki tekið tillit til þeirra umhverfisáhrifa sem mest hafa verið rannsökuð og varða flutning fæðu- og næringarefna lífríkisins af ódældum svæðum yfir til námusvæðanna. Úrskurðurinn hvað þetta varðar byggist í veigamiklum atriðum á gallaðri umsögn verkfræðistofunnar DHI, en af henni má ljóst vera að höfundur hennar hefur ekki skilið tilgang rannsóknanna og eðli vistkerfisins.



2. Ekki verður séð að innsendar athugasemdir frá stjórn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn um setflutninga og mikilvægi nýmyndaðs sets fyrir botndýr í Mývatni hafi verið teknar til efnislegs mats.



3. Sá úrskurður Skipulagsstjóra að heimila vinnslu niður á fulla setdýpt (sums staðar rúmlega 10 metra setþykkt) á svæði 2 er í trássi við varnaðarorð margra íslenskra og erlendra sérfræðinga. Þessi úrskurður er einnig gallaður í ljósi þess að framkvæmdaaðili lagði ekki fram þau gögn um svæðið sem Skipulagsstofnun kallaði eftir að loknu frummati. Vísindaleg óvissa er hér notuð til að heimila framkvæmdir og stríðir það gegn varúðarreglunni.



4. Í úrskurðinum er ekki tekið tillit til samkomulags Náttúruverndar ríkisins (áður Náttúruverndarráðs), umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um framtíð kísilgúrnáms við Mývatn frá apríl 1993. Það samkomulag byggðist á niðurstöðum rannsókna sem getið er í lið 1 hér að ofan. Samkomulagið kvað á um að námaleyfi til handa Kísiliðjunni frá 7. apríl yrði seinasta leyfið sem gefið yrði út og ekki yrði um frekari útvíkkun á námasvæði að ræða.



5. Í úrskurðinum er ekki tekið tillit til yfirlýsingar sem fulltrúar Íslands gáfu í umboði umhverfisráðherra á fundi aðildarríkja Ramsarsamningsins í Kushiro í júní 1993.



6. Í úrskurðinum er ekki tekið tillit til ákvæða Ramsarsamningsins um að nýting vatna eigi að vera skynsamleg og í honum er ekki tekið tillit til þeirrar áhættu sem tekin yrði með námagreftri í Syðriflóa vegna þess að röskun á lífríki Mývatns af hans völdum er líklegast óafturkræf.



7. Í úrskurðinum (bls. 39) er ekki vísað til laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu nr. 36/1974 varðandi leyfi fyrir jarðraski, slíkt er háð leyfi Náttúruverndar ríkisins (1.mgr.3. gr).



8. Úrskurðurinn stríðir gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993, einkum 10. gr. (rannsóknarregla) og 12. gr. (meðalhófsregla)."









3.



Kærendur Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason fara fram á að felldur verði úr gildi úrskurður skipulagsstjóra um að "fallist [verði] á efnistöku á námusvæði 2 eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, með þeim breytingum að megi niður í fulla setdýpt innan námusvæðis 2". Kærendur gera þá kröfu að ekki verði heimilað að nema botnset til kísilgúrvinnslu af öðrum svæðum vatnsins, en sýnd eru á teikningu með námuleyfinu frá 7. apríl 1993.



Málsástæður og röksemdir kærenda fyrir kröfu sinni eru eftirfarandi:











"Miðað við mat á umhverfisáhrifum sem úrskurður skipulagsstjóra byggir á var skynsamlegasti kostur um frekari vinnslu Kísiliðjunnar ekki valinn. Hagsmunir okkar, sem eru silungsveiðar eggjataka og önnur gæði vatnsins, voru ekki metnir í úrskurðinum og með er þeim stefnt í hættu. Margt bendir til að fiskveiðar, eggjataka og gæði vatnsins hafa rýrnað verulega eftir að Kísiliðjan tók til starfa og nú er þessum hagsmunum okkar stefnt í enn meiri hættu með því að flytja námavinnsluna í Syðriflóa vatnsins. Í vísindaritum og greinargerðum hefur verið sýnt fram á að kísilgúrgröftur raskar undirstöðuþáttum í lífríki vatnsins, efsta lífræna lag setsins sest til í skurðunum sem myndast við kísilgúrnámið og þannig missa fæðustofnar silungs og fugla viðurværi sitt. Þetta kemur m.a. fram í veiði silungs í vatninu. Frá 1900 til 1970 hefur meðalársveiði silungs verið um 34 þúsund bleikjur, en eftir að Kísiliðjan tók til starfa hefur veiðin dalað stöðugt og aðeins tvisvar hefur ársveiðin náð meðalveiði eins og hún var fyrir 1970. Það sem af er þessu ári hefur veiðin verið með allra minnst móti og stefnir í aðeins nokkur þúsund silunga.



Úrskurðurinn stríðir gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993, einkum 10. gr. (rannsóknarregla) og 12. gr. (meðalhófsregla). Skipulagsstjóra bar að byggja úrskurðinn á öllum upplýsingum sem til voru og rökstyðja hann m.t.t. til þeirra. Þess í stað tók Skipulagsstjóri eina umsögn (Umsögn DHI-Gests Guðjónssonar), sem unnin var á nokkrum dögum fram yfir áratuga rannsóknir. Með því virðir hann ekki 10. gr. laganna. Auk þess gengur Skipulagsstjóri lengra í úthlutun á námaleyfi á svæði 2, en Kísiliðjan sótti um, þ.e. heimilar henni að grafa niður á meira en 10 metra dýpi, þegar hún sótti um að fara niður á 6,5 metra dýpi. Einnig er í þeirri umsögn sem Skipulagsstjóri byggir mest á (Umsögn DHI-Gests Guðjónssonar) ekki fjallað um svæði 1, sem af öllum umsagnaraðilum er talið að kísilgúrgröftur á því svæði valdi minni skaða en á svæði 2. Þarna ívilnar Skipulagsstjórinn framkvæmdaraðila umfram það sem hann sækist eftir, og gætir hann þar ekki meðalhófsreglunnar í 12. gr.



Með því að heimila vinnslu niður á fulla setdýpt (sumstaðar rúmlega 10 metra setþykkt) á svæði 2 er úrskurðurinn í trássi við við varnaðarorð margra íslenskra og erlendra sérfræðinga. Þessi úrskurður er einnig gallaður í ljósi þess að framkvæmdaraðili lagði ekki fram þau gögn um svæðið sem Skipulagsstofnun kallaði eftir að loknu frummati. Vísindaleg óvissa er hér notuð til að heimila framkvæmdir og stríðir það gegn varúðarreglunni.



Í úrskurðinum er ekki tekið tillit til samkomulags Náttúruverndar ríkisins (áður Náttúruverndarráðs), umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um framtíð kísilgúrnáms í Mývatni frá apríl 1993. Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra skýrðu okkur frá því á kynningarfundum í Hótel Reykjahlíð þegar námleyfið var kynnt og í því fólst sú ákvörðun samningsaðila að ekki yrði um frekari kísilgúrvinnslu að ræða þegar námleyfi rynni út eða efnisnáman í Ytriflóa yrði uppurinn.



Umsögn 36 Mývetninga sem send var Skipulagsstjóra vegna frekara mats á umhverfisáhrifum kísilgúrnáms var ekki tekin til efnislegrar meðferðar á annan hátt en að framkvæmdaraðili fékk hana til umsagnar og þá umsögn notar Skipulagsstjóri síðan. Einnig er líffræðileg þekking framkvæmdaraðila um riðastöðvar silungs umfram þekkingu vísindamanna sem unnið hafa að rannsóknum á Mývatni og veiðibænda með áratuga reynslu við silungsveiðar í vatninu, notuð til að réttlæta vinnslu á Bolum. Jafnframt er öll vísindaleg óvissa, sem kemur fram í mati á umhverfisáhrifum kísilgúrnáms túlkuð framkvæmdaraðila í hag, sem stríðir gegn varúðarreglunni."





4.



Kærandi Náttúruvernd ríkisins fer fram á að felldur verði úr gildi úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 7. júlí sl. um að "fallist (verði) á efnistöku á námusvæði 2 eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, með þeim breytingum að vinna megi niður á fulla setdýpt innan námusvæðis 2," Náttúruvernd ríkisins krefst þess að ekki verði leyfð námuvinnsla á kísilgúr í Syðriflóa.



Í rökstuðningi Náttúruverndar ríkisins fyrir kröfu sinni segir m.a:







"1. Úrskurður skipulagsstjóra er í andstöðu við markmið laga um verndun Mývatns og Laxár, í andstöðu við verndun Mývatns og Laxár sem Ramsarsvæðis og í andstöðu við stefnu íslenskra stjórnvalda og markmið alþjóðlegra samninga er varða sjálfbæra þróun, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og notkun varúðarreglunnar.



2. Í úrskurði skipulagsstjóra er horft framhjá veigamiklum skýrslum og athugasemdum. Skýrslum sem gerðar hafa verið bæði sem hluti af framangreindu mati á umhverfisáhrifum og vegna sérstakra óska s.s. skýrsluna "Mat á áhrifum starfsemi Kísiliðjunnar á vistkerfi Mývatns" (skýrsla alþjóða matshópsins sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu). Skipulagsstjóri hefur aftur á móti kosið að nota álit (bréf DHI Water and Environmet) um setflutninga sem grundvöll að niðurstöðu sinni og leyfir vinnslu á svæði 2 þvert á niðurstöður annarra sem tilgreina svæði 1 sem það svæði sem líklega ylli minnstum skaða."



3. Í úrskurði skipulagsstjóra er álit þeirra aðila sem fara með málefni er varða náttúru Mývatns og Laxár samkvæmt lögum nr 36/1974 hundsað og láðst er að geta Náttúruverndar ríkisins sem leyfisveitanda í úrskurði.



4. Náttúruvernd ríkisins telur að Skipulagsstofnun hafi lýst yfir að skýrsla Kísiliðjunnar um frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni væri ófullnægjandi og hafi ekki uppfyllt skilyrði sem sett voru úrskurði um frummat kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Samt leggur Skipulagsstofnun skýrsluna til grundvallar úrskurði á frekara mati, framkvæmdaraðila í vil."



5.



Kærandi Fuglaverndarfélag Íslands gerir þá kröfu að úrskurður skipulagsstjóra frá 7. júlí s.l. verði felldur úr gildi og umhverfisráðherra úrskurði að engin námuvinnsla verði í Syðriflóa Mývatns, ekki verði um frekari kísilgúrvinnslu af botni Mývatns en leyfð er í núgildandi námaleyfi.



Í röksemdum Fuglaverndarfélags Íslands fyrir kröfum sínum kemur fram að félagið telur námuvinnslu úr Mývatni ekki í samræmi við anda laga um verndun Mývatns og Laxár nr. 36/1974. Mývatn sé Ramsarsvæði og boðaður námugröftur samræmist ekki skuldbindingum um skynsamlega notkun votlendis. Einnig er Mývatn alþjóðlega mikilvægt fuglaverndunarsvæði.



Fuglatalning á Mývatni hafi sýnt að orðið hefur veruleg fækkun í stofnum duggandar, hrísandar og hávellu eftir 1970. Náttúruverndar ríkisins hafi ekki verið getið sem leyfisveitanda í úrskurði Skipulagsstofnunar. Kísilgúrnám í Syðriflóa sé í andstöðu við samkomulag Náttúruverndarráðs, umhverfis- og iðnaðarráðuneytis frá 1993. Minnt er á mikilvægi ferðamannaiðnaðarins við Mývatn. Kærandi vísar til þess að kærandi hafi ekki lagt fram öll þau gögn sem skipulagsstjóri bað um að aflað yrði í frekara mati.



Auk þess segir orðrétt:







"3. Augljóst er að fuglar sem byggja afkomu sína á því að afla sér fæðu á vatnsbotni á allt að tveggja metra dýpi eiga ekki möguleika á því að ná í fæðu á 4 metra dýpi eða enn dýpra. Á dældum svæðum er búið að eyðileggja lífríki vatnsbotnsins með því að dæla því burt ásamt setlögum og því hafa fuglar eftir litlu að slægjast þar. Stór hluti nokkurra íslenskra fuglastofna heldur til á Mývatni, þ.e. hrafnsandar, flórgoða og húsandar. Samkvæmt skilgreiningum BirdLife International þá er Mývatn og Laxá alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði vegna flórgoða, álfta, dugganda, straumanda, húsanda og gulanda. Í úrskurði Skipulagsstjóra er ekkert fjallað um hugsanleg áhrif á þessar fuglategundir."





6.



Kærandi Ingólfur Ásgeir Jóhannesson f.h. SUNN gerir þá kröfu að umhverfisráðherra breyti úrskurði skipulagsstjóra frá 7. júlí s.l. á grundvelli verndarpólitíkur og heimili ekki meiri kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Kærandi bendir á að Ísland er aðili að ýmsum alþjóðlegum samningum um náttúruvernd, m.a. Ramsarsamþykktinni, sem innihalda ákvæði sem Ísland hefur skuldbundið sig til að vinna eftir. Í því felst að á svæði eins og Mývatns- og Laxársvæðinu, sem er friðlýst með sérstökum lögum frá 1974, hljóti varúðarreglan að eiga að gilda.





7.



Kærendur Eysteinn Sigurðsson og aðrir undirritaðir landeigendur við Laxá gera þá kröfu að úrskurður skipulagsstjóra frá 7. júlí s.l. verði felldur úr gildi og engin kísilgúrvinnsla heimiluð á öðrum svæðum í vatninu en þeim sem heimilað var með námaleyfinu frá 7. apríl 1993. Til vara er gerð sú krafa að verði um frekari kísilgúrvinnslu að ræða er þess krafist, að öllu affalli frá dælingu og vinnslu verksmiðjunnar, verði komið þannig fyrir að ekki valdi aukningu aðgengilegra áburðarefna í Mývatni.



Kærandi rökstyður kröfu sína m.a. með vísun til þess að á undanförnum þrjátíu árum hafi orðið miklar sveiflur í lífríki Mývatns sem kemur m.a. fram sem hrun í silungsveiði og andastofnar hafa orðið hart úti í mörg ár. Sveiflur í Mývatni hafa komið fram í Laxá sem hrun í bitmýsstofni árinnar.



Kærandi telur að orsakir hruns bitmýs í Laxá tengist þörungagróðri í Mývatni. Leirlos sé mývetnskt nafn á fyrirbæri í vatninu en er þörungagróðri og langmikilvægasti þátturinn í lífrænu reki til Laxár og þýðingarmestur fyrir vöxt og viðgang bitmýsins.



Kærandi telur margt í hinum kærða úrskurði vekja furðu og ganga þvert gegn varúðarreglunni og ráðleggingum sérfræðinga sem skipulagsstjóri sjálfur og iðnaðarráðherra leituðu til. Skipulagsstjóri hafi auk þess ekki skilgreint hvað teljist fullnægjandi mótvægisaðgerðir til að draga úr setflutningum niður í gryfjurnar eða til að minnka efnaákomu.



Gerð er athugasemd við að innsendum athugasemdum hafi ekki verið gaumur gefinn eða svör framkvæmdaraðila vera látin gilda.





8.



Kærandi Kísiliðjan við Mývatn gerir þá kröfu að tölulið 6.1 í úrskurði skipulagsstjóra frá 7. júlí s.l. verði breytt þannig að fallist sé á efnistöku á námusvæði 1 eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, með sömu skilyrðum varðandi námusvæði 1 og kveðið er á um í tölulið 6.2 varðandi námusvæði 2, að breyttu breytanda. Að öðru leyti verði úrskurðurinn óbreyttur. Kærandi sendi inn viðbótargögn sem bárust ráðuneytinu þann 28. ágúst 2000. Röksemdir kæranda fyrir kröfu sinni eru eftirfarandi:





"Sérfræðihópur sem samanstóð af þremur erlendum prófessorum frá Noregi og Svíþjóð komst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa kynnt sér málið mjög vel, að óhætt væri að stunda námuvinnslu á svæði 1. Ekki verður séð að síðar hafi komið fram nýjar upplýsingar sem breytt geti grundvelli þeim sem niðurstaða hinna erlendu sérfræðinga byggðist á.



Áhyggjur skipulagsstjóra varðandi efnistöku á námusvæði 1 beinast aðallega að brottnámi gróðursamfélaga af svæðinu og áhrifum þess á fugla, fiska og næringarefnaflæði. Komið hefur í ljós í nýrri athugun á vegum Kísiliðjunnar að gróðursvæði á svæði 1 eru mjög takmörkuð og þekja líklega ekki nema 5 - 10% af svæðinu í mesta lagi, þvert á það sem gengið er út frá í niðurstöðu skipulagsstjóra. Það mun koma nánar í ljós við kortlagningu á svæði 1. Því telur Kísiliðjan hf. að ekki þurfi að meðhöndla svæði 1 öðruvísi en svæði 2 í þessu sambandi. Benda má á að kortlagning gróðurs á svæði 2 á að liggja fyrir áður en til framkvæmda kemur og að gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirrar kortlagningar verði notaðar við ákvarðanir um nánari afmörkun og tilhögun efnisstöku. Sama hátt virðist einsýnt að hafa megi á varðandi svæði 1.



Í niðurstöðum skipulagsstjóra kemur fram ( t.d. í kaflanum um áhrif á fuglalíf) að fara þurfi sérstaklega varlega í að fjarlægja botngróður vegna þess m.a. að þegar hafi verið gengið verulega á svæði vaxin hágróðri í Ytriflóa. Í skýrslu Kísiliðjunnar hf. um frekara mat á umhverfisáhrifum kemur fram að svo virðist sem stórir flekkir af botngróðri séu komnir á dæld svæði Ytriflóa og er það stutt með loftmynd 4.14 í matsskýrslunni. Nýjar athuganir á vegum Kísiliðjunnar staðfesta að um er að ræða botngróður. Jafnframt er komið í ljós að botngróður er kominn mun víðar en myndin sýnir. Þar með er staðfest að botngróður hefur numið land í miklum mæli á dældum svæðum Ytriflóa allt niður á 2.5 ? 3 metra dýpi. Af þessu má draga þá ályktun að dæling í Ytriflóa hafi stór aukið fjölbreytileika lífríkis flóans, þvert á það sem haldið hefur verið fram. Því er ekki tilefni til að byggja ákvarðanir að því er varðar efnistöku á svæði 1 á þeirri forsendu að gengið hafi verið nærri botngróðursamfélagi Ytriflóa.



Við skoðun á loftmyndum er hægt að sjá að gróðurþekja ódældra svæða í Ytriflóa virðist ná út á brúnir dælda svæðisins ( sjá mynd 4.14 í frekari matskýrslu). Fyrstu niðurstöður athugunar sem verið er að framkvæma á vegum Kísiliðjunnar hf. á gróðurfari á botni Mývatns staðfesta þetta. Af þessu má draga þá ályktun að ekki sé um umtalsvert rof að ræða á ódældum svæðum. Því má álykta sem svo að botngróður fyrir utan svæði 1 í Syðriflóa muni haldast eftir að námuvinnslu svæðisins lýkur.



Með vísan til framanrakins telur Kísiliðjan hf. að ekki sé þörf á að fram fari frekari könnun á þeim atriðum sem greinir í 2, 3 og 4 í tölulið 6.1 í úrskurði skipulagsstjóra. Hins vegar er bent á að ef efnistöku á svæði 1 yrðu sett sömu skilyrði og efnistöku á svæði 2 leiðir af því að fram færi vöktun fuglalífs, fiskistofna og botnsamfélaga á svæði 1."





9.



Kærandi Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu að úrskurður skipulagsstjóra frá 7. júlí s.l. verði felldur úr gildi. Annars vegar með vísan til þess samkomulags sem kynnt var þann 7. apríl 1993 um að frekara kísilgúrnám yrði ekki leyft eftir að núgildandi námaleyfi rennur út. Hins vegar með vísan til þess að úrskurður skipulagsstjóra tekur ekki nægilega mið af varúðarreglunni, sem er lögbundin á Íslandi.



Málsástæður kæranda fyrir kröfu sinni eru eftirfarandi:









"Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins stríðir gegn samkomulagi Náttúruverndarráðs (nú Náttúruvernd ríkisins) umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis frá apríl 1993 um framtíð kísilgúrnáms við Mývatn. Samkomulagið kvað á um að námaleyfi til handa Kísiliðjunni, sem veitt var þann 7. apríl það ár yrði ekki endurnýjað og ekki yrði um frekari útvíkkun á námasvæði að ræða.



Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins stríðir gegn varúðarreglunni sem lögfest hefur verið á Íslandi í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES.



Í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins er ekki fjallað um þau atriði sem fram koma í bréfi skipulagsstjóra ríkisins frá 28. apríl 2000 þess efnis að framkvæmdaaðili hafi ekki svarað þeim atriðum sem fram komu í 5., 6., 7., og 9. tölulið úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins frá 3. nóvember 1999."



Í greinargerð við kæruna segir m.a. eftirfarandi varðandi varúðarregluna:





"...Því verður að gera þá kröfu að skipulagsstjóri beri að túlka varúðarregluna þröngt sem fyrirbyggjandi aðgerð til að koma í veg fyrir skaða á náttúrunni en ekki aðgerð sem hægt er að grípa til eftir á ef allt fer á verri veg. Náttúruverndarsamtök Íslands telja að það sé tvímælalaust á hendi skipulagsstjóra að gera þær kröfur til framkvæmdaaðila að sýnt sé fram á með óyggjandi hætti í matsskýrslu að framkvæmd valdi ekki skaða á lífríki.



Úrskurðurinn felur í sér leyfi til kísilgúrvinnslu á svæði 2 til 32 ára og því hæpið að ætla að yfirvöld geti innkallað leyfið leiði vöktun í ljós að mótvægisaðgerðir duga ekki. Ekki er heldur að efa að Kísiliðjan mun berjast gegn hvers kyns takmörkun eða innköllun á leyfum kunna hafa verið veitt. Ennfremur, sé það vilji stjórnvalda að taka tillit til þeirra íbúa við Mývatn sem hafa framfæri sitt af starfsemi Kísiliðjunnar, er mikil áhætta tekin komi í ljós að námavinnslan valdi þeim miklu sveiflum sem verið hafa í lífríki vatnsins."





10.



Kærendur Bergþóra Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Hannesdóttir og Málmfríður Einarsdóttir kæra úrskurð skipulagsstjóra frá 7. júlí s.l. til umhverfisráðherra á nokkrum forsendum. Kærendur telja óásættanlegt að skipulagsstjóri skuli síður nýta sér rannsóknir Náttúrurannsóknarstöðvarinnar en álitsgerð dönsku Vatnafræðistofnunarinnar (DHI). Mývatn sé á skrá Ramsarsamþykktarinnar um alþjóðleg votlendissvæði.



Orðrétt segir:







"...Menn greinir á um hvort tekist hafi að sýna fram á að kísilgúrnámið hafi neikvæð umhverfisáhrif, en ekki er deilt um það að námið hafi áhrif og með því er verið að raska vistkerfi vatnsins auk þess sem það getur varla talist sjálfbært að pumpa 60. þús. tonnum upp af botninum á ári hverju."





Kærendur telja að varúðarreglunni hafi ekki verið fylgt. Kærendur vilja einnig að það liggi ljóst fyrir hvert afrennsli verksmiðjunnar lendir og hvaða áhrif það hefur á svæðið.



IV. Umsagnir og álit.



1.



Með bréfum dagsettum 24. ágúst 2000 óskaði ráðuneytið eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Skútustaðahrepps, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hollustuverndar ríkisins, landbúnaðarráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Líffræðistofnun Háskóla Íslands, með bréfi dagsettu 5. september 2000 eftir umsögn Orkustofnunar og með bréfi dagsettu 14. september eftir umsögn Náttúruverndarráðs.



Í umsögn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis frá 15. september 2000 kemur fram að ráðuneytið telji hið kærða mál tækt til afgreiðslu á grunni úrskurðarorða skipulagsstjóra og að unnt sé að útfæra þau skilyrði sem þar eru sett fram á ásættanlegan hátt.



Í umsögn Hollustuverndar ríkisins frá 15. september 2000 hvað varðar ákomu næringarefna að í skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneyti komi fram að hópurinn telji verulegan ókost að upplýsingum hafi ekki verið safnað reglubundið um tegundasamsetningu og lífsþunga jurtasvifs né styrkleika næringarefna á nógu löngu tímabili. Hollustuvernd ríkisins telur að það sé vafasamt að krefja framkvæmdaraðila um upplýsingar sem augljóslega séu ekki fyrir hendi og vafasamt að hægt sé að afla þeirra með rannsóknum sem stæðu yfir í stuttan tíma. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir hvað þetta atriði varðar að hún leggi til að:







"...ekki verði krafist frekari upplýsinga um væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs í affallsvatni frá verksmiðjunni og hvað sé ásættanlegur hámarksstyrkur þess m.t.t. áhrifa á lífríki vatnsins. Því er lagt til að úrskurði Skipulagsstofnunar hvað þetta atriði varðar verði ekki hnekkt."



Í umsögn Líffræðistofnunar Háskóla Íslands frá 18. september 2000 segir:







"...Ísland hefur tekið á sig almennar alþjóðlegar skyldur um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sérstakar skyldur um verndun lífríki Mývatns. Námugröftur úr vatninu hlýtur að vera ósamræmanlegur þeim markmiðum sem felast í verndun þess, og þetta á enn frekar við, sé höfð í huga sú vísindalega óvissa sem ríkir um nákvæm áhrif hans (sjá nánar tölulið 2). Það sjónarmið að ekki eigi að taka áhættu með svo merkilegt náttúrufyrirbæri telur Líffræðistofnun því að stutt sé gildum líffræðilegum rökum og alþjóðlegum samþykktum..."



"...Nú hagar svo til að Mývatn er alveg sérstaklega breytilegt vistkerfi sem einkennist af gífurlegum sveiflum. Við eigum enn langt í land með að skilja alla þá flóknu ferla sem eru að verki í Mývatni og gagnverkanir þeirra, víxlverkanir og keðjuverkanir sem til samans gera hið sveiflótta vistkerfi. Þó er ljóst að sveiflurnar eiga upptök sín neðst í fæðukeðjunni og tengjast atburðum eða breytingum sem verða á botni vatnsins, líklega einmitt í þeim þáttum sem raskast við námugröftinn.



Það að þetta samhengi skuli ekki liggja ljóst fyrir er staðreynd sem ákvarðanataka um framtíð vatnsins verður að taka grundvallarmið af en það má ekki nota hana til þess afsökun fyrir því að teknar séu ákvarðanir byggðar á upplýsingaskorti. Þvert á móti á þessi staðreynd að leiða til frekari íhaldssemi í ákvörðunum um framkvæmdir sem haft geta áhrif á lífríki vatnsins..."



"...Nú er sjálfsagt að leita til fleiri en eins aðila um sérfræðiálit. En þegar sérfræðingum ber ekki saman, og ekki liggur fyrir nægileg þekking hjá úrskurðaraðila er vandasamt að velja rétt. Hér virðast hafa verið gerð alvarleg mistök sem ekki er hæagt að una við, því þau leiða til þess að tekin er mikil áhætta með námavinnslu á Bolum (byrjað á svæði 2 og dýpkað að fullu), en hafnað hófsamari leið (að byrja á svæði 1 og sjá til)."



"Minnkun á silungsveiði í vatninu sl. 30 ár er óumdeild og hrun hefur ítrekað orðið í öðrum stofnum lífvera í vatninu. Ógerlegt er að sanna afdráttarlaust að þessar breytingar tengist starfsemi Kísiliðjunnar, eins og rætt er að ofan eru ekki líffræðilegar forsendur til að krefjast slíkrar sönnunarbyrði. Samanburður á ástandi vatnsins fyrir og eftir námuvinnslu takmarkast líka að því að takmarkaðar rannsóknir voru gerðar á vatninu fyrir 1970..."





Í umsögn landbúnaðarráðuneytis frá 19. september 2000 kemur fram að það hafi leitað aðstoðar Veiðimálastofnunar til að svara erindi umhverfisráðuneytisins. Í umsögn Veiðimálastofnunar segir m.a:







"...Silungsveiði hefur verið stunduð í Mývatni um langa hríð. Tekjur af veiðinni voru og eru mikilvæg býlum við vatnið. Veiði hefur dalað frá því að námuvinnsla hófst en óljóst er um ástæður hnignunar silungsstofna, en miklar breytingar hafa orðið á umhverfi vatnsins á þeim tíma sem verksmiðjan hefur starfað svo sem eldvirkni og veðurfarsbreytingar."



Orkustofnun taldi í bréfi frá 21. september 2000 að þar sem stofnunin er ekki talin upp sem lögbundin umsagnaraðili né hafi stofnunin komið að málinu áður óskaði stofnunin eftir að ráðuneytið skýrði nánar tilefni erindisins. Ráðuneytið taldi eftir nánari íhugun ekki þörf á umsögn Orkustofnunnar enda hafði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið látið í té sína umsögn.





Í umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 25. september 2000 um kæru Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar segir m.a:







"...2) Rannsóknir hafa ekki leitt í ljós að kísilgúrtaka valdi sveiflum í lífríkinu. Því er fáránlegt að hætta kísilgúrnámi og stofna með því atvinnu u.þ.b. helmings íbúa Skútustaðahrepps í hættu og afkomu sveitarfélagsins einnig. Fyrir liggur rúmlega þriggja áratuga reynsla af kísilgúrnámi úr Ytriflóa Mývatns. Reynslan af því er mjög góð. Lífríki þar hefur verið með einstökum blóma nú á síðustu árum og reyndar einstakt í sumar sem leið og á það bæði við um fugla og urriða sem hrygnir í flóanum.



...



"4) Ekki þarf dýrar félagsvísinda- eða sagnfræðilegar rannsóknir til að sjá að tekjur sveitarfélagsins skerðast verulega og atvinna hverfur verði kísilgúrvinnslu hætt í Mývatnssveit. Í þessu sambandi skal vísað til skýrslu Byggðastofnunar (okt. 1997) um þetta efni..."



Í umsögn Skútustaðahrepps um kæru Kára Þorgrímssonar og Gylfa Yngvasonar segir:







"Í svarinu segir að gert hafi verið "munnlegt samkomulag ráðuneytanna og sé efni samkomulagsins að finna í frv. því sem umhverfisráðherra kynnti fyrir Alþingi vorið 1993 en náði frumvarpið ekki fram að ganga á þinginu. Frumvarpið hefur ekki verið lagt fram síðan."



Fyrst er til að svara að frv. (sem fylgir hér á eftir) var lagt fram á 117. þingi 5. maí 1994 til kynningar. Ekki var mælt fyrir frumvarpinu.



Þingfundum var síðan frestað 11. maí. Síðan hefur frumvarpið ekki verið lagt fram á Alþingi. Ónákvæmni gætir því í svari ráðuneytisins.



Það er lykilatriði í málinu að frv. hefur aldrei komið til kasta þingsins."





Í umsögn sveitarstjórnar um kæru stjórnar Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn um þá málsástæðu að Mývatn og Laxá séu Ramsarsvæði segir:







"...Í svari ráðuneytisins (fskj 1) segir "að sendinefnd Íslands á fundi Ramsar árið 1993 fór í umboði ráðherra og yfirlýsing sendinefndarinnar var flutt í samráði við ráðherra."



Ekki eru lögð fram gögn í málinu til stuðnings eins og sveitarstjóri Skútustaðahrepps óskaði eftir. Þá er spurningu sveitarstjóra um fyrirmæli ráðherra sem Ramý segir að gefin hafi verið þegar Mývatn var sett á "svartan lista" (Montreux skráin frá 1990) í engu til svarað.



Í svörum ráðuneytisins (fskj 1) eru svörin sem Ramsar varðar 11 bls. sem prentaðar eru af heimasíðum Ramsar..."



Í umsögn sveitarstjórnar um kæru Náttúruverndar ríkisins segir um þá málsástæðu kæranda að Náttúruverndar ríkisins sé ekki getið sem leyfisveitanda m.a. eftirfarandi:







"...Landslög gilda og löggjafinn hefur fært Náttúruvernd ríkisins vald umfram rétt kjörna sveitarstjórn í skipulags- og byggingarmálum í Skútustaðahreppi. Því er óþarft að nefna Náttúruvernd ríkisins sérstaklega í þessu sambandi. Hins vegar er reiðilaust af hálfu sveitarstjórnar Skútustaðarhrepps þá Náttúruvernd ríkisins sé nefnd ef líðan einhvers batnar við það.



Það er athyglisvert að Náttúruvernd ríkisins leggur ríka áherslu á að vald stofnunarinnar sé tíundað..."



Um þá málsástæðu Fuglaverndarfélags Íslands að sveiflur hafi orðið í stofnum fugla eftir 1970 segir hreppurinn:







"...4) Vissulega hafa orðið sveiflur í stofnum fugla eftir 1970 eins og fyrir 1970.



Þannig hefur sumum fuglategundum fjölgað verulega á umræddu tímabili. Ef til vill telur Fuglaverndunarfélagið að það megi rekja til kísilgúrstöku?



Víða eru verulegar sveiflur í stofni fugla og annara dýrategunda kunnar án þess að ástæður séu þekktar.



Samkvæmt grein Arnþórs Garðarssonar í bókinni Náttúra Mývatns (bls. 296) kemur eftirfarandi fram:



"Talningar 1975-76 og endurtúlkun talninga frá árunum 1961-70 benda til þess að mismunurinn á milli þessara tímabila hafi að miklu leiti stafað af ólíkum aðferðum við túlkun niðurstaðna. Líklegt er að skúfönd hafið farið fjölgandi á tímabilinu 1960-74, jafnframt því sem duggönd fækkaði."..."



Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 6. október 2000 segir:







"Það er ljóst á framansögðu að Skipulagsstofnun hafði verulegar athugasemdir um gæði skýrslunnar um frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrnáms úr Mývatni þegar hún barst frá framkvæmdaraðila (sbr. bréf dags. 28.4.2000) og bauð Kísiliðjunni að bæta úr því áður en matið yrði auglýst. Kísiliðjan var því ósammála að upplýsingar skorti og kaus að leggja skýrsluna fram óbreytta til umsagnar og úrskurðar. Náttúrufræðistofnun Íslands telur að ábendingar Skipulagsstofnunar um þörf á endurbótum hafi verið réttar og vel rökstuddar. Því er stofnunin sammála því mati Skipulagsstofnunar frá 28.4.2000 og nokkurra kærenda að frekari gögn skorti er varða :



· 5. tl. úrskurðarorða um að mat verði lagt á áhrif brottnáms eða rýrnunar botngróðursamfélaga á frumframleiðni. Fyrirliggjandi gögn um dreifingu botngróðurs eru af mjög skornum skammti.



· 6. tl. úrskurðarorða um áhrif námuvinnslu á svæðum 1 og 2 á fuglalíf við Mývatn í ljósi hlutfallslegrar nýtingar mismunandi stofna á umræddum svæðum á öllum árstímum samanborið við vatnið í heild.



· 7. tl. úrskurðarorða um áhrif námuvinnslu á svæðum 1 og 2 á silung. Bent hefur verið á að mikilvægar riðastöðvar silungs séu á umræddum svæðum. Brottnám botngróðurs getur haft verulega þýðingu fyrir ungviði silungs sem leitar skjóls í hágróðri. Sama á við um hornsíli. Ástæða er til að ætla að stór hluti hágróðurs í Syðriflóa sé á umræddum svæðum (sbr. 5.tl.).



· 9. tl. úrskurðarorða um upplýsingar um væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs í affallsvatni og mat á hver sé ásættanlegur hámarksstyrkur fyrir lífríki vatnsins.



Þessi áberandi gagnaskortur endurspeglast einnig í fjölda skilyrða sem skipulagsstjóri setur í úrskurðarorðum eftir frekara mat, þar sem kveðið er á um margháttaða vöktun námasvæðis og tekið fram að vöktun verði að hefjast áður en námavinnsla hefst. Krafa um að gera mælingar áður væri óþörf ef upplýsingar um viðkomandi atriði hefðu legið fyrir í mati á umhverfisáhrifum.



Mjög mismunandi álit á hugsanlegum setflutningum tengdum kísilgúrnámi liggja fyrir. Kísiliðjan leggur fram niðurstöður verkfræðistofunnar Vatnaskila í frummati og endurmat sömu aðila í frekara mati. Fyrir liggur álit Sérfræðinganefndar um Mývatnsrannsóknir frá 1991 sem stutt er af alþjóðlega matshópnum 1999/2000. Skipulagsstofnun leitaði sjálf álits dönsku verkfræðistofunnar DHI Water & Environment. Umsögn DHI ræður úrslitum í úrskurði. Náttúrufræðistofnun telur ljóst að í áliti DHI hafi alls ekki verið tekið tillit til líffræðilegra þátta, svo sem mikilvægi næringarríks yfirborðssets fyrir botndýrasamfélög, sem endurspeglast í marklausum samanburði á útreiknuðum setflutningum í gryfjur við heildarsetmagn vatnsins.



Lítið er fjallað um mótvægisaðgerðir í frummati og enn minna í frekara mati. Ekkert er fjallað um mótvægisaðgerðir gegn rofi, og lítið gert úr hlutverki Kísiliðju í aukningu næringarefnaákomu í frummati. Í frekara mati kemur fram að yfirstandandi séu tilraunir í samvinnu við Hollustuvernd um minnkun næringarefna í frárennsli. Þarna er því ekkert mat lagt á ásættanlega aukningu næringarefnaákomu eins og óskað var í úrskurðarorðum."



Fram kemur einnig í umsögn Náttúrufræðistofnunar:







"...Það er ljóst að verkfræðistofna DHI hefur ekki tekið tillit til líffræðilegra þátta í mati sínu á setflutningum og rofi sem þeir gera lítið úr í samanburði við heildarsetmagn vatnsins. Slíkar athugasemdir opinbera vanþekkingu á líffræðilegum ferlum og lífríki á botni stöðuvatna. Þessi samanburður væri hliðstæður því að segja að uppblástur á Íslandi sé hverfandi miðað við þykkt jarðskorpunnar."



Einnig segir:



"Líklegt er að misskilningur vegna breytinga á orðalagi ráði því að meðalhófsreglu var getið. Kísiliðjan lagði fram 4 mismunandi kosti varðandi námuvinnslu á svæði 2. Engin dýpkun, dýpkun um 2, 4 eða 6,5 m að meðaltali. Þess er getið í framlögðum gögnum að setþykkt á svæði 2 sé sums staðar meira en 10 m. Líklegt er, þó það komi ekki fram, að meðaldýpi miðað við fulla dýpt sé nærri 6,5 m."



Í umsögninni kemur einnig fram eftirfarandi:







"...Það er því ljóst að skipulagsstjóri hefur fulla heimild til að leita álits sérfróðra aðila um skýrslu framkvæmdaraðila og án þess að þau álit séu lögð fram sem gögn í málinu."



Í umsögninni kemur fram varðandi lög um friðun Mývatns og Laxár:







"Náttúrufræðistofnun Íslands telur að í ljósi framlagðra gagna sé ekki hægt að fullyrða að fyrirhuguð námavinnsla skv. úrskurði Skipulagsstofnunar sé í samræmi við það meginmarkmið laganna að vernda Mývatns- og Laxársvæðið. Þvert á móti eru sterkar vísbendingar um að námugröftur úr vatninu sé andstæður verndunarmarkmiðinu. Um rökstuðning er vísað til umsagna um aðra kæruliði þar sem fram kemur m.a. það álit stofnunarinnar að vísindaleg óvissa ríkir um áhrif námugraftrarins á lífríki Mývatns.



Náttúrufræðistofnun Íslands telur augljóst að Skipulagsstofnun hefði átt að vísa til þess að hverskonar mannvirkjagerð og jarðrask sé óheimilt nema Náttúruvernd ríkisins leyfi það. Sú fullyrðing stofnunarinnar, að framkvæmdaleyfi sé endanlegt leyfi þeirra framkvæmda sem um ræðir (bls. 39 í úrskurði) virðist stangast á við 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974."



Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kemur einnig fram:







"Í umfjöllun Skipulagsstofnunar er því haldið fram (bls. 24) að "skynsamleg eða sjálfbær nýting votlendissvæða (hafi) ekki verið skilgreind". Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á því að hugtakið skynsamleg nýting (wise use) hefur verið skilgreint á vegum aðildarríkja Ramsarsamningsins. Vísa má til bókarinnar "Towards the Wise Use of Wetlands" sem skrifstofa samningsins gaf út árið 1993 og margvíslegra samþykkta og ályktana aðildarríkjanna um þetta efni síðar. Forsendur Skipulagsstofnunar eru því ekki réttar varðandi þetta atriði.



Forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands staðfestir að meginástæða þess að Mývatn var flutt af svarta lista Ramsarsamningsins (Montreaux-skrá) í Kushiro í júní 1993 var yfirlýsing Íslands þess efnis að ekki yrði um frekari framlengingu námaleyfis að ræða. Á fundinum var nýúrgefið námaleyfi kynnt og sagt frá því samkomulagi sem náðst hafði við hagsmunaaðila. Forstjórinn var aðalfulltrúi Íslands á þessum fundi og annaðist þetta mál þar. Samráð var haft í síma á meðan á fundi stóð við umhverfisráðherra og ráðuneyti."



Í umsögninni segir ennfremur:







"...Náttúrfræðistofnun Íslands fær ekki séð að hægt verði að snúa við neikvæðu ferli sem upp gæti komið vegna rofs næringarríks sets úr yfirborðslögum og uppsöfnunar þess í gryfjum. Skipulagsstjóri viðrar þetta vandamál sjálfur á bls. 37 í niðurstöðum annarrar athugunar á mati á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni "Skipulagsstjóri bendir hins vegar á að erfitt getur verið að snúa við óæskilegum áhrifum námuvinnslu á lífríki vatnsins sem fram kunna að koma við vöktun og erfitt að bregðast skjótt við alvarlegu atvinnuástandi sem myndi skapast ef beita ætti slíkum vöktunarskilyrðum þannig að hætta þyrfti vinnslu með skömmum fyrirvara."



Náttúrufræðistofnun hefur eftirfarandi að segja um varúðarregluna:







"Það er mat Náttúrufræðistofnunar að hætta á röskun lífríkis Mývatns felist aðallega í rofi lífræns næringarríks yfirborðslags utan námusvæðanna. Slíkt gæti haft mjög víðtæk áhrif á vistkerfi Mývatns og afkomu stofna fiska og fugla sem byggja afkomu sína á botndýrum. Um þetta er fjallað nánar í 3.1, 3.2, 3.7 og 3.11. Skiptar skoðanir eru um þetta meðal vísindamanna, en fjöldi innlendra og erlendra líffræðinga hefur bent á þessa hættu og fært fyrir henni skynsamleg rök. Því væri það brot á varúðarreglu að leyfa kísilgúrnám úr Syðriflóa áður en afsannað er að þessi hætta sé raunveruleg."



Um samkomulagið frá apríl 1993 segir eftirfarandi:







"Forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands tekur undir að úrskurðurinn sé andstæður því samkomulagi sem gert var árið 1993 um framtíð kísilgúrnáms úr Mývatni. Forstjórinn var skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu á þeim tíma og annaðist þetta mál og samninga þar að lútandi fyrir hönd ráðuneytisins í samvinnu við Jón Ingimarsson skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneytinu."



Einnig segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar:







"Sama máli gegnir um fuglastofna. Miklar náttúrulegar sveiflur í fjölda anda við Mývatn eru þekktar frá því löngu fyrir daga Kísiliðjunnar. Breytingar hafa sést í seinni tíð á mörgum stofnum, án þess að beint sé hægt að tengja þær starfsemi Kísiliðjunnar í Ytriflóa. Það er rökrétt að álykta að ef að aðgengileg svæði minnka vegna dýpkunar eða framleiðni minnki sökum rofs muni stofnar minnka. Ljóst er að dreifing anda í Ytriflóa er mjög tengd dýpi vatnsins og nýting þeirra er meiri á grunnu ódældu svæðunum. Endur eru hins vegar mjög hreyfanlegar og því ólíklegt að staðbundnar breytingar á litlum hluta vatnsins hafi merkjanleg áhrif á heildarstofna. Líkur á að slík áhrif séu greinanleg frá miklum náttúrulegum sveiflum í framboði botndýra sem fæðu eru því enn sem komið er litlar. Vafasamt er að taka þá áhættu án þess að hafa haldbetri vitneskju til að meta áhrifin."





Í umsögn Náttúruverndarráðs frá 9. október 2000 segir m.a. eftirfarandi:







"...að við útreikninga á setflutningum við botn vatnsins er ekki tekið tillit til mismunandi eðlisþyngdar setsins né lífræns gildis þess. Einungis lítill þyngdarhluti þess botnsets sem er á ferð í vatninu árlega lendir í námugryfjunum. Sérfræðingar hafa bent á að vindur og straumar hafa meiri áhrif á efsta hluta botnsetsins en neðri hluta þess, sem er þéttari og stenst því betur vindálag. Efsti hluti setsins er mikilvægastur lífríkinu en það er sá hluti sem er léttastur, mest á ferðinni og vænta má að fari hlutfallslega meira af í gryfjurnar. Í matsskýrslu kemur fram að ætluð nýmyndun botnsets er talin nálægt 18.000-25.000 tonnum á ári, þar af er 55% kísilgúr. Um 2.000-3.000 tonn berast niður Laxá og nýtast lífríkinu þar en í skýrslum Helga Jóhannessonar og Vatnaskila kemur fram að áætlað efnistap frá Syðriflóa og sunnarverðum Bolum vegna kísilgúrvinnslu nemi 1.900-6.000 tonn árlega. Ef gert er ráð fyrir að það magn sé allt nýmyndað þá má leiða líkum að því að 8-33% af árlegri setmyndun tapist vegna kísilgúrvinnslunnar."



Í umsögn Skipulagsstofnunar frá 9. október 2000 segir:







"Skipulagsstofnun lýsti því yfir í bréfi til Kísiliðjunnar dags. 28. apríl 2000 að það væri mat stofnunarinnar að þær upplýsingar sem kæmu fram í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila fullnægðu ekki þeim kröfum um frekari upplýsingar og mat umhverfisáhrifum sem fram kæmu í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 3. nóvember 1999. Því kynni að vera að á grundvelli þeirra yrði ekki unnt að taka afstöðu til og leggja mat á áhrif ofangreindrar framkvæmdar á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.



Í bréfi Kísiliðjunnar til Skipulagsstofnunar dags. 2. maí 2000 var þess krafist að framlögð matsskýrsla yrði auglýst.



Í bréfi dags. 9. maí 2000 tilkynnti Skipulagsstofnun Kísiliðjunni að stofnunin hefði móttekið frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni og að athugun skipulagsstjóra yrði auglýst 12. maí 2000. Þá myndu, auk framlagðra gagna framkvæmdaraðila, verða auglýstar og liggja frammi athugasemdir Skipulagsstofnunar við skýrslu um frekara mat dags. 28. apríl 2000. Ennfremur var upplýst að stofnunin hyggðist leita sérfræðiálita vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.



Að mati Skipulagsstofnunar var framkvæmd þessa í fullu samræmi við þær heimildir og skyldur sem skipulagsstjóri ríkisins hafði samkvæmt þágildandi lögum varðandi móttöku gagna til athugunar og kynningu þeirra."



Í umsögn Skipulagsstofnunar segir ennfremur:







"Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skulu leyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Gera þarf breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps til að unnt sé að heimila framkvæmdir skv. hinum kærða úrskurði. Slík aðalskipulagsbreyting er háð samþykki Náttúruverndar ríkisins, en ekki byggingar- og framkvæmdaleyfi veitt í kjölfar þeirrar aðalskipulagsbreytingar, sbr. áðurnefnt ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu."



Um samkomulagið frá 1993 segir Skipulagsstofnun m.a:







"Vegna þessa vill Skipulagsstofnun taka fram að eldra námaleyfi var ekki til umfjöllunar í mati á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Þar var til umfjöllunar fyrirhuguð vinnsla á 2 nýjum svæðum í Syðriflóa og hvort hún komi til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Niðurstaða úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum felur ekki í sér heimild til framkvæmda, en er ætlað að vera liður í undirbúningi ákvarðanatöku stjórnvalda um leyfisveitingar. Það var því ekki hlutverk skipulagsstjóra ríkisins að taka í hinum kærða úrskurði afstöðu til eldra námaleyfis, heldur að fjalla um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar efnistöku á 2 nýjum svæðum á Bolum í Syðriflóa."



Í umsögn Skipulagsstofnunar segir m.a. eftirfarandi varðandi varúðarregluna:







"...Niðurstaða úrskurðarins varðandi námusvæði 2 byggir hinsvegar á því að sýnt hafi verið fram á við aðra athugun að unnt sé að vinna kísilgúr á námusvæði 2 án þess að vinnsla þar hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Vegna þýðingar svæðisins sé hinsvegar nauðsynlegt að leyfisveitingar til efnistöku á námusvæði 2 byggi á mjög ítarlegum framkvæmdalýsingum og áætlunum, sem og afdráttarlausum vöktunaráætlunum og viðmiðum um hvenær vöktunarmælingar kalli á breytingar á framkvæmdum eða stöðvun framkvæmda. Skipulagsstofnun felst því ekki á að niðurstaða úrskurðarins varðandi námusvæði 2 byggi á því að nota vísindalega óvissu til að heimila framkvæmdir, eins og haldið er fram í kærum. Eins og fram kemur í úrskurðinum, og fjallað er um aftar í þessari umsögn, var í framlögðum gögnum við aðra athugun sýnt fram á að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif."



Í umsögn sagði ennfremur um þau skilyrði sem skipulagsstjóri setti í úrskurði sínum:







"Það var niðurstaða skipulagsstjóra að sýnt hefði verið fram á við aðra athugun að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Af þeim sökum var fallist á framkvæmdina og því beint, með ítarlegum skilyrðum í úrskurði, til leyfisveitenda að útfæra mörk, viðmiðanir og vöktun. Þetta er í samræmi við 22. og 23. gr. þágildandi reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Rétt er að vekja athygli á því að þau skilyrði sem fyrirhugað er að setja fyrir leyfisveitingum, til þess að uppfylla ákvæði úrskurðar skipulagsstjóra, koma til opinberrar kynningar af hálfu viðkomandi leyfisveitenda, áður en leyfi eru veitt í tilfelli starfsleyfis, framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis. Þannig auglýsir Hollustuvernd ríkisins tillögu að starfsleyfi til athugasemda og sveitarstjórn auglýsir tillögu að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagstillögu, þar sem ákveðnar eru forsendur þeirra leyfisveitinga sem á þeim eiga að byggja."



Einnig segir:







"Fjallað er um ákvæði Ramsarsamþykktarinnar um skynsamlega nýtingu votlendissvæða og ákvæði laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu í hinum kærðaúrskurði, sem og í fyrra úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Það var niðurstaða skipulagsstjóra ríkisins í hinum kærðaúrskurði að vinnsla á námusvæði 2 myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það er mat Skipulagsstofnunar að sú niðurstaða feli í sér að vinnsla á námusvæði 2 geti samrýmst ákvæðum Ramsarsamþykktarinnar og laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu."



Enn fremur kemur fram:







"Í kærum er gerð athugasemd við að skipulagsstjóri ríkisins hafi í hinum kærða úrskurði fallist á dýpkun umfram kröfur þær sem gerðar voru í matsskýrslu. Skipulagsstofnun ítrekar í því sambandi að með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum er ekki veitt leyfi til framkvæmda, en slík leyfi er heimilt að veita innan þess ramma sem settur er í niðurstöðu úrskurðar. Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar kemur fram mat skipulagsstjóra ríkisins á því hversu djúpt sé unnt að vinna kísilgúr á svæði 2 án þess að framkvæmdir komi til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Skipulagsstofnun telur að skipulagsstjóra ríkisins hafi í niðurstöðu hins kærða úrskurðar verið heimilt að benda á að vinnsla niður í fulla dýpt á fyrirhuguðu vinnslusvæði 2 í Syðriflóa muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, þó að það hafi ekki verið tekið fram í matsskýrslu. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum er byggður á gögnum sem lögð eru fram af framkvæmdaraðila, umsögnum, athugasemdum, sérfræðiálitum og svörum framkvæmdaraðila. Því telur Skipulagsstofnun að ekki sé brotið gegn jafnræðisreglu þó niðurstaða úrskurðar sé ekki samhljóða framkvæmdalýsingu í matsskýrslu, enda koma iðulega fram upplýsingar við undirbúning úrskurðar sem áhrif hafa á afmörkun og tilhögun framkvæmdar og mat á áhrifum eins og því hefur verið lýst af framkvæmdaraðila í matsskýrslu."



Í umsögninni segir m.a:







"...Skipulagsstofnun fellst ekki á að slíkar grundvallar upplýsingar hafi skort um námusvæði 2 að ekki hafi verið tilefni til að fallast á framkvæmd þar, eins og haldið er fram í kærum. Varðandi námusvæði 2 var niðurstaða skipulagsstjóra sú að sýnt hefði verið fram á að vinnsla þar þyrfti ekki að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem útfærð yrðu við undirbúning og útgáfu leyfa til framkvæmdanna..."



Og enn fremur:







"...Við vinnslu úrskurða skipulagsstjóra ríkisins er hinsvegar ekki svarað sérstaklega hverri umsögn og athugasemd sem berst, enda ekki gerð krafa um slíkt í lögum um mat á umhverfisáhrifum og talið tryggt að tekið sé tillit til allra innkominna gagna með fullnægjandi hætti með því verklagi sem viðhaft hefur verið í samræmi við lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum."



Um setflutninga segir í umsögn Skipulagsstofnunar m.a:







"Eins og fram kemur á bls. 7 í hinum kærða úrskurði gætti misræmis í framlögðum gögnum varðandi áhrif fyrirhugaðrar efnistöku í Syðriflóa á strauma og setflutninga. Í skýrslu alþjóðlega matshópsins sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu kemur fram að unnt sé að nýta svæði 1 til fulls niður á 3,2 m dýpi en mælt með því að ekki verði dýpkað um meira en 2 m á svæði 2. Í matsskýrslu voru hins vegar settir fram útreikningar, unnir af verkfræðistofunni Vatnaskilum fyrir framkvæmdaraðila, sem bentu til þess að setsöfnun inn á vinnslusvæði sé mun háðari flatarmáli en dýpi og því sé æskilegra út frá setflutningum að hafa námusvæði sem dýpst og minnst um sig að flatarmáli. Því gerði framkvæmdaraðili í matsskýrslu tillögu um dælingu niður á 4,5 m dýpi á svæði 1 en 6,5m dýpi á svæði 2. Vegna þessa munar taldi skipulagsstjóri ríkisins nauðsynlegt að afla álits sérfróðs aðila sem yfirfæri fyrirliggjandi gögn og útreikninga um setflutninga vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Leitað var til dönsku vatnafræðistofnunarinnar DHI Water and Environment, sjálfstæðrar rannsóknar- og ráðgjafarstofnunar, sem sérfræðinga í straumfræði. Í niðurstöðu álits DHI Water and Environment var tekið undir niðurstöður verkfræðistofunnar Vatnaskila um að æskilegra væri út frá setflutningum að lágmarka flatarmál gryfja, en aukin dýpt hefði minni umhverfisáhrif í för með sér en aukið flatarmál, þar sem hún breyti ekki hegðun strauma, en talið að tilfærsla sets væri ofmetin...



Þau gögn sem lögð voru til grundvallar frekara mati á áhrifum kísilgúrvinnslu úr Syðriflóa á strauma og setflutninga voru, eins og fram kemur í kafla 4.4 í hinum kærða úrskurði, skýrsla alþjóðlega matshópsins sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu og nýir útreikningar verkfræðistofunnar Vatnaskila sem framkvæmdaraðili lét vinna og bentu til þess að í fyrri rannsóknum væri setsöfnun inn á vinnslusvæði ofmetin. Í hinum nýju



útreikningum kom fram að setsöfnun inn á vinnslusvæði væri mun háðari flatarmáli en dýpi. Eins og fram kemur í umfjöllun hér á undan var vegna misræmis í fyrirliggjandi gögnum óskað sérfræðiálits um hina nýju útreikninga sem lagðir voru fram af hálfu framkvæmdaraðila ásamt sérfræðiáliti Einars Hjörleifssonar og Kristins Guðmundssonar um kísilgúrnám og áhrif á lífríki..."



Um kynningu sérfræðiálita segir:







"Skipulagsstofnun telur slíkt ekki skylt og bendir í því sambandi á 17. gr. þágildandi reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994 þar sem segir að skipulagsstjóri skuli óska eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum við aðra athugun og senda þeim skýrslu framkvæmdaraðila innan tveggja vikna frá því að skipulagsstjóri hefur móttekið hana. Jafnframt geti skipulagsstjóri leitað eftir áliti sérfróðra aðila eftir því sem



þörf krefji. Í ákvæðinu er ekki gert ráð fyrir að sérfræðiálit séu send umsagnaraðilum, enda væri slíkt að mati Skipulagsstofnunar ógerningur innan gefinna tímafresta."



Í umsögninni kemur fram eftirfarandi:







"Skipulagsstofnun telur að þrátt fyrir að ekki liggi fyrir upplýsingar umáhrif fyrirhugaðrar kísilgúrvinnslu á einstakar tegundir fugla í og við Mývatn hafi ekkert bent til þess að á fyrirhuguðu námusvæði 2 verði fuglar fyrir umtalsverðum áhrifum af kísilgúrnámi þar, að gættum þeim skilyrðum sem fram koma í 6. kafla úrskurðarins. Sama gildi um áhrif framkvæmdarinnar á fisk, sbr. niðurstöðu úrskurðarins þar um á bls. 31-32. Með því að ekki var talið að fyrirhuguð kísilgúrvinnsla hefði umtalsverð áhrif á fisk og fugl í og við Mývatn var ekki talin ástæða til að fjalla sérstaklega um hagsmuni af silungsveiði og eggjatöku."



Og að lokum:







"Hin nýja athugun sem vísað er til í kæru Kísiliðjunnar, Gróðurathuganir í Mývatni, dags. 24. ágúst 2000, var unnin fyrir Kísiliðjuna hf. af Jóni Kristjánssyni og Tuma Tómassyni í kjölfar niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Skipulagsstofnun tekur ekki afstöðu til innihalds skýrslunnar, þar sem í 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994 er gert ráð fyrir að þegar gerð er krafa um frekari könnun einstakra þátta í



niðurstöðu úrskurðar um frekara mat skuli málsmeðferð vera skv. 14.-18. gr. reglugerðarinnar. Skipulagsstofnun telur því ekki heimilt að byggja niðurstöðu úrskurðar ráðherra um mat á umhverfisáhrifum á nýjum rannsóknum og gögnum sem ekki hafa hlotið umfjöllun þá sem gert er ráð fyrir í framangreindum ákvæðum reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar að framan um samanburð niðurstaðna varðandi námusvæði 1 og námusvæði 2."





2.



Með bréfi dagsett 19. september 2000 til Kísiliðjunnar á Mývatni og með bréfum dagsettum 21. september 2000 til annarra kærenda, 27. september 2000 og 9. október 2000 voru þær umsagnir sem borist höfðu ráðuneytinu sendar til kærenda og þeim boðið að koma að athugasemdum sínum við þær.



Athugasemdir Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar bárust ráðuneytinu með bréfum dagsettum 30. september 2000, 12. október 2000 og 16. október 2000.







"1) Ekki er forsvaranlegt að vísindaleg óvissa verði notuð til að leyfa framkvæmdir, vísindaleg óvissa sem þó er e.t.v. ekki síður jafnmikil vísindaleg vissa um skaðsemi námugraftrarins og nokkurt tíma verði sönnuð..."



"Ég hef áður í mínum kærum og skrifum bent á að blómlegt mannlíf hafi verið í Mývatnssveit áður en Kísiliðjan hóf starfsemi sína. Engum dettur aftur á móti í hug að stöðvun námugraftrarins muni ekki valda röskun á núverandi ástandi. En er ástæða til að árétta að áframhald námugraftrarins á nýjum stað og kostnaður við endurnýjun tækja í verksmiðjunni sjálfri leiðir mjög líklega til þess að tekjur sveitarfélagsins af verksmiðjunni sjálfri verða nokkuð rýrar á næstunni..."



Athugasemdir Kára Þorgrímssonar og Gylfa Yngvasonar bárust ráðuneytinu með bréfi dagsettu 15. október 2000.







"Undirrituðum eru ekki kunnar þær upplýsingar sem Sveitarstjórn Skútustaðahrepps byggir á þá umsögn að "eggjataka og silungsveiði hafi aukist verulega eftir að kísilgúrvinnsla hófst í Ytriflóa", eða hvaða eggjataka verði sérstaklega merkt við Ytriflóa. Enginn fulltrúi meirihlutans í sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur a.m.k. svo nokkru nemi stundað eggjatöku eða silungsveiðar, né heldur aflað sér upplýsinga um slíkt hjá þeim mönnum sem mest og lengst hafa lagt stund á slíkt. Ljóst er að á starfstíma verksmiðjunnar hefur Mývatns breyst úr gjöfulasta veiðivatni landsins í eitt hið lakasta þeirra, sem þó eru nýtt. Ástæður þess eru ítrekuð hrun átustofna (mýlirfur ofl.). Inngrip verksmiðjunnar í vistkerfi Mývatns er margsinnis nógu stórt og víðtækt til að geta verið orsök slíks. Ytriflói Mývatns var aldrei talinn nein afburða veiðistöð og er það ekki heldur nú. Þar sem annars staðar í Mývatni var bleikja uppistaða afla, ekki urriði. Sú lýsing sveitarstjórnar að "lífríkið hefur verið með einstökum blóma nú á síðustu árum og reyndar einstakt í sumar sem leið og á það bæði við um fugla og urriða sem hrygnir í flóanum", er fjarri öllu lagi. Að minnsta kosti var silungur úr Mývatni ill- eða ófáanlegur í verslunum og veitingastöðum nú í sumar."



Athugasemdir Kísiliðjunnar við Mývatn bárust ráðuneytinu með bréfi dagsett 16. október 2000, þar segir m.a:







"Í umsögn er bent á að ekki hafi verið lagt mat á ásættanlega aukningu næringarefnaákomu eins og óskað var eftir í bréfi frá skipulagsstofnun. Kísiliðjan telur sig hafa rökstutt það mjög ítarlega til Skipulagsstofnunar að ekki er hægt að gefa upp einhverja eina tölu í þessu sambandi. Á það skal líka bent að hér er um mjög litla næringarefnaákomu að ræða. Við vinnslu í Syðriflóa mun þessi ákoma ekki aukast frá því sem hún hefur verið. Jafnframt er verið að vinna að því í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins að minnka þessa ákomu eins og kostur er með skynsamlegum hætti. Framtíðin verður að skera úr um það hver niðurstaðan verður."



Í athugasemdum Kísiliðjunnar segir m.a. um lög og alþjóðlega samninga:







"1. Lögin um verndun Mývatns og Laxár voru ekki sett til höfuðs Kísiliðjunni. Í raun kemur nafn Kísiliðjunnar vart fyrir í greinargerð með lögunum á sínum tíma. Þar sem ekki hefur verið hægt að benda á óæskileg áhrif Kísiliðjunnar á lífríki Mývatns þá er ekki hægt að nota lög um verndun Laxár og Mývatns til að stöðva námuvinnsluna...



...Alþjóðlegi matshópurinn fjallar um sjálfbæra þróun í kafla 5.1 á bls. 38. Þar er varpað fram þeirri spurningu hvort kísilgúrvinnslan sé sjálfbær, þ.e. hvort unnt sé að halda henni áfram án þess að eiga á hættu að vistkerfið spillist. Ekki er hægt að sjá annað en að samkvæmt stefnu stjórnvalda og skilgreiningu alþjóðlega matshópsins á sjálfbærri þróun sé hægt að vinna kísilgúr áfram. Er þá gengið út frá því að svipuð ákvæði verði sett í nýtt námaleyfi um að ef óæskileg áhrif vinnslunnar kæmu í ljós, verði hún stöðvuð. Einnig má benda á skilgreiningu á sjálfbærri notkun votlenda skv. Ramsar-samþykktinni, sem fram kemur í minnisblaði Baldurs Guðlaugssonar til framkvæmdastjóra Kísiliðjunnar, dags. 11.10.99. Þar segir:







"?að sjálfbær notkun er skilgreind sem notkun manna á votlendi þannig að af hljótist sem mestur áframhaldandi ávinningur fyrir núverandi kynslóðir jafnframt því að viðhaldið sé möguleikum þess til að mæta þörfum og væntingum kynslóða framtíðarinnar."



Í minnisblaði Baldurs er einnig fjallað um hugtakið "skynsamleg notkun" (wise use) sem kemur fyrir í Ramsar-samþykktinni. Fram kemur í áætlun Ramsar fyrir árin 1997-2002 að samnings-aðilar álíti hugtakið "skynsamleg notkun" vera hið sama og "sjálfbær notkun". Þar er einnig undirstrikað að með hugtakinu "skynsamleg notkun" hafi samþykktin alltaf lagt áherslu á að notkun manna á sjálfbærum grundvelli sé á allan hátt samrýmanleg skráningu samkvæmt Ramsar og verndun votlendis almennt. Af þessu má sjá að ekki er hægt að nota Ramsar sáttmálann gegn Kísiliðjunni.



...Kísiliðjan bendir á að sú ákvörðun að fara ekki fram á frekari kísilgúrvinnslu úr Ytriflóa var tekin á grundvelli varúðarreglunnar. Með því er átt við að þessi ákvörðun hafi verið tekin vegna þess að áhættan eykst á því að neikvæð áhrif námuvinnslu geti komið í ljós þegar námusvæðið verður hlutfallslega stærra. Ítrekað er að námuvinnslan hefur þegar tekið yfir 40% af flatarmáli Ytriflóans án þess að orðið hafi vart við neikvæð áhrifa á lífríkið. Jafnframt lítur Kísiliðjan svo á að með því að sækja einungis um 4% af Syðriflóa til námuvinnslu þá sé verið að fara mjög varlega."



Um setflutninga segir í athugasemdum kæranda m.a. eftirfarandi:





"...Ekki er raunhæft að bera saman umfram setflutninga á dýpkuð svæði vegna námuvinnslu við nýmyndað set hvers árs. Ástæðan er sú að það er ekki nýmyndað set hvers árs sem fer ofan í dældu svæðin. Það er efsti hluti setsins, nokkrir cm, sem geta farið á hreyfingu í miklu ölduálagi, og það set hefur verið að myndast á einhverjum áratugum. Ef gert er ráð fyrir að fyrstu 2 cm séu á ferðinni þá er verið að tala um 10 ár af nýmynduðu seti og að um 3% af því geti farið niður í dýpkuð svæði..."



Einnig kemur fram eftirfarandi:





"...Kísiliðjan telur að viðhöfð hafi verið vönduð vinnubrögð af hálfu fyrirtækisins í öllu matsferlinu. Margir sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa lagt hönd á plóginn . Kísiliðjan hefur þegar lagt fram tugi milljóna í þessa vinnu og hefur matsferlið þegar staðið yfir í þrjú ár. Nú er einfaldlega komið að því að ákvörðun verði tekin um framtíð námuvinnslu úr Mývatni. Það er athyglisvert að í umsögn líffræðingana, sem skipulagsstofnun leitaði til í umhverfismatsferlinu, kemur fram eftirfarandi skoðun.



"M.t.t. fjölbreytileika vistkerfisins og því að sveiflurnar spanna svipað tímabil og kísilgúrnámið er ólíklegt að frekari greining gagna eða viðbótarrannsóknir muni svara spurningunni um hvort eða hvaða áhrif kísilgúrnámið hefur á ofangreindar sveiflur innan þeirra tímamarka sem Kísiliðjan getur sætt sig við. Af framlögðum gögnum er eingöngu hægt að draga þá ályktun að mjög líklegt er að áhrif námuvinnslunnar s.l. 30 ár á náttúru Mývatns í heild sinni séu af minni stærðargráðu en náttúrulegar sveiflur."..."



Um mismunandi mat á svæði 1 og svæði 2 segir í athugasemdum kæranda m.a:





"Það er rétt að erlendi matshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að óhætt væri að dæla svæði 1 í fulla dýpt en höfðu hins vegar ákveðnar efasemdir um svæði 2 einkum vegna setflutninga þangað og hugsanlegra víðtækra áhrifa þeirra yfir á ódæld svæði vegna rofs. Lögðu þeir því til að einungis væri dýpkað þar um tvo metra. Í frekara mati Kísiliðjunnar er hins vegar bent á að erlendi matshópurinn hafði ekki yfir að ráða nýjum upplýsingum frá Vatnaskilum um setflutninga þar sem kemur fram að:





"Að því gefnu að setflutningar inn á námusvæðin eru þetta lítill hluti af





heildarsetflutningum í vatninu, má telja víst að ekki verði merkjanleg aukning í myndun rofsvæða á botni vatnsins vegna námuvinnslunnar."



Einnig kemur skýrt fram í skýrslu Vatnaskila að setflutningar eru mun háðari flatarmáli dýpkaðra svæða en dýpt þeirra. Útreikningar sýna að setflutningar inn á svæði 1 aukast mjög lítið við það að leyfa tveggja metra dýpkun eða fulla dýpt. Kísiliðjan ítrekar að skýrsla DHI er álit á vinnu Vatnaskila. Þar er í raun, í megin atriðum, staðfest að niðurstaða Vatnaskila um að setflutningar séu óverulegir inn á námusvæðin og ekki sé að vænta að rofsvæði myndist í Syðriflóa...



...Ástæðu fyrir því að Skipulagsstjóri ákveður að leyfa námuvinnslu á svæði 2 en ekki 1 er, að mati Kísiliðjunnar, sú að gróðurþekja á svæði 1 var talin allt að 70% en nær engin á svæði 2. Þess vegna töldu líffræðingarnir, Einar Hjörleifsson og Kristinn Guðmundsson, sem fengnir voru sem sérstakir ráðgjafar Skipulagsstofnunar í umhverfismatsferlinu, að frekara brottnám hágróðurs á svæði 1 gæti rýrt gildi þessa samfélags í Mývatni. Í kæru Kísiliðjunnar vegna úrskurðar skipulagsstjóra er hins vegar að finna rök fyrir því að ekki sé ástæða til að úrskurða öðruvísi um svæði 1 en svæði 2.







Það er einhver misskilningur að Kísiliðjan hafi ekki sótt um að fá að dæla svæði 1 og 2 í fulla dýpt. Farið var fram á að dæla í fulla dýpt sem dýpkar svæði 2 að meðaltali um 6.5 metra."



Í athugasemdum kæranda segir m.a. eftirfarandi:







"Oft hefur verið leitað eftir þeim skjölum sem sýna fram á að eitthvað samkomulag hafi verið gert um framtíð kísilgúrnáms í Mývatni. Þeir pappírar hafa ekki verið sýndir enn. Það er rétt að 1993 var gefið út nýtt námaleyfi fyrir Kísiliðjuna hf. Það getur vel verið að einhverjir ráðamenn þess tíma hafi talið að það námaleyfi væri endanlegt. Frumvarp sem lagt var fram og kvað á um að kísilgúrnám yrði óheimilt eftir árslok 2010 dagaði hins vegar uppi. Það er því ekkert sem hindrar að gefið sé út nýtt námuleyfi."



Í athugasemdum segir m.a. um áhrif kísilgúrnáms á lífríki Mývatns:





"e. Bent er á ískyggilega fækkun í stofnum nokkurra fuglategunda. Í frekari matsskýrslu Kísiliðjunnar er ýtarlega fjallað um þennan þátt. Þar kemur fram að þessi svokallaða ískyggilega fækkun þessara fuglategunda er túlkuð út frá tveimur talningartímabilum. Bent er á að beitt er mismunandi aðferðum við talningarnar og því séu þær ekki samanburðarhæfar enda kemur fram í grein sem Arnþór Garðarsson skrifaði í bókina Náttúra Mývatns (1991) að mismunur milli þessara tímabila hafi að miklu leyti stafað af ólíkum aðferðum við túlkun niðurstaðna. Því er vafasamt að bera þessi gögn saman. Ef einungis er litið á fuglatalningar frá 1974 ? 1999 þá sést hvorki almenn fjölgun né fækkun á fugli við vatnið.



f. Varðandi rýrnun í silungsveiði þá var einnig það mál sérstaklega tekið fyrir í frekari matsskýrslu. Þar kemur fram að veiðigögn bænda eru ekki vísindaleg gögn og ekki hægt að nota þau til að segja til um magn fisks í vatninu. Bæði vegna þess að mjög mismunandi er hversu margir veiðibændur skila inn gögnum ( stundum 34 en fer allt niður í 15) en einnig er rök skandinavíska matshópsins frá Noregi og Svíþjóð full gild þ.e. að ekki sé hægt að nota veiðigögn bænda til að segja til um þéttleika fisks í vatninu."



Einnig segir:







"Við mótmælum því sem fram kemur í umsögn skipulagsstjóra að Umhverfisráðherra sé ekki heimilt að taka tillit til nýrra upplýsinga varðandi svæði 1. Telja verður að slíkt sé Umhverfisráðuneytinu ekki heimilt, heldur beinlínis skylt, enda gert ráð fyrir að æðra stjórnvald byggi á tiltækum upplýsingum til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli."





Athugasemdir Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn bárust ráðuneytinu með bréfi dagsett 18. október 2000.







"Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að leyfisveiting á framkvæmd er ekki á valdi stofnunarinnar, né stefnumörkun varðandi verndun og nýtingu landsvæða. Þó þetta kunni að vera rétt frá lagalegu sjónarmiði, er úrskurðurinn engu að síður mjög stefnumarkandi varðandi nýtingu svæðisins, og því er enn brýnna að á verndarsvæði eins og Mývatni sé úrskurðurinn byggður á bestri fáanlegri þekkingu.



Við mat á áhrifum vinnslunnar á setflutninga skiptir mestu máli að vita hve mikið af nýmynduðu seti muni safnast í námugryfjurnar. Allir útreikningar hingað til gefa til kynna að það sé mikið samanborið við nýmyndun sets (=fæðu fyrir botndýr) í vatninu. Það mat skipulagsstjóra, að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hlýtur því að byggjast á virkum mótvægisaðgerðum..."





Athugasemdir Náttúruverndar ríkisins bárust ráðuneytinu með bréfi dagsett 18. október 2000, þar segir m.a:







"Skipulagsstofnun bendir réttilega á að Náttúruvernd ríkisins þarf að samþykkja aðalskipulag. Stofnunin bendir einnig réttilega á að engin samþykkt er um framtíð Kísiliðjunnar í aðalskipulaginu. Þess vegna taldi Náttúruvernd ríkisins rétt að nefnda stofnunina sem leyfisveitanda vegna mannvirkjagerðar og jarðrasks...



Sá grundvallar munur er á afstöðu annars vegar Náttúruverndar ríkisins og flestra kæruaðila og hins vegar skipulagsstofnunar að þeirra álit er að alls ekki hafi verið sýnt fram á að námuvinnsla á svæði 2 valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum með eða án framkvæmdaáætlunar. Röksemdafærsla Skipulagsstofnunar er því byggð á þeirra eigin úrskurði og segir ekkert nýtt. Bæði RAMÝ, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins telja sig hafa sýnt fram á að áliti DHI er ekki nothæft sem grundvöllur að ákvarðanatöku. Í álitinu er engin vissa fyrir skaðleysi námuvinnslu. Þar með er vísindalega óvissa notuð og varúðarreglunni þar með hafnað. Varúðarreglan byggir ekki á því að fara varlega og samþykkja framkvæmd heldur að hafna framkvæmd sem ekki hefur verið sýnt fram á að valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum."



Einnig segir:







"Náttúruvernd ríkisins ítrekar að ekki hefur verið sýnt fram á að námuvinnsla í Syðriflóa valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum þó skipulagsstjóri noti þá niðurstöðu sem grundvöll að leyfi fyrir námuvinnslu með skilyrðum sett í úrskurði.



Fram kemur að skilyrði í úrskurði skipulagsstjóra þarf að útfæra af hinum ýmsu leyfisveitendum. Enginn trygging er því fyrir því að skilyrði skipulagsstjóra verði virt sbr. bls. 5 "?.endanleg ákvörðun liggur eftir sem áður hjá leyfisveitanda." Að setja skilyrði er því ekki nein trygging fyrir lífríki Mývatns. Skipulagsstjóra bar að hafna framkvæmdinni miðað við framlögð gögn."



Um kynningu sérfræðiálita segir:







"Náttúruvernd ríkisins sér ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um þetta atriði að öðru leyti en því að þegar að gallað álit verður grundvöllur að ákvarðanatöku sem gengur lengra en sjálf matsskýrslan verður að bregðast sérstaklega við."





V. Niðurstaða ráðuneytisins.



1.



Kærandi Kísiliðjan hf. við Mývatn krefst þess að fallist sé á efnistöku á námusvæði 1 eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila, með sömu skilyrðum varðandi námusvæði 1 og kveðið er á um í tölulið 6.2 varðandi námusvæði 2 að breyttu breytanda.



Í rökum Kísiliðjunnar hf. fyrir kröfu sinni er því m.a. haldið fram að í nýrri athugun á vegum Kísiliðjunnar hafi komið fram að gróðursvæði á svæði 1 eru mjög takmörkuð, þvert á það sem gengið er út frá í niðurstöðu Skipulagsstofnunar, og einnig að nýjar rannsóknir staðfesti að um er að ræða botngróður á dældum svæðum í Ytriflóa. Framangreind ný athugun er gerð á vegum Kísiliðjunnar hf., dagsett 24. ágúst 2000 og lögð fram sem fylgiskjal með kæru Kísiliðjunnar.



Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin taki ekki afstöðu til innihalds skýrslunnar, með vísun til 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994 þar sem hún telji ekki heimilt að byggja niðurstöðu úrskurðar ráðherra um mat á umhverfisáhrifum á nýjum rannsóknum og gögnum sem ekki hafa hlotið umfjöllun þá sem gert er ráð fyrir í 14.-18. gr. reglugerðar nr. 179/1994.



Í áliti Kísiliðjunnar á fram komnum umsögnum segir m.a. eftirfarandi:







"...Við mótmælum því sem fram kemur í umsögn skipulagsstjóra að Umhverfisráðherra sé ekki heimilt að taka tillit til nýrra upplýsinga varðandi svæði 1. Telja verður að slíkt sé Umhverfisráðuneytinu ekki aðeins heimilt, heldur beinlínis skylt, enda gert ráð fyrir að æðra stjórnvald byggi á tiltækum upplýsingum til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli."



Framkvæmdaraðili lagði fram viðbótargögn í kæruferli til ráðuneytisins sem ekki lágu fyrir í matskýrslu og hafa því ekki hlotið lögbundna umfjöllun. Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins byggist m.a. á þeim gögnum og upplýsingum sem framkvæmdaraðili leggur fram. Sú skýrsla, sem hér er til umfjöllunar, var ekki hluti af framlögðum gögnum og hafði því stofnunin ekki tækifæri til að leggja faglegt mat á hana þegar hún kvað upp úrskurð sinn né að kynna hana almenningi og óska eftir athugsemdum umsagnaraðila. Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds ekki heimilt að taka til skoðunar gögn sem hafa ekki fengið lögbundna umfjöllun samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, sbr. einnig úrskurð ráðuneytisins um mat á umhverfisáhrifum frá 30. ágúst 2000.



Aðrir kærendur en Kísiliðjan hf. gera þá kröfu annaðhvort að úrskurður skipulagsstjóra frá 7. júlí 2000 verði felldur úr gildi og engin kísilgúrvinnsla heimiluð í Syðriflóa eða að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar skipulagsstjóra sem lítur að svæði 2.



Í úrskurði skipulagsstjóra er gerð krafa um frekari könnun einstakra þátta varðandi efnistöku á námusvæði 1.



Í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 segir í 11. gr. að í úrskurði skipulagsstjóra felist að:







"a. fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða,



b. krafa er gerð um frekari könnun einstakra þátta eða



c. lagst er gegn viðkomandi framkvæmd."



Í reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994 segir um kröfu til að gera frekari könnun einstakra þátta að hún eigi við þegar niðurstöður frekara mats teljast ekki fullnægjandi eða ljóst er að kanna þarf frekar ákveðna þætti framkvæmdar eða starfsemi sem getur haft í för með sér óæskileg umhverfisáhrif eða framkvæmdaraðili hefur ekki skilað inn gögnum sem beðið var um í frekara mati á umhverfisáhrifum. Einnig segir að þegar könnun framkvæmdaraðila lýkur skili hann skýrslu til skipulagsstjóra með rökstuddum niðurstöðum og skal málsmeðferð vera samkvæmt 14.-18. gr. reglugerðarinnar. Í 14.-18 gr. reglugerðarinnar er mælt um fyrir málsmeðferð vegna frekara mats á umhverfisáhrifum.



Hvorki greinargerð með frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum, sem varð að lögum 63/1993, né nefndarálit umhverfisnefndar Alþingis gefa vísbendingar um hvernig eigi að skýra framangreinda 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar kröfu um gerð frekari könnunar einstakra þátta. Ráðuneytið telur, með vísun til 9. gr.stjórnsýslulaganna, málshraðareglunnar, að mál verði að taka enda. Í úrskurði skipulagsstjóra er gerð enn frekari krafa um gagnaöflun og snýr hún aðallega að gögnum sem skipulagsstjóri hafði áður krafist í frummati en var ekki lagt fram í frekara mati.



Ráðuneytið telur að b-liður 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum eigi einungis við þegar skipulagsstjóri telur ekki þörf á að auglýsa að nýju þau gögn, sem krafist er, né að þörf sé að leggja þau fyrir umsagnaraðila.



Skorti svo viðamikil gögn að nauðsynlegt er að kynna þau fyrir almenningi og fá umsagnir um þau er rétt að leggjast gegn viðkomandi framkvæmd vegna skorts á gögnum. Framkvæmdaraðili getur þá farið með framkvæmdina að nýju í mat á umhverfisáhrifum, ef hann óskar eftir því, enda er ekki lagst gegn framkvæmdinni vegna þess að hún er talin hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif heldur einungis vegna skorts á gögnum.





2.



Kærendur Náttúruvernd ríkisins, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Náttúruverndarsamtök Íslands benda á að geta hefði átt Náttúruverndar ríkisins sem leyfisveitanda í úrskurði skipulagsstjóra.



Í 1. mgr. 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjasýslu nr. 36/1974 segir:







"Á landssvæði því, er um getur í 2. gr., er hvers konar mannvirkjagerð og jarðrask óheimilt, nema leyfi Náttúruverndar ríkisins komi til." Í 4. mgr. sömu greinar segir að heimilar séu án sérstaks leyfis Náttúruverndar ríkisins byggingar samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða."



Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:







"Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skulu leyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Gera þarf breytingu á aðalskipulagi Skútustaðahrepps til að unnt sé að heimila framkvæmdir skv. hinum kærða úrskurði. Slík aðalskipulagsbreyting er háð samþykki Náttúruverndar ríkisins, en ekki byggingar- og framkvæmdaleyfi veitt í kjölfar þeirrar aðalskipulagsbreytingar, sbr. áðurnefnt ákvæði 4. mgr. 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu."



Sveitarstjórn Skútustaðarhrepps tekur undir það í umsögn sinni að Náttúruvernd ríkisins sé leyfisveitandi vegna jarðrasks og mannvirkja í sveitarfélaginu.



Náttúrufræðistofnun Íslands bendir hins vegar á í umsögn sinni að stofnunin telji







"...augljóst að Skipulagsstofnun hefði átt að vísa til þess að hverskonar mannvirkjagerð og jarðrask sé óheimilt nema Náttúruvernd ríkisins leyfi það. Sú fullyrðing stofnunarinnar, að framkvæmdaleyfi sé endanlegt leyfi þeirra framkvæmda sem um ræðir (bls. 39 í úrskurði) virðist stangast á við 3. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974."



Kærandi Náttúruvernd ríkisins bendir á, í áliti sínu á fram komnum umsögnum, að Skipulagsstofnun bendi réttilega á í umsögn sinni að Náttúruvernd ríkisins þarf að samþykkja aðalskipulag og að engin samþykkt er um framtíð Kísiliðjunnar í aðalskipulaginu. Það væri þess vegna sem Náttúruvernd ríkisins taldi rétt að nefna stofnunina sem leyfisveitanda vegna mannvirkjagerðar og jarðrasks.



Ráðuneytið telur með vísun til orðalags 4. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1974 rétt að leyfi Náttúruverndar ríkisins þurfi ekki til hafi stofnunin þegar fallist á skipulagsáætlanir og hinar væntanlegu byggingar séu í samræmi við þá skipulagsáætlun. Hins vegar nær undanþáguákvæðið einungis til þess þegar byggingar eru í samræmi við skipulagsáætlanir en á ekki samkvæmt orðanna hljóðan við um jarðrask. Ákvæði 4. mgr. 3. gr. er undanþáguákvæði frá þeirri meginreglu að leita skuli eftir leyfi Náttúruverndar ríkisins vegna mannvirkjagerðar og jarðrasks og er því rýmkandi skýring á ákvæðinu ekki tæk.



Ráðuneytið fellst því á að skipulagsstjóri hefði átt að geta Náttúruverndar ríkisins sem leyfisveitanda vegna framkvæmdarinnar, en það hafi ekki áhrif á niðurstöðu í málinu.





3.



Kærendur Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason, Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands telja að úrskurður skipulagsstjóra sé í andstöðu við samkomulag milli umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra frá því 1993 um að námuvinnslu í Mývatni yrði hætt er námaleyfi Kísiliðjunnar frá því 1993 lyki.



Í mati á umhverfisáhrifum ber að taka fyrir áhrif sem fyrirhuguð framkvæmd geti haft á menn, samfélag og menningu, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkun þessara þátta. Þegar af þeirri ástæðu getur umrætt samkomulag ráðuneytanna ekki haft áhrif á niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum framkvæmdar enda verður ráðuneytið að byggja niðurstöðu sína á lögmætum sjónarmiðum. Af þessu leiðir að umrætt samkomulag á ekki undir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.



4.



Ingólfur Á. Jóhannesson, Náttúruvernd ríkisins, SUNN, Bergþóra Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Hannesdóttir og Málmfríður Einarsdóttir og Fuglaverndarfélag Íslands benda á að síðan 1990 sé Mývatn á lista Ramsarsamningsins um mikilvæg votlendi og úrskurður skipulagsstjóra sé í andstöðu við skilmála samningsins, enda sé námugröftur ekki sjálfbær nýting. Kærandi Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Fuglaverndarfélag Íslands minna á að Mývatn var flutt af svarta lista Ramsarsamningsins (s.k. Montreaux-skrá) á fundi í Kushiro í júní 1993 eftir loforð um að ekki yrði um frekari framlengingu námaleyfis að ræða. Þá var gefin út yfirlýsing í umboði umhverfisráðherra þess efnis að ekki yrði heimiluð frekari námavinnsla í Mývatni þegar núverandi námaleyfi rynni út.



Í umsögn Náttúrufræðistofnunar segir:







"Í umfjöllun Skipulagsstofnunar er því haldið fram (bls. 24) að "skynsamleg eða sjálfbær nýting votlendissvæða (hafi) ekki verið skilgreind". Náttúrufræðistofnun Íslands vekur athygli á því að hugtakið skynsamleg nýting (wise use) hefur verið skilgreint á vegum aðildarríkja Ramsarsamningsins. Vísa má til bókarinnar "Towards the Wise Use of Wetlands" sem skrifstofa samningsins gaf út árið 1993 og margvíslegra samþykkta og ályktana aðildarríkjanna um þetta efni síðar. Forsendur Skipulagsstofnunar eru því ekki réttar varðandi þetta atriði.



Forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands staðfestir að meginástæða þess að Mývatn var flutt af svarta lista Ramsarsamningsins (Montreaux-skrá) í Kushiro í júní 1993 var yfirlýsing Íslands þess efnis að ekki yrði um frekari framlengingu námaleyfis að ræða. Á fundinum var nýúrgefið námaleyfi kynnt og sagt frá því samkomulagi sem náðst hafði við hagsmunaaðila. Forstjórinn var aðalfulltrúi Íslands á þessum fundi og annaðist þetta mál þar. Samráð var haft í síma á meðan á fundi stóð við umhverfisráðherra og ráðuneyti."



Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni eftirfarandi:







"Fjallað er um ákvæði Ramsarsamþykktarinnar um skynsamlega nýtingu votlendissvæða og ákvæði laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu í hinum kærða úrskurði, sem og í fyrra úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Það var niðurstaða skipulagsstjóra ríkisins í hinum kærðaúrskurði að vinnsla á námusvæði 2 myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það er mat Skipulagsstofnunar að sú niðurstaða feli í sér að vinnsla á námusvæði 2 geti samrýmst ákvæðum Ramsarsamþykktarinnar og laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu."



Kísiliðjan hf. bendir á minnisblað frá Baldri Guðlaugssyni til framkvæmdarstjóra Kísiliðjunnar dagsett 11.10 1999 þar sem segir hvað varðar skilgreiningu á sjálfbærri notkun samkvæmt Ramsarssamningnum:







"?að sjálfbær notkun er skilgreind sem notkun manna á votlendi þannig að af hljótist sem mestur áframhaldandi ávinningur fyrir núverandi kynslóðir jafnframt því að viðhaldið sé möguleikum þess til að mæta þörfum og væntingum kynslóða framtíðarinnar."



Einnig kemur fram að í framangreindu minnisblaði sé fjallað um hugtakið "skynsamleg notkun" (wise use) "...sem kemur fyrir í Ramsar-samþykktinni. Fram kemur í áætlun Ramsar fyrir árin 1997-2002 að samnings-aðilar álíti hugtakið "skynsamleg notkun" vera hið sama og "sjálfbær notkun". Þar er einnig undirstrikað að með hugtakinu "skynsamleg notkun" hafi samþykktin alltaf lagt áherslu á að notkun manna á sjálfbærum grundvelli sé á allan hátt samrýmanleg skráningu samkvæmt Ramsar og verndun votlendis almennt. Af þessu má sjá að ekki er hægt að nota Ramsar sáttmálann gegn Kísiliðjunni."



Árið 1990 var á fundir aðildarríkja Ramsarsamningins samþykkt tilmæli 4.9. Í tilmælum 4.9 segir að mælt sé með að íslensk stjórnvöld taki fullt tillit til niðurstaðna vistfræðilegra rannsókna á áhrifum námuvinnslu kísilgúrs á Mývatns- og Laxársvæðinu áður en tekin er ákvörðun um að halda áfram námuvinnslu.



Á fundi Ramsars 1993 kynnti Íslenska sendinefndin stöðuna vegna Mývatns- og Laxársvæðisins þar á meðal að skref hafi verið stigið til að tryggja verndun og skynsamlega notkun Mývatns. Kynnt var að lagafrumvarp hafi verið lagt fyrir Alþingi þar sem lagt er til að námuvinnsla verði einungis heimiluð á ákveðnum svæðum í norðurhluta Mývatns. Námuvinnslu yrði síðan hætt árið 2010. Í ljósi þess var lagt til að svæðið væri fjarlægt af Montreux skránni.



Ráðuneytið telur í ljósi ofangreinds tilmælis 4.9 Ramsarsamningsins að vinnsla kísilgúrs á svæði 2 samrýmist ákvæðum samningsins.



5.



Ingólfur Á. Jóhannesson, Náttúruvernd ríkisins, SUNN og Fuglaverndarfélag Íslands benda á að sérlög séu um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu (nr. 36/1974) og að úrskurður skipulagsstjóra um kísilgúrnám sé í andstöðu við markmið þeirra laga.



Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:







"Fjallað er um ákvæði Ramsarsamþykktarinnar um skynsamlega nýtingu votlendissvæða og ákvæði laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu í hinum kærða úrskurði, sem og í fyrra úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Það var niðurstaða skipulagsstjóra ríkisins í hinum kærða úrskurði að vinnsla á námusvæði 2 myndi ekki hafa í för með sér



umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það er mat Skipulagsstofnunar að sú niðurstaða feli í sér að vinnsla á námusvæði 2 geti samrýmst ákvæðum Ramsarsamþykktarinnar og laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu."



Náttúrufræðistofnun Íslands telur í umsögn sinni að í ljósi framlagðra gagna sé ekki hægt að fullyrða að fyrirhuguð námavinnsla skv. úrskurði Skipulagsstofnunar sé í samræmi við það meginmarkmið laganna að vernda Mývatns- og Laxársvæðið.



Í áliti Kísiliðjunnar á fram komnum umsögnum segir:







"Lögin um verndun Mývatns og Laxár voru ekki sett til höfuðs Kísiliðjunni. Í raun kemur nafn Kísiliðjunnar vart fyrir í greinargerð með lögunum á sínum tíma. Þar sem ekki hefur verið hægt að benda á óæskileg áhrif Kísiliðjunnar á lífríki Mývatns þá er ekki hægt að nota lög um verndun Laxár og Mývatns til að stöðva námuvinnsluna..."



Í 5. gr. laga nr. 36/1974 segir: Umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins, reglurgerð um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess, er lögin taka til, og skal þar m.a. kveðið á um sérstakar mengunarvarnir Kísiliðjunnar við Mývatn.



Lög nr. 36/1974 gera því beinlínis ráð fyrir starfsemi Kísiliðjunnar á svæðinu og því fellst ráðuneytið ekki á að kísilgúrnám eitt og sér sé í andstöðu við markmið laga nr. 36/1974.





6.



Kærendur Náttúruverndarsamtök Íslands segja að úrskurður skipulagsstjóra stríði gegn varúðarreglunni sem lögfest hefur verið á Íslandi í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, kærendur Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn segja skipulagsstjóra snúa varúðarreglunni við, þ.e. nota vísindaleg óvissu til að heimila framkvæmdir og að það virðist sem það sé framkvæmdaraðila í hag að leggja ekki fram umbeðin gögn. Kærendur Ingólfur Á. Jóhannesson, Eysteinn Sigurðsson, Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason segja að í matsskýrslu og úrskurði sé vafi túlkaður vatninu og lífríkinu í óhag og Kísiliðjunni í hag, á meðan varúðarreglan ætti að gilda. Dæmi um þetta er að skipulagsstjóri heimilaði að fara niður á fulla setdýpt á svæði 2 í trássi við varnaðarorð margra íslenskra og erlendra sérfræðinga. Ingólfur Á. Jóhannesson og SUNN segja skipulagsstjóra ekki taka tillit til verndarpólitískra raka í úrskurði sínum og það sé Kísiliðjunnar að sanna að efnistaka úr Syðriflóa valdi ekki skaða. Náttúruvernd ríkisins bendir á að úrskurður skipulagsstjóra stríði gegn stefnu stjórnvalda og markmiðum alþjóðlegra samninga er varða sjálfbæra þróun, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og notkun varúðarreglunnar.



Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni hvað varðar námusvæði 2:







"...Niðurstaða úrskurðarins varðandi námusvæði 2 byggir hinsvegar á því að sýnt hafi verið fram á við aðra athugun að unnt sé að vinna kísilgúr á námusvæði 2 án þess að vinnsla þar hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Vegna þýðingar svæðisins sé hinsvegar nauðsynlegt að leyfisveitingar til efnistöku á námusvæði 2 byggi á mjög ítarlegum framkvæmdalýsingum og áætlunum, sem og afdráttarlausum vöktunaráætlunum og viðmiðum um hvenær vöktunarmælingar kalli á breytingar á framkvæmdum eða stöðvun framkvæmda. Skipulagsstofnun felst því ekki á að niðurstaða úrskurðarins varðandi námusvæði 2 byggi á því að nota vísindalega óvissu til að heimila framkvæmdir, eins og haldið er fram í kærum. Eins og fram kemur í úrskurðinum, og fjallað er um aftar í þessari umsögn, var í framlögðum gögnum við aðra athugun sýnt fram á að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif."



Náttúrufræðistofnun Íslands segir í umsögn sinni að það sé mat stofnunarinnar







"...að hætta á röskun lífríkis Mývatns felist aðallega í rofi lífræns næringarríks yfirborðslags utan námusvæðanna. Slíkt gæti haft mjög víðtæk áhrif á vistkerfi Mývatns og afkomu stofna fiska og fugla sem byggja afkomu sína á botndýrum. Skiptar skoðanir eru um þetta meðal vísindamanna, en fjöldi innlendra og erlendra líffræðinga hefur bent á þessa hættu og fært fyrir henni skynsamleg rök. Því væri það brot á varúðarreglu að leyfa kísilgúrnám úr Syðriflóa áður en afsannað er að þessi hætta sé raunveruleg."



Eftirfarandi kemur fram í áliti Náttúruverndar ríkisins á fram komnum umsögnum:







"Sá grundvallar munur er á afstöðu annars vegar Náttúruverndar ríkisins og flestra kæruaðila og hins vegar skipulagsstofnunar að þeirra álit er að alls ekki hafi verið sýnt fram á að námuvinnsla á svæði 2 valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum með eða án framkvæmdaáætlunar. Röksemdafærsla Skipulagsstofnunar er því byggð á þeirra eigin úrskurði og segir ekkert nýtt. Bæði RAMÝ, Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins telja sig hafa sýnt fram á að áliti DHI er ekki nothæft sem grundvöllur að ákvarðanatöku. Í álitinu er engin vissa fyrir skaðleysi námuvinnslu. Þar með er vísindalega óvissa notuð og varúðarreglunni þar með hafnað. Varúðarreglan byggir ekki á því að fara varlega og samþykkja framkvæmd heldur að hafna framkvæmd sem ekki hefur verið sýnt fram á að valdi ekki umtalsverðum umhverfisáhrifum."



Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er grunnþáttur í framkvæmd varúðarreglunnar. Því er framkvæmd þessa mats þáttur í framkvæmd varúðarreglunnar að því er varðar fyrirhugaða frekari vinnslu kísilgúrs úr Mývatni.



Regla 15 í Ríó-yfirlýsingunni var samþykkt á heimsráðstefnu Sameinuðuð þjóðana um umhverfi og þróun í Ríó de Janero og fjallar um varúðarregluna en hún hljóðar svo: "Í því skyni að vernda umhverfið skulu ríki í ríkum mæli beita varúðarreglunni eftir því sem þau hafa getu til. Skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skal ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll."



Í úrskurði skipulagsstjóra er fallist á námuvinnslu með ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin kveða á um að auknar rannsóknir beri að fara fram, um vöktunaráætlanir og þá skyldu framkvæmdaraðila að gera tillögu að viðmiðunum um hvenær grípa skuli til mótvægisaðgerða auk þess sem gerð er krafa um að framkvæmdaraðili leggi fram útfærðar hugmyndir og áætlanir um prófanir mögulegra mótvægisaðgerða varðandi ákveðna þætti áður en til framkvæmda kemur.



Með hliðsjón af framansögðu er það mat ráðuneytisins að varúðarreglunni hafi verið fylgt í hinum kærða úrskurði skipulagsstjóra. Auk þess má benda á að í úrskurði skipulagsstjóra er gerð krafa um mótvægisaðgerðir án tillits til þess hvort aðgerðir séu kostnaðarhagkvæmar.





7.



Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn og Eysteinn Sigurðsson telja að ekki liggi fyrir fullnægjandi skilgreiningar á mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra setflutninga og til að minnka efnaákomu. Einnig að ekki hafi verið sýnt fram á að hvaða mótvægisaðgerðum verði beitt, hvernig þær komi til með að líta út og hvernig þeim verði hrint í framkvæmd. Gerð er athugasemd við hlutverk framkvæmdaraðila varðandi tillögur að mótvægisaðgerðum og jafnframt við það að skipulagsstjóri varpi ábyrgð á framfylgd mála á leyfisveitendur.



Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sem veitandi námuleyfisins tiltekur í umsögn sinni að hið kærða mat á umhverfisáhrifum væri að þeirra mati tækt til afgreiðslu á grunni úrskurðarorða skipulagsstjóra og að unnt sé að útfæra þau skilyrði sem skipulagsstjóri setur í úrskurðinum á viðunandi hátt.



Skipulagsstofnun bendir á eftirfarandi í umsögn sinni:







"Það var niðurstaða skipulagsstjóra að sýnt hefði verið fram á við aðra athugun að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Af þeim sökum var fallist á framkvæmdina og því beint, með ítarlegum skilyrðum í úrskurði, til leyfisveitenda að útfæra mörk, viðmiðanir og vöktun. Þetta er í samræmi við 22. og 23. gr. þágildandi reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Rétt er að vekja athygli á því að þau skilyrði sem fyrirhugað er að setja fyrir leyfisveitingum, til þess að uppfylla ákvæði úrskurðar skipulagsstjóra, koma til opinberrar kynningar af hálfu viðkomandi leyfisveitenda, áður en leyfi eru veitt í tilfelli starfsleyfis, framkvæmdaleyfis og byggingarleyfis. Þannig auglýsir Hollustuvernd ríkisins tillögu að starfsleyfi til athugasemda og sveitarstjórn auglýsir tillögu að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagstillögu, þar sem ákveðnar eru forsendur þeirra leyfisveitinga sem á þeim eiga að byggja."



Í áliti kæranda Náttúruverndar ríkisins segir að skilyrði í úrskurði skipulagsstjóra þurfi að útfæra af hinum ýmsu leyfisveitendum. Enginn trygging er því fyrir því að skilyrði skipulagsstjóra verði virt "?.endanleg ákvörðun liggur eftir sem áður hjá leyfisveitanda." Að mati Náttúruverndar ríkisins er það að setja skilyrði ekki nein trygging fyrir lífríki Mývatns og að skipulagsstjóra hafi borið að hafna framkvæmdinni miðað við framlögð gögn.



Í a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 63/1993 segir að skipulagsstjóri geti fallist á framkvæmd með eða án skilyrða. Í leyfum til framkvæmda ber sbr. 13. gr. laga nr. 63/1993 leyfisveitendum að taka fullt tillit til niðurstaðna mats á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur eðlilegt að það sé leyfisveitanda að útfæra mótvægisaðgerðir að fenginni tillögu framkvæmdaraðila, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun nr. 785/1999. Ráðuneytið fellst ekki á þessa málsástæðu kærenda.





8.



Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason benda á að úrskurðurinn stríði gegn 12. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhófsreglu því skipulagsstjóri gekk lengra í úrskurði en sótt var um. Kísiliðjan óskaði eftir að nema kísilgúr niður á meðaldýpi 6,5 m en skipulagsstjóri úrskurðaði að nema mætti niður á fulla setdýpt, þrátt fyrir varnaðarorð alþjóðlegu matsnefndarinnar um að grafa ekki niður á fulla setdýpt á svæði 2.



Kísiliðjan heldur því hins vegar fram í áliti sínu að það sé misskilningur að Kísiliðjan hafi ekki sótt um að fá að dæla svæði 1 og 2 í fulla dýpt. Farið hefði verið fram á leyfi til að dæla í fulla dýpt sem dýpkar svæði 2 að meðaltali um 6.5 metra.



Náttúrufræðistofnun Íslands er einnig á þeirri skoðun að um misskilning sé að ræða vegna breytinga á orðalagi og telur líklegt að meðaldýpi á svæðinu miðað við fulla dýpt sé nærri 6,5 m.



Á blaðsíðu 9 í skýrslu Kísiliðjunnar "Frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni" frá apríl 2000 segir orðrétt varðandi afmörkun á framkvæmdinni:







"Svæðin sem Kísiliðjan fer fram á til vinnslu kísilgúrs eru á Bolum í Syðriflóa ... . Á þessum svæðum er setþykktin sums staðar meiri en 10 m og er áætlað að svæðin dugi til 32 ára vinnslu miðað við að svæði 1 yrði dýpkað að meðaltali um 4,5 m og svæði 2 um 6,5 m að meðaltali."



Á blaðsíðu 11 í skýrslunni kafla 4.1. koma fram sömu viðmið um þá dýpt sem framkvæmdaraðili áætlar að dýpka svæði 1 og 2. Í kafla 4.4.1. þar sem fjallað er um kjarnasýnatöku og setflutningareikninga kemur skýrt fram að það sé ósk Kísiliðjunnar að dýpka um 4,5 m á svæði 1 um 6,5 m á svæði 2 og þá verði vinnslutíminn á báðum svæðum um 32 ár.



Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að hún telur að í niðurstöðu hins kærða úrskurðar hafi verið heimilt að benda á að vinnsla niður á fulla dýpt á fyrirhuguðu vinnslusvæði 2 í Syðriflóa muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þó að það hafi ekki verið tekið fram í matsskýrslu. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum sé byggður á gögnum sem lögð eru fram af framkvæmdaraðila, umsögnum, athugasemdum, sérfræðiálitum og svörum framkvæmdaraðila.



Mikilvægur hluti mats á umhverfisáhrifum er að framkvæmd er kynnt almenningi og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum, einnig er umsagnaraðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum á þá skýrslu framkvæmdaraðila sem auglýst hefur verið. Almenningi og umsagnaraðilum hefur einungis gefist kostur á að tjá sig um að svæði 2 verði dýpkað niður á meðaldýpið 6,5 metra en ekki fulla dýpt eins og skipulagsstjóri úrskurðar um.



Ráðuneytið fær með vísun til framanritaðs ekki séð annað en að skipulagsstjóri hafi í úrskurði sínum heimilað framkvæmdaraðila að dýpka svæði 2 meira en framkvæmdaraðili óskaði eftir. Að mati ráðuneytisins er skipulagsstjóra ekki heimilt í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar að kveða á um efnistöku umfram það sem framkvæmdaraðili óskar eftir og fram kemur í skýrslu um frekara mat.



9.



Fuglaverndarfélag Íslands og Ingólfur Á. Jóhannesson benda á að framkvæmdaraðili hafi ekki lagt fram öll gögn sem skipulagsstjóri óskaði eftir í frekara mati, svo sem ýmis gögn um gróður og dýralíf á svæðum 1 og 2 sem og upplýsingar um styrk efna í affallsvatni. Slíkt stríði gegn markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum. Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarsamtök Íslands, Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason benda jafnframt á að Skipulagsstofnun hafi sjálf lýst því yfir í bréfi til Kísiliðjunnar að skýrslan um frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni væri ófullnægjandi og hafi ekki uppfyllt skilyrði sem sett voru í úrskurði um frummat kísilgúrvinnslu úr Mývatni. Þrátt fyrir þetta leggi skipulagsstjóri skýrsluna til grundvallar úrskurði frekara mats, framkvæmdaraðila í vil.



Það er skoðun Náttúruverndar ríkisins að skýrslan um frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni uppfyllti ekki þau skilyrði sem sett voru í frummati. "Skýrslan gat því ekki verið grundvöllur að ákvarðanatöku um frekari kísilgúrvinnslu. Í stað þess að líta þannig á málið tekur skipulagsstjóri sig til og aflar nýrra gagna, t.d. álits DHI Water and Environment, og notar þau sem grundvöll að úrskurði þar sem jafnvel er gengið lengra en hægt er að ætla af matinu sjálfu. Rétt er að geta þess að skýrsla DHI kom aldrei til umsagnar og vissi enginn um tilvist hennar".



Náttúruvernd ríkisins bendir á að það komi berlega fram í 11 liðum í úrskurðarorðum skipulagsstjóra frá 7. júlí 2000 að grundvallarupplýsingar skorti áður en vinnsla geti hafist á svæði 2. Náttúruvernd ríkisins telur að það sé framkvæmdaraðilinn sem eigi að vinna skýrslu um mat á umhverfisáhrifum en ekki Skipulagsstofnun. Fari framkvæmdaraðili ekki eftir úrskurði þá getur það ekki verið hlutverk Skipulagsstofnunar að bæta við því sem á vantar. Í það minnsta stríðir það á móti jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að Skipulagsstofnun útvegi gögn til að bæta gallaða skýrslu fyrir einstaka framkvæmdaraðila.



Í umsögn Náttúrufræðistofnunar ríkisins segir að það sé ljóst að Skipulagsstofnun hafði verulegar athugasemdir við gæði skýrslu Kísiliðjunnar um frekara mat á umhverfisáhrifum þegar hún barst frá framkvæmdaraðila, stofnunin tekur fram að Skipulagsstofnun hafi boðið Kísiliðjunni að bæta úr því en Kísiliðjan var ósammála að upplýsingar skorti. Náttúrufræðistofnunin telur að ábendingar Skipulagsstofnunar um þörf á endurbótum hafi verið réttar og vel rökstuddar og tekur hún því undir mat Skipulagsstofnunar og nokkra kærenda að frekari gögn skorti er varða:







"· 5. tl. úrskurðarorða um að mat verði lagt á áhrif brottnáms eða rýrnunar botngróðursamfélaga á frumframleiðni. Fyrirliggjandi gögn um dreifingu botngróðurs eru af mjög skornum skammti.



· 6. tl. úrskurðarorða um áhrif námuvinnslu á svæðum 1 og 2 á fuglalíf við Mývatn í ljósi hlutfallslegrar nýtingar mismunandi stofna á umræddum svæðum á öllum árstímum samanborið við vatnið í heild.



· 7. tl. úrskurðarorða um áhrif námuvinnslu á svæðum 1 og 2 á silung. Bent hefur verið á að mikilvægar riðastöðvar silungs séu á umræddum svæðum. Brottnám botngróðurs getur haft verulega þýðingu fyrir ungviði silungs sem leitar skjóls í hágróðri. Sama á við um hornsíli. Ástæða er til að ætla að stór hluti hágróðurs í Syðriflóa sé á umræddum svæðum (sbr. 5.tl.).



· 9. tl. úrskurðarorða um upplýsingar um væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs í affallsvatni og mat á hver sé ásættanlegur hámarksstyrkur fyrir lífríki vatnsins."



Náttúrurfræðistofnun telur að þessi áberandi gagnaskortur endurspeglast einnig í fjölda skilyrða sem skipulagsstjóri setur í úrskurðarorðum eftir frekara mat, þar sem kveðið er á um margháttaða vöktun námasvæðis og tekið fram að vöktun verði að hefjast áður en námavinnsla hefst en að krafa um að gera mælingar áður væri óþörf ef upplýsingar um viðkomandi atriði hefðu legið fyrir í mati á umhverfisáhrifum.



Skipulagsstofnun segir eftirfarandi í umsögn sinni:







"Skipulagsstofnun lýsti því yfir í bréfi til Kísiliðjunnar dags. 28. apríl 2000 að það væri mat



stofnunarinnar að þær upplýsingar sem kæmu fram í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila



fullnægðu ekki þeim kröfum um frekari upplýsingar og mat á umhverfisáhrifum sem fram kæmu



í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins frá 3. nóvember 1999. Því kynni að vera að á grundvelli



þeirra yrði ekki unnt að taka afstöðu til og leggja mat á áhrif ofangreindrar framkvæmdar á



umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.



Í bréfi Kísiliðjunnar til Skipulagsstofnunar dags. 2. maí 2000 var þess krafist að framlögð



matsskýrsla yrði auglýst.



Í bréfi dags. 9. maí 2000 tilkynnti Skipulagsstofnun Kísiliðjunni að stofnunin hefði móttekið



frekara mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni og að athugun skipulagsstjóra



yrði auglýst 12. maí 2000. Þá myndu, auk framlagðra gagna framkvæmdaraðila, verða



auglýstar og liggja frammi athugasemdir Skipulagsstofnunar við skýrslu um frekara mat



dags. 28. apríl 2000. Ennfremur var upplýst að stofnunin hyggðist leita sérfræðiálita vegna



mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.



Að mati Skipulagsstofnunar var framkvæmd þessa í fullu samræmi við þær heimildir og



skyldur sem skipulagsstjóri ríkisins hafði samkvæmt þágildandi lögum varðandi móttöku



gagna til athugunar og kynningu þeirra."



Einnig segir í umsögninni:







"...Niðurstaða úrskurðarins varðandi námusvæði 2 byggir hinsvegar á því að sýnt hafi verið fram á við aðra athugun að unnt sé að vinna kísilgúr á námusvæði 2 án þess að vinnsla þar hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Vegna þýðingar svæðisins sé hinsvegar nauðsynlegt að leyfisveitingar til efnistöku á námusvæði 2 byggi á mjög ítarlegum framkvæmdalýsingum og áætlunum, sem og afdráttarlausum vöktunaráætlunum og viðmiðum um hvenær vöktunarmælingar kalli á breytingar á framkvæmdum eða stöðvun framkvæmda. Skipulagsstofnun felst því ekki á að niðurstaða úrskurðarins varðandi námusvæði 2 byggi á því að nota vísindalega óvissu til að heimila framkvæmdir, eins og haldið er fram í kærum. Eins og fram kemur í úrskurðinum, og fjallað er um aftar í þessari umsögn, var í framlögðum gögnum við aðra athugun sýnt fram á að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif."



Skipulagsstofnun benti á að hún féllist ekki að "...slíkar grundvallar upplýsingar hafi skort um námusvæði 2 að ekki hafi verið tilefni til að fallast á framkvæmd þar, eins og haldið er fram í kærum. Varðandi námusvæði 2 var niðurstaða skipulagsstjóra sú að sýnt hefði verið fram á að vinnsla þar þyrfti ekki að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem útfærð yrðu við undirbúning og útgáfu leyfa til framkvæmdanna... "



Í áliti Kísiliðjunar hf. segir að það sé rétt að Skipulagsstofnun sendi til Kísiliðjunnar hf. bréf dagsett 28. apríl 2000 þar sem fram kom m.a. það álit að upplýsingar vantaði. Kísiliðjan svaraði með bréfi dagsettu 2. maí 2000 ásamt fylgigögnum og í því hafi komið fram ítarlegur rökstuðningur um að öllum efnisatriðum í úrskurði skipulagsstjóra hafi verið svarað. Kísiliðjan vill ennfremur benda á skoðun líffræðinga, sem Skipulagsstofnun leitaði til í umhverfismatsferlinu, en þar segir:







"M.t.t. fjölbreytileika vistkerfisins og því að sveiflurnar spanna svipað tímabil og kísilgúrnámið er ólíklegt að frekari greining gagna eða viðbótarrannsóknir muni svara spurningunni um hvort eða hvaða áhrif kísilgúrnámið hefur á ofangreindar sveiflur innan þeirra tímamarka sem Kísiliðjan getur sætt sig við. Af framlögðum gögnum er eingöngu hægt að draga þá ályktun að mjög líklegt er að áhrif námuvinnslunnar s.l. 30 ár á náttúru Mývatns í heild sinni séu af minni stærðargráðu en náttúrulegar sveiflur."



Ráðuneytið fellst á það mat Skipulagsstofnunar að henni hefði borið að taka skýrslu Kísiliðjunar hf. um frekara mat á umhverfisáhrifum til athugunar og kynningar í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar byggir á skýrslu framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum, athugasemdum almennings, umsögnum og álitum sérfróðra aðila sem Skipulagsstofnun er heimilt að óska eftir sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 179/1994. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum 63/1993 er gert ráð fyrir í 11. gr. að skipulagsstjóra sé heimilt að fallast á viðkomandi framkvæmd með eða án skilyrða. Lögin gera því ráð fyrir að skipulagsstjóri geti sett skilyrði í úrskurð sinn. Auk þess má benda á að alvanalegt er í úrskurðum skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum að kveða á um að rannsóknir skuli gerðar, vöktun komið á eða gerð sé krafa um mótvægisaðgerðir. Með vísun til ofanritaðs felst ráðuneytið ekki á ofangreindar málsástæður kærenda.





10.



Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason benda á að ekki hafi allar umsagnir verið teknar til efnislegrar umfjöllunar í úrskurði heldur hafi verið byggt á umsögn framkvæmdaraðila t.d. um mikilvægar riðastöðvar silungs á Bolum.



Fuglaverndarfélag Íslands bendir á að Mývatn og Laxá eru alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði skv. skilgreiningu BirdLife International, vegna flórgoða, álfta, dugganda, straumanda, húsanda og gulanda. Í úrskurði skipulagsstjóra er að mati Fuglaverndarfélags Íslands ekkert fjallað um hugsanleg áhrif á þessar fuglategundir.



Náttúruverndarsamtök Íslands vísa til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga í kröfu sinni, í kæru þeirra segir eftirfarandi:





"Það er krafa Náttúruverndarsamtaka Íslands að tekin sé efnisleg afstaða til athugasemda samtakanna enda byggir hún á vel rökstuddri niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem fram komu í bréfi til Kísiliðjunnar frá 28. apríl."



Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn telur að ekki verði séð að innsendar athugasemdur frá stjórn rannsóknarstöðvarinnar um setflutninga og mikilvægi nýmyndaðs sets fyrir botndýr í Mývatni hafi verið teknar til efnislegs mats.



Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að við vinnslu úrskurða skipulagsstjóra ríkisins sé ekki svarað sérstaklega hverri umsögn og athugasemd sem berst enda ekki gerð krafa um slíkt í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 og talið tryggt að tekið sé tillit til allra innkominna gagna með fullnægjandi hætti með því verklagi sem viðhaft hefur verið í samræmi við lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.



Ráðuneytið fellst á ofangreinda umsögn Skipulagsstofnunar.





11.



Í kæru Náttúruverndar ríkisins kemur fram gagnrýni á að skipulagsstjóri ríkisins hafi ekki kynnt umsagnaraðilum niðurstöður sérfræðiálita sem aflað var við undirbúning hins kærða úrskurðar.



Í 17. gr. reglugerðar nr. 179/1994 segir: "Skipulagsstjóri skal óska eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum við aðra athugun og senda þeim skýrslu framkvæmdaraðila innan tveggja vikna frá því að skipulagsstjóri hefur móttekið hana. Jafnframt getur skipulagsstjóri leitað eftir áliti sérfróðra aðila eftir því sem þörf krefur."



Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telji sér ekki skylt að senda álit sérfróðra aðila til umsagnaraðila, enda ekki gert ráð fyrir slíku í 17. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum auk þess sem slíkt væri ógerningur innan gefinna tímafresta. Náttúruvernd ríkisins bendir hins vegar á í áliti sínu að þegar gallað álit verði grundvöllur ákvarðanatöku sem gengur lengra en sjálf matsskýrslan verður að bregðast sértaklega við.



Náttúrufræðistofnun Íslands telur einnig ljóst vera að skipulagsstjóri hafi fulla heimild til að leita álits sérfróðs aðila um skýrslu framkvæmdaraðila og án þess að þau álit séu lögð fram sem gögn í málinu.



Ráðuneytið telur að fylgja eigi þeirri meginreglu að ekki þurfi að senda álit sérfróðra aðila og óska eftir umsögn um það né kynna almenningi, enda gerir reglugerð nr. 179/1994 ekki ráð fyrir því. Skipulagsstofnun verði hins vegar að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort rétt sé að óska sérstaklega eftir umsögn umsagnaraðila á fram komnum sérfræðiálitum ef þau hafa að geyma nýjar upplýsingar sem byggt er á í úrskurði skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Andmælaréttur skv. 13. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37/1993 á einungis við um aðila máls en ekki umsagnaraðila.





12.



Kærandi Ingólfur Á. Jóhannesson heldur því fram að fullyrðingar um atvinnuleysi og brottflutning í matsskýrslu og umsögn meirihluta sveitarstjórnar Skútustaðahrepps séu ekki rökstuddar með félagsvísindalegum eða sagnfræðilegum rannsóknum í byggðarlaginu. Ekki hafi verið gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum gagnvart atvinnumissi og fráleitt sé að taka þá áhættu að halda áfram námugreftri úr Mývatni án þess að fyrir liggi miklu betri greinargerð um félags- og atvinnuþróun. Fuglaverndarfélag Íslands telur kísilgúrvinnslu í vatninu og ferðamennsku vera andstæða póla.



Í umsögn sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um kæru Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar segir að ekki þurfi dýrar félagsvísinda- eða sagnfræðilegar rannsóknir til að sjá að tekjur sveitarfélagsins skerðast verulega og að atvinna hverfi verði kísilgúrvinnslu hætt í Mývatnssveit.



Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til umfjöllunar í kafla 4.1 í úrskurði skipulagsstjóra. Þar segir m.a:







"Komið hafa fram athugasemdir um að áhrif Kísiliðjunnar á byggð og atvinnulíf á svæðinu séu verulega vanmetin, þar sem áhrif þess að starfsemi yrði hætt væru mjög veruleg. Fram hefur komið að af 451 íbúa í Skútustaðahreppi starfi 49 hjá Kísiliðjunni. Fyrirtækið er því langstærsti vinnuveitandi sveitarfélagsins og ef þær breytingar verði á atvinnuháttum í Mývatnssveit að starfsemi Kísiliðjunnar verði hætt muni íbúum þegar í stað fækka um u.þ.b. 200 manns, sem veiki sveitarfélagið til muna."



Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að draga í efa að ef hætt yrði kísilgúrnámi úr Mývatni mundi það hafa neikvæð áhrif á atvinnulíf sveitarfélagsins.





13.



Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn bendir á að röskun á lífríki Mývatns af völdum námugraftar í Syðriflóa sé ekki sjálfbær og líklegast óafturkræf. Tekin sé áhætta á óafturkræfri röskun í trássi við Ramsarsamninginn. Erfitt yrði og seinlegt að stöðva vinnslu ef óæskileg áhrif setflutninga koma fram og enn erfiðara að snúa ferlinu við, til þess þyrfti að fylla aftur í gryfjurnar.



Fuglaverndarfélag Íslands segir ljóst að kísilgúrnám í Mývatni raski lífríki og sjáist það m.a. á mælingum á magni botndýra annars vegar í Ytriflóa og hins vegar í Syðriflóa.



Í umsögn Náttúrurfræðistofnunar segir að stofnunin fái ekki séð að hægt verði að snúa við neikvæðu ferli sem upp gæti komið vegna rofs næringarríks sets úr yfirborðslögum og uppsöfnunar þess í gryfjum og að skipulagsstjóri sjálfur bendi á að erfitt geti verið að snúa við óæskilegum áhrifum námuvinnslu á lífríki vatnsins og að erfitt sé að bregðast skjótt við alvarlegu atvinnuástandi sem myndi skapast ef hætta þyrfti vinnslu með skömmum fyrirvara.



Í áliti Gunnars Steins Jónssonar líffræðings sem ráðuneytið óskaði eftir segir:







"Skipulagsstjóri hefur úrskurðað að vinna megi kísilgúr á svæði 2 með skilyrðum, þ. e. að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð áhrif. Í úrskurðinum fjallar hann sérstaklega um áhrif á strauma og setflutninga, frumframleiðni botndýr og gróður, fuglalíf, silung og næringarefnaflæði og kemst að niðurstöðu.



Á bls. 37 í úrskurðinum fjallar Skipulagsstjóri um að skilyrða eigi í leyfi til framkvæmdanna þannig að unnt verði að stöðva vinnslu og afturkalla leyfi ef óæskilegra áhrifa á Mývatn verði vart.



Líta verður á framangreind ummæli sem fyrirmæli til leyfisveitenda um að tryggja að hægt verði að grípa til aðgerða þegar í stað ef óæskilegra áhrifa á lífríki Mývatns verður vart.



Einnig vekur hann sérstaka athygli á að til að slíkt eigi að vera unnt þurfi að liggja fyrir skýr viðmið í leyfum til framkvæmdanna. Einnig bendir Skipulagsstjóri á að erfitt geti verið að snúa við óæskilegum áhrifum námavinnslu á lífríki vatnsins sem fram kunna að koma.



Í ljósi úrskurðarins eru hér að hluta til um huglægar vangaveltur að ræða, því Skipulagsstjóri vísar ekki í tiltekin atriði sem eftir standa ósvöruð í matsskýrslu og kunna að valda þessum áhrifum. Hann virðist vera að vísa með almennum hætti til atriða sem kunna að koma upp og ekki voru séð fyrir við gerð matsskýrslu og þá til atriða sem kynnu að ná til vatnsins alls. Líta má svo á að Skipulagsstjóri sé að setja fram leiðbeiningu til leyfisveitenda. Framangreindar leiðbeiningar á bls. 37 má túlka sem gerð viðbragðsáætlana í varúðarskyni.



Ef kærandi hefur í huga að slíkar viðbragðsáætlanir hafi ekki verið gerðar sérstaklega vegna hugsanlegrar rýrnunar lífrænasta setsins á grundvelli þess að hann telji að það atriði hafi ekki verið gerð nægileg skil í matsskýrslu, þá má vísa til þess að í skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneyti (apríl 2000) er vikið að framangreindu atriði m. a. með eftirfarandi orðum (áliti): "Hætta er á að ferskasta setið, sem einnig er fínkornast og lífrænast, flytjist niður á dýpkuð svæði og skilji eftir næringarsnautt, sandkennt og mestmegnis ólífrænt set. Þótt þetta yrði til þess að botndýraframleiðni ykist á dýpkuðum svæðunum af því að stöðugt flyttist þangað fóður, þá yrði það einnig til þess að framleiðsla á öðrum svæðum hið næsta minnkaði að sama skapi. Þetta gæti orðið afdrifaríkt í Syðriflóa ef tiltölulega lítið svæði yrði til þess að framleiðni minnkaði á öllum öðrum svæðum. Ekki hefur þó verið sýnt fram á það að svo örlagaríkar breytingar hafi orðið í Ytriflóa". "



Ráðuneytið telur að ekki hafi verið sýnt fram á að kíslgúrnám í Mývatni raski lífríki vatnsins. Ennfremur er í gildandi starfsleyfi fyrir Kísiliðjuna hf ákvæði þar sem segir að vinnsla skuli stöðvuð og leyfi afturkallað ef óæskilegra áhrifa á Mývatn verði vart. Ráðuneytið er þeirra skoðunar að samsvarandi ákvæði verði að vera áfram ef gefið verður út nýtt og breytt starfsleyfi fyrir verksmiðjuna.





14.



Kærandi Eysteinn Sigurðsson o.fl. telja að hrun bitmýs í Laxá tengist breytingum á þörungagróðri og að á sl. 30 árum hafa verið miklar sveiflur í leirlosi og sum ár hefur það ekki sést. Á sama tíma hafi orðið aukning á næringarefnum (köfnunarefni og fosfór) í vatninu. Kærendur krefjast þess til vara að ef verði af frekari kísilgúrvinnslu að ræða er þess krafist að öllu affalli frá dælingu og vinnslu verksmiðjunnar, verði komið þannig fyrir að ekki valdi aukningu aðgengilegra áburðarefna. Kærendur Bergþóra Kristjánsdóttir, Hrafnhildur Hannesdóttir og Málmfríður Einarsdóttir vilja að öllu affalli verði komið þannig fyrir að ekki valdi aukningu aðgengilegra áburðarefna í Mývatni og að það liggi ljóst fyrir hvert afrennsli verksmiðjunnar fari og hvaða áhrif það hafi á svæðið.



Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram hvað varðar ákomu næringarefna, að í skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneyti komi fram að hópurinn telji verulegan ókost að upplýsingum hafi ekki verið safnað reglubundið um tegundasamsetningu og lífsþunga jurtasvifs né styrkleika næringarefna á nógu löngu tímabili. Hollustuvernd ríkisins telur að það sé vafasamt að krefja framkvæmdaraðila um upplýsingar sem augljóslega séu ekki fyrir hendi og vafasamt að hægt sé að afla þeirra með rannsóknum sem stæðu yfir í stuttan tíma. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir hvað þetta atriði varðar að hún leggi til að:







"...ekki verði krafist frekari upplýsinga um væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs í affallsvatni frá verksmiðjunni og hvað sé ásættanlegur hámarksstyrkur þess m.t.t. áhrifa á lífríki vatnsins. Því er lagt til að úrskurði Skipulagsstofnunar hvað þetta atriði varðar verði ekki hnekkt."



Kísiliðjan segir í áliti sínu eftirfarandi:







"Í umsögn er bent á að ekki hafi verið lagt mat á ásættanlega aukningu næringarefnaákomu eins og óskað var eftir í bréfi frá skipulagsstofnun. Kísiliðjan telur sig hafa rökstutt það mjög ítarlega til Skipulagsstofnunar að ekki er hægt að gefa upp einhverja eina tölu í þessu sambandi. Á það skal líka bent að hér er um mjög litla næringarefnaákomu að ræða. Við vinnslu í Syðriflóa mun þessi ákoma ekki aukast frá því sem hún hefur verið. Jafnframt er verið að vinna að því í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins að minnka þessa ákomu eins og kostur er með skynsamlegum hætti. Framtíðin verður að skera úr um það hver niðurstaðan verður."



Ráðuneytið leitaði eftir áliti Gunnars Steins Jónssonar á atriðum í fram komnum kærum sem snerta losun næringarefna. Í áliti hans kemur fram að það sé að hans mati engin leið, út frá fyrirliggjandi gögnum, að meta hvaða áhrif aukin næringarefnalosun hefur haft í Mývatni. Allar tilraunir til skýringa verður að skoða sem tilgátur. Aukið næringarefnastreymi er þó ávallt talið valda aukinni frumframleiðni, oftast í svifi, en einnig t.d. hjá ásætuþörungum og botngróðri. Gunnar Steinn telur því ekki líklegt að sjá megi bein orsakatengsl milli aukinnar næringarefnaákomu og að vatnablómi hafi brugðist.



Í áliti Gunnars Steins segir einnig að aukna næringarefnaákomu af manna völdum í náttúruleg vistkerfi beri að hindra eins og kostur er, ekki síst í vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar, því hún getur hugsanlega raskað samkeppnisstöðu tegunda innbyrðis áður en því stigi er náð sem skilgreina má sem ofauðgun. Aðgerðir til mengunarvarna samkvæmt lögum og reglugerðum er að beita bestu tækni sem völ er á í atvinnustarfsemi, góðum búskaparháttum í landbúnaði og koma á a. m. k. tveggja þrepa hreinsun í fráveitumálum. Að mati Gunnars Steins Jónssonar eru óunnin verkefni á þessu sviði við Mývatn. Engin leið sé út frá fyrirliggjandi gögnum að meta hvaða áhrif aukin næringarefnalosun hefur haft í Mývatni og langtímarannsóknir þurfi til að skýra það orsakasamband óyggjandi. Hins vegar telur hann að taka megi á hluta þessara atriða í starfsleyfi og með bættum mengunarvörnum t.d. varðandi frárennsli frá íbúðabyggð í Mývatnssveit. Einnig bendir hann á 5. gr. laga nr. 36/1974 með síðari breytingum, þar sem umhverfisráðherra er falið að setja reglugerð um varnir gegn hvers konar mengun svæðis þess, sem lögin taka til.



Ráðuneytið óskaði einnig eftir áliti Gunnars Steins Jónssonar á því hvert afrennsli verksmiðjunnar fari og hvaða áhrif það hefði á svæðið. Að mati hans ætti fyrirtækinu að vera unnt að gera grein fyrir þeirri losun sem frá því stafar og hve mikill hluti hennar berst til Mývatns. Hins vegar virðist, m.a. með tilvísun til skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu (apríl 2000), að ekki séu fyrir hendi gögn til að meta með óyggjandi hætti áhrif næringarefnaákomu á lífríki vatnsins. Allt mat á því byggist á áliti sérfræðinga. Gunnar Steinn vísar í álit framangreindra sérfræðinga, þar sem segir:







"Þótt enn skorti á fullan skilning á fæðubrautum vatnsins teljum við samt sem áður að ekki sé unnt að tengja sveiflurnar kísilgúrnáminu á ótvíræðan hátt.



Gunnar Steinn sér þó ekki ástæðu til að gera athugasemd við röksemdafærslu og niðurstöðu skipulagsstjóra."



Ráðuneytið felst á röksemdir Gunnars Steins Jónssonar um að ekki sé líklegt að sjá megi bein orsakatengsl milli aukinnar næringarefnaákomu og að vatnablómi hafi brugðist. Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram að stofnunin telji ekki rétt að krafist verið frekari upplýsinga um væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs í affalsvatni frá verksmiðjunni, og leggur stofnunin til að úrskurði skipulagsstjóra verði ekki hnekt hvað varðar það atriði. Telur ráðuneytið í ljósi þess sem framan greinir ekki rétt að gera kröfu um frekari upplýsingar varðandi væntanlegan hámarksstyrk niturs og fosfórs. Gunnar Steinn Jónsson vísar í áliti sínu til skýrslu alþjóðlegs matshóps sem skipaður var að iðnaðarráðuneytinu þar sem kemur fram að þó enn skorti á fullan skilning á fæðubrautum vatnsins telji matshópurinn að ekki sé unnt að tengja sveiflur kísilgúrnáminu á ótvíræðan hátt. Gerir Gunnar Steinn Jónsson ekki athugasemdir við röksemdafærslu og niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins og tekur ráðuneytið undir það.





15.



Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason benda á að í vísindaritum og greinargerðum hafi verið sýnt fram á að kísilgúrgröftur raski undirstöðuþáttum lífríkis vatnsins með því að efsta lífræna lag setsins setjist til í skurðunum sem myndast við kísilgúrnámið og þannig missi fæðustofnar silungs og fuglar viðurværi sitt.



Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn telur að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra umhverfisáhrifa sem mest hafa verið rannsökuð og varða flutning fæðu- og næringarefna lífríkisins af ódældum svæðum yfir til námusvæðanna.



Ingólfur Á. Jóhannesson segir í kæru sinni að óvissa ríki um áhrif dælingar. Ingólfur Á Jóhannesson, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvarson telja að úrskurður skipulagsstjóra byggi í veigamiklum atriðum á gallaðri umsögn verkfræðistofunnar DHI og gangi þvert á ráðleggingar fjögurra sérfræðinga sem iðnaðarráðuneytið og skipulagsstjóri sjálfur hafi leitað til.



Náttúruvernd ríkisins, Eysteinn Sigurðsson, Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason telja einnig að úrskurðurinn stríði gegn 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsóknarreglu, því í úrskurðinum sé horft fram hjá veigamiklum skýrslum og athugasemdum, m.a. skýrslu alþjóða matshópsins, en kosið að nota álit DHI Water & Environment um setflutninga sem grundvöll að niðurstöðu sinni, þvert á niðurstöður annarra sem tilgreina svæði 1 sem það svæði sem líklegast ylli minnstum skaða.



Kærandi Náttúruvernd ríkisins telur að skipulagsstjóri hafi í mati sínu kosið að nota álit DHI um setflutninga sem grundvöll að niðurstöðu sinni og leyfir vinnslu á svæði 2 þvert á niðurstöður annarra sem tilgreina svæði 1 sem það svæði sem líklega ylli minnstum skaða.



Í umsögn Náttúrurfræðistofnunar Íslands segir að það sé mat stofnunarinnar að hætta á röskun lífríkis Mývatns felist aðallega í rofi lífræns næringarríks yfirborðslags utan námusvæðanna.



Í umsögn Náttúrurverndarráðs segir hvað varðar útreikninga á setflutningum við botn vatnsins að ekki sé "...tekið tillit til mismunandi eðlisþyngdar setsins né lífræns gildis þess. Einungis lítill þyngdarhluti þess botnsets sem er á ferð í vatninu árlega lendir í námugryfjunum. Sérfræðingar hafa bent á að vindur og straumar hafa meiri áhrif á efsta hluta botnsetsins en neðri hluta þess, sem er þéttari og stenst því betur vindálag. Efsti hluti setsins er mikilvægastur lífríkinu en það er sá hluti sem er léttastur, mest á ferðinni og vænta má að fari hlutfallslega meira af í gryfjurnar. Í matsskýrslu kemur fram að ætluð nýmyndun botnsets er talin nálægt 18.000-25.000 tonnum á ári, þar af er 55% kísilgúr. Um 2.000-3.000 tonn berast niður Laxá og nýtast lífríkinu þar en í skýrslum Helga Jóhannessonar og Vatnaskila kemur fram að áætlað efnistap frá Syðriflóa og sunnarverðum Bolum vegna kísilgúrvinnslu nemi 1.900-6.000 tonn árlega. Ef gert er ráð fyrir að það magn sé allt nýmyndað þá má leiða líkum að því að 8-33% af árlegri setmyndun tapist vegna kísilgúrvinnslunnar."



Í umsögn Skipulagstofnunar segir eftirfarandi:







"Eins og fram kemur á bls. 7 í hinum kærða úrskurði gætti misræmis í framlögðum gögnum varðandi áhrif fyrirhugaðrar efnistöku í Syðriflóa á strauma og setflutninga. Í skýrslu alþjóðlega matshópsins sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu kemur fram að unnt sé að nýta svæði 1 til fulls niður á 3,2 m dýpi en mælt með því að ekki verði dýpkað um meira en 2 m á svæði 2. Í matsskýrslu voru hins vegar settir fram útreikningar, unnir af verkfræðistofunni Vatnaskilum fyrir framkvæmdaraðila, sem bentu til þess að setsöfnun inn á vinnslusvæði sé mun háðari flatarmáli en dýpi og því sé æskilegra út frá setflutningum að hafa námusvæði sem dýpst og minnst um sig að flatarmáli. Því gerði framkvæmdaraðili í matsskýrslu tillögu um dælingu niður á 4,5 m dýpi á svæði 1 en 6,5m dýpi á svæði 2. Vegna þessa munar taldi skipulagsstjóri ríkisins nauðsynlegt að afla álits sérfróðs aðila sem yfirfæri fyrirliggjandi gögn og útreikninga um setflutninga vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Leitað var til dönsku vatnafræðistofnunarinnar DHI Water and Environment, sjálfstæðrar rannsóknar- og ráðgjafarstofnunar, sem sérfræðinga í straumfræði. Í niðurstöðu álits DHI Water and Environment var tekið undir niðurstöður verkfræðistofunnar Vatnaskila um að æskilegra væri út frá setflutningum að lágmarka flatarmál gryfja, en aukin dýpt hefði minni umhverfisáhrif í för með sér en aukið flatarmál, þar sem hún breyti ekki hegðun strauma, en talið að tilfærsla sets væri ofmetin...



Þau gögn sem lögð voru til grundvallar frekara mati á áhrifum kísilgúrvinnslu úr Syðriflóa á strauma og setflutninga voru, eins og fram kemur í kafla 4.4 í hinum kærða úrskurði, skýrsla alþjóðlega matshópsins sem skipaður var af iðnaðarráðuneytinu og nýir útreikningar verkfræðistofunnar Vatnaskila sem framkvæmdaraðili lét vinna og bentu til þess að í fyrri rannsóknum væri setsöfnun inn á vinnslusvæði ofmetin. Í hinum nýju útreikningum kom fram að setsöfnun inn á vinnslusvæði væri mun háðari flatarmáli en dýpi. Eins og fram kemur í umfjöllun hér á undan var vegna misræmis í fyrirliggjandi gögnum óskað sérfræðiálits um hina nýju útreikninga sem lagðir voru fram af hálfu framkvæmdaraðila ásamt sérfræðiáliti Einars Hjörleifssonar og Kristins Guðmundssonar um kísilgúrnám og áhrif á lífríki."



Í áliti Kísiliðjunar hf. á fram komnum umsögnum og kærum segir m.a.:





"...Ekki er raunhæft að bera saman umfram setflutninga á dýpkuð svæði vegna námuvinnslu við nýmyndað set hvers árs. Ástæðan er sú að það er ekki nýmyndað set hvers árs sem fer ofan í dældu svæðin. Það er efsti hluti setsins, nokkrir cm, sem geta farið á hreyfingu í miklu ölduálagi, og það set hefur verið að myndast á einhverjum áratugum. Ef gert er ráð fyrir að fyrstu 2 cm séu á ferðinni þá er verið að tala um 10 ár af nýmynduðu seti og að um 3% af því geti farið niður í dýpkuð svæði...



...Kísiliðjan telur að viðhöfð hafi verið vönduð vinnubrögð af hálfu fyrirtækisins í öllu matsferlinu. Margir sérfræðingar á ýmsum sviðum hafa lagt hönd á plóginn . Kísiliðjan hefur þegar lagt fram tugi milljóna í þessa vinnu og hefur matsferlið þegar staðið yfir í þrjú ár. Nú er einfaldlega komið að því að ákvörðun verði tekin um framtíð námuvinnslu úr Mývatni. Það er athyglisvert að í umsögn líffræðinganna, sem skipulagsstofnun leitaði til í umhverfismatsferlinu, kemur fram eftirfarandi skoðun.



"M.t.t. fjölbreytileika vistkerfisins og því að sveiflurnar spanna svipað tímabil og kísilgúrnámið er ólíklegt að frekari greining gagna eða viðbótarrannsóknir muni svara spurningunni um hvort eða hvaða áhrif kísilgúrnámið hefur á ofangreindar sveiflur innan þeirra tímamarka sem Kísiliðjan getur sætt sig við. Af framlögðum gögnum er eingöngu hægt að draga þá ályktun að mjög líklegt er að áhrif námuvinnslunnar s.l. 30 ár á náttúru Mývatns í heild sinni séu af minni stærðargráðu en náttúrulegar sveiflur"...



Það er rétt að erlendi matshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að óhætt væri að dæla svæði 1 í fulla dýpt en höfðu hins vegar ákveðnar efasemdir um svæði 2 einkum vegna setflutninga þangað og hugsanlegra víðtækra áhrifa þeirra yfir á ódæld svæði vegna rofs. Lögðu þeir því til að einungis væri dýpkað þar um tvo metra. Í frekara mati Kísiliðjunnar er hins vegar bent á að erlendi matshópurinn hafði ekki yfir að ráða nýjum upplýsingum frá Vatnaskilum um setflutninga þar sem kemur fram að:





"Að því gefnu að setflutningar inn á námusvæðin eru þetta lítill hluti af





heildarsetflutningum í vatninu, má telja víst að ekki verði merkjanleg aukning í myndun rofsvæða á botni vatnsins vegna námuvinnslunnar."



Einnig kemur skýrt fram í skýrslu Vatnaskila að setflutningar eru mun háðari flatarmáli dýpkaðra svæða en dýpt þeirra. Útreikningar sýna að setflutningar inn á svæði 1 aukast mjög lítið við það að leyfa tveggja metra dýpkun eða fulla dýpt. Kísiliðjan ítrekar að skýrsla DHI er álit á vinnu Vatnaskila. Þar er í raun, í megin atriðum, staðfest að niðurstaða Vatnaskila um að setflutningar séu óverulegir inn á námusvæðin og ekki sé að vænta að rofsvæði myndist í Syðriflóa..."



Í áliti Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn á fram komnum umsögnum segir að við mat á áhrifum vinnslunar á setflutninga skiptir mestu máli að vita hve mikið af nýmynduðu seti muni safnast í námugryfjurnar.



Ennfremur segir:







"Allir útreikningar hingað til gefa til kynna að það sé mikið samanborið við nýmyndun sets (=fæðu fyrir botndýr) í vatninu. Það mat skipulagsstjóra, að unnt væri að stunda efnisnám á námusvæði 2 án þess að vinnslan hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hlýtur því að byggjast á virkum mótvægisaðgerðum"



Ráðuneytið leitaði eftir áliti Gunnars Guðna Tómassonar verkfræðings á ofangreindum atriðum, í áliti hans segir eftirfarandi:





"Að mati undirritaðs er fræðilegur grunnur þeirra útreikninga á setflutningum sem settir eru fram í matsskýrslu traustur og niðurstöður varðandi breytingar á setflutningum og tap sets í gryfjur eins áreiðanlegar og kostur er. Sú niðurstaða matsskýrslu og úrskurðar skipulagsstjóra að fyrirhuguð námavinnsla hafi ekki veruleg áhrif á heildarsetflutninga innan vatnsins er rétt.



Þar með er ekki sagt að áhrif á lífríki vatnsins geti ekki verið umtalsverð. Eins og fram kom í byrjun liggur sú túlkun utan sérsviðs þess sem þetta ritar að öðru leyti en því hvaða viðmiðunarstærð rétt sé að bera magn tapaðs sets saman við. Í úrskurði skipulagsstjóra er fallist á þá framsetningu framkvæmdaaðila að bera magn tapaðs sets einungis saman við heildarsetflutninga í vatninu og ályktanir eru dregnar af þeim samanburði. Ekki er gerð tilraun til að meta magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum hvers árs, sem er þó að mati undirritaðs mun eðlilegri viðmiðunarstærð. Að þessu leyti eru matsskýrsla og úrskurður skipulagsstjóra gölluð. Að fenginni þessari viðmiðunarstærð er hins vegar annarra að meta hvort áhrif á lífríki vatnsins verði veruleg eða ekki.



Annar augljós galli á úrskurði skipulagsstjóra er sú mikla áhersla sem þar er lögð á umsögn DHI. Umsögnin er verulegum annmörkum háð eins og lýst var hér að framan og áhersla skipulagsstjóra á hana veikir því úrskurð hans verulega.



Undirritaður er sammála þeirri niðurstöðu matsskýrslu og úrskurðar skipulagsstjóra að með tilliti til settaps í gryfjur sé æskilegt að hafa námuvinnslusvæði frekar minni að flatarmáli en dýpri."



Ráðuneytið tekur undir það álit Gunnars Guðna Tómassonar að umsögn DHI hafi verið háð annmörkum og að þeir hafi farið út fyrir sitt sérsvið í áliti sínu. Niðurstaða Gunnars Guðna er þó skýr varðandi það að sú niðurstaða matsskýrslu og úrskurðar skipulagsstjóra að fyrirhuguð námavinnsla hafi ekki veruleg áhrif á heildarsetflutninga í vatninu sé rétt. Í áliti hans kemur hins vegar fram að mun eðlilegra sé að bera magn settaps í gryfjur saman við magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum í vatninu. Ennfremur segir:







"Þetta magn er væntanlega talsvert minna en heildarsetflutningar í vatninu þar sem hver setögn getur flust oftar en einu sinni innan hvers árs. Í skýrslu Vatnaskila frá 1993 er reynt að meta þetta magn gróft og niðurstaðan er um þriðjungur heildarsetflutninga í vatninu. Líkanið hefur þó tilhneigingu til að ofmeta þetta magn. Neðri mörk á þessa stærð má fá með því að skoða það magn sets sem er upphrært í vatninu í stærsta atburði hvers árs. Grófir útreikningar benda til að það magn sé nokkrir tugir þúsunda tonna."



Ráðuneytið telur með vísan til ofanritaðs ljóst að það sé villandi að tala um að settap í gryfjur sé einungis 2 % af heildarsetflutningum í vatninu en einnig að ekki sé rétt að bera árlegt settap í gryfjurnar við magn nýmyndaðs sets. Ráðuneytið fellst á að það gefi réttari mynd að bera magn settaps í gryfjur saman við magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum í vatninu. Ef gert er ráð fyrir að hið grófa mat í skýrslu Vatnaskila frá 1993 gefi efri mörk á magn þess sets sem tekur þátt í setflutningum í vatninu og að teknu tilliti til þess að samkvæmt gögnum í skýrslu um frekara mat og skýrslu Vatnaskila í viðauka með frekara mati er settap í gryfjur (tilvik C) um 3% af heildarsetflutningum í vatninu þau ár sem setflutningar eru í meðallagi eða miklir (1990 og 1992), en ekki 2% má gera ráð fyrir að settap í gryfjur geti orðið a.m.k. 10 % af magni þess sets sem tekur þátt í setflutningunum. Framangreindar tölur miðast við kísilgúrnám á svæði 1 og 2 samanlagt og er því ljóst að verði kísilgúrnám eingögnu á svæði 2 þá verða þessar tölur lægri.



Ráðuneytið fékk álit Gunnars Steins Jónssonar á þeim málsástæðum kærenda sem varða flutning fæðu og næringarefna lífríkisins af ódældum svæðum yfir til námusvæðanna. Í áliti hans kemur fram að hann telji umfjöllun um mikilvægi sets í vistkerfi Mývatns sé ekki nema að litlu leyti gerð skil í gögnum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta á fyrst og fremst við um hlutverk setsins í fæðuvef Mývatns. Gunnar Steinn Jónsson leggur til að meta þurfi flutninga og uppsöfnun nýmyndaðs sets sérstaklega og óháð mati á rofhættu í nágrenni vinnslusvæða sem vissulega getur haft áhrif á búsvæði. Hann telur að hið kærða atriði sé eitt af grundvallaratriðunum í umræðunum um áhrif frá námavinnslunni, en líklega atriði sem erfitt er að meta fyrirfram, en bendir á að ef til þess kemur að framkvæmdin verður leyfð er það mikilvægt að þessu atriði verði gefinn fullur gaumur þegar teknar verða ákvarðanir um vöktunaráætlanir með vinnslunni. Þá þurfi í starfsleyfi með starfseminni að vera ákvæði sem kveði skýrt á um hvernig bregðast skuli við komi í ljós að vinnslan hafi veruleg áhrif á undirstöður vistkerfisins í vatninu.



Ráðuneytið óskaði eftir tillögum frá Gunnari Steini Jónssyni að skilyrðum til að taka á þessum skorti á upplýsingum og gerði hann tillögu um gerð vöktunaráætlunar sem væri ætlað að leiða í ljós hlutdeild nýmyndaðs sets í heildaruppsöfnun sets á námusvæðum í Syðriflóa. Vöktunaráætluninni er einnig ætlað að leiða í ljós hvað nýmyndaða setið sem sest í fyrirhugaðar námur er stór hluti af framleiðslu á nýmynduðu seti. Vísað verði til liðs 5 í gr. 6.2 í úrskurði skipulagasstjóra varðandi hvernig eigi að bregðast við ef í ljós kemur að vinnslan hafi áhrif á undirstöður vistkerfisins í vatninu.



16.



Í kæru Fuglaverndarfélags Íslands er því haldið fram að í hinum kærða úrskurði sé ekkert fjallað um áhrif á tilteknar fuglategundir og að með kísilgúrvinnslu í Syðriflóa geti enn fækkað í tilteknum fuglastofnum. Þá segir í kæru Kára Þorgrímssonar og Gylfa Yngvasonar að í hinum kærða úrskurði hafi áhrif kísilgúrvinnslu í Syðriflóa á fisk og fugla ekki verið metin með tilliti til hagsmuna af silungsveiði og eggjatöku. Kári Þorgrímsson og Gylfi Yngvason telja einnig að nytjahagsmunum landeigenda við vatnið stefnt í hættu, vegna óæskilegra áhrifa kísilgúrnáms á silungastofna í Mývatni.







"Hagsmunir okkar, sem eru silungsveiðar, eggjataka og önnur gæði vatnsins, voru ekki metnir í úrskurðinum og með er þeim stefnt í hættu. Eysteinn Sigurðsson segir aukningu efnaákomu valda veiðirétthöfum í Laxá áhyggjum."



Í umsögn Skipulagsstofnunar segir:







"Skipulagsstofnun telur að þrátt fyrir að ekki liggi fyrir upplýsingar umáhrif fyrirhugaðrar kísilgúrvinnslu á einstakar tegundir fugla í og við Mývatn hafi ekkert bent til þess að á fyrirhuguðu námusvæði 2 verði fuglar fyrir umtalsverðum áhrifum af kísilgúrnámi þar, að gættum þeim skilyrðum sem fram koma í 6. kafla úrskurðarins. Sama gildi um áhrif framkvæmdarinnar á fisk, sbr. niðurstöðu úrskurðarins þar um á bls. 31-32. Með því að ekki var talið að fyrirhuguð kísilgúrvinnsla hefði umtalsverð áhrif á fisk og fugl í og við Mývatn var ekki talin ástæða til að fjalla sérstaklega um hagsmuni af silungsveiði og eggjatöku."



Náttúrufræðistofnun bendir á í umsögn sinni að fiskifræðingar séu ekki á einu máli um hvort sveiflur í sviðum megi rekja til áhrifa frá Kísiliðjunni eða ekki né hvort meint minnkun veiði sé raunveruleg eða ekki. Stofnunin telur þó rétt að svo komnu máli að láta náttúruna njóta vafans. Náttúrufræðistofnun er á sama máli varðandi fuglastofna, miklar náttúrulegar sveiflur í fjölda anda við Mývatn eru þekktar frá því löngu fyrir daga Kísiliðjunnar og að breytingar hafa sést í seinni tíð á mörgum stofnum án þess að hægt sé að tengja þær við starfsemi Kísiliðjunnar.



Einnig bendir Náttúrufræðistofnun á að ljóst sé að "...dreifing anda í Ytriflóa er mjög tengd dýpi vatnsins og nýting þeirra er meiri á grunnu ódældu svæðunum. Endur eru hins vegar mjög hreyfanlegar og því ólíklegt að staðbundnar breytingar á litlum hluta vatnsins hafi merkjanleg áhrif á heildarstofna. Líkur á að slík áhrif séu greinanleg frá miklum náttúrulegum sveiflum í framboði botndýra sem fæðu eru því enn sem komið er litlar. Vafasamt er að taka þá áhættu án þess að hafa haldbetri vitneskju til að meta áhrifin."



Í umsögn Veiðimálastofnunar kemur fram að veiði í Mývatni hafi dalað frá því að námuvinnslan hófst en að óljóst sé um ástæður hnignunar silungsstofna, en miklar breytingar hafa orðið á umhverfi vatnsins á þeim tíma sem verksmiðjan hefur starfað svo sem vegna eldvirkni og veðurfarsbreytinga.



Í áliti Gunnars Steins Jónssonar sem ráðuneytið aflaði kemur fram að í úrskurði skipulagsstjóra sé ályktað að ekkert í framlögðum gögnum bendi til þess að námuvinnsla þar þurfi að hafa umtalsverð áhrif á fuglalíf né fæðuskilyrði og viðgang silungs að því tilskyldu að unnt sé að afmarka áhrifasvæði námasvæðisins með viðeigandi vinnutilhögun og mótvægisaðgerðum. Telur hann ekkert athugavert við röksemdafærslu og niðurstöðu skipulagsstjóra.



Ráðuneytið fellst á að ekkert í þeim gögnum sem lögð voru fram við mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu við Mývatn bendi til þess að námuvinnsla hafi veruleg áhrif á fuglalíf og fæðuskilyrði og viðgang silungs þegar tekið er tillit til þeirra mótvægisaðgerða og takmörkun á áhrifasvæði sem krafa er gerð um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisárhifum kísilgúrvinnslu við Mývatn.



17.



Í köflum 1-16 hér að framan gerir ráðuneytið grein fyrir rökstuðningi sínum og niðurstöðu varðandi einstök kæruatriði, þar sem það á við. Hér á eftir verður gerð grein fyrir niðurstöðu ráðuneytisins varðandi öll kæruatriðin og vísað til viðeigandi kafla varðandi rökstuðning.



Ráðuneytið telur með vísan til röksemda sem fram koma í kafla 1 að fella beri úrskurð skipulagsstjóra úr gildi hvað varðar svæði 1 og leggjast gegn fyrirhugaðri framkvæmd vegna skorts á gögnum.



Ráðuneytið fellst á að geta hefði átt Náttúruverndar ríkisins sem leyfisveitanda í úrskurði skipulagsstjóra, sbr. kafla 2. Það breyti þó ekki niðurstöðu ráðuneytisins í málinu.



Samkomulag umhverfis- og iðnaðarráðuneytis frá 1993 getur ekki verið ákvörðunarástæða um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. kafla 3.



Ráðuneytið telur í ljósi tilmæla 4.9 sem samþykkt voru á aðildarríkjafundi Ramsarsamningsins 1990 að vinnsla kísilgúrs á svæði 2 í Syðriflóa Mývatns, á grundvelli úrskurðar um mats á umhverfisáhrifum ráðuneytisins sem nú liggur fyrir, geti samrýmst ákvæðum samningsins, sbr. kafla 4.



Lög nr. 36/1974 gera ráð fyrir starfsemi Kísiliðjunnar á svæðinu og því fellst ráðuneytið ekki á að kísilgúrnám eitt og sér sé í andstöðu við markmið laga nr. 36/1974 um vernd Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu sbr. röksemdir ráðuneytisins í kafla 5. Með því að úrskurður ráðuneytisins sem nú liggur fyrir gengur út frá því að ekki verið um umtalsverð umhverfisáhrif af framkvæmdinni, ber að líta svo á að markmiðum laga nr. 36/1974 sé einnig að öðru leyti fullnægt.



Það er mat ráðuneytisins að varúðarreglunni hafi verið fylgt í hinum kærða úrskurði skipulagsstjóra. Samanber kafla 6.



Ráðuneytið fellst ekki á þær röksemdir kærenda að ekki liggi fyrir fullnægjandi skilgreiningar á mótvægisaðgerðum vegna hugsanlegra setflutninga og til að minnka efnaákomu. Eðlilegt sé að leyfisveitandi að útfæri mótvægisaðgerðir að fenginni tillögu framkvæmdaraðila sbr. kafla 7.



Að mati ráðuneytisins er skipulagsstjóra ekki heimilt í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar að kveða á um efnistöku umfram það sem framkvæmdaraðili óskar eftir og fram kemur í skýrslu um frekara mat. Ráðuneytið fellir því úr gildi þann hluta úrskurðarorða skipulagsstjóra sem heimilar Kísiliðjunni að fara niður á fulla dýpt. Ráðuneytið fellst hins vegar á framkvæmdina eins og henni er lýst í matsskýrslu og heimilar vinnslu kísilgúrs niður á 6,5 metra meðaldýpt. Samanber kafla 8.



Ráðuneytið fellst ekki á að fella hefði átt úrskurð skipulagsstjóra úr gildi með vísun til þess að í skýrslu framkvæmdaraðila um frekara mat hafi ekki verið lögð fram öll gögn sem skipulagsstjóri óskaði eftir, sbr. 9. kafla.



Ekki er tekið undir þær málsástæður kærenda að ekki hafi allar umsagnir verið teknar til efnislegrar umfjöllunar í úrskurði skipulagsstjóra og er fallist á umsögn Skipulagsstofnunar um að umfjöllun innsendra gagna sé fullnægjandi. Samanber kafla 10.



Ráðuneytið telur að ekki þurfi að senda álit sérfróðra aðila og óska eftir umsögn um það né kynna almenningi enda gerir reglugerð nr. 179/1994 ekki ráð fyrir því. Sambaner kafla 11.



Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að draga í efa að ef hætt yrði kísilgúrnámi úr Mývatni mundi það hafa neikvæð áhrif á atvinnulíf sveitarfélagsins, sbr. kafla 12.



Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að taka undir þá málsástæðu kærenda að röskun á lífríki Mývatns sé ekki sjálfbær, líklega óafturkræf og að ekki sé hægt að að snúa við neikvæðu ferli sem leitt gæti af námuvinnslunni með vísun til álits Gunnars Steins Jónssonar. Samanber kafla 13.



Ráðuneytið telur að ekki sé unnt að tengja sveiflurnar í lífríki Mývatns kísilgúrnáminu svo ótvírætt sé. Þannig sé ekki líklegt að sjá megi bein orsakatengsl milli aukinnar næringarefnaákomu og að vatnablómi hafi brugðist. Samanber kafla 14.



Ráðuneytið fellst á tillögu Gunnars Steins Jónssyni um gerð vöktunaráætlunar sem er ætlað að leiða í ljós hlutdeild nýmyndaðs sets í heildaruppsöfnun sets á námusvæðum í Syðriflóa. Er vöktunaráætluninni einnig ætlað að leiða í ljós hvað nýmyndaða setið sem sest í fyrirhugaðar námur er stór hluti af framleiðslu á nýmynduðu seti.







"Vöktun uppsöfnunar nýmyndaðs sets: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að vöktunaráætlun vegna nýmyndaðs sets. Vöktunaráætluninni er ætlað að leiða í ljós hlutdeild nýmyndaðs sets í heildaruppsöfnun sets á námusvæðum í Syðriflóa. Henni er einnig ætlað að leiða í ljós hvað það er stór hluti af framleiðslu á nýmynduðu seti í Syðriflóa. Fara skal að sömu skilyrðum og í lið 5 um það hvernig bregðast skuli við ef í ljós kemur að vinnslan hafi áhrif á undirstöður vistkerfisins í vatninu."



Sbr. kafla 15



Ráðuneytið telur ekki að þau gögn sem lögð voru fram við mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu við Mývatn bendi til þess að námuvinnsla hafi veruleg áhrif á fuglalíf og fæðuskilyrði og viðgang silungs þegar tekið er tillit til þeirra mótvægisaðgerða og takmörkun á áhrifasvæði sem krafa er gerð um í þeim úrskurði sem nú liggur fyrir um mat á umhverfisárhifum kísilgúrvinnslu við Mývatn. Samanber kafla 17.





VI. Úrskurðarorð.



Liður 6.1. í úrskurður skipulagsstjóra ríkisins frá 7. júlí 2000 um mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu úr Mývatni er felldur úr gildi. Ráðuneytið leggst gegn efnistöku á námusvæði 1 eins og henni er lýst í framlagðri matskýrslu framkvæmdaraðila vegna skorts á gögnum.



Liður 6.2. í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins er staðfestur með eftirfarandi breytingum.



Grein 6.2. hljóðar svo:









"6.2 Með vísun til niðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er fallist á efnistöku á námusvæði 2 niður á 6,5 metra meðaldýpt, með eftirfarandi skilyrðum:"



Töluliðir 1-11 í grein 6.2. skulu standa óbreyttir.



Nýr töluliður, 12. töluliður hljóðar svo:







"Vöktun uppsöfnunar nýmyndaðs sets: Framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að vöktunaráætlun vegna nýmyndaðs sets. Vöktunaráætluninni er ætlað að leiða í ljós hlutdeild nýmyndaðs sets í heildaruppsöfnun sets á námusvæðum í Syðriflóa. Henni er einnig ætlað að leiða í ljós hvað það er stór hluti af framleiðslu á nýmynduðu seti í Syðriflóa. Fara skal að sömu skilyrðum og í lið 5 um það hvernig bregðast skuli við ef í ljós kemur að vinnslan hafi áhrif á undirstöður vistkerfisins í vatninu."




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum