Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 16. júlí 2019
í máli nr. 18/2019:
Tyrfingsson ehf.
gegn
Strætó bs. og 
Reykjavíkurborg

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 25. júní 2019 kærir Tyrfingsson ehf. útboð Reykjavíkurborgar f.h. Strætó bs. (hér eftir vísað til sameiginlega sem varnaraðila) nr. 14403 auðkennt „Purchase of Hydrogen Buses.“ Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila 5. júní 2019 um að hafna tilboði kæranda í hinu kærða útboði. Til vara er þess krafist að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva hið kærða útboð þar til endanlega hefur verið leyst úr kærunni. 
Í febrúar 2019 óskuðu varnaraðilar eftir tilboðum í fimm vetnisstrætisvagna og viðhald þeirra á tilgreindum ábyrgðartíma. Í grein 1.1.16 í útboðsgögnum kom fram að kaupandi áskildi sér rétt til að hafna öllum tilboðum sem væru umfram kostnaðaráætlun, sem var 625.000 evrur á hvern vagn. Samkvæmt grein 1.1.18 skyldi við mat tilboða líta til líftímakostnaðar hvers vagns, sem skyldi gilda 70% af heildareinkunn, gæða vagna, sem skyldi gilda 25% og gæða þjónustu, sem skyldi gilda 5%. Nánari fyrirmæli um mat á tilboðum komu fram í greininni en meðal annars skyldu bjóðendur upplýsa í tilboði sínu um kaupverð hvers vagns að meðtöldum sendingarkostnaði og öllum gjöldum og sköttum miðað við afhendingu á starfsstöð Strætó bs. Í grein 1.2.2 kom fram að tilboð skyldi sett fram í íslenskum krónum og innihalda virðisaukaskatt, aðflutningagjöld og öll önnur gjöld. Jafnframt kom fram að viðmiðunargengi evru gagnvart krónu væri skráð gengi Seðlabanka Íslands á opnunardegi tilboða. Á opnunarfundi 11. apríl 2019 kom í ljós að aðeins barst tilboð frá kæranda í útboðinu. Í tilboði kæranda var tilgreint að „Capital cost“ hvers vagns í evrum væri 590.000 en „Capital cost“ í íslenskum krónum að meðtöldum virðisaukaskatti væri 99.200.000 krónur. Með tölvubréfi 5. júní 2019 var kæranda tilkynnt að Strætó bs. hefði hafnað tilboðinu þar sem það væri yfir kostnaðaráætlun fyrirtækisins, sem væri 625.000 evrur fyrir hvern vagn samkvæmt grein 1.1.16 í útboðsgögnum.  
Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að af orðalagi útboðsgagna verði ráðið að kostnaðaráætlun varnaraðila hafi verið án virðisaukaskatts. Tilboð kæranda hafi því verið undir kostnaðaráætlun varnaraðila og því hafi verið óheimilt að hafna tilboði kæranda á grundvelli greinar 1.1.16 í útboðsgögnum. Af hálfu varnaraðila er byggt á því að kærandi hafi ekki hagsmuni af því að setja fram stöðvunarkröfu í málinu. Hafi eina tilboðinu sem barst verið hafnað og innkaupaferlinu þar með verið lokið. Þegar af þeirri ástæðu séu engar forsendur til að fallast á stöðvunarkröfuna. 

Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Tilgangur þessa ákvæðis er fyrst og fremst að koma í veg fyrir gerð samnings þegar ákvörðun kaupanda um val tilboðs er ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að einungis eitt tilboð barst í hinu kærða útboði og hefur varnaraðili lýst því yfir að innkaupaferlinu sé lokið í kjölfar höfnunar þess. Ekki stendur því til að gera samning á grundvelli hins kærða innkaupaferlis. Við þessar aðstæður getur ekki komið til stöðvunar innkaupaferlis á grundvelli fyrrgreinds lagaákvæðis. Eru því ekki skilyrði til að verða við kröfu kæranda um að stöðva hið kærða innkaupaferli varnaraðila og verður kröfunni því hafnað. 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Tyrfingssonar ehf., um að útboð Reykjavíkurborgar f.h. Strætó bs. nr. 14403 auðkennt „Purchase of Hydrogen Buses“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað. 

Reykjavík, 16. júlí 2019 

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira