Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Nr. 384/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 384/2018

Fimmtudaginn 24. janúar 2019

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 15. ágúst 2018 um synjun á umsókn hans um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. júlí 2018, sótti kærandi um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, samtals 20 ferðir í mánuði í 12 mánuði. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. júlí 2018, með vísan til 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðra. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 15. ágúst 2018 og staðfesti synjunina með vísan til 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. framangreindra reglna.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 31. október 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 14. desember 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. desember 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi flutt á hjúkrunarheimilið B í lok X þegar dvalarheimilið C hafi verið lagt niður. Þegar hann hafi verið búsettur á C hafi hann verið með ferðaþjónustu hjá Strætó til að fara í sjúkraþjálfun tvisvar til þrisvar sinnum í viku og að heimsækja reglulega [...] á höfuðborgarsvæðinu. Nú fái hann ekki þá akstursþjónustu sem hann þurfi á að halda, hvorki í sjúkraþjálfun né til að heimsækja [...]. Þá geti hann ekki stundað félagsstörf né farið á menningarviðburði. Sjúkraþjálfunin í B sé mjög takmörkuð.

Kærandi tekur fram að hann sé algjörlega bundinn við hjólastól og þurfi því að panta sérstakan leigubíl með tilheyrandi kostnaði sem hann ráði ekki við. Kærandi búi við mjög skert lífsgæði vegna skorts á akstursþjónustu sem hafi áður staðið honum til boða. Kærandi hafi ekkert val um það hvar hann stundi sjúkraþjálfun og telur slíka framkomu vera mannréttindabrot gagnvart sér og öðrum fötluðum einstaklingum í svipaðri stöðu.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi á árunum X til X verið búsettur á dvalarheimili og leigt þar herbergi. Hann hafi þurft að leita sér aðstoðar sjálfur utan heimilisins, til dæmis vegna sjúkraþjálfunar og til að heimsækja [...], og því hafi verið samþykkt að veita kæranda ferðaþjónustu. Kærandi hafi í X flutt á hjúkrunarheimilið B en samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra skuli veita hjúkrunar- og læknisþjónustu á hjúkrunarheimilum, auk þess sem þar skuli vera endurhæfing. B sé því skylt að bjóða einstaklingum sem þar dvelji upp á sjúkraþjálfun.

Reykjavíkurborg vísar til þess að samkvæmt þágildandi 35. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks skuli sveitarfélög gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu. Markmið ferðaþjónustunnar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Að öðru leyti sé sveitarfélögum falin útfærsla á þjónustunni. Lög um málefni fatlaðs fólks veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau veiti fötluðu fólki í samræmi við markmið laganna. Ekki sé unnt að ráða af framangreindu lagaákvæði, nema að litlu leyti, hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé til ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Það ráðist aðallega af reglum sveitarfélagsins en þó innan marka laganna. Ákvæði 35. gr. laga nr. 59/1992 feli þannig ekki í sér að skyldur sveitarfélaga séu svo afdráttarlausar að einstaklingar eigi skilyrðislausan og tafarlausan rétt til tiltekinnar þjónustu án skilyrða sem sveitarfélög setji.

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks sé skilyrði fyrir samþykki umsóknar að umsækjandi eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 skuli hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum veita hjúkrunar- og læknisþjónustu og þar skuli vera endurhæfing. Þá segi einnig í sama ákvæði að þjónusta á hjúkrunarheimilum skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Samkvæmt framansögðu telji velferðarráð Reykjavíkurborgar að það sé skylda hjúkrunarheimila að tryggja þá þætti sem reglur sveitarfélagsins um ferðaþjónustu fatlaðs fólks miði að. Ljóst sé að kærandi hafi ekki uppfyllt 3. tölul. 3. gr. reglnanna.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun á umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þá verði að telja ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn reglum sveitarfélagsins, þágildandi lögum nr. 59/1992 né stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og því beri að staðfesta ákvörðun í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Hin kærða ákvörðun var tekin í gildistíð laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks og verður því leyst úr málinu á grundvelli þeirra laga.

Markmið laga nr. 59/1992 er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega.

Í 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um rekstur ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á grundvelli ákvæðisins. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992 og 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er ákvörðun um umfang ferðaþjónustu fatlaðs fólks að meginstefnu til lögð í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnar á viðkomandi málefni. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála ef það er byggt á lögmætum sjónarmiðum og í samræmi við lög að öðru leyti.

Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, meðal annars með reglum sveitarfélagsins um ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem tóku gildi 21. mars 2018. Í 1. mgr. 3. gr. reglnanna eru tilgreind þau skilyrði sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsókn um ferðaþjónustu verði samþykkt. Umsókn kæranda var synjað á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. en þar er sett það skilyrði að umsækjandi eigi ekki rétt á niðurgreiddri aksturþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að kærandi sé búsettur á hjúkrunarheimili sem beri skyldu til að tryggja þá þætti sem reglur Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks miði að, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra.

Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 59/1992 kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Teymin skulu hafa samráð við einstaklinginn um matið og skal það byggt á viðurkenndum matsaðferðum. Samkvæmt framangreindu er sveitarfélaginu eftirlátið að meta umsókn um þjónustu en ekki verður séð af gögnum málsins að slíkt heildstætt mat hafi farið fram varðandi umsókn kæranda um ferðaþjónustu, enda einungis vísað almennt til þess að hjúkrunarheimilinu, sem kærandi er búsettur á, sé skylt að veita umbeðna þjónustu. Kæranda var því synjað um þjónustu án þess að sérstakt mat á aðstæðum hans hafi farið fram, en að mati úrskurðarnefndarinnar hefði átt að beina umsókn kæranda í slíkt ferli eftir að hún barst sveitarfélaginu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10.  gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 15. ágúst 2018 um synjun á umsókn A, um ferðaþjónustu fatlaðs fólks er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum