Hoppa yfir valmynd

Frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar

Miðvikudaginn 28. maí 2008 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Með bréfi, dags. 4. apríl 2008, sem móttekið var af ráðuneytinu 7. apríl 2008, kærði A (hér eftir kærandi) sem er aðili að B, þá ákvörðun Lyfjastofnunar (hér eftir kærði) frá 28. febrúar 2008 að „...gera verði þær kröfur til innflytjenda og heildsala lyfja að starfsmenn þeirra séu að lágmarki 18 ára og hafi auk þess til að bera viðeigandi faglega þekkingu og reynslu í samræmi við fyrrgreind ákvæði reglugerðar nr. 699/1996.“

Í kæru er þess krafist að ákvörðun kærða frá 28. febrúar 2008 verði felld úr gildi. Einnig er þess krafist með vísan til 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir á æðra stjórnsýslustigi. Er sá hluti málsins einungis til umfjöllunar hér.

Kæran var send kærða til umsagnar með bréfi dags. 28. febrúar 2008. Umsögn kærða, dags. 2. maí 2008, er lýtur að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, barst ráðuneytinu 6. maí 2008. Með tölvubréfi, dags. 13. maí 2008 óskað ráðuneytið eftir afriti af gögnum sem til er vísað í kæru og gaf kæranda auk þess kost á að gera athugasemdir við umsögn kærða, dags. 2. maí 2008. Svar kæranda og umbeðin gögn bárust 16. maí 2008.

1. Málavextir.

Málavextir verða hér einungis raktir að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar um þá ósk kæranda að frestað verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.

Í kæru segir: „Upphaf málsins má rekja til þess að í framhaldi af úttekt Lyfjastofnunar þann 12. og 13. desember 2006 á starfsemi fyrirtækisins kom fram sú athugasemd að börnum væri óheimilt að starfa við alla meðhöndlun á lyfjum, sbr. 21. gr. reglugerð[ar] nr. 699/1996, en fram að því hafði komið fyrir að ráðnir voru sumarstarfsmenn sem ekki höfðu náð 18 ára aldri og voru í flestum tilfellum afkvæmi starfsmanna. Í framhaldinu óskaði Lyfjastofnun með erindi dagsettu 7. mars 2007 eftir upplýsingum um hversu margir starfsmenn störfuðu hjá félaginu sem væru undir 18 ára aldri og hvenær ráðning þeirra hafi farið fram. Þessu svaraði fyrirtækið með erindi dagsettu 21. mars sama ár þar sem upplýst var um hvaða starfsmenn væri að ræða og hvenær þeir hófu störf. Var síðan í erindi dagsettu 25. maí sama ár óskað eftir fresti til að uppfylla kröfuna. Með erindi dagsettu þann 30 maí sama ár veitti Lyfjastofnun aðlögunarfrest til 1. september 2007 þar sem m.a. kom fram að stofnunin liti svo á að eftir þann tíma myndi skilyrði stofnunarinnar verða hluti af kröfu við ráðningu starfsmanna. Eftir munnlega fyrirspurn frá félaginu nú nýlega um málið kom svo erindi frá Lyfjastofnuninni dagsett 28. febrúar sl. þar sem fyrrgreind ákvörðun er tekin.“

Þar sem í úrskurði þessum verður ekki tekin efnisleg afstaða til ágreinings málsaðila heldur eingöngu fjallað um hvort fresta beri réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, verða málsatvik ekki rakin frekar.

2. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi færir í kæru fram þau rök fyrir kröfu um frestun réttaráhrifa á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vegna þeirra ágalla sem séu að hans mati á ákvörðun kærða megi leiða að því líkur að ákvörðunin verði felld úr gildi. Enda sé ákvörðunin íþyngjandi fyrir fyrirtækið. Hefja þurfi undirbúning að ráðningu sumarfólks sem m.a. muni sinna þeim störfum sem um ræði í máli þessu og fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækið að þurfa ekki að sæta afarkostum stofnunarinnar í bráð.

3. Málsástæður og lagarök kærða.

Í umsögn sinni til ráðuneytisins fellst kærandi ekki á röksemdir kærða um frestun réttaráhrifa þar sem kærði telur þær byggja m.a. á misskilningi um aðdraganda þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem hér um ræði. Þá telur kærði vandséð að sú ákvörðun að heimila ekki lyfjafyrirtæki að hafa börn í vinnu við meðhöndlun lyfja hafi falið í sér afarkosti fyrir umrætt fyrirtæki. Þá verði að telja að frestun réttaráhrifa falli ekki að markmiðum 1. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 um gæði og öryggi lyfja.

4. Niðurstaða.

Krafa kæranda um frestun á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar er reist á 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Undantekningu frá þeirri reglu er að finna í 2. mgr. þar sem segir að æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Tilgangur þessarar heimildar er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að aðili kærumáls verði fyrir réttarspjöllum eða tjóni meðan það er til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi.

Ákvörðun æðra stjórnvalds um frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar byggir ávallt á heildstæðu mati á aðstæðum og þeim hagsmunum sem um er að ræða hverju sinni. Hagsmunir kæranda af úrlausn málsins verða ekki dregnir í efa. Ráðuneytið telur hins vegar, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að við mat á því hvort fresta beri réttaráhrifum ákvörðunar kærða verði að horfa til þess að til grundvallar ákvörðun kærða liggja fyrst og fremst öryggissjónarmið varðandi meðhöndlun lyfja.

Eftir að hafa lagt mat á mikilvægi þeirra hagsmuna sem í húfi eru í máli þessu, aðdraganda ákvörðunarinnar og með hliðsjón af ofansögðu um að ákvörðun kærða hafi verið tekin í því skyni að tryggja öryggi við meðhöndlun lyfja, telur ráðuneytið ekki unnt að verða við kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðuneytið tekur fram að í þessari niðurstöðu felst ekki efnisleg afstaða til röksemda kæranda sem fram koma í kæru eða þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar ákvörðun kærða.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda um að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar kærða frá 28. febrúar 2008 er hafnað.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum