Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 163/2019 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og endursenda hann til Grikklands er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 163/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020045

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. febrúar 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. febrúar 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 20. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu. Þann 24. ágúst 2018 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 12. september 2018, kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi og væri með gilt dvalarleyfi á Ítalíu til 15. október 2020. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 18. október 2018, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 1. febrúar 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 5. febrúar 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 20. febrúar 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 28. febrúar 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn kærunefnd þann 15. mars 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Ítalíu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til endurrita af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun þar sem fram hafi komið að kærandi þjáist af maga- og brjóstverkjum og sé haldinn streitu. Þá komi fram ástæður þess að kærandi hafi flúið heimaríki til Ítalíu og að hann hafi komið hingað til lands eftir að brotist hafi verið inn hjá honum á Ítalíu í tvígang án þess að lögreglan hafi aðhafst nokkuð. Kærandi kveði að hann finni fyrir miklu þunglyndi og vanlíðan og hann taki geðlyf. Heilsu hans hafi hrakað og þá glími hann einnig við miklar áhyggjur, reiði, óþolinmæði og lystarleysi. Fram komi að kærandi hafi upplifað mikla fordóma og mismunun á Ítalíu og telji að ítölsk stjórnvöld hafi hætt öllum stuðningi við hann og ekki staðið við loforð sín.

Í greinargerð kæranda er að finna lista yfir samskiptaseðla Göngudeildar sóttvarna þar sem fram komi yfirlit yfir þá kvilla sem kærandi hafi greinst með auk lyfja sem honum hafi verið ávísað. Kærandi telji að í ljósi alvarlegra andlegra veikinda sinna sé hann viðkvæmur í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sem og einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laganna. Kærandi mótmæli niðurstöðu Útlendingastofnunar við mat á því hvort taka hafi þurft tillit til sérstaklegra viðkvæmrar stöðu kæranda og bendir á að hann hafi óskað eftir aðstoð og greiningu sérfræðings í samræmi við 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Kærandi kveður að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi því ranglega verið haldið fram að ekkert hafi kallað á frekari skoðun eða aðkomu sálfræðinga en af samskiptaseðlum Göngudeildar sóttvarna sé ljóst hann hafi átt pantaðan tíma hjá sálfræðingi. […]. Þá vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar varðandi aðstæður og réttindi einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu.

Kærandi telur ótækt að beita heimild a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi til lagaáskilnaðarreglu 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem setji stjórnvöldum afar þröngar skorður við setningu stjórnvaldsfyrirmæla vegna meðferðar umsókna um alþjóðlega vernd. Kærandi telji að reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, brjóti gegn lögmætisreglunni. Þar sé að finna skilyrði vegna sérstakra ástæðna sem ekki hafi stoð í settum lögum og önnur sem beinlínis gangi gegn ákvæðum laga um útlendinga. Þá vísi kærandi til lögskýringargagna máli sínu til stuðnings og kveði að stjórnvöld hér á landi hafi við túlkun sína á hugtakinu sérstakar ástæður horft í of ríkum mæli til mannréttindasáttmála Evrópu og notað dómafordæmi alþjóðadómstóla til að skerða réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í ljósi markmiðs laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, um að tryggja beri mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi, hafni kærandi því að við mat á sérstökum ástæðum hafi sjónarmið um skilvirkni umsóknarferilsins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkurt vægi. Þá bendi kærandi á að hvergi í lögskýringargögnum sé að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika, alvarlega mismunun, verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu eða að meðferð sjúkdóms sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Þessar kröfur hafi enga stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni. Kærandi gerir athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar, í mati á trúverðugleika hans, að honum standi til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta á Ítalíu og vísar í því sambandi til skýrslu Asylum Information Database þar sem fram komi að misjöfn túlkun reglna, greiðsluþátttaka og erfiðleikar við skráningu standi einstaklingum með alþjóðlega vernd í vegi við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Kærandi telji að það sé ótækt að taka undantekningarreglur sem kveði á um réttindi sem fræðilega standi einhverju flóttafólki til boða á Ítalíu og álykta út frá þeim fyrir allan þann fjölda flóttafólks sem þar sé og fái enga aðstoð.

Kærandi kveður, að þrátt fyrir að hann hafi fengið aðstoð umfram annað flóttafólk á Ítalíu og hafi þekkingu og reynslu sem gæti nýst við atvinnuleit, þá hafi hann lýst sömu ömurlegu aðstæðum þar í landi og annað flóttafólk. Ljóst sé að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna þeirrar alvarlegu mismununar og fordóma sem þar ríki gagnvart uppruna hans. Kærandi geti vænst þess, verði hann sendur til Ítalíu, að staða hans muni vera verulega síðri en staða almennings á Ítalíu. Íslenskum stjórnvöldum sé því skylt að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu og hefur gilt dvalarleyfi þar í landi til 15. október 2020. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi nýtur á Ítalíu í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi […] einstæður og barnlaus karlmaður. Í gögnum um heilsufar kæranda kemur fram að hann eigi að baki langa sögu kviðverkja og að hann hafi m.a. sótt bráðamóttöku landspítalans vegna þeirra. Þá hafi hann verið skráður með greininguna vélindabakflæði og verið ávísað lyfjum vegna þess. Þá kemur fram í gögnum málsins að kærandi glími við andleg veikindi og hafi farið í viðtal til sálfræðings á Göngudeild sóttvarna í þrígang og m.a. verið skráður með greiningarnar áfallastreituröskun auk alvarlegra þunglyndiseinkenna. Jafnframt hafi kæranda verið ávísað lyfjum vegna andlegra veikinda.

Gögn málsins bera með sér að kærandi hefur leitað sér heilbrigðisþjónustu hér á landi, m.a. aðstoðar sálfræðings, en að hann sé ekki í yfirstandandi meðferð vegna aðkallandi heilsufarsvandamála. Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. heilsufarsgögn, beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður á Ítalíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

 • Italy 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);
 • Freedom in the World 2018 – Italy (Freedom House, 5. apríl 2018);
 • Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
 • Amnesty International Report 2017/18 - Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
 • World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
 • Is Mutual Trust Enough – The situation of persons with special reception needs upon return to Italy (Danish Refugee Council, febrúar 2017);
 • Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017);
 • Integration of Refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis (European Parliament, desember 2017);
 • ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016);
 • Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016);
 • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2015 (European Asylum Support Office, 8. júlí 2016);
 • Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015);
 • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014);
 • UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013);
 • Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy) og
 • Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati - http://www.cir-onlus.org/en/).

Samkvæmt ofangreindum gögnum eru dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og einstaklinga með viðbótarvernd gefin út til fimm ára en að þeim tíma liðnum geta handhafar sótt um ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns geta öðlast ríkisborgararétt að fimm árum liðnum en einstaklingar með viðbótarvernd að tíu árum liðnum. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns fá flóttamannavegabréf (í. documenti di viaggio) með fimm ára gildistíma en handhafar viðbótarverndar geta fengið svonefnt ferðaleyfi (í. titolo di viaggio). Af framangreindum gögnum verður þó ekki séð að á Ítalíu sé munur á réttindum einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og handhafa viðbótarverndar hvað snertir aðgang að húsnæði, heilbrigðisþjónustu og atvinnuleyfi.

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Þar er m.a. greint frá vanköntum á aðlögun einstaklinga með alþjóðlega vernd að ítölsku samfélagi. Í framangreindum gögnum kemur einnig fram að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga ekki rétt á þeim stuðningi sem umsækjendum um alþjóðlega vernd sé veittur enda sé gert ráð fyrir því að einstaklingar sjái fyrir sér sjálfir eftir að hafa verið veitt alþjóðleg vernd. Þegar einstaklingi með alþjóðlega vernd sé vísað aftur til Ítalíu eigi hann rétt á því að gista í svokölluðum SPRAR móttökumiðstöðvum, að því gefnu að viðkomandi hafi ekki fullnýtt heimild til dvalar þar og að laust pláss sé til staðar. Þó kemur fram að takmarkað framboð sé af gistirýmum í SPRAR móttökumiðstöðvum. Samkvæmt lagabreytingu á Ítalíu frá því í desember 2018 heita móttökumiðstöðvarnar nú SIPRIOMI (e. System for the Protection of Beneficiaries of International Protection and Unaccompanied Foreign Minors) og eru nú eingöngu ætlaðar þeim sem eru handhafar alþjóðlegrar verndar, fylgdarlausum börnum og þeim sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá kemur fram í gögnunum að einnig bjóði sveitarfélög, frjáls félagasamtök og trúfélög í Róm og Mílanó upp á einhverja gistiaðstöðu en gistirými séu hins vegar af skornum skammti og því séu margir einstaklingar sem njóti verndar heimilislausir eða búi í yfirgefnum byggingum.

Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar og hafa dvalarleyfi á Ítalíu hafa sama rétt til atvinnuþátttöku og ítalskir ríkisborgarar. Hins vegar sé atvinnuleysi mikið þar í landi og eigi útlendingar oft í miklum erfiðleikum með að finna vinnu, sérstaklega ef þeir tala ekki tungumálið eða menntun þeirra eða reynsla fæst ekki metin. Þar að auki er möguleiki þeirra á því að fá félagslega aðstoð takmarkaður enda byggir kerfið að miklu leyti á því að einstaklingar eigi þar fjölskyldu sem geti veitt þeim stuðning.

Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, en þeir þurfa að skrá sig inn í heilbrigðiskerfið. Í ofangreindri skýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, um Ítalíu kemur fram að skráningin gildi jafn lengi og dvalarleyfi einstaklinga. Sjúklingar þurfa almennt að greiða hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna heilbrigðisþjónustu sem þeir nýta sér en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar sjúklingar hafa ekki efni á því. Einstaklingar sem dvelja í SPRAR (SIPRIOMI) móttökumiðstöðvunum eru undanþegnir slíkri greiðsluþátttöku. Til að fá aðgang að heilbrigðisþjónustu umfram grunnþjónustu þurfa einstaklingar að vera með skráð lögheimili. Þegar einstaklingar hafa skráð lögheimili sitt eiga þeir rétt á að fá sjúkrakort frá sveitarfélögum, en sjúkrakort veitir einstaklingum til dæmis aðgang að heimilislæknum og öðrum sérfræðilæknum sem annars falla ekki undir grunnheilbrigðisþjónustu. Eðli máls samkvæmt getur lögheimilisskráning reynst vandamál, t.d. fyrir einstaklinga sem eru heimilislausir. Þó bera framangreindar skýrslur með sér að frjáls félagasamtök hafi aðstoðað einstaklinga við slíka skráningu. Samkvæmt framangreindum heimildum eru því ýmsar aðgangshindranir þegar kemur að heilbrigðiskerfinu á Ítalíu, m.a. vegna tungumálaörðugleika.

Af framangreindum skýrslum verður ráðið að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna sé vandamál á Ítalíu en ítölsk yfirvöld hafi gripið til aðgerða til að sporna við kynþáttafordómum og mismunun á grundvelli kynþáttar, m.a. með lagasetningu. Í kjölfar athugasemda alþjóðlegra eftirlitsnefnda, stofnana og frjálsra félagasamtaka hafa ítölsk stjórnvöld tekið mikilvæg skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum, mismunun á grundvelli kynþáttar og hatursglæpum, þ. á m. með aðgerðaráætlun gegn kynþáttahyggju (e. National Action Plan against Racism, Xenophobia and Intolerance). Þá hefur rannsóknum og ákærum fjölgað í málum er varða mismunun, hatursorðræðu og hatursglæpi á grundvelli kynþáttar og þjóðernis.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar á Ítalíu telur kærunefnd að tryggt sé að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda, en hann kveðst hafa orðið fyrir mismunun og fordómum á Ítalíu. Honum hafi jafnframt verið hótað þar í landi og brotist hafi verið inn til hans. Þá séu aðstæður fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu ekki góðar.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Kærandi hefur aðgang að vinnumarkaði og sambærilegan rétt til félagslegrar aðstoðar og ítalskir ríkisborgarar. Í framangreindum gögnum kemur fram að ítölsk stjórnvöld hafi gripið til aðgerða til að stemma stigu við fordómum í landinu, m.a. með því að grípa til hertra aðgerða til að sporna við brotum sem byggjast á kynþáttafordómum. Af framangreindum gögnum verður ráðið að verði kærandi fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar þar í landi geti hann leitað ásjár ítalskra yfirvalda vegna þess. Kærandi hefur borið því við að hann óttist tiltekna einstaklinga á Ítalíu. Af framangreindum gögnum um aðstæður á Ítalíu má ráða að óttist kærandi um öryggi sitt geti hann leitað ásjár ítalskra yfirvalda og lögreglu.

Kærandi hefur lagt fram gögn varðandi heilsu sína sem bera m.a. með sér að hann glími við andleg veikindi og heilsufarsvandamál í meltingarvegi. Kærunefnd telur að gögn málsins bendi ekki til þess að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður á Ítalíu eiga þeir sem hefur verið veitt alþjóðleg vernd rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu sem getur þó verið í sumum tilvikum vandkvæðum bundið að sækja. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sinna þar í landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 18. október 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 20. ágúst 2018.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. trúverðugleikamat stofnunarinnar og beitingu ákvæða reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum nefndarinnar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur þá farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Að mati kærunefndar eru því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Af gögnum málsins verður ekki annað lagt til grundvallar en að kærandi hafi komið hingað til lands þann 18. ágúst 2018. Hann sótti um alþjóðlega vernd þann 20. ágúst 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira