Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 7/2010: Dómur frá 19. október 2010

Sjúkraliðafélag Íslands vegna Gunnvarar Sverrisdóttur, Sveinbjargar Steingrímsdóttur, Maríu Bal, Hafdísar Láru Halldórsdóttur, Ólafar Jóhannsdóttur, Guðfinnu Bjargar Kristinsdóttur, Ólafar Björgvinsdóttur og Ólavíu Lúðvíksdóttur gegn Garðvangi.

Ár 2010, þriðjudaginn 19. október, var í Félagsdómi í málinu nr. 7/2010

Sjúkraliðafélag Íslands vegna

Gunnvarar Sverrisdóttur,

Sveinbjargar Steingrímsdóttur,

Maríu Bal,

Hafdísar Láru Halldórsdóttur,

Ólafar Jóhannsdóttur,

Guðfinnu Bjargar Kristinsdóttur,

Ólafar Björgvinsdóttur og

Ólavíu Lúðvíksdóttur

gegn

Garðvangi

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið 24. ágúst sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Arnfríður Einarsdóttir, Kristjana Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Guðni Á. Haraldsson.

 

Stefnandi er Sjúkraliðafélag Íslands, Grensásvegi 16, Reykjavík, vegna Gunnvarar Sverrisdóttur, Sveinbjargar Steingrímsdóttur, Maríu Bal, Hafdísar Láru Halldórsdóttur, Ólafar Jóhannsdóttur, Guðfinnu Bjargar Kristinsdóttur, Ólafar Björgvinsdóttur og Ólavíu Lúðvíksdóttur.    

 

Stefndi er Garðvangur, Garðabraut 85, Garði. 

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að ákvarðanir Garðvangs, sem tilkynntar voru sjúkraliðum með bréfi, dags. 27. janúar 2009, um lækkun greiðslna vegna aksturs frá 15. febrúar 2009, og með bréfi, dags. 29. október 2009, um að fella niður greiðslur vegna aksturs frá og með 1. febrúar 2010, séu andstæðar grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Enn fremur að viðurkennt verði að sjúkraliðar, sem starfa á Garðvangi í Garði, en eru búsettir í Reykjanesbæ, Sandgerði eða Vogum, eigi, samkvæmt grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, rétt á því að stefndi sjái þeim fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiði þeim ferðakostnað, og að slíkar ferðir teljist til vinnutíma að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar. 

Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, þar með talið kostnaðar af greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.

 

Dómkröfur stefnda

Þess er krafist að stefndi verði sýknaður af dómkröfum stefnanda.

Þess er og krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

 

Málavextir

Sjúkraliðafélag Íslands (hér eftir SLFÍ) er fagstéttarfélag sjúkraliða og er aðili að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB.  Stefndi, Garðvangur, er rekstraraðili hjúkrunar- og dvalarheimila fyrir aldraða, annars vegar Garðvangs í sveitarfélaginu Garði og Hlévangs, sem er staðsettur í Reykjanesbæ.  Garðvangur er aðili að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH).

Þeir átta einstaklingar, sem taldir eru upp í kröfugerð, eru sjúkraliðar sem starfa  hjá Garðvangi.  Um laun og önnur kjör þeirra fer samkvæmt kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands. Eru tilgreindir sjúkraliðar búsettir utan Garðs.  Nánar tiltekið eru heimilisföng þeirra þessi:

 

Gunnvör Sverrisdóttir                         Norðurgarði 6, 230 Reykjanesbæ

Sveinbjörg Steingrímsdóttir                Heiðarholti 16, 230 Reykjanesbæ

María Bal                                             Hringbraut, 230 Reykjanesbæ

Hafdís Lára Halldórsdóttir                   Ásabraut 15, 230 Reykjanesbæ

Ólöf Jóhannsdóttir                              Njarðvíkurbraut 11, 260 Reykjanesbæ

Guðfinna Björg Kristinsdóttir               Njarðvíkurbraut 22, 260 Reykjanesbæ

Ólöf Björgvinsdóttir                             Ásabraut 11, 245 Sandgerði

Ólavía Lúðvíksdóttir                             Hjallagötu 1, 245 Sandgerði

 

Fram til ársins 2009 greiddi stefndi sjúkraliðum, sem búsettir eru utan Garðs og starfa á Garðvangi, ferðakostnað.  Sama gilti um sjúkraliða sem búsettir eru utan Reykjanesbæjar og starfa hjá Hlévangi. Byggðust þær greiðslur á ákvæði 5.4.1 í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands aðila, en ákvæðið er svohljóðandi samkvæmt síðast gildandi kjarasamningi aðila:

„Vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skal vinnuveitandi sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað.  Slíkar ferðir teljast til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.“

Með bréfi, dags. 27. janúar 2009, tilkynnti Finnbogi Björnsson, framkvæmdastjóri stefnda, sjúkraliðunum að vegna tekjulækkunar væri nauðsynlegt að draga úr kostnaði og að tekin hefði verið ákvörðun um að lækka greiðslur vegna aksturs.  Frá og með 15. febrúar 2009 skyldi greiða kílómetra vegna hverrar vaktar þannig:

 

Reykjanesbær-Garður              8 km

Sandgerði-Garður                    4  km

Sandgerði-Reykjanesbær        7  km

Vogar-Garður                         24 km

Vogar-Reykjanesbær             16 km

 

Stefndi bendir á að hér hafi verið um að ræða einfalda leiðréttingu á kílómetrum samkvæmt mælingum. Hafi kílómetratalan verið miðuð við uppgefna kílómetra hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þá hafi verið litið til þess að samgöngum almenningsvagna hafði verið komið á fót hjá sveitarfélögunum á Suðurnesjum og forsendur greiðslna vegna aksturs því brostnar. Þá hafi komið fram hagræðingarkrafa frá Ríkissjóði vegna efnahagsástandsins í landinu með niðurskurði ásamt lækkun tekna.

Með bréfi, dags. 4. maí 2009, mótmælti lögmaður SLFÍ þessari ákvörðun og skoraði á stefnda að draga ákvörðunina til baka.  Í bréfinu er vakin athygli á áðurnefndu ákvæði í kjarasamningi félagsins og að með ákvörðuninni verði brotið gegn því, bæði hvað varðar greiðslu ferðakostnaðar og með því að greiða ekki laun fyrir ferðatíma. Stefnandi kveður hins vegar hafa komið í ljós við nánari athugun að aldrei hafi verið greitt fyrir ferðatíma.  Stefnandi kveður stefnda hafa tekið málið til athugunar en ákvörðunin hafi ekki verið dregin til baka.

Með bréfi, dags. 29. október 2009, tilkynnti framkvæmdastjóri stefnda að frá og með 1. febrúar 2010 yrðu allar akstursgreiðslur felldar niður. Kveður stefndi þá hafa verið litið til þess að þann 1. september 2009 hafi verið gerð ný tímatafla fyrir almenningsvagna í sveitarfélögunum Garði og Sandgerði og hafi þeir tengst almenningsvögnum Reykjanesbæjar. Hafi því verið myndað nýtt leiðakerfi fyrir almenningsvagna á þessu svæði. Leitað hafi verið til forsvarsmanna Garðvangs við undirbúning þessa nýja leiðarkerfis almenningsvagna og það sérstaklega hannað með tilliti til starfsmanna Garðvangs og Hlévangs.

Í beinu framhaldi af þessari breytingu á leiðakerfi almenningsvagna á Suðurnesjum hafi verið ákveðið að fella niður greiðslur vegna aksturs til og frá vinnu frá og með 1. febrúar 2010. Mun stefnandi ekki hafa mótmælt þessari ákvörðun sérstaklega fyrr en stefna var gefin út í máli þessu.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveður ágreiningsefni aðila lúta að túlkun á ákvæðum kjarasamnings og eiga undir Félagsdóm, sbr. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með því að framfylgja ákvörðununum, sem um sé deilt í málinu, hafi stefndi brotið gegn ákvæði gr. 5.4.1 í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands og þar með virt að vettugi kjarasamningsbundin réttindi sjúkraliðanna.  Stefnandi bendir enn fremur á að innan við ár sé síðan Félagsdómur dæmdi í máli nr. 5/2009, sem hann telur vera algerlega sambærilegt.  Þar hafi verið deilt um skýringu á samhljóða ákvæði í kjarasamningi SLFÍ og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs.  Kjarasamningur málsaðila sé gerður að fyrirmynd þess samnings.  Í málinu hafi ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, um að hætta að sjá sjúkraliðum, sem starfa á Víðihlíð í Grindavík en eru búsettir í Reykjanesbæ, fyrir keyrslu, talin vera andstæð umræddu kjarasamningsákvæði. 

Stefnandi vísar einnig, hvað greiðslu ferðakostnaðar varðar, til áralangrar framkvæmdar á kjarasamningsákvæðinu hjá stefnda.  Hvað varðar vinnutíma telur stefnandi að framkvæmd stefnda hafi verið andstæð kjarasamningsákvæðinu, en forsvarsmönnum SLFÍ hafi ekki verið kunnugt um hana.   

Kjarasamningsákvæðum verði ekki sagt upp með þeim hætti, sem gert hafi verið með bréfum framkvæmdastjóra stefnda, dags. 27. janúar 2009 og 29. október 2009.  Aðstæður í þjóðfélagi réttlæti ekki brot eða einhliða uppsagnir á einstökum kjarasamningsákvæðum.  Að síðustu vísar stefnandi til meginreglna samninga- og vinnuréttar um túlkun kjarasamninga og meginreglu vinnuréttar, sem m.a. komi fram í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega, að kjarasamningur feli í sér lágmarkskjör og hvers kyns samningar um lægri eða lakari kjör séu ógildir.                 

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst ekki hafa frádráttarrétt vegna kostnaðar af virðisaukaskatti af aðkeyptri lögmannsþjónustu. 

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi krefst sýknu af dómkröfum stefnanda þar sem ákvörðun stefnda, um lækkun á greiðslum vegna aksturs samkvæmt bréfi, dags. 15. febrúar 2009, byggist á leiðréttingum á mælingu á kílómetra til og frá vinnu frá Reykjanesbæ til Garðs og frá Sandgerði til Garðs. Í þessu tilfelli hafi verið fengnar upplýsingar frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum um fjarlægðirnar og á grundvelli þeirra hafi sjúkraliðum verið greitt.

Snúist ágreiningur með aðilum fyrst og fremst um mælingar á kílómetrum en stefndi hafi talið rétt að leiðrétta vegalengdirnar ásamt því að lækka greiðslurnar þar sem þá þegar hafi verið komið á almannavagnakerfi á Suðurnesjum. Stefndi hafi talið rétt á þessum tímapunkti að fella ekki alveg niður greiðslur vegna aksturs heldur taka þetta í tveimur þrepum. Þá hafi einnig áður verið komin fram krafa ríkisvaldsins um hagræðingu í rekstri og tekjur stefnda höfðu lækkað. Til að mæta þessari kröfu hafi  stefndi ákveðið að lækka greiðslur vegna aksturs starfsmanna á árinu 2009.  Hafi stefndi metið það svo að frekar ætti að lækka umframkjör starfsmanna fremur en að beita almennri lækkun launa eða breyta starfshlutföllum starfsmanna til lækkunar.

Þá sé krafist sýknu af dómkröfum stefnanda á þeim grundvelli að þar sem ákvörðun stefnda um að fella niður greiðslur vegna aksturs frá 1. febrúar 2010 byggist á því að samkvæmt nýju leiðarkerfi almenningsvagna, sem sé byggt upp fyrir starfsmenn stefnda, þá sé það ekki lengur skylda stefnda samkvæmt ákvæðum kjarasamnings aðila, ákvæði nr. 5.4.1, að greiða fyrir akstur starfsmanna né að greiða laun fyrir flutningstímann frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar,  þar sem vinnustaðurinn sé ekki lengur fjarri leiðum almenningsvagna. Þetta eigi sérstaklega við núna eftir þær breytingar sem urðu á almenningsvagnakerfinu á Suðurnesjum.

Með nýju leiðarkerfi almenningsvagna á Suðurnesjum hafi sérstaklega verið tekið tillit til starfsmanna stefnda hvað varðar samgöngur til og frá vinnu.  Í framlagðri tímatöflu almenningsvagnanna komi skýrt fram að almenningsvagn fari frá Reykjanesbæ og sé biðstöð við Garðvang, merkt Krókvellir í skjalinu, og sé hún staðsett beint á móti Garðvangi. 

Þá byggist sýknukrafa stefnda enn fremur á því að byggðin á Suðurnesjum sé orðin einn heildaríbúðarkjarni með fullkomnum samgöngum á milli bæjarfélaga og hverfa innan hvers sveitarfélags.  Séu því engar forsendur til að greiða starfsmönnum stefnda akstur né laun er nemi flutningstíma á milli marka næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.  

Þá vísar stefndi til þeirrar framkvæmdar sem sé á höfuðborgarsvæðinu en þar tíðkist ekki að greitt sé sérstaklega fyrir akstur eða laun er nemi flutningstíma á milli marka næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar. Eðlilegast sé að miða við framkvæmdina á því svæði þegar Suðurnesjasvæðið sé metið í þessu samhengi.  

Stefndi mótmæli því sem fram komi í stefnu að hann hafi brotið gegn ákvæðum greinar 5.4.1 í kjarasamningi og virt að vettugi kjarasamningsbundin réttindi sjúkraliðanna. Það sé ekki rétt. Stefndi hafi sent sjúkraliðum sem starfa hjá stefnda bréf og tilkynnt þeim að með breytingum á leiðum almenningsvagna væri ekki lengur fyrir hendi skilyrði til greiðslu fyrir akstur og laun er nemi flutningstíma starfsmanna.  Þá sé því mótmælt að dómur Félagsdóms í málinu nr. 5/2009 hafi fordæmisgildi þar sem engar almennisvagnasamgöngur séu á milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar og því séu málin ólík.

Hvað varðar uppsögn á kjarasamningsákvæðum þá sé stefnda ljóst að hún verði ekki gerð með bréfi einu saman. Hitt sé annað mál að starfsmenn stefnda, þ.e. sjúkraliðar, hafi fengið greiðslur samkvæmt ákvæði kjarasamningsins þegar engar almenningsvagnasamgöngur voru fyrir hendi á milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Það hafi breyst með nýju samgöngukerfi sem hafi verið sett á stofn á árinu 2009 og síðan fullhannað þann 1. september 2009. Á grundvelli þess hafi verið ákveðið að tilkynna starfsmönnum stefnda, þ.e. stefnendum, þessa breytingu og niðurfellingu á greiðslum vegna aksturs og launa í flutningstíma. Einhliða uppsögnin byggist á því að ákvæði kjarasamningsins eigi ekki lengur við um starfsmenn stefnda, þ.e. sjúkraliðana. Því sé mótmælt að stefndi hafi brotið gegn kjarasamningnum með einhliða ákvörðun sinni að fella niður umframkjör starfsmanna sinna þar sem skilyrði þeirra voru ekki lengur fyrir hendi.  

Stefndi vísar, kröfum sínum til stuðnings, til almennra reglna vinnuréttar um gagnkvæma skyldu atvinnurekanda og starfsmanns til að lúta ráðningarsamningi aðila. Hvað varðar málskostnaðarkröfu stefnda er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í grein 5.4.1 í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands segir að vinni starfsmaður fjarri leiðum almenningsvagna skal vinnuveitandi sjá honum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða honum ferðakostnað. Teljist slíkar ferðir til vinnutíma, að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.

Fyrir liggur að fram til ársins 2009 greiddi stefndi þeim sjúkraliðum ferðakostnað sem búsettir voru utan Garðs. Hinn 15. febrúar 2009 voru þessar greiðslur lækkaðar en felldar niður frá og með 1. febrúar 2010.

Eins og viðurkennt er af hálfu stefnda í greinargerð hans verður kjarasamningsákvæði ekki sagt upp einhliða með bréfi. Stefndi kveðst hins vegar byggja sýknukröfu sína á því að umdeilt kjarasamningsákvæði eigi ekki lengur við þar sem nýtt samgöngukerfi hafi verið tekið í notkun og verið fullhannað hinn 1. september 2009.     

Almenningsvagnar fara 10 ferðir á dag á milli Reykjanesbæjar og Garðs. Enda þótt reynt hafi verið, með samkomulagi við stjórnendur á Garðvangi, að láta ferðir vagnanna falla að vaktaskiptum hjá stefnda, liggur fyrir, þegar borin er saman tímatafla almenningsvagnanna og yfirlit yfir vaktir hjá stefnda, að ferðir vagnanna eru of stopular til þess að unnt sé að víkja með öllu frá ákvæðum greinar 5.4.1 í kjarasamningi.  Einkum á þetta við um lok kvöldvakta og upphaf næturvakta. Finnbogi Björnsson, framkvæmdastjóri fyrir dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, sem rekur Garðvang, bar fyrir dómi að stjórnendum hafi alltaf verið ljóst að almenningsvagnar myndu ekki geta dekkað allar vaktir og öll vaktaskipti.  Það takist ekki seint á kvöldin og um helgar en þá séu ferðirnar aðeins færri.  Kvað hann stjórnendum vera ljóst að ekki væri hægt að fella þessar greiðslur niður í öllum tilvikum. Þegar áætlunarvagnar gangi ekki verði að grípa til annarra ráða.  Þessi afstaða kemur einnig fram í bréfi stefnda, dags. 29. október 2009, til sjúkraliðanna en þar segir: „Ljóst virðist þó að samkomulags verður að leita við starfsmenn vegna einstakra vakta.“ Þrátt fyrir þessa afstöðu stjórnenda liggur fyrir, samkvæmt framburði Finnboga, að sjúkraliðar hafa ekki fengið greiddan ferðakostnað frá 1. febrúar 2010. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að samkomulags hafi verið leitað við stefnendur um þessi atriði.

Telja verður að ákvæði greinar 5.4.1 í kjarasamningi aðila eigi við um þann ferðakostnað sem stefnendur hafa fengið greiddan enda ekki sýnt fram á að sú tilhögun hafi við annan grundvöll að styðjast. Er því lagt til grundvallar að um starfskjör stefnenda fari samkvæmt kjarasamningsákvæði þessu. Í ljósi þess, sem að framan er rakið, telst sú einhliða ákvörðun stefnda að hætta að greiða umræddum starfsmönnum ferðakostnað frá og með 1. febrúar 2010 andstæð greindu kjarasamningsákvæði og samrýmist hún heldur ekki venjubundinni framkvæmd þess.

Í greinargerð stefnda segir að með bréfi, 27. janúar 2009, hafi stefndi ákveðið að taka upp nýtt viðmið á greiddum kílómetrum vegna aksturs sjúkraliða á Garðvangi. Af því verður ráðið að fyrir þann tíma hafi greiðslur verið miðaðar við ákveðinn kílómetrafjölda. Í bréfi sínu 27. janúar 2009 til stafsmanna segir stefndi að nauðsynlegt sé að draga úr kostnaði og af þeim sökum hafi verið tekin ákvörðun um að lækka greiðslur vegna aksturs. Með vísan til framanritaðs þykir þessi röksemdafærsla ekki réttlæta þá einhliða ákvörðun stefnda að lækka greiðslur vegna ferðakostnaðar sem tíðkast höfðu fram að þeim tíma. Telst stefndi með þessari ákvörðun sinni hafa brotið gegn ákvæði 5.4.1 í kjarasamningi aðila.

Í samræmi við kjarasamningsákvæði þetta verður fallist á þá kröfu stefnanda að  viðurkennt verði að ferðir til og frá vinnustað teljist til vinnutíma að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda teknar til greina, eins og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að ákvarðanir Garðvangs, sem tilkynntar voru sjúkraliðum með bréfi, dags. 27. janúar 2009, um lækkun greiðslna vegna aksturs frá 15. febrúar 2009, og með bréfi, dags. 29. október 2009, um að fella niður greiðslur vegna aksturs frá og með 1. febrúar 2010, eru andstæðar grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Enn fremur er viðurkennt að sjúkraliðar, sem starfa á Garðvangi í Garði, en eru búsettir í Reykjanesbæ, Sandgerði eða Vogum, eiga, samkvæmt grein 5.4.1 í kjarasamningi Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, rétt á því að stefndi sjái þeim fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiði þeim ferðakostnað og að slíkar ferðir teljist til vinnutíma að því er nemur flutningstíma frá mörkum næsta aðalíbúðarsvæðis til vinnustaðar.   

Stefndi, Garðvangur, greiði stefnanda, Sjúkraliðafélagi Íslands, 300.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Arnfríður Einarsdóttir

Kristjana Jónsdóttir

Gísli Gíslason

Guðni Á. Haraldsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira