Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 346/2018 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsókn kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og endursenda hann til Svíþjóðar er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 346/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050013

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. maí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur þann [...]og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 4. mgr. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr., 13. gr., 15. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands þann 1. nóvember 2017 og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi daginn eftir, eða 2. nóvember sl. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 1. nóvember sl., kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð, Noregi og Hollandi. Þann 15. nóvember 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 24. nóvember 2017 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 30. apríl 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 7. maí 2018 og kærði kærandi ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 23. maí 2018, ásamt fylgigögnum. 

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Flutningur kæranda til Svíþjóðar fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við meðferð málsins hefði kærandi haldið því fram að hann væri fæddur þann [...]. Þar sem engin gögn hefðu legið fyrir í málinu sem staðreynt gætu réttan aldur hans hefði verið óskað eftir því að hann undirgengist aldursgreiningu. Kærandi hefði samþykkt það og hefði greiningin farið fram þann 12. janúar 2018. Aldursgreiningin hefði falist í mati á læknis- og tannlæknisfræðilegri sjúkrasögu og klínískri skoðun á tönnum og munnholi. Samkvæmt niðurstöðum aldursgreiningarinnar væri kærandi eldri en 18 ára. Að mati Útlendingastofnunar hefði gætt ósamræmis í framburði kæranda varðandi aldur hans og þá hefði ekkert komið fram í málinu sem væri til þess fallið að hnekkja niðurstöðu aldursgreiningar. Taldi Útlendingastofnun óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar að kærandi væri eldri en 18 ára.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur þann [...]. Við kynningu á niðurstöðum aldursgreiningar hafi kærandi greint frá því að hann hafi gefið upp fæðingardaginn [...] hjá lögreglu en fyrir mistök hafi ártalið [...] verið skráð. Í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi gefið upp sama fæðingardag, þ.e. [...], þar sem hann hafi viljað gefa upp sömu dagsetningu og skráð hafi verið í Svíþjóð enda myndu íslensk stjórnvöld fá þær upplýsingar frá sænskum stjórnvöldum. Þar sem kærandi hafi ekki ætlað sér að dvelja á Íslandi hafi hann ekki gefið upp réttan fæðingardag fyrr en í ráðgjafarviðtali með talsmanni. Kærandi kveður að hann komi frá þorpi í [...] þar sem hann hafi búið ásamt móður sinni og tveimur systrum. Móðir kæranda hafi greint systkinunum frá því hvenær þau væru fædd og þess vegna vissi hann að fæðingardagur hans væri [...].

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann hafi gengið í trúarskóla í [...] sem hafi byggt á gildum [...]. Kennari hans, sem skömmu síðar hafi orðið höfðingi þorpsins, hafi hvatt nemendur til að ganga til liðs við [...]. Í kjölfarið hafi kærandi hætt að mæta í skólann, fyrir tilstuðlan móður sinnar. Dag einn hafi framangreindur kennari mætt heim til kæranda, ásamt nokkrum hermönnum úr röðum samtakanna, og óskað eftir því að fá hann í þeirra raðir. Kærandi og móðir hans hafi neitað en mennirnir hafi tekið hann með valdi, bundið fyrir augu hans og hent honum í aftursætið á bíl. Þá hafi hann verið barinn með riffilskafti og handleggsbrotnað þegar hann hafi borið hendurnar fyrir sig. Hann hafi hvorki fengið aðhlynningu né lyf í kjölfarið og finni enn fyrir sársauka. Kærandi kveður að hann hafi verið [...] ára gamall á þessum tíma. Hann hafi verið í haldi [...] í þrjá mánuði, þar sem [...]. Á morgnana hafi þeir verið vaktir snemma og [...] hafi verið refsað líkamlega. Þá hafi kærandi verið hluti af [...] samtakanna. Kærandi kveður að hann hafi náð að flýja þegar stjórnarherinn hafi ráðist inn í búðirnar og bardagi hafi brotist út. Hann hafi þurft að ganga alla nóttina til að komast heim til sín og í kjölfarið hafi móðir hans hvatt hann til að yfirgefa [...]. Kærandi hafi fengið aðstoð nágranna til að flýja landið en flóttinn hafi verið erfiður og hann hafi lent í höndum alls konar fólks, ekki fengið nóg að borða og komið hafi verið fram við hann eins og skepnu.

Kærandi kveður að hann hafi komið til Svíþjóðar í júní 2015. Þar hafi hann gengið í skóla og liðið vel í fyrstu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hann lagt fram skólaskírteini og einkunnablað frá Svíþjóð þar sem hans rétti fæðingardagur sé skráður. Kærandi kveður að skráðum aldri hans hafi verið breytt í Svíþjóð en hann hafi aldrei fengið skýringu á ástæðum þess. Þá hafi hann farið í aldursgreiningu í Svíþjóð en ekki verið upplýstur um niðurstöður hennar. Allt hafi breyst í kjölfar þess að sænsk yfirvöld hafi breytt fæðingardegi hans. Hann hafi fengið synjun á umsókn sinni þar í landi og misst fósturfjölskyldu sína. Kærandi kveður að hann eigi engan að í Svíþjóð og eigi sér enga framtíð þar. Þá óttist hann endursendingu til [...].

Hvað líkamlegt heilsufar varðar lýsir kærandi framangreindu handleggsbroti og kveðst vera með fleiri áverka á líkamanum. Að öðru leyti sé hann við ágæta líkamlega heilsu. Hann kveður andlegt ástand sitt bágborið, hann sofi ekki heilu næturnar, glími við einbeitingarskort og sé ófær um að halda uppi samræðum við fólk sökum þess. Fyrir utan erfiða lífsreynslu í haldi [...] og á flótta hans hafi hann fengið fregnir af því að fjölskylda hans í [...] hafi látist sökum mikillar fátæktar. Framangreindir atburðir hafi falið í sér gríðarleg áföll sem hann hafi ekki notið aðstoðar við að takast á við. Niðurstöður skimunarlista, sem lagður hafi verið fyrir kæranda, hafi gefið til kynna alvarlega [...].

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð byggir kærandi einkum á 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, um að aðildarríki þar sem fylgdarlaust barn leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd skuli bera ábyrgð á umsókninni. Í því sambandi leggur kærandi fram í greinargerð beiðni um endurmat á aldri og kveður að skort hafi á rökstuðning Útlendingastofnunar vegna ákvörðunar um aldur, enda teljist slík ákvörðun til stjórnvaldsákvörðunar. Þá gerir kærandi athugasemd við niðurstöður aldursgreiningarinnar en í þeim komi fram að [...]. Að mati kæranda sé framsetning í skýrslu tannlækna um þetta atriði óforsvaranleg og gefi til kynna að niðurstaða aldursgreiningarinnar byggist á líkum sem séu órökstuddar. Kærandi gerir athugasemd við framangreint með vísan til fræðsluerindis sem tannlæknadeild Háskóla Íslands hafi staðið fyrir á dögunum, [...]. Því sé niðurstaða tannlæknaskýrslunnar á skjön við það sem fram hafi komið í umræddu fræðsluerindi. Enn fremur gerir kærandi athugasemd við breytta framsetningu á niðurstöðum aldursgreininga, sem hvorki hafi verið tilkynnt formlega né rökstudd með fullnægjandi hætti. Af jafnræðisreglunni leiði að leysa skuli úr sambærilegum málum á grundvelli sömu sjónarmiða, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Verði breyting á stjórnsýsluframkvæmd skuli hún gerð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, vera almenn og tilkynnt fyrir fram þannig að aðilar sem máli snerti geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna. Þá vísar kærandi til 39. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 en þar komi fram að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásögn hans af ævi sinni, en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Að mati kæranda hafi niðurstaða aldursgreiningar verið lögð til grundvallar ákvörðun um aldur en heildarmat á aldri hans hafi ekki farið fram í samræmi við framangreindan áskilnað. Þá vísar kærandi til lögskýringargagna að baki lögum um útlendinga nr. 80/2016 og 1. mgr. 113. gr. laganna, þar sem fram komi að niðurstaða líkamsrannsóknar skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Þá fjallar kærandi ítarlega í greinargerð sinni um ætlaða ónákvæmni röntgenrannsókna á tönnum til ákvörðunar á aldri og vísar í því sambandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu Evrópuráðsins um mat á aldri (Age Assessment: Council of Europe member states‘ policies, procedures and practices respectful of children‘s rights in the context of migration). Þá vísar kærandi, kröfu sinni til stuðnings, til 1., 2., 3., 8., 12., 14., 16. og 37. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Þá byggir kærandi kröfu sína á því að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans skuli tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, svo og lögskýringargagna að baki lögum nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016. Þá kveður kærandi að reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, hafi ekki fullnægjandi lagastoð enda gangi ákvæði hennar þvert á markmið laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. einkum 4. mgr. 2. gr. laganna. Kærandi vísar jafnframt til meginreglna íslenskrar stjórnskipunar og réttarfars um rétthæð réttarheimilda, en almenn lög sem sett séu af Alþingi og staðfest af forseta með undirritun séu æðri stjórnvaldsfyrirmælum. Enn fremur vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 410/2017 frá 11. júlí 2017. Af úrskurðinum sé ljóst að kærunefnd hafi, við túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, gert mun minni kröfur en gerðar séu í framangreindri breytingarreglugerð við mat á heilsufari og sérstökum ástæðum.

Kærandi vekur enn fremur athygli á úrskurðum kærunefndar nr. 582/2017 frá 24. október 2017, nr. 553/2017 frá 10. október 2017 og nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, en kærandi telji framangreind mál sambærileg hans máli. Heildstætt mat verði að fara fram á einstaklingsbundnum aðstæðum hans í Svíþjóð, við mat á því hvort hann muni eiga erfitt uppdráttar komi til endursendingar þangað. Kærandi hafi verið á flótta frá unga aldri, hafi upplifað gróft ofbeldi og sé andlega vanheill.

Þá gerir kærandi í greinargerð sinni margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, einkum niðurstöðu stofnunarinnar um aldur hans. Framangreind aldursgreining tannlækna sé til að mynda sett fram án nokkurra vikmarka eða öryggisbils. Þá hafi kærandi ekki fengið að kynna sér öll gögn málsins, þ. á m. upplýsingar frá norskum og sænskum stjórnvöldum, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, og ekki notið andmælaréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kæranda svari Útlendingastofnun að takmörkuðu leyti athugasemdum hans varðandi röntgenrannsóknir á tönnum og svo virðist sem stofnunin hafi ekki framkvæmt nokkra sjálfstæða rannsókn þar um. Gerir kærandi m.a. athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki aflað gagna frá Svíþjóð um aldursgreiningu á kæranda þar í landi. Enn fremur sé rökstuðningi stofnunarinnar verulega áfátt, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, enda sé tilvísunum til lagaheimilda og meginsjónarmiða sem ráðandi hafi verið við mat stofnunarinnar ábótavant. Þá gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á stöðu hans og sérþörfum, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, og vísar í því sambandi til framlagðra komunótna frá Göngudeild sóttvarna, niðurstaðna fyrrgreinds skimunarlista sem lagður hafi verið fyrir hann og úrskurða kærunefndar í málum nr. 316/2017 frá 2. júní 2017 og nr. 369/2017 frá 27. júní s.á.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Mat á aldri sbr. 113. gr. laga um útlendinga

Kærandi byggir einkum á því að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli þess að hann sé fylgdarlaust og ólögráða barn, sbr. 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Við komu kæranda til landsins gaf hann upp fæðingardaginn [...], sem hann kveður að hafi fyrir mistök verið skráð sem [...]. Í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun, þann 24. nóvember 2017, gaf hann upp sama fæðingardag, þ.e. [...]. Aftur á móti gaf kærandi í ráðgjafarviðtali hjá talsmanni, þann 11. desember 2017, upp fæðingardaginn [...]. Kærandi kveður að hann hafi greint rangt frá fæðingardegi sínum við komuna til landsins svo að hann yrði í samræmi við fæðingardaginn sem skráður hafi verið í Svíþjóð.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun aflaði stofnunin gagna um kæranda frá norskum og hollenskum stjórnvöldum en í þeim ríkjum er kærandi skráður með fæðingardaginn [...]. Í viðtökusamþykki frá Svíþjóð kemur fram að kærandi sé skráður þar í landi með fæðingardaginn [...]. Í bréfi sem Útlendingastofnun barst frá sænsku útlendingastofnuninni (s. Migrationsverket), dags. 17. janúar 2018, kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram skilríki við komuna til Svíþjóðar en gefið upp fæðingardaginn [...]. Hann hafi því í upphafi málsmeðferðar sænskra stjórnvalda verið skráður sem fylgdarlaust barn. Rannsókn sænsku útlendingastofnunarinnar hafi hins vegar leitt í ljós að kærandi væri fullorðinn og hafi skráðum fæðingardegi hans verið breytt í [...].

Svo sem fram hefur komið undirgekkst kærandi aldursgreiningu, sbr. 113. gr. laga um útlendinga, þann 12. janúar 2018, sem fólst í rannsókn tannfræðilegra gagna. Niðurstaða greiningarinnar er mat tannlækna að umsækjandi sé eldri en 18 ára. Vegna athugasemda í greinargerð varðandi niðurstöður umræddrar rannsóknar tekur kærunefnd fram að nefndin telur sig ekki hafa forsendur til að draga í efa að niðurstöður sérfræðilegs mats á tönnum séu byggðar á forsvaranlegum ályktunum á læknisfræðilegum gögnum.

Til stuðnings framburði um aldur sinn hefur kærandi lagt fram skólaskírteini og einkunnablað frá sænskum skóla, þar sem hann stundaði nám, en þar er fæðingardagur kæranda skráður [...]. Í ljósi framangreindra skýringa frá sænsku útlendingastofnuninni er það mat kærunefndar að þau gögn geti ekki haft mikið vægi við mat á aldri kæranda.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi gefið upp tvo mismunandi fæðingardaga hjá íslenskum stjórnvöldum, bæði [...] og [...]. Í málinu liggja fyrir gögn, annars vegar aldursgreining og hins vegar gögn frá sænskum, norskum og hollenskum yfirvöldum, sem gefa til kynna að kærandi sé fullorðinn. Þegar litið er með heildstæðum hætti til gagna málsins, þ.m.t. misvísandi framburðar kæranda um aldur sinn, telur kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi sé eldri en 18 ára. Að framangreindu virtu fellur mál kæranda ekki undir 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu hjá Útlendingastofnun, sem áhrif hefði á mál hans. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einhleypur og barnlaus karlmaður. Í endurritum viðtala við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 24. nóvember og 20. desember 2017 og 7. mars 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi og misþyrmingum, hann sé með áverka á líkamanum og glími við verki vegna handleggsbrots sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki en ekki fengið aðhlynningu við á sínum tíma. Þá kveður kærandi að andlegt heilsufar hans sé bágborið, hann sé ringlaður, andlega [...] og glími við einbeitingarskort, hvílist og nærist illa og óhugnanlegar hugsanir úr fortíðinni leiti á hann. Niðurstaða kvarðaprófs (e. refugee health screener), sem Útlendingastofnun lagði fyrir kæranda þann 7. mars sl., gefur til kynna að kærandi glími við [...]. Í framlögðum komunótum kæranda frá Göngudeild sóttvarna, dags. frá 8. nóvember 2017 til 7. maí 2018, kemur m.a. fram að kærandi líti út fyrir að vera almennt heilbrigður við skoðun. Hann sofi illa og fái miklar martraðir. Þá kemur fram að kærandi hafi orðið vitni að óhugnanlegum atburðum í heimaríki sínu, þ. á m. [...]. Í framlögðum komunótum sálfræðings, dags. 7. maí 2018, kemur m.a. fram að kærandi sé bugaður og vonlaus.Framburður kæranda ber með sér að hann sé þolandi ofbeldis og glími við andlega vanlíðan. Að mati kærunefndar gefa gögn málsins, þ. á m. komunótur frá Göngudeild sóttvarna, hins vegar ekki til kynna að andlegir og líkamlegir kvillar kæranda eða afleiðingar áfalla sem hann kveðst hafa orðið fyrir nái því alvarleikastigi að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda séu aðstæður hans ekki þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Freedom in the World 2018 – Sweden (Freedom House, 28. maí 2018);
  • Sweden 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 28. mars 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Annual Report on the situation of Asylum in the European Union 2016 (European Asylum Support Office, 5. júlí 2017);
  • Good Advice for Asylum seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, janúar 2017);
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016);
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í framangreindum gögnum kemur fram að sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Þá kemur fram á áðurnefndri heimasíðu sænsku útlendingastofnunarinnar og í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sé tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Sveitarfélagið sem umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í hefur milligöngu um að útvega umsækjanda lækni og aðra heilbrigðisþjónustu við hæfi. Þá er tekið tillit til þarfa einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu, þ. á m. að því er varðar sérfræðiaðstoð. Greiða þarf vægt komugjald, að jafnaði um 50 sænskar krónur, vegna heimsóknar á heilsugæslu en innlögn á spítala er umsækjanda að kostnaðarlausu. Fari kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fram úr ákveðinni upphæð er hægt að óska eftir fjárhagsaðstoð frá ríkinu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að í Svíþjóð sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. IV. kafli sænsku útlendingalaganna (s. Utlänningslagen 2005:716). Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð sænskra yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur þeirra sé ekki brotinn og að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendir til þess að umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Svíþjóð eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Svíþjóð bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæður kæranda hafa þegar verið raktar. Samkvæmt framburði kæranda og upplýsingum frá sænsku útlendingastofnuninni, dags. 17. janúar 2018, hefur kærandi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á fyrsta stjórnsýslustigi í Svíþjóð en bíður nú niðurstöðu kærumeðferðar.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum um aðstæður í Svíþjóð verður ráðið að óttist kærandi um öryggi sitt eða verði fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar geti hann leitað ásjár sænskra yfirvalda vegna þess.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi þolandi ofbeldis og glímir við andlega vanlíðan, svo sem fram hefur komið. Það er þó mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Svíþjóð, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér fullnægjandi og aðgengilegrar heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 7. mars 2018 hvorki eiga fjölskyldu né vini hér á landi, en hann hafi eignast nokkra kunningja eftir komuna hingað til lands. Að mati kærunefndar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík sérstök tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 2. nóvember 2017.

Í greinargerð kæranda er til stuðnings kröfu hans m.a. vísað til þess að aðstæður í máli kæranda séu sambærilegar aðstæðum í málum sem lauk með úrskurðum kærunefndar nr. 553/2017 frá 10. október 2017 og nr. 582/2017 frá 24. október 2017. Að mati kærunefndar benda gögn málsins ekki til þess að veikindi kæranda séu þess eðlis og jafnalvarleg og í framangreindum málum og fellst ekki á að framangreindir úrskurðir hafi fordæmisgildi í þessu máli. Þá vísar kærandi, kröfu sinni til stuðnings, til úrskurðar kærunefndar nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, þar sem fallist var á kröfu kæranda um að taka mál hans til efnismeðferðar á grundvelli 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í síðastgreinda málinu var um að ræða einstakling sem ekki var hægt að útiloka, á grundvelli gagna málsins, að hefði verið barn að aldri við komuna til landsins og eru málsatvik í því máli að þessu leyti í grundvallaratriðum ekki sambærileg og atvik í máli kæranda.

Um athugasemdir kæranda við breytta framsetningu á niðurstöðum rannsókna tannlæknisfræðilegra gagna vegna aldursgreininga vísast til umfjöllunar í úrskurði kærunefndar nr. 422/2017 frá 20. júlí s.á., en þar kemur m.a. fram að fyrri túlkun á niðurstöðum aldursgreiningarskýrslna hafi verið tölfræðilega röng þar sem staðalfráviki einnar aldursgreiningaraðferðar hafi verið beitt á meðaltal annarrar greiningaraðferðar eða aðferða til að fá út niðurstöðu um aldur.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi varakröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr., 13. gr., 15. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir fjölda athugasemda við ákvörðun Útlendingastofnunar og ber þar helst að nefna athugasemdir við aldursgreiningu í máli hans og birtingu niðurstaðna aldursgreiningar. Kærandi kveður að við mat á aldri hans hafi verið byggt á gögnum sem kærandi hafi ekki haft aðgang að við meðferð málsins og því hafi verið brotið gegn upplýsingarétti hans og andmælarétti. Þá gerir kærandi athugasemd við notkun röntgenrannsókna á tönnum við mat á aldri og kveður að ákvörðun Útlendingastofnunar þar um hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur þess efnis að heildstætt mat skuli liggja til grundvallar ákvörðun á aldri.

Vegna athugasemdar kæranda tekur kærunefnd í fyrsta lagi fram að samkvæmt 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga skal framkvæma aldursgreiningu, sbr. 113. gr. laganna, á umsækjanda sem kveðst vera fylgdarlaust barn, vakni grunur um að hann sé lögráða. Í 113. gr. laga um útlendinga er fjallað um líkamsrannsókn til að ákvarða aldur. Framangreind lagaákvæði leggja þær skyldur á stjórnvöld að fara fram á líkamsrannsókn ef grunur leikur á um að umsækjandi, sem kveðst vera fylgdarlaust barn, sé í reynd lögráða. Samkvæmt lögum um útlendinga er því gert ráð fyrir að slík líkamsrannsókn fari fram og að hún sé þáttur í heildarmati á aldri, enda sé niðurstaðan metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga. Í ljósi lagagrundvallar málsins telur kærunefnd ekki tilefni til að gera athugasemd við að líkamsrannsókn hafi farið fram á tönnum kæranda þegar hann kvaðst vera fylgdarlaust barn enda hafi sannarlega verið grunur um að kærandi væri lögráða í ljósi fyrri framburðar hans hjá stjórnvöldum og annarra gagna sem lágu fyrir í málinu.

Líkt og fram kom í ákvörðun Útlendingastofnunar voru niðurstöður líkamsrannsóknar á kæranda, sem fram fór þann 12. janúar 2018, á þá leið að hann væri eldri en 18 ára. Í ákvörðuninni er jafnframt gerð grein fyrir framburði kæranda og öðrum gögnum varðandi aldur kæranda, þ. á m. upplýsingar sem Útlendingastofnun bárust frá Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Að mati kærunefndar ber rökstuðningur stofnunarinnar ekki annað með sér en að farið hafi fram heildstætt mat á aldri kæranda og komist að niðurstöðu um hann í samræmi við ákvæði laga um útlendinga. Þá er að mati kærunefndar ekki tilefni til að gera athugasemd við rökstuðning ákvörðunarinnar að þessu leyti. Vegna athugasemda í greinargerð talsmanns telur kærunefnd jafnframt rétt að árétta sérstaklega að rökstuðningur ákvörðunar Útlendingastofnunar, þ.m.t. þær tilvitnanir í rökstuðning sem fram koma í greinargerð, benda að mati nefndarinnar ekki til þess að af hálfu Útlendingastofnunar sé byggt á því að röntgenrannsóknir á tönnum veiti nákvæma niðurstöðu um aldur eða að stofnuninni sé ekki kunnugt um skýrslur um slíkar rannsóknir.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þegar mál hefst að frumkvæði aðila máls, svo sem þegar einstaklingur leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd, ber aðili að einhverju leyti ábyrgð á að leggja fram gögn sem með sanngirni má ætla að hann geti lagt fram án þess að það íþyngi honum um of. Ábyrgð stjórnvalda er þá að veita aðila fullnægjandi leiðbeiningar um framlagningu gagnanna, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Í máli þessu liggur fyrir að kæranda, sem naut aðstoðar talsmanns, sbr. 30. gr. laga um útlendinga, var ítrekað leiðbeint um framlagninu frekari gagna, þ.m.t. gagna um aldursgreiningu sem fór fram í Svíþjóð og læknisfræðileg gögn er gætu haft þýðingu við ákvörðun í máli hans. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að gera athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar.

Kærandi ber fyrir sig að við mat á aldri hans hafi m.a. verið stuðst við gögn frá norskum stjórnvöldum sem kæranda hafi ekki verið kynnt fyrir birtingu aldursgreiningar, þann 5. febrúar sl., og hafi því ekki haft ráðrúm til að andmæla. Ákvörðun um aldur sé stjórnvaldsákvörðun og því hafi Útlendingastofnun borið að kynna honum gögnin fyrir birtingu niðurstaðna aldursgreiningar. Þá hafi í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl sl., verið vísað til gagna frá sænskum stjórnvöldum, dags. 17. janúar sl., sem kærandi hafi ekki fengið aðgang að fyrr en 22. maí sl., eftir að Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli hans.

Af 13. gr. stjórnsýslulaga leiðir að þegar aðila er ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er stjórnvöldum almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Þótt aðila sé kunnugt um tilvist tiltekinna upplýsinga kviknar skylda stjórnvalds til að veita honum sérstakt færi á að koma að andmælum ef slíkar upplýsingar bætast við stjórnsýslumál án þess að honum sé kunnugt um það.

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Stjórnvaldsákvörðun er ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni er kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Þótt aldursgreining á kæranda hafi verið hluti af málsmeðferð Útlendingastofnunar fól hún ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á stjórnsýslumál sem hefst með umsókn um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framansögðu var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um áðurnefnd gögn frá norskum stjórnvöldum áður en ákvörðun var tekin í máli hans og eru því ekki tilefni til að gera athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar að því leyti.

Þá liggur fyrir að Útlendingastofnun aflaði upplýsinga frá sænskum yfirvöldum er varða aldur kæranda. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi var spurður út í efni umrædds skjals af hálfu Útlendingastofnunar þegar honum voru kynntar niðurstöður aldursgreiningar, þann 5. febrúar sl., og fékk því tækifæri til að koma að andmælum vegna þess. Þótt betur hefði farið á því að kæranda hefði verið veitt afrit af umræddu skjali, á sama tíma og honum var veitt afrit af öðrum gögnum málsins hjá Útlendingastofnun, er að mati kærunefndar ótvírætt að honum var kynnt efni skjalsins í viðtali og veitt færi á að koma að andmælum vegna þess hjá Útlendingastofnun. Er því ekki tilefni til að gera athugasemd við meðferð málsins að þessu leyti.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður lesið að stofnunin hafi lagt mat á það hvort kærandi komi til með að fá vandaða og efnislega málsmeðferð í Svíþjóð og hvort hann standi frammi fyrir raunverulegri hættu á því að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Þá telji stofnunin að ekki hafi verið sýnt fram á að sænsk yfirvöld muni ekki veita kæranda þá vernd sem honum sé áskilin í alþjóðlegum skuldbindingum Svíþjóðar á sviði mannréttinda. Þá kemur fram í ákvörðuninni að stofnunin hafi byggt niðurstöðu í máli kæranda á gögnum sem aflað var við meðferð málsins, þ. á m. framlögðum komunótum frá Göngudeild sóttvarna, skimunarlista, niðurstöðu aldursgreiningar og skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd og málsmeðferð í móttökuríkinu, Svíþjóð. Sem fyrr segir er það mat kærunefndar að ákvörðun um aldur sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og var Útlendingastofnun því ekki skylt að rökstyðja hana sérstaklega. Að mati kærunefndar kemur fram fullnægjandi rökstuðningur í endanlegri ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Er það því mat kærunefndar að rökstuðningur Útlendingastofnunar hafi verið í samræmi við áskilnað 22. gr. stjórnsýslulaga.

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018 voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Sem fyrr segir telur kærandi breytingarreglugerðina skorta lagastoð þar sem ákvæði hennar gangi gegn markmiði laga um útlendinga, sbr. einkum 4. mgr. 2. gr. laganna, og vísar kærandi jafnframt til sjónarmiða um rétthæð réttarheimilda. Þá kveður kærandi að kærunefnd hafi gert vægari kröfur um alvarleika við mat á því hvort heilsufar teljist til sérstakra ástæðna, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og vísar í því sambandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 410/2017 frá 11. júlí 2017.

Í 4. mgr. 2. gr. laga um útlendinga kemur fram að markmið laganna sé að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi. Þá er það mat kærunefndar að gildistaka reglugerðarinnar hafi ekki falið í sér íþyngjandi breytingar á réttarstöðu kæranda.

Frávísun

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands þann 1. nóvember 2017 og sótti um alþjóðlega vernd daginn eftir, eða 2. nóvember sl. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Svíþjóðar ekki síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda hann til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira