Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

nR. 132/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 132/2019

Miðvikudaginn 3. júlí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. mars 2019 um upphafstíma milligöngu um greiðslu framlags vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um milligöngu um framlag vegna náms frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. júlí 2017 með umsókn X 2019. Með bréfi, dags. 28. mars 2019, samþykkti stofnunin að veita kæranda framlag vegna náms frá X mars 2018 til X 2018 en synjaði kæranda um greiðslur lengra aftur í tímann á þeirri forsendu að ekki væri heimilt að greiða framlag vegna náms lengra en eitt ár aftur í tímann.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. apríl 2019. Með bréfi, dags. 4. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 11. apríl 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. maí 2019, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur en ráða má af kæru að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að greiða kæranda framlag vegna náms frá X júlí 2017.

Í kæru segir að sótt hafi verið um framlag vegna náms X 2018 og hafi þá verið sótt um ár aftur í tímann. Beðið hafi verið í rétt tæplega ár eftir úrskurði frá sýslumanni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á milligöngu framlags vegna náms til kæranda lengra en 12 mánuði aftur í tímann.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. mars 2019, hafi kæranda verið synjað um milligöngu á framlagi vegna náms lengra aftur í tímann en 12 mánuði, einungis hafi verið samþykkt að hafa milligöngu á framlaginu frá X mars 2018 til X 2018. Áður hafi Tryggingastofnun samþykkt að hafa milligöngu á framlagi vegna náms til kæranda frá X 2018, sbr. bréf dags. 2. nóvember 2018.

 

Ákvæði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveði á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

 

Í 4. mgr. sömu greinar segi síðan að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða meðlag aftur í tímann í allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni.

 

Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé kveðið á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar. Þar segi að Tryggingastofnun sé skylt að greiða rétthafa greiðslna, samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

 

Í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar segi að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar. Það hafi verið gert með reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Í 7. gr. reglugerðarinnar í III. kafla segi að heimilt sé að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berist Tryggingastofnun, þ.e. umsókn og meðlagsákvörðun.

 

Í 10. gr. reglugerðarinnar sé síðan fjallað um framlag vegna menntunar eða starfsþjálfunar. Þar segi að Tryggingastofnun skuli greiða ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ef ungmennið leggi fram úrskurð sýslumanns eða samning staðfestan af honum um að foreldri þess skuli greiða því framlag til menntunar eða starfsþjálfunar. Um framkvæmd og greiðslufyrirkomulag fari samkvæmt II. og III. kafla reglugerðarinnar.

 

Kærandi hafi sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á framlagi vegna náms með rafrænni umsókn, móttekinni X 2019. Kærandi hafi óskað eftir greiðslum í samræmi við úrskurð Sýslumannsins á [...], dags. X 2019, sem hafi borist á sama tíma og umsókn. Í úrskurðarorði komi fram að faðir kæranda skuli greiða kæranda framlag vegna náms frá 1. júlí 2017 til X 2018.

 

Tryggingastofnun ríkisins hafi áður samþykkt að hafa milligöngu á framlagi vegna náms til kæranda frá X 2018, sbr. rafræna umsókn, dags. 11. september 2018, og staðfestingu á samningi um framlag vegna menntunar frá Sýslumanninum á [...], dags. X 2018. Kæranda hafi verið tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 2. nóvember 2018.

 

Samkvæmt ofangreindum laga- og reglugerðarákvæðum sé Tryggingastofnun einungis heimilt að hafa milligöngu um framlag vegna náms 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem nauðsynleg gögn, þ.e. umsókn og meðlagsákvörðun, berist Tryggingastofnun. Þar sem umsókn kæranda og úrskurður Sýslumannsins á [...] hafi borist Tryggingastofnun í mars 2019 hafi stofnunin ekki haft heimild til að hafa milligöngu um greiðslu framlags vegna náms frá 1. júlí 2017 til 1. mars 2018 þar sem um sé að ræða tímabil sem sé lengra en 12 mánuði aftur í tímann. Vegna þessara skýlausu ákvæða hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að breyta ákvörðun sinni um að hafa eingöngu milligöngu á framlagi vegna náms frá 1. mars 2018 og synji því um milligöngu framlagsins lengra aftur í tímann.

 

Að gefnu tilefni beri að taka það fram að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi engin áhrif á skyldu [...] samkvæmt úrskurðinum til að greiða kæranda framlag vegna náms fyrir framangreint tímabil. Kærandi geti því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi [...].

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. mars 2019 um upphafstíma milligöngu um greiðslu framlags vegna náms kæranda. Kærandi krefst þess að Tryggingastofnun hafi milligöngu um greiðslur framlags vegna náms í samræmi við úrskurð Sýslumannsins á [...] frá X 2019. Í úrskurðinum kemur fram að kærandi eigi rétt á framlagi vegna menntunar frá [...] frá 1. júlí 2017 til X 2018.

Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til þess að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji. Í 62. gr. barnalaga, sem er að finna í IX. kafla laganna, segir að heimilt sé að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt kröfu þess frá 18 ára aldri og allt til þess er það nær 20 ára aldri.

Ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hljóðar svo:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“ 

Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun  heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni.

Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í 6. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga. Í 1. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um gildissvið hennar. Þar segir að hún taki til framkvæmdar Tryggingastofnunar ríkisins á fyrirframgreiðslu meðlags og öðrum framfærsluframlögum samkvæmt meðlagsákvörðun, samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar nr. 100/2007 setja. Í II. kafla reglugerðarinnar er fjallað um greiðslur meðlags og annarra framfærsluframlaga og í III. kafla hennar er fjallað um tímabil greiðslna. Í 7. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þau gögn sem vísað er til eru umsókn og meðlagsákvörðun, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Í 10. gr. reglugerðarinnar segir að Tryggingastofnun skuli greiða ungmenni á aldrinum 18 til 20 ára framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ef ungmennið leggur fram úrskurð sýslumanns eða samning staðfestan af honum um að foreldri þess skuli greiða því framlag til menntunar eða starfsþjálfunar. Þá segir í greininni að um framkvæmd og greiðslufyrirkomulag fari samkvæmt II. og III. kafla reglugerðarinnar.

Af framangreindum ákvæðum laga og reglugerðar má ráða að Tryggingastofnun er ekki heimilt að hafa milligöngu um greiðslur framlags vegna náms lengra aftur í tímann en tólf mánuði frá því að nauðsynleg gögn berast stofnuninni, sbr. 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 7. og 10. reglugerðar nr. 945/2009. Umsókn kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar frá X júlí 2017 og úrskurður sýslumanns barst stofnuninni X 2019. Tryggingastofnun samþykkti milligöngu um greiðslur framlags vegna náms frá X mars 2018, þ.e. tólf mánuði aftur í tímann frá því að framangreind gögn bárust. Tryggingastofnun er ekki heimilt að hafa milligöngu um greiðslu framlags vegna náms til kæranda lengra aftur í tímann.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma milligöngu á greiðslu framlags vegna náms.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hún geti sótt greiðslu framlagsins úr hendi föður síns samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Samkvæmt 66. gr. barnalaga má gera fjárnám á grundvelli dóms, dómsáttar eða úrskurðar fyrir meðlagi og öðrum greiðslum sem sýslumaður úrskurðar samkvæmt IV. og IX. kafla barnalaga. Kæranda er því bent á að hún geti leitað til sýslumanns með kröfu sína.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma milligöngu um greiðslu framlags vegna náms til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum