Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/1995

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  H Ú S A L E I G U M Á L A

 

Mál nr. 12/1995

 

Umboðsmaður leigusala. Tryggingarvíxill.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 20. nóvember 1995, beindi A, X nr. 98, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings hennar sem leigusala við B sem leigjanda, Z nr. 1, hér eftir nefnd gagnaðili, um framkvæmd leigusamnings aðilanna, dags. 6. janúar 1995.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 1. desember. Samþykkt var að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.

Greinargerð gagnaðila, dags. 3. janúar 1996, ásamt tveimur ódagsettum fylgiskjölum var lögð fram á fundi kærunefndar 17. s.m., þar sem fjallað var um málið. Samþykkt var að beina til álitsbeiðanda ósk um að tekin yrði afstaða til þeirra atriða sem þar komu fram. Svar álitsbeiðanda, dags. 4. febrúar sl. var lagt fram á fundi nefndarinnar 28. s.m. og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Með leigusamningi, dags. 6. janúar 1995, tók gagnaðili á leigu íbúð álitsbeiðanda á 2. hæð að X nr. 98. Um var að ræða tímabundinn leigusamning, frá 8. janúar 1995 til 8. júlí s.á. Fjárhæð leigu, kr. 33.000,- skyldi greiða mánaðarlega fyrsta dag hvers mánaðar og greiddi gagnaðili fyrirfram í upphafi leigutíma 3 mánuði eða samtals kr. 99.000,-.

Þá nam umsamin fjárhæð tryggingarvíxils til álitsbeiðanda, skv. 39. gr. húsaleigulaga, kr. 99.000,-.

Í leigusamningi er umboðsmaður leigusala tilgreindur C, sem mun vera bróðir álitsbeiðanda.

Gagnaðili flutti úr íbúðinni í lok maí 1995 og lýtur ágreiningur aðila að greiðslu leigu fyrir síðasta mánuð leigutímans, þ.e. 8. júní - 8. júlí 1995.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að fallist verði á að gagnaðili skuldi kr. 33.000,- í leigu fyrir tímabilið 8. júní - 8. júlí sl.

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili hafi hringt í móður álitsbeiðanda og sagt upp leigunni, í stað þess að hafa samband við skráðan umboðsmann samkvæmt leigusamningnum. Byggir álitsbeiðandi á því að móðir sín hafi ekki haft umboð til að leysa gagnaðila frá skyldum samkvæmt samningnum. Auk þess hafi gagnaðili aldrei fengið neina heimild til að sleppa síðustu leigugreiðslunni.

Álitsbeiðandi hafi í upphafi tjáð gagnaðila að æskilegra væri að haft yrði samband við bróður sinn heldur en foreldra. Ætti hann greiðara með að sinna því sem þyrfti, þar sem foreldrarnir væru búsettir á Y.

Álitsbeiðandi, sem dvalið hafi erlendis, kom heim 11. júní sl. og flutti þá í íbúðina, þar sem hún var laus. Álitsbeiðandi hafi hins vegar verið búinn að gera ráðstafanir til að gista hjá vandafólki sínu, þar sem hann taldi að íbúðin myndi vera í leigu. Álitsbeiðandi kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí að gagnaðili hafði ekki greitt leigu inn á umsaminn reikning.

Af hálfu gagnaðila er því haldið fram að móðir álitsbeiðanda hafi í upphafi leigutímans afhent gagnaðila lykla að íbúðinni, samkvæmt fyrirmælum álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi hafi látið gagnaðila fá blað með nöfnum og símanúmeri foreldra sinna, auk nafns og símanúmers bróður síns, C, og kærustu hans.

Eftir að gagnaðili tók við íbúðinni hafi komið í ljós að í henni voru munir tilheyrandi álitsbeiðanda. Hafi gagnaðili haft samband við móður álitsbeiðanda og hún látið fjarlægja munina. Á leigutímanum hafi móðirin komið til eftirlits með íbúðinni, ásamt kærustu C. Erfitt hafi verið að ná í C, en gagnaðili hafi þó tvisvar sinnum haft samband við hann út af pósti til álitsbeiðanda.

Um mánaðamótin apríl-maí sl. hafi gagnaðili haft símleiðis samband við móður álitsbeiðanda og óskað eftir að losna undan leigusamningnum í lok maí, m.a. vegna fjárhagsörðugleika. Hafi móðirin talið þetta ákjósanlegt, þar sem von væri á álitsbeiðanda erlendis frá á næstu dögum. Hafi móðirin nefnt að C myndi sækja álitsbeiðanda út á flugvöllinn. Í lok maí hafi starfsmaður Leigjendasamtakanna skoðað íbúðina og talið hana í lagi. Gagnaðili hafi því næst farið með lyklana til C og við það tækifæri hafi hann engar athugasemdir gert.

Hafi gagnaðili því haft fulla ástæðu til að líta á móðurina sem umboðsmann álitsbeiðanda í þessu máli. Álitsbeiðandi hafi flutt í íbúðina þegar hún kom heim, en engar athugasemdir gert við gagnaðila fyrr en 8. júlí sl., og þá krafist leigu fyrir umrætt tímabil.

Gagnaðili krefst þess að álitsbeiðandi skili umræddum tryggingarvíxli, enda sé ekki um neinar vanefndir á samningnum að ræða af hans hálfu.

 

III. Forsendur.

Í máli þessu er óumdeilt að við upphaf leigutímans lét álitsbeiðandi gagnaðila fá blað með nöfnum og símanúmeri foreldra sinni, auk nafns og símanúmers bróður síns, C, og kærustu hans. Gagnaðili hafði jöfnum höndum samband við bróður og móður álitsbeiðanda varðandi þau málefni sem leysa þurfti vegna leigu á íbúðinni. Þá kom móðirin, ásamt kærustu C, til eftirlits með íbúðinni, eða til að sækja tryggingarvíxil, eftir því sem álitsbeiðandi heldur fram. Engar athugasemdir voru gerðar þegar gagnaðili, í samræmi við samkomulag við móður álitsbeiðanda um lok leigutímans, skilaði lyklum að íbúðinni til C.

Þegar til þessa er litið, verður að telja að gagnaðili hafi haft fulla ástæðu til að ætla að móðir álitsbeiðanda hefði umboð til að losa gagnaðila undan leigusamningnum fyrir lok hans. Það er því álit kærunefndar að álitsbeiðandi eigi ekki rétt til leigu fyrir umkrafið tímabil, enda hafi leigutíma lokið með samkomulagi, fyrir lok upphaflega umsamins leigutíma. Með vísan til þessa verður einnig að telja að álitsbeiðanda beri að skila gagnaðila umræddum tryggingarvíxli.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi eigi ekki rétt á greiðslu kr. 30.000,- vegna leigu fyrir tímabilið 8. júní til 8. júlí 1995. Álitsbeiðanda ber að skila gagnaðila tryggingarvíxli, kr. 99.000,-.

 

 

Reykjavík, 28. febrúar 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Haraldur Jóhannsson

Benedikt Bogason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum