Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Nr. 2/2018 Stjórnsýslukæra vegna synjunar á umsókn um nýliðunarstuðning

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 29. maí 2018 kveðið upp svohljóðandi:

 

ÚRSKURÐ

 

I. Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 9. nóvember 2017, kærði [X] f.h. [Y], hér eftir nefnd kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) um synjun á umsókn um nýliðunarstuðning dags. 9. október 2017.

 

Kærandi krefst þess að ákvörðun MAST verði ógild og að tekið verði tillit til nýrra upplýsinga. MAST telur afgreiðslu málsins í samræmi við reglugerð um almennan stuðning við landbúnað nr. 1240/2016.

 

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst kæran fyrir lok kærufrests, skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

 

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti.

 

Með umsókn dags. 20. júní 2017 sótti kærandi um nýliðunarstuðning í landbúnaði. Í umsókn kæranda kom fram að kærandi hefði í lok árs 2016 eignast 33% í [Z ehf.] sem rekur búskap í [V]. Búið í [V] hafi verið í fullri eigu foreldra kæranda. Kærandi hafi undanfarið unnið talsvert við búskapinn vegna heilsubrests föður síns. Á árinu 2016 hafi verið unnið markvisst að því að kærandi ásamt bróður sínum eignuðust meirihluta í félaginu [Z ehf.] og reiknað með að þau eignuðust allt félagið í framtíðinni. Þá er í umsókninni því lýst að þegar kærandi og bróðir hennar ásamt mökum sínum komu inn í rekstur búsins, hafi verið unnið að því að stækka reksturinn og auka framleiðslu. [Z ehf.] hafi keypt viðbótar mjólkurkvóta 2016 sem námu 90 þúsund lítrum og er heildargreiðslumark búsins 271 þúsund lítrar. Þá hafi nautakjötsframleiðsla aukist. Til að ná framleiðsluaukningu hafi verið lögð áhersla á hærra afurðastig með betri og markvissari fóðrun. Vélbúnaður hafi verið keyptur notaður en endurbættur og standsettur. Þá hafi verið ráðist í aukna endurræktun túna, grænfóðurrækt og kornrækt. […] Í lok umsóknar þar sem búrekstri er lýst segir: „Umsækjandi eignaðist á síðasta ári 33% af búrekstrinum. Þetta er sú fjármögnun sem óskað er eftir stuðningi við.“ Um markmið fjárfestingar sagði í umsókninni: „Markmiðið er að eignast hlut í búrekstrinum, þróa hann áfram og efla. Stefnt er að því í framtíðinni að eignast allan búreksturinn í félagi við [Ö] og hans fjölskyldu.“

 

Matvælastofnun leiðbeindi kæranda með tölvupósti 19. júlí 2017 um að með umsókninni vantaði fylgiskjöl, þ.e. afrit af kaupsamningi. Kærandi upplýsti stofnunina sama dag að kaupsamningur lægi ekki fyrir þar sem um fyrirframgreiddan arf væri að ræða. Með svari kæranda fylgdi afrit af erfðafjárskýrslu sem staðfest var af sýslumanni. Með tölvupósti dags. 20. júlí 2017 er kæranda tilkynnt að gögnin hefðu verið móttekin og farið yrði yfir allar umsóknir í ágúst 2017. Með bréfi dags. 9. október 2017 hafnaði MAST umsókn kæranda um nýliðunarstuðning þar sem umsóknin uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 5. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1240/2016 um almennan stuðning við landbúnað. Þar sem um fyrirframgreiddan arf var að ræða, taldi stofnunin að kærandi væri þar með ekki að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri. 

 

Með bréfi dags. 9. nóvember 2017 barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kæra vegna ofangreindrar ákvörðunar.

 

Með bréfi dags. 29. nóvember 2017 óskaði ráðuneytið eftir umsögn MAST um málið og jafnframt öllum þeim gögnum sem stofnunin kynni að hafa um málið en hefðu ekki borist ráðuneytinu. Var MAST veittur frestur til 15. desember 2017 til að skila inn umbeðnum gögnum. Umsögn og gögn MAST bárust ráðuneytinu 21. desember 2017 með bréfi dags. 15. desember 2017 en óskað hafði verið eftir fresti til að skila inn umsögn vegna málsins.

 

Með bréfi dags. 19. janúar 2018 veitti ráðuneytið kæranda frest til 8. febrúar 2018 til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn og gögn MAST. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda og var því úrskurðað í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

III. Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru er þess krafist að ráðuneytið endurskoði ákvörðun MAST um höfnun um nýliðunarstuðning með tilliti til nýrra upplýsinga sem koma fram í stjórnsýslukæru.

 

Kærandi vísar til þess að samkvæmt reglugerð um almennan stuðning við landbúnað sé kveðið á um að nýliðunarstuðningur sé aðeins veittur til fjárfestinga. Kærandi bendir á að í bókstaflegri merkingu orðsins sé kærandi ekki að fjárfesta með peningum en sannarlega sé aukið eignarhald í [Z ehf.] liður í ættliðaskiptum á búinu og það sé því fjárfesting til framtíðar. Bendir kærandi á að markmið stuðningsins skv. 14. gr. reglugerðarinnar sé að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti.

 

Kærandi vísar til þess að í lýsingu á búrekstri/fjárfestingu í umsókn um nýliðunarstuðning hafi komið fram að keyptir hafi verið 90 þúsund lítrar af greiðslumarki í mjólk og vélbúnaður á árinu 2016, ásamt því að ráðist hafði verið í auka endurræktun á túnum, grænfóðurrækt og kornrækt. Mistök hafi verið gerð við vinnslu umsóknarinnar að setja ekki inn í hana þær upphæðir sem greiddar voru fyrir framangreindar fjárfestingar en kærandi keypti greiðslumark fyrir 21.739.680 kr. og vélar fyrir 3.490.000 kr. Kærandi óskar þess að tekið verði tillit til þessa við meðferð málsins.

 

IV. Málsástæður og lagarök Matvælastofnunar (MAST)

Í umsögn MAST dags. 15. desember 2017 kemur fram að umsókn kæranda um nýliðunarstuðning hafi borist stofnunni 20. júní 2017. Þann 19. júlí 2017 hafi stofnunin leiðbeint kæranda um að með umsókninni vantaði fylgiskjöl, þ.e. afrit af kaupsamningi. Sama dag upplýsti kærandi stofnunina að kaupsamningur lægi ekki fyrir þar sem um fyrirframgreiddan arf væri að ræða. Með svari kæranda barst stofnuninni afrit af erfðafjárskýrslu sem staðfest var af sýslumanni. Var kærandi upplýstur um að gögnin yrðu skoðuð og stofnunin myndi byrja að fara yfir þær og meta í ágúst 2017. Var kæranda kynnt með bréfi dags. 9. október 2017 að stofnunin hafnaði umsókninni.

 

Í umsókn kæranda kom fram að markmiðið með styrknum væri að þróa og efla reksturinn áfram. Upplýst hafi verið í umsókninni að í nóvember 2016 hefði greiðslumark í mjólk verið aukið um 90 þúsund lítra, auk þess sem fjárfest hefði verið í vélabúnaði og ráðist hafi verið í aukna endurræktun túna, grænfóðurrækt og kornrækt. Eftir að MAST óskaði eftir frekari gögnum, þ.e. afriti af kaupsamningi vegna fjárfestingar sem óskað var stuðnings við, upplýsti kærandi að hann hefði eignast 33% í [Z ehf.] með fyrirframgreiddum arfi. Samkvæmt umsókn kæranda var fjárfestingakostnaður á árinu 2016 metin að fjárhæð 33.131.126 kr. Engin frekari sundurliðun fylgdi umsókn kæranda eða í þeim viðbótargögnum sem MAST barst 19. júlí 2017. MAST bendir á í umsögn sinni að það hafi ekki verið fyrr en með stjórnsýslukæru að upplýst var að keypt hefði verið greiðslumark að fjárhæð 21.739.680 kr. og vélar fyrir 3.490.000 kr. á árinu 2016. MAST bendir á að þessu til stuðnings hafi ekki verið lagðir fram reikningar eða önnur gögn sem sýni fram á ofangreinda fjárfestingu eða fjárútlát kæranda.

 

MAST telur erfitt að átta sig á hvort óskað er nýliðunarstuðnings fyrir útlögðum kostnaði við fjárfestingar eða vegna eignarhluta kæranda í félaginu [Z ehf.], þ.e. fyrirframgreidda arfsins, eða hvort stuðningnum hafi verið ætlað að dekka hvoru tveggja. Þegar MAST lagði mat á umsókn kæranda var fyrst og fremst horft til þess að óskað var eftir stuðningi vegna fyrirframgreidds arfs, skv. skýringum í umsókn kæranda og í tölvupósti frá kæranda 19. júlí 2017. Með vísan til stjórnsýslukæru telur MAST að þessi skilningur stofnunarinnar sé staðfestur þar sem þess sé getið í kærunni að kærandi hafi ekki í bókstaflegri merkingu orðsins verið að fjárfesta með peningum en sannarlega sé gerningurinn liður í ættliðaskiptum á búi og það sé fjárfesting þeirra í framtíðinni.

 

Með vísan til c. liðar 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað geta þeir einir einstaklingar sótt um nýliðunarstuðning sem eru að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt eða keypt búrekstur innan þriggja ára frá 1. janúar á umsóknarári. Þá verði umsækjendur að inna af hendi einhverja greiðslu svo unnt sé að sækja um nýliðunarstuðning sbr. 17. gr. reglugerðarinnar, þar sem segir að nýliðunarstuðningur er veittur til fjárfestinga í búrekstri og hann getur að hámarki numið 20% af heildarfjárfestingakostnaði á ári. Að mati MAST er þessu ekki til að dreifa í máli kæranda, hvorki komi það fram í umsókn kæranda né viðbótargögnum að hann hafi lagt fram fjármuni til fjárfestingar. Bendir MAST á að þær upplýsingar sem komu fram síðar, þ.e. í stjórnsýslukæru tilgreini að umrædd fjárfesting [Z ehf.], þ.e. kaup á greiðslumarki og kaup á vélabúnaði, hafi komið til áður en kærandi eignaðist hlut í félaginu.

 

MAST telur með vísan til framangreinds að ekki verði annað ráðið en kærandi hafi fengið fyrirframgreiddan arf og hann hafi ekki lagt út neina fjármuni í tengslum við lögskiptin eða rekstur félagsins [Z ehf.] eins og gert er að skilyrði í c. lið 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar. Þær skýringar sem komið hafi fram síðar, þ.e. í stjórnsýslukæru, gefi ekki tilefni til að veita kæranda nýliðunarstuðning skv. IV. kafla reglugerðar nr. 1240/2016. Það er því mat Matvælastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar frá 9. október 2017 um að hafna umsókn kæranda um nýliðunarstuðning.

 

V. Niðurstaða ráðuneytisins

Stjórnsýslukæran sem hér er til meðferðar barst ráðuneytinu innan kærufrests, gagnaöflun er lokið, málið telst nægilega upplýst og er því tekið til úrskurðar. Mál þetta lýtur að skilyrðum búnaðarlaga nr. 70/1998 og reglugerðar nr. 1240/2016 um almennan stuðning við landbúnað, með síðari breytingum ásamt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Samkvæmt 2. gr. búnaðarlaga er markmið laganna að auðvelda nýliðun þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda. Þá eru veitt árleg framlög til verkefna á sviði nýliðunar samkvæmt samningi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Bændasamtök Íslands sbr. 3. gr. búnaðarlaga. Samkvæmt 19. gr. búnaðarlaga setur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nánari fyrirmæli um framkvæmd búnaðarlaga en á þeim grundvelli er mælt fyrir um nýliðunarstuðning í reglugerð nr. 1240/2016 um almennan stuðning við landbúnað, með síðari breytingum. Samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar er markmið nýliðunarstuðnings að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði. Í 15. gr. reglugerðarinnar koma fram þau skilyrði sem einstaklingur sem sækir um nýliðunarstuðning þarf að uppfylla, en þau eru, a) að umsækjandi uppfylli skilyrði þess að vera handhafi greiðslna skv. 3. gr. reglugerðarinnar, b) sé á aldrinum 18-40 ára á því ári sem óskað er eftir stuðningi, c) eru að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt eða keypt búrekstur innan þriggja ára frá 1. janúar á umsóknarári og d) hafi ekki áður hlotið nýliðunarstuðning samkvæmt reglugerðinni að teknu tilliti til 19. gr. reglugerðarinnar sem mælir fyrir um hámark stuðningsins.

 

Í 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að umsóknum skuli skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Matvælastofnunar eigi síðar en 20. júní ár hvert. Meðal þess sem umsókn skal innihalda eru afrit af kaupsamningi vegna fjárfestingar sem óskað er stuðnings við sbr. d. liður 3. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar.

 

Í umsókn kæranda um nýliðunarstuðning dags. 20. júní 2017 kemur eftirfarandi fram: „Í lok síðasta árs (2016) eignast þessir aðilar [kærandi og bróðir hennar] sín 33% hvor (samtals 66%) í [Z ehf.] Búskapur í [V] hefur verið rekinn af þessu einkahlutafélagi ([Z ehf.]) undanfarin ár. […] Á síðasta ári var unnið markvisst að því að umsækjendur eignuðust saman meirihluta í félaginu. Reiknað er með að í framtíðinni eignist umsækjendur [kærandi og bróðir hennar] allt félagið. […] [Z ehf.] keypti m.a. viðbótarkvóta í nóv. sl. Alls voru keyptir 90 þúsund lítrar og er greiðslumark þessa árs (2017) nú 271 þúsund lítrar.“ Að lokum segir í lýsingunni: „Umsækjandi eignaðist á síðasta ári 33% af búrekstrinum. Þetta er sú fjármögnun sem óskað er eftir stuðnings við.“ Í stjórnsýslukæru dags. 9. nóvember 2017 kemur fram að í bókstaflegri merkingu orðsins hafi kærandi ekki verið að fjárfesta með peningum en sannarlega væri þetta liður í ættliðaskiptum á búi og væri það fjárfesting þeirra í framtíðinni. Þá bendir kærandi á að mistökin í umsókninni hafi verið þegar láðist að setja inn í skilyrðin þær upphæðir sem greiddar voru fyrir fjárfestingar þ.e. greiðslumark mjólkur fyrir 21.739.680 kr. og vélar fyrir 3.490.000 kr.

 

Í gögnum málsins kemur fram að fjárfestingar þær sem tilgreindar eru í stjórnsýslukæru fóru fram yfir árið 2016, þannig var mjólkurkvóti keyptur 1. október 2016 og vélar keyptar 16. febrúar 2016, 15. júní 2016 og 31. desember 2016. Samkvæmt erfðafjárskýrslu sem staðfest var af sýslumanninum á Suðurlandi 14. febrúar 2017 er tilgreindur fyrirframgreiddur arfur. Með vísan til framangreindra gagna virðist sem svo að þær fjárfestingar sem tilgreindar eru hafi farið fram innan félagsins [Z ehf.] áður en breytingar voru gerðar á eignarhaldi félagsins. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að samkvæmt gögnum málsins er ljóst að ekki hefur verið sýnt fram á af hálfu kæranda að hann hafi lagt fjármuni til fjárfestingar þeirrar sem óskað er stuðningi við og að ekki sé til að dreifa kaupsamningi vegna fjárfestingarinnar. Með vísan til framangreinds uppfyllti kærandi því ekki skilyrði c. liðar 5. mgr. 15. gr. og d. liðar 3. mgr. 16. gr. reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað.

 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að þær nýju upplýsingar sem bárust vegna málsins með stjórnsýslukæru gefi tilefni til þess að endurskoða ákvörðun MAST dags. 9. október 2017. Ákvörðun MAST um að hafna umsókn kæranda um nýliðunarstuðning í landbúnaði er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar frá 9. október 2017, um að hafna umsókn um nýliðunarstuðning, er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira