Hoppa yfir valmynd

IRR12020440

Ár 2014, 9. október er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 12020440

 

Kæra [A]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. febrúar 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [A], fd. […], ríkisborgara [X] (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. febrúar 2012, um að synja kæranda um útgáfu dvalarleyfis á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Í kæru er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umbeðið leyfi gefið út.

Ákvörðunin er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og er kæran borin fram innan tilskilins kærufrests.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Þann 22. júlí 2010 barst Útlendingastofnun umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara og var þeirri umsókn synjað með hinni kærðu ákvörðun þann 21. febrúar 2012. Sú ákvörðun var kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags, 27. febrúar 2012, og barst ráðuneytinu frekari greinargerð kæranda þann 25. júlí 2012. Þann 24. ágúst 2012 óskaði ráðuneytið eftir gögnum málsins og athugasemdum Útlendingastofnunar ef einhverjar væru. Ráðuneytið móttók gögn málsins frá Útlendingastofnun þann 3. september 2012 og sendi kæranda til kynningar og athugasemda þann 4. september 2012. Frekari gögn bárust ekki frá kæranda.

 

III.    Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun segir m.a.:

,,Málavextir:

Hinn 18. maí 2010 bárust Útlendingastofnun þær upplýsingar frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu (nú innanríkisráðuneytinu) að kona að nafni [K] hefði hinn 29. apríl 2009 sótt um vottorð til ráðuneytisins vegna fyrirhugaðs hjúskapar með manni frá [X] sem bar sama nafn og umsækjandi og var jafnframt fæddur sama dag. Vottorðið var gefið út fyrir hana en [K] hafi síðar gengið í hjúskap með öðrum manni frá [X] en þeim sem nefndur var á upprunalega vottorðinu. Umsækjandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, [J], kt. […], 22. júlí 2010. Útlendingastofnun taldi að umsækjandi og sá sem [K] ætlaði að giftast væru sami maðurinn. Vaknaði því grunur hjá stofnuninni að hjúskapur umsækjanda og maka hans væri til málamynda, af þeim sökum var maki umsækjanda boðuð til viðtals hjá Útlendingastofnun sem fram fór 14. september 2010 og eru aðalatriði viðtalsins eftirfarandi:

Í upphafi viðtalsins skrifaði maki undir yfirlýsingu þess efnis, að tilgangur hjúskapar hennar væri ekki að afla dvalarleyfis fyrir umsækjanda hér á landi og að hún og umsækjandi myndu búa saman á því heimilisfangi sem gefið hafði verið upp og að allar upplýsingar sem hún gæfi varðandi umsóknina væru sannar og réttar og ekkert yrði undanskilið.

Maki kvaðst hafa þekkt umsækjanda í nokkur ár áður en þau gengu í hjúskap, sá maður sem hafi ættleitt umsækjanda þegar hann var barn búi í hverfinu sem þar sem hún sjálf bjó í [X]. Þau umsækjandi hafi byrjað að tala saman að einhverju ráði árið 2006 þegar hún hafi farið í heimsókn til [X] og þau haldið sambandi síðan þá. Þau hafi orðið par árið 2007. Maki kvaðst ekki hafa heimsótt umsækjanda oft vegna þess að hún hafi ekki haft efni á því. Hún hafi þó nýlega heimsótt hann og þau gengið í hjúskap. Á milli 2006 og 2010 hafi hún ekki hitt umsækjanda en þau hafi hins vegar haldið sambandi í gegnum internetið á þann hátt að hún hafi keypt ódýrt símkort þar og þannig getað hringt í umsækjanda. Maki sagði umsækjanda vera ljúfan, góðan og þeim semdi vel, þess vegna hafi hún ákveðið að stofna til sambands með honum. Hún hafi sjálf átt frumkvæðið að sambandi þeirra þar sem henni hafi líkað svo vel við hann.

Spurð um ferðalag sitt til [X] sagðist maki umsækjanda hafa greitt fyrir farmiða frá Íslandi til [Y] með reiðufé og í [Y] hafi hún keypt farmiða til [X]. Hún hafi millifært peninga yfir á reikning ferðaskrifstofu þar í landi.

Maki umsækjanda var spurð hvort einhver hefði beðið hana að ganga í hjúskap með umsækjanda og kvað hún svo ekki vera. Hún hafi sjálf ákveðið að ganga í hjúskap með honum en hann svo beðið hennar. Bónorðið hafi komið þegar hann var í [X] og hún á Íslandi en hann hafi hringt í hana og beðið hana að giftast sér, þetta hafi verið í lok árs 2008. Aðspurð sagði maki að frá þeim tíma þar til þau hafi gengið í hjúskap hafi aldrei slitnað upp úr sambandi þeirra. Maki sagði þau hafa gengið í hjúskap hjá sýslumanni en þau hafi ekki haldið veislu sökum þess að móðir umsækjanda hafi verið svo veik að þau hafi ekki geta haldið veislu.

Aðspurð kvaðst maki umsækjanda ekki hafa gengið í hjúskap til að afla umsækjanda dvalarleyfis á Íslandi heldur vegna þess að þau hafi kynnst, líkað vel við hvort annað og ákveðið að ganga í hjúskap. Maki var spurð út í fjölskyldu umsækjanda, starf hans og nám og hvort hann ætti ættmenni á Íslandi. Sagðist hún vera alveg viss um að umsækjandi þekkti engan á Íslandi nema hana sjálfa.

Maki umsækjanda var spurð hvort það hafi einhvern tíma staðið til að umsækjandi gengi í hjúskap með annarri konu en henni. Hún sagðist ekki vita til þess en síðan þau hafi kynnst hafi umsækjandi aldrei hugsað um aðra konu en hana. Aðspurð sagðist maki ekki þekkja konu að nafni [K]. Var henni þá tjáð að sú kona hafi sótt um vottorð til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins á Íslandi vegna fyrirhugaðs hjúskapar með umsækjanda í […]. Maki umsækjanda kvaðst ekki vita neitt um þetta mál. Var hún þá spurð hvernig hún hafi fengið upplýsingar um umsækjanda ef hann þekkti engan á Íslandi. Sagðist hún hafa búið í sama hverfi og fósturfaðir umsækjanda í gamla daga þegar hún bjó í [X]. Á þeim tíma hafi umsækjandi stundum komið til hans í heimsókn og þau hafi kynnst þá. Svo hafi þau ekki haft neitt samband fyrr en árið 2006 þegar hún hafi farið út til [X].

Aðspurð um viðbrögð sín við þeim upplýsingum að umsækjandi hafi ætlað að ganga í hjúskap með [K] sagðist maki vera mjög döpur því hún hafi ekki vitað um þetta. Hún hafi haldið að allt væri í lagi milli þeirra. Hún ítrekaði einnig aðspurð að hún hafi ákveðið sjálf að ganga í hjúskap með umsækjanda, enginn hafi beðið hana um það. Var hún þá spurð hvort henni þætti hugsanlegt eða jafnvel líklegt að það væri verið að nota hana til þess að afla umsækjanda dvalarleyfis á Íslandi en hún taldi svo ekki vera. Var hún nánar spurð hvað hún héldi þá um þetta mál, að umsækjandi hafi ætlað að ganga í hjúskap með annarri konu en henni þegar þau hafi tvö verið búin að ákveða að ganga í hjúskap hvort með öðru. Hún sagðist ekki vita hver hafi ,,gert þetta“, hver hafi staðið á bak við ,,þetta“, en hún bara þekki umsækjanda og þau hafi ,,allt milli sín“. Aðspurð sagðist hún hvorki þiggja neina greiðslu fyrir að vera í hjúskap með umsækjanda né vera að greiða einhvers konar skuld við þriðja aðila.

Maka umsækjanda var bent á hvernig þetta mál liti út fyrir Útlendingastofnun, þannig að umsækjandi vilji komast til Íslands og fá dvalarleyfi hérlendis. Hann hafi ætlað sér að ganga í hjúskap með íslenskum ríkisborgara en það hafi ekki skipt höfuðmáli hvaða kona það yrði. Maki umsækjanda sagðist aldrei hafa hugsað út í það og teldi ekkert vera til í því. Hún gæti fullyrt að ekkert sé til í því. Hún hafi gengið í hjúskap með umsækjanda til þess að fá hann til landsins svo þau gætu búið saman og hún sagði hann vera að þessu á sömu forsendum og hún sjálf. Henni var bent á að það liti út fyrir annað og hún spurð hvort hún gæti sýnt fram á þetta sem hún héldi fram og/eða hvort hún vildi bæta einhverju við. Hún sagðist hafa gengið frá öllum pappírum sem til þurfti og hún vonaði að umsækjandi fengi að koma til landsins.

Hinn 14. september 2010 var maka umsækjanda sent bréf þar sem óskað var eftir ljósriti úr öllum síðum vegabréfs hennar og staðfestingu á greiðslu flugmiða til [X]. Veittur var 15 daga frestur til að leggja fram umbeðin gögn.  Hinn 20. september 2010 bárust umbeðin gögn, þ.e. ljósrit úr vegabréfi umsækjanda og kvittun fyrir erlendri millifærslu, dags. 24. október 2009.

Hinn 8. október 2010 sendi Útlendingastofnun maka umsækjanda bréf þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum um flugmiða hennar til [X]. Óskað var eftir staðfestingu frá [R] á að greiðsla maka umsækjanda hefði borist og staðfestingu á því að fyrirtækið hafi gefið út flugmiða handa maka umsækjanda. Veittur var 30 daga frestur til að leggja fram umbeðin gögn. Hinn 21. október 2010 barst kvittun frá [R] þar sem fram kemur að maki umsækjanda hafi keypt flugmiða hjá fyrirtækinu.

Hinn 14. janúar 2011 var umsækjanda sent bréf þar sem efni viðtals við maka var rakið og honum kynnt að rökstuddur grunur væri til staðar um að hjúskapur hans og maka væri til málamynda. Var umsækjanda veittur 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig skriflega um efni þess.

Hinn 2. febrúar 2011 barst greinargerð frá umsækjanda, handskrifuð og þýdd yfirlýsing frá umsækjanda ásamt ljósritum af ljósmyndum af honum og maka.  Jafnframt var lagt fram umboð maka umsækjanda til [L]. Greinargerð umsækjanda er dags. 28. janúar 2011 og í henni segir:

„Umbjóðendum mínum barst þann 17.01. 2011 bréf Útlendingastofnunar þar sem þeim var gefinn kostur á að andmæla þeim fullyrðingum stofnunarinnar um að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að þau hefðu stofnað til hjúskapar í þeim tilgangi einum að afla umsækjanda dvalarleyfis hér á landi. Vilja þau koma eftirfarandi á framfæri:

1.       Maki umsækjanda er íslenskur ríkisborgari. Hún skildi lögskilnaði við fyrri eiginmann sinn árið […] og hafði að sögn ekki verið í alvarlegu sambandi þar til 2006 er hún kynntist að nýju núverandi eiginmanni sínum. Umsækjandi og maki hans hittust fyrir tilviljun í [X] er maki umsækjanda var þar á ferðalagi, en umsækjandi býr nálægt fjölskyldu maka umsækjanda. Höfðu þau að sögn þekkst áður en aðstæður höfðu hagað því þannig að maki umsækjanda flutti brott frá landinu til Íslands og því voru enginn samskipti milli umsækjanda og maka hans fyrr en í þessari heimsókn.

Maki umsækjanda segir svo frá að hún og umsækjandi hafi hafið náin samskipti í þessari ferð. Heimsókn maka umsækjanda hafi varað í tvo mánuði og að sögn héldu þau samskiptum sínum stöðugt áfram í gegnum síma eftir að maki umsækjanda var kominn til Íslands. Árið 2008 ákváðu þau að ganga í hjónaband. Hófust þau handa við skipulagningu þess og var að sögn maka umsækjanda ætlunin að ganga í hjúskap fljótlega það ár. Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi var þó fjárhagur maka umsækjanda með því móti að þau ákváðu að fresta fyrirhuguðu brúðkaupi um sinn. Héldu þau því uppteknum hætti og höfðu samskipti að mestu í gegnum síma.

Að sögn maka umsækjanda rann brúðkaupsdagurinn þó upp í […]er maki umsækjanda hélt til [X]. Maki umsækjanda segir brúðkaupið hafa verið smátt í sniðum sökum fjárhagslegrar stöðu þeirra, en engu að síður hafi hátíðleiku verið yfir því. Í kjölfarið hafi svo verið sótt um dvalarleyfi fyrir umsækjanda hér á landi, enda hafi maki umsækjanda fyrir þónokkru síðan tekið þá ákvörðun að búa hér á landi og starfa og vilji ekki flytjast aftur til [X]. Hún sé nú komin með íslenskan ríkisborgararétt og líti á sig sem Íslending.

2.       Í bréfi Útlendingastofnunar kemur fram að þær upplýsingar hafi komið frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, nú innanríkisráðuneyti, að kona að nafni [K] hafi sótt um vottorð til ráðuneytis vegna fyrirhugaðs hjúskapar með umsækjanda og hafi slíkri umsókn verði skilað inn eftir að umsækjandi og maki hans tóku ákvörðun um hjúskap sinn. Eins og jafnframt er greint frá í bréfi Útlendingastofnunar hafi maki umsækjanda ekkert heyrt af þessu og kom þetta óþægilega við hana í viðtali hjá stofnuninni. Í kjölfari viðtalsins kveðst maki umsækjanda hafa leitað svara hjá umsækjanda sem sór af sér þá sögusögn að hann hefði haft í hyggju að kvænast annarri íslenskri konu. Slíkt hafi ekki staðið til né kunni hann nokkur deili á konu þeirri sem um slíkt sótti. Kemur einnig fram í bréfi Útlendingastofnunar að kona sú sé nú gift öðrum manni og hafi aldrei gifst umsækjanda. Ekkert kemur fram í bréfi Útlendingastofnunar að reynt hafi verið að ná sambandi við téða konu til að spyrjast fyrir um sannleiksgildi þess eða hvort verið geti að um annan mann hafi verið að ræða.

Meðfylgjandi athugasemdum þessum er bréf ritað af umsækjanda á [X] og þýtt af skjalaþýðanda í [X]. Í bréfi sínum fullyrðir umsækjandi að hann hafi ekki kvænst [K], hvorki þekki hana ekki né hafi hitt  hana. Ítrekar hann að hann sé kvæntur eiginkonu sinni, […], að þau hafi gengið í hjúskap […]. Jafnframt ítrekar hann sögu þeirra hjóna um gamlan vinskap og hverju þau hittust að nýju árið 2006. Segir hann eiginkonu sína hafa beðið sín árið 2008 og að hann hafi játast henni. Biðst hann að lokum afsökunar á þeim misskilningi sem virðist vera uppi varðandi meint hjónaband sitt og annarrar konu. Staðfestir hann að allt það sem hann segi sé satt og rétt. Er skjalið undirritað af honum sjálfum og tveimur vitnum, þann 26. janúar 2011.

Frásögn umsækjanda styðst við þá frásögn maka umsækjanda er lesa má í bréfi Útlendingastofnunar. Þar segist hún hafa haft frumkvæði að hjúskap þeirra, þau hafi hist að nýju árið 2006 en að þau hafi þekkst áður. Jafnframt fullyrðir maki umsækjanda að hún hafi ekki heyrt minnst á aðra konu hér á landi enda kemur það fram í bréfi stofnunarinnar að svo hafi virst sem henni hafi verið brugðið.

Umsækjandi og maki hans fullyrða að hjúskapur þeirra sé ekki til málamynda og að ekki hafi verið til hans stofnað í þeim tilgangi einum að afla umsækjanda dvalarleyfis. Þau segjast vera fullorðið fólk sem langi að búa saman, maki umsækjanda hafi komið sér vel fyrir á Íslandi og vilji ekki flytja aftur til [X]. Segjast þau jafnframt ekki lengur vilja búa hvort í sínu landinu heldur njóta samvista hvort með öðru. Því hafi þau ákveðið í sameiningu að sækja um dvalarleyfi fyrir umsækjanda hér á landi svo þau geti búið saman.“

Sem áður segir fylgdi bréf frá umsækjanda með greinargerð. Bréfið er á [X] og í ljósriti og því fylgdi ensk þýðing. Í bréfinu segir í stuttu máli að umsækjandi kveðst ekki þekkja fyrrnefnda [K] og hafi aldrei hitt hana. Hann og maki hafi þekkst lengi en hist aftur árið 2006 og þau ákveðið að ganga í hjónaband árið 2008.

Hinn 17. maí 2011 barst annað umboð til handa [L], í þetta sinn frá umsækjanda sjálfum. Umboðið er á [X] en ensk þýðing fylgdi. Hinn 25. maí 2011 var umboðsmanni umsækjanda sent bréf þar sem óskað var eftir frumriti yfirlýsingar hans sem barst stofnuninni 2. febrúar 2011, jafnframt var óskað löggiltrar þýðingar yfirlýsingarinnar. Þá var umboð umsækjanda endursent og þess óskað að löggiltur þýðandi staðfesti skjalaþýðinguna eða ný þýðing yrði gerð á umboðinu og þýðingin undirrituð og stimpluð af viðkomandi skjalaþýðanda. Veittur var 15 daga frestur til að leggja fram umbeðin gögn.

Hinn 21. júní 2011 barst tölvupóstur frá umboðsmanni umsækjanda þar sem óskað var eftir lengri fresti til að leggja fram umbeðin gögn. Frestur var veittur til 30. júní 2011. Hinn 4. júlí s.á. barst löggild þýðing umboðs til [L]. Með umboðinu fylgdi bréf frá [L2], hdl. þar sem sagði að [L] væri hætt störfum á lögfræðistofunni [S] og líta yrði á fyrra umboð sem stöðuumboð. [L2] myndi fara með málið hjá stofunni. Hinn 6. júlí 2011 var [L2] sent bréf þar sem fram kom að þýðing umboðsins væri ekki fullnægjandi þar sem einungis hluti þess væri þýddur. Var óskað eftir fullnægjandi þýðingu umboðs og veittur 15 daga frestur til að leggja það fram. Hinn 26. ágúst 2011 var [L2] aftur sent bréf vegna umboðsins. Í bréfinu kom fram að umrætt umboð væri til handa [L], sem nú hefði látið af störfum hjá [S]. Enga beina tilvísun væri að finna í [S] auk þess sem umboðið greindi ekki í hvaða sérstaka tilgangi það væri veitt. Umboðið teldist því ófullnægjandi og óskaði Útlendingastofnun eftir því að fullnægjandi umboðið yrði skilað til stofnunarinnar. Með bréfinu var send fyrirmynd umboðs Útlendingastofnunar og leiðbeint um að umboðið mætti finna á heimasíðu stofnunarinnar. Veittur var 15 daga frestur til að leggja fram fullnægjandi umboð að öðrum kosti yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hinn 3. október 2011 barst fullnægjandi umboð frá umsækjanda til [L2].

 

Lagarök:

Um ákvörðun þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 (hér eftir útlendingalög) og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003 með síðari breytingum.

 

Niðurstaða:

Í 5. mgr. 34. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga segir að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Á umsókn segir að tilgangur dvalar umsækjanda á Íslandi sé: „Ég er giftur“.

Verður því farið með umsóknina sem umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 13. gr. útlendingalaga.

Heimild til veitingar dvalarleyfis fyrir aðstandendur er að finna í 13. gr. útlendingalaga og 1. mgr. 47. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Í 3. mgr. 13. gr. laganna segir:

„Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.“

Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 20/2004 um breytingu á útlendingalögum eru í 2. gr. talin upp atriði sem geta bent til þess að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Segir meðal annars:

„Skilyrði þess að neitað verði um dvalarleyfi aðstandanda fyrir maka er í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Þannig verður að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þessa átt geta til dæmis verið að aðilar hafa ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilja ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Í því sambandi má huga að því hvort sá maki, sem hér dvelst löglega, hafi áður verið í hjúskap með útlendingi, sem lauk skömmu eftir að sá síðarnefndi öðlaðist hér dvalarleyfi. Sé samkvæmt framangreindu eða af öðrum ástæðum rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi verður umsækjandinn að sýna fram á annað.“

Eins og fram kemur hér að ofan er það skilyrði fyrir synjun á dvalarleyfi að rökstuddur grunur sé á því að um gerning til málamynda sé að ræða. Er jafnframt tekið fram að glögg vísbending verði að vera til staðar og tekin dæmi um hvað geti talist vísbendingar í þá veru að um málamyndahjúskap sé að ræða. Athygli skal vakin á því að ekki er um tæmandi talningu á vísbendingum að ræða og er það því háð mati hverju sinni hvað teljist vera glögg vísbending.

Nokkuð ósamræmi er í frásögnum aðila og gögnum málsins. Umsækjandi segir maka hafa beðið sig að giftast sér en maki kveður það hafa verið öfugt. Þá segir í greinargerð umsækjanda að þau hafi ekki haldið brúðkaupsveislu vegna fjárhagslegrar stöðu þeirra. Í viðtali hjá Útlendingastofnun segir maki hins vegar að móðir umsækjanda hafi verið of veik og þess vegna hafi ekki verið hægt að halda veislu. Umsækjandi og maki kveðast hafa þekkst þegar þau voru ung og þau hafi síðan endurnýjað kynnin árið 2006 og orðið par árið 2007. Þau gengu í hjúskap […]. Fram hefur komið að kona að nafni [K] óskaði […] eftir yfirlýsingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna fyrirhugaðrar stofnunar hjúskapar erlendis með manni sem ber sama nafn og umsækjandi og er fæddur sama dag og ár. Að mati Útlendingastofnunar eru yfirgnæfandi líkur á því að sá maður sem nefndur er á beiðni [K] um vottorð sé umsækjandi. Afar ólíklegt verður að teljast að annar [X] ríkisborgari sem ber sama nafn og umsækjandi og er fæddur sama dag og ár ætli að ganga í hjúskap með íslenskum ríkisborgara á svipuðum tíma og umsækjandi og maki hans, en maki umsækjanda óskaði eftir samskonar vottorði […]. Styðst það jafnframt við þá staðreynd að [K] gekk skömmu síðar í hjúskap með öðrum manni frá [X] sem síðar var synjað um dvalarleyfi þar sem hjúskapur þeirra væri til málamynda. Hvorki umsækjandi né maki hans hafa gefið neinar skýringar á því hvers vegna [K] hefur skráð að hún ætlaði að giftast umsækjanda heldur hafa þau einungis sagt að umsækjandi þekki ekki umrædda [K]. Þegar maki umsækjanda var spurð út í þetta sagðist hún fyrst telja að allt hefði verið í lagi milli hennar og umsækjanda og hún væri döpur yfir þessu. Síðar í viðtalinu fullyrti hún að ekkert væri til í þessum gögnum ráðuneytisins. Fram hefur komið að umsækjandi sjálfur segir ekkert til í því að hann hafi ætlað að ganga í hjúskap með annarri konu árið […]. Fullyrðingar umsækjanda og maka hans breyta ekki þeirri staðreynd að sótt var um vottorð til ráðuneytis vegna hjúskapar þar sem nafn og fæðingardagur umsækjanda kemur fram. [K] sótti um vottorðið árið […] en þá voru umsækjandi og maki að þeirra sögn par. Umsækjandi hefur því ætlað að ganga í hjúskap með annarri íslenskri konu meðan hann var í sambandi við núverandi maka. Þykir Útlendingastofnun framangreind atriði ekki geta verið tilviljun og benda málsatvik því eindregið til þess að hjúskapur umsækjanda og maka sé til málamynda og hann hafi upphaflega ætlað að ganga í hjúskap með [K] en síðan hafi verið hætt við þær áætlanir.

Að öllu virtu er það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að um málamyndahjúskap umsækjanda sé að ræða eins og greinir í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga og að ekki hafi verið sýnt fram á annað. Verður dvalarleyfi ekki gefið út á grundvelli fyrrgreinds hjúskapar.

Það athugist að Útlendingastofnun leggur ávallt fram kæru til lögreglu vegna rangs framburðar og framlagningar ganga sem ætluð eru til að blekkja stjórnvald. Í máli þessu verður kæra lögð fram gegn maka umsækjanda.

Því er ákvarðað:

 

ÁKVÖRÐUNARORÐ

Umsókn [A], f.d. […], ríkisborgara [X] um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar er synjað.“

 

Að lokum er leiðbeint um kæruleið og kærufrest.

 

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi kynnst eiginkonu sinni þegar þau voru lítil börn í [X] en þau hafi þá búið í sama hverfi og leikið sér saman. Síðar hafi leiðir skilið, maki kæranda hafi flutt til Íslands en kærandi búið áfram í [X]. Maki kæranda hafa skilið við þáverandi eiginmann sinn árið 2001 og ekki verið í alvarlegu sambandi aftur þar til hún hafi hitt kæranda á ferðalagi sínu í [X] árið 2006. Þá hafi kærandi og maki hans hist aftur eftir langan aðskilnað og séð hvort annað í nýju ljósi. Þá tvo mánuði sem maki kærandi hafi þá dvalið í [X] hafi þau átt í ástarsambandi en ekki hugsað langt fram í tímann. Þau hafi þó haldið sambandi sínu áfram eftir að maki kæranda fór aftur til Íslands með símtölum og í gegn internetið. Árið 2008 hafi þau ákveðið að ganga í hjúskap og í kjölfarið hafið undirbúning þess. Í kjölfar bankahruns á Íslandi hafi maki kæranda ákveðið að halda að sér höndum enda hafi fjárhagur hennar þá þrengst. Kærandi og maki hans hafi þó haldið fjarbúð sinni saman og verið í stöðugum samskiptum. Þau hafi síðan gift sig í [X] árið 2010 og hafi maki kæranda haldið þangað beinlínis í þeim tilgangi. Aldrei hafi komið annað til greina en að þau byggju á Íslandi enda hafi maki kæranda aðlagast landinu svo vel að hún líti á sig sem Íslending. Maki kæranda hafi haft milligöngu um umsókn kæranda um dvalarleyfi á Íslandi. Í tilefni af umsókninni hafi maki kæranda verið kölluð í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 14. september 2010 þar sem hún hafi verið spurð ítarlega um ýmsa þætti sem lutu að sambandi hennar og kæranda.

Af hálfu kæranda er á því byggt að Útlendingastofnun hafi skort lagaheimild þegar hún synjaði kæranda um dvalarleyfi og því beri að fella ákvörðun stofnunarinnar úr gildi. Útlendingastofnun styðji synjun sína við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2006 sem geti ekki á nokkurn hátt átt við í tilviki kæranda. Í fyrsta lagi heimili ákvæðið stofnuninni aðeins að synja um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna sé síðan tilgreint hvaða þættir geti gefið vísbendingu um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, s.s. að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, að hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur sé á milli þeirra eða að þau þekki ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu. Ekkert af framangreindu eigi við í tilviki kæranda og maka hennar utan þeirrar staðreyndar að þau hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar og því sé ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki stuðst við lög þegar hún synjaði kæranda um dvalarleyfi á grundvelli málamyndahjúskapar enda geti þetta eina atriði ekki verið grundvöllur synjunar um makaleyfi. Alkunna sé að sambúð fyrir stofnun hjúskapar sé óheimil meðal ýmissa menningarsamfélaga og í þessu tilviki hafi sambúð ekki verið möguleg af landfræðilegum ástæðum.

Þá byggir kærandi á því að hann uppfylli öll skilyrði 13. gr. laga um útlendinga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 og því beri að veita honum dvalarleyfi hér á landi. Kærandi hafi sýnt að hann uppfylli öll grunnskilyrði 11. gr. laganna og sé lögmætur eiginmaður íslensks ríkisborgara. Þau hafi þekkst lengur en almennt gerist meðal íslenskra hjónaefna fyrir stofnun hjúskapar. Þau séu samlandar og komi úr svipuðum menningarheimi og tali tungu hvors annars. Kærandi hafnar því að undantekningarregla 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga eigi við í hans tilviki enda séu ástæður þær sem tilgreindar séu í hinni kærðu ákvörðun haldlitlar. Ástæður þær sem stofnunin tilgreini beri með sé að eftir að grunur hafi fallið á kæranda vegna umsóknar [K] hafi verið ákveðið að hafna umsókn kæranda og því verið leitað logandi ljósi að misfellum í umsókn hans. Sem dæmi megi nefna að samanburð á framburði hjónanna sé að finna í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar en þar sé gert óeðlilega mikið úr því hvor aðili hafi haft frumkvæði að stofnun hjúskaparins og átt bónorðið. Kærandi bendir á að þetta misræmi geti einfaldlega stafað af mismunandi upplifun aðila og hafi því ekkert með rangan framburð að gera. Þá nefni aðilar mismunandi ástæður þess að ekki hafi verið haldin brúðkaupsveisla sem snúi að heilsufari móður kæranda og efnahag hjónanna. Kærandi bendir á að báðar útskýringarnar geti átt við en aðilar nefni þá skýringu sem sé aðalástæðan í huga þess sem tjáir sig. Þá sé mikið gert úr ósamræmi um hvort kærandi og maki hafi byrjað að vera saman árið 2006 eða 2007. Þessu sé öllu hafnað sem haldlausum ástæðum fyrir svo íþyngjandi ákvörðun eins og synjun um dvalarleyfi sem hafi í för með sér að íslenskum ríkisborgara sé synjað um að fá að búa með eiginmanni sínum.

Kærandi byggir kröfu sína enn fremur á því að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka mál hans áður en honum var synjað um dvalarleyfi hér á landi. Af forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar megi ráða að það sem hafi vegið þyngst í niðurstöðu hennar hafi verið ósk [K] þann […] um yfirlýsingu þáverandi dóms- og kirkjumálaráðuneytis vegna fyrirhugaðs hjúskaps með manni með sama nafn og fæðingardag og umsækjandi. Kærandi mótmælir því að stofnunin geti byggt niðurstöðu sína um málamyndahjúskap á þessu einu saman án frekari rannsóknar. Í því sambandi hafi borið að tala við téða [K] til að kanna hvort til hafi staðið að hún giftist kæranda og ef svo væri hvert hefði verið samband þeirra, hvað hafi orðið til þess að ekki varð af hjúskapnum o.s.frv. Það hafi ekki verið gert heldur hafi Útlendingastofnun dregið þá ályktun að um hafi verið að ræða verslun með hjúskap. Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þegar hún lét hjá líða að kanna trúverðugleika grunsemda sinna áður en hún tók hina kærðu ákvörðun. Telur kærandi að brot Útlendingastofnunar á rannsóknarreglunni hafi haft gagnger áhrif á efni ákvörðunar og því beri að ógilda ákvörðunin.

Þá byggir kærandi á því að synjun umsóknar hans sé í andstöðu við Mannréttindasáttmála Evrópu og er þar sérstaklega vísað til 8. gr. um friðhelgi einkalífs. Hin kærða ákvörðun hafi bein áhrif á réttarstöðu maka hans sem sé íslenskur ríkisborgari. Í 2. mgr. 8. gr. sáttmálans sé lagt bann við að gengið sé á þennan rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Ekkert slíkt eigi við í þessu máli. Í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga sé áréttað að stjórnvald skuli ekki beita íþyngjandi ákvörðununum ef annað og vægara úrræði sé fyrir hendi. Þeir hagsmunir stjórnvalds að synja kæranda um dvalarleyfi hér á landi séu mun minni en þeir hagsmunir kæranda að fá að vera samvistum við eiginmann, ættingja og vini hér á landi.

 

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 (útlendingalög) og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga nr. 96/2002 og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum hinum almennu skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. útlendingalaga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. útlendingalaga ásamt hinum almennu skilyrðum 11. gr. útlendingalaga. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga kemur fram að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti það ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 96/2002, kemur m.a. fram að skilyrði þess að neitað verði um dvalarleyfi fyrir maka sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur er á þeim, þau þekkja ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða fyrri hjónabönd. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, verður umsækjandinn að sýna fram á annað.

Ráðuneytið telur ljóst að hin kærða ákvörðun byggist fyrst og fremst á því að kærandi hafi, tæplega ári áður en hann og núverandi maki hans gengu í hjúskap, fyrirhugað að giftast öðrum íslenskum ríkisborgara, [K]. Er bent á í því sambandi að þann 29. apríl 2009 fékk [K] útgefið vottorð frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, nú innanríkisráðuneyti, vegna fyrirhugaðs hjúskap við mann sem er frá sama landi og kærandi, ber sama nafn og er fæddur sama dag og hann. Ekkert varð þó úr þeim hjúskap.

Ráðuneytið tekur undir með Útlendingastofnun að þessar upplýsingar renna sterkum stoðum undir að vakað hafi fyrir kæranda að ganga í hjúskap með íslenskum ríkisborgara í þeim tilgangi einum að afla sér dvalarleyfis á Íslandi. Bendir ráðuneytið á í því sambandi að á þeim tíma sem [K] sótti um umrætt vottorð til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins voru kærandi og núverandi maki hans í sambandi samkvæmt framburði þeirra sjálfa. Skal þess jafnframt getið að þann 14. febrúar 2012 tók Útlendingastofnun viðtal við téða [K] og hlýtur þessi niðurstaða að nokkru leyti stoð í framburði hennar hjá stofnuninni. Rétt er að geta þess að kærandi fékk afrit af framangreindu viðtali sent með öðrum gögnum málsins frá ráðuneytinu þann 4. september 2012 en kaus að koma ekki á framfæri athugasemdum vegna þess. Ekki er því hægt að fallast á með kæranda að Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Með vísan til framangreinds sem og þess að nokkurt ósamræmi er á milli framburðar kæranda og maka hans, svo sem nánar er rakið í hinni kærðu ákvörðun, er það mat ráðuneytisins að uppi sé rökstuddur grunur í skilningi 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga um að til hjúskaps kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis á Íslandi og að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti. Verður ekki séð að sú niðurstaða fari í bága við 12. gr. stjórnsýslulaga eða Mannréttindasáttmála Evrópu líkt og kærandi hefur haldið fram. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. febrúar 2012, um að synja [A], fd. […], ríkisborgara [X], um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, er staðfest.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum