Hoppa yfir valmynd

Synjun Vinnumálastofnunar frá 10. apríl 2006. Frávísun.

Fimmtudaginn 12. október 2006 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, dags. 2. júní 2006, sem barst ráðuneytinu 7. júní 2006, kærði A ehf., synjun Vinnumálastofnunar, dags. 10. apríl 2006, á veitingu atvinnuleyfis fyrir B, sem er filippseyskur ríkisborgari.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu atvinnuleyfis til handa A ehf. í því skyni að ráða til starfa B, sem er filippseyskur ríkisborgari. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til a-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 7. júní sl., þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 9. maí sl. en samkvæmt 24. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar. Því teldist viðkomandi kæra hafa borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti.

Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 24. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Því óskaði ráðuneytið eftir að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum kærufresti og var frestur veittur til 21. júní sl.

Svarbréf barst ekki frá kæranda. Félagsmálaráðuneytið sendi því annað bréf til kæranda, dags. 27. júní. sl., þar sem ráðuneytið ítrekaði fyrri beiðni sína þess efnis að kærandi veitti ráðuneytinu nánari upplýsingar um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 5. júlí sl. Þar sem svarbréf hefur enn ekki borist ráðuneytinu verður byggt á þeim gögnum sem þegar liggja fyrir í málinu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

  

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun atvinnuleyfa til félagsmálaráðuneytisins. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar en að öðru leyti fer um kæru skv. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um stjórnsýslukæru. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í umræddri stjórnsýslukæru fer kærandi þess á leit við félagsmálaráðuneytið að það taki stjórnsýslukæru hans til umfjöllunar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé útrunninn án þess að tilgreina þær ástæður er lágu þar að baki. Ráðuneytið óskaði því ítrekað eftir nánari upplýsingum um þær ástæður en kærandi varð ekki við þeirri beiðni ráðuneytisins. Skortir ráðuneytið því forsendur til að meta hvort afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga liggi að baki þess að stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Þá verður ekki ráðið af málsatvikum að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið skortir því heimildir að lögum til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar og ber að vísa erindi kæranda frá ráðuneytinu, sbr. 24. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

  

Stjórnsýslukæru A ehf., dags. 2. júní 2006, sem barst ráðuneytinu 7. júní 2006, vegna synjunar Vinnumálastofnunar, dags. 10. apríl 2006, á veitingu atvinnuleyfis fyrir B, sem er filippseyskur ríkisborgari, er hér með vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

 

Fyrir hönd ráðherra

 

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir

Bjarnheiður Gautadóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum