Hoppa yfir valmynd

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Grenlækjar


YFIRMATSMENN


samkvæmt lögum um


lax- og silungsveiði nr. 76/1970




YFIRMATSGERÐ


á arðskrá fyrir Veiðifélag Grenlækjar



I.


Undirmat. Beiðni um yfirmat.


Hinn 1. júní 2000 luku þeir Gunnar A. Þorláksson, skrifstofustjóri í Reykjavík og Gísli Ellertsson, bóndi á Meðalfelli í Kjós mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Grenlækjar. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af sýslumanninum í Vestur-Skaftafellssýslu 31. júlí 1991.


Með bréfi Harðar Davíðssonar f.h. veiðifélagsins 11. ágúst 2000, sem barst yfirmatsmönnum 15. sama mánaðar, var þessu arðskrármati skotið til yfirmats. Tilefni málskotsins var bréf Erlendar Björnssonar, Seglbúðum, 30. júlí 2000 til veiðifélagsins, þar sem krafist var yfirmats. Í bréfi formanns veiðifélagsins kemur fram að undirmatið hafi verið kynnt veiðiréttareigendum 19. júní 2000. Að þessu gættu er erindið nægilega snemma fram komið, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970.



II.


Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.


Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.


Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Grenlækjar eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 14. október 2000 að Efri Vík. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn eigenda þessara jarða: Þykkvabæjar I, Fossa, Arnardrangs, Seglbúða og Efri Víkur.


Á þessum fundi var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum um formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Kynntu yfirmatsmenn sér sjónarmið fundarmanna um skiptingu arðskrár og athugasemdir vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. desember 2000. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Þórarinn Bjarnason vegna Þykkvabæjar, Agnar Davíðsson vegna Fossa, Helgi V. Jóhannsson vegna Arnardrangs, Erlendur Björnsson vegna Seglbúða og Hörður Davíðsson, sem gerði grein fyrir aðstæðum almennt og hagsmunum veiðiréttareigenda.


Sama dag og fundurinn var haldinn könnuðu yfirmatsmenn aðstæður á félagssvæðinu eftir því, sem tök voru á, undir leiðsögn formanns veiðifélagsins og Agnars Davíðssonar. Á fundinum var mönnum bent á að þeir gætu sjálfir sýnt yfirmatsmönnum aðstæður fyrir sínum löndum, teldu þeir ástæðu til. Nýttu nokkrir veiðiréttareigendur sér það við vettvangsgöngu.


Eftir þennan fund hafa yfirmatsmönnum borist greinargerðir frá eigendum eða talsmönnum eftirgreindra jarða: Fossa og Arnardrangs (sameiginleg greinargerð), Seglbúða og Hólms. Talsmaður Þykkvabæjar I hefur munnlega skýrt nánar viðhorf sín sem og talsmaður Seglbúða. Leitað var eftir upplýsingum eða andsvörum nokkurra veiðiréttareigenda vegna fram kominna sjónarmiða í greinargerðum, sem yfirmatsmenn hafa fengið. Af því tilefni skýrðu talsmenn Ytra-Hrauns og Eystra-Hrauns í apríl 2001 munnlega sjónarmið sín. Þá hefur verið aflað margs konar upplýsinga hjá Veiðimálastofnun, stjórnarmönnum í veiðifélaginu og veiðimönnum, þ.á.m. reyndum veiðimönnum á svæðinu. Nánari skýringar og upplýsingar hafa yfirmatsmenn fengið í viðtölum við Guðna Guðbergsson, sérfræðing Veiðimálastofnunar. Þá hafa yfirmatsmenn kynnt sér ýmsar skýrslur Orkustofnunar um vatnasvæðið.


Í byrjun maí 2001 tók Aðalbjörn Benediktsson sæti Þorsteins Þorsteinssonar við yfirmatið.



III.


Um Veiðifélag Grenlækjar.


Félagið heitir Veiðifélag Grenlækjar og starfar samkvæmt samþykkt nr. 227/1975, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 15. maí sama árs. Félagið var stofnað 6. apríl 1974.


Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til allra jarða, sem land eiga að Skaftárósi og vatnasvæðis hans. Jarðirnar eru taldar upp í sömu grein, en þær eru: Hólmur, Hátún, Efri-Vík, Syðri-Vík, Þykkvibær I, Seglbúðir, Eystra-Hraun, Ytra-Hraun, Fossar, Arnardrangur, Efri Steinsmýri, Syðri-Steinsmýri, Múlakot, Hörgsland I, Hörgsland II og Hörgslandskot. Þau vatnsföll, sem félagssvæðið nær yfir eru auk Grenlækjar, Jónskvísl, Sýrlækur og Síknalækur.


Samkvæmt 3.gr. samþykktarinnar er verkefni félagsins að viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæðinu og ráðstafa veiði eftir því, sem aðalfundur ákveður. Tekur félagið til allrar veiði á félagssvæðinu. Í 5. gr. er svo kveðið á að öllum sé óheimilt að veiða á félagssvæðinu nema með sérstöku skriflegu leyfi félagsstjórnarinnar. Skuli í leyfinu tekið fram um veiðitíma og veiðitæki.


Í 8. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: „Arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð."



IV.


Rekstur veiðivatna.


Við nýtingu veiðihlunninda hefur orðið til svæðaskipting, þar sem öllu vatnasvæðinu er skipt í átta svæði, talið frá ósi Grenlækjar í Skaftá og upp úr. Markast hvert þessara svæða af landi einnar jarðar að því gættu þó að í þremur tilvikum hafa fleiri jarðir orðið til við landskipti. Þannig falla fimm þessara svæða undir eina jörð hvert (svæði 2, 3, 5, 6 og 8), þrjár jarðir eiga saman eitt svæði (svæði 7) en tvö svæði tilheyra fjórum jörðum hvort (svæði 1 og 4).


Þótt samþykkt veiðifélagsins geri ráð fyrir sameiginlegri arðskrá hefur reyndin orðið önnur allan þann rúma aldarfjórðung, sem liðinn er frá gildistöku samþykktarinnar. Sameiginleg arðskrá hefur enn ekki tekið gildi og nýting veiðiréttar hefur ekki verið samræmd nema að því leyti að stangafjöldi á hverju svæði og tiltekin almenn atriði hafa ráðist af ákvörðunum veiðifélagsins. Útleiga veiðiréttar hefur ekki verið á forræði stjórnar veiðifélagsins og heldur ekki tekjuskipting samkvæmt arðskrá. Í reynd hefur leiga veiðiréttar verið á hendi veiðiréttareigenda á hverju svæði, svo og einstök atriði þessu tengd, svo sem um upphaf og lok veiðitíma, leyfilegt veiðiagn o.fl. Getur í einstökum tilvikum verið mikill munur á leyfðum veiðitíma milli svæða, einkum hvenær hann hefst að vori. Hinu sama gegnir um veiðiagn, þar eð sumir heimila einungis fluguveiði fyrir sínu landi, en aðrir sérhvert agn, sem lög leyfa. Verðlagning veiðileyfa ræðst af ákvörðunum og samningum veiðiréttareigenda á hverju svæði, þar sem hver og einn heldur tekjum af sinni útleigu á veiði.


Sameiginleg útgjöld veiðifélagsins hafa ráðist af svokallaðri gjaldskrá, sem mun hafa verið samþykkt á fundi eftir stofnun félagsins. Hefur skipting kostnaðar samkvæmt því tekið mið af stangafjölda á hverju svæði. Þessu var breytt á fundi 2. nóvember 1999 þannig að svæði nr. 4 og 5 skyldu það ár bera hlutfallslega nokkuð hærri kostnað en sem nemur fjölda stanga á þeim svæðum. Sams konar ákvörðun var tekin fyrir árið 2000 á félagsfundi 27. september það ár.


Alls er nú leyft að veiða með 21 stöng á svæðunum átta. Skiptast þær þannig að á svæðum nr. 1, 2, 3, 6 og 7 eru tvær stangir á hverju, á svæði 4 eru sex stangir, á svæði 5 eru fjórar stangir, en á svæði 8 er ein stöng. Hefur stöngum verið fjölgað á sumum svæðum á síðustu árum.


Fram er komið að samþykkt hefur verið í félaginu að á árinu 2001 verði tilhögun veiði nokkuð breytt. Leyft verður að hirða fjóra fiska á stöng á dag, en að því er varðar vorveiði má aðeins hirða einn fisk. Á tímabilinu 7. maí – 15. júní verður fluga eina heimila veiðiagnið. Sú tilhögun, sem hér um ræðir, er til að bregðast við minnkandi veiði og stuðla að vernd fiskstofna. Hefur hún ekki áhrif á skiptingu arðskrár nú.



V.


Gögn til afnota við matsstörfin.


Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:




  1. Beiðni um yfirmat (áður getið).



  2. Arðskrá undirmatsmanna 1. júní 2000 með greinargerð.



  3. Bréf Erlendar Björnssonar, Seglbúðum 30. júlí 2000. Krafa um yfirmat.



  4. Tilmæli um dómkvaðningu matsmanna 15. júlí 1991.



  5. Dómkvaðning undirmatsmanna 31. júlí 1991 og tilkynning til þeirra sama dag.



  6. Bréf undirmatsmanna til stjórnar Veiðifélags Grenlækjar 16. júlí 1992 með ósk um gögn.



  7. Samþykkt fyrir Veiðifélag Grenlækjar frá 1975 (áður getið)



  8. Skrá 25. ágúst 1999, staðfest af veiðiréttareigendum, ásamt þremur skýringateikningum um bakkalengd jarða að einstökum veiðivötnum og hlutfallslega skiptingu þar sem fleiri en ein jörð er á svæði.



  9. Kort af Vestur-Skaftafellssýslu.



  10. Yfirlit Veiðimálastofnunar yfir veiði í Grenlæk og Jónskvísl 1980 – 2000



  11. Teikning er sýnir mörk milli veiðisvæða.



  12. Fundarboð veiðifélagsins 23. október 1999.



  13. „Bakkalengd á Grenlæk vegna búsvæðamats"



  14. Bréf undirmatsmanna til stjórnar veiðifélagsins 7. apríl 1999 með beiðni um gögn.



  15. Loftmynd af vatnasvæði Grenlækjar og skýringablað



  16. Bréf Veiðimálastofnunar 21. ágúst 1989 varðandi rannsóknir 1987-1988 með skýringablöðum.



  17. Blaðagreinar 1999 (Mbl.) um klakveiði í Jónskvísl.



  18. Veiðimannakort: Grenlækur neðan Landbrotsvegar.



  19. Greinargerð talsmanns Seglbúða 14. desember 2000.



  20. Samningar um leigu veiðiréttar í Grenlæk fyrir landi Seglbúða 1997 og 1999.



  21. Greinargerð eigenda Fossa og Arnardrangs 2. febrúar 2001.



  22. Loftmynd af svæði nr. 4 með skýringum.



  23. „Skipting veiðidaga í Fitjaflóðum 2001" (7. maí – 20. október)



  24. „Veiðidagar í Jónskvísl 2001" (30. júní – 20. okt.)



  25. Landskiptagerð á Hraunajörðum 19. maí 1967.



  26. Yfirlýsing fyrrverandi bænda á Fossum og Arnardrangi 7. febrúar 2001.



  27. Bréf yfirmatsmanna til eigenda Ytra-Hrauns og Eystra-Hrauns 19. febr. 2001.



  28. Veiðimálastofnun: Seiðakannanir í Grenlæk í Landbroti árin 1977 og 1979 (Teitur Arnlaugsson)



  29. Veiðimálastofnun: Fiskifræðirannsóknir í Grenlæk, V. Skaft. 16. og 17. ágúst 1983 (Finnur Garðarsson)



  30. Veiðimálastofnun: Athugun á fiskstofnum Grenlækjar í Landbroti árið 1986 (Magnús Jóhannsson)



  31. Veiðimálastofnun: Rannsóknir á ám í Vestur-Skaftafellssýslu árið 1991 (Magnús Jóhannsson)



  32. Veiðmálastofnun: Rannsóknir á ám í Skaftárheppi árið 1992 (Magnús Jóhannsson)



  33. Veiðimálastofnun: Fisktalning og göngur í Grenlæk 1996-1998 (Magnús Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson, Jóhannes Sturlaugsson)



  34. Veiðimálastofnun: Könnun á seiðaástandi í Grenlæk og Tungulæk vegna vatnsþurrðar árið 1998 (Magnús Jóhannsson og Guðni Guðbergsson)



  35. Veiðimálastofnun: Mat á búsvæðum laxfiska á vatnasvæði Grenlækjar í Landbroti (Magnús Jóhannsson, febrúar 2000)



  36. Greinargerð talsmanns eigenda Hólms (með fylgiskjölum)



  37. Bréf yfirmatsmanna til stjórnar veiðifélagsins 14. mars 2001 varðandi tekjur af veiði



  38. Orkustofnun: Lindir í Landbroti og Meðallandi. Uppruni lindavatnsins (Freysteinn Sigurðsson 1997)



  39. Ljósrit fundargerða veiðifélagsins 2. nóvember 1999 og 27. september 2000



  40. Orkustofnun: Rennsli Skaftár og samband þess við lindarennsli (Snorri Zóphóníasson)



  41. Orkustofnun: Grunnvatnsstaða og rennsli lækja í Landbroti og Meðallandi (Snorri Zóphóníasson)



  42. Veiðimálastofnun: Vatnasvæði Skaftár og lindarvötn í Landbroti. Lífsskilyrði og útbreiðsla laxfiska (Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson, febrúar 2001)



  43. Bréf yfirmatsmanna til Veiðimálastofnunar 5. apríl 2001 varðandi athugasemdir talsmanns Seglbúða um búsvæðamat.



  44. Bréf yfirmatsmanna til talsmanna Arnardrangs og Fossa 10. apríl 2001



  45. Upplýsingar frá þremur veiðiréttareigendum (svæði 4, 6 og 7) um tekjur af veiði eða verðlagningu veiðileyfa (apríl 2001)



  46. Umsögn Veiðimálastofnunar 23. apríl 2001 um athugasemdir talsmanns Seglbúða við búsvæðamat í Grenlæk



  47. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Seglbúða 3. maí 2001 með umsögn Veiðimálastofnunar (liður 46)



  48. Bréf yfirmatsmanna 7. maí 2001 til Veiðifélags Grenlækjar um að Aðalbjörn Benediktsson komi í stað Þorsteins Þorsteinssonar við yfirmat á arðskrá



  49. Bréf yfirmatsmanna 18. júní 2001 til Veiðifélags Grenlækjar varðandi vettvangsgöngu



  50. Bréf yfirmatsmanna 3. júlí 2001 til talsmanna Fossa og Arnardrangs



  51. Skráning Veiðimálastofnunar á afla (urriði og bleikja) 1995-2000 að báðum árum meðtöldum, skipt á svæði og eftir vor- og haustveiði



  52. Skráning Veiðimálastofnunar á afla (urriði og bleikja) einstakar veiðivikur 1995-2000 ásamt línuritum



  53. Bréf yfirmatsmanna 13. júlí 2001 til eigenda veiðiréttar á svæðum nr. 4 og 5 varðandi vorveiði



  54. Bréf yfirmatsmanna 13. júlí 2001 til Veiðifélags Grenlækjar vegna svæða 1-3 varðandi vorveiði



  55. Bréf eiganda Seglbúða til yfirmatsmanna 23. júlí 2001 varðandi vorveiði o.fl. með fylgiskjölum



  56. Bréf eigenda Ytra-Hrauns og Eystra-Hrauns til yfirmatsmanna 22. júlí 2001



VI.


Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.


Þess er áður getið, að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum. Engin skrifleg sjónarmið liggja fyrir, sem lýst hefur verið fyrir undirmatsmönnum.


Fossar og Arnardrangur:


Þessar jarðir ásamt Eystra-Hrauni og Ytra-Hrauni eiga land að svæði nr. 4, sem liggur að Grenlæk, Jónskvísl (Hraunsá), Sýrlæk og Síknalæk. Fyrir liggur landskiptagerð frá 19. maí 1967 fyrir jarðirnar fjórar, þar sem ákveðin voru hlutföll hverrar jarðar í óskiptu landi. Urðu þau þannig að Fossar og Arnardrangur fengu 20,25% hvor jörð, en hvor hinna jarðanna fékk 29,75%. Í niðurlagi gerðarinnar segir: „Hlunnindi þau sem þessum jörðum fylgja skulu vera eins og þau alltaf hafa verið."


Á fundi með yfirmatsmönnum 14. október 2000 lýstu talsmenn Fossa og Arnardrangs því að samkomulag væri um 25% hlut hverrar jarðar í veiði í Jónskvísl, Sýrlæk og Síknalæk. Ekki væri hins vegar sátt um skiptingu veiði í Grenlæk, þar sem Hraunsjarðir hafi haldið sig við kröfu um 29,75% hlut hvorrar jarðar í þeirri veiði. Kröfðust talsmenn Fossa og Arnardrangs þess að jöfn skipti á veiði yrði einnig lögð til grundvallar í Grenlæk. Var því fylgt eftir með skriflegri greinargerð til yfirmatsmanna. Er þar haldið fram að meðan bændur á svæðinu stunduðu saman veiðar í Fitjaflóði hafi aflanum verið skipt jafnt milli jarðanna fjögurra. Áður tilvitnuð orð um venju í niðurlagi landskiptagerðarinnar vísi til þessa. Eigendur Fossa og Arnardrangs hafa einnig sent yfirmatsmönnum yfirlýsingu þriggja fyrrverandi bænda á sömu jörðum þar sem segir að fyrir 1967 hafi afla alltaf verið skipt jafnt milli jarðanna fjögurra þótt Eystra-Hraun tæki ekki þátt í veiði.


Við vettvangsgöngu kom fram hjá talsmanni jarðanna að veiðiréttareigendur hafi friðað efsta hluta Jónskvíslar og Síknalæk fyrir veiði, en þar fari fram mikil hrygning.


Hólmur:


Í skriflegri greinargerð talsmanns jarðarinnar til yfirmatsmanna er lýst eignaráðum yfir henni og nýtingu. Kemur fram að í landi Hólms heiti áin Stórilækur, sem renni um land jarðarinnar um alllangan veg. Gangi sjóbirtingur í lækinn og sé það eingöngu vænn fiskur, þar eð Stórifoss (á svæði 6) torveldi göngu smærri fiska upp ána. Alveg sé ljóst að Stórilækur sé viðkvæmt og mikilvægt hrygningarsvæði. Þess vegna hafi verið ákveðið þegar árið 1942 að friða lækinn fyrir annarri veiði en til búsnytja fyrir eigendur. Hafi nær ekkert verið veitt í læknum allan þennan langa tíma. Friðun Stóralækjar hafi verið ómetanlegt framlag Hólms til veiðiréttareigenda á vatnasvæðinu. Í læknum séu margir hyljir, sem án efa séu verðmætir hrygningarstaðir. Þá gangi fiskur í einhverjum mæli niður Skerhólslæk, sem klofni frá Stóralæk og falli til Tungulækjar. Þar sé einnig nokkur hrygning.


Tekið er fram að eigendur Hólms vilji halda í það fyrirkomulag, sem verið hafi, þ.e. að friða Stóralæk fyrir veiði. Verði það framlag metið jörðinni til tekna við gerð arðskrár. Land á svæðinu sé viðkvæmt fyrir átroðningi og hafi spjöll þegar hlotist af. Þurfi að gæta sérstakrar varúðar við að meta veiðiþol svæðisins, einkum á efri hluta þess. Verði náttúran að fá að njóta vafans, ekki síst þar sem enn sé óvíst hver spjöll hafi orðið á lífríki og seiðabúskap lækja á svæðinu þegar þeir þornuðu nær alveg vorið 1998 af mannavöldum.


Seglbúðir:


Talsmaður jarðarinnar lýsti viðhorfum sínum fyrir yfirmatsmönnum, bæði munnlega og í skriflegri greinargerð. Verða þau rakin hér á eftir í stórum dráttum.


Fram kemur að áður fyrr hafi veiðitími hafist í Grenlæk 1. apríl. Samkomulag hafi síðar tekist í veiðifélaginu um að veiði skyldi ekki hefjast fyrr en viku af maí til að stuðla að því að eitthvað af niðurgöngufiski kæmist til sjávar áður en veiði hæfist. Í apríl og fyrri hluta maí sé enn mikið af hrygningar- og geldfiski á svæði 5. Síðari rannsóknir Veiðimálastofnunar sýni að ekkert af niðurgöngufiskinum sé farið til sjávar þegar veiði hefst í maí. Á þessum tíma sé fiskurinn léleg matvara, en þá taki hann „grimmt" og sé unnt að veiða mikið. Afstaða eigenda Seglbúða hafi verið sú að stuðla beri að því að fiskurinn komist til sjávar og í samræmi við það hafi vorveiði ekki verið stunduð á svæði nr. 5 árin 1999 og 2000. Veiðitími hefjist þar nú ekki fyrr en 19. júní þegar hafin sé ganga fisks upp á svæðið. Aflatölur jarðarinnar hafi óhjákvæmilega orðið lægri af þessari ástæðu. Það hljóti því að vera umdeilanlegt ef fiskur, sem friðaður hafi verið á svæði 5, sé síðan veiddur neðar í vatnakerfinu og metinn þar að fullu til arðs og þá á kostnað þess, sem hefur friðað hann.


Þá er því lýst að 1999 og 2000 hafi fluga verið eina leyfða veiðiagnið á svæði 5. Næstu ár þar á undan hafi hið sama átt við hluta veiðitímans. Á öðrum veiðisvæðum hafi hins vegar verið leyfður maðkur að undanskildu svæði nr. 7 árið 2000. Loks hafi verið sett aflahámark á svæði nr. 5, sem sé sjö fiskar á stöng á dag, þar af fimm sjóbirtingar. Með öllum þessum aðgerðum hafi eigendur jarðarinnar viljað stuðla að því að vel sé farið með hlunnindi og spornað gegn rányrkju. Við skiptingu arðskrár eigi ekki að refsa mönnum fyrir að fara vel með sín hlunnindi.


Tekið er fram að þrátt fyrir eftirspurn hafi veiði aldrei verið leigð út á svæðinu allt veiðitímabilið, heldur hafi það verið friðað ákveðinn hluta þess. Leigutíminn hafi hins vegar lengst smám saman frá 1994. Tekjur af veiðileigu 1999 hafi orðið tæplega 2,5 m. kr., en hefðu getað orðið meira en tvöfalt hærri ef veiði hefði verið leigð út allt tímabilið. Telur talsmaður Seglbúða fráleitt að ekki sé tekið tillit til tekna af sölu veiðileyfa við skiptingu arðskrár. Þá megi sjá mat félagsmanna í veiðifélaginu á gildi svæðisins á þeirri breytingu, sem gerð var á gjaldskránni, er aukinn hluti útgjalda var lagður á svæði nr. 5. Tekið er fram að svæðið eigi ekki að gjalda fyrir að nokkrum vegarslóðum að læknum hafi verið lokað í nafni náttúruverndar. Þá tilheyrir neðsti hluti Jónskvíslar Seglbúðum sem og hluti Sýrlækjar.


Athugasemdir eru gerðar við nokkur atriði í mati Veiðimálastofnunar á búsvæðum í Grenlæk (sbr. V. kafla að framan, liður 35). Verður nánar gerð grein fyrir þeim í X. kafla hér á eftir sem og umsögn Veiðimálastofnunar um þær.


Í tilefni bréfs yfirmatsmanna 13. júlí 2001 til talsmanna svæða nr. 4 og 5 ítrekaði talsmaður Seglbúða framangreind sjónarmið sín varðandi vorveiði. Þar kom einnig fram að nýverið hafi verið gerður leigusamningur um veiði á svæði Seglbúða til fimm ára frá og með 2002 að telja. Árleg fjárhæð leigu samkvæmt samningnum sé 7.500.000 krónur. Sé ljóst að leigutakinn meti þar þá friðun, sem stunduð hafi verið að hluta á svæði nr. 5. Öðru enn hagstæðara tilboði frá núverandi leigutaka hafi verið hafnað þar eð í því hafi verið gert ráð fyrir að veitt yrði allt veiðitímabilið. Af þessum samningi og tilboðum megi ráða hvert sé mat veiðimanna á svæði nr. 5 sem veiðilendu og að svæðið standi ótvírætt öðrum svæðum framar í því tilliti. Leggur talsmaður Seglbúða áherslu á að hæfi einstakra svæða til tekjuöflunar með leigu á veiði hljóti að vega þungt við skiptingu arðskrár. Með bréfinu fylgdi til fróðleiks hluti tilboðs núverandi leigutaka, sem sýnir hvernig hann verðmetur veiðidaga í apríl til júní lægst, en verðmætið stighækkar síðan til loka veiðitímans þegar það er meira en helmingi hærra en í maí. Í bréfi talsmanns Seglbúða er loks áréttað að 200-250 metra kafli neðst í Jónskvísl tilheyri Seglbúðum. Fyrir mistök hafi bréfritari undirritað yfirlýsingu um bakkalengd við undirmat, þar sem þessa var ekki getið.


Þykkvibær I:


Talsmaður jarðarinnar ræddi við yfirmatsmenn á fundum 14. október 2000 og 16. mars 2001. Var þar staðfest að svokölluðum Þykkvabæjarskurðum hafi verið haldið utan við undirmat samkvæmt kröfu þessa veiðiréttareiganda, en hluti skurðanna er á vatnasvæði veiðifélagsins og tilheyrir Þykkvabæ I og Seglbúðum. Þá kom fram að veiðitími hefjist að jafnaði um 20. júlí á svæði nr. 6, en ekki sé þar um vorveiði að ræða enda lítill fiskur þá á svæðinu. Taldi hann vondan kost að veiða á vorin og það eins þótt aðeins sé veitt á flugu og sleppt aftur, því fiskur missi hreistur við hnjaskið og drepst því í stórum stíl í kjölfarið. Væri auðvelt að moka upp fiski á vorin. Þá lýsti hann því að á svæði nr. 6 hefði þess verið gætt að skrá veiðiskýrslur nákvæmlega andstætt því, sem ætti við á sumum svæðum öðrum. Allir hafi vitað að gera ætti veiðiskýrslur og ættu við skiptingu arðskrár ekki að njóta vafans á kostnað þeirra, sem hafi sinnt vel þessari skyldu. Loks kom fram að á svæði nr. 6 veiðist nokkuð jafnt ofan og neðan við svokallaðan Stórafoss, sem sé ekki farartálmi fyrir fisk, sem leiti upp ána, nema þann allra smæsta.


Eystra-Hraun og Ytra-Hraun:


Tveir talsmenn jarðanna áttu fund með yfirmatsmönnum 9. apríl 2001. Hafði þeim áður verið kynnt krafa Fossa og Arnardrangs um jafna skiptingu veiðihlunninda jarðanna fjögurra í Grenlæk og óskað umsagnar þeirra. Mótmæltu þeir sjónarmiðum Fossa og Arnardrangs og kröfðust þess að lagt yrði til grundvallar við arðskrármat að hlutur hvorrar Hraunsjarðar í veiðihlunnindum í Grenlæk yrði ákveðinn 29,75% til samræmis við niðurstöðu um landskipti. Jafnframt mótmæltu þeir staðhæfingu talsmanna Fossa og Arnardrangs og fyrri ábúenda þar um að veiði úr Fitjaflóði hafi áður fyrr verið skipt jafnt milli jarðanna fjögurra. Sú veiði, sem vísað sé til í bréfum þeirra, hljóti að vera ádráttarveiði, sem hætt var fyrir 1950. Við þann veiðiskap hafi þeir bæir skipt afla, sem sent hafi menn til veiða hverju sinni. Hafi einhver bæjanna fjögurra ekki sent mann í tiltekna veiðiferð hafi heldur ekkert komið í hans hlut.


Að því er varði landskiptagerðina 1967 verði að gæta að því að eignarhlutföllin 59,50% samtals hjá Hraunsbæjum og 40,50% hjá Arnardrangi hafi áður verið til komin. Það hafi gerst við skiptagerð á 19. öld, sem nú sé líklega týnd. Tilgangur landskiptanna 1967 hafi þannig einungis verið að draga línur við landskipti á grundvelli eignarhlutfalla, sem löngu áður hafi orðið til. Þá hafi einnig verið skipt út landi Fossa, sem byggðir voru sem nýbýli út úr eignarhlut Arnardrangs. Landskiptin hafi staðfest innbyrðis jafna hlutdeild þessara tveggja jarða. Stofnun þessa nýbýlis hafi að sjálfsögðu ekki rýrt hlut Hraunsbæja á nokkurn hátt.


Hjá talsmönnum Hraunsbæja kom fram að veiði á stöng hafi vart hafist á svæði 4 fyrr en um 1970. Nokkrum árum fyrr hafi verið hreinsaður að vori neðsti hluti Grenlækjar og fiski þannig gert kleift að ganga til sjávar. Allan þann tíma, sem liðinn sé, hafi nýting hlunnindanna með skiptingu veiðidaga milli bæjanna fjögurra verið með þeim hætti, sem eignarhlutföll sögðu til um, og þar með 59,50% hjá Hraunsbæjum. Sú skipting veiðidaga, sem yfirmatsmenn hafi undir höndum (liður 23 í upptalningu gagna) sé að þessu leyti eins og lengi hafi verið.


Sú skýring kom fram að Hraunsbæir hafi samþykkt jafna skiptingu veiðihlunninda í Jónskvísl milli jarðanna fjögurra umfram skyldu, en í þágu friðar og góðs nágrennis. Þess sé jafnframt að gæta að veiði þar sé fyrst til komin á seinni árum og að því leyti gegni allt öðru um hana en Grenlæk.


Vegna bréfs yfirmatsmanna 13. júlí 2001 til talsmanna svæða nr. 4 og 5 var sú skýring gefin að upphaf veiðitíma að vori hafi á sínum tíma verið fært frá 1. apríl til 20. sama mánaðar og síðan til 7. maí. Þá hafi miklu af vorfiski verið sleppt aftur og samþykkt hafi verið á síðasta aðalfundi veiðifélagsins að heimila einungis að hirða einn fisk á dag fyrir hverja stöng.


Efri-Vík:


Af hálfu talsmanns jarðarinnar er komið fram að í meðalári sé unnt að hefja veiði á svæði nr. 7 þann 10. ágúst, sem standi að jafnaði til 20. október. Svæðið sé vannýtt, þar eð það hafi ekki verið leigt út í einu lagi, heldur einstakar stangir fyrir ákveðna daga, sem gefi ekki eins góða nýtingu. Gefið er upp leiguverð fyrir hverja stöng árin 1998 og 1999. Þá er fram komið að árin 1999 og 2000 hafi svæðið verið samnýtt með svæði nr. 8. Síðara árið hafi fluga verið eina leyfða veiðiagnið og einnig mestan hluta veiðitímans 1999.



VII.


Skipting arðs. Almennt.


Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks".


Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Grenlækjar skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða félagsmenn í sama hlutfalli.


Yfirmatsmenn munu nú sem endranær hafa þann hátt á að skipta arði í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skuli skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvort önnur atriði geti haft þar áhrif á.



VIII.


Landlengd.


Meðal málsgagna er skrá 25. ágúst 1999 um landlengd jarða að Grenlæk og öðrum vatnsföllum á félagssvæðinu. Mun hún vera reist á mælingum Agnars Davíðssonar, Fossum árið 1992, en var gerð í tengslum við undirmat á arðskrá og er staðfest af fulltrúum allra jarða í veiðifélaginu. Fyrirvari er þar gerður af hálfu Arnardrangs og Fossa um skiptingu gagnvart Ytra-Hrauni og Eystra-Hrauni. Engar athugasemdir hafa borist yfirmatsmönnum varðandi mælingu aðrar en athugasemd Seglbúða varðandi Jónskvísl, sbr. að framan. Verða tölur, sem skráin hefur að geyma, lagðar til grundvallar eins og þær liggja fyrir. Þykkvabæjarskurðum var sleppt í undirmati og verður svo einnig gert nú við yfirmat.


Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 400 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Grenlæk, Jónskvísl, Sýrlæk og Síknalæk. Við skiptingu þessara eininga verður litið til þess að aðstæður eru að mörgu leyti afar misjafnar þegar virt eru einstök vatnsföll og svæði innan veiðifélagsins. Þannig er vatnsmagn mismikið og sums staðar mjög lítið. Marktækur munur getur verið á hitastigi milli einstakra vatnsfalla og sveiflur á vatnsmagni geta orðið verulegar og þá einkum á efri hluta svæðisins, allt niður fyrir Stórafoss. Um þessi atriði, þ.á.m. vatnsmagn og á hvaða stöðum vatnsmagn eykst helst í Grenlæk, nýtur upplýsinga í skýrslum Orkustofnunar, sbr. upptalningu matsgagna í V. kafla hér að framan. Þá flæmist Grenlækur sums staðar um og tekur sífelldum breytingum. Er þar naumast um neina fasta bakka að ræða og fisk helst að finna þar sem áin grefur sig niður hverju sinni. Fasta veiðistaði við bakka er að finna á svæðum 5, 6 og 7 öðrum svæðum fremur. Að öllu þessu virtu verður einstökum mældum lengdareiningum í áðurnefndum lækjum gefið vægi, svo sem greinir hér á eftir.


Að því er varðar Grenlæk fær hluti svæðis nr. 5 vægið 1,0, þ.e. kafli frá mörkum þess og svæðis nr. 6 niður að ármótum Grenlækjar og Jónskvíslar. Sama svæði þar fyrir neðan, svo og svæði nr. 4, fá vægið 0,9. Svæði nr. 6 og 7 fá vægið 0,8, eins og sá hluti svæðis nr. 5, sem liggur milli nefndra svæða. Svæði nr. 1 og 3 fá 0,7 og svæði nr. 2 fær 0,6. Loks fær svæði nr. 8 vægið 0,5. Sýrlækur (á svæðum 4 og 5) fær vægið 0,075. Samanlögð bakkalengd Jónskvíslar og Síknalækjar fær meðalvægið 0,25 hver lengdareining. Augljós mistök hafa valdið því að stutts kafla neðst í Jónskvísl neðan við ós Sýrlækjar er ekki getið í skrá 25. ágúst 1999 um bakkamælingu, en kvíslin var mæld að öðru leyti. Verður miðað við að 200 metra langur kafli þar komi Seglbúðum til góða með væginu 0,35.


Við meðferð málsins kröfðust eigendur Fossa og Arnardrangs þess að veiðihlunnindum í Grenlæk á svæði nr. 4 yrði skipt jafnt milli fjögurra jarða á svæðinu. Eru sjónarmið þeirra og andmæli talsmanna Ytra-Hrauns og Eystra-Hrauns rakin að framan. Ómótmælt er að nýtingu hlunnindanna með skiptingu veiðidaga hafi um alllangt skeið verið hagað til samræmis við það hvernig landskiptagerðin 1967 mælti fyrir um skiptingu á óskiptu landi jarðanna. Var í undirmati gert ráð fyrir þeirri skiptingu hlunnindanna í Grenlæk. Eins og málið liggur fyrir verður að telja ósannað að Fossar og Arnardrangur eigi með vísan til fornrar venju ríkari rétt en þann, sem jarðirnar hafa notið í reynd í alllangan tíma. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu að ekki séu efni til að hrófla við ákvörðun undirmatsmanna að þessu leyti. Á það eins við um aðra þætti, sem áhrif hafa á skiptingu arðskrár, sbr. IX. og X. kafla hér á eftir.


IX.


Aðstaða til stangarveiði.


Í IV. kafla að framan er lýst tilhögun við rekstur Grenlækjar og annarra veiðivatna á svæðinu og í V. kafla er getið skýrslna, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á silungi 1980-2000 að báðum árum meðtöldum og skiptingu aflans á veiðisvæði. Í skýrslu Veiðimálastofnunar (liður 35 í upptalningu gagna) kemur fram að skráð árleg meðalveiði í Grenlæk og Jónskvísl 1994-1998 hafi verið 2974 urriðar, 310 bleikjur og 8 laxar.


Ljóst er að skráning afla var afar ófullkomin lengi framan af á áðurgreindu tímabili. Á það alveg sérstaklega við árin 1980-1986, en einnig eftir það því allt til 1995 vantar upplýsingar mörg ár fyrir sum veiðisvæðanna. Telja yfirmatsmenn gögn um veiði á árunum 1980-1994 svo ótraust að þau geti ekki gefið nægilega rétta mynd af skiptingu heildaraflans milli veiðiréttareigenda. Frá árinu 1995 eru heimildir mun áreiðanlegri, svo sem upptalning gagna í V. kafla að framan ber með sér. Þrátt fyrir það fyrirkomulag að margir hafa rekstur veiðivatnsins með höndum hefur Veiðimálastofnun tekist að fá upplýsingar um veiði á nær öllum svæðum síðustu árin. Hafa yfirmatsmenn eftir samráð við leigutaka heimfært uppgefinn afla samkvæmt skýrslum á einstaka veiðiréttareigendur að því leyti, sem skýrslur hafa ekki verið alveg ljósar um það. Við yfirmat nú verður höfð hliðsjón af allri veiði á tímabilinu 1995-2000 að báðum árum meðtöldum, en litið framhjá veiði fyrri ára.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 350 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Óskráður afli hefur ekki áhrif á skiptingu þessara eininga og ekki hefur komið fram ágreiningur um landamerki að einstökum veiðistöðum eða veiðisvæðum.


Fyrir liggur að sum árin, sem miðað er við, hafa leigutakar og veiðimenn skráð saman veiði á fleiri en einu veiðisvæði án sundurgreiningar. Á þetta annars vegar við um svæði nr. 1 og 2, sem voru nýtt saman, og hins vegar svæði nr. 7 og 8, sem voru samnýtt árin 1999 og 2000. Ekki verður komist hjá við skiptingu arðskrár að greina afla í sundur milli svæða. Verður um það stuðst ýmist við upplýsingar frá veiðimönnum eða veiðiréttareigendum. Er niðurstaða yfirmatsmanna sú að í fyrrnefnda tilvikinu skuli afli skiptast þannig að svæði nr. 1 fái þrjá fjórðu hluta aflans, en svæði nr. 2 afganginn, en í síðarnefnda tilvikinu fái svæði nr. 7 tvo þriðju hluta aflans umrædd tvö ár, en svæði nr. 8 það sem eftir er.


Í VI. kafla að framan um sjónarmið nokkurra veiðiréttareigenda er meðal annars fjallað um veiðar á svokölluðum niðurgöngufiski að vori. Sú veiði hefur nú verið aflögð að mestu á svæði nr. 5, en er ennþá stunduð á svæðum nr. 3 og 4 að því gættu þó að veiðitíminn hefst nú síðar en áður var. Þar er einnig greint frá afstöðu tveggja veiðiréttareigenda til þessarar veiði, sem þeir eru mótfallnir. Fer hún saman við gagnrýni á þessar veiðar almennt, sem yfirmatsmenn hafa orðið varir við í vaxandi mæli hjá veiðimönnum og fleirum. Við þessa gagnrýni hefur því t.d. verið teflt fram að niðurgöngufiskur sé miklum mun lakari matvara en göngufiskur og að hann sé auðveld bráð, sem unnt sé nánast að moka upp fyrirhafnarlítið. Mun vænlegra sé að friða þennan fisk og leyfa honum að ganga til sjávar. Er hann leiti aftur í lækinn á miðju sumri eða síðsumars sé hann orðinn margfalt eftirsóttari og veiði á honum höfði af mörgum ástæðum til mun stærri hóps veiðimanna en þeirra, sem veiða á vorin. Þá sé þessi leið til þess fallin að tryggja viðgang sjóbirtingsstofnsins þannig að ekki verði gengið svo nærri honum að skaði hljótist af í viðkvæmu lífríkinu.


Með bréfi 13. júlí 2001 kynntu yfirmatsmenn veiðiréttareigendum á svæðum nr. 4 og 5 ráðagerðir sínar um að gefa veiddum niðurgöngufiski lægra vægi en öðrum fiski við skiptingu arðskrár. Var þeim jafnframt gefinn kostur á að lýsa sérstaklega viðhorfum sínum til vorveiði og ráðagerða yfirmatsmanna. Því var jafnframt beint til veiðifélagsins að kynna veiðiréttareigendum á svæðum nr. 1-3 málefnið, en þeir hafa ekki látið arðskrármatið til sín taka. Svör bárust frá talsmanni Seglbúða og talsmönnum Ytra-Hrauns og Eystra-Hrauns, sbr. reifun í VI. kafla að framan. Þegar litið er til allra fram kominna sjónarmiða og upplýsinga er niðurstaða yfirmatsmanna sú að rétt sé að gefa hverjum vorveiddum urriða lægra vægi en þeim, sem veiðist síðar á hverju veiðitímabili. Um skil þar á milli verður miðað við miðjan júlí ár hvert til samræmis við skilgreiningu Veiðimálastofnunar á vorveiði og veiði eftir það. Við skiptingu þeirra eininga sem hér um ræðir fær hver urriði, sem sem veiddur er að vori, vægið 0,5 á móti væginu 1,0, sem hver veiddur urriði eftir það fær.


Staðbundin bleikja veiðist í allnokkrum mæli og þá einkum á svæðum nr. 4 og 5. Ganga má út frá að veiði á sjóbirtingi sé mun eftirsóttari af veiðimönnum en bleikjuveiðin. Á hinn bóginn er lítill munur á meðalþyngd bleikju og urriða, eins og hún birtist í skýrslum Veiðimálastofnunar. Sömu skýrslur sýna jafnframt að aflatoppur í bleikjuveiði er oft um miðjan júlí þegar veiði á urriða er iðulega í lágmarki. Bleikjuveiðin jafnar þannig vel aflabrögð innan veiðitímabilsins. Að öllu gættu er niðurstaða yfirmatsmanna sú að gefa hverri veiddri bleikju vægið 0,9 á sama mælikvarða og áður er nefndur.


Vegna sjónarmiða talsmanns Seglbúða um að leiguverð fyrir stangarveiði á svæði nr. 5 skipti máli við gerð arðskrár var því beint til veiðifélagsins að veiðiréttareigendur gerðu grein fyrir tekjum sínum af veiðileigu. Upplýsingar hafa borist frá nokkrum þeirra um tekjur af leigusamningum tiltekin ár, en í öðrum tilvikum hafa yfirmatsmenn fengið afhent gögn um verðlagningu veiðileyfa, sem segir þó ekki til um nýtingu þeirra og þar með tekjur. Af tiltækum upplýsingum telja yfirmatsmenn sýnt að svæði nr. 5 hafi aðstöðu umfram önnur svæði til að afla tekna fyrir stangarveiði. Eru leigugreiðslur þar augljóslega umfram það, sem beinn samanburður á aflatölum milli svæða segir til um. Tekur samningur frá júlí 2001 þar af öll hugsanleg tvímæli, jafnvel þótt einnig sé litið til þess að leigufjárhæðin felur ekki í sér hreinar tekjur fyrir leigusalann, heldur leggur samningurinn einnig skyldur á hann á móti, sem hafa einhver útgjöld í för með sér, sbr. 6. gr. samningsins. Verða aflatölur síðustu ára því ekki einar og sér lagðar til grundvallar skiptingu þeirra eininga sem hér um ræðir, heldur jafnframt tekið hæfilegt tillit til þeirrar aðstöðu, sem Seglbúðir hafa að þessu leyti umfram önnur svæði.


Fram er komið að á svæðum nr. 5, 7 og 8 hefur hin allra síðustu ár eingöngu verið heimilt að veiða á flugu. Hafið er yfir vafa að slík veiði er til þess fallin að fara betur með hlunnindin en önnur veiði, s.s. vegna undirmálsfisks, sem er sleppt. Jafnframt getur hún takmarkað afla við sumar aðstæður, þótt hún þurfi ekki að gera það annars staðar. Af greindum ástæðum verður gert ráð fyrir 25% álagi á afla á þeim svæðum, þar sem fyrir liggur að einungis eða að langmestu leyti hafi verið veitt með flugu og annað veiðiagn ekki leyft. Á það við um svæði nr. 5 árin 1999 og 2000 og að hálfu leyti næstu tvö ár þar á undan og ennfremur svæði nr. 7 og 8 árin 1999 og 2000.



X.


Uppeldis- og hrygningarskilyrði.


Í liðum nr. 28-35 og 42 í V. kafla að framan er getið um nokkrar skýrslur Veiðimálastofnunar frá árunum 1980-2001, sem varða uppeldis- og hrygningarskilyrði í Grenlæk og öðrum lækjum á svæði veiðifélagsins. Meðal þeirra er skýrsla um „mat á búsvæðum laxfiska á vatnasvæði Grenlækjar í Landbroti" frá febrúar 2000, sem gerð var að ósk veiðifélagsins í tilefni mats á skiptingu arðskrár. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari skýringar um efni hennar í viðtölum við Magnús Jóhannsson, sérfræðing Veiðimálastofnunar.


Í áðurgreindri skýrslu kemur fram að hún sé samin á grundvelli fyrri kannana, en einnig sé byggt á óbirtum athugunum á botngerð, sem safnað var á vatnsþurrðarsvæðum sumarið 1998. Að því er síðastnefnda atriðið varðar er tekið fram að fyrir komi að vatn þverri ofan til í Grenlæk, en við það fari mikilvæg uppeldissvæði á þurrt með tilheyrandi dauða á botndýralífi og seiðum. Við mat á uppeldisgildi svæða sé þó ekki litið sérstaklega til þessa, heldur fremur gengið út frá að slíkt teljist til einstakra, sjaldgæfra atburða. Ef þess háttar gerist hins vegar í auknum mæli hljóti að minnka gildi þess svæðis, sem vatnsþurrð bitni á, og þá væri e.t.v. rétt að taka slíkt inn í myndina.


Því er lýst í skýrslunni að urriði (sjóbirtingur) sé ríkjandi tegund á vatnasvæði Grenlækjar. Hluti urriðastofnsins sé þó staðbundinn. Bleikju sé jafnframt að finna í Grenlæk neðan Stórafoss og í Jónskvísl, en hún er að mestu staðbundin. Hrygning urriðans eigi sér stað á hraunasvæðum ofan Seglbúða allt að upptakalindum. Þar alist seiðin jafnframt upp fyrstu 1-3 árin, en á öðru til þriðja ári gangi þau neðar á vatnasvæðið og sé Fitjaflóð mjög mikilvægt til uppeldis síðustu 1-2 árin áður en seiðin gangi til sjávar. Sjóganga sé að vori, en upp úr miðjum júlí og fram eftir hausti gangi fiskurinn aftur í ferskt vatn eftir að hafa tekið út vöxt í sjó yfir sumarið. Að því er varðar bleikju virðist útbreiðsla hennar tengjast lindarvatni, sem sé kaldara en Grenlækur. Síðar gangi hún að öllum líkindum í Fitjaflóð.


Fram kemur að mat á uppeldissvæðum ráðist af mörgum umhverfisþáttum, s.s. botngerð, straumlagi, hitastigi og frjósemi árvatnsins. Botngerð sé sá þáttur, sem taki minnstum breytingum og sé afar þýðingarmikill í búsvæðamati. Verði hann því lagður til grundvallar niðurstöðum. Er því síðan lýst að Grenlæk hafi verið skipt í kafla með áþekka, einkennandi botngerð. Á hverjum árkafla hafi botngerð verið metin eftir grófleika hennar. Jafnframt sé tekið tillit til gróðurþekju. Þá sé stuðst við leiðnimælingar, hitastigsmælingar og rannsóknir á seiðabúskap, auk þess sem stuðst sé við gögn úr skýrslum Orkustofnunar. Á þessum forsendum sé hver kafli árinnar metinn með tilliti til gæða hans til hrygningar og uppeldis, sem einkum eigi við um urriða. Sé hverjum kafla gefið gildi (einkunn) frá 1 til 10. Er Grenlæk þannig skipt í níu svæði og eru mörk þeirra tilgreind. Eru þau ekki dregin með tilliti til landamerkja milli jarða eða veiðisvæða. Er ljóst að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru afar misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánni er litið. Fá svæðin einkunn sem búsvæði frá 1 hið lakasta, en tvö fá einkunnina 10. Önnur eru þar á milli. Framleiðslueiningar eru síðan reiknaðar út fyrir hvert svæði. Með sama hætti er Síknalæk, Sýrlæk og Jónskvísl skipt í þrjú svæði, sem fá einkunn frá 4 til 6.


Sá varnagli er sleginn að byggt sé á fyrirliggjandi gögnum, en einstök svæði hafi verið mjög mismikið könnuð. Séu hraunasvæði Grenlækjar best þekkt, en sandsvæði ofan og neðan Fitjaflóðs mun síður. Hið sama eigi við um Síknalæk, Sýrlæk og Jónskvísl.


Af hálfu eiganda Seglbúða hefur verið sett fram gagnrýni í nokkrum liðum á búsvæðamat Veiðimálastofnunar. Felst hún í því í fyrsta lagi að ráða megi að ekki sé tekið tillit til aukinnar breiddar Grenlækjar og þar með batnandi uppeldisskilyrða eftir því sem neðar dragi, ef frá er skilið Fitjaflóð, þar sem beinlínis sé tekið fram í skýrslunni að svo sé gert. Í annan stað hafi hluti Grenlækjar á svæði Seglbúða fallið utan búsvæðamats fyrir það að aðeins vatnsmesti állinn hafi verið tekinn með (rafstöðvaráll þó undanskilinn) þar sem áin fellur í kvíslum við hólma, sem eru í henni. Séu álar, sem þannig falli út, ekki síðri til uppeldis en t.d. Síknalækur, Sýrlækur og efsta svæðið í búsvæðamatinu. Landbrotsá og lækur, sem falli úr Tröllshyl, hafi heldur ekki verið tekin með. Í þriðja lagi sé hluti árkaflans frá hraunbrún við Seglbúðir að Fitjaflóði verulega vanmetinn í skýrslunni, en þar sé átt við þann hlutann, sem nái frá Þykkvabæjarskurðum að Fitjaflóði. Þar sé í raun um að ræða lítið stöðuvatn, ekki ólíkt Fitjaflóði, sem sé tæplega helmingur af stærð þess síðarnefnda. Þar eigi sér stað mikið uppeldi seiða, sem ekki hafi verið tekið tillit til. Nánar hefur aðstaða þar verið skýrð svo að hún sé í raun um flest lík því, sem er við Fitjaflóð. Þarna sé í landi Seglbúða stórt flóð eða uppistaða með sandbotni og gróðri á milli og mýrar aðliggjandi. Svæðinu verði ekki með réttu lýst sem „sandsvæði", líku því sem er neðan Fitjaflóðs. Í fjórða lagi er gagnrýnt að þess hafi ekki verið gætt að rafstöðvaráll sé mikilvægur fyrir uppeldi stærri seiða jafnt sem hinna smærri. Aðeins smærri seiði komi fram við rafveiðar á brotum í ánni, en áþreifanlega liggi fyrir að hlutfall stærri seiða sé hátt í rafstöðvarkvíslinni. Það komi glöggt fram þegar vatni sé hleypt úr uppistöðulóni við rafstöðvarstíflu.


Í svörum Veiðimálastofnunar við gagnrýni eiganda Seglbúða segir að árbreidd hafi ekki verið mæld skipulega á vettvangi og ekki hafi verið unnt að mæla hana af kortum, sem fyrir lágu. Jafnframt hafi verið talið að það kæmi ekki að mikilli sök, þar sem breidd lækjanna væri ekki svo ýkja breytileg nema hvað Fitjaflóð skæri sig úr. Flatarmál virks uppeldissvæðis skipti verulegu máli og þar með breidd og lengd árkafla. Varðandi kvíslar á Seglbúðasvæði sé gætt samræmis við Síknalæk, Sýrlæk og efsta búsvæði Grenlækjar, þar sem einungis aðalállinn hafi verið tekinn með. Landbrotsá og lækur úr Tröllshyl hafi ekki verið tekin með þar eð þeirra sé ekki getið í mælingu á bakkalengd. Þykkvabæjarskurðir hafi heldur ekki verið kannaðir vegna búsvæðamats. Þá sé höfundi búsvæðamats ekki kunnugt um stöðuvatn neðst í landi Seglbúða og sé þar um að ræða það svæði Grenlækjar, sem minnstar rannsóknir og upplýsingar hafi legið fyrir um. Loks er tekið fram að ekki sé vefengt að upplýsingar um stálpuð seiði í rafstöðvarál séu réttar, enda sé ekki sagt í búsvæðamati að svo kunni ekki að vera, heldur aðeins að þau hafi lítið sem ekkert komið fram í rafveiði. Þá kunni rafstöðvarstíflan neðst í kvíslinni að valda því að eitthvað sé þar meira af stærri seiðum en á öðrum sambærilegum hraunasvæðum. Frekari rannsóknir gætu gefið gleggri upplýsingar um þetta.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 250 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Falla þær til veiðiréttareigenda í Grenlæk, Síknalæk, Sýrlæk og Jónskvísl. Skipting þessara eininga tekur mið af því á grundvelli áðurnefndrar skýrslu að skilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða svæða í nefndum vatnsföllum er litið. Tekið er tillit til þess að einstakar jarðir og veiðisvæði geta átt land að misgóðum búsvæðum og hafa yfirmatsmenn heimfært landlengd hvers og eins veiðiréttareiganda að einstökum búsvæðum. Í ljósi gagnrýni eiganda Seglbúða, skýringa Veiðimálastofnunar og annarra fyrirliggjandi upplýsinga er lagt til grundvallar að svæði milli Fitjaflóðs og Þykkvabæjarskurða sé verulega betra til uppeldis seiða en skýrsla stofnunarinnar ein sér gefur til kynna. Verður jafnframt á því byggt að rafstöðvarkvísl sé mikilvægari fyrir uppeldi seiða en rafveiðar gefa vísbendingu um.




XI.


Niðurstöður.


Ekki er fram komið tilefni til að aðrir þættir en þeir, sem að framan greinir, hafi áhrif á skiptingu arðskrárinnar. Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Tekið skal fram að í matsgögnum kemur víða fram að áll sé til staðar á svæðinu, einkum í og við Fitjaflóð, og hafi stundum veiðst þar í nokkrum mæli. Ekki er hins vegar við neinar aflatölur að styðjast og getur slíkur afli ekki haft áhrif á skiptingu arðskrár nú. Í þeim tilvikum, þar sem hlunnindi eru óskipt milli tveggja eða fleiri jarða, verður ekki hróflað við þeirri innbyrðis hlutfallsskiptingu, sem fram kemur í mati undirmatsmanna.


Veiðifélag Grenlækjar ber kostnað af mati þessu.


Mat þetta gildir frá 1. janúar 2002. Arðskrá fyrir Veiðifélag Grenlækjar skal vera, svo sem greinir í XII. kafla hér á eftir.



XII.


Arðskrá fyrir Veiðfélag Grenlækjar.


Jarðir einingar


1. Hörgsland 1 4,6


2. Hörgsland 2 10,9


3. Hörgslandskot 5,2


4. Múlakot 6,9


5. Syðri Steinsmýri 52,1


6. Efri Steinsmýri 30,2


7. Arnardrangur 82,5


8. Fossar 82,5


9. Ytra-Hraun 105,3


10. Eystra-Hraun 105,3



  1. Seglbúðir 323,0

  2. Þykkvibær 1 85,5

  3. Syðri-Vík 13,0

  4. Efri-Vík 13,0

  5. Hátún 13,0

  6. Hólmur 67,0

Samtals: 1000,00



Reykjavík, 14. ágúst 2001



_______________________


Gunnlaugur Claessen




________________________ __________________________


Aðalbjörn Benediktsson Sveinbjörn Dagfinnsson



Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum