Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Mál nr. 13/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 29. júlí 2014 var tekið fyrir mál nr. 13/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 27. maí 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála útreikningi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 18. mars 2014, um að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 188.699 krónur miðað við 100% orlof.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. mars 2014. Tvær tilkynningar bárust frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og var hann afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 18. mars 2014 og 3. júní 2014. Kærandi kærði útreikning Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 27. maí 2014. Með bréfi, dags. 18. júní 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 24. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júlí 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að áætluð útborgun frá Fæðingarorlofssjóði geri honum ekki kleift að lifa af á meðan fæðingarorlofi standi. Áætluð laun fyrir þrjá mánuði sé álíka mikið og hann fái í mánaðarlaun. Hann hafi búið erlendis um tíma en flutt til Íslands í júní 2013, byrjað að vinna í júlí 2013 og sé í föstu starfi. Hann geti sýnt fram á að hann hafi ekki efni á að framfleyta fjölskyldu sinni með áætluðum greiðslum en eiginkona hans sé líka í fæðingarorlofi. Launaseðlar hans hljóti að varpa ljósi á hversu mikil laun hann þurfi á að halda eða í það minnsta 80% af þeim. Hann eigi rétt á því að fá að vera heima með barnið sitt fyrstu mánuðina.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt sé að kærandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. þar sem hann hafi starfað á innlendum vinnumarkaði allt ávinnslutímabilið, þ.e. frá Y. september 2013 til Y. mars 2014, og af þeirri ástæðu eigi hann tilkall til greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, 3. gr. laga nr. 136/2011 og 2. gr. laga nr. 143/2012, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e-liði 2. mgr. 13. gr. a ffl.  

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við almanaksmánuði og að áfram sé tekið fram að ekki skuli taka tillit til tekna sem foreldri hafi unnið til utan innlends vinnumarkaðar.

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann Y. mars 2014 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið september 2012 til ágúst 2013, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi hafi verið búsettur í B landi frá febrúar 2012 til júní 2013 og hafið störf á innlendum vinnumarkaði í júlí 2013. Því hafi hann einungis verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. ffl., sbr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., síðustu tvo mánuði viðmiðunartímabilsins. Eins og fram komi í 2. mgr. 13. gr. ffl. skuli þó aldrei miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í samræmi við framangreint hafi kærandi verið afgreiddur með 188.699 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 3. júní 2014, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. mars 2014, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 188.699 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að við útreikning mánaðarlegra greiðslna Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a., án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í þessu felst að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði lúta að nokkru leyti lögmálum trygginga, þar sem starfsmenn á innlendum vinnumarkaði greiða til sjóðsins, en njóta á grundvelli greiðslnanna réttinda til útgreiðslu úr honum við barnsfæðingu. Í ákvæðinu felst jafnframt regla um það á hvaða tímamarki og á hvaða hraða menn byrja að vinna sér inn réttindi til greiðslna úr sjóðnum við upphaf starfa á innlendum vinnumarkaði. Ekki er á hinn bóginn unnt að krefjast framlaga úr sjóðnum með því að sýna fram á ríka þörf fyrir þau.

Barn kæranda fæddist þann Y. mars 2014. Viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. var því september 2012 til ágúst 2013. Ljóst er að kærandi var búsettur erlendis frá febrúar 2012 til júní 2013 og hóf störf á innlendum vinnumarkaði í júlí 2013. Kærandi var því einungis á innlendum vinnumarkaði síðustu tvo mánuði viðmiðunartímabilsins, sbr. 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. ffl. skal þó aldrei miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna og bar því að líta til tekna kæranda á tímabilinu maí 2013 til ágúst 2013, líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun. Hvorki í ffl. né reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna heimild til að víkja frá framangreindu viðmiðunartímabili við útreikning á meðaltals heildarlaunum foreldris.

Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst er að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 18. mars 2014, er í samræmi við ákvæði ffl. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. mars 2014, um mánaðarlegar greiðslur til A er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum