Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

855/2019. Úrskurður frá 4. desember 2019

Úrskurður

Hinn 4. desember 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 855/2019 í máli ÚNU 19070001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 13. júlí 2019, kærði A afgreiðslu Vesturbyggðar á beiðni hans um gögn. Kærandi sótti um starf sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins í mars 2019. Í apríl var honum tilkynnt að annar hefði fengið starfið. Í júní óskaði hann eftir öllum gögnum málsins á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, frá upphafi til loka ráðningarferlis. Væri þar m.a. átt við gögn sem urðu til í ráðningarferlinu vegna ákvæða 27. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og gögn frá Hagvangi sem urðu til og voru afhent Vesturbyggð meðan á ráðningarferlinu stóð.

Kæranda voru afhent tiltekin gögn 19. júní 2019, en synjað um aðgang að öðrum á þeim grundvelli að um vinnugögn væri að ræða í skilningi 8. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 5. tölul. 6. gr. sömu laga. Var kæranda leiðbeint um að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í kæru er óskað eftir því að úrskurðarnefndin skeri úr um hvaða gögn ráðningarferlisins heyri undir upplýsingalög og hver þeirra heyri undir stjórnsýslulög. Sér í lagi er óskað eftir því að nefndin úrskurði um hvort kærandi eigi rétt á að fá í hendur ráðningarsamning Vesturbyggðar við þann sem ráðinn var í starfið, og samning Hagvangs og Vesturbyggðar vegna þjónustu við ráðningarferlið og gögn sem sýni kostnað vegna hennar.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 31. júlí 2019, var kæran kynnt Vesturbyggð og sveitarfélaginu veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun þess. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Vesturbyggðar, dags. 14. ágúst 2019, eru málsatvik rakin auk lagaraka fyrir ákvörðun sveitarfélagsins. Við mat sveitarfélagsins á því hvaða gögn því væri skylt eða heimilt að afhenda hefði niðurstaðan verið sú að um væri að ræða annars vegar vinnugögn vegna ráðningarferlisins sem og gögn sem innihéldu upplýsingar um einkamálefni annarra umsækjenda. Önnur gögn sem innihéldu bæði upplýsingar um einkamálefni annarra umsækjenda sem og kæranda taldi sveitarfélagið sig ekki hafa heimild til að afhenda. Þá voru kæranda afhent öll þau gögn sem Vesturbyggð taldi að vörðuðu kæranda sjálfan sem aðila máls, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til 16. gr. sömu laga var það mat sveitarfélagsins að önnur gögn sem urðu til við ráðningarferlið sem og samskipti við Hagvang og bæjarstjórn væru vinnuskjöl sem væru til eigin nota, enda ekki um að ræða skjöl sem innihéldu endanlega ákvörðun um afgreiðslu málsins. Umsögninni fylgdu afrit af öllum þeim gögnum sem urðu til við ráðningarferlið og liggja fyrir hjá sveitarfélaginu.

Með bréfi, dags. 20. ágúst 2019, var kæranda gefinn kostur á að koma að frekari athugsemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar sveitarfélagsins. Þær bárust með bréfi, dags. 24. ágúst 2019. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að gögnum sem varða ráðningu sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vesturbyggðar, en kærandi var meðal umsækjenda um starfið. Ráðning í opinbert starf er ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. athugasemdir við greinina í frumvarpi því sem varð að lögunum. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls um ráðninguna í skilningi stjórnsýslulaga.

Um aðgang aðila stjórnsýslumáls að upplýsingum sem tengjast málinu gildir meginregla 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga, um að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði. Takmarkanir á þeim rétti eru í 15.–17. gr. sömu laga. Upplýsingaréttur aðila máls skv. 15. gr. stjórnsýslulaga er víðtækari en sá réttur sem veittur er með ákvæðum upplýsingalaga. Hvað varðar afmörkun á því hvaða gögn tilheyri stjórnsýslumáli er talið að þar undir falli ekki aðeins þau gögn sem hafa að geyma forsendur ákvörðunar eða niðurstaða er beinlínis reist á heldur einnig önnur gögn sem hafa orðið til við rannsókn málsins og hafa efnislega þýðingu eða tengsl við úrlausnarefnið. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þau gögn sem Vesturbyggð afhenti nefndinni og telur ótvírætt að gögnin í heild sinni tilheyri því stjórnsýslumáli sem varðar ráðningu sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs sveitar-félagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir að ákvarðanir um aðgang að gögnum í slíkum tilvikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál heldur ber að beita sérstakri kæruheimild í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 13. júlí 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum