Hoppa yfir valmynd

Mál 9/2017. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 24. mars 2017

í máli nr 9/2017:

Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf.

gegn

Ríkiskaupum,

Hafrannsóknarstofnun og

Slippurinn Akureyri ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. mars 2017 kærir Vélsmiðja Orms og Víglundar ehf. útboð Ríkiskaupa, f.h. Hafrannsóknarstofnunar (sameiginlega nefndir varnaraðilar) nr. 20509, auðkennt „Slipptaka – Árni Friðriksson Hafrannsóknarstofnun“. Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila að leita samninga við Slippinn á Akureyri um hið útboðna verk. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í febrúar 2017 auglýsti Ríkiskaup f.h.  Hafrannsóknarstofnunar út framangreint verk sem fólst í að taka skipið Árna Friðriksson í slipp og framkvæma á því nánar tilteknar viðgerðir og viðhald. Í útboðsgögnum kom meðal annars fram að tilboð bjóðenda skyldu vera undirrituð og dagsett af aðila innan fyrirtækis sem hefði samkvæmt lögum og skipulagi fyrirtækisins heimild til að skuldbinda það. Opnunarfundur var hinn 28. febrúar 2017. Þrjú tilboð bárust og átti Slippurinn á Akureyri ehf. lægsta tilboðið en kærandi það næstlægsta. Af gögnum málsins verður ráðið að tiltekin starfsmaður lægstbjóðanda, sem ekki væri skráður prókúruhafi þess, hefði undirritað tilboðið fyrir hönd fyrirtækisins en að framkvæmdastjóri þess hefði staðfest í tölvupósti þann 6. mars 2017 að starfsmaðurinn hefði fullt umboð til að „gera og reikna tilboð vegna verka“ lægstbjóðanda. Með tölvupósti sama dag var kæranda tilkynnt að tilboð lægstbjóðanda hefði verið valið í útboðinu og upplýst að heimilt yrði að ganga til samninga við hann frá og með 13. mars 2017. Þá er upplýst að hinn 13. mars 2017 hafi bjóðendum verið tilkynnt að tilboð lægstbjóðanda hefði endanlega verið samþykkt og að kominn væri á bindandi samningur milli aðila.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að sá starfmaður lægstbjóðanda sem hafi undirritað tilboð hans í útboðinu hafi ekki haft umboð til að bjóða í umrætt verk og skuldbinda fyrirtækið við samning við varnaraðila. Tilboð lægstbjóðanda hefði því hvorki fullnægt ákvæðum útboðsgagna eða laga um form og því hafi ekki mátt taka því.   

Niðurstaða

Í 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í máli þessu liggur fyrir að samningur hefur þegar verið gerður á milli varnaraðila og lægstbjóðanda, Slippsins á Akureyri. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir samkvæmt  110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf., um að útboð varnaraðila, Ríkiskaupa f.h. Hafrannsóknarstofnunar, nr. 20509, auðkennt „Slipptaka – Árni Friðriksson Hafrannsóknarstofnun“ verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

               Reykjavík, 24.  mars 2017

        Skúli Magnússon       

                                                                                  Stanley Pálsson

                                                                                  Ásgerður Ragnarsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum