Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 272/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 272/2017

Fimmtudaginn 7. desember 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Hrafndís Tekla Pétursdóttir sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 21. júlí 2017 kærði C hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 14. júní 2017 vegna umgengni við syni hans, D og E.

I. Málsatvik og málsmeðferð

D og E eru X og X ára albræður sem lúta forsjá Barnaverndarnefndar B. Þeir eru í varanlegu fóstri og hafa verið hjá sömu fósturforeldrum, D frá því að hann var X ára en E frá því X. Foreldrar drengjanna voru svipt forsjá þeirra með dómum 2011 og 2012.

Í forsjárhæfnismati frá árinu 2011 kemur fram að kærandi byrjaði að neyta áfengis X ára gamall og fíkniefna X ára. Samkvæmt gögnum málsins er brotaferill kæranda langur. Frá árinu X, er kærandi var X ára, hefur hann hlotið X refsidóma fyrir umferðarlaga- og fíkniefnabrot en einnig ofbeldisbrot, þjófnað, skjalafals, hylmingu og skemmdarverk. Nýjasti refsidómur kæranda er frá X 2017 en samkvæmt honum var kærandi dæmdur til fangelsisvistar fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í X 2017. Kærandi afplánar nú fangelsisvist.

Samkvæmt fyrri úrskurðum Barnaverndarnefndar B frá 22. febrúar 2012 og 28. ágúst 2013 hafði kærandi umgengni við drengina þrisvar sinnum á ári. Með hinum kærða úrskurði var umgengni ákveðin einu sinni á ári.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að málið hafi hafist að frumkvæði starfsmanna barnaverndarnefndarinnar en þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að umgengni kæranda við syni sína í varanlegu fóstri væri andstæð hagsmunum þeirra. Kærandi hafi verið í stöðugri fíkniefnaneyslu um langt árabil og hlotið fjölmarga dóma þar sem neysla hans eða varsla hafi komið við sögu. Hann hafi borið merki um vímuefnaneyslu í umgengni, verið illa áttaður og með hvítt duft í nösum. Þá virtist hann ómeðvitaður um markmið og tilgang umgenginnar og hafi hunsað það fyrirkomulag sem ákveðið hafi verið með fyrri úrskurði barnaverndarnefndar, svo sem að leyfa að tekið sé á honum fíkniefnapróf fyrir umgengni. Þá beri sú staðreynd að kærandi sé virkur í afbrotum, þ.m.t. fíkniefna- og ofbeldisbrotum, vott um þá hættu sem umhverfinu stafi af honum. Þannig afpláni hann nú X árs dóm fyrir hættulega árás á [...] og rán, auk þess að hafa á undanförnum mánuðum ítrekað verið fundinn sekur um fíkniefnabrot. Það veki upp spurningar um það að hvaða leyti ógn geti stafað af honum sem hafi áhrif á umgengnina og/eða skapi uppnám í tengslum við umgengni. Ekki verði við það unað að svo hættulegur maður sé í umgengni við börn sem fóstruð séu á vegum barnaverndarnefndar.

Kærandi hafi nýlega hlotið dóma fyrir eftirtalin brot:

· Fyrir að hafa, í X 2014, ráðist að [...]. Fyrir þetta brot, auk annars brots sem hafi falið í sér tilraun til fjárkúgunar og rán, hafi kærandi verið dæmdur í X árs fangelsi.

· Fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna X 2016 en í blóðsýni hafi mælst amfetamín, MDMA, metamfetamín og tetrahýdrókannabínól. Kærandi hafi hlotið fangelsi í X mánuði, auk fésektar og verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

· Fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna X 2016 og í blóðsýni hafi mælst amfetamín og tetrahýdrókannabínól. Kærandi hafi verið dæmdur til X mánaða fangelsisvistar, auk fésektar og sviptingar ökuréttinda ævilangt.

· Fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna X 2016 og í blóðsýni hafi mælst amfetamín, MDMA og tetrahýdrókannabínól. X mánaða fangelsi hafi verið dæmt, auk fésektar og sviptingar ökuréttinda ævilangt.

· Fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna X 2017 og mældist í blóðsýni amfetamín og tetrahýdrókannabínól. Kærandi hafi verið dæmdur í X mánaða fangelsi, auk fésektar og sviptingar ökuréttinda ævilangt.

Í nokkur skipti hafi kærandi ekki getað rækt umgengni þar sem hann hafi setið í fangelsi, nú síðast í X 2017. Í eitt skipti hafi verið tekið fyrir umgengni þar sem kærandi hafi neitað að mæta til boðaðs fundar við starfsmann barnaverndarnefndarinnar. Í kjölfarið hafi þurft aðstoð lögreglu til að fjarlægja kæranda frá heimili drengjanna. Kærandi hafi verið í fylgd móður sinnar í umgengninni fyrir utan eitt skipti þegar hann hafi komið í fylgd systur sinnar.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Þar sé kveðið á um rétt fósturbarns og foreldra þess til umgengni sem samræmist hagsmunum barnsins og þörfum. Sé áréttað í skýringum með frumvarpi til bvl. að þess skuli gætt að umgengni sé í samræmi við markmið með fóstri. Þegar staðfest sé að foreldrar barns hafi ekki getað búið því viðunandi uppeldisaðstæður kunni hagsmunir barnsins að krefjast þess að umgengni sé takmörkuð. Sé þá haft í huga það höfuðmarkmið varanlegs fósturs að barn aðlagist og tilheyri þeirri fjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um umgengni hafi verið úrskurðað um hana á grundvelli 74. gr. bvl.

Að virtum gögnum málsins sé það mat Barnaverndarnefndar B að það samræmist hagsmunum drengjanna, sem hér um ræði, að draga úr umgengni við kæranda með því að fækka umgengnistilvikum. Þeim markmiðum umgengni kynforeldris við barn í varanlegu fóstri, að barnið fái vitund um uppruna sinn og foreldrið vitund um uppvöxt barnsins og þroska, megi ná með umgengni í eitt skipti árlega. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að A, kynfaðir barnanna D og E, skuli hafa umgengni við syni sína einu sinni árlega, tvo tíma í senn. Um undirbúning og nánara fyrirkomulag skal vera sem hér segir:

A. Umgengni skal eiga sér stað á fósturheimilinu, heimili barnanna, nema samkomulag sé um annað, að viðstöddum fulltrúa barnaverndarnefndar.

B. Umgengni skal eiga sér stað síðasta laugardag maímánaðar, nánari tímasetning í samkomulagi aðila, en fest niður kl. 10-12 ef samkomulag næst ekki. Heimilt er að hnika umgengni til um nokkra daga í samkomulagi aðila, ef aðstæður krefjast þess.

C. A skal mæta á fund starfsmanns barnaverndarnefndar eigi síðar en á hádegi síðasta virkan dag fyrir umgengni og gefa þar þvagsýni vegna vímuefnaleitar. Reynist sýnið jákvætt getur starfsmaður, f.h. barnaverndarnefndar frestað umgengni um allt að þrjá mánuði. Verður vímuefnaleit þá endurtekin með sama hætti og umgengni frestað til næsta árs ef sýni reynist á ný jákvætt. Telji barnaverndarnefnd að nauðsynlegt sé að leita aðstoðar heilbrigðisstarfsmanns við þvag- eða blóðsýnatöku, ber A að hlíta því. Hafni A því að undirgangast fíkniefnapróf skv. framansögðu, skal það jafngilda því að umgengni frestist með öllu til næsta árs.

D. A er heimilt, ef hann svo kýs, að fá fylgd móður sinnar, F, til umgengninnar.

E. Ekki er gert ráð fyrir símtölum við börnin.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurði Barnaverndarnefndar B 14. júní 2017 verði hrundið. Einnig er þess krafist að umgengni það sem eftir er árs 2017 verði þannig að kærandi hitti drengina minnst tvisvar sinnum í þrjá tíma. Gangi sú umgengni vel verði málið lagt aftur fyrir nefndina í byrjun árs 2018 með það í huga að auka umgegni þannig að hún verði minnst sex sinnum á ári eða á tveggja mánaða fresti og þrjár stundir í senn. Til vara er þess krafist að umgengni verði óbreytt.

Þá óskar kærandi eftir því að reglur um umgengni verði gerðar skriflegar og að hann fái afrit af þeim.

Kærandi fer loks fram á að úrskurðarnefndin ákvarði lögmanni sínum þóknun í samræmi við 2. mgr. 47 gr. bvl.

Að mati kæranda sé hinn kærði úrskurður tilhæfulaus og þær ályktanir sem barnaverndarnefnd dragi séu rangar.

Kærandi kveður óumdeilt að hann eigi litríka sögu að baki og í X 2011 hafi hann ekki verið í stakk búinn til að sinna drengjum sínum. Kærandi sé ánægður með fósturforeldra drengjanna, telji þá hljóta gott uppeldi og fái mögulega tækifæri sem honum sjálfum hefði reynst erfitt að veita þeim. Kærandi lýsi yfir miklum vilja til að umgangast drengina, að þeir fái að þekkja hann og kynnast honum. Með stöðugri og reglubundinni umgengni geti hann viðhaldið tenglsum sínum við þá án þess að það hafi áhrif á stöðu þeirra og líf hjá fósturfjölskyldu. Drengirnir eigi rétt á því að þekkja uppruna sinn.

Þau gögn sem liggi til stuðnings mati barnaverndar séu orðin gömul. Engin gögn liggi fyrir um áhrif umgengni á drengina að undanskyldum athugasemdum umsjónarmanna með umgengni. Þær athugasemdir gefi ekki tilefni til að telja að umgengni hafi slæm áhrif á drengina. Aðstæðubundin hegðun annars drengsins virðist frekar tengd álagi en að hún sé beinlínis vegna þess að kærandi hitti drengina. Mætti mæla með því að halda tengslum betur og að drengirnir yrðu betur upplýstir um tengingu sína við kæranda. Engin eiginleg sérfræðiathugun hafi farið fram á áhrifum umgengni á drengina og ekkert komi fram í gögnum málsins sem bendi til þess að drengjunum líði illa fyrir eða eftir heimsóknir hans. Bent sé á niðurstöðu eftirlitsmanna með umgengni þar sem segi að eftirlitsmenn séu sammála um að eftir því sem heimsóknir hafi verið fleiri þeim mun minna hafi borið á aðstæðubundinni hegðun D. Sérfræðingarnir hafi ekki mælt með því að umgengni yrði minnkuð. Þá hafi hvorki farið fram sérstakt mat á því sem kallað sé „aðstæðubundin hegðun“ né sé þessari hegðun lýst nákvæmlega. Sé sérstaklega bent á að enginn starfsmaður Barnaverndar B hafi fylgst með umgengninni sjálfri á seinni stigum.

Rökstuðningur barnaverndar, sem byggi á einhliða mati starfsmanns um að engar breytingar hafi orðið á högum kæranda, sé algjörlega ófullnægjandi. Rannsóknarskylda hvíli á stjórnvaldi og beri að gera hæfismat við svo afdrifaríka ákvörðun sem tekin sé með hinum kærða úrskurði.

Ástæða þess að umgengni hafi fallið niður sé ekki fyrir viljaskort kæranda. Eðli málsins samkvæmt hafi fangelsisvist kæranda áhrif á umgengni en mæla megi með því að heimsóknartími liggi fyrir tímanlega svo að sækja megi um dagsleyfi fyrir hann.

Kærandi mótmæli því harðlega að vera virkur fíkniefnaneytandi, að hafa mætt í umengni undir áhrifum fíkniefna eða að „hvítt“ efni hafi verið vímuefni. Engin nýleg gögn liggi fyrir um fíkniefnaneyslu kæranda. Hann komi beint úr fangelsi þar sem aðgengi að vímuefnum sé lítið sem ekkert. Í eitt skipti hafi umgengni verið felld niður einhliða þar sem starfsmaður barnaverndar hafi talið kæranda í vímu. Engar prófanir hafi farið fram þessu til staðfestingar. Það sé algerlega ófullnægjandi að vísa til ótilgreinds atviks sem gerst hafi í X 2013 eða fyrir rúmum 4 árum. Barnaverndarnefnd álykti ítrekað um fíkniefnaneyslu kæranda án tilvísana til gagna.

Tillaga barnaverndar sé ekki byggð á því að breyting hafi orðið á aðstæðum kæranda, drengjanna eða að umgengni hafi gengið illa. Eina umkvörtunarefni umsjónarmanna með umgengni snúi að þeim gjöfum sem hann vilji gefa drengjunum. Tilgangur gjafanna sé tvíþættur. Annars vegar vilji kærandi veita drengjunum ánægju og gleði. Hins vegar gefi þær kæranda tækifæri til þess að tengjast drengjunum í gegnum leik en þannig nái hann að einhverju leyti til þeirra. Sé það skoðun nefndarinnar að gjafirnar séu óhentugar sé kærandi tilbúinn til að afhenda drengjunum gjafirnar í lok heimsóknar. Í skýrslu umsjónarmanna með umgengni sé ítrekað bent á að kærandi sé duglegur að leika við drengina, setji þeim mörk og að hann sinni þeim ágætlega. Bendi umsjónarmenn á að með tíðari umgengni hafi aðstæðubundin hegðun D minnkað. Þá bendi umsjónarmenn á að þeir telji ekki lengur þörf á fundum áður en umgengni fari fram.

Með vísan til alls ofangreinds byggi kærandi á því að ekkert í gögnum máls gefi til kynna að umgengni sé andstæð högum drengjanna, sbr. 4 mgr. 74 gr. bvl., og ekki sé tilefni til að skerða umgengni nú. Þvert á móti sé tilefni til að auka umgengni í samræmi við aldur drengjanna.

Kærandi mótmæli því að drengirnir hafi í reynd engin geðtengsl við sig. Þetta sé rangt, ósannað og sýni skilningsleysi á tengslum foreldris og barns. Það sé fyrst og fremst hin takmarkaða umgengni sem hafi skaðað tengsl kæranda við drengina. Hlúa verði að sambandi kæranda við drengina og tryggja þannig þekkingu og skilning þeirra á uppruna sínum. Kærandi vísar sérstaklega til þess að samkvæmt forsjáhæfnismati 2011 hafi verið góð og hlý tengsl á milli kæranda og barns. Barnaverndarnefnd B telji matið ekki of gamalt til að byggja megi á því.

Kærandi hafni því að samvinna við hann hafi gengið illa. Það sé rétt að samskipti kæranda við tiltekinn starfsmann barnaverndar hafi ekki alltaf gengið vel. Samvinna í umgengninni hafi á hinn bóginn ekki gengið illa.

Barnaverndarnefnd B haldi því fram að kærandi sé almennt illa hæfur til að umgangast börn. Kærandi hafni því að almenn sjónarmið séu látin ráða för. Í málinu sé ekki verið að takmarka mikla umgengni heldur að minnka umgengni úr þremur skiptum niður í eitt. Langur vegur sé á milli þess að kærandi sé ekki fær um að hafa drengina í sinni forsjá og að hann sé ekki fær um að umgangast þá fjórum til sex sinnum á ári í þrjár til fjórar klukkustundir í senn, hvað þá undir eftirliti.

Málið hafi verið tekið til úrskurðar án þess að áður væri rætt við kæranda. Engar neikvæðar breytingar hafi orðið á umgengni frá síðustu ákvörðun Barnaverndarnefndar B. Engin augljós ástæða sé fyrir því að málið sé tekið upp nú eða að þörf sé fyrir að minnka umgengni. Engin gögn liggi til stuðnings því að starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi rannsakað málið sjálfir en kærandi telji þá ekki bæra til að leggja sérfræðimat á aðstæður án frekari gagna. Starfsmenn barnaverndar hafi ekki sjálfir verið viðstaddir þegar kærandi hafi átt í samskiptum við drengina. Þeir hafi ekki átt viðtöl við kæranda og ekki liggi fyrir gögn um að þeir hafi átt viðtöl við drengina. Kærandi skilji ekki hvernig þeir eigi að taka ákvörðun án þess. Því liggi ekki fullnægjandi sérfræðimat því til grundvallar að draga úr umgengni.

Kærandi gerir athugasemd við að gögn sem ekki hafi verið til forsendu niðurstöðu barnverndarnefndar séu lögð til forsendu úrskurðarnefndar.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 5. september 2017 og athugasemdum 12. október 2017 er vísað til þess að kærandi hafi glímt við vímuefnavanda frá því snemma á unglingsaldri og hafi hlotið allmarga dóma fyrir ofbeldis- og vímuefnabrot, auðgunarbrot og brot á umferðarlögum. Hin kærða ákvörðun sé byggð á yfirveguðu mati óvilhallra starfsmanna barnaverndarnefndarinnar sem þekki vel til allra þátta málsins Meginröksemd barnaverndarnefndarinar fyrir því að minnka umgengni varði eiginleika og ástand kæranda.

Kærandi sé virkur í fíkniefnaneyslu og hafi mætt til umgengi undir áhrifum. Slíkt sé ósamrýmanlegt markmiðum og tilgangi umgengninnar og samræmist ekki hagsmunum drengjanna. Gögn um neyslu kæranda séu bæði gömul og ný (frá 2017). Kærandi fullyrði að hann hljóti að vera laus við fíkniefni vegna þess að hann sitji í fangelsi. Þetta standist ekki. Alkunna sé að fíkniefnaneysla sé vandamál í fangelsum landsins.

Kærandi sé almennt hættulegur svo sem saga hans um ógnanir og ofbeldi sýni. Hann hafi meðal annars hlotið dóm fyrir hættulega árás á [...], hann hafi beitt móður drengjanna grófu ofbeldi og ítrekað hótað barnaverndarstarfsmönnum [...]. Því sé ekki haldið fram að hann muni beita drengina ofbeldi í umgengni en þessir brestir í fari kæranda og fas þeim tengt, hafi áhrif á undirbúning og framkvæmd umgengni þar sem ró, yfirvegun og öryggi eigi að ríkja.

Kærandi hafi ekki verið samstarfsfús um framkvæmd umgengni. Hann hafi á stundum hagað sér eins og honum sé að mestu ókunnugt um efni gildandi úrskurðar eða skyldur sínar til að hlíta því sem barnaverndarnefndin hafi ákveðið. Hann hafi meðal annars hafnað því að undirgangast fíkniefnapróf og neitað að fara að tilmælum um að koma ekki með fjölda af gjöfum og stóra sælgætispoka til umgengninnar en það hafi ekki góð áhrif á börnin og sé ekki í samræmi við markmið og tilgang umgengninnar.

Löggjafinn geri ráð fyrir því að við sérstök skilyrði kunni hagsmunir fósturbarns að krefjast þess að umgengni kynforeldris við það sé takmörkuð. Í hinum kærða úrskurði sé vísað til þess að skilyrði til takmörkunar tengist vanhæfni foreldris til að búa barni sínu viðunandi uppeldisaðstæður, með öðrum orðum grunnþættir foreldrahæfni. Lífshættir og ferill kæranda bendi til þess að hann skorti þessa hæfni og sé það undirstrikað rækilega í mati sálfræðings frá árinu 2011. Ekkert bendi til þess að hæfni kæranda sé meiri nú en þá, þvert á móti.

Byggt sé á gögnum sem legið hafi fyrir á 209. fundi Barnaverndarnefndar B 14. júní 2017 auk gagna sem orðið hafi til á fundinum. Einnig sé byggt á dómum sem kærandi hafi hlotið og viðbótargögnum sem vitnað hafi verið til og séu kunnug kæranda frá fyrri tíð.

Drengirnir hafi í reynd engin geðtengsl við kæranda og markmið umgengninnar sé hvorki að viðhalda geðtengslum né styrkja þau. Í þroskasálfræði barna sé hugtakið geðtengsl (e. attachment) lykilhugtak. Þar sé átt við þau mikilvægu tengsl sem skapist á milli barns og umönnunaraðila (oftast foreldris) á grundvelli náinnar og stöðugrar umönnunar. Fyrstu vikur og mánuðir barnsins séu mikilvægasti tíminn fyrir þessa tengslamyndun. Ekki sé vitað til þess að kærandi hafi nokkru sinni annast drengina og þá alls ekki í tilviki E. Hann hafi aldrei haft fasta búsetu á sama heimili og D og hans mun ekki hafa orðið vart við umönnun hans og uppfyllingu frumþarfa á meðan hann var kornabarn. Lýsingar á tengslum kæranda við barnið megi finna í sálfræðiskýrslu G og renni þær stoðum undir þetta.

Kærandi haldi því fram að þau gögn sem barnavernd styðjst við séu gömul. Hið rétta sé að bæði sé um að ræða nýleg gögn og nokkurra ára gömul gögn. Eldri gögn hafi meðal annars þann tilgang að sýna fram á að staða kæranda hafi verið óbreytt um langt árabil. Sex ára gamalt forsjárhæfnismat, sem greini grundvallarþætti í persónugerð og foreldrahæfni, ætti að flestu leyti að vera enn í gildi nema alveg ný og breytt tíðindi séu af lífsháttum og sálrænum högum kæranda. Svo sé ekki.

Kærandi telji að mat á hæfi hans til að fara með forsjá segi ekkert til um það hvort hann sé fær um að eiga umgengni við syni sína. Þessu sé vísað á bug sem staðleysu og megi meðal annars sjá í greinargerð með frumvarpi til 74. gr. bvl. að vanhæfni foreldris til að búa barni sínu viðunandi aðstæður sé einmitt ein af ástæðum fyrir takmörkun á umgengni.

Sérfróðir starfsmenn hafi fylgst með umgengninni og áhrifum hennar á drengina frá upphafi. Markvissari umsjón, með tilheyrandi skráningum vegna hvers umgengnistilviks hafi svo átt sér stað frá því í desember 2015.

Fullyrðing kæranda um að nafngreindur starfsmaður barnaverndarnefndarinnar hafi fellt niður umgengni „þar sem hann taldi kæranda vera í vímu“ varði atvik í X 2013. Sé því meðal annars lýst í gögnum barnaverndarnefndarinnar að umgengni hafi verið felld niður þar sem kærandi hafi hafnað því að fylgja úrskurði.

Barnaverndarnefndin telji að kærandi sé almennt illa hæfur til að umgangast börn. Þetta sé byggt á upplýsingum um lífshætti kæranda, fíkniefnaeyslu og afbrotaferil, sem fjölmörg gögn vitni um. Sömuleiðis fyrrnefndri sálfræðiskýrslu G. Kærandi haldi því fram að um sé að ræða „einhliða mat starfsmanns barnaverndar“. Hann virðist horfa fram hjá fjölmörgum refsidómum sem hann hafi hlotið en staðfest sé að kærandi hafi hlotið X refsidóma frá 1994 fram á mitt ár 2011. Hann hafi einnig hlotið fjölmarga dóma eftir þann tíma.

Mat barnaverndarnefndar sé það að ofangreindir annmarkar krefjist þess að umgengni kæranda við drengina sé takmörkuð við eitt skipti á ári, tvo tíma í senn. Því samræmist hinn kærði úrskurður högum drengjanna og er þess krafist að hann verði staðfestur.

IV. Sjónarmið fósturforeldra

Í tölvupósti fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 6. nóvember 2017 kemur fram að D hafi komið til þeirra í fóstur er hann var X ára en E [...].

Frá upphafi hafi kynfaðir, kynmóðir og föðuramma haft umgengni við drengina. Barnaverndarnefnd B vilji nú breyta þessu fyrirkomulagi. Sé það byggt á áliti sérfræðinga [...] sem hafi komið í viðveru og umgengni.

Fósturforeldrar geri hvorki athugasemdir við málsmeðferð né niðurstöðu Barnaverndarnefndar B um skertan umgengnisrétt.

V. Niðurstaða

D og E eru albræður, fæddir X og X. Þeir eru báðir í varanlegu fóstri og hafa verið hjá sömu fósturforeldrum frá 2011.

Með hinum kærða úrskurði frá 14. júní 2017 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drengina einu sinni á ári í tvo tíma í senn. Í úrskurðinum er byggt á því að þegar ákveðin sé umgengni kynforeldris, sem glími við vanda af því tagi sem kærandi geri, verði ekki hjá því komist að leiða fram sjónarmið er lúti að öryggi barns og fósturfjölskyldu þess, þannig að varast megi að umgengnin valdi þeim skaða eða vanlíðan og vinni þannig gegn því höfuðmarkmiði fósturráðstöfunarinar að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sinni og bjóðist aðstæður sem tryggi heilbrigðan og farsælan þroska. Því hljóti fyrirkomulag og umgjörð umgengni í slíkum tilvikum að vera til stöðugrar endurskoðunar.

Í hinum kærða úrskurði er vísað til bókunar Barnaverndarnefndar B frá 14. júní 2017. Þar kemur fram að á 208. fundi barnaverndarnefndarinnar tveimur vikum fyrr hafi verið fjallað um lífshætti kæranda sem einkennist af afbrotum og fíkniefnaneyslu. Hann afpláni nú X árs fangelsisvist vegna dóms sem hann hafi hlotið fyrir gróft ofbeldisbrot. Hann hafi verið virkur í brotastarfsemi þar til hann hafi hafið afplánum skömmu áður. Af kæranda geti því stafað veruleg hætta. Því sé umgengni hans við drengina andstæð hagsmunum þeirra og markmiðum með fóstrinu um að tryggja þeim öryggi og stöðugleika hjá fósturfjölskyldu. Það sé óviðunandi að maður sem sé virkur í ofbeldis- og fíkniefnabrotum og án alls vafa í nokkuð stöðugri neyslu fíkniefna, umgangist börn. Viðleitni til að tryggja að kærandi sé allsgáður í umgengni væri erfið í framkvæmd, enda hefði hann ekki verið til samvinnu um töku fíkniefnaprófa. Sú óvissa sem fylgdi því að skipuleggja umgengni manns í þessu ástandi væri hvorki viðunandi fyrir drengina né fósturfjölskyldu. Löng reynsla væri komin á að kærandi framfylgdi ekki ákvæðum gildandi úrskurðar, hann hirti ekki um að stilla gjöfum í hóf en þær væru bersýnilega truflandi í umgengni.

Kærandi krefst þess að hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B 14. júní 2017 verði hrundið og að umgengni það sem eftir er árs 2017 verði þannig að kærandi hitti drengina minnst tvisvar sinnum í þrjá tíma. Til vara er þess krafist að umgengni verði óbreytt. Þá óskar kærandi eftir því að reglur um umgengni verði gerðar skriflegar og að hann fái afrit af þeim. Hann fer loks fram á að úrskurðarnefndin ákvarði lögmanni sínum þóknun í samræmi við 2. mgr. 47 gr. bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengjanna best með tilliti til stöðu þeirra en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni kæranda við drengina þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun þeirra í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengjanna í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja þeim stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum drengjanna best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvort drengirnir hafi raunveruleg tengsl við kæranda, svo og til samfellds brotaferils kæranda og eðlis afbrotanna, viðvarandi fíkniefnanotkunar um margra ára skeið og samvinnu við barnaverndaryfirvöld og sérstaklega þeirra starfsmanna og eftirlitsmanna sem koma að framkvæmd umgengninnar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi aldrei annast drengina og því er ekki hægt að tala um sterka eða djúpa tilfinningatengingu við hann eða að geðtengslamyndun hafi átt sér stað. Drengirnir eru fyrst og fremst tengdir fósturforeldrum sínum sem hafa annast þá og er sú fjölskylda sem drengirnir þekkja. Er því ekki hægt að fallast á að dengirnir séu tengdir kæranda á þann hátt sem hér skiptir máli.

Kærandi hefur mótmælt því að vera virkur fíkniefnaneytandi og kveður engin nýleg gögn liggja fyrir um fíkniefnaneyslu sína. Nýjasti refsidómur kæranda er frá X 2017 en samkvæmt honum var kærandi dæmdur til fangelsisvistar fyrir að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna í X 2017. Með hliðsjón af langri og óslitinni neyslusögu hans, hegðun og fyrirliggjandi refsidómum frá þessu ári verður að ætla að sú áhætta sé fyrir hendi að kærandi neyti enn fíkniefna. Á þessu verður að byggja við úrlausn málsins og breytir ekki í því sambandi þótt ekki hafi verið hægt að staðreyna að kærandi hafi neytt fíkniefna í umgengni eða skömmu fyrir umgengni þar sem fíkniefnapróf hafa ekki farið fram.

Kærandi telur að þau gögn, sem liggi til stuðnings mati barnaverndar, séu orðin of gömul. Úrskurðarnefndin getur ekki tekið undir þetta sjónarmið kæranda og er um það vísað til þess sem þegar hefur verið rakið, sbr. refsidóma sem kærandi hefur hlotið á árinu 2017, yfirstandandi fangelsisvistar hans og skýrslu eftirlitsmanna með umgengni frá 18. maí 2017.

Kærandi kveður að úrskurðað hafi verið í málinu án þess að rætt hafi verið við hann. Í bókun Barnaverndarnefndar B 14. júní 2017 kemur fram að kærandi hefði mætt á 208. fund nefndarinnar X 2017 í fylgd fangavarðar. Kærandi hafi tjáð sig um málið. Lögmaður hans hafi einnig verið viðstaddur og óskað eftir fresti til að skila greinargerð. Málinu hafi verið frestað til 14. júní 2017 en þá hafi greinargerð kæranda legið fyrir. Umrædd greinargerð liggur fyrir í gögnum málsins. Samkvæmt framangreindu er fullyrðing kæranda varðandi þetta atriði ekki rétt.

Það er mat kæranda að samvinna í umgengni hafi ekki gengið illa. Barnaverndarnefnd B telur á hinn bóginn að kærandi hafi ekki verið samstarfsfús um framkvæmd umgengni. Úrskurðarnefndin telur að af gögnum málsins megi greinilega ráða að erfiðlega hafi gengið að fá kæranda til samstarfs um framkvæmd umgengninnar.

Kærandi telur að rannsóknarreglan hafi verið brotin við meðferð málsins en engin sérfræðiathugun hafi farið fram á áhrifum umgengni á drengina og engin viðtöl hafi verið höfð við þá.

Í 2. mgr. 46. gr. bvl. segir að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins. Við úrlausn málsins verður að líta til þess að drengirnir sem hér um ræðir eru X og X ára. Úrskurðarnefndin álítur að hvorugur þeirra hafi nægan þroska til að mynda sér skoðun á því hvernig umgengni skuli best háttað við kæranda við þær aðstæður sem uppi eru í málinu og hver áhrif umgengnin við kæranda hefur á þá. Því þurfi yfirvöld að taka ákvörðun um það og hvernig lögbundnir hagsmunir drengjanna verði best tryggðir, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í málinu liggur fyrir skýrsla eftirlitsmanna með umgengni við drengina og samskipti eftirlitsaðila við kæranda á tímabilinu X 2015 til X 2017. Eftirlitsmenn hafa verið tveir og er annar þeirra með BA próf í sálfræði en hinn þroskaþjálfi og áfengis- og vímuefnaráðgjafi. Í skýrslunni kemur fram að kærandi hafi komið ásamt móður sinni til viðtals við eftirlitsmenn X 2015. Á fundinum hafi verið rætt um komandi heimsókn og hvernig hún skyldi vera, til dæmis varðandi gjafir. Best væri að gefa drengjunum gjafir eftir heimsókn svo að heimsóknin myndi ekki snúast um gjafir heldur tengsl kæranda við drengina. Einnig hafi verið rætt um að gjafir yrðu afhentar eftirlitsmönnum sem myndu láta drengina fá þær eftir umgengni. Á fundinum hafi komið fram hjá kæranda að hann myndi ekki fara að þessu. Kærandi og móðir hans hafi bæði lýst yfir óánægju með að það yrðu eftirlitsmenn í heimsókninni. Í fyrstu umgengni X 2015 hafi nokkrum sinnum lekið hvítur taumur úr nefi kæranda. Aðstæðubundinni hegðun D er lýst sem „handakippum“ en hann hafi sýnt þessa hegðum eftir um 20 mínútna umgengni en ekki hafi borið á henni eftir umgengni. Kærandi hafi verið virkur í að leika við drengina. Á fundi fyrir aðra umgengni í X 2016 hafi kærandi verið minntur á að koma ekki með gjafir í umgengni. Hann hafi þó komið með eina gjöf handa hvorum dreng. Mikið hafi borið á aðstæðubundinni hegðun D í umgengni. Kærandi hafi verið duglegur að leika við drengina og eiga við þá samskipti. Kærandi hafi verið með hvítan taum úr nefi. Kærandi hafi afþakkað fund fyrir þriðju umgengni í X 2016 en verið bent á það símleiðis að gjafir væru ekki í boði. Engu að síður hafi hann komið með gjafir handa drengjunum. Kærandi hafi verið passívur og mun fjarrænni en áður. Ekki hafi borið jafn mikið á aðstæðubundinni hegðun D og áður. Fyrir fjórðu umgengni í X 2016 hafi enn verið minnt á að koma ekki með gjafir en kærandi hafi ekki farið að því. Kærandi hafi leikið við drengina og lesið fyrir þá. Kærandi hafi ekki mætt í fimmtu umgengni í X 2017 þar sem hann hafi verið í fangelsi. Í lok skýrslu sinnar kemur fram að því fleiri sem heimsóknirnar hafi verið þeim mun minna hafi borið á aðstæðubundinni hegðun D. Síðan segir: „Eftir að hafa verið með eftirlit í umgengni er lagt til að barnavernd B skoði það að setja reglur um ástand þeirra sem koma að drengjunum í umgengni.“

Úrskurðarnefndin telur að eftirlitsmenn með umgengni hafi viðeigandi menntun og starfsreynslu sem sérfræðingar á því sviði sem hér um ræðir. Skýrsla þeirra er eitt af þeim gögnum sem barnaverndarnefnd studdist við þegar ákvörðun var tekin samkvæmt hinum kærða úrskurði og verður meðal annars byggt á henni við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni.

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að hann telji dregið úr umgengni hans við drengina að tilefnislausu. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð framkvæmdastjóra Barnaverndarnefndar B 17. maí 2017, sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndarinnar 30. maí sama ár, hafði umgengni kæranda við drengina verið stopul af ástæðum sem vísað er til í greinargerðinni og varða kæranda. Honum hafi í eitt skipti verið vísað frá umgengni þar sem hann hafi bersýnilega ekki verið allsgáður. Einnig hafi það gerst að hann hafi mætt í umgengni og borið merki um vímuefnaneyslu, verið illa áttaður og með hvítt duft í nösum. Hann hafi ekki treyst sér til að mæta einn í umgengni og hafi móðir hans verið með honum eða systir. Kærandi hafi virst ómeðvitaður um markmið og tilgang umgengninnar og hefði ekki kynnt sér það fyrirkomulag sem um hana giltu samkvæmt úrskurðum barnaverndarnefndarinnar. Hann hefði ítrekað hunsað að mæta til fundar við starfsmenn barnaverndarnefndarinnar.

Þegar litið er til þessa og skýrslu eftirlitsmanna með umgengninni frá 18. maí 2017 svo og til sakaferils og framgöngu kæranda, frá því að síðast var úrskurðað um umgengni 2013, verður ekki fallist á að dregið hafi verið úr umgengni kæranda við drengina að tilefnislausu með hinum kærða úrskurði. Telur úrskurðarnefndin í því sambandi rétt að horfa til þess að verið er að bregðast við þeim aðstæðum í málinu er varða framgöngu kæranda. Frá því að fyrri úrskurður var kveðinn upp árið 2013 hefur stigbreyting orðið á ofbeldishegðun kæranda svo sem líkamsárás hans á [...] bera merki um. Þá hefur kærandi ekki verið til samvinnu um alla þætti umgengni og hann hefur afplánað fangelsisvist fyrir afbrot sín hluta tímabilsins. Kærandi hefur enn fremur verið virkur fíkniefnaneytandi á þessu tímabili, sbr. það sem áður greinir. Þegar þessir þættir eru virtir í sameiningu er það mat úrskurðarnefndarinnar að fullt tilefni hafi verið til þess að draga úr umgengni kæranda við drengina og að með því hafi verið tekið mið af því hvað þjóni hagsmunum drengjanna best. Eins og kærandi hefur hagað lífi sínu telur úrskurðarnefndin að það þjóni hagsmunum drengjanna best að umgengni þeirra við kæranda sé í algjöru lágmarki.

Þá gerir kærandi athugasemd við það að gögn sem ekki hafi verið til forsendu niðurstöðu barnaverndarnefndar séu lögð til forsendu úrskurðarnefndar. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að við málsmeðferð barnaverndarnefndarinnar hafi auk greinargerða málsaðila verið lögð fram skýrsla umsjónaraðila með umgengni, fyrri fundargerðir og úrskurðir vegna málsins, forsjárhæfnismat frá 2011 auk nýlegra refsidóma sem kærandi hefur hlotið. Úrskurðarnefndin byggir niðurstöðu sína á sömu gögnum.

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar Bvarðandi umgengni kæranda við syni sína.

Þá fer kærandi fram á að reglur um umgengni verði gerðar skriflegar og að hann fái afrit af þeim. Um þetta atriði er kæranda vísað til hins kærða úrskurðar þar sem fram kemur hvernig umgengni skuli háttað. Það er mat barnaverndarinnar hvernig hún veitir kæranda aðrar upplýsingar og leiðbeiningar varðandi fyrirkomulag umgengninnar eftir því sem tilefni er til hverju sinni.

Kærandi fer loks fram á að úrskurðarnefndin ákvarði lögmanni sínum þóknun í samræmi við 2. mgr. 47 gr. bvl. Samkvæmt lagaákvæðinu er barnaverndarnefnd skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr., sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. bvl. er hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til nefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum eftir því sem nánar er kveðið á um í bvl. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu hefur kærandi ekki krafist þess að Barnaverndarnefnd B greiddi umræddan lögmannskostnað. Því liggur hvorki fyrir ákvörðun né úrskurður barnaverndarnefndarinnar um greiðslu lögmannskostnaðar. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að fara fram á greiðslu lögmannskostnaðar vegna vinnu lögmanns við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Kröfu kæranda um lögmannskostnað er samkvæmt þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 14. júní 2017 varðandi umgengni A við syni hans, D og E, er staðfestur.

Kröfu kæranda um lögmannskostnað er vísað frá.

Lára Sverrisdóttir

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum