Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 347/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 347/2017

Föstudaginn 8. desember 2017

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 22. september 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 17. maí 2017 þar sem kæranda var synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með ákvörðun 17. maí 2017 synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Að mati embættisins hefði kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni framast var unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Á árinu 2015 hefði greiðslugeta kæranda verið 2.192.966 krónur. Á sama tíma hefðu verið til staðar vanskil við Netgíró nú að fjárhæð 420.338 krónur. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að af þessum ástæðum hafi embættið talið óhæfilegt að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Þann 22. september 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærandi gerði ekki kröfur í málinu en skilja varð kæru hennar á þann hátt að hún krefðist þess að fyrrnefnd ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði felld úr gildi.

Kærandi kveðst fyrst hafa sótt um greiðsluaðlögun 28. júní 2016. Hún hafi þurft að sækja um aftur 12. desember 2016 og sú umsókn hefði verið samþykkt 21. mars 2017. Kærandi telur að synja hefði átt umsókn hennar í fyrra skiptið en ekki láta hana sækja um aftur. Þá gerir kærandi athugasemdir við vinnubrögð umboðsmanns skuldara í málinu.

Samkvæmt gögnum málsins sendi umboðsmaður skuldara ákvörðun sína frá 17. maí 2017 með ábyrgðarpósti til kæranda 22. maí 2017. Í bréfi umboðsmanns skuldara, sem fylgdi ákvörðun embættisins, kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar. Kærandi sótti sendinguna á pósthús 6. júní 2017.

Með bréfi 30. október 2017 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hefði ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. 7. gr. laga nr. 135/2010 og 13. gr. laga nr. 85/2015, skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um synjun á umsókn um greiðsluaðlögun berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Kæran barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 22. september 2017. Tilkynning um ákvörðun umboðsmanns skuldara á synjun umsóknar um greiðsluaðlögun var í fyrstu keyrð heim til kæranda á heimili hennar að B þann 22. maí 2017. Þar sem kærandi fannst ekki var henni send rafræn tilkynning (smáskilaboð eða tölvupóstur) frá pósthúsi 26. maí sama ár um að hennar biði þar ábyrgðarbréf. Kærandi sótti ekki bréfið. Tilkynning sama efnis var þá ítrekuð 2. júní 2017 en kærandi sótti bréfið loks á pósthús 6. júní 2017 eins og fyrr segir.

Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. ssl. kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ssl. Í samræmi við þetta verður að telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi borist kæranda í skilningi ssl. 6. júní 2017 er hún sótti bréf umboðsmanns skuldara á pósthús. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 20. júní 2017. Svo sem komið er fram barst úrskurðarnefndinni kæran 22. september 2017 eða rúmum þremur mánuðum of seint.

Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum