Hoppa yfir valmynd

Málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli kærð

Föstudaginn 12. nóvember 2010 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 19. maí 2010, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til heilbrigðisráðuneytisins málsmeðferð landlæknisembættisins, dags. 12. apríl 2010, í kvörtunarmáli hans vegna læknisaðgerðar B.

 

Kröfur

Kærandi krefst þess að landlæknir taki málið aftur til úrlausnar og taki sjálfstæða afstöðu til kvörtunar á grundvelli frekari gagnaöflunar. Kærandi krefst þess að auki að það komi fram í áliti landlæknis hvort B hafi brotið lög með því að upplýsa kæranda ekki um mögulegar afleiðingar aðgerðar og að láta hjá líða að afla samþykkis kæranda fyrir aðgerð.

 

Málsmeðferð ráðuneytisins

Landlækni var með bréfi, dags. 27. maí 2010, gefinn kostur á að koma að greinargerð og gögnum vegna kærunnar. Gögn landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 10. júní 2010. Ráðuneytið ítrekaði beiðni um greinargerð landlæknisembættisins með bréfi, dags. 15. júní 2010, og með bréfi, dags. 12. júlí 2010. Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 4. ágúst 2010, þar sem kom fram að starfsmaður þess hefði rætt við starfsmann landlæknis í síma og að ljóst hefði verið eftir samtalið að landlæknir myndi ekki skila inn greinargerð vegna kærunnar. Óskað var eftir athugasemdum kæranda við gögn málsins. Landlæknir sendi ráðuneytinu bréf, dags. 17. ágúst 2010, þar sem sagði að álitsgerð embættisins frá 12. apríl 2010 skyldi skoðuð sem greinargerð landlæknis í málinu. Ráðuneytið sendi bréf landlæknis til kæranda með bréfi, dags. 19. ágúst 2010 og ítrekaði frest til að gera athugasemdir við gögn málsins. Lögmaður kæranda óskaði eftir gögnum og upplýsingum með bréfi, dags. 7. september 2010. Ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 13. september 2010, og veitti frest til 27. september 2010 til að gera athugasemdir. Ráðuneytinu bárust athugsemdir kæranda, dags. 27. september 2010, ásamt viðbótargögnum. Athugasemdir ásamt viðbótargögnum voru sendar landlækni með bréfi, dags. 30. september 2010, til kynningar og athugasemda. Engar athugasemdir bárust.

 

Málavextir

Lögmaður kæranda kvartaði til landlæknis með bréfi, dags. 5. ágúst 2009, yfir læknisaðgerð sem B framkvæmdi á kæranda vegna beinhimnubólgu í fótleggjum þann 16. desember 2008. Í kvörtuninni kemur fram að langur tími sé liðinn frá aðgerð og kærandi ekki enn orðinn góður, hann sé enn óvinnufær og með skerta hreyfigetu vegna verkja í fótum.

Landlæknir sendi lögmanni kæranda bréf, dags. 27. ágúst 2009, um móttöku kvörtunarinnar og benti á kæruleið til heilbrigðisráðherra eftir að landlæknisembættið hefði lokið málinu.

Lögmaður kæranda sendi læknisvottorð C, heimilislæknis kæranda, dags. 31. ágúst 2009, til landlæknisembættisins. Þar vitnar C um komur kæranda til sín vegna bakeinkenna og vöðvabólgu, en hann hefði ekki sótt á heilsugæslustöðina vegna óþæginda frá kálfum. C hefur eftir kæranda að honum hafi versnað eftir skurðaðgerð hjá B og sé búinn að vera óvinnufær upp frá því. C segir töluverð eymsli hafi verið við þreifingu yfir aðgerðarsvæði og vöðvum við skoðun endurtekið, síðast 17. ágúst 2009.

Lögmaður kæranda sendi læknisvottorð D, dags. 8. október 2009 til landlæknisembættisins. Þar kemur fram að D hafi prófað meðferð með sterasprautum á fótleggjum kæranda árið 2009, en sú meðferð hafi ekki breytt neinu. Í niðurstöðu D kemur fram að hann telji að ekki hafi verið um beinhimnubólguaðgerð að ræða, eins og kærandi hafi verið upplýstur um, heldur aðgerð vegna ,,compartment syndrome“.

Landlæknir óskaði eftir greinargerð B ásamt gögnum og barst hún embættinu 14. október 2009. Í greinargerð B kemur fram að kærandi hafi verið haldinn bilateral óþægindum frá kálfum og hann hafi talið rétt að gera ,,fasciotomiu“ til að létta á þrýstingsóþægindum í framhólfum beggja kálfa kæranda. B taldi að greining hafi verið rétt og að meðferð á áratugalöngu vandamáli kæranda hafi verið í samræmi við þekkingu og reynslu.

Landlæknir óskaði eftir sérfræðiáliti E, með bréfi dags. 16. október 2009, um hvort faglega hafi verið staðið að meðferð þegar gerð var aðgerð á báðum fótleggjum kæranda vegna verkja. Í niðurstöðu álitsins, dags. 26. mars 2010, segir:

Undirritaður telur aðgerð og eftirfylgjandi meðferð rétta miðað við þá greiningu er lögð er fram. Undirritaður getur á engan hátt staðfest eða sagt til um hvort greining í upphafi hafi verið rétt en vill taka fram að greiningin er eingöngu gerð klíniskt og við sögutöku og mjög mikilvægt er að upplýsa sjúkling fyrirfram um ástæðu aðgerðar og mögulegar afleiðingar.

Landlæknir lauk máli kæranda með álitsgerð, dags. 12. apríl 2010. Hún er svohljóðandi:

Þann 05.08.2009 ritaði A Landlæknisembættinu bréf varðandi kvörtun vegna læknisaðgerðar B.

Málsgögn:

  • Bréf A., dags. 05.08.2009 ásamt afriti af sjúkraskrárgögnum.
  • Bréf F, dags. 10.09.2009 ásamt afriti af læknisvottorði C.
  • Bréf F, dags. 13.10.2009 ásamt afriti af læknisvottorði D.
  • Greinargerð B, dags. 11.10.2009 ásamt afriti af sjúkraskrárgögnum.
  • Bréf A, dags. 15.11.2009 ásamt afriti af umboði og sjúkraskrárgögnum.
  • Bréf F, dags. 17.03.2010.
  • Sérfræðiálit E, dags. 26.03.2010.

Landlæknisembættið hefur lokið athugun á kvörtun A. Í kjölfar þess að embættinu barst bréf A var leitað eftir sjónarmiðum kvörtunarþola, B.

Einnig óskaði Landlæknisembættið eftir greinargerð sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, sem barst embættinu 08.04.2010 og embættið gerir að sinni.

Landlæknisembættið telur ekki ástæðu til frekari aðgerða og er málinu lokið nema til komi andmæli frá málsaðilum.

Málsástæður og lagarök kæranda

Í kæru er þess krafist að landlæknir taki málið aftur til úrlausnar og taki sjálfstæða afstöðu til kvörtunar á grundvelli frekari gagnaöflunar. Kærandi segir að landlæknir hafi ekki tekið á kvörtun. Koma þurfi fram hvaða sjúkdóm kærandi var með og hvort aðgerðin hafi verið í samræmi við hann. Kærandi heldur því fram að landlæknir hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og ekki aflað nægilegra gagna enda vísi embættið aðeins í greinargerð E. Þá telur kærandi að E sé ekki hlutlaus rannsóknaraðili. Kærandi krefst þess ennfremur að tekin verði afstaða til þess í álitsgerð landlæknis hvort B hafi brotið lög með því að upplýsa kæranda ekki um mögulegar afleiðingar aðgerðarinnar og láta hjá líða að afla samþykkis hans fyrir aðgerð, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 5. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.

 

Málsástæður og lagarök landlæknis

Í bréfi landlæknisembættisins, dags. 17. ágúst 2010, segir að álitsgerð embættisins frá 12. apríl 2010 skuli skoðast sem greinargerð landlæknisembættisins í máli kæranda.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran lýtur að málsmeðferð landlæknis vegna kvörtunar til embættisins, dags. 5. ágúst 2009. Kvörtunin beindist að B, en kærandi gekkst undir aðgerð hjá honum 16. desember 2008. Kærandi fer fram á að landlæknir taki málið aftur til úrlausnar og að embættið taki sjálfstæða afstöðu til kvörtunarinnar. Kærandi krefst þess ennfremur að fram komi í áliti landlæknis hvort B hafi brotið lög með því að upplýsa kæranda ekki um mögulegar afleiðingar aðgerðarinnar og að afla ekki samþykkis sjúklings fyrir aðgerð. Þá telur kærandi álitsgefandi sérfræðing ekki hlutlausan.

Um kvartanir til landlæknis fer samkvæmt ákvæðum 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni, og segir þar í 5.-6. mgr.:

Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.

Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

Umfjöllun ráðuneytisins varðar því eingöngu hvort landlæknir hafi farið að lögum og gætt reglna stjórnsýslulaga og 12. gr. laga um landlækni við meðferð málsins, en ekki er fjallað efnislega um kvörtunina.

Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt skriflega skuli veita upplýsingar um kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Landlæknir upplýsti lögmann kæranda í upphafi máls, eða í bréfi, dags. 27. ágúst 2009, þar sem tilkynnt er um móttöku kvörtunarinnar, um kæruheimild til ráðherra og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að aðila var tilkynnt um niðurstöðu máls. Í bréfi landlæknis frá 12. apríl 2010, þar sem lögmanni kæranda er send álitsgerð embættisins, er ekki að finna slíkar leiðbeiningar. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga ber að veita upplýsingar um kæruheimild og kærufrest þegar ákvörðun er tilkynnt og getur tilkynning í upphafi málsmeðferðar ekki komið í stað slíkrar tilkynningar. Kæra barst þó ráðuneytinu innan þriggja mánaða, eða með bréfi lögmanns kæranda, dags. 19. maí 2010, og því ljóst að þessi ágalli á málsmeðferð embættisins hefur ekki valdið kæranda réttarspjöllum. Ráðuneytið beinir því til landlæknis að veita framvegis leiðbeiningar um kæruheimild að því er varðar málsmeðferðina og kærufrest þegar tilkynnt er um niðurstöðu máls.

Ráðuneytið hefur farið yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins svo og málsmeðferð landlæknis. Eftir að hafa leitað umsagnar hjá lækni þeim er kvörtunin laut að, fór landlæknir þess á leit við utanaðkomandi sérfræðing að veita álit á því hvort faglega hafi verið rétt staðið að meðferð þegar gerð var aðgerð á báðum fótleggjum kæranda vegna verkja. Í niðurstöðu sérfræðingsins segir:

Undirritaður hefur farið í gegnum gögn A varðandi aðgerð er hann gekkst undir þann 16.12.2008 hjá B. Undirritaður telur aðgerð og eftirfylgjandi meðferð rétta miðað við þá greiningu er lögð er fram. Undirritaður getur á engan hátt staðfest eða sagt til um hvort greining í upphafi hafi verið rétt en vill taka fram að greiningin er eingöngu gerð klíniskt og við sögutöku og mjög mikilvægt er að upplýsa sjúkling fyrirfram um ástæðu aðgerðar og mögulegar afleiðingar.

Landlæknir gaf síðan út álitsgerð embættisins í máli kæranda. Álitsgerðin var greinargerð sérfræðingsins sem landlæknir gerði að sinni. Greinargerð sérfræðingsins varðar afmarkað efni. Landlæknir bætir engu þar við í álitsgerð sinni og tekur því ekki á öllum málsástæðum kæranda.   Í álitsgerðinni er ekki vikið að þeirri málsástæðu kæranda að hann hafi talið sig vera að gangast undir aðgerð vegna beinhimnubólgu en í sjúkraskrá aðgerðarlæknis segir að kærandi sé með ,,bilat.ant.periostit“ og aðgerð við því sé svokölluð ,,fasciotomia“. Ekki er tekið á þeirri málsástæðu kæranda að álitsgefandi sérfræðingur sé ekki hlutlaus. Þá er í áliti landlæknis ekki vikið að þeirri spurningu kæranda hvort aðgerðarlæknir hafi látið hjá líða að sinna upplýsingagjöf til sjúklings fyrir aðgerð og að afla samþykkis sjúklings fyrir aðgerð og þannig brotið 5. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Ráðuneytið telur að landlæknir þurfi í álitsgerð sinni að taka afstöðu til málsástæðna kæranda. Það hafi landlæknir hins vegar ekki gert og málið sé því ekki fullrannsakað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  

Með 12. gr. laga um landlækni var ætlunin að mæla skýrt fyrir um málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum. Að mati ráðuneytisins eru ákvæði 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni, um að tilgreina skuli efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu, og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits, ekki uppfyllt í áliti landlæknis í máli því sem hér er til meðferðar.

Með hliðsjón af ofangreindum athugasemdum beinir ráðuneytið því til landlæknis að gefa út rökstutt álit í máli kæranda þar sem gætt verði að formkröfum 5. og 6. málsl. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni. Jafnframt verði málið rannsakað frekar og tekið á málsástæðum kæranda í áliti. Þá verði jafnframt gætt að ákvæðum 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Máli A, er vísað á ný til landlæknis til nýrrar meðferðar með hliðsjón af málsástæðum kæranda svo og til útgáfu á rökstuddu áliti í samræmi við formkröfur laga um landlækni og stjórnsýslulög.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum