Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Nr. 339/2018 - Úrskurður

Viðurlög Þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 339/2018

Fimmtudaginn 8. nóvember 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. september 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. júlí 2018, um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 5. júlí 2016. Í byrjun júní 2018 var kærandi boðaður á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar og tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi mætti ekki á námskeiðið og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. júlí 2018, var óskað eftir skriflegri afstöðu hans vegna þessa. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust frá kæranda með tölvupósti 9. júlí 2018. Með ákvörðun, dags. 24. júlí 2018, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði frá þeim degi á grundvelli 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. september 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 10. október 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. október 2018, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum [...] og tekur fram að hann hafi verið að aðstoða [...] þá viku sem vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar hafi farið fram. Sú vinna hafi verið mun erfiðari og tímafrekari en hann hafi gert ráð fyrir og því hafi hann gleymt öllum skyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Kærandi fer fram á að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð á grundvelli velferðar sinnar því að hann geti ekki fengið aðstoð hjá félagsmálastofnun vegna skattskuldar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi og því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Samkvæmt a-lið 13. gr. og g-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að viðkomandi sé virkur í atvinnuleit og í því felist meðal annars að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess tryggða til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og mæta í viðtöl hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar.

Í ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið eigi einnig við ef atvinnuleitandi mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Í þeim skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki komi fram að viðkomandi hafi verið upplýstur um að honum sé skylt að mæta í þau viðtöl, á þá fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til og það sé gert með tölvupósti, sms sendingum eða tilkynningum á „Mínum síðum“. Umsækjandi sé því upplýstur um að honum sé skylt að láta vita af öllum breytingum, svo sem breyttu heimilisfangi, símanúmeri og netfangi. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi verið boðaður á námskeiðið „Starfsleitarstofa“ á vegum stofnunarinnar. Óumdeilt sé að kæranda hafi verið kunnugt um námskeiðið og að hann hafi verið boðaður með sannanlegum hætti til vinnumarkaðsúrræðisins en hann hafi mætt í viðtal hjá ráðgjafa stofnunarinnar þann 8. júní þar sem hann hafi verið bókaður á námskeiðið. Kærandi hafi ekki mætt á námskeiðið sem hafi farið fram á tímabilinu 12. til 21. júní 2018. Í skýringum kæranda til stofnunarinnar og í kæru til nefndarinnar komi fram að hann hafi ekki getað mætt á námskeiðið þar sem hann hafi verið að aðstoða [...].

Með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sem og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum umsækjenda telji stofnunin að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram séu ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006 og að með fjarveru sinni hafi hann brugðist skyldum sínum samkvæmt 58. gr. laganna. Kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni þann tíma sem honum hafi verið gert að sækja vinnumarkaðsúrræði. Honum hafi því borið að vera virkur í atvinnuleit og taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem honum hafi staðið til boða, sbr. h-lið 14. gr. laganna. Ekki verði fallist á að atvinnuleitendur geti hafnað að mæta í vinnumarkaðsúrræði á þeim forsendum að þeir þurfi að sinna öðrum verkefnum en á sama tíma þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Það er því niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem kærandi hafði áður sætt viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar sé um ítrekun að ræða sem feli í sér að kærandi þurfi að bíða í þrjá mánuði eftir greiðslum atvinnuleysisbóta, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Kæranda hafi verið gert að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta í tvo mánuði vegna starfsloka þann 29. júlí 2016. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Óumdeilt er að kærandi mætti ekki á námskeiðið „Starfsleitarstofa“ hjá Vinnumálastofnun sem stóð frá 12. til 21. júní 2018. Kærandi hefur borið því við að hafa ekki getað mætt á námskeiðið þar sem hann hafi verið að aðstoða [...].

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins sætti kærandi biðtíma í tvo mánuði þann 29. júlí 2016 á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu og þar sem kærandi hafði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 4. mgr. 29. gr. laganna, bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. júlí 2018, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira